Fjórða heimsveldið – spennusaga

Trixið við að skrifa „fræðitrylli“ á við bækur Dans Brown er að hafa á hreinu einhverja eina hugmynd frá tilteknu tímaskeiði. Sú hugmynd er síðan tekin bókstaflega og yfirfærð á nútímasamfélag á tilteknum tíma. Síðan bætir maður við leynifélagi sem vill vernda þessa hugmynd, vegna þess að hún er leyndarmál, með öllum tiltækum ráðum. Aðallega samt með því að drepa leikmenn sem komist hafa að samsærinu. En einsog í Scooby Doo, þá mistekst þeim ætlunarverk sitt sökum einhverra afskiptasamra aðkomumanna.

Í okkar tilviki er það einhver fræðimaður sem þekkir aðeins kanóníseraða útgáfu hugmyndarinnar, en kemst fljótlega að leyndarmálinu – vegna þess einmitt að leynifélagið hefur myrt einhvern sem hann var kunnugur í gegnum fræðin. Okkar maður er í fyrstu fenginn til aðstoðar í málinu (af því ef einhverjir eru lögreglunni betri í að leysa morðmál, þá eru það tákn- eða sagnfræðingar) en verður síðan grunaður um að vera vitorðsmaður, ef ekki morðinginn sjálfur. En að lokum þá sigrar hann hinn aldagamla, morðóða karlaklúbb.

Ein svona hugmynd eru heimsveldin fjögur sem talað er um í spádómum Daníels í Biblíunni. Á miðöldum var sú hugmynd túlkuð sem svo að eftir fjórða heimsveldið myndi heimurinn farast, Kristur sneri aftur til að dæma lifendur og dauða mitt í stærsta stríði veraldarsögunnar á milli allra mannlegra afla og Andkrists. Fyrsta heimsveldið samkvæmt þessari túlkun var Babýlónía, næst Persaveldi, þá Grikklandsveldi Alexanders mikla, og loks Rómarveldi. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort það hafi ekki verið þægilegt eftir fall vestrómverska ríkisins á 4. öld að enn væri hægt að tala um austrómverskt ríki allt fram á 15. öld.

En: Hvað ef Róm var ekki fjórða heimsveldið? Hvað ef það eru sjálf Bandaríkin, og hvað ef Hvíta húsið er í rauninni angi af Musterisriddarareglunni og forsetinn sjálfur stórmeistari hinnar elstu stúku sem enn varðveitir Gralið? Þegar Lehman Brothers hrynur til grunna haustið 2008 stendur heimurinn allur á öndinni, en Hvíta húsið fer á yfirsnúning. Allir paníkera. Þekktur sagnfræðingur við Smithsonian kemst að hinu sanna í málinu en finnst myrtur við Lincolnminnisvarðann – kennileiti sem á eftir að spila stóra rullu í lok sögunnar.

Trúarbragðasagnfræðingurinn Kenneth MacNamara er fenginn bæði sem karaktervitni og fyrrum kollegi hins myrta sagnfræðings, en einnig sakir sérfræðiþekkingar á undarlegri stellingu sem líkið finnst í, en vinstri fótur vísar í austur meðan sá hægri er snúinn í norður. MacNamara ídentíferar stellinguna sem obskúr útgáfu af einhverjum skrattanum úr Rig Veda og allt í einu upphefst æsilegur eltingarleikur þar sem hann hittir óvænt einhverja kynþokkafulla en harða konu sem bjargar lífi hans tvisvar, hann hennar þrisvar, og sem mun leysa gátuna með honum að lokum en síðan hverfa úr lífi hans rétt einsog fyrrverandi konurnar hans átján og kristalshauskúpan. Eltingarleikurinn færir þau meðal annars til Íslands þar sem kenningar Einars Pálssonar koma að góðum notum og Árnastofnun brennur undan flýjandi fótum þeirra fyrir tilverknað illvirkjanna úr Washington.

Það sem ég vildi sagt hafa: ein lítil hugmynd kemur manni ansi langt. Það þarf ekki meira en þessa einu hugmynd og svo má styðjast við formúluna. Og nú gef ég þessa hugmynd hverjum sem skrifa vill. Þannig að ef Fjórða heimsveldið eftir Óttar Martin birtist skyndilega fyrir næstu jól, þá þætti mér það bara gaman.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *