Café Under Masken

Á Café Under Masken kostar tuborg á flösku 600 kall og það má reykja inni. Staðurinn minnir um margt á Kofa Tómasar frænda heima, þar sem ég á raunar ekki heima og hef ekki búið í tæp þrjú ár. Í raun bý ég hérna núna þótt ég eigi eftir að flytja alveg.

Hér er einnig talsverð menningarstarfsemi skilst mér, ljóðalestrar, tónleikar, myndlistarsýningar og sjálfsagt sitthvað fleira. Fyrir réttu ári sat ég hérna og hugsaði mig lengra hingað, núna sit ég hér og hugsa mig aftur heim. Núna er ég opinberlega orðinn meistaranemi í norrænum bókmenntum við Árósaháskóla en hef þó enn ekki reynslu af því hvernig skólakerfið hérna virkar utan hins verndaða umhverfis sumarskólanna.

Áhyggjuefnin eru þó flest af veraldlega toganum, hvar ég kem til með að búa, sú staðreynd að Danir kunna ekki að kæla bjór og engir ísskápar hérna virðast virka (nokkuð sem þarf að athuga nánar), og svo hitt hvernig það verður að raunverulega búa einn hérna í öðru landi. En allt er þetta eitthvað sem ekki ætti að skipta miklu máli til lengri tíma.

Á meðan gerast ýmis tíðindi heima og ýmsir sem ég sakna þaðan. Þegar ég kem heim hef ég 30 daga til að gera allt sem þarf að gera. Þann tíma þarf að nýta vel. Og í millitíðinni bið ég bara kærlega að heilsa.

2 thoughts on “Café Under Masken”

  1. horfðu á blinkende lygter, þar er mikið rætt um bjórholur og að það getur tekið mann alla ævina að búa til góða bjórholu sem kælir bjórinn í ákkúrat rétt hitastig. danir segja sko bara ísskápar smísskápar þegar kemur að bjór (eða køleskab smøleskab)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *