Ilmar af gullnu glasi – Montefalco Rosso

Montefalco RossoVitaskuld gat ég ekki látið undir höfuð leggjast þegar sú mæta skáldkona Sigurlín Bjarney skoraði á mig að smakka vín fyrir Arnar hjá Víni og mat. Það er víst til siðs að taka fram ef maður hefur reynslu á þessu sviði og tilkynni ég því hérmeð að ég get ekki kallað sjálfan mig vínfrömuð að nokkru ráði, þótt ég þykist hafa þá skoðun að Riesling séu vond hvítvín en Pinot Grigio góð, og af rauðvíni beri Chianti af öllu sem ég hef hingað til smakkað. Þriggja ára Montefalco Rosso er engin undantekning frá ítalíupervertisma mínum þótt ekki sé það Chianti.

Nú veit ég ekki hvort það er alger þvættingur í mér að vínið bragðist svipað og Wolf Blass Cabernet Sauvignon frá Ástralíu. Þrúgurnar í Montefalco eru 70% Sangiovese, 15% Sagrantino og 15% Merlot, svo ég má heita ansi langt frá réttu mati ef ég veit nokkuð um þrúgur – sem er ansi lítið ef nokkuð verður að játast. Ég prófaði Montefalco bæði kælt og við stofuhita, með mat og án hans, og hef komist að eftirfarandi niðurstöðu:

Vínið er nokkuð þurrt en rennur ljúflega niður, helst til bragðlítið til að drekka eitt og sér nema maður velki því talsvert (maður nennir því nú tæpast við hvern sopa), en hentar prýðilega með hvers kyns kjötréttum (prófaðir réttir: ítölsk grýta með nautahakki, pastastrimlum og rifnum osti – bachelor dauðans semsé). Vínið er gott hvort sem það er við stofuhita, kalt eða allt þar á milli. Á vefsíðu ÁTVR stendur að í víninu megi meðal annars finna „jörð“ hvað sem það merkir, auk lyngs og krydds. Sjálfsagt einhver vitleysa. Þar stendur þó að tannínin séu þroskuð og því skal ég trúa. Lýsing þeirra hjá Vín og mat er nær mínu hjarta, en þar stendur:

Vínið er dökkt og massíft en elegant umfram allt. Í munni vottar fyrir spriklandi sítrussýru sem hjálpar víninu frekar að verða gott matarvín, helst rauðu kjöti og góðum ostum eins og parmeggiano.

Mér finnst það reyndar ekki sérlega massíft, heldur létt ef nokkuð er. Af massífum vínum myndi ég nefna hið franska Pujol, það lemur mann að innan. En hitt tek ég undir. Að vísu vil ég taka fram að þegar ég segi að vínið henti betur með mat þá miða ég við önnur ítölsk vín, ekki einhver þýsk munnskolsvín. Auk þess gengur Montefalco gegnum intensíft þroskaferli sem felur í sér 15 mánaða geymsu í slóvenskum og frönskum eikartunnum, og sama að hve miklu leyti það skiptir raunverulegu máli þá hljómar það eins og metnaðarfullt prójekt að koma víninu af ökrunum og heim til mín.

Bjarney sagði að „dropar lækju eftir barminum hægt og rólega eins og rigning á rúðu“, og ekki má ég vera minna skáldlegur í minni lýsingu. Það játast að hálfa flöskuna drakk ég í rólegheitunum yfir síðustu helgi við prófalestur, og það að sitja með glas um hönd í síðustu skammdegisögnum vors yfir miðaldabókmenntum kveikti upp í mér furðulega fortíðarþrá sem varð þess valdandi að ég kveikti á kertum um alla íbúð – eins og það gerði nokkurt gagn. Varð mér þá hugsað til Jóhanns Sigurjónssonar eins og öllum góðum drengjum sæmir við slíkar aðstæður, enda ilmaði af gullnu (kristals) glasi gamalla blóma angan og furðulegar nostalgískar sýnir spruttu ljóslifandi frammi fyrir mér. Og þar sem ég held það sé lítið sem ekkert virkt THC í Montefalco get ég mælt með því án raunverulegrar hættu á ofskynjunum í kjölfarið – sérstaklega með hnefaþykkri, blóðugri villibráð með rauðvínslagaðri sósu og smjörsteiktum, krydduðum kartöflum.

Ég skora á Þórdísi að taka við keflinu.

Af raunum námsmanns

Eftir árangurslausa tilraun til að festa kaup á skúffuköku í 10-11 (verðmerkt kr. 475) sökum ómegðar og nísku (kassaverð kr. 574) ákvað ég að leita á önnur mið um næringu. Þá varð ég þess áskynja að soltinni alþýðu hefur nú borist mikill liðsstyrkur með tilkomu Línu inn á samlokumarkaðinn þar sem Sómi og Júmbó hafa hingað til ráðið ríkjum.

Í vopnabúri þeirra liggja kynstrin öll af fagurlega útlítandi samlokum, kjötlokum og langlokum sem bera merki mikils hugvits, svo sem langlokuristar með steiktu innralæri og sveppum auk klassísku pítusósulanglokunnar, nema nú með sinnepssósu. Ég ákvað að hætta mér ekki í framúrstefnuna að óreyndri hefðinni og fékk mér samloku með hangikjöti og ítölsku salati.

Ég finn mig knúinn að spyrja í kjölfarið: Hvernig í fjáranum er hægt að fokka upp hangikjötssamloku? Þetta er hangiálegg að viðbættu fjöldaframleiddu salati í brauði. Jæa, hvernig sem það er hægt þá tókst það. Línu er hérmeð óskað innilega til hamingju með árangurinn.

Um óþarflega fundvísi Hildigunnar

IngólfurÉg er svo gapandi bit. Hafið þið tekið eftir því að Skerjafjörðurinn er eins og Ingólfur Arnarson í laginu? Með réttu hugarfari má einnig sjá úr þessu bergrisann sem gætti Suðurlands í Heimskringlu. Þar er þá landvætturin komin. Skyldi Vopnafjörður þá vera í laginu eins og dreki? Svari mér fróðari menn, ég hef ekki kannað málið …

„En hvað er það sem verndar viðkomu landans? Vitið þér hvað það er? Mér er það hulið.“ – Megas.

Stolið via Tölvuóða tónskáldið.

Töff

Það er voðalega erfitt að finna sig skyndilega í félagsskap fólks sem maður á ekki í reglulegum samskiptum við og koma inn í umræður sem maður hefur engar forsendur til að taka þátt í. Þá er hægt að sitja og þegja sem er hreint ekki töff, eða laumast burtu sem er heldur ekki sérlega töff. Þá er nú ágætt að ég legg mig ekki mikið eftir að vera töff.

Gasalega merkilegt

Voða er fólk er alltaf ánægt með sjálft sig þegar því tekst að hanka lögregluna á einhverju í stað þess að leita eðlilegra skýringa. Gasmaðurinn er heitasta lumman á netinu um þessar mundir og vænta má að moggabloggarar þessa lands muni engjast um af hláturskrampa þegar Spaugstofan lætur Geira og Grana sprauta úða á kind úti á götu gólandi „Gas! Gas!“.

Engu að síður er ekki annað að sjá af fréttamyndum en átök hafi brotist út áður en lögreglan sprautaði varnarúða yfir mótmælendur til að stöðva slagsmálin, eins og einnig kom fram í hádegisfréttum útvarps. Það er heldur ekki að sjá af neinum þessara mynda að lögreglan stígi útfyrir valdsvið sitt. Hópamyndanir af þessu tagi eru áhættuþáttur sem lögreglan er í vinnu við að meta og bregðast við. Þegar slagsmál brjótast út í svo stórum hópi sem ítrekað hunsar fyrirmæli lögreglu, sem trekk í trekk hefur varað við því hvað sé í vændum, þá er það á ábyrgð mótmælenda.

Í öðru lagi skyldi maður spyrja sig hvers vegna annar tveggja lögreglumanna sést hrópa „Gas! Gas! Rýmið götuna! Gas!“ Af því hann er klikkaður, segir moggabloggið. Fáum dettur í hug að lögreglunni beri að gera þetta til varúðar. „Gas! Gas!“ er einfaldlega síðasti séns til að verða við ummælum lögreglu. Hvort hann hafi gert þetta lipurlega er allt annað mál. En hvers vegna var hann svona trylltur á svip? Prófið að hrópa eins hátt og þið getið og finnið ástæðuna.

Var lögreglan almennt klunnaleg? Það má vel vera, enda voru þetta allt almennir lögreglumenn. Það komu víst einhverjar örfáar hræður úr sérsveitinni undir rest en þeir gerðu nú ekki mikið. Fólk spyr sig hvaðan skildirnir og hjálmarnir hafi komið. Líklega frá Birni Bjarnasyni hershöfðingja. En staðreyndin er sú að lögreglan hefur alltaf átt skildi og hjálma og þeim hefur verið beitt áður lögreglunni til varnar. Þegar ljóst var að mótmælendur myndu ekki fara að fyrirmælum lögreglu komu skildirnir. Mótmælendur voru varaðir við. Bílstjórar með Viðar nas(jónal)ista og Sturlu Jónsson í fararbroddi segja að skildirnir hafi komið strax, ríkisútvarpið – eins gagnrýnið og það var á lögregluna í gær – segir annað. Hverjum á að trúa?

Einstigi

Mig dreymdi í nótt að ég væri að skila BA-ritgerð í bókmenntafræði.

Leiðbeinandi: Hvað er þetta, það eru engin einstigi hérna?
Ég: Ha?
Leiðbeinandi: Það eru einstigi í þessari bók. Hann treður einstigi.
Ég: Hvaða vitleysa …
Leiðbeinandi: Þú verður ekki bókmenntafræðingur svona. Bókmenntafræði snýst um að troða einstigi. Lagfærðu ritgerðina eða hypjaðu þig.

Tárin við Rauðavatn

Jájá. Nú „loga bloggheimar“. Hef verið að horfa á beina útsendingu hér í vinnunni. Það skyldi þó aldrei vera að fólk dæmi aðstæður öðrum hvorum í vil án þess að vita nokkuð um aðstæður á svæðinu? Sómi lands og skjöldur mætir svo auðvitað á svæðið á einkabílunum til að kasta eggjum í sérsveitina. Flottir. Mætti kannski minna fólk á að hér er meðal annars verið að mótmæla hvíldarskyldu atvinnubílstjóra? Og hverju öðru en álögum á eldsneyti, því þær eru svo hræðilegar. Þeim skyldi þó aldrei detta í hug að hækka sínar eigin álögur á móti? Nei, þetta er svo miklu sniðugra.