Elfa Björk

Í dag var ég í hópi þeirra starfsmanna Borgarbókasafns sem fylgdu Elfu Björk Gunnarsdóttur, fyrrum borgarbókaverði og útibússtjóra Sólheimasafns, til grafar. Hún lét af störfum árið 2000 eftir að hún greindist með krabbamein, og því kynntist ég Elfu Björk aðeins sem lánþega og vini félaga minna á safninu, en okkur kom ætíð vel saman. Hún keypti af mér ljóðabók fyrir rúmu ári og og var svo ánægð að hún reyndi að borga hana þrisvar.

Það eru varla nema tæpar þrjár vikur síðan hún kíkti síðast í heimsókn og því kom það nokkuð flatt upp á mig þegar ég spurði lát hennar fyrst í gær. En þó ég hafi aðeins kynnst henni á yfirborðinu get ég þó sagt að athöfnin var falleg, látlaus og í anda hennar sjálfrar, enda sá hún sjálf til þess að presturinn gerði enga skyssu með því að semja handa honum glósur. Þótt útförin hafi verið með bjartasta móti er þó ætíð sorglegt þegar fólk deyr fyrir aldur fram. Hún var 64 ára.