Kaldur Lech

Ég var eitthvað að útmála mig um þá bræður Kaczyński hér um daginn og varð þá hugsað til pólska bjórsins Lech. Á wikisíðu þess bjórs komst ég að því að þeir bruggmenn í Lech Browary Wielkopolski hafa engu meira álit á þeim bræðrum en ég. Lech Kaczyński fórst í flugslysi og var grafinn í Wawel, sem er einhvers konar hallargarður í Krakow. Þá brugðu bruggmenn á það ráð að setja upp auglýsingaskilti nálægt Wawel með slagorðinu „Zimny Lech“ sem merkir kaldur Thule (staðfæring mín). Þetta olli fjaðrafoki og auglýsingin var tekin niður fáeinum mánuðum síðar.

Nú vill svo skemmtilega til að kollegi Jakub Morawiec er staddur í borg óttans svo honum var boðið heim á Dunhaga í kaffi og kruðerí. Get ekki sagt að sú heimsókn hafi neitt minnkað eftirvæntinguna fyrir ferðinni nema síður sé. Samdoktorand og komráður minn úr Gimli, Hrafnkell Lárusson, hefur tekið upp á þeirri sömu iðju að blogga um dvöl sína í Póllandi og lætur vel af enn sem komið er. Ekki er það heldur til að draga úr væntingum mínum. Ef einhverjir fleiri sem ég þekki eru á leiðinni getum við kannski stofnað einhvers konar Varsjárbandalag sem hefði það helst að markmiði að sötra Lech og tala illa um Kaczyńskibræður. Slíkt þarf að gerast í sellum enda ekki á það hættandi að ata þá auri opinberlega.

Námskeiðin tvö sem ég mun kenna eru farin að taka á sig nokkuð ákveðna mynd og ég hlakka til að hitta nemendurna, sem alls ófyrirsjáanlegt er hversu margir verða. Mér finnst eins og framtíðin sé óskrifað blað. Sem hún og er, ég er bara ekki vanur því að upplifa hana þannig.

Martraðir um hvítabirni II

Í gær bloggaði ég um hryllingssögur Jóhannesar Friðlaugssonar af hvítabjörnum sem gengu á land í Þingeyjarsýslum. Sagan sem ég nefndi sérstaklega er fundin og hún er mikið óhugnanlegri en mig minnti. Kannski engin furða þótt ég yrði hræddur við að fá svona skepnu heim til mín:

Allmörgum árum seinna fluttu þangað önnur hjón með tvo syni sína og bjuggu þar í nokkur ár, án þess að nokkuð bæri til tíðinda. Þá var það einn vetur, að harðindi gerði mikil, og kom hafís að öllu Norðurlandi. Einn morgun vöknuðu hjónin á Þeistareykjum við hávaða fram í bænum, og rétt á eftir er baðstofuhurðin brotin í spón, og stór hvítabjörn kemur inn á gólfið. Svo var rúmum háttað í baðstofunni, að þau voru aðeins tvö og bæði fyrir stafni, en annað var háarúm, og sváfu drengirnir þar, en hjónin í neðra rúminu. Þegar björninn kom inn, rís bóndinn upp úr rúmi sínu og kallar í drengina og biður þá að vera kyrra og láta ekkert á sér bæra. Ætlar bóndi svo að seilast í stóran hníf, sem var upp undir sperru í baðstofunni. En áður en hann fengi náð honum, sló dýrið hann með hramminum, og þurfti hann ekki meira. Fór konan sömu leið. Síðan lagðist dýrið á líkin og fór að éta þau. Á meðan lágu drengirnir alveg grafkyrrir og þorðu ekki að hreyfa sig af hræðslu og skelfingu við dýrið. Þegar dýrið var búið að seðja sig af líkunum, fór það fram úr baðstofunni og út. Risu þá drengirnir á fætur og fóru að ræða um, hvernig þeir ættu að frelsa sig frá birninum og helst að ráða hann af dögum – og hefna svo foreldra sinna. Var þá annar þeirra 12 vetra, en hinn 10 vetra. Komu þeir sér saman um það, að eldri drengurinn skyldi taka stóra hnífinn og fara milli þils og veggjar, því að það var manngengt á milli. En á þilinu var allbreið rifa. Gerðu þeir ráð fyrir, að dýrið mundi koma aftur til að vitja um leifarnar af líkunum, og átti þá yngri drengurinn að gera vart við sig uppi í háarúminu. En þá mundi dýrið rísa upp á afturfæturna og fara að gægjast upp í rúmið að drengnum. Ætlaði þá eldri drengurinn að reyna að koma lagi á björninn með hnífnum, í gegnum rifuna á þilinu. Fór þetta eins og drengirnir höfðu ráðgert. Eftir nokkra stund kom dýrið inn aftur og fór að gæða sér á leifunum. Reis þá yngri drengurinn upp í rúminu. Kemur dýrið auga á hann, rís upp á afturfæturna og teygir hrammana upp á rúmstokkinn. Sætir þá eldri drengurinn færi og leggur hnífnum í kvið bjarnarins og sker út úr, og verður það svöðusár. Þegar björninn fékk lagið, snýr dýrið út úr bænum án þess að skipta sér neitt af drengjunum. En drengirnir náðu bæjum í Mývatnssveit, og bærinn lagðist í auðn.

— Jóhannes Friðlaugsson, Gróin spor, bls. 210-12.

Glöggir lesendur taka eftir að þessi bútur er in medias res, en frásögnin á undan fjallar um hjón sem bjuggu áður á Þeistareykjum, en bóndinn varði sig bangsanum með grjótkasti eftir að sá síðarnefndi hafði áður étið konu hans upp til agna. Þá situr aðeins spurningin eftir: Ætli jörðin að Þeistareykjum sé enn á lausu, ef ske kynni að mann langaði til að reisa sér bústað?

Martraðir um hvítabirni

Ég furða mig stundum á því sem ég las sem barn þótt mér hafi þótt fátt eðlilegra þá en að ég hefði áhuga á því sem ég hafði áhuga á. Í dag tókum við pabbi loksins í gegn geymsluna hennar mömmu sem við í sameiningu lögðum í rúst á 25 ára löngu tímabili, en kannski aðallega ég samt. Þar kom ýmislegt upp úr kössum, þar með talin bók sem hafði ómæld áhrif á mig (þá á ég ekki við bókina UFO: Fljúgandi furðuhlutir eftir Einar Ingva Magnússon, eina af sérviskum unglingaskeiðs lífs míns).

Bókin heitir Gróin spor og er þannig orðin til að faðir (stjúp)afa míns Huga, Jóhannes Friðlaugsson, var í og með öðrum störfum rithöfundur. Bókin er úrval þess sem hann skrifaði og er gefin út í tilefni af aldarafmæli hans árið 1982. Bókina myndskreytti afabróðir minn Hringur og því eigi síður var dálítið til af þessari bók í fjölskyldunni og fengum við bróðir minn hvor sitt eintakið. Ég hef kannski verið níu ára, ég er ekki viss. Það hefði verið 1993, en kannski fékk ég bókina ári fyrr. Þetta voru þá aukaeintök sem aldrei höfðu farið út og afa datt í hug að við gætum haft gaman að, ekki síst myndunum.

Nú er frá því að segja að hvort tveggja myndirnar og textinn skelfdi mig. Ég blaðaði nefnilega í gegnum bókina eitthvert kvöldið og rambaði á myndir af ísbjörnum. Þá varð ekki aftur snúið, ég þurfti að lesa hvað stóð þarna um ísbirni. Kaflinn heitir Hvítabjarnaveiðar í Þingeyjarsýslum og þar er meðal annars frásögn af því, ef ég man rétt, þegar tvö ung systkin urðu ein eftir á bæ nokkrum, gott ef faðirinn var ekki að róa til fiskjar og móðirin farin á næsta bæ eftir einhverjum lífsnauðsynjum, og börnin ein eftir.

Svo kom ísbjörn inn í bæinn.

Ég var stjarfur af hræðslu og las sem óður væri til að sjá hvernig þeim reiddi af, sömuleiðis allar hinar ísbjarnasögurnar, og svaf svo heldur seint og illa um nóttina. Það var um líkt leyti sem ég las í Úrvali (já, ég las Úrval alveg upp til agna) um konu í Norður-Ameríku sem lenti í því óláni að einhver skollans björn kíkti í heimsókn til hennar eitt kvöldið og lenti í áflogum við Nýfundnalandshundinn hennar. Sá stökkti birninum á brott en drapst fljótlega af sárum sínum. Eftir þetta varð ég mikill talsmaður Nýfundnalands- og Sankti Bernharðshunda.

Lengi á eftir átti ég von á því að hvað úr hverju kæmi ísbjörn inn um dyrnar (á þriðju hæð, á Laugarnesvegi) einmitt þegar allir væru sofnaðir nema ég og hann æti mig lifandi, foreldrar mínir hrjótandi í hinum enda íbúðarinnar og gætu ekkert gert í þessu.

Nú er þessi bók fundin aftur og þá er að sjá hvort ég þori að rifja upp kynnin við hvítabirnina. Hitt er svo annað að eftir ár verð ég að líkindum staddur á Svalbarða á ráðstefnu. Martraðir um hvítabirni munu vera lenskan þar í mesta skammdeginu, svo kannski ég geymi mér litteratúr Jóhannesar Friðlaugssonar fram að því?

Ástin á tímum fasismans

Stærstan hluta ævi minnar hef ég búið við frjálsa Evrópu. Ég bjó í Evrópu á ófrjálsum tímum og við kalt stríð en vissi ekki af því. Þegar Berlínarmúrinn féll voru það mér engin tíðindi. Þegar Sovétríkin hættu að vera tamt hugtak og Rússland Jeltsíns tók við og sömuleiðis ýmis önnur ríki, þá varð ég ekki vel var við það. Ég tók eftir því þegar Júgóslavía hætti að vera til, enda hafði ég verið þar. Ég skildi ekki hvernig land gat hætt að vera til. Ég hélt að það hefði horfið af yfirborði jarðar þegar mér var sagt frá því. Stríðið í kjölfarið stóð í áratug, allt til 2001.

Það hefur í raun ekki verið friður í Evrópu neitt sérstaklega lengi. Það er enn ekki friður í Evrópu í raun og nægir að líta til átaka um Krímskagann. Evrópusambandið sjálft stendur völtum fótum og áhrifamáttur Sameinuðu þjóðanna virðist vera veikur ef nokkur. Sjálfur hef ég búið við þau forréttindi að hafa alltaf verið laus við átök í mínu lífi og þannig trúað því í blindni að Evrópa – og heimurinn almennt – sé í góðum málum. Að stríð í Evrópu séu liðin tíð og að framtíðin sé sjálfkrafa bjartari en grimm fortíðin. Um tvítugt trúði ég einlægt á slíka framfarahyggju. Núna fylgist ég með upprisu fasismans og skil loksins hvað heimurinn er brothættur.

Eftir tuttugu daga flyt ég til Póllands skamma hríð til að kenna þar námskeið við háskólann í Katowice í Slesíu. Pólland er núna fasistaríki. Það er eitthvað öfugsnúið við það, að þetta ágæta land sé núna í fylkingarbrjósti fasista í Evrópu þegar það var þeirra fyrsta fórnarlamb á fyrri helmingi síðustu aldar. En sú þróun á sér raunar afar langa sögu.

Hvað um það, nú les ég í blaðinu að nasistatvibbinn Jarosław Kaczyński sé farinn að funda með helvítis skepnunni Viktor Orbán í Niedzica í Póllandi – pottþétt í kastalanum þar. Eru ekki illmenni alltaf í kastölum? Um þann síðarnefnda er helst að segja að honum að þakka hef ég aðra ástæðu utan við þá augljósu fyrir því að ég mun aldrei gleyma brúðkaupsdeginum mínum: þá að þann dag las ég fyrirsögnina „Ungverjaland ekki lengur lýðræðisríki“. Það sem þá hafði átt sér stað var eiginlegt afnám prentfrelsis í landinu. Um hinn fyrrnefnda hef ég ekkert fegurra að segja, en ég játaði þegar Lech bróðir hans fórst í flugslysi 2010 að ég varð fyrir vonbrigðum þegar kom í ljós að fyrstu fréttir um að báðir bræður hefðu verið um borð reyndust rangar, og fékk nokkrar ákúrur fyrir kaldrifjað sjónarmið. Ég get ekki staðið við það, en hitt er enn að ég legg á fáa menn eins mikla fæð og hann.

Það sem nú stendur til hjá Kaczyński er að feta í fótspor Orbáns, að herða tökin á ríkisfjölmiðlum svo stýra megi fréttaflutningi af ríkisstjórninni (þetta er raunar það sem Vigdís Hauksdóttir hefur lýst yfir að hún vilji gera á Íslandi, bara með aðeins frábrugðnu orðalagi). Og óneitanlega minnir þetta nýja kærustupar á Hitler og Mussolini; báðir hafa lengi verið fasistar í eigin heimalandi en eru nú farnir að skiptast á ráðgjöf og reynslu um hvernig best megi koma ár fasismans fyrir borð. Mér lægi við að segja að þetta sé svolítið krúttlegt, væri þetta ekki svona skelfing óhugnanlegt.

Nú stendur Evrópusambandið frammi fyrir því að stjórnvöld í Svíþjóð og Danmörku, sem óneitanlega draga taum líkrar hugmyndafræði og þeir Orbán og Kaczyński aðhyllast og sömuleiðis ýmsir aðrir starfsbræður þeirra s.s. Geert Wilders í Hollandi, eru að brjóta svona líka hressilega Schengensáttmálann með því að taka upp landamæraeftirlit. Að auki brjóta þau mannréttindi á hælisleitendum með því að ræna af þeim fjármunum og heyrst hefur í sænskum lögreglufulltrúa sem segist einfaldlega hlýða því sem honum er sagt; sé hann beðinn um að rífa gullfyllingar úr hælisleitendum þá einfaldlega geri hann það. Á sama tíma brjóta Orbán og Kaczyński grundvallarmannréttindi heima fyrir, eins og réttinn til tjáningar, og því verður ekki tekið þegjandi heldur.

Stærstu fólksflutningar síðari ára standa yfir sakir borgarastyrjalda í mið-Austurlöndum sem eru bein afleiðing af stríðsrekstri Vesturlanda þar, og upp úr þessu spretta andófshreyfingar eins og Íslamska ríkið sem Vesturlönd kunna ekki önnur svör við en frekari stríðsrekstur, og Evrópa heldur áfram að reyna að einangra sig frá umheiminum á meðan hún leysist hratt en örugglega upp innan frá. Evrópusambandið átti að vera trygging gegn stríði í Evrópu eftir Síðari heimsstyrjöldina. En nú er heimsvaldastefnan loks komin aftan að og farin að bíta Vesturlönd í rassinn. Vesturlönd hafa löngum þóst ætla að „frelsa“ fólk í mið-Austurlöndum frá hroðalegum harðstjórum, en þegar fólkið flýr stríðið heima fyrir veit enginn neitt hvernig á að höndla bankið á dyrnar. Viljinn til hjálpar sýnir sitt rétta andlit á meðan fólk drukknar í Miðjarðarhafi og frýs til dauða á Lesbos.

Hvert leiðir þetta allt saman? Ég veit það ekki. Sannast sagna vildi ég helst vera laus við að þurfa að hugsa um það. En það getur enginn neitað því að Evrópa er í hræðilegu ásigkomulagi um þessar mundir og getur engum um kennt nema sjálfri sér. Og nú er ég á leið til Póllands, til lands sem gegnum tíðina hefur mátt þola margt en hefur nú ríkisstjórn sem vill undir forystu ógeðslegs manns verða heimssögulegur gerandi í upprisu fasismans.

Pólland er yndislegt land segja mér allir, og ég er fullur tilhlökkunar. Á sama tíma óttast ég að hin sameinaða Evrópa, sem þrátt fyrir að vera ung er sú eina sem ég þekki, muni leysast upp í vitleysu – að skammtímasjónarmið verði látin vega þyngra á metunum en langtímahagsmunir, að öfgaöfl verði áhrifameiri en nokkru sinni fyrr. Þegar okkar nánustu nágrannar á Norðurlöndum eru farnir að hegða sér eins og nasistar eru blikur á lofti.

Ég er búinn að missa trúna á Facebook sem samskiptatæki svo ég ætla að endurvirkja þetta blogg á meðan ég er í Póllandi og á ferðalögum um mið- og austur-Evrópu. Sennilega verður það allt voðalega hversdagslegt, en ég er af forvitnu sortinni og mun reyna að læra ekki síður um skoðanir fólks á þessu öllu saman en um land, tungu og menningu.

Eins og skáldið sagði: Þetta verður eitthvað.