Ungur í anda, það er ég

Alltaf í upphafi haustmisseris er mikið um að vera á Háskólatorgi. Heil reiðinnar býsn af nýnemum, þriðjungur af hverjum sést ekki aftur eftir almennuna, ryðjast um rýmið (hinir fáu hugvísindanemar þekkjast oft á Fjällrävenbakpokanum). Hljómsveit sem einhver hélt að væri vinsæl en var í rauninni vinsæl fyrir fimm árum spilar lög sín í þessu rými sem aldrei var hannað með hljómburð í huga. Þetta á að gefa fögur fyrirheit um komandi fjör á skólaárinu; næst á dagskrá er svo Októberfest í september af því það verður of kalt til að halda það í október, og raunar á Októberfest SHÍ ekkert skylt með þeirri hátíð nema nafnið.

En síðan lognast þetta hratt út og við tekur kaldur, grár raunveruleikinn. Ég er afar hlynntur köldum, gráum raunveruleika. Að minnsta kosti samanborið við haugafulla fyrsta árs nema júbílerandi á háskólalóðinni einsog á útihátíð. En mér þykir raunar nóg um að fá Bubba eða eitthvað þaðan af verra til að taka lagið yfir hausamótunum á manni í hádeginu; það væri sök sér ef Háskólatorg væri ætlað undir slíkan flutning í stað þess rétt fokhelda gímaldins sem það er. Og nú þegar Stúdentakjallarinn hefur tekið við drjúgum hluta úr félagslífinu finnst mér loksins einsog stemningin sé orðin góð, jafnt uppi sem niðri, einsog orðið hafi einhvers konar menningarleg útjöfnun. Allt hið besta mál.

Svo er víst líka kominn mars, fyrir utan að vormisserið er alltaf umtalsvert rólegra en hitt á haustin. Svo breytist Háskólinn að vísu aftur í FB í haust en maður tekur því einsog hverju öðru hundsbiti. Og ef einhverjum þykja þetta gamaldags viðhorf sem ég viðra hérna þá þykir mér hann ennþá heldur hafa misst af einhverju karlinn með Hitlerskeggið sem ég mætti í Bóksölu stúdenta um hálftvöleytið.