Dagbókarlífstíllinn danski

Þar kom að því, ég er farinn að nótera niður mannamót á dagatalið í tölvunni minni. Fyrrum nýlenduherrann vann stórsigur á hrokafulla eftirlendugosanum sem lyppaðist með skottið milli lappanna heim aftur fyrir sex vikum. Fundur í fyrramálið, matarboð um kvöldið, fyrirlestur á föstudag, ljóðahátíð um helgina, þrif á sameign á sunnudag. En ekki man ég hvern fjandann ég á að gera á mánudaginn af því ég gleymdi að nótera það niður. Senn kaupi ég dagbók fyrir 2011.

Ferðasagan heldur svo áfram þegar ég nenni að skrifa hana. Í öðrum fréttum er ég orðinn stoltur eigandi þvottabala og kaffikönnu. Ruslatunnu fann ég hvergi en senn verður bætt úr því. Vonandi fylgja svo ögn meira sjarmerandi mublur í kjölfarið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *