Andvökur

Um helgina var mér líkt við Gísla Martein. Ég tók skyndiákvörðun um að eipa ekki á náungann heldur láta kjurt liggja. Síðar um kvöldið var mér aftur líkt við hann, en það var viðkunnanleg manneskja að öðru leyti svo ekki gat ég eipað á hana. Næsti sem segir þetta við mig deyr, og þá ekki í neinum fígúratífum skilningi. Að því sögðu má lýðum ljóst heita að ég þarf í klippingu.

Fyrir nokkrum árum – kannski fjórum – keypti ég úrval andvökuljóða Stephans G, aðallega af því mér fannst titillinn svalur. Ljóðin reyndust nú reyndar ekki jafnsvöl, en í einhverjum plebbaskap átti ég til að grípa í bókina ef ég varð andvaka. Núna opnaði ég hana ekki einu sinni til að sofna úr leiðindum. En eins og það er nú svalt í þeoríunni að vera andvaka þá verður að segjast að mestur glansinn hefur horfið fyrir mér að undanförnu.

Og borgin hló

Sjötti áratugurinn var áratugur atómskáldanna svokölluðu og ljóðið var að brjóta af sér aldalanga fjötra ríms og stuðla. Matthías mótaði sinn eigin stíl, frjálsari tjáningarhátt en flest atómskáldin notuðu. Nýjung Matthíasar í Borgin hló var ekki síst fólgin í nýrri og frjálslegri framsetningu. Einkum eru það borgarljóðin sem eru nýstárleg og ólík borgarljóðum Tómasar Guðmundssonar og Steins sem voru uppáhaldsskáld Matthíasar á mótunarárum hans. Borgin var Steini framandi og Tómasi fjarlæg og hálf óraunveruleg. Borgina persónugerir Matthías, líkir henni við unga og ástleitna konu. Hér er eitt af því sem einkennir Matthías sem skáld, hann er ástríðufullur og tilfinninganæmur og að þessu leyti miklu líkari Davíð Stefánssyni eða Stefáni frá Hvítadal, borgin er með „ungar nýlagðar götur / með varir votar af tjöru / og þær þrýsta heitum barmi að köldum fótum“. #

Göngum að því vísu að allt sé þetta satt og rétt. Hvernig í ósköpunum má þá vera að framúrstefnuskáldið Matthías sé líkastur nýrómantíkernum Davíð Stefánssyni eða svartlynda kaþólikkanum Stefáni frá Hvítadal? Væri ekki í meira lagi furðulegt að kalla Steinar Braga framúrstefnulegasta nútímaskáldið en segja hann þó líkastan listaskáldunum vondu? Að því sögðu hef ég lítið lesið af Matthíasi en er þeim mun hrifnari af Sigfúsi. Þessi bloggfærsla verður þá kannski næg hvatning til að kaupa Ljóðhús á markaðnum á morgun.

Pasta

Þegar ég var á að giska í 10 ára bekk setti Guðrún Ásbjörnsdóttir okkur fyrir að elda kvöldmatinn fyrir þreytta foreldra okkar og útskýra aðferðina daginn eftir. Illar tungur gætu sagt að þannig hefði hún sjálf verið að upplifa einhverja fantasíu gegnum okkur en ekkert er fjær sanni. Guðrún er ein af þessum fáu kennurum sem ég hafði sem voru alveg einstakir og kenndu ekki aðeins af mikilli þolinmæði heldur líka af einlægum áhuga á hverjum og einum nemanda. Þetta kvöld elduðum við mamma pastasalat ofan í fjölskylduna og uppskriftina man ég enn. Það kom sér vel áðan þegar mig langaði í.

Af eldamennsku minni segir enn frekar að ég hef stundum eldað pasta þegar Andri bróðir minn hefur verið í heimsókn. Strákskrattinn, sem skyndilega slagar upp í þrettán ára aldurinn, hefur hreint ekki sparað stóru orðin um þá matargerð. Og greinilega ekki aðeins við mig, því síðast þegar ég leit inn til mömmu hafði hann leynilega numið af mér uppskriftina og beðið mömmu að elda það sama og þannig virðist sagan hafa endurtekið sig með nokkuð kyndugum hætti. Öðruvísi mér áður brá. En sumir hafa greinilega næga persónutöfra til að þurfa ekki að gera það sjálfir sem þeir þó kunna.

O, tempora, et cetera

Á veggnum við hliðina á skrifborðinu mínu hvílir mynd af fyrsta bekk N úr Laugarnesskóla, tekin á vorönn 1991. Fyrir neðan hana er mynd af öllum útskriftarárgangi Laugalækjarskóla, tekin að vori árið 2000. Það má varla á milli sjá hvor myndin var tekin fyrr. Að maður hafi álitið sig fullorðinn á þessum tíma hlýtur að vera einhvers konar skandall.

Minnst tvær aðrar bekkjarmyndir voru teknar í Laugarnesskóla, en þær á ég ekki og hefur alltaf fundist leiðinlegt. Þá er eftir að spyrjast fyrir hjá gömlum skólafélögum hvort ég fái að afrita þeirra eintök.

Árshátíð, fílólóg, treflar

Í gær var haldin árshátíð Mímis í Reykjavíkurakademíunni. Þar var ég víttur fyrir að reyna við kvenmenn og meina eitthvað með því og þurfti því að kneifa mjaðarhorn. Stúlkan á undan mér var einmitt vítt fyrir að reyna við karlmenn og meina ekkert með því. Ekki veit ég hvort meintar viðreynslur sköruðust, en vinkona mín ein úr íslenskudeildinni varð fyrir barðinu á hliðarsjálfi mínu á barnum seinna um kvöldið og er hún hérmeð beðin afsökunar.

Á árshátíðinni hitti ég Helga Guðmundsson fílólóg og spjallaði heillengi við hann. Sem væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að eftir að ég vaknaði heima hjá Gunna (ásamt sínum daglega skammti af kvenmanni) hélt ég á bókamarkað í Perlunni og hitti hann aftur. Þau hjón sögðust hafa endurnýjað trúna á mannkynið eftir ferðina því svo ótrúlega margt fólk væri að kaupa bækur. Hinsvegar virtist sjálfum mér að mest umferðin lægi um kukldeildina.

Sem von var að fannst Valdi þarna innaní kösinni með innkaupakerru fulla af bókum og sjálfur gerði ég nokkur góð kaup þarna, t.a.m. keypti ég ljóðasafn Ísaks Harðarsonar, Ljóðvegasafn Sigga Pé, Eyðieyju Kalmans, Borg Rögnu Sig o.fl. Svo er spurningin hvenær maður les þetta allt saman. Kannski ég bíði með það og yrki ljóð um byltingarlitaða trefilinn hans Kára og þann geypilega káríska hnút sem öllu storkar nema ímyndunaraflinu. Eins og Kári veit er ég afar hrifinn af fallegum treflum og ólíkum leiðum til að hnýta þá, og sit gjarnan löngum stundum með latté við hönd og sem ljóð, þannig að þetta er ekki svo galin hugmynd.