Enn af draumförum

Í nótt dreymdi mig fernt sem ég man.

1. Par sem við þekkjum var ásamt fleiri gestum í litlu boði hjá okkur Eyju. Þau rifust allan tímann og sérstaklega hann, sem ásakaði hana í sífellu um að reyna við mig. Svo lagði hann hönd á öxlina á mér inni á milli og sagði í hughreystandi tón: „Þetta hefur ekkert með ykkur að gera, þetta er bara dálítið sem við erum að útkljá.“ Við hin gátum ekki étið pönnukökurnar okkar fyrir þessu og veltum fyrir okkur hvenær þau færu.

2. Það var partí í kjallaranum á Laugarnesskóla, samt á skólatíma svo það mátti ekki sjást til þess að neitt djamm væri á ferðinni, allt fullt af börnum á skólalóðinni. Í kjallaranum var einskonar dýflissa þar sem allir kennarar við skólann fyrr og síðar áttu sér sitt eigið útskorna dýr (ég tók eftir því að Ármann Jakobsson átti þarna ref, sem var útskýrt fyrir mér þannig að Ármann merkti ‘slóttugur‘ á einhverju tungumáli). Ég þurfti síðan að sækja bjór í aðra byggingu skólans og endaði einhvern veginn sem starfsmaður skólans í anddyrinu.

3. Ég varð gríðarlega skotinn í Justin Bieber, en hann var ofboðslega leiðinlegur við mig og upptekinn af sjálfum sér. Vildi alltaf að ég tæki af sér hreyfimyndir á símann minn sem hann ætlaði svo að eyða löngum tíma í að klippa einhvern veginn saman í tölvu. Ég var farinn að halda að hann vildi kannski bara alls ekkert sofa hjá mér eftir allt saman.

4. Hár sem ég dró úr nefinu á mér breyttist í lítinn, loðinn orm sem vildi ólmur knúsa mig. Hann var nánast einsog kettlingur.

Draumfarir

Laddi tekur alltaf þátt í mottumars
Margt dreymir mann skrýtið, til dæmis um daginn þegar ég var staddur aftan í flutningabíl ásamt heimsþekktum spámiðli sem vildi ginna mig í kynlífsleik með sér og stærðarinnar mannapa (þó ekki beinlínis górillu).
Í nótt var það þó öðruvísi. Þá dreymdi mig að ég væri staddur í Bandaríkjunum, að líkindum, og mætti púmu úti á götu einsog það hét í draumnum, reyndar líkari svörtum pardus. Til að forða öðrum frá fjörtjóni slóst ég við púmuna og hafði undir, en ekki fyrr en hún hafði slegið sundur rifkassann í mér með hramminum svo beinin stóðu út um síðuna.
Ég gekk heim á leið og hafði þvínæst samband við neyðarlínuna, sallarólegur, til að tilkynna þeim um benjar mínar og biðja um sjúkrabíl. Leið og beið uns bíllinn kom og við stýrið sat Laddi, skartandi fínu yfirskeggi. „Er allt í lagi félagi?“ spurði hann, svo hin einstaka Laddarödd bergmálaði í vitund minni. „Jájá,“ sagði ég, „en ég þarf að komast á næsta sjúkrahús.“ „Græjum það,“ svaraði Laddi og vísaði mér aftur í bílinn.
Fyrri drauminn ræð ég fyrir því að bráðum muni uppgötvast óþekkt apategund sem vafasamir einstaklingar muni reyna að notfæra sér til sinna eigin ískyggilegu meðala, en þann hinn síðari ræð ég svo að mér sé hollast að taka ekki þátt í mottumars í ár.

Merkilegur draumur

Í nótt dreymdi mig alveg furðulega.

Mér fannst sem ég væri staddur í Bóksölu stúdenta. Þar stóð Hannes Hólmsteinn við afgreiðsluborðið með Svartbók kommúnismans undir hendinni. Af einhverjum ástæðum gekk eitthvað treglega að koma bókinni í sölu. Þá segir Hannes, nokkuð gramur: „Þið vinstrimennirnir ættuð að lesa ykkar eigin spámann, Þórberg Þórðarson. Hann sagði: Hví skyldu menn amast við bókinni? Hún neyðir þig ekki til að lesa sig. Bækur eru saklausir hlutir, en rithöfundar eru ægilegar verur.“

Þá lítur einn kúnnanna upp úr bók sem hann var að skoða og segir: „Ég er ekki svo viss um að neinn sé að amast við bókinni, Hannes.“ Þá vaknaði ég.

Óræða borgin

Ég ferðast alltaf til sömu borgar í draumum mínum, meira eða minna. Hverja ég hitti eða reyni að komast í samband við er mismunandi eftir því hvað borgin heitir hverju sinni.

Síðustu tvö skipti hefur hún heitið Árósar. Hún var samt ekkert líkari Árósum núna en þegar hún hét Jyväskylä eða þegar hún var ónefndur bær í Þýskalandi. Hún er alltaf eins. Og einhverra hluta vegna næ ég aldrei í manneskjuna sem ég fer til að hitta.

Mestur tími fer í að forðast allt hitt fólkið sem sækir í mig, fólk sem ég þekki frá fyrri tíð og býr nú í borginni án sjáanlegrar ástæðu. Þá fer ég alltaf á sama barinn, því þar hitti ég engan. Bjórinn kostar lítið og barþjónninn veit hvað ég heiti. Við tölum finnsku saman.

Einstigi

Mig dreymdi í nótt að ég væri að skila BA-ritgerð í bókmenntafræði.

Leiðbeinandi: Hvað er þetta, það eru engin einstigi hérna?
Ég: Ha?
Leiðbeinandi: Það eru einstigi í þessari bók. Hann treður einstigi.
Ég: Hvaða vitleysa …
Leiðbeinandi: Þú verður ekki bókmenntafræðingur svona. Bókmenntafræði snýst um að troða einstigi. Lagfærðu ritgerðina eða hypjaðu þig.

Ég er ekki tré

Ég er enn tæplega sofnaður síðan í gær. En góðir hlutir eiga til að koma á fáránlegustu stundum, og þannig fékk ég hugljómun alltof snemma í morgun sem gerir mér kleift að skrifa alla næstu viku og vonandi margar vikur í kjölfarið.

Ég er þó ekki frá því að ég hafi dottað í örskotsstund og dreymt friðarsúlu Yoko Ono á planinu framan við Þjóðleikhúsið. Nema það sé eldri draumur, svo merkilegur sem hann er að ég skuli muna hann núna.

Litla bróður hent í skólann, Dagur B. í morgunútvarpinu og rúnstykki með rúsínum úr Voru daglega brauði. Ætli sé ekki kominn tími á að leggja sig aðeins fyrir verkefni dagsins.

Hljóð

Hið fyrsta sem ég gerði þegar ég vaknaði var að þrífa Hljóð eftir Kristján Árnason (ég sef með hana núorðið) og halda áfram að lesa, aðeins mínútu eftir mig hafði dreymt að ég hefði reynt að sýna dreifingu allra íslenskra hljóðana í einni umskiptaröð með hjálp tölvutækni morgundagsins. Það mistókst. Vonandi gengur prófið betur.

Svona í anda alls þessa er hér hámenningarlegt viðtal Ali G. við Noam Chomsky um tungumál.

Auteur

Þegar ég vaknaði upp af blundi um miðnætti var ég ekki viss hvort franska orðið ateur væri til í raun og veru, en ég var nokkuð viss um að íslenska sögnin aterja, sem dregin væri af téðu orði, væri það ekki. Hef nú komist að því að hvorugt er orðið til. Hins vegar fann ég franska viðskeytið -ateur án dæma eða merkingar, og nafnorðið auteur. Í draumnum kom orðið fram í kjölfar þess að smásaga varð að veruleika frammi fyrir augum mér. Þess vegna er ef til vill viðeigandi að einasta svarið sem ég hef fundið er franska hliðstæða orðsins rithöfundur.

Þess má einnig geta að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég vakna með afbakaða frönsku á heilanum.

Martröð

Það litla sem ég svaf í nótt dreymdi mig hræðilega martröð á meðan. Í henni hafði ég sett einhvern djöfullegan mekkanisma af stað og kallaði þannig fram einhvern hræðilegan óvætt í líki dvergs og skrímslis (ekki spyrja) sem batt Silju vinkonu í einhvers konar völundarhúsi og drekkti henni með því að fylla rýmið af vatni. Allur draumurinn gekk út á að finna Silju, því við trúðum ekki að þetta hefði raunverulega gerst (enda þótt ég hefði sloppið með skrekkinn). Seinna í draumnum var svo eins og ekkert af þessu hefði gerst, samt stóðumst við Silja ekki mátið og settum mekkanismann aftur af stað, svona til að rifja upp hvernig maður færi að. Týpískt fyrir mannlegt eðli eða hvað? Og ekki nóg með það heldur var kreditkortinu mínu synjað í draumnum. Ég vaknaði upp með andfælum.

Og svona til að svara því þá las ég ekki einustu goðsögu eða fornaldarsögu, hagspá eða kortareikning, fyrir svefninn. Ég las í Vasabók eftir Pétur Gunnarsson. Í engu fjallar hún um finngálkn eða önnur skrímsl goðsögulegs eðlis og tæpir hvorki á goðsögulegum minnum né fjármálum. Hvort það í sjálfu sér sé til fyrirmyndar skal ósagt látið. En líklegast þykir mér að finngálknin tvö sem slógust ofan á sæng minni í nótt hafi átt nokkurn hlut að máli.