Ársafn og fleiri

Ég verð í Ársafni þessa vikuna, svo allir þið árbæingar getið kíkt á mig hingað. Þetta er þá þriðja safnið (fjórða með Bókabílnum) sem ég vinn á, þótt það hefði átt að verða það fjórða (fimmta með Bókabílnum) – ég hef nefnilega staðist þá freistingu að taka aukavaktir á Aðalsafni hingað til. Að því sögðu sakna ég gamla Aðalsafnsins úr Þingholtsstræti, þar sem Snorri Hjartar var eitt sinn alfa og ómega, enda hafna ég því að „nýtt = töff“.

Gerðuberg var hinsvegar uppáhaldssafnið mitt sem barn, en þangað hef ég ekki komið í ein þrettán ár. Væri alveg til í að prófa að vinna þar, vona bara að fátt hafi breyst síðan þá … Hér er annars ágætt fyrir utan að ég þekki auðvitað ekki inn á staðbundna forgangsröðun verkefna. Líklega verð ég kominn með hana á hreint í lok vikunnar, svona einmitt þegar ég fer aftur á safnið mitt.

Lesendur mega velta fyrir sér hvers vegna ég skrifi um vinnuna mína – áhugaverð sem hún er – þegar viðbjóðslegir hlutir gerast allt í kringum okkur dag hvern. Já, líka hér á Íslandi. Það er ekkert eitt einfalt svar við því svosem, stundum bara veit maður ekki hvað hægt er að segja um tiltekin efni, eins og til dæmis grófa lítilsvirðingu stjórnvalda á mannslífum. Þá er þægilegra að skrifa um bókasöfn og ímynda sér að heimurinn sé eins og stjórnvöld vilja að við ímyndum okkur að hann sé.

Ekki að ég nenni að lifa í þeirri útópíu lengur en einn dag í senn.

One thought on "Ársafn og fleiri"

  1. Óli Gneisti skrifar:

    Já, það var gott að vinna á Gerðubergi. Núna er þetta bara hverfissafnið mitt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *