Århus V

Þá er ég kominn heim frá Árósum. Get ekki sagt að ég sé því neitt sérstaklega feginn, glaður hefði ég lengt í miðanum mínum og verið framyfir helgi. Eða bara sleppt því að koma aftur. En það skipti mig meira máli að mæta í jarðarför en að liggja í leti við Árósaá og drekka bjór.

Ég var þegar búinn að gleyma því hvað Reykjavík er þrátt fyrir allt falleg. Hafði samt á tilfinningunni að ég stæði öðru fremur utan við gluggann horfandi inn. Við hliðina á Árósum er Reykjavík dálítið einsog apabúrið í Zoologiske.

Talandi um skepnur þá er dýraríkið þarna eystra dálítið skemmtilegt. Bara við kollegíið mitt sá ég íkorna, héra og broddgelti. Stundum sá ég líka haltrandi ketti eftir misheppnaðan víking gegn síðastnefndu. Við Moesgård sá ég dauða moldvörpu. Inni í Moesgård sá ég 2200 ára gamlan Dana, dauðan sem betur fer. Svo í gær tók ég S-lestina frá Höfuðbana út til Husum þar sem ég sat heima hjá Degi Snæ langt fram á kvöld, drakk bjór og fylgdist með leðurblökum.

Svo kemur maður heim til Íslands og sér bara venjulega bavíana. Til að finna aðra eins vitleysu þarf að leita út til Danmerkur aftur. Þá á ég að sjálfsögðu við sjónvarpsþættina Klovn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *