Íkon

Það er við hæfi á þessum degi, þegar ríkisvaldið vill halda að okkur minningu manns sem var negldur upp fyrir heldur litlar sakir fyrir tæpum tvöþúsund árum, að fjalla um eina trúarlega gripinn sem ég á.

Sumarið 2003 var ég staddur á Krít í hálfgerðu reiðuleysi, vissi ekki alveg hvernig ég átti að hegða mér eða hvað ég ætti að hafa fyrir stafni. Svo ég eigraði mikið um Chania og tók myndir af því sem fyrir augun bar, þar með af feitasta hundi sem ég hef á ævi minni séð. Það var eins og hann æti ekkert annað en ólífur og músakka.

Hvað um það, ég rambaði inn í einhverja litla skranverslun sem seldi hið aðskiljanlegasta dót, svona hluti sem aðeins túristar myndu kaupa. Öldruð kona sat við búðarkassann og kallaði stundum eitthvað til mín á grísku og brosti. Ég brosti á móti, gat ekkert annað gert. En vegna þess hvað hún var vinaleg fór ég að fá samviskubit yfir því að vilja ekki kaupa neitt þarna, svo ég afréð að kaupa eitthvað pínulítið svo hún fengi þó eitthvað fyrir sinn snúð.

Það var þá sem ég rak augun í litlu hasspípuna sem kostaði eina evru; plebbalegur gripur sem undirstrikaði tilganginn með mynd af kannabislaufi á pípustilknum. Þetta var það ódýrasta sem ég fann svo ég rétti konunni pípuna, en hún tók við henni og sýndi mér í þaula hvernig ætti að nota hana. Ég skildi ekki orð í grísku en skildi þó allt hvað hún átti við. Síðan pakkaði hún pípunni snyrtilega inn í gjafapappír og límdi og rétti mér, en sagði mér þó að hinkra aðeins.

Hún fór eitthvert á bakvið og kom síðan aftur með íkon af Maríu mey og Jesúbarninu. Þetta rétti hún mér með þeim orðum, eftir því sem mér skildist, að ég ætti að gefa þetta móður minni. Ég taldi að hugsunin væri ef til vill á þá leið að fyrst ég ætlaði í sollinn, þá væri gott að mamma hefði sem bestan aðgang að guðsmóðurinni. Ég þakkaði kærlega fyrir mig, á íslensku enda skildi hún hvort eð er enga ensku, og fór heim á hótel með þennan fallega kaupbæti.

Þegar ég svo kom heim færði ég mömmu íkoninn en hún vildi hann ekki. Ég veit ekkert hvað varð um hasspípuna (kannski hún sé heima hjá mömmu, hehe), en íkoninn á ég enn og mér þykir vænt um hann. Í grísku og rússnesku rétttrúnaðarkirkjunum er íkoninn ekki mynd af almættinu, heldur gluggi sem veitir þér beint samband við almættið. Samkvæmt trúnni þá er ég því með Maríu sjálfa og Jesúbarnið hjá mér, sem mér finnst falleg hugmynd þótt ég sé vitatrúlaus.

Mér finnst ég miklu frekar með þeim mæðginum hafa beint samband við gömlu konuna í Chania sem ég hef svo oft hugsað til, sem lét mér líða eitt andartak eins og ég skildi grísku og sem vildi mér svona vel. Þannig að íkoninn hefur fylgt mér á margt heimilið og hangir nú á vegg inni í svefnherbergi, undir málverki af Chania.

29852704_10156352908466584_973953743_n

Kaldur Lech

Ég var eitthvað að útmála mig um þá bræður Kaczyński hér um daginn og varð þá hugsað til pólska bjórsins Lech. Á wikisíðu þess bjórs komst ég að því að þeir bruggmenn í Lech Browary Wielkopolski hafa engu meira álit á þeim bræðrum en ég. Lech Kaczyński fórst í flugslysi og var grafinn í Wawel, sem er einhvers konar hallargarður í Krakow. Þá brugðu bruggmenn á það ráð að setja upp auglýsingaskilti nálægt Wawel með slagorðinu „Zimny Lech“ sem merkir kaldur Thule (staðfæring mín). Þetta olli fjaðrafoki og auglýsingin var tekin niður fáeinum mánuðum síðar.

Nú vill svo skemmtilega til að kollegi Jakub Morawiec er staddur í borg óttans svo honum var boðið heim á Dunhaga í kaffi og kruðerí. Get ekki sagt að sú heimsókn hafi neitt minnkað eftirvæntinguna fyrir ferðinni nema síður sé. Samdoktorand og komráður minn úr Gimli, Hrafnkell Lárusson, hefur tekið upp á þeirri sömu iðju að blogga um dvöl sína í Póllandi og lætur vel af enn sem komið er. Ekki er það heldur til að draga úr væntingum mínum. Ef einhverjir fleiri sem ég þekki eru á leiðinni getum við kannski stofnað einhvers konar Varsjárbandalag sem hefði það helst að markmiði að sötra Lech og tala illa um Kaczyńskibræður. Slíkt þarf að gerast í sellum enda ekki á það hættandi að ata þá auri opinberlega.

Námskeiðin tvö sem ég mun kenna eru farin að taka á sig nokkuð ákveðna mynd og ég hlakka til að hitta nemendurna, sem alls ófyrirsjáanlegt er hversu margir verða. Mér finnst eins og framtíðin sé óskrifað blað. Sem hún og er, ég er bara ekki vanur því að upplifa hana þannig.

Ástin á tímum fasismans

Stærstan hluta ævi minnar hef ég búið við frjálsa Evrópu. Ég bjó í Evrópu á ófrjálsum tímum og við kalt stríð en vissi ekki af því. Þegar Berlínarmúrinn féll voru það mér engin tíðindi. Þegar Sovétríkin hættu að vera tamt hugtak og Rússland Jeltsíns tók við og sömuleiðis ýmis önnur ríki, þá varð ég ekki vel var við það. Ég tók eftir því þegar Júgóslavía hætti að vera til, enda hafði ég verið þar. Ég skildi ekki hvernig land gat hætt að vera til. Ég hélt að það hefði horfið af yfirborði jarðar þegar mér var sagt frá því. Stríðið í kjölfarið stóð í áratug, allt til 2001.

Það hefur í raun ekki verið friður í Evrópu neitt sérstaklega lengi. Það er enn ekki friður í Evrópu í raun og nægir að líta til átaka um Krímskagann. Evrópusambandið sjálft stendur völtum fótum og áhrifamáttur Sameinuðu þjóðanna virðist vera veikur ef nokkur. Sjálfur hef ég búið við þau forréttindi að hafa alltaf verið laus við átök í mínu lífi og þannig trúað því í blindni að Evrópa – og heimurinn almennt – sé í góðum málum. Að stríð í Evrópu séu liðin tíð og að framtíðin sé sjálfkrafa bjartari en grimm fortíðin. Um tvítugt trúði ég einlægt á slíka framfarahyggju. Núna fylgist ég með upprisu fasismans og skil loksins hvað heimurinn er brothættur.

Eftir tuttugu daga flyt ég til Póllands skamma hríð til að kenna þar námskeið við háskólann í Katowice í Slesíu. Pólland er núna fasistaríki. Það er eitthvað öfugsnúið við það, að þetta ágæta land sé núna í fylkingarbrjósti fasista í Evrópu þegar það var þeirra fyrsta fórnarlamb á fyrri helmingi síðustu aldar. En sú þróun á sér raunar afar langa sögu.

Hvað um það, nú les ég í blaðinu að nasistatvibbinn Jarosław Kaczyński sé farinn að funda með helvítis skepnunni Viktor Orbán í Niedzica í Póllandi – pottþétt í kastalanum þar. Eru ekki illmenni alltaf í kastölum? Um þann síðarnefnda er helst að segja að honum að þakka hef ég aðra ástæðu utan við þá augljósu fyrir því að ég mun aldrei gleyma brúðkaupsdeginum mínum: þá að þann dag las ég fyrirsögnina „Ungverjaland ekki lengur lýðræðisríki“. Það sem þá hafði átt sér stað var eiginlegt afnám prentfrelsis í landinu. Um hinn fyrrnefnda hef ég ekkert fegurra að segja, en ég játaði þegar Lech bróðir hans fórst í flugslysi 2010 að ég varð fyrir vonbrigðum þegar kom í ljós að fyrstu fréttir um að báðir bræður hefðu verið um borð reyndust rangar, og fékk nokkrar ákúrur fyrir kaldrifjað sjónarmið. Ég get ekki staðið við það, en hitt er enn að ég legg á fáa menn eins mikla fæð og hann.

Það sem nú stendur til hjá Kaczyński er að feta í fótspor Orbáns, að herða tökin á ríkisfjölmiðlum svo stýra megi fréttaflutningi af ríkisstjórninni (þetta er raunar það sem Vigdís Hauksdóttir hefur lýst yfir að hún vilji gera á Íslandi, bara með aðeins frábrugðnu orðalagi). Og óneitanlega minnir þetta nýja kærustupar á Hitler og Mussolini; báðir hafa lengi verið fasistar í eigin heimalandi en eru nú farnir að skiptast á ráðgjöf og reynslu um hvernig best megi koma ár fasismans fyrir borð. Mér lægi við að segja að þetta sé svolítið krúttlegt, væri þetta ekki svona skelfing óhugnanlegt.

Nú stendur Evrópusambandið frammi fyrir því að stjórnvöld í Svíþjóð og Danmörku, sem óneitanlega draga taum líkrar hugmyndafræði og þeir Orbán og Kaczyński aðhyllast og sömuleiðis ýmsir aðrir starfsbræður þeirra s.s. Geert Wilders í Hollandi, eru að brjóta svona líka hressilega Schengensáttmálann með því að taka upp landamæraeftirlit. Að auki brjóta þau mannréttindi á hælisleitendum með því að ræna af þeim fjármunum og heyrst hefur í sænskum lögreglufulltrúa sem segist einfaldlega hlýða því sem honum er sagt; sé hann beðinn um að rífa gullfyllingar úr hælisleitendum þá einfaldlega geri hann það. Á sama tíma brjóta Orbán og Kaczyński grundvallarmannréttindi heima fyrir, eins og réttinn til tjáningar, og því verður ekki tekið þegjandi heldur.

Stærstu fólksflutningar síðari ára standa yfir sakir borgarastyrjalda í mið-Austurlöndum sem eru bein afleiðing af stríðsrekstri Vesturlanda þar, og upp úr þessu spretta andófshreyfingar eins og Íslamska ríkið sem Vesturlönd kunna ekki önnur svör við en frekari stríðsrekstur, og Evrópa heldur áfram að reyna að einangra sig frá umheiminum á meðan hún leysist hratt en örugglega upp innan frá. Evrópusambandið átti að vera trygging gegn stríði í Evrópu eftir Síðari heimsstyrjöldina. En nú er heimsvaldastefnan loks komin aftan að og farin að bíta Vesturlönd í rassinn. Vesturlönd hafa löngum þóst ætla að „frelsa“ fólk í mið-Austurlöndum frá hroðalegum harðstjórum, en þegar fólkið flýr stríðið heima fyrir veit enginn neitt hvernig á að höndla bankið á dyrnar. Viljinn til hjálpar sýnir sitt rétta andlit á meðan fólk drukknar í Miðjarðarhafi og frýs til dauða á Lesbos.

Hvert leiðir þetta allt saman? Ég veit það ekki. Sannast sagna vildi ég helst vera laus við að þurfa að hugsa um það. En það getur enginn neitað því að Evrópa er í hræðilegu ásigkomulagi um þessar mundir og getur engum um kennt nema sjálfri sér. Og nú er ég á leið til Póllands, til lands sem gegnum tíðina hefur mátt þola margt en hefur nú ríkisstjórn sem vill undir forystu ógeðslegs manns verða heimssögulegur gerandi í upprisu fasismans.

Pólland er yndislegt land segja mér allir, og ég er fullur tilhlökkunar. Á sama tíma óttast ég að hin sameinaða Evrópa, sem þrátt fyrir að vera ung er sú eina sem ég þekki, muni leysast upp í vitleysu – að skammtímasjónarmið verði látin vega þyngra á metunum en langtímahagsmunir, að öfgaöfl verði áhrifameiri en nokkru sinni fyrr. Þegar okkar nánustu nágrannar á Norðurlöndum eru farnir að hegða sér eins og nasistar eru blikur á lofti.

Ég er búinn að missa trúna á Facebook sem samskiptatæki svo ég ætla að endurvirkja þetta blogg á meðan ég er í Póllandi og á ferðalögum um mið- og austur-Evrópu. Sennilega verður það allt voðalega hversdagslegt, en ég er af forvitnu sortinni og mun reyna að læra ekki síður um skoðanir fólks á þessu öllu saman en um land, tungu og menningu.

Eins og skáldið sagði: Þetta verður eitthvað.

 

Registur síðustu mánaða

Einhverjum kann að þykja það skjóta skökku við að ég flutti til Kaupmannahafnar í þrjá mánuði til að sinna handritarannsóknum, en hafði frá engu að segja allan tímann á meðan sem mér þótti nægilega markvert. Annars vegar felst það í því að ég hef áður búið í Danmörku og gjörþekki það samfélag, þannig að fáar nýjungar urðu á vegi mínum meðan á dvölinni stóð; hins vegar liggur það í hlutarins eðli að í vinnuferðum gerir maður fátt annað en að vinna. Ég þuklaði þarna ýmis handrit, aðallega frá 14. öld, fann lyktina af þeim, las þau, greindi og túlkaði. Þess utan hélt ég þrjá fyrirlestra og reyndi annars sem best að njóta þess að dvelja í borginni sem ég eitt sinn elskaði umfram aðra staði. Dvöl mína kostaði danska ríkið í gegnum Árnanefnd og fyrir það verð ég eilíflega þakklátur.

Síðan ég bloggaði síðast hefur mér einnig hlotnast styrkur frá rannsóknasjóði Háskóla Íslands til þriggja ára. Þá þarf ég litlar áhyggjur að hafa af því að mér takist ekki að klára doktorsrannsóknina mína um skrímsli í íslenskum miðaldabókmenntum. Það hefur ekki lítið að segja að fá viðlíka stuðning. Það er algjörlega ómetanlegt. Mér til frekara halds og trausts fjárfesti ég í nokkrum bókum um ófreskjur fyrir óumræðanlega háa upphæð sem ég hlakka til að sökkva mér ofan í nú þegar þessar sem ég keypti í fyrra eru farnar að jaskast á hornunum og ég farinn að læra sífellt minna af þeim. Bækurnar sem ég nú bíð eftir eru:

Hybridity, Identity, and Monstrosity in Medieval Britain: On Difficult Middles eftir þann hinn mikla póstmóderíska skrímslafræðing Jeffrey Jerome Cohen.

Pride and Prodigies: Studies in the Monsters of the Beowulf Manuscript eftir Andy Orchard.

The Ashgate Research Companion to Monsters and the Monstrous í ritstjórn hins valinkunna skrímslafræðings Asa Simon Mittman sem ég næstum því hitti í Leeds í fyrra eftir sérdeilis góðan fyrirlestur hans (hann var svo umvafinn grúppíum að ég ákvað að sæta færis síðar, en hitti aldrei á hann).

Metamorphosis and Identity eftir Caroline Walker Bynum.

On Monsters and Marvels eftir 16. aldar skurðlækninn Ambroise Paré sem þjónaði konungunum Hinriki II og III auk Fransis II og Karls IX. Í þeirri bók fjallar hann meðal annars um dæmi af gyltum sem fætt hafi grísi með mannsandlit, og af andlitunum megi greina hver hafi sorðið gyltuna. Ég reikna með mjög hressri lesningu. Einhverra hluta vegna er ekki minnst á bókina á Wikipediusíðunni hans.

Sjálfsagt skrifa ég einhver orð um þessar bækur þegar ég hef fengið þær í hendur. Ég ætla semsagt að halda áfram að blogga. Þið fréttuð það fyrst hér.

Miði til Kaupmannahafnar

Ég á flugmiða til Kaupmannahafnar. Slíkir flugmiðar, þótt þeir kosti ekki (rosalega) mikið, eru með því dýrmætasta sem ég veit. Miði til Kaupmannahafnar er ekki aðeins aðgöngumiði að þriðja heimalandinu, heldur að vinum, kunningjum og samstarfsfólki hér og þar í Danmörku sem ég hitti sjaldnar en ég vildi.

Í Kaupmannahöfn verð ég í þrjá mánuði að rannsaka miðaldahandrit, eitt af þessum sem menntamálaráðherra man eftir þegar hann þarf að semja ræðu en lætur þess utan sem hann kannist ekki við. Ótrúlegt að honum sé enn boðið að halda þær.

Þeim sem vilja kynna sér hvaða handrit ég ætla að rannsaka er bent á bls. 92–95 í bókinni 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar, einkum á fallegu opnumyndina á bls. 94–95. Þetta er (meðal annars efnis) veraldarsaga frá 14. öld. Það vita það fáir en veraldarsögur eru með merkilegustu bókum sem til eru. Þeir sem vilja vita hvað Snorri Stull og höfundar Íslendingasagna héldu um heiminn ættu að byrja á að lesa veraldarsögu.

Þetta er ekki allt sem ég ætla að skoða, en það helsta.

Í Árnasafni úir og grúir af ómetanlegum gömlum bókum sem búa yfir ótal leyndardómum um löngu horfna tíð. Ég finn oft fyrir virðingarleysi gagnvart þessum viskuauð, ekki síst hjá þeim sem fara með æðstu yfirstjórn menningar- og menntamála í þessu landi. Hefði bókunum ekki verið bjargað í brunanum í Kaupmannahöfn forðum mætti líkja missinum við hið glataða bókasafn í Alexandríu, bara á smærri kvarða.

Íslendingar komust ansi nærri því að verða sögulaus þjóð. Kannski ekki síst þess vegna eru Íslendingar margir mjög áhugasamir um eigin sögu. Vandinn er kannski helst sá að flestir telja sig þekkja hana til hlítar þegar við vitum í raun sáralítið, að Árnastofnun sé minjasafn en ekki rannsóknarstofnun, og að óþarfi sé að veita peningum í handritin því þau verði alltaf til — sem þau verða einmitt ekki. Þekkingin verður heldur ekki alltaf til. Hún hverfur með vísindafólkinu. Vísindafólkið hverfur þegar peningarnir hverfa.

Ég hef rannsakað miðaldatexta á eigin kostnað síðustu árin og varið til þeirrar iðju fjárhæð sem talin verður í nokkrum milljónum króna. Ég hef ekki efni á því út starfsferilinn.

Nú á ég miða til Kaupmannahafnar þar sem mér verður í fyrsta skipti á ævinni beinlínis borgað fyrir rannsóknir fremur en að ég snari því úr eigin vasa. Það verður tilbreyting. Fyrir margt löngu hafði ég orðið mér úti um litla íbúð á góðum stað í borginni. Það verður einmanalegt án Eyju og stelpnanna, en ég hlakka engu að síður til. Þeir sem ekki sjá spennuna í því að fletta skinnhandriti frá 14. öld er einfaldlega fólk handan míns skilnings.

104

Það er hætt við að bloggið deyi ef maður passar sig ekki; til þess þarf maður að hætta að gera þessar endalausu kröfur til sjálfs sín og bara blogga um allt þetta sem aldrei verður ódauðlegt.

Bloggið um Reza Aslan var mest lesna færslan á þessu ári en ég hef ekki nennt að blogga framhaldið. Áhugasamir geta þó fengið álit fræðimanns á Jesúbókinni hans hér, í Huffington Post af öllum stöðum.

Við Eyja höfum étið töluvert í sumar fyrir öll gjafakortin sem við fengum í brúðkaupsgjöf utan eitt, og svo höfum við ferðast smáræði líka. Í vikunni sem leið vorum við í Borgarfirði, þeim íslenskasta hluta Íslands. Stelpurnar fóru í sund fyrsta daginn og á öðrum deginum spyr styttra barnið mig hvað eigi að gera þann daginn. Þar sem við vorum jú í Borgarfirði fékk hún tvo valkosti (og hvorugan góðan, kom í ljós): Annað hvort að skreppa í Reykholt að skoða Snorralaug, eða á Landnámssetrið í Borgarnesi.

Orð þurfti ekki til svars þar sem svipurinn réði úrslitum. Í stað menningarlegrar innrætingar hafði ég barnið með í búðarferð sem lyktaði með ístúr í fyrrum Hyrnuna, nú musteri ins helga Bjarna byskups ór Enneinum. Tókst þó að sýna henni haug Skalla-Gríms, minnst spennandi staðinn í samnefndum garði hvað hana snerti, og taka einn rúnt um Brákarey. Ég lagði nú ekki í að segja henni frá Brák. Kannski þegar hún er orðin aðeins stærri og/eða áhugasamari um þessa durga, forfeður okkar.

Dagarnir fara í pauf við skrifborð. En ég er glaður. Framundan eru svo flutningar í póstnúmer sem ég bjó síðast í 1990. Það er gott póstnúmer en austarlegar gæti ég ekki búið í þessari borg.

Ráðstefnur, rannsóknir og reik

Ráðstefnan í Leeds var meiriháttar. Ég myndi segja töluvert skemmtilegri en fornsagnaþingið sem haldið er á þriggja ára fresti, enda er þar ekki einblínt á Norðurlönd sérstaklega heldur á miðaldir einsog þær leggja sig. Auðvitað þurfa allir vísindamenn að sérhæfa sig en sérhæfingin er til einskis ef þeir átta sig ekki á heildinni. Og hvað mínar rannsóknir snertir þá er stærri ramminn áhugaverðari. Góður rómur var gerður að erindum okkar allra (mitt má nálgast hér), og ég var svo lánsamur að slammarinn mætti þegar ég talaði og kinkaði kolli sem óður væri.

Í kjölfarið sótti ég töluvert minni ráðstefnu í Oxford þar sem ramminn var auk þess afar þröngur og það getur verið afar gagnlegt líka að einblína á fáein skyld vandamál til að leita lausna á þeim. En til þess að finna þær lausnir þá þarf oft að leita út fyrir þrönga rammann. Og ég fékk það á tilfinninguna í Oxford að kannski fari fræðimenn nú að gera það í auknum mæli, fari að efast um viðteknar hugmyndir sem e.t.v. standa á brauðfótum. Við vitum að mörgum knýjandi spurningum um norrænar bókmenntir verður ekki svarað öðruvísi en með því að leita út fyrir þær, leita samhengisins. Ef við ætlum að rannsaka eddukvæði (svo dæmi sé nefnt) þá þurfum við fyrst að spyrja okkur að því hvað eddukvæði eru, því kannski er svarið ekki eins sjálfsagt og við viljum halda.

Í Oxford fór ég á báða barina sem Inklingarnir (óþýðandi sniðugheit í því heiti) sóttu; annars vegar The Eagle and Child, sem var upphaflegi fundarstaðurinn, en búið er að rústa fundarherbergið og sameina barinn veitingakeðjunni Nicholson’s svo mér fannst hann lítið sjarmerandi (auk þess er hann troðfullur af Tolkientúristum), hins vegar The Lamb and Flag sem er bara hinumegin við götuna og hefur ennþá yfirbragð alvöru vertshúss. Ef til vill ekki ósvipað Skindbuksen (fremur en Hviids Vinstue, þar sem þjónar eru farnir að snobba með þverslaufur).

Og nú er kannski ekki skrýtið þótt hugurinn hafi reikað til Kaupmannahafnar, því nú hefur mér hlotnast höfðinglegur styrkur frá Den Arnamagnæanske Kommission til handritarannsókna í Árnastofnun eftir áramót. Bréfið barst mér í morgun og af fenginni reynslu er húsnæðisleitin þegar hafin. Það verður gott að hitta alla vinina aftur og eignast þá fleiri. Á haustmisserinu sest ég hinsvegar á skólabekk og nem kennslufræði, sit lit-review námskeið hjá þeim Kolfinnu, Miriam og Þórdísi, og sjálfur mun ég sennilega grípa eitthvað í kennslu á misserinu líka.

En fyrst eru það önnur verkefni. Ég í sveitina með Eyju á morgun að sinna þeim. Og hvílast eitthvað í leiðinni. Brumm brumm.

Ráðstefnur

Á mánudaginn held ég til hins mikla útlands á ráðstefnu, eða reyndar tvær ráðstefnur. Það er fátt sem fær mann til að þykja maður sjálfur jafn merkilegur og ráðstefnuferðir með sínum hótelum, faglegu umræðum og hálfdrukknu kollegum. Maður situr meiraðsegja öðruvísi í flugvélum þegar maður heldur utan á ráðstefnu en þegar maður fer í frí. Maður er einbeittari, betur til hafður, samt kankvíslegur. Í DV um daginn var frétt um að stór skrifborð ykju siðleysi fyrirtækjastjórnenda. Mér finnst ekki ósennilegt að ráðstefnur hafi svipuð áhrif á sjálfsmynd fræðimanna, að minnsta kosti þangað til þeim er slátrað uppi í pontu fyrir að segja steypu.

Kannski er það bara hótelið. Það skiptir engu máli hvað hótelherbergi kostar, manni líður alltaf einsog ventúrkapítalista þegar inn er komið, og fólkið á götunni niðri er einsog iðandi maurar hvort heldur sem herbergið er á tólftu hæð eða þeirri næstu ofan við anddyrið. Míníbarinn æpir: „Tæmdu mig! Þú hefur ráð á því.“ Tekst alltaf að telja einhverjum trú um að það sé satt. Svo er skrifað blindandi undir reikninginn síðar.

Því fleiri ráðstefnur sem maður sækir því kunnugri er maður þeim týpum sem þar lifa og hrærast. Til dæmis er náunginn sem kinkar kolli af offorsi undir fyrirlestrum líkt og salurinn megi ekki án hans samþykkis vera. Það er líkast slammi á rokktónleikum. Maður býst hálft í hvoru við að höfuðið losni af og rúlli að púltinu. Oft glósar slammarinn af græðgi en reynist þegar öllu er á botninn hvolft vera manna krítískastur í fyrirspurnatímanum. Nær undantekningalaust Bandaríkjamaður.

Önnur týpa er þýski doktorsneminn. Hann hefur aldrei rangt fyrir sér af því hann fjallar aðeins um grundvallaratriði, en gerir það raunar ítarlega. Talar af staðfestu og fullvissu og hefur lærdómstitilinn M.A. á undan nafninu sínu í neðra vinstra horninu á glærunum. Fer í kerfi ef einhver spyr spurningar út fyrir kjarna efnisins. Svo er gamli jaxlinn sem lætur engan segja sér hversu lengi hann má tala og talar langt umfram tímann í óþökk allra, en hann er raunar sjaldséður orðinn. Leiðinlegastur þykir mér lykilræðumaðurinn sem hlotnast sá heiður að halda þriggja kortéra ræðu um ekkert og gerir sitt ítrasta til að beina málinu að sjálfum sér.

Ég mun að sjálfsögðu hafa uppi mína þeófrastísku týpubók og haka við þær týpur sem bregður fyrir, jafnvel mun ég blogga um einhverjar þeirra ef ég þreytist á að fylgjast með maurunum út um gluggann á reyklausa hótelherberginu mínu. Þetta verða tvær ráðstefnur í jafnmörgum borgum og því mikillar spennu að vænta á blogginu.

Hið daglega registur

Mér hefur fundist ég hafa ná að gera heilan helling síðan ég kom úr jólafríi (hvenær sem það annars var, varla meira en vika síðan). Ég hef sent umsókn um þátttöku í málstofu í Oxford í júlí, þar sem ég verð hvort eð er á ráðstefnu í Leeds um sama leyti. Þar verð ég með erindi sem annað hvort verður afskaplega vinsælt eða ofboðslega óvinsælt. Það getur alltaf brugðið til beggja vona um slíkt. Ég verð einnig með fyrirlestur á Hugvísindaþingi í mars (það kom í ljós fyrir um tveim dögum) svo þá hef ég að einhverju að stefna. Grein í bígerð um sama efni sem er hálfskrifuð. Áhugaverðara efni fyrirfinnst víst ekki, jafnvel þótt víða væri leitað.

Ég hef líka sent styrkumsókn til tveggja rannsóknasjóða og bráðum fer ég að vinna í annarri umsókn í þriðja sjóðinn. Ég hef að mestu leyti undirbúið kennslu fyrir janúar, í námskeiði sem ég er aðstoðarkennari í. Á aðeins eftir að fá athugasemdir frá aðalkennaranum. Ég hef fundað. Ég hef lesið greinar. Ég hef lesið í (góðum, til allrar hamingju) bókum. En mest er um vert að ég hef svarað tölvubréfum jafnharðan og mér hafa borist þau. Það er nú aldeilis meira en hægt er að segja um suma. Eitt minna mörgu áramótaheita er svo að svara einum aumingjans manni sem ég hef vanrækt, en sá sendi mér tölvuskeyti í september.

Svo hef ég unnið í nokkrum bókum. Það er mesta furða að maður verði ekki geðveikur á svona verkefnaflakki, en þvert á móti þá virðist það gefa orku. Eitt verkefni sligar, þrjú styrkja, fimm er kannski pushing it, sem sagt er.

Auðvitað hef ég ekki gert allt þetta á einni viku. Ég hef unnið í þessu flestu í langan tíma. En þegar hlutirnir hlaðast upp svona þá finnst manni sem maður hafi gert heilu ósköpin. Og já, svo ég svari einu af mínum fjölmörgu aðdáendabréfum: ég hef hugleitt að endurnefna bloggið Innsýn í Fílabeinsturninn, en agentinn minn telur að það væri ef til vill óheppilegt í markaðslegu tilliti og ég hlýt væntanlega að kyssa vöndinn rétt einsog aðrir.

Af starfi og skóla

Vatnsskarð í gærkvöld
Kom heim frá Akureyri í nótt. Við Eyja urðum veðurteppt en ákváðum þegar snjóa leysti uppi á heiðum í gærkvöld að bruna í bæinn meðan við gátum. Hef ekki gáð að því hvort fennt hafi í förin okkar aftur. Ég var svo óábyrgur að smella af mynd undir stýri svo dyggir lesendur fengju að sjá hvernig var í Vatnsskarði í gær.

Fyrir norðan fékk ég þær fréttir að ég yrði ráðinn í sumarvinnu. Sama dag bauðst mér starf hjá Rannsóknastofnun Háskóla Íslands á norðurlandi vestra, og núna í dag bauðst mér starf á Þjóðskjalasafni Íslands. Eins spennandi og það hefði verið að prófa eitthvað nýtt þá frá og með 1. júní sný ég aftur á Borgarbókasafn Reykjavíkur.

Ég læt af störfum á bókasafninu í ágústbyrjun og held á ráðstefnu í Árósum. Lungann úr ágúst hef ég til eigin þarfa og svo byrjar skólinn í september. Í dag fékk ég nefnilega líka að vita að umsókn mín um doktorsnám í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands hefði verið samþykkt. Bara allt að verða vitlaust! Svo hefur raunar enn fleira gott átt sér stað í blessuðu lífinu mínu nýverið, en meira um það síðar.

Lífið er gott.