Hamfarastjórnun illfyglanna

Það er óviðjafnanlega fyndið að lesa gargið í illfyglum AMX núna. Þar er Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, ritstýra Smugunnar, ásökuð um að þegja þunnu hljóði þegar fréttafólk er rekið vegna óeðlilegra afskipta hagsmunaaðila af fjölmiðlum eða vegna pólitískra skoðana. Ástæðan er sú segja illfyglin að Þóra Kristín hafi þegið styrk frá Alcan vegna rannsóknar á hamfarastjórnun!

Það væri ekki vond hugmynd ef þessir apar færu nú aðeins að hugsa áður en þeir láta hafa svona vitleysu eftir sér. Fyrir það fyrsta er ekki rétt að Þóru Kristínu láti sér það í léttu rúmi liggja þegar fréttafólk er fyrirvaralaust rekið, sbr. pistla hennar Í Undralandi umræðunnar og Óflokkurinn og Ríkisútvarpið.

Í öðru lagi, enda þótt það sé rétt að tiltekin alnafna Þóru Kristínar hafi þegið styrk frá Alcan vegna meistaranáms í hamfarastjórnun, þá er sú Þóra Kristín sem illfyglin gera að umtalsefni í fullu starfi sem blaðakona og ritstýra Smugunnar, sem einsog allir vita sem komið hafa nálægt blaðamennsku er ekki beinlínis neitt sem maður sinnir í hjáverkum – það er að segja allir nema „blaðamenn“ AMX, sem virðast halda að hún sitji sveitt við skrifborðið og lesi um viðbragðsáætlanir á Haítí milli þess sem hún ritstýrir Smugunni, með óeirðaskjöldinn frá Alcan hangandi á veggnum.

Að þeim skuli einu sinni láta detta sér það í hug er svo frámunalega heimskulegt að það jaðrar við að vera krúttlegt. Illfyglunum væri nær að kynna sér hvort boðið sé upp á námskeið í hamfarastjórnun fjölmiðla, svo þau geti hætt að gera sig síendurtekið að fífli. Fyrsta ráðið er grundvallaratriði í fréttamennsku og það fá Friðbjörn Orri og félagar ókeypis: kannið staðreyndirnar áður en þið skúbbið!

One thought on “Hamfarastjórnun illfyglanna”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *