Veraldarsögur

Ég nefndi veraldarsögur í bloggi í fyrradag. Þótt það segi sig að nokkru leyti sjálft hverslags bókmenntir það eru er kannski til nokkurs að segja samt lítillega frá þeim, hvað það er sem gerir þær að mínu mati að einna merkilegustu bókum sem til eru.

Veraldarsögur byggja á hugmynd heilags Ágústínusar frá Hippó um heimsaldra (lat. aetates mundi) sem oftast eru taldir vera sex, stundum sjö ef tíminn eftir heimsendi er talinn með.

Fyrsti heimsaldurinn er tíminn frá sköpun mannsins, Adams og Evu, fram að Nóa. Annar heimsaldurinn nær frá Nóa til Abrahams. Þriðji heimsaldurinn nær frá Abraham til Davíðs konungs og sálmaskálds. Fjórði heimsaldurinn nær frá Davíð til herleiðingar gyðinga inn í Babýlon. Fimmti heimsaldurinn nær frá þeirri tíð til fæðingar Krists. Sjötti heimsaldurinn hefst með Kristsburði og honum lýkur þegar hann snýr aftur við heimsendi að dæma lifendur og dauða.

Þannig hefjast veraldarsögur jafnan á sköpunarsögunni og þaðan er mannkynssagan rakin eftir Biblíunni, sem var talin vera eina örugga heimildin um veraldarsögu enda komin til okkar frá Guði. Inn í veraldarsöguna var svo jafnan fléttað öðrum sögulegum viðburðum sem voru þekktir úr heimildum sem taldar voru áreiðanlegar. Þannig er sögu Rómar, Alexanders mikla og Trójustríðsins — svo eitthvað sé nefnt — skeytt inn í frásögnina í tímaröð. Veraldarsögum líkur svo vanalega í samtíð skrifarans sjálfs, sem lifir á hinum sjötta og síðasta heimsaldri fyrir endalok veraldar. Í þeim skilningi er veraldarsögum ætlað að vera tæmandi frásagnir af sögu heimsins og mannsins. Það mætti að vissu leyti segja að menn væru að skrá það sem þekkt væri meðan þeir biðu eftir endalokunum (sem enn láta bíða eftir sér).

Sjálfstæð sagnarit sem saman mynda hluta úr eins konar stórri veraldarsögu hafa varðveist, svo sem Rómverja saga, Alexanders saga og Gyðinga saga. Þá mætti telja til svonefnd gervisagnfræðirit á við Trójumanna sögu, sem þýdd er eftir uppdiktaðri fyrirmynd Daresar Phrygiusar. Það er alveg ljóst að frumsamin íslensk sagnarit eru ekki rituð utan samhengis við hina þekktu veraldarsögu, en að hve miklu leyti þau eru framhald af henni eða viðbót við hana verður aldrei komist að með vissu. Það er einmitt í samhengi við þessa vitneskju um heiminn sem ég tel að eðlilegast sé að lesa konungasögur, Íslendingasögur og fornaldarsögur. Veraldarsögur eru okkur ekki síður ómetanlegar heimildir um hugsunarhátt miðaldamanna einmitt þess vegna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *