Enn af ritstjórum

Þessi umræða um Davíð Oddsson jaðrar við geðsýki. Sá sem telur það skipta sköpum fyrir Íslendinga hver ritstýrir hvaða málgagni ofmetur annaðhvort persónutöfra ritstjórans eða áhrifagirni fólksins í landinu, nema hvorttveggja sé. Fólk er ekki nautheimskir sauðir sem hleypur upp til handa sér og fóta af því Davíð segir eitthvað.

Samt er fólk þegar farið að hrópa nöfn einsog Ólafur Thors eða Bjarni Ben eða þvíumlíkt. Það vantar bara hómóerótískar lýsingar Kristjáns Albertssonar á Hannesi Hafstein yfirfærðar á Davíð Oddsson til að fullkomna sirkusinn. En Davíð Oddsson er hvorki Ólafur Thors né Hannes Hafstein. Það er engin reisn yfir því fyrir fyrrum forsætisráðherra og síðar seðlabankastjóra að verða ritstjóri Morgunblaðsins. Öðru nær eru það kaldhæðnisleg örlög að foringinn sem enginn þorði að andmæla sé skyndilega orðinn leiguþý fyrir stuttbuxnadeildina.

Hérna er maður sem rústaði hagkerfið, gerðist sekur um stríðsglæpi fyrir stuðning við tilhæfulaust stríð í fjarlægu landi, seldi Landssímann fyrir minna en tekjur fyrirtækisins á einum ársfjórðungi, seldi bankana þeim sem settu þá á hausinn, andmælti eigin peningamálastefnu undir eins og hann var kominn í Seðlabankann, aðhafðist samt ekkert og hrökklaðist loks úr embætti eftir að hafa brennt allar brýr að baki sér. En sá vegsauki slíkum manni þá að fá að verða ritstjóri Morgunblaðsins, enda þriðja valdamesta embætti landsins ef marka má suma!

Þegar þeir svo reka hann þaðan leikur hann kannski í auglýsingum fyrir Nýja Kaupþing. Slagorðið verður: „I didn’t do it!“ Svo skeyta þeir inn gömlu upptökunum af John Cleese að segja: „Köööööbþíggh,“ og allir sjá að þessi maður hlýtur að vera guð. Þegar það verður orðið gamalt verður hann daglegur gestur Björns Bjarnasonar á ÍNN þar sem þeir geta þusað saman um kaldastríðið, kommúnista og óreiðumenn. En þá verða Íslendingar vonandi farnir að hugsa um eitthvað annað en handónýtan feril Davíðs Oddssonar.

Að öðrum kosti legg ég til að Laddi verði gerður ritstjóri Morgunblaðsins.

Af minningagreinum lífs og liðinna

Ef það kemur í ljós að Geir Haarde hafi gengið um í mislitum sokkum alla sína embættistíð væri það mögulega merkilegra en þessar endalausu fréttir af ritstjóraskiptum á Morgunblaðinu.

Fólk les Morgunblaðið fyrst og fremst vegna minningagreinanna. Það má vissulega deila um lífsmark hvers ritstjóra Morgunblaðsins fyrir sig, en hitt er víst að enginn kaupir Morgunblaðið til að lesa minningagreinar þeirra skrifaðar af þeim sjálfum. Það þarf að minnsta kosti helvíti mikla aumingjadýrkun til að ösla þann forarpytt.

Á meðan bíðum við hin hverrar nýrrar elegíu Tryggva Líndal sem kvörn tímans skilur eftir á síðum blaðanna. Þangað til finnst mér ekki áríðandi að lesa eitt einasta orð um eða eftir hvern þann sjórekna stjórnmálamann sem skolar upp á miðsíðu Morgunblaðsins í það og það sinnið. Þeir fá allavega að hafa sínar skoðanir í friði fyrir mér.

Vinnuvikan

Ég kemst alltaf nær þeirri skoðun að 40 stunda vinnuvikan sé barn síns tíma. Nær væri að miða við 30 stunda vinnuviku og í raun er hærra viðmið ómanneskjulegt miðað við nútímalegar þarfir.

Reykjavíkurborg hefur að vísu náð að lempa þetta niður í 35 stundir með því að selja kaffi- og matartímana en mér finnst það rangsnúin mannúð. Það þýðir í raun að starfsfólk fær ekki greitt lengur í pásum en hefur þann valkost í staðinn að sleppa þeim til að fá að fara úr vinnu klukkutíma fyrr. En undir öllum eðlilegum kringumstæðum eyðir fólk eftir sem áður jafnmörgum klukkutímum í vinnunni á dag.

Þið megið kalla það óskhyggju en ég vildi gjarnan sjá þær breytingar að vinnuvikan verði stytt niður í 30 stundir án þess það rýri tekjur fólks. Kjarasamninga má þá endurgera með tilliti til hins nýja fyrirkomulags. Ég held það sé nokkuð sem vert er að hugsa um á tímum þegar vinnuveitendur gera sitt ítrasta til að notfæra sér ástandið til að skera niður í starfsmannahaldi og kreista á sama tíma meiri vinnu útúr fólki vitandi að það getur ekki sagt nei. Gildir þar hið fornkveðna: flestum vinnuveitendum stendur á sama um þig.

10 árum seinna

Unglingurinn sem fiktaði við reykingar og skrópaði í leikfimi staðnæmdist framan við spegilinn einn morgun tíu árum seinna. Þar sá hann sjálfan sig með sömu hárgreiðsluna og tíu árum áður, kominn niður í 15 sígarettur á dag, sýnilega tíu árum eldri. Þó var hann orðinn allt það sem hann vildi hugsa sér að hann myndi vera orðinn að tíu árum liðnum. Að sínu leytinu til hafði hann því ekki brugðist sjálfum sér.

Eðli tungumálsins

Sumum bókmenntafræðingum er mjög tamt að tala um „eðli tungumálsins“ í víðum skilningi, hvað felist í eðli þess og hvaða áhrif það hefur útfyrir sig – sem er í sjálfu sér merkilegt því samkvæmt fræðum þeirra sjálfra felst ekkert utan tungumálsins – á málhafa gegnum texta eða sambærilega miðla sem einnig eru nefndir textar.

Samt hafa fæstir þeirra lagt stund á málvísindi. Hvernig skyldi nú standa á því?

Ágæt þumalputtaregla þegar lesnar eru greinar eftir yfirlýsta póstmódernista: skoða heimildaskrá þeirra greina þarsem talað er um eðli tungumálsins. Bakhtín og Jacobson hef ég séð, en aldrei Chomsky. Hvað þá heldur neitt nýlegra. Það er einsog eftir 1957 hafi ekkert gerst í málfræði. Hvað skyldi það segja okkur um eðli tungumálsins? Hvers vegna er afbygging póststrúktúralismans svona höll undir strúktúralisma?

Kannski af sömu ástæðu og þeir sem mesta áherslu leggja á málrækt hafa enga málfræði lesið, samanber ónefndur málræktarklúbbur: þeim mun minna sem þú veist, þeim mun meira þvaðrarðu, vitandi kannski innst inni að hvað sem þú segir hefur það ekkert með málfræði að gera. Eðli tungumálsins hafnar afbyggingu. Í heimi afbyggingar væri texti ekki til.

Íslendingasögur á íslensku

Ég hef alltaf jafn gaman að því þegar menntskælingar koma á bókasafnið og biðja um Íslendingasögur á nútímaíslensku. Skelfingarsvipurinn á þeim þegar ég segi þeim að þetta sé nútímaútgáfan.

Ég held það sé of mikið gert úr því að það sé á færi Íslendinga að lesa handritin. Það er það bara almennt ekki. Samt er talað um þetta einsog það sé sambærilegt við að lesa Guðrúnu frá Lundi.

Annars væri skemmtilegt að prufa að láta krakka lesa stafrétta texta. Bara til að prufa.

Kenningar Einars Pálssonar

Ég hef oft staldrað við bækur Einars Pálssonar um íslenskt þjóðveldi og goðafræði á bókasafninu, velt fyrir mér hvers vegna enginn talaði um þær í íslenskuskor en aldrei árætt að lesa neina þeirra. Þær eru svo margar, efni þeirra svo fjölbreytt (að því er virtist) og titlarnir gáfu ekki beinlínis miklar vísbendingar um innihaldið.

Svo í dag rakst ég á wikipediugrein um Einar Pálsson og sé núna hvers vegna þessar ellefu eða svo bækur eru ekki lesnar spjaldanna á milli við íslenskuskor.

Íslenska goðaveldið í heiðni (930-1000) var hugsað sem endurspeglun himneskrar reglu. Þannig mátti líta á goðana 36 sem fulltrúa himinhrings, og til samans jafngiltu þeir konungi í goðfræðilegum skilningi. Einar taldi að goðarnir hefðu búið yfir hinni goðfræðilegu þekkingu sem fylgdi goðsagnalandslaginu. Einar gerði ennfremur ráð fyrir að germönsk heiðni hefði, líkt og önnur nálæg trúarbrögð, orðið fyrir áhrifum af speki pýþagóringa og platonista um að eðli heimsins, og þar með hins goðlæga hluta hans, væri fólgið í tölum og hlutföllum. Hann hélt því fram að þessi speki hefði legið að baki íslenska goðaveldinu og konungdæmum grannlandanna.

Gallinn við öll svona samanburðarfræði ætti flestum að vera augljós: ef íslenska goðaveldið var hugsað svona, hvar eru þá íslensku heimildirnar fyrir því? Þær eru nefnilega ekki til. Einar gaf sér einfaldlega, útfrá samanburði við samgermanskan menningararf og reyndar allt til Grikklands, að tilteknar hugmyndir – tiltekin heimsmynd – hefði erfst svo að segja óbreytt gegnum aldirnar þjóða á milli. Skoðum þetta nánar:

Mælingakenning Einars var tilraun hans til að sameina (a) það sem vitað er um norræna heiðni; (b) það sem álykta má af sambærilegum heimildum um forn trúarbrögð indó-evrópskra manna; (c) það sem vitað er um stjarnfræðikunnáttu fornþjóða og (d) þá innsýn í norræna goðafræði sem fæst með því að horfa á Íslendingasögurnar sem goðsagnir.

Atriði a) er einmitt það sem við skoðum sérstaklega við íslenskuskor – þær varðveittu heimildir sem til eru um norræna heiðni og hvað þær segja okkur. Rannsóknir á því sviði eru margvíslegar og fjölbreyttar. Atriði b) er svo eitthvað sem mér liggur við að segja að sé út í hött að bera saman við atriði a) til þess að öðlast betri skilning á því síðarnefnda. Það skiptir engu máli fyrir norræna goðafræði hverju var trúað austan við Kákasus fyrir meira en 5000 árum. Ekki frekar en Gilgameskviða segir okkur nokkuð um Snorra-Eddu. Það væri eðlilegt fyrir strúktúralíska rannsókn að setja upp töflu yfir lögmál goðsagna – einsog hefur verið gert – til að benda á að allar goðsagnir fylgi svipuðu mynstri, búi við svipaðar reglur og eigi sér jafnvel einhverja grunnfyrirmynd sem nú er glötuð. En það segir ekki endilega mikið um trú fólks á Íslandi á landnámsöld.

Sama gildir um atriði c), það einfaldlega gagnast okkur takmarkað að velta fyrir okkur stjarnfræðiþekkingu Súmera, Grikkja eða Rómverja í fornöld í því augamiði að varpa ljósi á íslenska menningu á miðöldum. Þar sem vantar heimildir má gera ráð fyrir ýmsu, það má til dæmis gera ráð fyrir að Snorri Sturluson hafi þekkt Gesta Danorum eftir Saxo Grammaticus þótt það standi hvergi. En við getum fjandakornið ekki haldið því fram að vegna stjarnfræðiþekkingar fornþjóða hafi sögusvið Íslendingasagna átt að:

endurspegla himneska reglu og vera jafnframt tímakvarði. Einfaldasta leiðin til þess er að hugsa sér miðju og taka þaðan mið af stjarnfræðilega marktækum punktum á sjóndeildarhring, s.s. höfuðáttum og sólarupprás og sólarlagi um sólstöður. Kennileiti á jörðu niðri sem tengjast þessum stefnum fá þannig goðfræðilega merkingu. Einar gerði ekki aðeins ráð fyrir goðsagnalandslagi af þessu tagi, heldur áleit að stærð þess hafi verið nákvæmlega skilgreind og útmæld. Hann áleit að fornmenn hafi hugsað sér það sem hring sem endurspeglaði sjóndeildarhring og himinhring (dýrahringinn). Þvermál hringsins skipti máli og átti að hafa verið 216.000 fet (um 64 km)

Hvað atriði d) varðar þá sé ég ekki samhengið milli þess að líta á Íslendingasagnir sem goðsagnir – sem þær klárlega eru – og að það segi okkur eitthvað um aðra texta sem bera í sér lítinn skyldleika við hina.

Ég tek fram að ég hef ekki lesið bækur Einars Pálssonar og að það er áreiðanlega margt áhugavert í þeim sem jafnvel gæti skipt máli fyrir íslensk og norræn fræði. En miðað við þessa litlu stikkprufu þá virðist mér afskaplega lítið vera af haldbærum gögnum rökstuddum viðunandi heimildum. Þetta eru bara hugmyndir einsog hver sem er gæti fengið og erfitt eða ómögulegt er að sanna eða afsanna. Og slíkar kenningar bera í sér lítið fræðilegt gildi.

Hjá tannlækninum

Ég hef átt það til að fara til tannlæknis síðastliðið ár.

Maður liggur þarna gersamlega varnarlaus í stólnum meðan tannlæknirinn er í keppni við sjálfan sig um hversu mörgum hlutum hann getur troðið upp í mann. Svo getur maður hlustað á útvarpið meðan blóðsletturnar ganga í flóðbylgjum yfir okkur báða.

Mér hættir aldrei að þykja tækin dálítið miðaldaleg þótt öðru máli gegni um tæknina. Svo er alltaf þarna stykkið sem lítur út einsog langur kveikjari með bláa ljósinu á endanum. Voða StarTreklegt. Hvað skyldi það gera? Ég hef alltaf á tilfinningunni að það geri ekki neitt. Sé bara þarna til að imponera sjúklinginn.

Í dag var ég deyfður í fyrsta sinn í hálfan annan áratug. Og hann deyfði mig svo duglega að ég fann ekki neitt. Gat þó brosað útí annað yfir gosbrunninum sem stóð uppúr mér. Svo var líka Lennon í útvarpinu sem er alltaf skemmtilegt.

Eftir tannlæknatímann fór ég í Bakarameistarann í Glæsibæ, sem er hvorki glæsilegur né þykja mér afurðir bakarans neitt sérlega meistaralegar. Ég keypti mér ciabatta með spægipylsu og allskyns jukki og kaffi með. Ég átti í vandræðum með að koma kaffibollanum uppað vörunum þarsem ég hafði enga tilfinningu í hálfu andlitinu og lék mér svo að því að finna bragðmuninn á samlokunni milli hægri og vinstri hliðar meðan innihaldið lak úr munnvikunum niður á Fréttablaðið mitt.

Á næsta borði sátu tvær konur og barn. Og barnið spurði þær varfærnislega af hverju maðurinn þarna væri svona skrýtinn. Og ég fékk samúðarfyllsta augnaráð sem ég hef fengið frá þeim öllum þarsem ég sat þarna með sósu makaða yfir andlitið og kaffi drjúpandi niður um lama munnvikið.

Og leið dálítið asnalega. Það var líka áður en ég tók eftir því að það blæddi ennþá úr tannholdinu á mér eftir aðfarirnar. Ég mun ekki beinlínis hafa verið frýnilegur. Þegar ég kom í vinnuna snerist þetta svo algerlega við. Þar var hlegið að mér. Mér leið eiginlega betur með það.

Þessi saga kostaði 15.000 krónur. Framlög yfir 500 krónum eru frjáls. Sendist í umslagi á Suðurgötu 78, 220 Hafnarfirði. Nei, ég nota ekki heimabanka. Það er nóg að bankarnir tortími þjóðfélaginu án þess ég hafi þá heim með mér líka.

Vingjarnleg ábending

Það er rétt að árétta að síðuhaldari vill halda því til haga sem sannara reynist. Ef það eru einhverjar umkvartanir, grunsemdir kvikna um annarlegar hvatir er búi að baki skrifum síðuhaldara eða efasemdir um ásetning hans, þá er honum bæði ljúft og skylt að svara öllum fyrirspurnum, séu þær rétt fram settar.

Síðuhaldara líka þó hvorki upphrópanir né dylgjur. Hafið það í huga og hugsið um hvað andarungar eru sætir í fimm mínútur, meðan þér dragið djúpt andann, áður en þér látið í ljósi vanhugsað álit yðar á persónu síðuhaldara eða innihaldi orða hans.

Áréttingu þessari er ekki sérstaklega beint að neinum einum, heldur hefur nauðsyn hennar síendurtekið opinberast sem heilagur andi frammi fyrir vitund síðuhaldara; annað hvort fyrir sakir þær, að hann er ófær um að skrifa á íslensku, eða því, að hann býr að lesendahóp sem er fyrirmunað að skilja íslensku einsog hún stendur án þess að bæta inn öllum sínum furðulegustu rangtúlkunum og hugarórum. Nema hvort tveggja sé.

En áréttingin stendur. Vinsamlegast lesið ekki milli línanna.