Það er kannski táknrænt að ég er rétt nýfarinn að blogga aftur þegar Facebook ákvað að loka á mig í sólarhring. Ég hef einu sinni hlotið aðvörun þar, þegar ég vitnaði í lagatexta The Pogues („you cheap, lousy faggot“ orti hinn prúði Shane MacGowan). Ég skil að það hafi lent í síunni, en Facebook tók ekkert mark á skýringum mínum sem innihéldu meðal annars hlekk á téðan lagatexta.
Núna setti ég inn gif-mynd við færslu hjá vini mínum, mynd sem Facebook sjálft býður mér að setja inn vel að merkja, af senu þegar Sómi úr Hringadróttinssögu er étinn í Stranger Things. Facebook tók færsluna út samstundis vegna þess að hún innihéldi nekt. Sem hún gerir alls ekki.
Þannig að nú er ég í sólarhringsbanni frá Facebook og mér er hótað með þriggja sólarhringa banni gerist ég „brotlegur“ aftur. Ég er nú ansi hræddur um að ég hreinlega hætti á Facebook ef það ætlar að láta svona, að banna mig fyrir efni sem þau bjóða mér sjálf upp á gegnum sinn eigin vef. Ég mun ekki sakna Facebook neitt meira en þau munu sakna mín. Það væri miklum mun betra ef fleira fólk fylgdi mér hingað á bloggið þess í stað.
Mér fannst lengi vel eins og sagan væri liðin, ekkert áhugavert gerðist þaðan í frá og allt myndi lulla svona einhvern veginn áfram fremur tíðindalítið. Þetta reyndist rangt í tvennum skilningi. Fyrir það fyrsta þá er sagan aldrei liðin, það er alltaf eitthvað á hverjum tíma sem segja mætti, í dvalarhorfi, að sé „að gerast“. Þó að tíundi áratugurinn hafi að mestu verið „leiðinlegur“ í sögulegu tilliti en eftir því dásamlegur með tilliti til annarra þátta mannlífsins (að mér sjálfum fannst á sínum tíma), þá var samt töluvert margt hræðilegt og sögulegt sem þá gerðist.
Sovétríkin féllu til að mynda með langdrægu andvarpi, eftir heldur heimsendastemmdan níunda áratug, og Júgóslavíustríðin hófust. Á dularfullan hátt fannst mér eins og stríð í Evrópu væru liðin tíð þó að ég ælist upp með þau í blússandi gangi. Júgóslavíustríðunum lauk ekki fyrr en um aldamótin, hvað sem minni tilfinningu um sögulega tíma leið, og eftirmál þeirra voru enn í hámæli (réttarhöldunum yfir Milosevic lauk ekki einu sinni fyrr en 2006!) þegar annar atburður skók heimsbyggðina.
Það var víst ekki hægt að neita því að það væri nokkuð sögulegt þegar maður horfði með hryllingi á turna tvo í New York borg hrynja í beinni útsendingu. Vinur minn sendi mér í SMS-skilaboðum einhvern „spádóm“ Nostradamusar þá um kvöldið sem mér þótti mögnuð lesning. Á táningsárunum var auðvelt að leggja trúnað á alls konar svoleiðis vitleysu sem gekk þráðlaust milli fólks. Sennilega var þetta ekki einu sinni rétt heimfærð tilvitnun fremur en svo margt annað í þessum dúr, heldur tilbúningur. En sögulegt var þetta. Ellefti september það er, ekki smáskilaboðin.
Mér finnst ég orðinn svolítið sjóaður í að lifa sögulega tíma núna og er orðinn dálítið þreyttur á þeim. Það er eins og þetta sé stöðugt á tíu ára fresti. Fall Sovétríkjanna, stríðið gegn hryðjuverkum, bankahrunið, heimsfaraldur kórónuveiru. Maður getur jú litið svo á að í öllu falli hafi maður þá einhverjar sögur að segja þegar fram líða stundir – börnum, barnabörnum, er það ekki alltaf viðkvæðið? En hverjum til ánægju yrðu þær sagðar? Nemendur mínir muna ekki einu sinni bankahrunið og sýna því engan sérstakan áhuga þegar ég tengi bókmenntir við þann heimsviðburð, svo ekki sé minnst á þann sérstæða íslenska atburð sem búsáhaldabyltingin var – en kannski hef ég takmarkaðan áhuga á því sjálfur að rifja þann tíma upp of náið. Vegna þess að ég var þar. Það grær aldrei alveg um heilt eftir að heilt samfélag hrynur.
„Ég var þarna,“ get ég sagt. Það finnst engum það áhugavert. Ekki mér heldur. Þau sem voru þarna muna það líka og við getum rifjað það upp saman ef við nennum, ef við finnum ástæðu til; þau sem voru þar ekki hafa tæpast forsendur til að gera sér upp áhuga. Mér líður eins gagnvart Kófinu þó að það eigi sér enn sinn stað í núinu. Við erum öll saman í þessu núna og því lítið í raun um það að ræða. Við höfum engu við að bæta hvert fyrir annað. Samfélagsmiðlarnir loga af eilífri endurtekningu á því sem allir vita og engin ný leið kemur upp úr krafsinu til að færa þetta í orð. Þetta er löngu hætt að vera samræðuhæft efni jafnvel meðan þetta er í gangi. Hvernig verður það þá í framtíðinni? Hvernig sú framtíð verður er kannski áhugaverðasta spursmálið í þessu öllu saman, því hún verður varla alveg eins og samfélagið sem var. Allt breytist.
Hvort ég mun nokkru sinni finna tilefni til að rifja þennan tíma upp og reyna að setja í eitthvert samhengi fyrir aðra að skilja, eða fyrir sjálfan mig að skilja, það er síðan önnur spurning. Það munu væntanlega verða til bókmenntir á þessum tímum eins og á öðrum tímum, þar verður til samhengi sem mun liggja fyrir bókmenntafræðingum eins og sjálfum mér að útskýra í ræðu og riti. Ég sé fyrir mér eftir tíu ár að ég muni standa frammi fyrir nemendum mínum og ræða þetta, Kófbókmenntir. Hvað segja Kófbókmenntir okkur um lífið á Íslandi á fyrsta fjórðungi aldarinnar – og svo framvegis. Kannski munu nemendur sitja þá eins og mér finnst þau gera núna og orðalaust gefa til kynna að þau hafi á þessu takmarkaðan skilning af því þau voru ekki þarna. Og mér mun líða eins og gömlum manni að þusa eitthvað um gömlu daga, eins og mér líður þegar gagnvart hruninu.
Ég á þannig erfitt með að ímynda mér að ég muni hafa neitt sérstaklega áhugavert um veirufaraldurinn að segja þó að tíu ár líði eða þrjátíu. Amma mín mundi vel seinni stríðsárin en talaði aldrei um þau. Mér finnst ég skilja það betur núna þó að mér hafi fundist það skrýtið áður. Jú, aðspurð mundi hún Goðafoss, hræðilegt alveg. Ekki orð um það meir. Ég man að sama skapi þegar Manhattan tæmdist, tæplega áttahundruð manns létust á einum degi í New York ríki, Norður-Ítalía breyttist í dystópíu, ég man veru mína í París í upphafi faraldurs, áhrif veirunnar á Íslandi og svo framvegis, mannlausa Þingvelli. Ég man þetta og þetta er ennþá svona. Minningin á eftir að þróast og breytast en alltaf vera til staðar en nú þegar er fyrsta kynslóðin til sem ekki mun muna þetta og ekki skilja þetta.
Sagan á sér stað núna, í dvalarhorfinu, rennur stöðugt og óstöðvandi eins og straumvatn. Mér finnst ég orðinn vanur þessum sögulegu atburðum svo að segja og eins og ég sagði er ég orðinn svolítið leiður á þeim, þó hef ég hingað til sloppið óskaddaður frá þeim öllum ólíkt svo mörgum mér ólánsamari. En það er ekki víst að þannig verði það alltaf og það er heldur ekki víst að þannig verði það í þetta skipti. Það er engin leið að vita það hvort maður gangi heill frá þessu og þar af leiðandi engin ástæða til að velta því neitt fyrir sér, engin ástæða til að ræða það við nokkurn mann.
Þannig að á yfirborðinu er nánast eins og ekkert sé að gerast. Ég hugsa lítt um veiruna og tala enn minna um hana. Kannski er ekki laust við að ég hugsi svolítið til Radioheadtextans: „I’m not here. This isn’t happening.“ En einhvers staðar innst inni í þessum hugsunum stendur löngun mín til einnar óskar: að veröldin og sagan væri eins tíðindalítil í raun og mér einu sinni fannst hún vera.
Það er víst enginn ósnertanlegur, forsætisráðherra Bretlands kominn í gjörgæslu. Einhvern veginn hafði ég ekki einu sinni velt því fyrir mér að það væri mögulegt. Á sama tíma er víða flutt í fréttum að tígrisdýr hafi greinst með Covid-19. Ég á bágt með að trúa því og vil fá almennilega staðfestingu á því.
Þessi faraldur verður furðulegri með hverjum deginum.
Þetta eru erfiðir dagar. Það er bara þannig. Maður ber sig vel og stundum líður manni vel en svo hellist þetta allt yfir mann inn á milli og þá getur maður ekki annað en viðurkennt að þetta er samt allt erfitt. Það er ýmislegt þarna sem er fallegt og gott – meiri tími með börnunum, minni radíus í lífinu þýðir meiri jarðtenging. Það er furðuleg sálarró í einum hugarkima á meðan það logar allt í öðrum.
Hjá mér er þetta meira eða minna í bakgrunninum meðan dagarnir fara í að skrifa nemendum og gera hvað ég get til að aðstoða þau við að ljúka námskeiðunum, fara yfir verkefni og leggja lokaverkefni fyrir, pæla aðeins í næsta misseri. Síðan man maður allt í einu eftir að opna fréttamiðla og fær veruleikann í smettið.
Sú hugsun leitar á mig að enginn veit almennilega hvernig hann bregst við veirunni nema reyna það fyrst. Boris Johnson sagðist í gær vera brattur en liggur núna í gjörgæslu. Mér finnst það ógnvænleg tilhugsun. Ekki hans vegna persónulega, heldur vegna okkar allra.
Ég hef ekki áhyggjur af því að þetta muni breyta heiminum — það er eins fokkíng gott að þetta breyti heiminum. Ef allt heldur áfram eins og ekkert hafi gerst þá held ég að lítil von sé fyrir mannkynið. Ég vona að þetta fái okkur til að staldra við og hugsa, hjálpi okkur að leita leiða til að gera hlutina betur. Þorsteinn Gylfason sagði eftirminnilega að menning væri að gera hlutina vel. En núna held ég að það væri beinlínis ómenning að gera ekki betur en við höfum hingað til gert, nú þegar skelfilegar aðstæður hafa sýnt okkur hvers konar alþjóðlegur samtakamáttur er mögulegur.
Við umturnum lífi okkar og samfélagi vegna farsóttar – sem eðlilegt er. Höldum því svo áfram jarðarinnar vegna.
Ef einhverju sinni var ástæða til að hefja bloggið aftur til vegs og virðingar, þá er það nú á tímum heimsfaraldurs.
Ég hef verið að velta fyrir mér lestri og ritun undanfarið, ekki síst vegna þess að ég kenni hvort tveggja á Menntavísindasviði HÍ fólki sem mun sjálft þurfa að kenna börnum og ungmennum lestur og ritun. Í þessu sambandi fór ég að velta fyrir mér blogginu. Ég hef haldið úti þessu bloggi síðan í apríl 2003, svo bloggið er á átjánda ári núna.
Það er allt önnur manneskja sem stofnaði bloggið en skrifar á það núna, manneskja sem átti eftir að læra margt og öðlast umtalsvert meiri ritfærni. Hvergi öðlaðist ég eins mikla æfingu í að koma hugsunum mínum í orð og að eiga í skoðanaskiptum við aðra eins og með því að blogga. Að því leyti held ég að það hafi verið visst menningarslys þegar bloggið lagðist að mestu af. Ég held að það sé þess vert að reyna að endurvekja það.
Oft er talað um vanda íslenskunnar á stafrænum tímum, til dæmis þegar kemur að sjálfgefnu tungumáli hugbúnaðar (iðulega enska). Sjálfgefnar gæsalappir eru enskar og fólk þarf að læra sérstakar hundakúnstir til að gera þær íslensku, nema það stilli hugbúnaðinn til að breyta þeim sjálfkrafa (sem aftur veldur vandræðum ef maður ætlar svo að skrifa á ensku). Þá aukast stöðugt möguleikarnir á því að tala við tækin okkar en það þarf maður að gera á ensku enn sem komið er.
Ég hafði hins vegar ekki áttað mig fyllilega á því hvaða takmarkanir hinn stafræni heimur setur öðrum tungumálum og að þá sé ekki endilega aðalmálið hvort um er að ræða örtungur eins og íslensku eða milljarðatungu eins og kínversku – ekki fyrr en ég rakst á stutta hugleiðingu um það einhvers staðar á vefnum. Stafrænt kínverskt ritmál er nefnilega einfaldað töluvert til að það sé á annað borð hægt að skrifa það á lyklaborði og þetta veldur því vandamáli að stór hluti Kínverja er að glata getunni til að handskrifa upprunalegu táknin – læsi á hina raunverulegu kínversku er að glutrast niður á meðan sú einfaldaða er sjálfgefin í stafræna heiminum. Það er beinlínis óhugnanlegt til þess að hugsa að við séum orðin það háð tækninni að tæknin stýrir því hvernig við hugsum og tjáum okkur fremur en að hugsun okkar og tjáning stýri þróun tækninnar.
Blessunarlega búum við íslenskumælandi ekki við þetta tiltekna vandamál þótt okkar vandi sé ekki síður ærinn. En ég velti því fyrir mér hvort ekki væri ráð að finna möguleika á því að endurvekja bloggið og nýta þann miðil að einhverju marki í lestrar- og ritunarkennslu. Bloggið hefur þann kost sömuleiðis umfram hefðbundna ritvinnslu að vera margmiðla tæki sem hægt er að deila á myndböndum og hljóðskrám sömuleiðis, en fyrst og síðast er bloggið – eða var í öllu falli í eina tíð – samfélag. Miklu dýpra og betra samfélag en samfélagsmiðlarnir hafa nokkru sinni getað boðið upp á.
Í hryllingsbókmenntum og -kvikmyndum er alltaf viss togstreita á milli eftirvæntingar viðtakanda og sjálfs hápunktsins: þegar hið illa er leitt fyrir sjónir viðtakandans. Þegar maður loksins sér skrímslið þá getur það sjaldnast verið eins hryllilegt og maður hafði ímyndað sér það, að sýna veldur nær alltaf vissum vonbrigðum (ég myndi halda því fram að geimveran í Alien sé á þessu meginundantekning; hún er með því skelfilegasta sem sést hefur í bíómynd), en á hinn bóginn er varla hægt að sýna ekkert heldur. H.P. Lovecraft var alræmdur fyrir hæga og spennuþrungna uppbyggingu sinna sagna en síðan skirrist hann nær undantekningalaust við að afhjúpa skrímslið í lokin, með þeirri skýringu að það hafi verið svo hræðilegt að menn misstu vitið ef þeir svo mikið sem reyndu að gera sér það í hugarlund. Stephen King tókst hið þveröfuga í skáldsögunni It: að sýna skrímslið þegar í upphafi og gera það svo óhugnanlegt að lesandinn kvíðir því að því bregði fyrir aftur.
En meginreglan er að viðtakandinn finnur fyrir vissum létti þegar skrímslið birtist, því það er sjaldnast eins hryllilegt og sjálft ímyndunaraflið. Ýmsir höfundar hafa leikið sér að þessu. Drakúla greifi kemur til dæmis lítið fyrir í samnefndri skáldsögu þó að nærvera hans sé alltumlykjandi í textanum, og skrímsli Frankensteins, þegar Mary Shelley leyfir lesandanum loksins að kynnast því, umturnar öllu og sýnir okkur að það er skaparinn sem er skrímslið, en skrímslið sjálft er ekki nema afurð þeirrar fyrirlitningar sem mannfólkið sýnir því.
Ég var eitthvað að velta þessu fyrir mér þegar það rifjaðist upp fyrir mér þáttur úr sjónvarpssyrpunni Tales from the Darkside sem ég sá í sjónvarpinu eitthvað um tíu ára aldurinn. Þessi tiltekni þáttur heitir „Inside the Closet“ og fjallar um háskólanemann Gail sem leigir herbergi hjá deildarforseta dýralækninga við sama háskóla. Herbergið hafði tilheyrt dóttur hans, segir hann, sem mun vera flutt að heiman til einhvers kærasta sem deildarforsetanum er sýnilega í nöp við (hann spyr Gail sömuleiðis hvort hún eigi kærasta, segist ekki vilja sjá svoleiðis gerpi koma í heimsóknir, en hún fullvissar hann um að hún eigi ekki svoleiðis). Í herberginu er lítil hurð á veggnum, tæpur metri á hæð eða þar um bil, og þegar Gail spyr deildarforsetann hvað þetta sé þá segir hann að þetta sé skápur en lykillinn sé löngu glataður.
Um nóttina heyrir hún töluvert krafs í skápnum og ályktar að það sé rotta þar, en áhorfandinn veit betur þótt hann viti ekki hvað býr í skápnum í raun. Einhverju sinni kemur hún að skápnum opnum og sér að það er alls ekkert í honum, en hún setur rottugildru inn engu að síður. Um kvöldið heyrir hún smell inni í skápnum en þegar hún ætlar að gá inn reynist hann aftur læstur.
Við sjáum fyrst glitta í skrímslið þá um nóttina þegar skápurinn opnast skyndilega og eitthvað fer út úr honum, eitthvað lítið og fölt, og það fer undir rúm Gail. Hún vaknar og sér að skáphurðin er opin, dregur fram vasaljós og gægist inn í skápinn. Þar er ekkert, rottugildran er meira að segja horfin. Hún lokar aftur skápnum og fer upp í rúm, og rétt sleppur undan náhvítum hrömmum sem skjótast undan rúminu og reyna að grípa hana. Hún tekur ekki einu sinni eftir því, en þetta fer ekki framhjá áhorfandanum – eða ímyndunarafli hans sem nú er komið á yfirsnúning.
Deildarforsetinn þrætir stöðugt fyrir að nokkuð búi í þessum skáp, rotta eða annað, og segir Gail sífellt að hætta að vesenast þetta við skápinn. Þegar eldri karlmaður sem býr aleinn vill ekki að einhver stelpa sé að gægjast í skápinn sinn þá þarf ekki mikinn freudista til að draga ályktanir. Hvað um það, næsta dag opnast skápurinn aftur og Gail gáir inn og sér að hann er fullur af dúkkulegum telpukjólum og leikföngum, en viðbrögð hennar eru merkilega hversdagsleg því hún virðist ekki átta sig á því að hún er persóna í hryllingssögu. Í stað þess að æpa og hlaupa út fer hún að gramsa í skápnum. Smellur heyrist og hún gólar, og þá sjáum við að hún hefur lent í sinni eigin rottugildru og jafnvel brotið fingur.
Deildarforsetinn hlær að frásögn hennar og gefur í skyn að þetta séu allt saman hugarórar. Þá um nóttina opnast skáphurðin aftur. Gail skríður varfærnislega að skápnum, þetta er atriði sem tekur heila eilífð að manni finnst, og hikar drykklanga stund áður en hún kveikir á vasaljósinu og beinir inn í skápinn. Hvað er þar inni?
ÞETTA!
Ekki fyrir hjartveika
Ég fraus þegar ég sá þetta sem krakki, hefði sennilega öskrað af hræðslu ef ég hefði komið upp einu einasta hljóði. Gail öskrar líka. Eftir alla þessa hægu framvindu er framhaldið leiftursnöggt: hún reynir að forða sér, en skápaskrímslið stekkur á hana og hálsbrýtur í snöggri hreyfingu, dregur hana síðan inn í skápinn.
Ég sat stjarfur á eftir.
Morguninn eftir er deildarforsetinn í símanum við áhyggjufulla móður Gail (sem virðist fríka út ef hún heyrir ekki í dóttur sinni á nokkurra mínútna fresti) og við sjáum skrímslið lulla niður stigann fyrir aftan hann. Ég stirðnaði aftur. Skrímslið er nú úr augsýn því það er svo smávaxið en deildarforsetinn er lengi enn í símanum. Áhorfandinn óttast að skrímslið sé komið alveg að honum þegar hann loksins leggur á og það stendur heima: deildarforsetinn æpir skyndilega og lítur niður.
En skrímslið hafði ekki ráðist á hann, kannski bara nartað ofurlétt í hann til að láta hann vita af sér. Því skrímslið reynist vera „dóttir“ hans og hann tekur lillabarnið í fangið og vaggar því og talar dúllulega við það, segist ætla að fara með það upp og segja því sögu. Þarna hellist loks ógeðstilfinning yfir áhorfandann og þar lýkur þættinum. Skrímslið í skápnum kann að vera myndhverfing fyrir hans eigin „náttúru“ ef svo má segja, sem er rökstudd með óþoli hans fyrir því að stelpur standi í því að tæla stráka og morði hinnar ungu konu. Að auki er gefin í skyn sú skýring að dýralæknir eins og hann (sem er með hús fullt af uppstoppuðum óhugnanlegum dýrum) kunni að hafa skapað sér þennan skápabúa sjálfur, sem raunar ýtir ekki síður undir fyrri túlkunina: maður sem ekki getur eignast barn með konu, hann leitar kannski á náðir vísindanna um afkvæmi. Skrímslið er oft við sjálf og í þessu tilfelli er það hið innra sjálf sem helst má ekki hleypa út úr skápnum í augsýn annarra.
Hvað byggingu snertir er þetta skápaskrímsli að mínu viti gott dæmi um ófreskju sem er frestað rétt nógu lengi að sýna, en sem er samt skelfileg þegar hún sést og heldur áfram að vekja óhug í lengri skotum ef það er gert í réttu magni. Þessum þætti tekst að sýna nákvæmlega eins mikið af skrímslinu og við þurfum.
Hvernig eldist svo þessi þáttur? Hann er eitthvað um 36 ára gamall og þið getið dæmt um það sjálf með því að horfa hérna. Einhverra hluta vegna er myndin spegluð um lárétta ásinn en það truflar ekki nema rétt á meðan kreditlistinn er í gangi.
Fólk er farið að spyrja mig hvort ég muni ekki skrifa fleiri greiningar á barnabókum, jafnvel ókunnugt fólk. Ég verð að segja að vinsældir þessara greinarkorna hafa komið mér á óvart. Sjálfum þykir mér skemmtilegt að skrifa þau svo það kannski ratar til lesenda.
Ekki síst þess vegna að mér finnst gaman að fjalla í blönduðu gamni og alvöru um bækur og bíómyndir (þó ég gefi hlutföllin aldrei upp) hef ég afráðið að gera mitt besta til að gera meira af því. Næsta bók á dagskrá er Svarta kisa, sem mætti best lýsa sem hvað-ef-sögu um skáldaðan fund Hitlers og Schindlers. Ef það hljómar ótrúlega, þá bíðið bara.
Í millitíðinni má lesa aðrar greinar í syrpunni hér:
Það er við hæfi á þessum degi, þegar ríkisvaldið vill halda að okkur minningu manns sem var negldur upp fyrir heldur litlar sakir fyrir tæpum tvöþúsund árum, að fjalla um eina trúarlega gripinn sem ég á.
Sumarið 2003 var ég staddur á Krít í hálfgerðu reiðuleysi, vissi ekki alveg hvernig ég átti að hegða mér eða hvað ég ætti að hafa fyrir stafni. Svo ég eigraði mikið um Chania og tók myndir af því sem fyrir augun bar, þar með af feitasta hundi sem ég hef á ævi minni séð. Það var eins og hann æti ekkert annað en ólífur og músakka.
Hvað um það, ég rambaði inn í einhverja litla skranverslun sem seldi hið aðskiljanlegasta dót, svona hluti sem aðeins túristar myndu kaupa. Öldruð kona sat við búðarkassann og kallaði stundum eitthvað til mín á grísku og brosti. Ég brosti á móti, gat ekkert annað gert. En vegna þess hvað hún var vinaleg fór ég að fá samviskubit yfir því að vilja ekki kaupa neitt þarna, svo ég afréð að kaupa eitthvað pínulítið svo hún fengi þó eitthvað fyrir sinn snúð.
Það var þá sem ég rak augun í litlu hasspípuna sem kostaði eina evru; plebbalegur gripur sem undirstrikaði tilganginn með mynd af kannabislaufi á pípustilknum. Þetta var það ódýrasta sem ég fann svo ég rétti konunni pípuna, en hún tók við henni og sýndi mér í þaula hvernig ætti að nota hana. Ég skildi ekki orð í grísku en skildi þó allt hvað hún átti við. Síðan pakkaði hún pípunni snyrtilega inn í gjafapappír og límdi og rétti mér, en sagði mér þó að hinkra aðeins.
Hún fór eitthvert á bakvið og kom síðan aftur með íkon af Maríu mey og Jesúbarninu. Þetta rétti hún mér með þeim orðum, eftir því sem mér skildist, að ég ætti að gefa þetta móður minni. Ég taldi að hugsunin væri ef til vill á þá leið að fyrst ég ætlaði í sollinn, þá væri gott að mamma hefði sem bestan aðgang að guðsmóðurinni. Ég þakkaði kærlega fyrir mig, á íslensku enda skildi hún hvort eð er enga ensku, og fór heim á hótel með þennan fallega kaupbæti.
Þegar ég svo kom heim færði ég mömmu íkoninn en hún vildi hann ekki. Ég veit ekkert hvað varð um hasspípuna (kannski hún sé heima hjá mömmu, hehe), en íkoninn á ég enn og mér þykir vænt um hann. Í grísku og rússnesku rétttrúnaðarkirkjunum er íkoninn ekki mynd af almættinu, heldur gluggi sem veitir þér beint samband við almættið. Samkvæmt trúnni þá er ég því með Maríu sjálfa og Jesúbarnið hjá mér, sem mér finnst falleg hugmynd þótt ég sé vitatrúlaus.
Mér finnst ég miklu frekar með þeim mæðginum hafa beint samband við gömlu konuna í Chania sem ég hef svo oft hugsað til, sem lét mér líða eitt andartak eins og ég skildi grísku og sem vildi mér svona vel. Þannig að íkoninn hefur fylgt mér á margt heimilið og hangir nú á vegg inni í svefnherbergi, undir málverki af Chania.
Tralli er geysilega merkileg bók, einkum merkileg fyrir þær sakir að höfundi hennar Viktor Mall fannst hún eiga erindi við börn. Það fannst Vilbergi Júlíussyni þýðanda bókarinnar greinilega líka, en hann gerði sitt besta til að milda efnivið bókarinnar sem er heldur lítt dulbúinn rasismi. Þannig hefur Vilbergur til dæmis ákveðið að Tralli sé jarðálfur (hvað sem það er), en bókin heitir á frummálinu Historien om eskimotrolden Figge sem afhjúpar hvað Tralli á í rauninni að vera: einhvers konar skáeygt eskimóaskrímsl með hala sem býr á svo framandi slóðum að sólin sest aldrei. Það er erfitt að halda áfram bara eftir þessa setningu en við verðum að láta okkur hafa það; þetta er jú bók sem geymd er í barnadeildum allra bókasafna og við viljum vita hverju við otum að börnunum okkar.
Tralli býr semsagt þar sem sólin aldrei sest og þarf því aldrei að fara í rúmið. Þess í stað stendur hann aleinn á pínulitlum ísjaka og gerir ekki neitt að því er virðist, allan daginn. Hvað er enda hægt að gera á ísjaka sem er varla sex sinnum stærri en maður sjálfur? Þessi ísjaki á að heita land eskimóanna, en það eru engir aðrir eskimóar (eða „eskimóatröll“) á þessum ísjaka og ekkert minnst á neina aðra eskimóa. Tralla leiðist sýnilega enda sofnar hann dag einn og verður þess ekki var að ísjakinn er flotinn suður á bóginn og farinn að bráðna. Að lokum bráðnar ísjakinn alveg undan honum og Tralli sekkur í hafið, og samt vaknar hann ekki. Hér er hann í hlutverki velþekktrar erkitýpu sakleysingjans sem óafvitandi flækist inn í alls konar ævintýr og hefur síðast verið gerð ódauðleg í persónunni Forrest Gump. Þannig gleypir hvalur Tralla en hann verður einskis var og sefur bara og hrýtur í maga hvalsins. Hvalurinn þolir ekki þessar hrotur og skyrpir Tralla upp á ónefnda Suðurhafseyju.
Og hverja skyldi Tralli vekja með hrotum sínum nema einmitt „negrana á eyjunni“. Sjón er sögu ríkari:
Hvað er hægt að segja um þetta? Sjáið varirnar á „negraprinsessunni“, sjáið hárið á henni, sjáið að hún er klædd í einhverja stráskýlu og með leireyrnalokka. Það vantar bara bein í nefið á henni (enda þótt allajafna þyki jákvætt „að hafa bein í nefinu“ þá gildir það svo sannarlega ekki um einhverja ósiðmenntaða svertingja). Nei, fjandakornið, hvað gerir negrapsinessan næst? Hún tosar í rófuna á Tralla af því henni finnst hún svo framandi. Og þá loksins vaknar eskimóatröllið Tralli, þegar negrarnir toga í rófuna á honum. Mér finnst mjög erfitt að skrifa allar þessar setningar, ég sver það.
Hér tekur sagan á sig sígilda ævintýraformgerð þrítekningar, en hennar þekktasti fulltrúi er án efa sagan af Gullbrá og björnunum þrem og þeirra mismátulegu eigum (ég mun fjalla um þá sögu síðar). Fyrst togar negraprinsessan í skottið á Tralla og vekur hann, næst togar negradrottningin í skottið á Tralla, sem honum líkar alls ekki, og loks togar negrakóngurinn í skottið á Tralla og þá verður hann vondur.
Svo hrædd verða þau hjón að kóngurinn stekkur bakvið hól flassandi berum bossanum undir náttserk sínum og drottningin æðir burt með sólhlífina á lofti undan ómennskum ópum eskimóatröllsins: Íja–úa–tra. Hvaða eiginlega Mordormállýska þetta á að vera er óljóst. En ljóst er af frásögninni að eskimóatröllið er framandi vera jafnvel hinu mest framandi fólki (og höfum hér í huga að höfundur bókarinnar er danskur, það hjálpar heilmikið). En nú bregður svo við að negraprinsessan er ekkert hrædd við óskiljanleg gól Tralla, en hún er agalega forvitin um halann á honum.
Jahérna, hvað höfum við hér? Tralli hefur gert hana að halanegra. Og hvað er nú það, nákvæmlega? Við þekkjum það sem niðrandi orð yfir svart fólk, en í Norður-Evrópu á 19. öld þá var talið að til væri tiltekin manngerð sem væri halanegri, þ.e. bókstaflega svart fólk með hala. Ein heimild um slíkar hugmyndir er alfræðirit Jóns Bjarnasonar Ritgjörð tilheyrandi spendýrafræði (ÍBR 67-73 4to, hér 69 4to) frá miðri 19. öld sem byggð var á evrópskum alfræðiritum og hefur að hluta verið gefin út af Árna H. Kristjánssyni.
Halanegri, meðal annarra manngerða
Síðan dansa eskimóatröllið og halanegrinn samba (nema hvað?) og lifa hamingjusöm til æviloka. Tralli er með öðrum orðum bók sem fjallar um tröll sem mætir negra og þau reynast á sama kúltúrplani, afmynduð með sinn hala, dansandi sína frumstæðu dansa. Sennilega hefur bókinni verið ætlað að fagna fjölbreytileikanum en í rauninni gerir hún fátt nema afhjúpa rasískar hugmyndir höfundarins um fólk sem er ekki H.C. Andersen hvítt.
Ef einhverjar efasemdir vakna í brjósti lesandans um að halar séu einlæglega svona demóníserandi (fyrir utan kynþáttabundna karíkatúrinn sem annars birtist í myndskreytingum Tralla) má benda á bókina um Láka jarðálf til samanburðar. Að vísu er hún eftir annan höfund en myndlýsandinn er álíka lélegur og haldinn álíka fordómum. Bók þessi fjallar um Láka, sem er jarðálfur, og hann býr ofan í jörðinni þar sem jarðálfar búa.
No shit.
Foreldrar Láka heita Snjáki og Snjáka og þau voru fædd fyrir tíma Mannanafna-
og Barnaverndarnefnda. „Á hverjum degi, þegar Snjáki og Snjáka vöknuðu, sögðu þau: „Við ætlum bara að gera það, sem er ljótt!“ Svo kysstu þau Láka litla og sögðu: „Þú átt bara að gera það, sem er ljótt. Þá verður þú reglulega stór og ljótur jarðálfur, alveg eins og pabbi þinn.““ Foreldrar Láka eru semsagt frekar brengluð eintök og andfeminísk í ofanálag.
Samt nógu síviliseruð til að halda kaktus, þótt það segi kannski ekki mikið. Ekki nógu klár til að fatta að það gagnast ekki að hafa glugga fyrir hann ofan í jörðinni þar sem sólin skín ekki.
Láki ákveður dag einn að hann vill iðka sín illvirki ofanjarðar frekar en neðanjarðar, og fljótlega finnur hann heimili Elsu og Ívars sem eru í mömmuleik (og miðað við að bókin er gefin út árið 1956 hlýtur það að vera verulegur áfellisdómur yfir persónu Ívars). Láki felur dúkkurnar þeirra svo Elsa og Ívar fara að gráta. „En Láki faldi sig á bak við tré. Hann sló á magann og sagði: „En hvað það er gaman að gera öðrum illt!““ Þetta skottlanga skrímsl heldur áfram illkvittni sinni, hellir rødgrød med fløde yfir hvítan kött og fer þannig bæði illa með feldinn og eyðileggur hádegismat fjölskyldunnar í senn. Svo setur hann púður í tóbak föðurins svo pípan hans springur og sprautar vatni yfir póstburðarmanninn.
Og kúkar sennilega í skorsteininn, þótt það sé ekki tekið fram.
Láki er vondur sjöhundruðututtuguogeinu sinni, sem er frekar mikið má reikna með. Og hann finnur ekki lengur gleði í illvirkjum sínum, svo hann ákveður að prófa að vera góður einu sinni. En góðverkin eru smitandi, hann getur ekki hætt. Og hér birtist svo boðskapur sögunnar:
„En í hvert skipti, sem hann gerði eitthvað gott, varð hann líkari venjulegu barni.“
Og umbreytingin heldur áfram:
„Þegar hann gerði góðverk í næsta skipti, urðu álfsklærnar hans að venjulegum drengs-höndum. Og þegar hann gerði góðverk í þriðja skipti, varð álfs-strýið hans að venjulegu drengs-hári. Að lokum datt álfs-skottið af honum, og þá var Láki loks orðinn að venjulegum dreng.“
Og þá fyrst, eftir alls konar góðverk á heimilinu, segir pabbi Ívars og Elsu að hann megi nú koma og eiga heima hjá þeim alltaf, „því að nú ert þú orðinn eins og venjulegur drengur.“ Heyr á fokkíng endemi! „Nei, hjá þvílíkum kynþáttahöturum vil ég aldrei búa,“ hefði Láki svarað ef þetta væri barnabók með almennilegan boðskap, en því er aldeilis ekki að heilsa. Láki fær „lítið rúm til að sofa í og lítinn stól til að sitja í,“ rúmið reyndar þrefalt minna en hann sjálfur. Jafnvel án halans er hann ekki nema þriðja flokks mannvera, og aðeins þegar hann er laus við hin skrímslislegu ytri einkenni fær hann viðurkenningu sem alvöru manneskja. Þá er ekki einu sinni spurt að uppruna, hvort hann eigi foreldra. Nei, þau bara taka hann í algjöru ábyrgðarleysi; aðeins af því hann er gott vinnudýr og lítur ekki út eins og einhver fokkíng jarðálfur.
Nú máttu reyna að troða þér í þetta dúkkurúm, hahahaha!
Þannig er Láki eftirnýlendusaga að hún undirstrikar hversu dýru verði mennskan er keypt í samfélagi hinna hvítu, halalausu yfirboðara sinna. Afmennskun og jaðarsetning hins framandlega er algjör í Láka rétt eins og í Tralla. Þannig orka þessar bækur saman eins og bónusútgáfan af Litla, ljóta andarunganum sem fjallar um það að eina leiðin til að sleppa frá afmennskun annarra er að gerast rasisti sjálfur við fyrsta tækifæri. Tralli er sagan af villimönnum sem ekki eru þóknanleg manntegund, en Láki fjallar um það hvernig slíkar manntegundir gætu mögulega aðlagast vestrænu samfélagi. Báðar bækur eru viðurstyggð og skulu hvergi lesnar nálægt börnum, ekki einu sinni í hljóði.
Síðast tók ég fyrir Græna hattinn, sem í raun er sjálfstætt framhald á fyrri bók Alice Williamson um Bláu könnuna. Eins skelfileg og Græni hatturinnn er, þá er ljóst að Williamson hefur þurft að draga af sér þar enda hefur fyrri bók hennar þótt einum of óhugnanleg. Í lok Græna hattsins hefur lesandanum verið fengin óljós von, en vonleysi einkennir Bláu könnuna.
Í upphafi sögu er lesandi ávarpaður, „Hér sjáið þið litlu, bláu könnuna,“ svo veggurinn milli söguheims og lesanda er rofinn og lesandi gerður þátttakandi í framvindunni, hann er beinlínis gerður ábyrgur því hann situr undir atburðarásinni og aðhefst ekkert: „Hún stendur uppi á hillu. Henni leiddist og langaði niður.“ Hér er tíma verksins sömuleiðis breytt; fyrst er lesanda talin trú um að atburðir sögunnar eigi sér stað frammi fyrir augum hans, en svo er hann sviptur þeirri falsvon þegar ljóstrað er upp um að atburðir sögunnar hafa þegar gerst. Raunar er einkennandi fyrir verkið hvernig umbroti þess er markvisst beitt til að ýta undir falska von lesandans um úrlausn á vanda könnunnar en brjóta hana jafnharðan niður aftur, á meðan crescendo væntinganna ýfir upp spennu textans uns allt hrynur að lokum.
Sjáið bara! Sjáið þessa könnu hvað hún er leið! Hún hefði betur bara sætt sig við tilveruna!
Þannig er lesandi tældur áfram til þátttöku og fyrr en varir hefur hann gerst meðsekur í hatursglæp. Það er erfitt að segjast ekki hafa tekið þátt í raun heldur aðeins unnið þarna þegar öskunni úr ofnunum rignir yfir þig, svo þegar kannan liggur brotin að leikslokum er ansi billegt að segjast ekki hafa vitað í hvað stefndi. Allt í bókinni stefnir að þessu lokamarki, bæði fyrir atbeina könnunnar og annarra. Heimspeki eymdarinnar í verkinu er þessi: Þér líkar ef til vill ekki staða þín í lífinu, en hún getur aðeins versnað því meir sem þú reynir að bæta hana.
Aðrar persónur sögunnar eru ekki kynntar, þær bara eru og þær eru sjálfsagðar, og þær birtast hver á fætur annarri á einhverjum óljósum stað þar sem er hilla og blá kanna. Gerist sagan í verslun? Við vitum það ekki. Það eina sem við vitum er að hillan er notuð sem mise-en-scène fyrir heiminn; hvað liggur handan hillunnar er ekkert nema óskilgreind von, innantóm hugmynd um ytri veröld.
Von byggist upp:
Litla bláa kannan sagði við litla, gamla manninn: „Ég er lítil, blá kanna og mér leiðist svo mikið hérna uppi á hillunni. Viltu vera svo góður að taka mig niður, því annars hoppa ég sjálf niður á gólf?“
Það er svo margt sem gerist hér í einni sviphendingu og kemur lesandanum að óvörum: kannan getur talað! Frá fyrstu síðu vissum við að hún væri tilfinningavera sem byggi yfir hugsun. Þetta er kanna með andlit, en að vísu þarf það ekki að þýða neitt; amma mín á blómavasa með auga en þó vitum við ekki til þess að vasinn geti séð. En nú tekur kannan af allan vafa og talar við „litla, gamla manninn“ eins og við eigum að vita hver það er. Kannan finnur sig knúna til að skilgreina sjálfa sig innan tilveru sögunnar: hún er lítil, blá kanna. Þetta ætti litli, gamli maðurinn að geta sagt sér sjálfur, en ítrekaðar tilraunir könnunnar til að skilgreina stöðu sína í heiminum benda einmitt til þess að þær séu mikilvægar: staða hennar er ekki viðurkennd, tilvist hennar er hafnað. Ennfremur birtist afleiðing þessarar jaðarsetningar könnunnar í hótun hennar um að fremja sjálfsvíg á staðnum ef litli, gamli maðurinn hjálpar henni ekki niður þangað sem henni virðist tilveran grænni. Óhugnaðurinn rífur í lesandann frá fyrstu sitúasjón. Upplausn er í vændum, ógnin er komin í spilið.
Litli, gamli maðurinn veitir könnunni falsvon.
„Nei,“ sagði litli, gamli maðurinn.
„Ég vil ekki hjálpa þér niður, litla bláa kanna.“
NEI? Hvað er að? Kannan hótaði rétt í þessu að svipta sig lífi og litli, gamli maðurinn lætur eins og það að rétta fram litla fingur sé til merkis um meðvirkni. Hann vill ekki hjálpa henni. Hann hafnar könnunni um þátttöku í heiminum. Heimur könnunnar er hilla, og verður hilla, og fyrr má kannan deyja á gólfinu en að hann hjálpi henni. Hann reynir að firra sjálfan sig ábyrgð, en er í raun ábyrgur með aðgerðaleysi sínu, rétt eins og lesandinn: eins og við öll sem skellum skollaeyrum við þegar jaðarsetning fólks á sér stað frammi fyrir augum okkar. Þessi kanna talaði við hann, en hann viðurkennir ekki að hún sé fólk, hann sér aðeins könnu.
Og svona gengur sagan með risi og hnigi á víxl, þar sem ein opna birtir von um úrlausn en sú næsta kæfir niður vonina: Litla, gamla konan er beðin um aðstoð, en hún neitar að hjálpa könnunni. Litli drengurinn er beðinn um aðstoð, en hann neitar að hjálpa könnunni. Litla stúlkan er beðin um aðstoð, og allir sem hafa áður lesið Græna hattinn fyllast nú von því það var litla stúlkan sem keypti hann, en nei: litla stúlkan neitar að hjálpa bláu könnunni.
Næst birtist litli svarti kötturinn, sem er einnig persóna í sjálfstæðu verki eftir Alice Williamson, Svörtu kisu.
„Mjá, mjá,“ sagði litli svarti kötturinn.
„Ég skal hjálpa þér niður, litla, bláa kanna.“
Kannan er ómenntuð og hefur ekki áttað sig á því að kettir hafa ekki þumla, svo það er ógjörningur fyrir svörtu kisu að hjálpa könnunni niður. Hvort er hún samt öll af vilja gerð, eða hreinlega full af illsku og hatri í garð myndhverfðra jaðarhópa? Það er óvíst. Þó má draga vísbendingar af hræðilegum svip kattarins, rauðglóandi glyrnum hans, þegar hann hrindir könnunni fram af hillunni.
Svarta kisa myrðir bláu könnuna
Svo litla, bláa kannan féll niður á gólf.
Hún brotnaði í þúsund mola.
Og gólfið niðri er alveg eins og hillan: glóandi rautt, rautt eins og blóð könnunnar; í senn tákn um að dauðinn er ekki aðeins óhjákvæmilegur nú, heldur að hann hafi alltaf verið í nánd, jafnvel uppi á hillunni; táknrænt sömuleiðis fyrir það að tilveran var eftir allt saman engu skárri þegar af hillunni var komið. Hún var eins. Allt er eins. Eins og það á að vera. Kannan hefði betur sætt sig við það.
„Og þar með endar sagan af litlu, bláu könnunni.“
Eða svo segir sagan, en bókin heldur samt áfram á þrem öðrum tölusettum blaðsíðum. Á síðu 29 er bláa kannan brotin, en á næstu síðu er hún heil!
Hér er freistandi að túlka könnuna sem eins konar kristsmynd: fyrst er boðskap hennar tekið fálega meðal þeirra sem valdið hafa til að breyta heiminum (sem í þessu tilviki er hilla), síðan er kannan svikin og tekin af lífi, loks rís kannan aftur upp frá dauðum. Á næstu síðu hefur kannan verið hrifin upp til æðri tilveru:
Og við erum skilin eftir ein í tilverunni:
Hins vegar er öllu sennilegri túlkun að þetta séu hinstu hugrenningar hinnar deyjandi bláu könnu, þar sem hún óskar sér burt á einhvern annan og betri stað. Sennilega hefur Terry Gilliam haft þessi endalok Bláu könnunnar í huga þegar hann aðlagaði söguna í kvikmyndina Brazil. Tómhyggja sögunnar bendir til þess að hér sé á ferðinni enn ein falsvonin um einhvers konar upprisu, en tómu síðurnar í lokin sýna lesandanum að í heimi sögunnar er ekki smæsta tangarhald hafandi á voninni: speranza del mondo sögunnar er að allir haldi sig við þá hillu sem þeim hefur verið úthlutað, ellegar fari illa fyrir þeim. Dantelögmálið og Jantelögmálið sameinast í eitt: látið af allri von þegar í stað, því þið eruð ekki neitt. Hvítu síðurnar eru tómið og dauðinn. Litla, bláa kannan er ei meir og verður aldrei aftur. Við drápum hana.
Græni hatturinn (e. The Little Green Hat) er stutt hryllingssaga eftir Alice Williamson sem kom út í bókaflokknum Gay Colour Books á sjöunda áratugnum. Sagan er sérstök fyrir það að hún er óræð vinjetta af sitúasjón, nefnilega af hatti sem veit að hann er lifandi en er jafnframt fangi í hattabúð. Hans einasta von um lausn er að einhver kaupi hann, en enginn vill kaupa hann. Þannig líður tilvist hattsins áfram í fæðingu vonar og upplausn hennar aftur. Með því er andi hattsins stöðugt brotinn niður.
Frumútgáfa Græna hattsins
Það sem flækir málin er að það er ekki aðeins hatturinn sem lifir og veit hann lifir, heldur vita það sömuleiðis hinir ýmsu vegfarendur sem eiga leið hjá hattabúðinni. Hatturinn á í beinum samskiptum við konur og karla, pilta og stúlkur, um vanda sinn: að hann er fastur í hattabúðinni þar til einhver frelsar hann úr ánauð. Þrátt fyrir að hið vel stæða fólk sé meðvitað um aðstæður hattsins neita þau að kaupa hann: „Nei, litli græni hattur, ég vil ekki kaupa þig,“ hreyta þau framan í hann snúðug á svip. Hatturinn er þannig táknrænn fyrir stöðu þræla á árum áður, en ekki síður fyrir stöðu ómaga og öreiga andspænis borgarastéttinni.
Hatturinn er aðeins til sem einhvers konar ófrjálst ítem, skraut fyrir hina efnameiri, sem skuld við einhvern ónefndan yfirboðara sem þarf að reiða af hendi svo hann geti lifað frjáls. Hvernig hatturinn komst í þessar aðstæður er ósagt; hvað hattabúð merkir í þessu samhengi er einnig órætt og sérstaklega óhugnanlegt. Hugurinn hvarflar ósjálfrátt til fangabúða, jafnvel útrýmingarbúða, því þegar nánar er að gætt eru fleiri hattar í búðinni, en þeir eru ekki lifandi. Þeir eru annað hvort látnir eða þá að þeir hafa aldrei lifað.
Fyrra tilfellið gerir neyð græna hattsins þeim mun meiri: hróp hans á hjálp fara sem vindur um eyru vegfarenda þegar hann einn er eftir á lífi. Hinn möguleikinn eykur enn á þær tilvistarlegu spurningar sem textinn vekur: ef græni hatturinn er sá eini sem hefur verið á lífi, þá er hann einstakur. Því síður er skiljanlegt að fólk láti sem ekkert sé þegar hatturinn ávarpar það. Það gefur til kynna að síðari möguleikinn sé ólíklegur; fólk er vant því að tala við hatta í söguheimi bókarinnar. Hattar eru hugsandi verur, geymdar í hattabúðum, og ganga kaupum og sölum sem höfuðskraut fyrir hinar ráðandi stéttir.
Telpan kaupir græna hattinn — stjaksett lík annarra hatta hvíla á afgreiðsluborðinu öðrum höttum til aðvörunar
Loks biðlar græni hatturinn til stúlku sem á leið hjá búðinni, hvort hún vilji vinsamlegast kaupa sig. Þessi stúlka vill það gjarnan og reiðir af hendi skilding úr buddu sinni til ónefndrar konu sem virðist hafa öll tögl og hagldir í hattabúðinni. Þar blasir við hin óhugnanlega sjón, tveir stjaksettir hattar sem áður hafa verið lifandi en hefur nú verið refsað fyrir að hafa ekki getað sannfært vegfarendur um að skilja kapítal sitt eftir í versluninni. Þannig mætti jafnframt lesa söguna sem líkingu yfir hið kapítalíska hagkerfi, þar sem millistéttin afhendir auðstéttinni fjármuni sína í skiptum fyrir stolin gæði sem hún hefur ekki þörf fyrir, á meðan öreigastéttin (hattarnir) treðst undir. Beinast liggur þó við að lesa söguna sem líkingu annars vegar fyrir þrælahald og þannig mætti túlka hattana sem svarta þræla, hins vegar fyrir útrýmingarbúðir þar sem hattarnir eru gyðingar.
Græni hatturinn er því mjög pólitískt hlaðin saga og alls ekki við hæfi barna. Á Íslandi hefur hún verið prentuð oft í ritröðinni Skemmtilegu smábarnabækurnar, sem er eins mikið rangnefni og hugsast gæti: hún er hvorki skemmtileg né er séns að smábörn fái nokkru sinni skilið hana. Það væri enda ekki æskilegt.