Heill kafli handa æstum lesendum

Nei, ég veit þið hafið engan áhuga á þessu. En hér er samt heill kafli sem ég hripaði upp úr handritinu, svo mér fer greinilega fram við að lesa þetta. Eftir á að hyggja læðist sá ljóti grunur að mér að sami kafli finnist í Skáldalífi Halldórs Guðmundssonar. Stök orð í textanum skildi ég ekki og því vantar þau:

Um orðið „Forbindelse“.

Það var komið fram á vorið 1913. Ég hélt enn þá áfram að hugsa ástríkar hugsanir til elskunnar minnar. Enn þá var hún fegurst allra kvenna og enn þá voru aðrar konur, sem ég sá á vegi mínum, að eins endurhljómur af fegurð hennar. Enn þá gat ég ekki hugsað mér að lifa án hennar. Enn þá var hún jafnfull af ólgandi lífi, jafn fagurrjóð í kinnum, augun jafntindrandi. Hún hlýtur að lifa hreinu lífi, sagði ég oft við sjálfan mig.

En þennan vetur leit hún sjaldnar upp í baðstofuna til mín en veturinn áður og stóð skemur við. Það er skiljanlegt, hugsaði ég með sjálfum mér. Hún vill hafa allt sem nýjast og ósnjáðast, þegar við förum að lifa saman fyrir fullt og allt. Hún var hætt að ganga í spilatíma, og raulaði nú bara lög, sem hún [heyrði?] í söngtímum í skólanum: Stóð ég úti í tunglsljósi, Hvað er svo glatt, Nú blika við sólarlag o.s.frv. Ég gerði mér far um að líta þannig á aðrar konur, að þær sæju, að ég fyrirliti þær, sérstaklega ef hún var nærri. Ein hafði beðið mig um tilsögn í dönsku. En ég þorði ekki að taka hana. En þá kom hún upp til mín á Þorláksmessukvöld og bað mig að lofa sér [að] skrifa utan á nokkur jólakort upp[i] hjá mér. Ég var kurteis og sagði:

Gerið þér svo vel og sitjið [þér hér?] við borðið. Hún kveikti á perunni. Svo settist hún við borðið, en ég færði mig fram að dyrum, settist þar á stól og lést vera að virða fyrir mér ofninn. Að eins einstöku sinnum hornauga. En hvað hún var falleg: Há og grönn, dökk augu, dökkt hár, dökkar augnbrúnir, fagurlega [?], að eins 16 ára. Það var verið að tala saman í eldhúsinu niðri, líkast og tvær stúlkur væru að pískra um eitthvað. Ég stóð upp og fór að ganga þungum skrefum um gólfið, svo að þær gætu heyrt, að ég væri ekki að gera neitt ljótt. Svo stóð hún upp, tók saman jólakortin, þakkaði mér fyrir, sagði góða nótt og skaut á mig einu hvössu, ásakandi augnatilliti. Svo gekk hún þegjandalega út úr herberginu, lét hurðina aftur á eftir sér, og hélt niður stigann. [Ég hlustaði?] Í eldhúsinu mætti henni skellihlátur. Hver er að hlæja? Það er elskan mín, sem er að hlæja. Guð almáttugur, hjálpi mér! Svo datt allt í dúnalogn. Ég þorði ekki niður, það sem eftir var kvöldsins.

Daginn eftir var elskan mín líkust því sem hún þekkti mig ekki. Hún talaði háværum [spakmælum?] eins og hún væri að tala við veggina eða húsgögnin, og það var allt á [?] um skot og kelirí við einhvern eða einhverja. Ég mændi á hana. Aldrei hafði hún verið svona fögur, svona djöfulleg og fögur.

Við eigum að fyrirgefa, stamaði ég ósjálfbjarga.
Fettu haus, ef þú hefur lyzt á, Tobbi minn.

Eftir það kom hún aldrei upp til mín. En nokkurum kvöldum síðar varð mér litið út um gluggann minn. Það var [?] og úti var dauðaél með föl á jörðu. Undir húsgaflinum sunnanhallt við gluggann minn stóð unga stúlkan, sem hafði beðið mig um tilsögn í dönsku. Og hjá henni stóð ungur piltur. Þau töluðu saman í lágum hljóðum, hvískruðust á. Og eftr það mæltist hún aldrei til að ég veitti henni tilsögn í dönsku.

Elskan mín fór nú að vera lengur úti á kvöldin og ballferðir hennar gerðust nú tíðari en áður. Stundum kom hún ekki heim fyr en klukkan eitt til tvö á næturnar.

Einn dag um vorið gekk ég heim til kunningja míns, skólabróður sem hafði verið með mér á Kennaraskólanum. Hann bjó í litlu herbergi á Laufásveg ??? Við tókum tal saman. Ég vissi að hann þekkti vel alla í skólanum. Talið barst að skólanum.

Guðbjörg hefur ekki komið aftur í skólann, sagði ég.
Hún, Guðbjörg. Hún svaf hjá [Gústa?] í allan fyrri vetur og svo giftust þau um vorið. Er nú farin að búa [einhversstaðar fyrir austan?]
Var hún virkilega svona óhreinlíf.
Þær eru nú ekki allar þar sem þær eru séðar, þessar dræsur.
Svo [lempaði?] ég talið hægt og gætilega í áttina til elskunnar minnar.
Mig grunar að hún hafi nú „Forbindelse“ hér í bænum.
Forbindelse? Forbindelse? [Stamaði/Stundi] ég eins og fábjáni. Jæja. Það var eins og öll líffæri mín [?] innan í mér. Svo stóð ég upp og sagði:

Jæja. Það kemur kunningi minn heim til mín klukkan fjögur. Ég verð að flýta mér. Svo stökk ég heim í einu hendingskasti til þess að fletta upp orðinu Forbindelse í dönsku orðabókinni eftir Jónas Jónasson. Ég [fálmaði?] til bókarinnar. Kem fyrst niður á B, síðan E, svo J, svo H. Hver andskotinn. Loks F: Forbindelse n. samtenging, samband, tenging; efnasamband, blöndun; samgöngur. Hvað átti hann við? Samtenging, tenging, blöndun? Getur það táknað hjónaband? Að hún sé í þann veginn að giftast? Að blanda blóði við einhvern? Átti hann við það? Eða samband, [?] Vináttusamband? Ég vissi hvorki upp né niður, hvoru ég ætti að trúa. Ég las útskýringarnar aftur og aftur, ekki að eins orðin, heldur og stafina og [lestrarmerkin?]. Svo henti [ég] bókinni á borðið og stökk út og marséraði allan daginn þvers og endilangt gegnum bæinn.

Eftir þetta hræðilega áfall tók ég að sjá elskuna mína frá öðru sjónarmiði. Nú fannst mér það liggja í augum uppi, að hún hefði jafnvel lengi haft „Forbindelse“. Var það þetta, sem hún þráði? Var það þetta sem ég hafði [?] Nei. Þetta hlýtur að vera bara laust forbindelse. En þrátt fyrir það gat ást mín til hennar aldrei dáið. Ég var allt af að búast við, að morgundagurinn leysti þetta vandamál.

– Þórbergur Þórðarson, Stóra handritið bls. 154-159.

Að lesa handrit

Vorið 2005 fékk ég að skoða Guðbrandsbiflíu. Þessa stundina puða ég hinsvegar við að lesa óútgefið handrit eftir Þórberg. Ég á bágt með að gera upp við mig hvort var erfiðara aflestrar.

Eitt sinn var Þórbergur spurður hvers vegna hann fengi sér ekki ritvél í stað þess að handskrifa allar bækur sínar. Það gæti sparað honum mikinn tíma. Hann svaraði á þá leið að hann væri nú ekki fljótari að hugsa en þetta og þar við stóð.

En mikill munur hefði það nú verið fyrir mig ef karluglan hefði fengið sér ritvél.

Þetta tókst mér þó að skrifa upp á tæpum klukkutíma, með öllum nauðsynlegum fyrirvörum:

En mér hafði ekkert áunnist. Ég kom heim með drulluga skóna utan og innan, rennblautur í fætur, kaldur og örvæntandi. það var ekki útlit fyrir að ég gæti ort mikið í kvöld. Ég gat aldrei hugsað, þegar illa lá á mér. Ég lagðist niður á hærðan beddann og breiddi yfir mig sængurgarminn, sem var farinn að vera nokkuð óhreinn og lasburða upp á síðkastið. Verið hafði ekki verið þvegið síðan fyrir jólin. En það lagði þó yl um líkama minn undir þessum görmum, sem setti blóðið í mínum þreytta líkama á örari hreyfingu. Ég lá á bakið með blýant og pappírsblað ofar á sænginni og raulaði fyrir munni mér hinar og þessar [] En þetta gekk illa. Mér datt ekkert í hug. Það var meira að segja eins [og] hrynjandi Einars Benediktssonar væri farin að vera mér framandi. Ég örvænti. En þá var eins [og] stífla væri [tekin?] frá hversdagsvitund minni og allt sálarlífið kæmi fossandi neðan úr djúpunum upp í daglegu sálina og hendingarnar komu hlaupandi niður á pappírinn, [einfaldar?], innblásnar, næstum heimskulega [óboðnar?] og eftir lítinn tíma hafði ég ort tvítuga drápu undir fornyrðislagi. Svona á þá að yrkja, hugsaði ég. [Það var nógu einfalt?]. Að víkja skynseminni eins og [til hliðar?] og láta innblásturinn ná valdi yfir sér, þetta var þá allur [galdurinn?]. Og eftir þetta regnþrungna aprílkvöld undir skítugri sæng og drullublautum sokkum og skóna fram á gólfinu orti ég aldrei eina hendingu í anda Einars Benediktssonar. Ég hafði verið byrjaður að skrifa langa ritgerð um kvæði hans [.. mikla], en hætti við það með fyrirlitningu [þess í …]; […] Nei, svona [?] speki gat ég ekki lengur eytt tíma mínum yfir.

En þessi endurfæðing leysti ekki öll vandamál mín við skáldskaparíþróttina. Það sem [?] þá kvaddi mig og [lengi hafði valdið?] mikillar ógleði, var hið væmna [lífs-?] og ástar-vol [annara] skálda. Og skortur þeirra á frumleika í framsetningu og hugsun var mér einnig viðbjóður. Svona væl gat ég ekki fengið mig til að láta sjást eftir mig á pappír. Og ég var of frumlega þenkjandi að eðlisfari til þess að geta ort svona flatt og hversdagslega.

Þessi viðbjóður, sem var engu líkari en morgunklígja óléttri konu, leiddi mig inn í nýja skáldskaparíþrótt, sem ég átti ekkert nafn yfir, en fann síðar að líktist mjög futúrismanum, sem ég hafði þá enga hugmynd um. Og nú fór ég að yrkja í allt öðrum tón en ég hafði áður ort í. En það sem mér gekk verst með, það var að finna nógu [klunnalegt?] og [gasalegt?] orðbragð til þess að hitta hina sentimentölu skáldakynslóð í hausinn, ganga fram af guði og mönnum. Gegn þeirra væmnu bóka[r?]titlum kallaði ég fyrsta kvæðasafn mitt, sem út kom á prenti, Hálfa skósóla og það næsta Spaks manns spjarir. Og þá eitt upprennandi skáld þeirra tíma olli mér margra ára óléttuklígju með því að kalla fyrstu ljóðabók sína Svartar fjaðrir, þá svaraði ég þessu banatilræði með því að kalla þriðja og síðasta ljóðakver mitt Hvíta hrafna. [Ástareyjan … ?? … o.s.frv.] Þetta var uppreisn gegn væmni og frumleikaskorti samtímans. Og fyrir þetta var ég talinn lítið skáld. En sannleikurinn var gagnstæður. Ég var of mikið skáld til þess að geta úthelt mér framan í fjöldann.

– Þórbergur Þórðarson, Stóra handritið bls. 150-153.

Í snjó og stormi suður í Hafnarfjörð

„Skáldið og heimspekingurinn varð að sitja dag eftir dag inni í köldu herberginu og skjálfa úr kulda. Rétt fyrir jólin gekk hann í snjó og stormi suður í Hafnarfjörð til þess að fá léðan kogara til að hita upp með herbergið. En kogaraupphitunin var alltof dýr fyrir skáldið og heimspekingurinn átti erfitt með að þola olíustybbuna af kogaranum, svo að hann hætti við að hita upp herbergið. Og svo komu frost með austanbyljum, sem snerust í útsunnanrok, sem enduðu með bitrum norðangörðum. Og gluggi skáldsins varð að einni íshellu og öll fljótandi efni frusu inni í herberginu hans og herbergið varð grátt, og skáldið fór á fyllerí í spólu og spírithus konsentratus til þess að halda á sér hita.“
– Þórbergur Þórðarson, Stóra handritið bls. 199-200.

Nærtækasta dæmi samlíðunar: Ég gekk einu sinni ölvaður í Hafnarfjörð um hásumar. Í Finnlandi gekk ég eitt sinn nokkurra kílómetra vegalengd á skyrtunni einni um hávetur og sökk upp að öxlum niður í snjóskafl, en var fljótur að hífa mig aftur uppúr. Það liðu rúm tvö ár á milli atvikanna.

Yfirborðsskoðun leiðir í ljós að það er ekki nokkur séns á samlíðun.

Bergshús III

Gátan leyst:

„Á neðra horni Bergstaðastrætis, vinstra megin götunnar (nr. 10), er nú risin nýbygging eftir Guðmund Kr. Guðmundsson arkitekt en þar var til skamms tíma Bergshús, lágt timburhús með miklu risi sem því miður hefur verið rifið. Það var eitt frægasta hús íslenskra bókmennta vegna frásagna Þórbergs Þórðarsonar í Ofvitanum. Þar var Baðstofan, þar sem margt var brallað, og þakglugginn sem Þórbergur notaði til að fylgjast með stjörnunni Síríusi og sýna elskunni sinni.“
– Guðjón Friðriksson, Indæla Reykjavík bls. 128.

Guðjón segir reyndar að Bergshús hafi staðið þarna til skamms tíma en samkvæmt Ofvitanum hafði það staðið í 45 ár þegar Þórbergur flytur inn árið 1909 – eða síðan 1864, og var þá þegar orðið sögufrægt. Í einhverri greina Sigfúsar Daðasonar um Þórberg segir hann svo að húsið standi enn. Elsta grein hans er frá dánarári Þórbergs, 1974. En Sigfúsi gæti skjátlast um það.

Bergshús II

Sæll,

Þessi Bergur er fyrsti lærði sútunarmeistarinn á Íslandi og fyrsta
sútunarverksmiðjan á Íslandi var þarna í bakhúsi.
Til er mynd af danska kónginum þarna í kaffi og mér skilst á núverandi eiganda að
það séu til heilmikil skrif um þetta hús.
Hans aðalvitneskja er frá gamalli konu sem átti íbúðina á neðstu hæðinni og sagði
honum alla söguna um húsið þegar hann keypti það.

Með kveðju,

Jón Örn Kristinsson
Löggiltur fasteignasali

Þá vitum við það. En veit einhver hvort Bergshúsið mitt stendur einhversstaðar enn?

Bergshús

Ég sendi Fasteignasölunni Ási svohljóðandi fyrirspurn:

Góðan dag.

Umrætt hús er nefnt Bergshús og sagt sögufrægt. Þó er það ekki Bergshús sem Þórbergur Þórðarson bjó í á fjórða vetur á árunum 1909-1913, til þess er það of ungt (reist 1929 skv. vefnum). Auk þess var það við Skólavörðustíg þótt vissulega sé hægt að færa til hús.

Mig langar því að vita við hvaða Berg þetta hús er kennt og hvað það er sem gerir það sögufrægt, ef nafngiftin er þá ekki hreinn og klár misskilningur. Þið getið ímyndað ykkur að ég hafi orðið þónokkuð spenntur í fyrstu við að sjá svonefnt hús á sölu. Óska því eftir frekari upplýsingum.

Bestu kveðjur,
Arngrímur

Bíð spenntur eftir svari. En þið sem lesið þetta getið kannski svarað því til hvort Bergshús sé ennþá til?

Mitt áhugaverða líf

Tölvan mín er farin að hitna svo mikið að ég sá þann kostinn vænstan að hringja í þjónustuaðila og panta tíma. Húðin er beinlínis farin að flagna utanaf örgjörvanum. Tölvan reyndist vera í ábyrgð ennþá svo það kemur sér afskaplega vel.

Á Þórbergsvefnum rakst ég á meint MA verkefni eftir Sverri Árnason, Í kompaníi við Þórberg og Matthías. Það finnst þó ekki á Gegni (hefur höfundur fjarlægt það?). Og orðalagið finnst mér nokkuð frjálslegt fyrir MA ritgerð, þótt ekki vilji ég gerast svo hrokafullur að afskrifa þessa ágætu grein fyrir því. Þar fyrir utan þarf ég líklega að styðjast við hana. Auglýsi hérmeð eftir lausn á þessari ráðgátu.

Í kvöld mun ég leggja allt kapp á að koma tiltekinni afurð yfir á flöskur og endurvinna grein um Þórberg sem ég ætla að fá birta í Mími, tímariti íslenskunema. Tilgangurinn er praktískur – ég hyggst vitna í hana sjálfur í BA ritgerðinni, og hún er nógu ólík stóru ritgerðinni til að ég vilji helst sleppa við að troða henni þar inn í mýflugumynd. Nema þá að Mímir komi út of seint í árinu, þá verður verkið til lítils unnið. Sjáum hvað setur.

Er svo að vinna í því að afla mér heimilda frá öðrum rannsakendum Þórbergs, t.d. handriti hans að sjálfsævisögu og dagbókaskrif frá tilteknum tíma sem ekki hafa verið gefin út. Lesa svo Kristin E. Andrésson og Sigurð Nordal. Lesa Sigfús Daðason aftur vegna klúðurs við skrásetningu. Annars held ég að það hljóti að fara að verða komið nóg af þessu heimildagrúski. Þá er bara eftir að endurlesa höfundarverkið og setjast við skriftir.

Almáttugs andskotans helvíti!

Rétt í þessu greip ég niður í 50 blaðsíðna ritgerð sem ég hef verið að lesa mér til heimildar, og lauk því litla sem eftir var. Það er langlengsta heimildin sem ég þarf að styðjast við að undanskildum bókum. Fer svo að fletta upp í glósunum.

Ég hef ekki hripað eina einustu hjá mér, nema þá eitthvert samhengislaust þrugl sem ég kann engin skil á lengur. Mikið andskotans helvíti er það mikið djöfulsins bögg.