Samfélag í nærmynd

Hér gerast merkilegir hlutir á hverjum degi, a.m.k. hlutir sem teljast merkilegir innan þess afmarkaða veruleika sem bókasafnið og -bíllinn er. Fastagestirnir hérna eru betri en nokkurt sjónvarpsefni. Ef mér þætti ekki vænt um óstaðlaðan veruleika væri hér komin prýðileg hugmynd að þáttum handa Skjá einum.

Ég fæ stundum á tilfinninguna að fólk trúi ekki á að hið sérstæða sé til innan þess almenna lengur. En hérna í Vogahverfinu er allt svo sérstakt að ástæða er til að tala þess heldur um hið almenna meðal þess sérstæða. En það er nú heldur lítið sem teljast mættu almenn einkenni fólksins hér, nema helst það að allt er það fólk, og að ég kann afskaplega vel við það langflest.

Ég kemst sjaldan í tæri við þetta annarsstaðar en í vinnunni, en ég efast ekki um að þetta er alstaðar þar sem menn leita að því. Einn stærsti kosturinn við bókasöfn er einmitt sá að þar kemur fólk saman og myndar einskonar samfélag sem annars væri ósýnilegt. Þess vegna myndi ég heldur vilja búa hér en í Laugarneshverfi til dæmis, þar sem fátt er eftir lengur sem sameinar fólkið, nema 10-11 geti í einhverjum skilningi talist vera samkomustaður.

2 thoughts on “Samfélag í nærmynd”

  1. Rétt til getið. 10-11 og svæðið þar í kring er aðal samkomustaðurinn… Afslappaðasta 10-11 búðin í bænum… starfsfólkið nennir ekki einu sinni að hafa körfur við dyrnar…
    Og svo er auðvitað Laugardalslaugin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *