Kiljan

Egill lýsir yfir aðdáun sinni á kvikmyndinni eftir Sögu Borgarættarinnar.

Klippt: brot úr Sögu Borgarættarinnar er sýnt.

Áhorfandinn er nú staddur með Agli og Jóni Yngva í anddyri Landsbókasafns þar sem er sýning helguð Gunnari Gunnarssyni. Egill lýsir yfir aðdáun sinni á kvikmyndinni eftir Sögu Borgarættarinnar. Jón Yngvi segir að skáldinu hafi nú ekki þótt myndin féleg. Áhorfandinn heyrir ekki lengur í Jóni Yngva.

Klippt: brot úr Sögu Borgarættarinnar er sýnt.

Af fiðurfénaði #3

Þegar ég bjó hjá mömmu fannst mér alltaf vera kjúklingur í matinn, og alltaf neitaði ég að borða hann. Í eitt skiptið þá reyndi ég að finna hentuga leið til að losna undan þessu harðræði. Svo ég lýsti því yfir við matarborðið að það væri með öllu óferjandi að bera þennan viðbjóð inn á heimilið því kötturinn snarbrjálaðist í hvert sinn gólandi eins og ófreskja kringum okkur borðandi. Þá sló mamma hnefa í borðið og sagði að kötturinn skyldi sko ekki fá að stjórna því hvað fólk legði sér til munns á hennar heimili. Ég bjóst ekki við svona góðu svari.

Annars hef ég ákveðið að leyfa athugasemdir aftur. Í bili. Ekki búast við að ég svari þeim samt.

Af fiðurfénaði #2

Í þau skipti sem kjúklinganeysla mín berst í tal er fólk gjarnt á að spyrja mig hvað sé eiginlega að mér, að kjúklingur sé svona og svona og hann geti þess vegna bragðast eins og ávöxtur skilningstrésins ef maður vildi. Fólk gerir almennt ráð fyrir að ég þurfi að eiga mér málsbætur, eða að því komi yfirleitt við hvað ég set upp í mig.

Svo fellur talið niður, en í nokkrar vikur á eftir fæ ég að heyra af hinum og þessum kjúklingarétti sem ég myndi nú borða, því hann sé svo góður og svona en ekki hinsegin. Allir vita nefnilega betur en ég hvað mér mun finnast gott.

Segðu við grænmetisætu að hún myndi nú samt borða flísað hreindýr í villibráðarsósu með gratíneruðum kartöflum, það sé nú ekki beinlínis eins og að borða kjöthleif enda miklu betri matur. Ímyndum okkur að siðferðisþrekið hafi ekki verið sterkt til að byrja með, en henni þætti kjöt bara ekki sérlega aðlaðandi matur. Eða að henni þætti kjöt gott en siðferðiskennd hennar meinaði henni að rífa í sig aðrar skepnur. Eða það sem ótrúlegast væri: Ímyndum okkur að hún þyrfti ekki að afsaka sig. Hvernig væri það nú?

Af fiðurfénaði

Ég er orðinn þreyttur á að útskýra fyrir fólki að ég borði ekki kjúkling. Það má allt eins útskýra fyrir mér hvers vegna ég eigi að borða kjúkling. Í langflestum tilfellum finnst mér hann viðbjóðslegur á bragðið, en ég er ekki endilega viss um að það sé fuglinum að kenna. Alvarlegri hlutir geta þó farið úrskeiðis en smekkur kokksins því alltof oft hef ég skorið í kjúkling svo honum blæddi. Ég einfaldlega neita að deyja fyrir ómerkilegri mat en lambalundir.

Samt fór ég í Suðurver eftir vinnu og keypti mér niðurbútaðan fiðurfénað í pappaöskju, franskar og brúna sósu. Sósan þeirra er nefnilega svo göldrótt að slepjulegt kjötið verður hreinasta lostæti þegar búið er að löðra henni yfir. Auk þess fást bestu franskarnar þarna. Og þau kunna að elda kjúkling án þess það blæði úr honum.

Þar hafið þið það. Héðan af þegar mér er boðið í kjúkling geri ég ráð fyrir að hann sé keyptur í Suðurveri. Annars er best að bjóða mér bara alls ekkert í kjúkling. Sú leið er vörðuð fæstum mannslífum.

Af viðbjóðslegum endurútgáfum

Í dag hefði Þórbergur orðið 120 ára. Í tilefni þessa merkisafmælis hefur Mál og menning ráðist í að endurútgefa höfundarverk hans í forljótum kiljuóskapnaði. Þegar eru komnar út Bréf til Láru og Steinarnir tala – sem er skrýtið því síðarnefnda er hluti af stærra verki sem væri nærri lagi að gefa út í einni bók. Og til að bíta höfuðið af skömminni koma ekki fleiri bækur út í ár að því mér skilst. Bravó, Mál og menning.

Síðasta endurútgáfa á Þórbergi taldi aðeins Bréf til Láru, Íslenzkan aðal og Ofvitann, og voru þær þó sýnu ljótari, og hver veit nema til hafi staðið þá eins og nú að gefa út allt heila klabbið en menn hætt við eftir fyrsta árið. Sama er uppi á teningnum með Gunnar Gunnarsson. Það er liðið ár frá síðustu grútljótu kilju, en hvar er afgangurinn? Og í alvörunni, hver hannar þetta? Ritsafn Steinars Sigurjónssonar sést enn ekki í búðum, en að þessu sinni gerðu þau eitthvað rétt og gáfu það út á einu bretti. En þá er eftir að sjá hvort bækurnar verði sama lýti á ljótustu bókahillu eins og hin stórverkin. Hvers vegna fá aðeins bækur Halldórs Laxness að vera fallegar?