Öskubuskusyndrómið

Ég endaði á að gera ekkert í gær. Ég reyndar sá ljóðarisann, sem sjá má á síðu Baunar, en eftir það var ég helst til niðurrigndur og kaldur til að halda áfram. Afboðaði komu mína á eigin upplestur í Friðarhúsi – hvar Baun virðist einnig hafa verið – og sleppti ljóðahátíð Nýhils. Eins og ég er nú óheimakær þá kom yfir mig þessi öskubuskutilfinning, ef ég færi ekki heim þá og þegar myndi bíllinn breytast í grasker og ég yrði fastur. Og það er engin ástæða til að festast í bænum þegar þar er engin prinsessa til að máta á mig Eccoskóinn.

Á ekki svo ósvipuðum nótum kom kona á safnið um daginn að spyrja eftir bókum um stöðu barna á nítjándu öld, vegna rannsóknar á vondum stjúpum í ævintýrum. Ég hef átt nokkrar en það verður að segjast að engin þeirra var neitt sérstaklega vond. Þá má svosem taka það fram líka að lífið hefur nú sjaldnast verið eins og ævintýri að neinu öðru leyti þannig að kannski er það bara vel sloppið.

En í gær gegnum rigningarsuddann á leið á bókasafnið fannst mér ég þegar vera á heimleiðinni. Blautt fólk í anddyrinu að drekka kaffi undir ljóðalestri Bandaríkjamanns, allt skemmtilega samstarfsfólkið sem ég hitti og venjulega gaufið í geisla- og mynddiskasafni stofnunarinnar. Það er skrýtið að þykja svo vænt um vinnustaðinn að þegar ég kom heim fannst mér ég aðeins hálfur heima hjá mér.

Eins og það er nú alltaf huggulegt að hjúfra sig uppi í rúmi með sjónvarp og trogfylli af mat. Í gærkvöldi var það Kieslowski Blár. Ég geymdi Hvítan og Rauðan fyrir kvöldið í kvöld.

2 thoughts on “Öskubuskusyndrómið”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *