Hamfarastjórnun illfyglanna

Það er óviðjafnanlega fyndið að lesa gargið í illfyglum AMX núna. Þar er Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, ritstýra Smugunnar, ásökuð um að þegja þunnu hljóði þegar fréttafólk er rekið vegna óeðlilegra afskipta hagsmunaaðila af fjölmiðlum eða vegna pólitískra skoðana. Ástæðan er sú segja illfyglin að Þóra Kristín hafi þegið styrk frá Alcan vegna rannsóknar á hamfarastjórnun!

Það væri ekki vond hugmynd ef þessir apar færu nú aðeins að hugsa áður en þeir láta hafa svona vitleysu eftir sér. Fyrir það fyrsta er ekki rétt að Þóru Kristínu láti sér það í léttu rúmi liggja þegar fréttafólk er fyrirvaralaust rekið, sbr. pistla hennar Í Undralandi umræðunnar og Óflokkurinn og Ríkisútvarpið.

Í öðru lagi, enda þótt það sé rétt að tiltekin alnafna Þóru Kristínar hafi þegið styrk frá Alcan vegna meistaranáms í hamfarastjórnun, þá er sú Þóra Kristín sem illfyglin gera að umtalsefni í fullu starfi sem blaðakona og ritstýra Smugunnar, sem einsog allir vita sem komið hafa nálægt blaðamennsku er ekki beinlínis neitt sem maður sinnir í hjáverkum – það er að segja allir nema „blaðamenn“ AMX, sem virðast halda að hún sitji sveitt við skrifborðið og lesi um viðbragðsáætlanir á Haítí milli þess sem hún ritstýrir Smugunni, með óeirðaskjöldinn frá Alcan hangandi á veggnum.

Að þeim skuli einu sinni láta detta sér það í hug er svo frámunalega heimskulegt að það jaðrar við að vera krúttlegt. Illfyglunum væri nær að kynna sér hvort boðið sé upp á námskeið í hamfarastjórnun fjölmiðla, svo þau geti hætt að gera sig síendurtekið að fífli. Fyrsta ráðið er grundvallaratriði í fréttamennsku og það fá Friðbjörn Orri og félagar ókeypis: kannið staðreyndirnar áður en þið skúbbið!

Kristjánsborg, frá framleiðendum Melrose Place

Danska verðlaunamyndin Kongekabale frá 2004 fjallar um átök og undirferli í danska þinginu, Kristjánsborg. Í upphafi myndar lendir formaður Miðflokksins í bílslysi svo tvísýnt er um líf hans. Síðar kemur í ljós að upplýsingum um líðan formannsins hefur verið haldið frá fjölmiðlum á meðan plottað er innan flokksins um arftaka hans. Hinn ófyrirleitni Erik Dreier Jensen gerir spunameistara sinn út af örkinni til að leka út ósannindum um einkalíf samflokkskonu sinnar, Lone Kjeldsen, með þeim afleiðingum að eiginmaður hennar sviptir sig á endanum lífi undan álagi. Í kjölfarið dregur Kjeldsen sig úr stjórnmálum og Dreier Jensen situr einn að formannsembættinu, eftir að hafa kúgað fleiri samflokksmenn til hlýðni. Það er að vísu bjartur punktur í myndinni, en ekki svo að hann skipti neinu raunverulegu máli. Í lok myndarinnar stendur Dreier Jensen uppi afhjúpaður fyrir framan myndavélar í beinni útsendingu, en það eru lokaorð hans sem er raunverulegur boðskapur myndarinnar, endursögð eftir minni: „Kjósendur muna ekki eftir þessu. Eftir viku verður þetta gleymt, vika er langur tími í pólitík. Þú, á hinn bóginn, færð hvergi vinnu aftur við blaðamennsku.“

Persóna Dreier Jensens er byggð á fyrrum forsætisráðherra Danmerkur, Anders Fogh Rasmussen, og Miðflokkurinn sjálfur er flokkur Rasmussens, Venstre, í lélegum dulbúningi. Í fyrstu kann þetta að virðast ofurdramatíseruð útgáfa af raunveruleika danskra stjórnmála, en þegar nánar er að gætt er lífið í Kristjánsborg síst viðburðaminna en syrpa af Dallas eða Melrose Place.

Í tilefni þingsetningar hér í Danmörku fjölluðu íslenskir fjölmiðlar ögn um vandræði Lene Espersen, formanns Konservative Folkeparti. Hún var staðin að því að halda upplýsingum um ofgreidda ríkisstyrki til einkasjúkrahúsa frá þinginu og neyddist að lokum til að biðjast afsökunar. Styrkirnir voru 25% hærri en sjúkrahúsin áttu að fá. Einsog vænta mátti hefur Espersen ætíð haldið fram að hún hafi ekki vitað betur og hafi veitt allar þær upplýsingar sem hún bjó yfir á þeim tíma. Hvort það er rétt eða ekki þarf að liggja milli hluta, en hitt er ljóst að það varð ansi heitt undir henni sætið í kjölfarið, enda varðar það að ljúga að þinginu við lög um ráðherraábyrgð og sem viðskiptaráðherra heyrði einkageirinn undir hana á þeim tíma (ólíkt Íslandi hafa ráðherrar áður verið sóttir til saka í Danmörku). Forsætisráðherra Danmerkur og formaður áðurnefnds Venstre, Lars Løkke Rasmussen, gaf út yfirlýsingu í kjölfar afsökunarbeiðnarinnar þess efnis að afsökunin sem slík hlyti að duga.

Málið er þó ekki nándar nærri svo einfalt. Lars Løkke var nefnilega sjálfur heilbrigðisráðherra árin 2001 til 2007 í stjórn Anders Fogh Rasmussen, og viðskiptaráðherra í stjórn Anders Fogh uns hann tók við af honum sem forsætisráðherra á síðasta ári, eftir að Anders Fogh hlotnaðist staða aðalritara NATO. Á starfstíma hans sem heilbrigðisráðherra kynnti hann áætlun sem fólst í að „peningarnir fylgi þér“. Það þýðir að almenningur geti nýtt sér þjónustu einkasjúkrahúsa og ríkið greiði með sem nemi því sem viðkomandi hafi greitt í skatta – einskonar heilbrigðislífeyriskerfi, semsé. Kerfið var einkum til þess hugsað að þeir sem það vildu gætu losnað við biðraðir í almenna kerfinu. Þegar Lars Løkke svo tók við sem viðskiptaráðherra námu þessar greiðslur til einkasjúkrahúsa, skyndilega, fyrir hans tilstilli, einmitt 25% meir en þeim bar frá ríkinu, og þaðan sprettur gagnrýnin á eftirmann hans í embætti. Hvað hann fékk í staðinn skal ósagt látið en það skal engan undra að honum þyki afsökunarbeiðni Lene Espersen hljóta að duga. Vika er langur tími í pólitík að sönnu.

En sagan er ekki búin. Í viðleitni til að snúa við neikvæðri umfjöllun um þetta mál og önnur, sér í lagi þó sambærilegar lygar og haldið var að Íslendingum um réttmæti Íraksstríðsins sem er mikið hitamál í Danmörku um þessar mundir, hafa spunameistarar ríkisstjórnarflokkanna svifist einskis við að leka út óþægilegum upplýsingum um stjórnarandstöðuna. Því var til að mynda lekið til Berlingske Tidende að Helle Thorning-Schmidt (Socialdemokraterne) og maður hennar hefðu svikið milljónir undan skatti. Eftir rannsókn skattayfirvalda í kjölfarið kom á hinn bóginn í ljós að skatturinn skuldaði þeim hjónum peninga en ekki öfugt. Því var ennfremur lekið í Jyllandsposten að Ole Sohn (Sosialistisk Folkeparti) hefði þegið 5.2 milljónir danskra króna í styrk frá Sovétríkjunum meðan hann var formaður danska Kommúnistaflokksins. Þær ásakanir verður þó aldrei hægt að staðfesta, enda byggjast þær allar á einu bréfi sem fannst í Austurþýsku skjalageymslunum og Ole Sohn ritaði Erich Honecker sex dögum eftir fall Berlínarmúrsins, þar sem Sohn lofar austurþýsku kommúnistastjórnina.

Á meðan heldur spillingin áfram að fljóta upp á yfirborðið. Jacob Winther, spunameistari fyrrum varnarmálaráðherrans Søren Gade, hefur verið ákærður fyrir að brjóta lögbundna þagnarskyldu sína og stríða gegn þjóðaröryggi með því að leka út upplýsingum um leynilega sendiför danskra fótgönguliða í Írak 2007. Claus Hjort Frederiksen, fyrrum framkvæmdastjóri Venstre og nánasti ráðgjafi Anders Fogh Rasmussen – með öðrum orðum spindoktor – hefur svo orðið uppvís að því að sem atvinnumálaráðherra snemma á þessum áratug laug hann að þinginu og gekk gegn öllum kjararéttindum erlendra verkamanna. Af nógu er að taka af hans ferli og má þar nefna leynilegt og þar af leiðandi ólöglegt afnám öryggisstaðla fyrir erlenda verkamenn í hættulegum störfum, krafa um að sveitarfélögin framfylgdu hinni ólöglegu 300 tíma reglu sem krefst þess að par sem þiggur framfærslu skuli hafa samanlagt unnið 300 tíma síðustu tvö ár á undan, mútur til greiningardeilda ráðgjafafyrirtækja fyrir að gefa upp falsaðar tölur sem létu ráðuneytið líta betur út, og eyðingu uppljóstrandi sönnunargagna um ólöglega starfsemi innan ráðuneytisins sjálfs.

Vika er sannarlega langur tími í pólitík. Sama dag og niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um fjölmiðlafrelsi voru kynntar, þar sem fram kom að Danmörku hafði hrakað allverulega frá því áður, kom í ljós að sjónvarpsstjóri TV2 hafði bannað birtingu viðtals við forsætisráðherrann, Lars Løkke Rasmussen, vegna þess að það hefði komið ráðherranum illa. Viðtalið mun hafa verið sambærilegt við þekkt viðtal sem G. Pétur Matthíasson tók við Geir Haarde í Hruninu en var ekki birt nema síðar á YouTube, að því frábrugðnu þó að Lars Løkke var hamslaus af reiði og öskraði á fréttamanninn ítrekað að hann væri fífl og fábjáni. Það hefur enn ekki komið fram hvort sjónvarpsstjórinn var þvingaður til þessa, eða hvort hann er sjálfur bundinn hagsmunum við ráðherrann.

Ég minntist á kvikmynd hér í upphafi, og hversu fjarri veruleikanum hún virðist vera í fyrstu. Þó tæpir hún aðeins á einu máli, sambærilegu við hundruði mála sem raunverulega hafa komið upp og tvinnast öll saman í einni stórri spillingar- og fyrirlitningarhít sem fyllir hvern krók og kima danska þingsins. Hér hefur þó verið stiklað á ansi stóru yfir agnarlítið brot þeirrar sápuóperu sem lífið í Kristjánsborg er, og það er ekki laust við að manni þyki Alþingi hálfgerð Grænaborg við hliðina.

Birtist fyrst á Smugunni 29. október.

Póstvandræði

Danski pósturinn að störfumNú vantar mig aðstoð frá lesendum. Ég get ekki tekið við póstsendingum frá Íslandi, kemur í ljós. Pakki sem beið mín hefur nú verið endursendur af því enginn gat veitt mér upplýsingar um sendinguna, og þótt standi í kerfinu að tvisvar hafi póstburðarmaður barið hér að dyrum hugkvæmdist víst engum að skilja eftir tilkynningu.

Í ljós kom ennfremur að ég þarf að skrá póstfangið mitt hjá danska póstinum, enda dugi þjóðskráning ekki ein og sér. Þegar ég reyndi að skrá póstfangið var mér tjáð að aðeins væri hægt að tilkynna um breytt póstfang, ekki nýtt, og að danski pósturinn gæti ekki ábyrgst heimilisfang á Íslandi nema Íslandspóstur kunngerði þeim breytinguna. Ég sagði þeim að það væri nú með því fábjánalegra sem ég hefði heyrt enda hefði Íslandspóstur ekkert að gera með slíkar skráningar. Það fannst dömunni undarlegt að heyra og sagðist ekkert geta gert fyrir mig öðruvísi.

Þegar ég sneri mér að Íslandspósti var mér tjáð að sannarlega væri þetta með heimskulegri uppástungum sem þau hefðu heyrt og að pósturinn gæti ekki ábyrgst eitthvað heimilisfang í Danmörku enda sæu þau aðeins um póstfangaskráningar innanlands.

Í sem fæstum orðum neitar danski pósturinn semsé að skrá mig nema fyrir tilkynningu sem Íslandspóstur neitar að senda þeim, og nú er afmælisgjöfin mín aftur á leiðinni til Íslands af því ég er ekki til fyrir póstinum. Það nægir víst ekki að fólki sé treyst fyrir því að það viti hvert það sendir póstinn, og þessum dularfullu póstburðarmönnum sem munu hafa komið hingað virðist hvorki hafa hugkvæmst að skrifa mér miða né hreinlega skutla pakkanum í lúguna. Ólíkt leikskólabörnum er dönskum póstburðarmönnum nefnilega ofvaxið að troða kubbum í göt.

Því spyr ég þau ykkar sem einhverja reynslu hafa af þessu svívirðilega vanhæfa fyrirbæri hvernig í ósköpunum maður fer að því að fá póstinn sinn í þessu landi. Einhver ráð?