Minni kvenna – árshátíð Mímis 2007

Á hverri árshátíð Mímis, félags stúdenta í íslenskum fræðum, eru flutt minni bæði karla og kvenna. Fyrsta veturinn minn í íslenskunni var ég beðinn að flytja minni kvenna. Oft hefur fólk rifjað þetta upp við mig í samræðum og hvatt mig til að birta ræðuna sem fræg sé að endemum, einhverra hluta vegna. Og nú loks við að hreinsa út pósthólfið mitt fann ég minni kvenna af árshátíð Mímis 2007 og er ekki frá því að pistillinn hafi bara elst nokkuð vel. Gjörið svo vel:

Án kvenfólks væri ég ekki til. Þótt ekki væru fleiri ástæður til ber ég þónokkrar taugar til kvenna. Fyrir svo hátíðlegt tilefni sem árshátíð Mímis er fannst mér þó tilfinningarökin hrökkva skammt til, svo ég ákvað að leggja á mig eilitla rannsóknarvinnu. Því stendur til efnda að sýna fram á mikilvægi kvenna með vísindalegum hætti – með tilvísunum og öllu. Í því augamiði verður helst stuðst við rannsóknir fræðimanna af Elmtarydskólanum á sviði þverfaglegra samanburðar-fræða.

Eðlilegt hlýtur að teljast að hefja slíka umfjöllun á Íslandi, og þá ekki síst á þeim íslensku handritum sem einu nafni eru nefndar Íslendingasögur. Margan fróðleik má í þeim finna en eitt stendur þar upp úr sem vakti sérstaka athygli mína: Í Íslendingasögum eru konur reglulega nefndar drengir.

Feminískir norrænufræðingar, svo sem Torben Isaksen, líta svo á að þær konur sem töldust til skörunga hafi einar þótt viðurkenningar feðraveldisins verðar, og því nefndar drengir til að varpa ljósi á karllegt eðli þeirra, til aðgreiningar frá teprunum (Isaksen, 1971). Hins vegar er það eindregin skoðun undirritaðs að ekki einungis sé það helber misskilningur, heldur hafi því beinlínis verið öfugt farið; nefnilega að það hafi verið svo eftirsóknarvert að vera kvenmaður á Íslandi, að karlmenn yfirfærðu hið karllæga yfir á kvenkynið í því augamiði að geta sjálfir að nokkru leyti öðlast kvenleika. Þetta fyrirbæri nefnist afturbeygð yfirsjálfsfærsla og er klassískt minni meðal póstfreudískra bókmenntafræðinga (Süskind, Stockmann og Häuser, 1988).

Þar að auki, með agnarlítilli etymólógískri staðreyndatilfærslu, má færa rök fyrir að orðið ‘drengur’ sé dregið af frumforngelíska nafnorðinu ‘drangloch’, sem merkir stúlka. Að samanlögðu þessu tvennu eru konur ekki menn en drengi gæti eðlilega dreymt um að verða stúlkur.

Á tímum mýkeneumenningarinnar á Krít þótti einnig eftirsóknarvert að vera kona, svo lítið sé sagt. Af freskum konungshallarinnar Knossos má sjá að karlmenn gengu um í pilsum og létu hár sitt vaxa sítt. Mýkenar fundu ennfremur upp vatnssalernið til að gæta fyllsta hreinlætis kringum sig, og hefur kynjafræðingurinn Susan Samstag gert því skóna að hönnun þess beri merki kvenlegs hugvits. Ennfremur hafa rannsóknir hennar bent til að konur hafi í raun drottnað yfir karlmönnum ekki einasta á Krít, heldur um gjörvallt Eyjahafið (Samstag, 1931). Fræðimenn á sviði fagurfræða hafa tekið undir þetta sjónarmið og m.a. bent á að konur eru langtum fallegri en menn, og því sé það alls ekki ólíklegt (Richards og Merryweather, 1958). Auk þess er almennt viðurkennt innan sagn- og stjórnmálafræði, að lýðræðishefðin eigi ekki einungis uppruna sinn að rekja til Grikklands, heldur til niðja forngrísku kvennanna beinlínis (Frederiksen, 1941; d’Montagnan, 1975).

Arfleifð Grikkja og Íslendinga eru þannig að nokkru samtvinnuð. Í Völuspá leitar vitrasti karl allra karla ráða hjá kvenmanni, í Þrymskviðu klæðir Þór sig í kvenmannsföt til að endurheimta sjálfsmynd sína – klassískt dæmi um afturbeygða yfirsjálfsfærslu – og í Snorra-Eddu er það kona sem ræður úrslitum um hvort sjálfur guðinn Baldur fær að lifa. Í grískri goðafræði sést það þó ef til vill gleggst hversu mikilvægar konur eru, á því að guðirnir heillast af konum, en fyrirlíta karla svo mjög að þeir láta erni kroppa úr þeim innyflin. Gáfuðustu, fegurstu og sterkustu grísku guðirnir eru jafnframt konur, og allt frá árdögum hefur karlmenn dreymt um að komast til viðlíka paradísar og kvenríkisins Lesbos.

Að ofanfengnum niðurstöðum dregnum saman má komast að þeirri heildarniðurstöðu að konur séu rót sjálfrar siðmenningarinnar; þær eru alltumlykjandi í mannkynssögunni, þær skapa hugræn og lífeðlisfræðileg skilyrði fyrir jafnt getnaði og þrifnaði karlmanna, og síðast en ekki síst eru konur þekkt trúar- og bókmenntaminni. Af nógu er að taka.

Það er því eindregin niðurstaða mín, í samræmi við samantekt á rannsóknum víðsvegar um heiminn, að konum verði aldrei sýndur nægur sómi, að sér lifandi eða látnum, og legg ég til að viðstaddur karlpeningur lyfti glösum sínum hátt á loft, til heiðurs hinum undurfögru og fullkomnu kvenbetrungum vorum. Skál!

Afbakanir og útúrdúrar

Það fyrsta sem ég fékk að heyra þegar ég vaknaði var að Pressan hefði birt frétt um mig. Það næsta sem ég gerði til að fullkomna stundina var að selja upp umtalsverðu magni af blóði í vaskinn. Líkaminn hefur sjálfsagt séð þetta fyrir og brugðist við með viðeigandi hætti. Fréttin er svo illa skrifuð að hún afbakar (óviljandi?) það sem ég sagði í greininni sem hún er unnin upp úr.

Mér hundleiðist að vera í fjölmiðlum. Nema að sjálfsögðu þegar ég gef út bækur, en þá hafa fjölmiðlar engan áhuga á mér. En þetta er semsé langt því frá í fyrsta sinn sem meintir fjölmiðlar afbaka eitthvað sem ég hef sagt og aldrei bregst það að mér finnst ég vera skítugur eftir á. Ennþá verri er tilfinningin fyrir það að sjá nafnið mitt letrað í Pressunni.

Umræðurnar hafa að ósynju mest snúist um Tómas Guðmundsson. Þrisvar hef ég útskýrt djókið en aftur spyr fólk sömu spurninganna. Ef til vill er það þetta með lesskilning og þrjátíu prósentin.

Enn aðrir hafa viljað kenna efni greinarinnar við danskan húmor, þeirra á meðal náungi sem játar að sín reynsla af lesbíum einskorðist við tölvuskjáinn um borð í togaranum. En auðvitað á það ekkert skylt við húmor þegar samfélagið gefur konum hvarvetna þau skilaboð að þær séu túttur og píkur fremur en manneskjur. Það getur hver sagt sér sjálfur.

Á íslensku má alltaf finna orð

Stelpurnar kölluðu á athygli mína rétt í þessu. Þegar hún var fengin spurði sú yngri þá eldri hvort hún vildi kynnast sér. Sú eldri játti því og þær nudduðu kinnunum saman, eða „gerðu a“ einsog það hét víst eitt sinn.

Á sunnudaginn heyrði ég svo hið frábæra orð pomsur í fyrsta sinn. Pomsur eru hraðahindranir, nefndar svo af því maður „pomsar svona niður“.

Óþekkt fólk og horfið

Á Háskólatorgi er jafnan gaman, enda þótt byggingin sé ein sú ljótasta á landinu öllu. Þar er margt um manninn og oftast hitti ég fólk sem ég þekki, í dag hitti ég t.d. málvísindanemuna knáu hana Silju Hlín. Vanalega hitti ég þó mun fleira fólk sem ég þekki ekki neitt, eða man a.m.k. ekki eftir. Þá er lítið annað að gera en að heilsa á móti, brosa sínu blíðasta og vona að ekki komi til samræðna. Þetta hefur hent mig fjórum sinnum í dag. Getur kannski verið að ég þekki alls ekki allt þetta fólk?

Kannski ég ætti bara að biðja um að allir kynni sig alltaf fyrir mér einsog í fyrsta skipti og dikti upp nafn á þessa fötlun mína.

Gamlir kunningjar halda áfram að deyja, ýmist af slysförum eða fyrir eigin hendi. Fyrst frétti ég fyrir tilviljun af einum sem vann með mér í ríkinu forðum. Síðar sóttum við fíluna saman þegar hann ákvað að klára loksins sagnfræðina. Hann velti bílnum sínum fyrir rúmum þrem árum. Þá var einn sem ég vann með á Borgarspítalanum og hefur greinilega liðið illa. Hann fór í sumar, blessaður strákurinn.

Skrýtið þegar fólk fer svona.

Svör við algengum spurningum

Stundum fæ ég fólk inn á síðuna mína í leit að svörum við áleitnum spurningum sem brenna á þeim. Ég hef nú ákveðið að svara sumum þessara spurninga svo næsta manneskja sem leitar hins sama grípi ekki í tómt:

Hvað er hryðjuverkasamtök?
Samtök fábjána með óljós en ofbeldisfull markmið. Sem dæmi má nefna Samtök atvinnulífsins og Landssamband íslenskra útvegsmanna.

Kosningaseðill forsetakosningar?
Þú finnur hann á kjörstað. Kosið verður í júní. Gangi þér vel að merkja á seðilinn.

Blóðflokkar á Íslandi?
Þeir sömu og annarsstaðar í heiminum. Nánari upplýsingar um ABO- og rhesuskerfin má finna hér.

Verðlistinn Laugalæk?
Já, hann er við Laugalæk. Þessa dagana er líka sérstök útsala við Grensásveg þar sem HP-húsgögn voru áður (en þú fæddist).

Ferming

Amma mín á Akureyri sagði alltaf við mig áður en við fórum að hátta: „Nú skulum við hvíla lúin bein.“ Það brást ekki að mér fannst ég finna fyrir því hversu lúið hvert bein í líkama mínum var í hvert sinn sem hún sagði þetta og syfjan seig fljótt á. Stundum virkar þetta ennþá ef ég á erfitt um svefn, að hugsa til ömmu minnar, sem nú er 86 ára og þ.a.l. opinberlega drullugömul (hún fæddist og ólst upp í torfkofa). Sú gamla hefur búið ein síðan afi dó fyrir rúmum 20 árum og gerir enn, sem ég held að hljóti að vera einhverslags met.

Þess mun þó ekki þurfa við í kvöld að hugsa til hjónarúmsins hennar ömmu minnar þar sem beinin eru ekki bara lúin, heldur líður mér einsog eftir fjallgöngu og heilinn er gjörsamlega í steik. Það gerir undirbúningur síðustu daga (ekki það að ég hafi gert nema brot af því sem aðrir lögðu til) og loks það sem að var stefnt: ferming Védísar í dag! Ólíkt þeim fermingum sem ég hingað til hef sótt komst ég við í þessari og fylltist bjartsýni og hlýju. Fermingarbörnin sáu sjálf um tónlistar- og ljóðaflutning og hinir fullorðnu skipuleggjendur voru í eins miklu aukahlutverki og hægt var. Mikið var þetta fallegt.

Og fyrir þessu hefur fólk fordóma (það fólk veit hvað það má éta fyrir mér). Þetta er kallað „borgaraleg ferming“. Það er eintómt bull, þetta er ferming og flóknara er það ekki. Þegar ég var á fermingaraldri var „borgaraleg ferming“ representeruð einsog það væri bara fyrir fábjána á sósjalnum og því kom það aldrei til greina. Ég dauðsé eftir því núna. Heldur að fylgja hjartanu og vera talinn fábjáni en að fylgja einhverju sem maður í grundvallaratriðum er ósammála. Ferming er annað og miklu meira en oft er gefið í skyn og það á að una þeim skoðunar sinnar sem kjósa að láta ferma sig, sama með hvaða hætti það er gert.

Svo hljóðar hið mannlega orð.

Sunnan verir sigldu

Iðulega hef ég rétt misst af gönguljósinu þegar ég kem að gangbrautinni við Hamrahlíð og Kringlumýrarbraut. Þá ýti ég á takkann, en oft myndast einmitt þá gap í umferðinni sem ég gæti hæglega smogið mér í gegnum. En mér finnst eitthvað svo ókurteist að nýta ekki ljósið til neins svo ég bíð uns yfirleitt uns það kemur, bara svo bílstjórarnir fái eitthvað fyrir sinn snúð. Svona er ég góðhjartaður.

Við þessi sömu gatnamót liggur Suðurver. Það eru ekki margir sem vita að Suðurver er kennt við bæ fyrsta Spánverjans sem settist að á Íslandi á 13. öld, eða einsog segir í kvæðinu: „Sunnan verir sigldu / sölu Mára frá.“ Því miður náði kvæðið ekki útbreiðslu utan suðvesturlands fyrr en með bættum samgöngum á 19. öld. Vestfirðingar vissu auðvitað ekki af hinu íslensk-hispaníska menningarsamfélagi sem hafði þróast á suðvesturhorninu, og hefði kvæðið borist til Vestfjarða hefði því mátt komast hjá Spánverjavígunum á 17. öld, en með þeim lauk menningarsambandi Íslands og Spánar uns skreiðarútflutningur komst í hámæli um aldamótin 1900. Er fallandi munnlegri kvæðahefð jafnan kennt um en kvæðið er varðveitt í pappírseftirskrift frá 18. öld. Til þess voru hagyrðingar fundnir upp að sporna við samskonar misskilningi þaðan í frá, og upp úr því umhverfi spratt Sigurður Breiðfjörð, til hins betra eða verra eftir því hver mælir um.

Annars er fermingarundirbúningur í hámarki hér í Bogahlíðinni. Það er mikið verk að pússa silfur, og smáborgaratilfinningin sem hellist yfir mann á meðan er óviðjafnanleg. Svo lengi sem það er það eina sem hellist yfir mann, en ég að sjálfsögðu sullaði silfurpússi í hvítu skyrtuna sem ég asnaðist til að vera í á meðan. Og á buxurnar. En bakkinn sem Eyja keypti á þúsundkall í Góða hirðinum er í það minnsta farinn að skína undan tæringunni. Til þess nefni ég verðið og sölustaðinn að skola af mér smáborgaratilfinningunni. Hvort silfurpússið skolist af fötunum mínum er aftur önnur og ef til vill flóknari spurning.

Stúdentslíf

Við erum okkar eigið kaffihús. Mölum baunir og möllum í espressókönnu, flóum mjólk og þeytum. Tveir svona á dag síðustu 8 mánuði og ég er allt í einu orðinn kresinn á kaffi sem ég fæ afgreitt á kaffihúsum. Segir maðurinn sem lifði á neskaffi og hafragraut lungann úr síðasta vetri og kvartaði ekki.

Ekki alveg hin staðlaða námsbók
Ég sé ennþá stúdentslífið fyrir mér í hillingum: kaffi mallandi á könnunni, stóra harðspjalda bók með flóknum titli (The Reverberance of Post-Structural Androcentric Consumerism in Neo-Classical Literature, svo ég búi til titil) og límmiðum og merkipennastrokum af allskyns litum, og einhverja vælandi hipsteratónlist á bergmáli um pínulitla íbúðina. En þessir löngu dagar af lærdómi í rólegheitunum eru ekki endilega daglegt líf stúdenta. Að minnsta kosti hef ég verið stúdent í sex ár og aldrei upplifað einn slíkan dag nema undir gríðarlegu álagi. Auk þess fatta ég ekki að fólk vilji eyðileggja bækur með merkipennum. En það er gaman að varðveita ímyndina af makindalífi stúdentsins. Eru þeir ekki alltaf í vísindaferðum?

Post-grad lífið er held ég bara nokkurn veginn alveg eins, nema með meiri ábyrgð, enginn sem segir manni hvað maður á að gera eða hvernig. Bækurnar fá smámsaman einfaldari titla eftir því sem maður sjálfur skilur þá betur (á borðinu hennar Eyju er sú sniðuglega titlaða bók Educating Reason), yfirsýnin eykst en jafnframt eykst sú tilfinning því meira sem maður lærir að maður viti sífellt minna.

Fjálglegum samræðum fækkar með aukinni þekkingu, best að segja sem minnst án viðhlítandi rökstuðnings. Maður sekkur dýpra í lærdóminn og verður eitt spurningarmerki í framan sé maður spurður hvað maður geri, óttinn við að kunna ekki lengur íslensku grípur um sig. Rakarinn minn fræðir mig í óspurðum fréttum um Ísland á miðöldum af því ég get ekki áætlað mér tíma fyrir eigin fyrirlestur og andsvör neðan úr rakarastólnum. Hann veit ekki að ég er að ljúka meistaraprófi.

Gamall vinur býður mér í kaffi og spyr hvað sé að frétta. Ég kem ekki upp orði. Hvað er að frétta, annað en það nýjasta í þessari obskúr rannsókn minni? Eftir langa þögn: Jú, ég skrapp til Danmerkur um daginn. Hvernig var? Uhh … Næst fer ég að segja fólki frá bíltúrum í Hafnarfjörð eða álíka bara til að tala um eitthvað annað en Íslendingasögur.

Samt hefur mér aldrei þótt lífið vera eins spennandi og einmitt núna, það er spennandi af því það er rólegt, af því smáu atburðirnir eru í raun þeir allra stærstu og áhugaverðustu sem lífið hefur upp á að bjóða. Þeir eru hinsvegar ekki fréttnæmir, sem í sjálfu sér er líka ágætt.

Lífið er tveir kaffibollar á dag, malaðir úr baunum og mallaðir á espressókönnu, með flóaðri og þeyttri mjólk. Það er ekkert að frétta. Kannski er það stúdentslífið sem ég sá svo í hyllingum.

Sumardagurinn fyrsti

– var í raun á þriðjudaginn, a.m.k. hvað veðrið snertir. Eftir aðeins eitt ár í Danmörku, þar sem ég upplifði ekki beinlínis neina frídagahelgi, er ég orðinn alveg ringlaður í þessum íslensku frídögum. Ég hélt t.d. ekki að neinn héldi upp á sumardaginn fyrsta lengur nema hið opinbera, og hef haldið það í ein 20 ár. En þetta er víst einsog hver annar sunnudagur, og meðan ein kynslóð teygir sig eftir afréttaranum fer sú næsta á undan með börnin niður í bæ að horfa á skrúðgöngu! Aldrei hafði ég heyrt af því fyrr en í dag. Í mínum huga var þetta alltaf bara dagurinn þegar hjólið var dregið fram undan vetri.

Annars segir það ýmislegt um mig að mér finnst orðið fullmikið að detta í það á miðvikudagskvöldi bara af því það er frí daginn eftir, helgin rétt liðin og sú næsta rétt að koma. Raunar finnst mér orðið fullmikið af ansi mörgu. Kannski er það bara netið.

Þessa dagana er ég smátt og smátt að enduruppgötva Reykjavík. Rölti með Eyju út á Laugarnestanga á sunnudaginn – ég bjó hinumegin götunnar í 16 ár en hafði aldrei farið svona langt yfir tóftirnar – úteftir Sundahöfn og upp aftur við Sælgætisgerðina Völu sem er víst flutt eitthvert annað. Þar sníktum við strákarnir stundum nammi á árum áður.

Í gær rölti ég svo ofan úr Hlíðum niður í gegnum Laugardalinn og upp í Sólheima með stærðarinnar bókasafnspoka sem rifnaði á leiðinni. Miðasölubásarnir við Laugardalsvöll eru horfnir, en ljóta „torgið“ með bekkjunum og runnunum sem var hlaðið við gamla Laugarveginn 1994 er enn á sínum stað og í sömu órækt og það hefur verið síðastliðin 16 ár. Það vó aðeins upp á móti hinu sem hafði breyst. Fullt af fólki mun hafa verið að skoða skepnur í Húsdýragarðinum síðustu vikuna en þegar ég fór hjá var allt í lás. Þó er einsog mig minni að þar hafi jafnan verið opið á sumardaginn fyrsta svo kannski verður þar eitthvað af fólki á morgun að krútta úr sér þynnkuna.

Sjálfur fer ég líklega bara út að hjóla, einsog ég átti vanda til á þessum degi einhvern tíma á síðustu öld.

Orðræðu- og innihaldsgreining myndasagna

Ég hef ákveðið að orðræðu- og innihaldsgreina nokkrar vinsælar myndasögur nákvæmlega. Hér eru niðurstöðurnar hingað til. Þær eru hafnar yfir vísindalegan vafa: nákvæmlega svona eru allar sögur hvers myndasöguflokks (92% vikmörk). Smellið á myndirnar til að stækka.

Grettir: Jón á kött sem borðar, sérstaklega það sem hann á ekki að borða.

Ívar grimmi / Hrólfur hræðilegi: Víkingur vill drekka og herja, en hann á konu sem vill að hann sinni húsverkum.

Pondus: Ógeðslegir gaurar að gera ógeðslega hluti meðan þeir horfa á fótbolta og drekka bjór.

Gelgjan / Zits: Unglingar eru leiðinlegar gelgjur.

Ljóska: Dagur er latur og Ljóska er ekki hrifin af því.