Lestur og bókasöfn

Ég skil ekki hvernig ég hef komist svona langt í námi án þess að hafa lesið meira. Samt er mér fyllilega ljóst alltaf þegar ég les nýja bók hvar ég er ósammála höfundi og hvar ekki, og gæti skrifað heila ritgerð um forsendur mínar í hvert sinn. Fræðirit eru ígrundaðar ályktanir kollega minna sem oftast nálgast efnið úr annarri átt en ég myndi gera. En mér finnst ég eiga að hafa lesið allt sem allir hafa skrifað hingað til samt sem áður. Ekki það að neinum entist ævin til þess þótt hann vildi.

Eina rétta svarið við spurningunni „Hefurðu lesið allar þessar bækur?“ er: Nei, auðvitað ekki. Umberto Eco lýsti því einhversstaðar þannig að hans eigin gríðarstóra bókasafn sé ekki safn þess sem hann hafi lesið heldur sé það ætlað til rannsóknarvinnu, og að það sé umtalsvert meira virði að eiga ólesnar bækur en lesnar. Ég er ekki endilega sammála þessu um ólesnu bækurnar, en bókasöfn eru í eðli sínu rannsóknarstofnanir en ekki verðlaunagripir. Ef ég fengi að lifa svo lengi að ég gæti lesið allt sem ég nú þegar á þá yrði ég þakklátur, en það mun ekki verða. Ég byggi upp mitt bókasafn á sömu forsendum og Eco.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *