Ráðstefnur

Á mánudaginn held ég til hins mikla útlands á ráðstefnu, eða reyndar tvær ráðstefnur. Það er fátt sem fær mann til að þykja maður sjálfur jafn merkilegur og ráðstefnuferðir með sínum hótelum, faglegu umræðum og hálfdrukknu kollegum. Maður situr meiraðsegja öðruvísi í flugvélum þegar maður heldur utan á ráðstefnu en þegar maður fer í frí. Maður er einbeittari, betur til hafður, samt kankvíslegur. Í DV um daginn var frétt um að stór skrifborð ykju siðleysi fyrirtækjastjórnenda. Mér finnst ekki ósennilegt að ráðstefnur hafi svipuð áhrif á sjálfsmynd fræðimanna, að minnsta kosti þangað til þeim er slátrað uppi í pontu fyrir að segja steypu.

Kannski er það bara hótelið. Það skiptir engu máli hvað hótelherbergi kostar, manni líður alltaf einsog ventúrkapítalista þegar inn er komið, og fólkið á götunni niðri er einsog iðandi maurar hvort heldur sem herbergið er á tólftu hæð eða þeirri næstu ofan við anddyrið. Míníbarinn æpir: „Tæmdu mig! Þú hefur ráð á því.“ Tekst alltaf að telja einhverjum trú um að það sé satt. Svo er skrifað blindandi undir reikninginn síðar.

Því fleiri ráðstefnur sem maður sækir því kunnugri er maður þeim týpum sem þar lifa og hrærast. Til dæmis er náunginn sem kinkar kolli af offorsi undir fyrirlestrum líkt og salurinn megi ekki án hans samþykkis vera. Það er líkast slammi á rokktónleikum. Maður býst hálft í hvoru við að höfuðið losni af og rúlli að púltinu. Oft glósar slammarinn af græðgi en reynist þegar öllu er á botninn hvolft vera manna krítískastur í fyrirspurnatímanum. Nær undantekningalaust Bandaríkjamaður.

Önnur týpa er þýski doktorsneminn. Hann hefur aldrei rangt fyrir sér af því hann fjallar aðeins um grundvallaratriði, en gerir það raunar ítarlega. Talar af staðfestu og fullvissu og hefur lærdómstitilinn M.A. á undan nafninu sínu í neðra vinstra horninu á glærunum. Fer í kerfi ef einhver spyr spurningar út fyrir kjarna efnisins. Svo er gamli jaxlinn sem lætur engan segja sér hversu lengi hann má tala og talar langt umfram tímann í óþökk allra, en hann er raunar sjaldséður orðinn. Leiðinlegastur þykir mér lykilræðumaðurinn sem hlotnast sá heiður að halda þriggja kortéra ræðu um ekkert og gerir sitt ítrasta til að beina málinu að sjálfum sér.

Ég mun að sjálfsögðu hafa uppi mína þeófrastísku týpubók og haka við þær týpur sem bregður fyrir, jafnvel mun ég blogga um einhverjar þeirra ef ég þreytist á að fylgjast með maurunum út um gluggann á reyklausa hótelherberginu mínu. Þetta verða tvær ráðstefnur í jafnmörgum borgum og því mikillar spennu að vænta á blogginu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *