Litlu verður Vöggur feginn

Sumir dagar eru þannig að án þess að gera neitt flytur maður fjöll. Þannig hófst fyrri partur dagsins í dag þegar ég rúntaði hálfsárslega túrinn niður í Mastercard með sömu kankvíslegu tilgerðarhógværð og ég vanalega set upp af tilefninu, vitandi upp á mig sökina að hafa algjörlega trassað að greiða reikningana, og verið drullusama (nokkuð sem ég ætla að bæta úr frá og með nýju ríkisfangi).

Þá hafði ég víst sýnt þá fyrihyggju einhverntíma í fyrra, og steingleymt því, að biðja um að láta skuldfæra kortið á bankareikninginn minn mánaðarlega. Svo ég var alveg skuldlaus. Ég vel að merkja þoli ekki greiðslukort og nota þau aldrei nema til raðgreiðslna, og í haust keypti ég mér tölvu sem ég hélt að ég skuldaði meira eða minna fjórðung í ennþá (ég hef það lágar tekjur að maður tekur ekki eftir því hvort muni 8000 kalli á mánuði, og Reykjavík sendir ekki lengur út launaseðla svo ég sé það ekki þar heldur).

Mér fannst ég hafa grætt nokkuð á fyrirhyggjunni og hélt ósköp glaður á næsta stað að kaupa ferðatöskurnar sem ég tímdi ekki að kaupa deginum áður. Önnur var merkt á 13 þúsund en hin á 11. Þegar ég kom að kassanum kostuðu þær saman 9 þúsund, sem er mér algjörlega óskiljanlegt. En ekki fer ég að kvarta undan svoleiðis prís. Þaðan lá leið mín í bankann að tryggja mér framfærslulán í vetur sem verður greitt mánaðarlega inn á danskan reikning sem ég sæki um í vikubyrjun næstkomandi. Þegar ég kom aftur í vinnuna hafði vinur minn úti boðið mér að hjáleigja herbergið sitt í kommúnu í einhverju úthverfi þar til ég fengi eigin íbúð.

Eftir vinnu tókst okkur pabba svo loksins að:

1. Tæma geymsluna heima hjá mömmu af gamla draslinu hans.
2. Henda því sem henda mátti.
3. Laga voða fínt til eftir okkur svo hennar dót sé aðgengilegt úr öllum áttum.

Af Laugarnesveginum hentumst við svo í Hafnarfjörðinn og skófluðum draslinu af handahófi í geymsluna hér. Þá er flestu því leiðinlegasta aflokið allt á einum degi og ég get hlakkað til þess að kynna flunkunýja sjötíu ára gamla bók eftir Þórberg í Bókabúð Máls og menningar annað kvöld eftir að ég hef gengið frá leigjendaskiptum að skrifstofunni minni í Reykjavíkurakademíunni.

Og enda þótt ég gleymdi alveg að borða í dag þykir mér ekki amalega að verki staðið á einum degi.

Staðfesting þjóðsögunnar

Um daginn bað kunningi minn um aðstoð við að afla heimilda um vélstjórann frá Aberdeen, annarra en sögunnar sjálfrar. Frumheimildin er frásögn sýslumanns sem upplifði sjálfur þá atburði sem hann síðar lýsti fyrir Þórbergi Þórðarsyni, sem síðan gaf söguna út í þjóðsagnasafninu Gráskinnu ásamt Sigurði Nordal. Ég var nú ekki alveg á þeim buxunum að leggjast yfir annála eða aðrar samtímaheimildir til að staðfesta þjóðsögu sem af augljósum ástæðum getur ekki verið sönn nema að litlu leyti, að minnsta kosti hefur draugagangurinn verið stórlega ýktur, en ég byrjaði samt að leita.

Í sögunni segir að Axel Tulinius, sýslumaður, eigi til mynd af líki vélstjórans. Aðeins andartaki eftir að ég hafði slegið vélstjóranum inn í herra Google fann ég myndina, sem prýðir þessa bloggfærslu. Fram að því fannst mér sem engin sérstök ástæða væri til að leggja trúnað á að nokkurn vélstjóra hefði yfirhöfuð rekið á land í Seyðisfirði, en ljósmyndin staðfestir það. Með slíka heimild í höndunum mætti segja að það sé að minnsta kosti meira sannleikskorn í sögunni um vélstjórann frá Aberdeen en til dæmis þeirri sem segir að skrímsli hafi drepið sauði fyrir bændum á Katanesi, frekar en að smalarnir hafi þar fundið gott, ef ekki ögn langsótt, skálkaskjól fyrir hirðuleysi sínu.

Önnur slík staðfesting á sögu barst mér með DV í dag, þó með eilítið öðrum hætti. Ég sagði frá því hér fyrr í sumar þegar Árósafarinn Valur Gunnarsson hitti fyrir forna sígaunakonu í Risskov sem bað hann ásjár. Konan reyndist síðar hafa verið geðsjúklingur og mér þótti sagan nógu lygileg til að fólk gæti trúað henni. Nú segir DV frá sex Grænlendingum sem flúðu réttargeðdeildina í Risskov, þar af ein kona. Það gæti verið „sígaunakonan“ hans Vals.

Hin spurningin sem vaknar, að undanskilinni þeirri sem lýtur að aðbúnaði geðveikra á þessu sjúkrahúsi, er sú hvort að ofbeldismennirnir sem hún óttaðist svo mikið hafi mögulega verið hinir sömu og brutust út með henni og reyndu svo að nauðga tveim konum. Að minnsta kosti er tengingin ekkert sérlega ótrúleg. En það sem gerir þetta sérlega áhugavert frá mínum bæjardyrum séð er ekki aðeins sú vídd sem fréttin bætir við upprunalegu söguna, heldur hversu ólíklegt það var að blaðamaður hjá DV læsi upphaflegu fréttina og þætti hún hæf til birtingar á vefnum, mér til ómældrar ánægju.

Bergshús V

Fyrir tæpu ári fjallaði ég nokkuð um Bergshús á þessum síðum og vitnaði meðal annarra í Guðjón Friðriksson sem sagði að húsið hefði verið rifið (sjá hér). Fljótlega eftir það skrifaði einhver færslu um húsið á Wikipediu og vísaði hingað (sjá hér).

Athygli mín var vakin á málinu aftur í gær þegar einhver kom inná síðuna mína gegnum Wikipediu og ég athugaði hvort nokkru hefði verið bætt við síðan síðast. Þá rak ég augun í frétt um að rishæð Bergshúss skyldi flutt uppá Árbæjarsafn – einsog einhver hafði áður uppástungið við mig – árið 1989. Á myndinni með fréttinni sést að húsið var í niðurníðslu. Á Árbæjarsafni skyldi svo endurgera jarðhæðina í upprunalegri mynd og tylla risinu ofaná.

Þetta þóttu mér nokkuð athyglisverð tíðindi þarsem ég vissi fullvel að húsið er ekki á Árbæjarsafni, þótt Wikipediufærslan geri ráð fyrir að það hafi farið þangað. En ég fylltist agnarlítilli von og sendi fyrirspurn til Minjasafns Reykjavíkur – ef húsið gekk ekki sundur við flutningana þá væri það ef til vill einhversstaðar niðurkomið. En svarið sem ég fékk dró af öll tvímæli:

Sæll Arngrímur

Húsið var ekki flutt í heilu lagi hingað á Árbæjarsafn, heldur einungis þak þess eða ris, en þakið mun hafa verið það eina sem heillegt var af húsinu. Til stóð að byggja undir það eftirlíkingu af upprunalegu hæðinni, en aldrei varð af því. Mun þakhæðin hafa verið verr farin en ætlað var og því reyndist ekki unnt að endurreisa húsið í safninu..

Bestu kveðjur,

Drífa Kristín Þrastardóttir
Safnvörður, húsadeild
Minjasafni Reykjavíkur – Árbæjarsafni

Og því skrifa ég þessa færslu nú í von um að þau hjá Wikipediu reki augun í þetta og leiðrétti færsluna. Ég hefði samband sjálfur ef ritstjórar hefðu opinbera kontakta á síðunni en verandi alþýðuuppsláttarrit hefur það hingað til ekki verið stefnan. Ég hinsvegar breyti þessu ekki sjálfur af tveim ástæðum: vegna þess að í mig er vitnað, og samkvæmt reglum Wikipediu má ekki birta eigin athuganir, og vegna þess einfaldlega að ég nenni ekki að setja mig inní það.

En þá vitum við þó að það var reynt að bjarga húsinu. Það er syndsamlega mikill missir að því.

Eldri færslur um efnið:

Bergshús
Bergshús II
Bergshús III
Bergshús IV

Myndin eftir Árna Sæberg er ekki fengin með leyfi, sem er eingöngu vegna eigin leti.

Þórbergur, ástin og andófið

Fyrirlesturinn í Suðursveit gekk vel, raunar langt framúr vonum.

Fyrirlesturinn má finna á Tregawöttunum, hér. Í heimildaskrá er vísað beint í béaritgerðina mína, hafi einhver áhuga. Seinna birti ég svo fyrirlesturinn einnig hér, á pdf-formi.

Þetta er annars fyrsta bloggfærslan sem er skrifuð á makka. Ég var semsé að fá mér nýja tölvu. Venst vel.

Jöklar og saga, stjörnur og rómantík

Um helgina verður haustþing Þórbergsseturs að Hala í Suðursveit. Meðal annarra verðum við frændsystkinin Þórunn Hrefna með erindi þar og að sjálfsögðu hvet ég alla lesendur Bloggsins um veginn til að koma þangað. Þingið verður ræst á laugardagsmorgun og stendur fram á sunnudag.

Dagskrána má finna hér. Erindið mitt set ég inná síðuna við tækifæri nema það verði birt annarsstaðar, en þá vísa ég þangað.

Stiklur

Mér þráleiðist allt tal um nákvæmni Þórbergs. Ennfrekar leiðist mér að sjöþúsund manns hafi ekki talið það eftir sér að skrifa einhversstaðar í greinum sínum um óskyld efni að kaldhæðnislegt hafi verið fyrir „nákvæmnismanninn Þórberg“ að fæðingarár hans hafi verið vitlaust skráð. Get over it.

Sigfús Daðason er manna hófsamastur og öðrum rökfastari í greinaskrifum sínum. Hann hefði orðið betri fræðimaður en skáld, að síðarnefndu hliðinni ólastaðri.

Skilgreiningar á Þórbergi eru bæði óþarfar og villandi. Hann var allt það sem fólk segir hann hafa verið og miklu meira til. Fólk er ekki auðsveigt í hólf, og mér leiðast almennt tilburðir í þá áttina að flokka og greina manneskjur þegar listaverk eru til umfjöllunar. Vinsamlegast hættið því.

Enn af Þórbergi

Ég held stundum að ég sé að verða ruglaður. Ég er með 53 blaðsíður af tilvitnunum í heimildir. Svo þegar ég renni yfir skjalið sé ég að það vantar fullt af heimildum þar inn sem ég þó hef farið ítarlega yfir. Hvers vegna skrifaði ég ekkert niður? Las ég þær kannski aldrei? Er ég eitthvað skrýtinn?

Hvert einasta orð sem ég les um Þórberg finnst mér ég hafa lesið margoft áður. Ég er líkast til kominn á stig alkjalfróðleiks um manninn – sem er næsta við fræðilegt nirvana utan að hafa gefið út bók um efnið.

Árið 1972 heimsótti Þórbergur Hala í Suðursveit hinsta sinni. Hann var þá þjáður allillilega af parkinsonsveiki og skynjaði vitjunartíma sinn, að líklega sæi hann aldrei aftur sveitina sína. Svo hann neitaði að fara. Margrét kona hans reyndi að tala hann til en þegar ekkert gekk var hann á endanum borinn út og settur grenjandi um borð í flugvél til Reykjavíkur. Segir Halldór Guðmundsson.

Mér finnst það svo andstyggilegt að ég á ekki orð til að lýsa því.

Hann lést 1974. Sama ár og zetan – helsta tákn mosagróinna moggaskríbenta – var afnumin. Eða var það 1973? Í öllu falli er hún jafn úreld og helvítis flokkurinn þeirra.

Við Þórbergur

Erlendur í Unuhúsi var okkar teingiliður, en eftir að hann dó og Unuhúsi var lokað bar fundum okkar Þórbergs ekki saman nema með höppum og glöppum, einna helst í gestaboðum þar sem ekki er kostur að blanda geði við menn. Ég sá hann seinast sitja einmana og yfirgefinn á bekk í manntómum gángi á Vífilstaðahæli undir kvöld seint í sumar leið. Hann sagði mér að búið væri að „taka af sér“ penna og pennaskaft, blekbyttu og blað, hvað þá hann hefði bók af nokkru tagi að líta í. Mér fanst þetta mætti ekki svo til gánga og reif blað úr vasabókinni minni og skrifaði á það eina vísu eftir Hannes stutta, „Brúðkaupsdagur Dags kom þá, dúði fagur skrúði“ osfrv, og fékk honum. Hann stakk bréfsnuddunni oní gleraugnahúsin sín, horfði hýrlega á mig, en brosti með samanbitnum vörum.
Fyrir nokkrum árum tók hann mig útí horn í kokkteilboði og segir mér þá þessi tíðindi: „Nú eru þeir farnir að rekast á menn á gángi hér uppí bæ með eina nös og ekkert miðsnesi.“
Þetta mun hafa verið um þær mundir sem ormurinn hafði nýsést í Lagarfljóti, en Þórbergur verið gerður heiðursfélagi í monstrólógíska félaginu breska sem stendur undir ægishjálmi og hlífiskildi bretakonúngs. Ég stíng nú uppá því við Þórberg hvort ekki muni vera mál til komið að safna undirskriftum um áskorun til ríkisstjórnarinnar að láta flytja Lagarfljótsorminn híngað suður og setja hann hér í Tjörnina. Ekki hafði Þórbergur trú á slíku fyrirtæki; dularfull fyrirbrigði var ekki hægt að skipuleggja, allra síst undir þessari ríkisstjórn, heldur urðu þau að koma af sjálfu sér, að því hann taldi.
Við héldum áfram að vera vinir í fjarska eftir fall Unuhúss, og á þá vináttu brá ekki skugga þó hann væri sá maður sem mér hefur fundist einna óskiljanlegast saman settur allra sem ég hef kynst; og honum áreiðanlega sýnst hið sama um mig. Þórbergur var í mínum augum ekki aðeins tveir eða þrír menn, heldur tvær eða þrjár ólíkar heimsmenníngar að gáskafullum leik í einni persónu sem þó aldrei klofnaði.
Útlendíngar töldu hann vera eina manninn í heiminum sem í senn væri marxisti og andatrúarmaður. Þeir sóttu fast eftir að kynnast slíkum manni og ræddu þetta dularfulla fyrirbrigði oft við íslendínga, þarámeðal undirritaðan, og vildu fá skýríngu á því. Ég sagðist ekki þekkja hann öðruvísi en þann rithöfund sem því stæði næstur af náttúrunni að skrifa óbundið mál líkt íslensku gullaldarmáli 13du aldar, ef hann vildi. Slík svör fóru fyrir ofan garð og neðan hjá útlendíngum.
Mér verður ógleymanlegur fundur þar sem ég var nærstaddur með Þórbergi og pólskum prófessor sem hér var á ferð, og reyndar hefur skrifað bók um landið. Þessi prófessor var feiknarlegur marxisti, einsog margir pólverjar segjast vera nú á dögum, og hann var staðráðinn í því að komast til botns í þessum furðulega manni hér útá Íslandi sem í senn var marxisti, hafði orðið var við draugagáng og trúði á ljós í klettum.
Nokkrum dögum síðar höfðu pólverjar kokkteil fyrir þennan mann í sendiráði sínu hér í bænum. Þá bar svo vel í veiði að við Þórbergur vorum þar báðir meðal gesta, svo ég sá mér leik á borði að kynna hann hinum pólska heiðursgesti.
Pólverjinn hneigði sig oní gólf og sagði: Loks er upprunnin sú lángþráða stund fyrir mér, að heilsa Þórbergi Þórðarsyni. Getur það verið satt að þér séuð í senn andatrúarmaður og marxisti?
Þórbergur beit lítið eitt á vörina án þess að brosa, leit fast á manninn og svaraði: Ég er skrýmslafræðingur hennar hátignar bretadrotníngar.
– Halldór Laxness, Seiseijú, mikil ósköp, bls. 55-8.

Bergshús IV

Bergshús stóð ennþá 1987. Það var greinilega ekkert sérlega fallegt hús (smellið á myndina til að stækka):


Fengið úr Mannlífi við Sund 3.b., Páll Líndal.

Um Bergshús skrifar Páll Líndal:

Alexíus Árnason lögregluþjónn mun hafa reist þetta hús um 1865. ‘Í þessu húsi hafði sá nafnkunni snillingur átt heima á efri árum æfi sinnar. Innan þessara bókfellslegu veggja hafði hann gengið um gólf, langur og grannur í svarta diplomatinum, með baðmullarhattinn hangandi aftan í hnakkanum, niðursokkinn í lævísleg heilabrot um skæðaþjófa og riklingshnuplara bæjarlífsins’ (Þórbergur Þórðarson 1964, 59 [Ofvitinn])

Í húsinu átti einnig heima um skeið Eiríkur Ólafsson frá Brúnum […] og síðar Jóhann Gunnar Sigurðsson skáld (d. 1906). Húsið hefur lengst af gengið undir nafninu Bergshús, kennt við Berg Þorleifsson söðlasmið sem átti það í næstum hálfa öld, frá því um 1885. Leigjandi hjá honum um tíma var Þórbergur Þórðarson sem segir frá dvölinni þar í Ofvitanum: ‘Herbergið, sem við fengum þarna til íbúðar, var uppi á lofti í vesturenda hússins, og gestir … er þangað tóku að streyma, þegar leið á haustið, kölluðu það í gamni Baðstofuna, af því að það var undir súð og allur heildarsvipur þess minnti mjög á sveitabaðstofu’ (sama rit, 54).

Búið var í húsinu fram um 1960 en þá var því breytt mikið og hefur verið rekin verslun þar síðan.
– Sama rit, bls. 63-4.

Meðal annarra bjó Jóhann Gunnar Sigurðsson skáld í Bergshúsi einsog Páll segir, áður en Þórbergur flutti þar inn. Einu bók hans, Kvæði og sögur, á ég í frumútgáfu frá 1909. Bókin er gefin út að honum látnum, en hann lést úr tæringu. Fyrsti eigandi, Þorbergur Þórðarson, hefur skrifað nafn sitt á fremra saurblaðið. Hún hefur ef til vill verið keypt á útgáfuárið, sama ár og Þórbergur flutti inní Bergshús af Vitastígnum.

Seinni eigandi, Ragnar Þórarinsson, hefur strikað yfir nafn Þórbergs. Hann bætir því við að bókin sé keypt 2-4 1912 í Reykjavík. Ég kannski skanna inn saurblaðið þegar ég nenni.

Ef þið svo viljið vita hvað Kjaftaklöpp er þá er mér vitaskuld ljúft og skylt að útskýra það.