Afbakanir og útúrdúrar

Það fyrsta sem ég fékk að heyra þegar ég vaknaði var að Pressan hefði birt frétt um mig. Það næsta sem ég gerði til að fullkomna stundina var að selja upp umtalsverðu magni af blóði í vaskinn. Líkaminn hefur sjálfsagt séð þetta fyrir og brugðist við með viðeigandi hætti. Fréttin er svo illa skrifuð að hún afbakar (óviljandi?) það sem ég sagði í greininni sem hún er unnin upp úr.

Mér hundleiðist að vera í fjölmiðlum. Nema að sjálfsögðu þegar ég gef út bækur, en þá hafa fjölmiðlar engan áhuga á mér. En þetta er semsé langt því frá í fyrsta sinn sem meintir fjölmiðlar afbaka eitthvað sem ég hef sagt og aldrei bregst það að mér finnst ég vera skítugur eftir á. Ennþá verri er tilfinningin fyrir það að sjá nafnið mitt letrað í Pressunni.

Umræðurnar hafa að ósynju mest snúist um Tómas Guðmundsson. Þrisvar hef ég útskýrt djókið en aftur spyr fólk sömu spurninganna. Ef til vill er það þetta með lesskilning og þrjátíu prósentin.

Enn aðrir hafa viljað kenna efni greinarinnar við danskan húmor, þeirra á meðal náungi sem játar að sín reynsla af lesbíum einskorðist við tölvuskjáinn um borð í togaranum. En auðvitað á það ekkert skylt við húmor þegar samfélagið gefur konum hvarvetna þau skilaboð að þær séu túttur og píkur fremur en manneskjur. Það getur hver sagt sér sjálfur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *