Registur síðustu mánaða

Einhverjum kann að þykja það skjóta skökku við að ég flutti til Kaupmannahafnar í þrjá mánuði til að sinna handritarannsóknum, en hafði frá engu að segja allan tímann á meðan sem mér þótti nægilega markvert. Annars vegar felst það í því að ég hef áður búið í Danmörku og gjörþekki það samfélag, þannig að fáar nýjungar urðu á vegi mínum meðan á dvölinni stóð; hins vegar liggur það í hlutarins eðli að í vinnuferðum gerir maður fátt annað en að vinna. Ég þuklaði þarna ýmis handrit, aðallega frá 14. öld, fann lyktina af þeim, las þau, greindi og túlkaði. Þess utan hélt ég þrjá fyrirlestra og reyndi annars sem best að njóta þess að dvelja í borginni sem ég eitt sinn elskaði umfram aðra staði. Dvöl mína kostaði danska ríkið í gegnum Árnanefnd og fyrir það verð ég eilíflega þakklátur.

Síðan ég bloggaði síðast hefur mér einnig hlotnast styrkur frá rannsóknasjóði Háskóla Íslands til þriggja ára. Þá þarf ég litlar áhyggjur að hafa af því að mér takist ekki að klára doktorsrannsóknina mína um skrímsli í íslenskum miðaldabókmenntum. Það hefur ekki lítið að segja að fá viðlíka stuðning. Það er algjörlega ómetanlegt. Mér til frekara halds og trausts fjárfesti ég í nokkrum bókum um ófreskjur fyrir óumræðanlega háa upphæð sem ég hlakka til að sökkva mér ofan í nú þegar þessar sem ég keypti í fyrra eru farnar að jaskast á hornunum og ég farinn að læra sífellt minna af þeim. Bækurnar sem ég nú bíð eftir eru:

Hybridity, Identity, and Monstrosity in Medieval Britain: On Difficult Middles eftir þann hinn mikla póstmóderíska skrímslafræðing Jeffrey Jerome Cohen.

Pride and Prodigies: Studies in the Monsters of the Beowulf Manuscript eftir Andy Orchard.

The Ashgate Research Companion to Monsters and the Monstrous í ritstjórn hins valinkunna skrímslafræðings Asa Simon Mittman sem ég næstum því hitti í Leeds í fyrra eftir sérdeilis góðan fyrirlestur hans (hann var svo umvafinn grúppíum að ég ákvað að sæta færis síðar, en hitti aldrei á hann).

Metamorphosis and Identity eftir Caroline Walker Bynum.

On Monsters and Marvels eftir 16. aldar skurðlækninn Ambroise Paré sem þjónaði konungunum Hinriki II og III auk Fransis II og Karls IX. Í þeirri bók fjallar hann meðal annars um dæmi af gyltum sem fætt hafi grísi með mannsandlit, og af andlitunum megi greina hver hafi sorðið gyltuna. Ég reikna með mjög hressri lesningu. Einhverra hluta vegna er ekki minnst á bókina á Wikipediusíðunni hans.

Sjálfsagt skrifa ég einhver orð um þessar bækur þegar ég hef fengið þær í hendur. Ég ætla semsagt að halda áfram að blogga. Þið fréttuð það fyrst hér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *