Svikaraheilkennið

Hvenær hugsar maður of mikið um einhvern einn hlut, eða eitthvert eitt mengi hluta? Hvenær nálgast áhugi á einhverju afmörkuðu efni þráhyggju gagnvart því? Retóríska spurningin hvort ég vissi að til væri fólk sem tæki sér frí um helgar hafði enga merkingu fyrir mér á sunnudaginn sem var; það fólk hlyti bara að vera í leiðinlegri vinnu.

En ég átta mig betur á því núna þegar það hefur fengið að gerjast aðeins að auðvitað nær það ekki nokkurri átt að sunnudagsplanið nái ekki lengra en að göngutúr í snjónum – með Radiolab í eyrunum – upp Eiríksgötu, niður Þórsgötu og Baldursgötu að Laufásvegi, Bragagötu að Sóleyjargötu og gegnum Hljómskálagarðinn að Þjóðminjasafni, inn á Bókhlöðu að erindagjörðast og hlamma mér svo niður í Gimli með rjúkandi (nes)kaffibolla og njóta fræðistarfa. Æ, þetta var allt svo notalegt samt.

Staðreyndin er sú að ég gaf upp á bátinn framtíðarstarf til að leita mér frama á einhverjum aðgangsharðasta vettvangi sem um getur, þar sem samkeppnin er gríðarleg, og á versta mögulega tíma í efnahagslegu tilliti. Ekki þar fyrir að aðstæður verði endilega betri héðan af – þróunin er í þá átt að smámsaman láta háskólunum, sér í lagi hugvísindadeildum, blæða út í stað aukinnar innri samþættingar, hagræðingar og fjölgun býrókrata. En ég á ekki við það, í þessu samhengi.

Ég er á sjöunda ári í háskólanámi sem gagnvart Íslendingum telst vera íslenskunám en gagnvart öllum öðrum norrænunám. Að því loknu taka við styrkumsóknir og hark í mörg ár áður en mér tekst að troða mér inn í háskóla á botninum hvaðan ég vinn mig upp eftir því sem eldist úr stéttinni. Ég verð „of hæfur“ fyrir flest önnur störf en þetta eina sem þráhyggjan keyrir mig áfram til að mennta mig til að sinna. En sú staðreynd er það síðasta sem ég reyni að hugsa um.

Næstu (tæpu) fjögur ár fæ ég að búa í bólu síðustu námsáranna. Þá hugsar maður um aðra hluti en að fá ekki vinnu eftir vörn, einsog það hversu lélegur fræðimaður maður er samanborið við alla aðra. Það kallast svikaraheilkenni og er mjög algengt fyrirbæri. Ég þarf ekki aðeins að standast mínar eigin kröfur, heldur þarf ég að vinna mig upp í að verða eins fær og allir í kringum mig – sem er víst alger tálsýn en það gleymist annan hvern dag. Mest er baráttan við eigin kröfur, eða öllu heldur slagurinn um að reyna að standast þær. Og svo rankar maður við sér einn góðan veðurdag og uppgötvar að maður mun aldrei standast þær. Kröfurnar eru óraunhæfar. Rannsóknin felur aldrei allt það í sér sem hún ætti að gera. Efnið verður aldrei tæmt og fókusinn þrengist ennfremur dag frá degi. Hið almenna hverfur og leysist upp í –– kannski eitthvað allt annað en lagt var upp með í upphafi.

Og hvað gerir maður þá? Ekkert, nema að mæta næsta dag aftur í vinnuna og halda áfram að puða. Þráhyggjan skilar einhverju að lokum, og vonin er að eftir tíu ára háskólanám hafi mér tekist að ná utan um nokkurn veginn það lágmark sem mér finnst boðlegt að miðlungs akademískur ræfill hafi tök á. Og helst miklu meira en það.

En þessar kröfur koma ekki utan frá, og þær eru ekki algerlega mín eigin uppfinning heldur; þær eru afleiðing þess að hafa oftar en einu sinni verið í þeim sporum að hvorki ég né aðrir höfðu trú á mér til nokkurs, af því ég féll í framhaldsskóla ekki einu sinni, heldur tvisvar, og í kjölfarið upplifði ég afar sterka en ímyndaða niðurlægingu vegna þess. Ég upplifði tilfinningar sem ég skildi ekki en ég tel nú að hafi verið kvíði og jafnvel væg, áunnin félagsfælni. Það gekk svo langt að ef manneskja sem ég mætti brosti, til mín eða einhvers annars, þá var því á einhvern hátt beint gegn mér. Það gat ekki annað verið en að allir væru að horfa á mig, öllum stundum, og henda gaman að mér. Þetta er það versta sem ég hef upplifað og ég er stundum ekki viss um hvort ég hafi nokkru sinni jafnað mig alveg.

Á dögunum var mér boðið í furðulegt samkvæmi þar sem ég var spurður hvað ég gerði. Það er versta spurning sem ég gæti fengið. Annað hvort fylgir því framhaldsspurningin hvað ég geti nú gert við þá menntun, eða þá að ég þarf að reyna að útskýra rannsóknina mína. Í þetta sinn fékk ég í fyrsta skipti þau viðbrögð að spyrjandinn hopaði, sagði „Vóó“ og lét einsog ég væri alltof fínn fyrir þetta partí – annað hvort það eða þá að ég hafi verið það hrokafullur að hafa sett mig á háan hest yfir hann og alla aðra. Eða eitthvað. Ég benti honum á að ég væri nú bara námsmaður. „En þér nægir greinilega ekki masterinn!“ sagði hann þá, og ég skildi ekkert hvað hann átti við. Og þar með upplifði ég í fyrsta sinn að vera orðinn „reject“ hinumegin frá – pottþétt sömuleiðis bara mín upplifun en ekki hans, einsog með niðurlæginguna forðum.

Það er til fólk sem tekur sér frí um helgar. Ég er enn að velta því fyrir mér hvers vegna ég geri það ekki. Þetta er einsog með hraðaksturinn: það munar kannski örfáum mínútum að aka 30km hraðar en löglegt er. Sama gildir um það hvort maður mætir á skrifstofuna um helgar eða ekki þegar þetta er fjögurra ára prósess hvort eð er. En –– ég á bágt með tilhugsunina um að taka mér of mikið frí. Ég er nýkominn úr jólafríi sem endist mér allt árið, tel ég mér trú um. Sú tilfinning felst öll í vanmættinum sem ég enn finn stundum fyrir. Af því að eins vont og það var þegar enginn hafði trú á mér, þá var það ennþá verra þegar ég hafði ekki trú á mér sjálfur. Og kannski snýst þetta blogg dálítið um það. Baráttuna við að halda trúnni.

Ég veit alveg að ég get þetta, að ég er fær. Ég veit það bara mismikið eftir því hvaða dagur er og hvorumegin ég fer fram úr rúminu þann daginn. Á hinn bóginn er það þegar ég er hvað mest viss um eigið erindi í fræðunum að ég mæti í vinnuna á sunnudegi. Hvernig ætli standi á því?