104

Það er hætt við að bloggið deyi ef maður passar sig ekki; til þess þarf maður að hætta að gera þessar endalausu kröfur til sjálfs sín og bara blogga um allt þetta sem aldrei verður ódauðlegt.

Bloggið um Reza Aslan var mest lesna færslan á þessu ári en ég hef ekki nennt að blogga framhaldið. Áhugasamir geta þó fengið álit fræðimanns á Jesúbókinni hans hér, í Huffington Post af öllum stöðum.

Við Eyja höfum étið töluvert í sumar fyrir öll gjafakortin sem við fengum í brúðkaupsgjöf utan eitt, og svo höfum við ferðast smáræði líka. Í vikunni sem leið vorum við í Borgarfirði, þeim íslenskasta hluta Íslands. Stelpurnar fóru í sund fyrsta daginn og á öðrum deginum spyr styttra barnið mig hvað eigi að gera þann daginn. Þar sem við vorum jú í Borgarfirði fékk hún tvo valkosti (og hvorugan góðan, kom í ljós): Annað hvort að skreppa í Reykholt að skoða Snorralaug, eða á Landnámssetrið í Borgarnesi.

Orð þurfti ekki til svars þar sem svipurinn réði úrslitum. Í stað menningarlegrar innrætingar hafði ég barnið með í búðarferð sem lyktaði með ístúr í fyrrum Hyrnuna, nú musteri ins helga Bjarna byskups ór Enneinum. Tókst þó að sýna henni haug Skalla-Gríms, minnst spennandi staðinn í samnefndum garði hvað hana snerti, og taka einn rúnt um Brákarey. Ég lagði nú ekki í að segja henni frá Brák. Kannski þegar hún er orðin aðeins stærri og/eða áhugasamari um þessa durga, forfeður okkar.

Dagarnir fara í pauf við skrifborð. En ég er glaður. Framundan eru svo flutningar í póstnúmer sem ég bjó síðast í 1990. Það er gott póstnúmer en austarlegar gæti ég ekki búið í þessari borg.

Reza Aslan og málsvörn fyrir fræðilegt hlutleysi

Ég hef verið afar hugsi yfir umræðunni um fræðimanninn Reza Aslan undanfarið. En áður en ég vind mér í hana vil ég byggja undir hugleiðingar mínar með eftirfarandi atriðum (ég biðst velvirðingar á lengdinni og afsaka það ef lesendum leiðist að ég skuli endurtaka sumt sem þeir þegar vita):

Aslan (fyrir utan að vera flott nafn, sem allir sem hafa einhverju sinni alist upp vita að merkir ljón, eða tengja a.m.k. við ljón) er með fjórar háskólagráður. Þrjár af þeim skipta máli fyrir þessa umræðu: Hann er með B.A.-próf í trúarbragðafræðum (religion), M.A.-próf í guðfræði og almennri trúarbragðafræði (theological studies), og doktorspróf (Ph.D.) í trúarlífsfélagsfræði (sociology of religion), allt frá virtum háskólum. Það þýðir ekki nauðsynlega að Aslan sé góður rannsakandi, en það þýðir þó það að hann er sérfræðimenntaður á sviði trúarbragðarannsókna.

Hann er fæddur í Íran en fluttist á barnsaldri ásamt foreldrum sínum til Bandaríkjanna sem flóttamaður, þar sem hann tók upp kristni. Hann snerist síðar aftur til íslam og það er annað aðalatriðið af tveim í þessari umræðu. Sem kunnugt er skrifaði Aslan bók sem þegar í titlinum gefur í skyn að Jesú frá Nasaret hafi verið ofstopamaður, og fyrir það réðist Lauren Green á ofstopastöðinni Fox á hann og fékk það, sem frægt er orðið, óþvegið tilbaka.

Þetta eitt lygilegasta sjónvarpsviðtal síðustu ára hefur skiljanlega kallað fram þónokkra þórðargleði í fólki, en einnig þau viðbrögð frá trúleysingjum (þótt einn skrifi hef ég það í fleirtölu því ég sé marga taka undir) að þó að árásin á Aslan hafi verið óverðskulduð þá hafi hann sjálfur verið ósanngjarn í garð – ef ekki hreinlega fávís um – trúleysi sem lífsafstöðu. Svo er áreiðanlega til allur fjöldinn af annars konar viðbrögðum sem ég hefði ekki geð í mér til að kanna til hlítar.

Ég rakst einnig á annað sjónarhorn og það er fyrst og fremst það sem ég hef áhuga á að bregðast við vegna þess að það snertir mig sjálfan sem rannsakanda (meðal annarra hluta) trúarbragða. Minn ágæti kunningi og samdoktorskandídat um Vatnsmýrina, Höskuldur Ólafsson, spurði nefnilega:

Hér er fræðimaður sem er einnig trúaður múslimi að halda fram ákveðinni kenningu um guð kristinna manna. Spyrillinn, sem starfar fyrir íhaldssama (kristilega) sjónvarpsstöð spyr eðlilegra spurninga í því trúarlega og menningarlega samhengi. Hvað er skrítið við þetta viðtal annað en að fræðimaðurinn reynir að gera það að aukaatriði að hann aðhyllist trú sem afguðar þann sem hann er að skrifa um?

Aðaldjúsið í því sem hann setur spurningamerki við er þó þetta:

Alltént, ég á erfitt með að trúa því að vísindamenn geti auðveldlega skilið hugmyndafræði sína við þröskuldinn þegar þeir stíga inná skrifstofuna.

Í fyrstu varð ég hissa á þessari skoðun en varð þó að viðurkenna að þetta er mikilvæg umræða, sem ég hef raunar átt í áður – síðast á miðaldaráðstefnu í Leeds þar sem rétttrúaður, gyðinglegur fræðimaður spurði mig í léttu hjali hvernig það eiginlega gengi fyrir sig að ég, trúlaus maðurinn, rannsakaði kristni á miðöldum (hans sérsvið er, vel að merkja, gyðingdómur á miðöldum). Ég lái honum ekki það að spyrja, en hann hóf heldur ekki samræðurnar á því að segja mér í óspurðum fréttum að Xur Xurssyni úti í bæ þætti ég vera ómerkilegur fúskari.

Svarið er ekki einfalt, en áður en ég kem að því vil ég nefna fleiri atriði til umræðunnar.

Ég hef ekki lesið bókina frekar en gagnrýnendur Aslans, svo ég ætla ekki að bera í bætifláka fyrir neitt sem þar kann að koma fyrir. Ég gat þó ekki skilið hann öðruvísi en svo að hann ynni útfrá þeirri megintilgátu að Jesús frá Nasaret hafi sannarlega verið uppi. Það þarf ekki að þýða annað en það að hafi hann verið til, þá sé hægt að bera saman heimildir um hann við sögulegar heimildir frá sama tíma. Eina dæmið sem hann nefnir um vinnubrögð sín í sjónvarpsviðtalinu er einmitt þess eðlis (að hafi Jesús verið krossfestur í reynd, þá séu til heimildir frá Rómverjum um það hvers konar glæpamönnum var refsað þannig) og það þykir hreint út sagt ekkert óeðlilegt við að viðhafa slík vinnubrögð í trúarsögulegum eða sagnfræðilegum rannsóknum.

Aslan er hinsvegar ekki gagnrýndur fyrir rannsóknina heldur fyrir að kalla Jesú ofstopamann (zealot), sem raunar þarf ekki mikið hugmyndaflug til að hafa yfir mann sem samkvæmt heimildum var áhrifamikill safnaðarleiðtogi sem opinberlega gekk í berhögg við ríkjandi skipulag síns tíma. Og Aslan er vitaskuld langt því frá fyrstur til að gera það þó að ég muni raunar enga titla; ég hef ekki lesið um efnið í ein sjö ár en ég get rifjað eitthvað upp ef einhver gengur á mig.

Reyndar er svo lítið nýnæmi í þessari bók af útlitinu og umræðunni að dæma (hið fyrra er að sönnu slæmur mælikvarði en hið síðarnefnda gefur á hinn bóginn til kynna að það sé ekki bókin sem er vandamálið) að ég fæ ekki séð að málið snúist um neitt annað en það að það angrar sumt kristið fólk í Bandaríkjunum að múslimi, samlandi þeirra eður ei, skrifi bók um Jesú sem tekur til endurskoðunar þær túlkanir á honum sem birtast í guðspjöllunum. Sem þýðir aftur að fullkomlega hefðbundin nálgun á afar flóknar heimildir hefur nú ýtt undir umræðu um innbyggða fordóma (implicit bias), að „sú hugmyndafræði sem maður aðhyllist sé að hafa áhrif á þá rannsókn sem maður stundar og þ.a.l. á niðustöðuna“. Mér finnst þetta vera svolítið stökk en það er á hinn bóginn greinilegt að þetta er umræða sem verður að taka. Og ég tek það fram að ég er á margan hátt sammála Höskuldi um flest það sem hann nefnir (nema kannski helst það að spurningar Lauren Green hafi verið sanngjarnar eða eðlilegar – þær voru a.m.k. fyrirsjáanlegar), þó að mitt sjónarhorn sé að vísu töluvert frábrugðið.

Hvernig gæti ég hlutleysis í mínum rannsóknum? Hvernig hindra ég það að hugmyndafræðin vefjist fyrir fótum mér? Fyrst um hlutleysi: það er auðvitað ekki hægt vera hlutlaus og það vita allir sem fást við vísindi að það er frekar lítið sem vinnst með því að ræða þann ímyndaða möguleika. Það er ekki einu sinni hægt að vera hlutlaus raunvísindamaður, því jafnvel ef hægt væri að taka vísindamanninn út úr myndinni þá eru mælitækin ekki hlutlaus heldur eru þau óhjákvæmilega aðeins túlkandi fyrir veruleikann sem þau eiga að mæla. Það þýðir ekki að niðurstöðurnar verðir rangar; þær geta verið réttar en þær eru háðar því kerfi sem mælt er eftir, og öll kerfi eru túlkandi hvert með sínum hætti. Málið vandast þó enn frekar þegar gögnin sem mæla á eru textar og aðalmælitækið er tungumálið, sem hvorki er raunsönn né hlutlaus lýsing á veruleikanum nema að svo miklu leyti sem við höfum ákveðið að tiltekin tákn merki tiltekna hluti, og þar með komið fyrir túlkun á veruleikanum fyrir innan hugtakakerfis sem aftur er í mismiklum mæli breytilegt ekki aðeins á milli þjóða, heldur jafnvel á milli einstakra málhafa (Saussure, fo sure). Þar að auki erum við sem rannsökum forna texta jafnan félagslega, þjóðfélagslega, trúarlega og hugmyndafræðilega aðskilin frá höfundi textans og hugsun hans, fyrir utan svo allar aldirnar sem skilja okkur að einnig: við erum í reynd að rannsaka framandi menningarheima. Til þess að skilja texta þarf því fyrst að skilja samfélagið sem textinn sprettur upp úr, og það verður ekki gert nema með áralöngum rannsóknum þar sem við gerum okkar ítrasta til að skilja ekki veruleikann nema á forsendum þeirra texta sem til umfjöllunar eru.

Ég ætla ekki að halda því fram að það sé auðvelt, en krafan verður þar af leiðandi sú að við reynum að leggja okkur sjálf til hliðar svo sem okkur framast er unnt þegar við rannsökum (í þessu tilviki) forna texta; að við reynum að túlka þá ekki í ljósi allrar þeirrar sögu og vitneskju sem orðið hefur til síðan þeir litu dagsins ljós. Við viljum komast nálægt heimsmynd þeirra sem rituðu textana, hugmyndafræði þeirra og trúarlífi. Aðalmálið er að ég held að Reza Aslan sé bæði fullvel meðvitaður um að sú krafa er gerð til hans, og að í einhverjum tilvikum þá mistakist honum að halda sjálfum sér frá þeim heimildum sem hann er að rannsaka. Slíkt gerist og fyrir það eru fræðimenn gagnrýndir. Enginn hefur hinsvegar gagnrýnt hann fyrir það, heldur hefur hann verið gagnrýndur vegna möguleikans á því að hann hafi vegna trúar sinnar fokkað upp verkinu því sem múslimi sé hann haldinn fordómum í garð kristni. Þessi gagnrýni kemur fyrst og fremst frá bókstafstrúarfólki.

Hvað hugmyndafræðina áhrærir þá er ég ekki viss um hvernig ég geti svarað því. Ég trúi ekki á máttarvöld, æðri eða lægri, en þó er ég afar áhugasamur um trúarbrögð. Það er að segja: ég er áhugasamur um virkni trúarbragða. Með virkni þá meina ég það hvernig fólk upplifir lífið í trúnni og heiminn umhverfis sig. Og til þess að geta rannsakað trúarlíf fólks á miðöldum þá þarf ég að bera fyrir því virðingu, og með því að lesa sem flesta trúartexta (og aðra texta) frá miðöldum þá kemst ég nær skilningi á því hvaða hugmyndafræði mótaði líf fólks á því tímaskeiði sem rannsókn mín nær til.

Þegar ég fjalla um sköpunarsöguna þá skiptir mig ekki máli hvernig mér lærðist hún í barnaskóla, heldur hvernig hún birtist mér í Veraldarsögu, í Hauksbók, í Stjórn, í Elucidarius, í annálum; ég reyni að rannsaka sameiginleg þemu en þó sérstaklega það sem út af stendur svo ég hafi sem fjölbreyttasta mynd af þeim trúarhugmyndum sem voru í umferð á Íslandi. Ef einhver telur mig verri rannsakanda fyrir það að ég trúi ekki á téða sköpunarsögu þá áttar viðkomandi sig kannski ekki á því hvað sú sköpunarsaga er þýðingarmikil í sögu vestrænnar menningar – það skiptir mig ekki máli hvort hún er sönn eða ekki, ég get rannsakað ólíkar gerðir hennar fyrir því og borið virðingu fyrir því fólki sem lagði líf sitt í hendur ókunnum krafti sem það nefndi Guð.

Ég rek ekki söguna aftur á bak og ég legg mikið upp úr því að þvinga ekki hugmyndafræðilegar stærðir upp á menningarheim sem sjálfur hefði ekki skilið þær. Það kemur m.ö.o. ekki til greina, fyrir mig (og veit ég að margir eru mér afar ósammála), að ég retróaktíft troði Freud, Marx, eða öðrum þvílíkum kenningakerfum upp á heim miðaldafólks. Ég segi ekki að það sé rangt að gera það, heldur að ég vilji komast sem næst því að skilja miðaldafólk á þess eigin forsendum. Miðaldirnar reyni ég því – eftir fremsta megni – að nálgast út frá ríkjandi skilningi þess tíma. Raunar snýst rannsóknarefni mitt að hluta til um það að sjá að hversu miklu leyti ríkjandi skilningur í Evrópu náði til Íslands.

Það geri ég auðvitað ekki fordómalaust – það getur enginn. Og nú veit ég ekki hvernig Aslan vinnur sína bók en ég hygg miðað við hans feril hingað til að hann hafi aldrei orðið fyrir eins alvarlegum ákúrum einsog núna. Sem hann verður fyrir vegna þess að hann er múslimi. Það eru ábyggilega hundrað atriði í bókinni hans sem ég tæki ekki undir og þættu ekki tíðindi til næstu hugvísindadeildar.

Ég held að við séum öll meðvituð um að við stýrumst í okkar rannsóknum af einhverjum hvötum – og af miklum ákafa, því annars hefðum við aldrei enst í þessu – og rannsóknir gefa nú til kynna að fordómar okkar stjórna hugsunum okkar á enn dýpra borði en okkur hafði órað fyrir. Mér finnst það þó ekki réttlæta gagnrýnina. Hefði Lauren Green hafið viðtalið á því að spyrja Reza Aslan um þá gagnrýni sem hafi verið sett fram, að hann sem múslimi væri ef til vill ekki besti aðilinn til að skrifa um Jesú, og látið þar við sitja eftir að svarið var komið, þá hefði það verið spurning í lagi. En það eina sem hún gerir í gegnum allt viðtalið er að vitna aftur og aftur í nýjan og nýjan karl sem fæstir hljóma einsog þeir hafi lesið bókina og spyrja hvernig hann bregðist við þessu. Hún hafði ekki lesið bókina og hún hafði engar aðrar spurningar; hún hafði einfaldlega ekki áhuga á öðru en að reyna að koma höggi á hann, og það mistókst.

Og upp úr þessu spretta í reynd tvær umræður: Ef líkur eru á að Aslan hafi annað hvort viljandi reynt að koma höggi á kristni með bókinni, eða á hinn bóginn stjórnast af fordómum, þá er sennilega besta leiðin til að afhjúpa hann að lesa bókina. Það hefur hinsvegar enginn gert og því veit ég ekki hvort við komumst neitt lengra áfram með þá umræðu í bili. Hin umræðan sem mér þykir áhugaverðari og mikilsverðari fjallar um það hvernig við sem rannsökum trúarbrögð getum gætt hlutleysis í okkar skrifum. Það getum við einfaldlega ekki nema að takmörkuðu leyti og því tek ég að sjálfsögðu undir það að við þurfum öll að vera meðvituð – ekki endilega um fordóma okkar – heldur um það að við höfum fordóma.

Þó að Aslan gremjist (að mínu viti skiljanlega) að vera spurður svona, og þvertaki fyrir það í vörn fyrir starfsheiður sinn, þá efast ég ekki um það að hann sé þess alveg meðvitaður að hann búi yfir fordómum rétt einsog aðrir, alveg einsog ég og alveg einsog rétttrúaði gyðingurinn sem rannsakar gyðingdóm á miðöldum. Þannig sýnist mér umræðan um fordóma fræðimanna yfirleitt benda í þá átt að umræðan um fordóma Aslans sérstaklega hafi verið ósanngjörn, því hver svo sem trúarleg afstaða fræðimannsins er þá erum við öll sem rannsökum trúarbrögð undir sömu sökina seld: við erum öll jafn ótrúverðug og Aslan, á alveg sama hátt og rannsakendur einkum og sér í lagi í félags- og hugvísindum gætu látið hugsjónir sínar og pólitík hafa áhrif á rannsóknir sínar.

Og það er fullkomlega valid umræða, að fræðimenn geti verið litaðir af lífsviðhorfum þó að þeir eigi eftir fremsta megni að forðast að vera það. En við getum ekki gengið að því a priori að allir vísindamenn með skoðanir láti stjórnast af þeim og það er það sem mér fannst umræðan fyrst og fremst snúast um, eða þangað til mér varð ljóst að hún hafði klofnað svona rækilega í tvennt. Þetta er ekki málsvörn fyrir Reza Aslan heldur fyrir sjálfan mig og okkur öll, og ef til vill mætti draga saman niðurstöður minna hugleiðinga um efnið svona:

1. Við lifum á tímum þegar rannsóknir fræðimanna eru iðulega dregnar í efa og gerðar tortryggilegar í pólitískum tilgangi sökum ætlaðra annarlegra hvata þeirra. Þetta er ekki síst algengt í íslenskri umræðu eftirhrunsáranna.

2. Sú bylgja reis hæst það ég hef séð þegar órökstuddar blammeringar voru látnar dynja á Reza Aslan í sjónvarpinu. Ekki fyrir að hafa skrifað tortryggilegt rannsóknarverk, heldur fyrir það að vera múslimi. Þessa taktík mætti kalla skip the middle man: það er óþarft að tortryggja verkið þegar höfundurinn er sjálfur tortryggilegur.

3. Ef við hinsvegar föllumst á að þessar blammeringar hafi verið réttmætar, þá þurfum við að líta í eigin barm og átta okkur á því að allar réttmætar ástæður þess að stilla Reza Aslan svona upp við vegg hljóta að eiga við alla fræðimenn, alstaðar og á öllum tímum. Þó að umræðan geti ef til vill skilað okkur eitthvert áfram er ég ekki reiðubúinn að fallast á slíka niðurstöðu.

Gyðingar og nasistar

„Ísraelar hegða sér bara alveg einsog nasistar gagnvart Palestínumönnum, þeir eru engu betri en Hitler. En Hitler var nú raunar ekki alslæmur. Hann hafði sitthvað til síns máls þegar hann talaði um gyðinga, og þeir hafa nú sýnt það hvernig þeir eru innst inni.“

Kannist þið röksemdafærslu af þessu tagi? Hún er mjög algeng á íslenskum bloggsíðum um þessar mundir og felur í reynd í sér tvær röksemdafærslur sem stangast hvor á við aðra:

Röksemdafærsla 1
1. Nasistar voru vondir
2. Gyðingar eru einsog nasistar
3. Þar af leiðandi eru gyðingar vondir

Röksemdafærsla 2
1. Nasistar sáu að gyðingar eru vondir
2. Nasistar brugðust við því
3. Þar af leiðandi voru nasistar góðir

Þegar ég segi að röksemdafærsla af þessu tagi sé algeng á íslenskum bloggsíðum, þá meina ég í raun nákvæmlega þessi röksemdafærsla fremur en afbrigði af henni, og ekki bara blogg heldur allt netið, allt samfélagið. Og þetta er ekki röksemdafærsla sem eintómir bjánar fara með þótt hún sé augljóslega heimskuleg þegar hún hefur verið tekin í sundur, heldur er þetta nokkuð sem ég heyri víða, hjá ólíklegasta fólki. Og ég velti fyrir mér hvað á sér stað í hugsanaferlinu þegar svona niðurstaða spýtist út.

Meira var það ekki, ég vildi bara vekja athygli á þessu. Mér finnst þetta merkilegt.

Íslenskar bókmenntir eru dauðar

Nú þegar Páll Baldvin lætur af störfum í Kiljunni og á Fréttatímanum, þar sem hann gagnrýndi jafnan sömu bækur fyrir báða miðla, segist hann vera alveg gáttaður á því að rithöfundar hafi ekki kvartað undan meðferðinni sem þeir hafa fengið í fjölmiðlum, meðal annars hjá honum sjálfum. Bíðum nú hæg. Við höfum bara víst kvartað og það í áraraðir og okkur hefur jafnan verið sagt að við megum bara þakka fyrir það sem við þó fáum. Hvorki í störfum sínum í Kiljunni eða í Fréttatímanum sýndi hann mínum bókum til dæmis neinn áhuga. Þess heldur samnýtti hann Fréttatímann til að endurtaka sömu gagnrýnina og úr Kiljunni. Átti ég að hringja í hann og kvarta?

Ekki eru hinir miðlarnir skárri; raunar eru þeir langtum verri ef eitthvað er. Þetta eru miðlar sem taka innsendar ljóðabækur og kasta beint í ruslið, nema í þeim undantekningatilvikum að viðtal er tekið við ljóðskáld (nær aldrei undir fertugu), en þá aldrei án þess að spyrja stríðnislega hvort ljóðið sé ekki dautt. Ljóðið er auðvitað steinfokkíngdautt, bara rétt einsog íslenskar bókmenntir og bókmenning yfirhöfuð. Hafði ég ekki lesið bókina gat ég í 90% tilvika giskað á hvaða dóm hún fengi hjá Páli Baldvin í Kiljunni/Fréttatímanum – 100% ef ég hafði lesið bókina. Það er algerlega fyrirsjáanlegt hvaða bókum verður hampað og að fólk muni almennt vilja lesa það sem Páll Baldvin og Kolbrún vilja að það lesi. Fjölmiðlar skammta gagnrýnendum sínum rúmi og gagnrýnendur verða tól þeirra til eyðileggingar. Þetta er tilræði við bókmenntirnar og enginn þorir að horfast í augu við það.

Og Páll er gáttaður á hverju, nákvæmlega? Að rithöfundar rísi ekki upp og mótmæli þessu? Hann gat bara mótmælt þessu sjálfur, því þeim rithöfundum sem gera það er sagt að þegja. Restin skrifar sig viljandi inn í markaðinn sem Páll Baldvin hafði að atvinnu þar til fyrir skemmstu. Ég hef ekki áhuga á að skrifa fyrir markað sem viðurkennir ekki að yngstu höfundar sínir séu til nema þeir skrifi inn í Kiljulaga skapalónið sem einokar íslenska umræðu um bókmenntir. Ég ætla því ekki að mótmæla neinu. Hinsvegar mun ég fagna því í hvert sinn sem hundraðorðagagnrýnandi hættir. Ég mun fagna því þegar Kolbrún hættir og Kiljan vonandi með henni. Og ég mun fagna því þegar dagblöð endanlega gefast upp á að eyða orðum í íslenskar bókmenntir. Engin umræða er illskárri en þetta yfirborðskennda vinsældablaður sem nú er.

Stephen King er hetjan mín

Jim Carrey í hlutverki spennusagnakóngsins
Við vitum öll hvað í vændum er þótt enginn vilji horfast í augu við það. Fólk lýgur að sjálfu sér, leiðir hið óhjákvæmilega hjá sér, segir við sjálft sig að þetta muni fjandakornið aldrei verða – við sjálft sig, vegna þess að það vogar sér ekki einu sinni að impra á því við aðra manneskju. En það mun verða, sama hvað tautar og raular. Það er óhjákvæmilegt verði gerð mynd um Stephen King að Jim Carrey mun leika hann.

King hefur nú upp á síðkastið verið nokkuð í fjölmiðlum og nýtur aukinnar virðingar minnar fyrir það að krefjast aukinnar skattheimtu á þá efnamestu, þar með talið sjálfan sig. Þegar maður les um skattprósentuna, tuttugu og átta prósent, þá eiginlega hlær maður bara. Þetta finnst sumum alveg hræðileg píning. En Stephen King er greinilega sama sinnis og ég, enda gefur hann stoltur tuttugu og tvö prósent til viðbótar til ýmissra góðgerðarmála og til grunnþjónustunnar.

Þetta verður auðvitað hápunktur myndarinnar með Jim Carrey, sem verður einskonar Man on the Moon fyrir mainstreamið, en þá verður auðvitað svoleiðis búið um hnútana að persóna hans flytji þrumandi ræðu um skattamál í öldungadeild Bandaríkjaþings við grátur og gnístran repúblíkanatanna. Einhver frjálshyggjuplebbinn á Andríki mun misskilja myndina og skrifa um að King geti trútt um talað á sínum listamannalaunum og Davíð mun segja í leiðara Morgunblaðsins að hann hafi nú eitt sinn lesið bók eftir King og ekki fundist hún neitt sérstaklega góð, hvort þessi strákauli ætti ekki bara að halda kjafti. Titillinn verður „Nokkrir góðir dagar án Stebba kóngs“ og mun ýmsum þykja ritstjórinn sérlega ósérhlífinn í valinkunnum blammeringum sínum.

Hvað Stephen King varðar er gott að komast að því að hann sé svona mikill kommúnisti. Hann verður þá ábyggilega ekkert of leiður yfir bókinni sem ég stal eftir hann á netinu (sem ég lofa að kaupa ef mér finnst hún góð).

En já, Jim Carrey. Hann yrði sjálfsagt fínn Bjarni Ármanns ef Oliver Stone færir sig af Wall Street niður í Borgartúnið. Corey Feldman gæti þá leikið Lárus Welding. John Goodman sem Davíð (fyrst Orson Welles er dauður) og Rupert Everett er fæddur í hlutverk Bjórgólfs Thors. Brian Dennehy gæti birst örsnöggt sem Matti Jó og Nicolas Cage gæti leikið lánþega sem snappar. Held svei má þá að ég sé með eitthvað hérna. Hringi kannski í Sigurjón Sighvats til að tékka á stöðunni.

Þá er ég búinn að bulla nóg í bili milli þess sem ég hef teygað kaffi og ofurstjúppabbast í sækingum, skutli og undanlátssemi. Það er ágætt að hafa þó náð því þegar allur botn þess að ég hafði bílinn í dag féll úr síldartunnunni á fyrstu metrunum, með tilheyrandi fýlu og tímasóun. Lítið hægt að stóla á annað fólk stundum. Litla fékk að vera ein heima meðan ég keyrði þá eldri og það gladdi gamla hjartað að ekkert logaði þegar ég kom heim. Þá var hún raunar farin til vinkonu sinnar einsog ég gaf henni leyfi til svo ég fæ smá næði núna til að vorkenna sjálfum mér vegna hins sem ekki heppnaðist eins vel í dag.

Hananú, þá hringir hún dyrabjöllunni.

Afbakanir og útúrdúrar

Það fyrsta sem ég fékk að heyra þegar ég vaknaði var að Pressan hefði birt frétt um mig. Það næsta sem ég gerði til að fullkomna stundina var að selja upp umtalsverðu magni af blóði í vaskinn. Líkaminn hefur sjálfsagt séð þetta fyrir og brugðist við með viðeigandi hætti. Fréttin er svo illa skrifuð að hún afbakar (óviljandi?) það sem ég sagði í greininni sem hún er unnin upp úr.

Mér hundleiðist að vera í fjölmiðlum. Nema að sjálfsögðu þegar ég gef út bækur, en þá hafa fjölmiðlar engan áhuga á mér. En þetta er semsé langt því frá í fyrsta sinn sem meintir fjölmiðlar afbaka eitthvað sem ég hef sagt og aldrei bregst það að mér finnst ég vera skítugur eftir á. Ennþá verri er tilfinningin fyrir það að sjá nafnið mitt letrað í Pressunni.

Umræðurnar hafa að ósynju mest snúist um Tómas Guðmundsson. Þrisvar hef ég útskýrt djókið en aftur spyr fólk sömu spurninganna. Ef til vill er það þetta með lesskilning og þrjátíu prósentin.

Enn aðrir hafa viljað kenna efni greinarinnar við danskan húmor, þeirra á meðal náungi sem játar að sín reynsla af lesbíum einskorðist við tölvuskjáinn um borð í togaranum. En auðvitað á það ekkert skylt við húmor þegar samfélagið gefur konum hvarvetna þau skilaboð að þær séu túttur og píkur fremur en manneskjur. Það getur hver sagt sér sjálfur.

Hans og Grétu syndrómið

Ég var óskaplega stoltur af sjálfum mér í dag. Mér nefnilega tókst að klára nærri heilt páskaegg nr. 4. En svo áttaði ég mig á því að hér búa fleiri og því er líklegra að einhver annar hafi étið eitthvað af þessu. Þegar ég var lítill gat ég étið þrjú svona en það er liðin tíð.

Einhverjir voru að tuða undan þessu súkkulaðibrjálæði á netinu og birtu eitthvert óttalegt tilfinningaklám í ætt við „it’s hard to be a little girl when you’re not“, einsog páskaeggjaát sé ekki spurning um hvorutveggja öfgar og val. Líklega eru Íslendingar fyrstir í heimi til að vera allt í senn feitastir, sveltastir og fátækastir allra. Bestir í öllu því einsog öllu öðru. En í hugarheimi sums fólks er semsagt ekki hægt að gefa börnum súkkulaði nema með kalkúnasprautu. Sjálfsagt mætti kalla það Hans og Grétu syndrómið.

Fyrir nokkrum árum máttu ekki vera púkar ofan á páskaeggjum frá Nóa samkvæmt einhverjum prestinum því eggin væru táknmyndir sjálfs kristindómsins og jafngilti gjörningurinn því djöfladýrkun. Annar séra viðhafði svipuð orð um Draugasetrið á Stokkseyri en komst þar raunar nær guðfræðilegri teóríu en hinn. Fátt má út af bera gagnvart djöflatrúnni og nú munu fermingarbörn vera svívirt af öllum þorra guðlausra Íslendinga. Hinn kúgaði meirihluti lætur ekki að sér hæða.

Ekki þarfyrir að umræðan á Íslandi hafi ekki alltaf verið snargeðbiluð. Meiraðsegja Þóru Arnórsdóttur tókst ekki að bjóða sig fram til forseta án þess að vera kölluð strengjabrúða í valdaráni kommúnista. Voða sem fólk getur verið lítið í sér, hve mikil ósköp sem oft er erfitt að vera til fyrir öllum þessum kommúnistum, trúleysingjum og páskaeggjum. Sjálfsagt er það ekki svo fjarri Hans og Grétu syndróminu heldur að telja sér trú um að allir í kringum mann séu vondir og eigi skilið að vera skutlað í ofninn.

Miðbær Árósa
Og nú með ótrúlegri tengingu við Hitler má svosem nefna að ég skrapp til Danmerkur á dögunum (einhverra hluta vegna er ég alltaf á einhverjum þvælingi). Þar rétt svo tókst mér að missa af fámennum útifundi nasista sem aflaði sér um tífalt fleiri ósáttra gesta og skarst í brýnu þeirra í milli og svo lögreglunnar sem reyndi að verja þá fyrrnefndu. Lögreglustjórinn í Árósum lýsti yfir í kjölfarið að betra hefði verið að láta nasistana bara eiga sig.

Stundum velti ég fyrir mér að gera einmitt það hvað kommentakerfi vefmiðlanna snertir, en ég held nú að hatursorðræðan skjóti því sterkari rótum sem hún er hunsaðri. Ef ekki er hægt að tala um páskaegg, fermingar eða forsetaframboð án þess að einhver sé berlega orðaður við samsæri eða ofbeldi þá er líklega lítil von á vitrænni umræðu næstu kynslóðirnar, og því síður sem orðræða fábjánanna er látin óátalin.

Sem raunar minnir mig á píslarsögu Krists: í henni virðast nær allir tjá sig einsog fábjánar svo lyktar með að maður einn er tekinn af lífi og fyrir því höldum við upp á páskana enn þann dag í dag. Kannski eru páskarnir þá eftir allt saman bara ágæt hátíð til að annaðhvort troða í sig páskaeggjum eða grenja undan páskaeggjaáti annarra og eipa almennt einsog fábjáni. En því miður er enginn hörgull á þessu síðastnefnda aðra daga ársins svo einhverjum kann að þykja tengingin hæpin. Hitt verð ég að játa að páskarnir hafa verið með ágætasta móti þetta árið, ekki síst fyrir það að líklega eru þetta fyrstu páskarnir á þessari öld sem ég er í fríi. Oft getur munað um minna.

Með hjartað á réttum stað

Ég kynntist honum hvergi nándar nærri eins mikið og mig langaði til. Við hittumst heldur aldrei, þótt það hafi komið til tals. Og nú er hann dáinn. Það síðasta sem hann sagði við mig, í stríðni: „Þú hefur svo fallega sál.“ Eitthvað fannst mér það nú vera alveg öfugt.

Það er óvanalegt þegar manneskja sem lengst maður þekkti undir dulnefni hefur jafn djúpstæð áhrif á mann. Sigurbirni kynntist ég skömmu eftir að hann fór að skrifa um málefni kynjanna. Undir fyrirsögninni „Sigurbjörn verður til“ birtust eftirfarandi inngangsorð:

Mér hefur lengi blöskrað það sem Pjattrófurnar og Hlín Einars skrifa um karlmenn. Það virðist sem þær þekki bara eina tegund karla, aumingja.

Sigurbjörn sagði allt það sem mörg okkar hinna höfðu ekki dug í okkur til að nefna, sérstaklega karlar, og skóf aldrei ofan af hlutunum. Hann varð strax einn minn uppáhaldspenni, síðan hans varð daglegur viðkomustaður.

Hið sorglega við þá samfélagsgerð fyrirlitningar sem Sigurbjörn barðist gegn, þetta tæpa ár sem hann var virkur í umræðunni, er hversu óvanalegt það var að karlmaður léti í sér heyra. Og það gerði hann svo rækilega að fáir máttu sín nokkurs gegn honum. Hans síðustu grein skrifaði hann fyrir Druslugönguna sem haldin var í júlí sem leið.

Manninum bakvið Sigurbjörn fékk ég síðar örlítið að kynnast. Við skrifuðumst ögn á og hrútskýrðum femínisma hvor fyrir hinum. Í gegnum okkar stuttu kynni komst ég að því að ekki einasta var þar á ferðinni maður með hjartað á réttum stað, heldur var hann kærleiksríkur og lífsglaður eiginmaður og faðir.

Hann var mikill húmoristi, einsog raunar allir femínistar sem ég hef kynnst. Hann var hvunndagshetja og fyrirmynd margra. Hann var hetja mín og fyrirmynd. En fyrst og fremst var hann Gunnar Hrafn. Fyrir það vildi ég geta þakkað honum.

Birtist fyrst á Smugunni.

Viðbjóðurinn á AMX

Á sama tíma og ég les í dönskum fjölmiðlum að fyrst hafi verið talið að um hryðjuverk hafi verið að ræða í Noregi, en svo hafi það reynst vera Norðmaður, berst enn ógeðfelldari málflutningur úr afdankaðasta horni íslenskra netheima. Þá á ég ekki við það illa innrætta fólk sem ásakaði Önnu Pálu Sverrisdóttur um pólitíska sýndarmennsku fyrir að láta hafa eftir sér við fjölmiðla að hún hefði áhyggjur af vinum sínum sem skotið hafði verið á, heldur smáfugla AMX.

Best er að veita ekki hatursfullu öfgafólki athygli og leyfa því bara að spúa sínu eitri úti í horni, en stundum ofbýður manni óþverrinn sem frá því kemur. Ungir jafnaðarmann voru stráfelldir á Utøya og í Osló var forsætisráðuneytið sprengt í loft upp. Samkvæmt nýjustu fréttum eru að minnsta kosti 93 látnir. Ef til vill finnast þau aldrei sem enn er saknað.

Þetta er harmleikur sem kemur okkur öllum við. Og meðan allir með snefil af samvisku finna til samhygðar með Norðmönnum á þessum döpru tímamótum í norskri sögu – sögu okkar allra – þvert á stjórnmálaskoðanir, nota þeir sem standa að baki AMX tækifærið til ógeðfelldra pólitískra árása á mótherja sína. Þeir hafa látið hafa eftir sér að það sé hræsni af Össuri Skarphéðinssyni að senda samúðarkveðjur til Norðmanna, af því hann nýverið fór til Palestínu að kynna sér aðstæður fólksins á hernumdu svæðunum og lýsti í kjölfarið yfir stuðningi við vilja fólksins þar til að lifa í friði sem þjóð í eigin landi.

Hann er kallaður hræsnari fyrir að vera stuðningsmaður hryðjuverkasamtaka, eftir skilningi AMX. Í mörg ár hafa Ísraelar átt í friðarviðræðum við Palestínumenn. Líklega eru Ísraelar þá hræsnarar líka fyrir að barma sér þegar einhver fremur hryðjuverk þar í landi, svona einsog hægrimenn hljóta allir að vera hræsnarar um leið og einn þeirra fremur hryðjuverk og myrðir 93 saklausar manneskjur, eða hvað? Sú yfirlýsing að fólk skuli hafa tækifæri til að lifa við sömu lífskjör og við teljum sjálfsögð er nefnd stuðningur við hryðjuverkasamtök. Á sama tíma reyna AMX-liðar að afneita því að ódæðismaðurinn hafi verið hægriöfgamaður.

Athugasemd þeirra um að nasismi eigi eitthvað skylt við sósíalisma er of heimskuleg til að svara. En hitt, að þeim finnist það ekki fyrir neðan sig að gera lítið úr fjöldamorðum á jafnaðarmönnum á einstaklega ógeðfelldan hátt, með því að spyrða þá saman við hryðjuverkasamtök – vel að merkja hafa AUF það einnig á sinni stefnuskrá að stuðla að friði milli stríðandi fylkinga fyrir botni Miðjarðarhafs, svo þetta er ekki aðeins árás á Össur, heldur öll þau sem létu lífið í hryðjuverkunum í Noregi – það nægir þeim ekki einu sinni, heldur eru þeir nægilega veruleikafirrtir til að reyna að neita því að maðurinn hafi aðhyllst hægristefnu. Einsog það geri harmleikinn eitthvað skárri eða verri eftir því hvar hann fann sig í stjórnmálum.

Það hefur ekki hvarflað að þeim að fjalla um málið eftir eigin yfirlýstu stefnu, sem á eins kaldranalegt og það nú er að heita „vönduð miðlun frétta“, heldur notfæra þeir sér vofveiflegasta atburð í sögu Norðurlanda til að skjóta á pólitíska andstæðinga og spyrða þá saman við hugmyndafræði sem í þeirra sjúka höfði þeir sjálfsagt tengja við ódæðismanninn sjálfan. Meiri viðbjóð í íslenskri umræðuhefð hef ég ekki orðið var við í langan tíma, ef nokkru sinni. Slík gegndarlaus mannfyrirlitning er alveg á pari við óþverrann sem liggur eftir Anders Breivik á prenti; að ungir jafnaðarmenn hafi átt skilið að deyja fyrir stuðning sinn við fjölmenningarstefnu, og í leiðinni stuðning þeirra við sjálfstætt ríki í Palestínu samhliða Ísrael. Já, gott ef hann kallar það ekki hræsni líka.

Eru smáfuglarnir ánægðir með að vera spyrt svona saman við morðingjann á Utøya? Ekki get ég ímyndað mér það. En samkvæmt AMX hlýtur það sömuleiðis að teljast hræsni að nú syrgja 2000 manns hinn 21 árs Tore Eikeland á opinni minningasíðu. Samkvæmt þeim er kannski hræsni að finna í frásögn ungrar stúlku sem faldi sig í hrúgu látinna félaga í tilraun til að lifa af. Samkvæmt AMX hljóta allir að vera hræsnarar aðrir en þeir sjálfir. En hvernig væri nú, Friðbjörn Orri og félagar, að þið sýnduð sömu samúð og aðrir sýndu ykkur ef ungir hægrimenn hefðu verið myrtir í hrönnum á samkomu fyrir það eitt að hafa hugsjónir og ræða þær? Ef þið alls ekki getið sýnt tilhlýðandi virðingu fyrir mannslífum, ef ykkur er alls ekkert heilagt annað en fullvissa ykkar um eigið ágæti, þá er kannski betra að þið haldið bara kjafti og geymið þórðargleðina meðan við hin syrgjum með norsku þjóðinni.

En hún var svo djarflega klædd!

Það er viðtekinn skilningur margra að jafnrétti hafi verið náð milli kynjanna, og því sé barátta fyrir jafnrétti orðin að tímaskekkju – að sumar konur vilji „meira jafnrétti“ en aðrir eiga að njóta, einsog svínin á Dýrabæ; eiginleg kvenréttindi í stað mannréttinda – og svo útbreiddur er þessi skilningur að upphafleg þverstæða Orwells hefur tapast í umræðunni þegar konum er jafnað við svín, sem aftur er jafnað við fasista, sbr. hugtakið femínasismi. Jafnrétti er náð, og samt þurfa konur sérstaklega að mótmæla því að orsakasamhengi sé milli kynbundins ofbeldis og þess hvernig þær klæða sig. Það er ekki síst merkilegt að þeim sem helst er tíðrætt um að banna skuli búrkur, því þær séu kúgunartól, skuli ekki finnast neitt athugavert við þá andstæðu kúgun að konur sem klæði sig „djarflega“ kalli eftir því sjálfar að þeim sé nauðgað. Kannski er þá ekki svo mikill munur á islamófóbum Íslands og þeim sem þeir óttast hvað mest eftir allt saman. Kannski ættu karlar bara að hætta að pæla í því hvernig konur klæða sig.

Undirliggjandi rót þessarar öndverðu þverstæðu einsog hún nú er sett fram liggur í kjarna vestrænnar menningar og órökstuddum ótta við fyrirbæri sem gjarnan er nefnt „pólitísk rétthugsun“. Látum liggja á milli hluta hvort það sé pólitísk rétthugsun að vilja ekki vera nauðgað, og hvort það sé nauðsynlega slæm sort af rétthugsun í sjálfu sér. Í menningunni er nefnilega fólginn ótti sem dansar á egg tvíeggjaðs sverðs, ótti við fordóma og áðurnefnda rétthugsun, og allt sem útaf stendur á hvorn bóginn sem litið er til liggur handan gagnrýni nema sá sem gagnrýnir vilji hætta á að teljast forpokaður.

Það er ekki langt síðan sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason stökk upp á nef sér af illskiljanlegu óþoli gagnvart ímyndaðri menningarelítu sem honum fannst hann vera kominn upp á kant við, af því hann hafði skrifað bók um Jónínu Benediktsdóttur sem fékk ekki alveg þær viðtökur sem hann átti von á. Hluti af vörn hans var að hann teldi samspil milli lágmenningar og hámenningar nauðsynlegt, og nefndi í því sambandi að hann hefði bæði Krishnamurti á náttborðinu sínu og Lífsleikni Gillzeneggers.

Eins skemmtilegt og það hlýtur að vera fyrir Gillzenegger að vera spyrt saman við einhverja óskilgreinda lágmenningu þá hefur Sölvi rangt fyrir sér. Gillzenegger er ekki lágmenning. Menn sem upphefja staðalmyndir og ýta undir kvenhatur dagsdaglega eru ekki lágmenning fyrir menningarelítu að meta á vogarskálunum sötrandi freyðivín; maður sem stingur upp á að nauðga femínistum er ekki þrepi lakari á menningarkvarðanum en sá sem stingur upp á ástarleik með kærustunni, einsog einskonar Rómeó fátæka mannsins. Hann er þvert á móti persóna sem endurspeglar viss viðhorf í samfélaginu á slíkan hátt sem ekki má gagnrýna án þess að vekja upp úlfúð hjá þeim sem óttast pólitíska rétthugsun meir en nokkuð annað. „Þetta er nú meiri pólitíska rétthugsunin, sérðu ekki að Gillzenegger er paródía?“ er gjarnan sagt. En þau viðhorf sem Gillzenegger endurspeglar eru raunveruleg, og þau eru alvarleg. Þau birtast meðal annars í fréttaflutningi DV af Jóni stóra, sem komst svo að orði á Facebooksíðu sinni:

„er það að gefa manni smá clue að kærastan sé of ung ef hún tekur nammið út úr sér og geymir á maganum á manni meðan hún gefur manni blowjob??:D“

Það er fólk til sem heldur í heiðri sömu viðhorf og Gillzenegger setur fram, hvort sem það er gert í gríni eða ekki, og fyrir vikið verður hann sem fjölmiðlafígúra ekki aðeins fyrirmynd þeirra, heldur einnig þeirra óhörðnuðu ungmenna sem hann helst vill höfða til – að eigin sögn með ráðleggingum um hollan lífstíl (nokkuð sem vekur upp furðu í mínu pólitískt réttþenkjandi brjósti). Ef rétt væri með farið væri þetta kannski í einhverjum skilningi fyndið, en að tileinka sér nákvæmlega sömu orðræðu – ef það er þá yfirhöfuð tilfellið að þetta eigi að vera fyndið – er það ekki.

Á dögunum rifjaði Drífa Snædal upp gamla bloggfærslu eftir Gillzenegger þar sem hann segir að:

„Þegar feministar verða of áberandi í fjölmiðlum hefur ávallt virkað að kalla til Ásgeir Kolbeinsson til þess að gefa þessum leiðinda rauðsokkum einn granítharðan í háruga bílskúrinn til þess að þagga niður í þeim.

Drífa Snædal fór mikinn í Kastljósinu á dögunum þar sem hún sat á móti Agli Helgasyni og reyndi að rífa kjaft. Aldrei hefur kvenmaður misst jafn mikið magn af saur í Kastljósinu áður.

Kolbrún [Halldórsdóttir] hefur aldrei fengið stifan lim og því hefur Fréttastofan ákveðið að senda Ásgeir, Jamal, Buka og Yao alla í þetta verkefni. Kolbrún toppaði sjálfa sig í leiðindum þegar hún stakk upp á því að nýfædd börn yrðu ekki sett í blá eða bleik föt. Kolbrún er í fullri vinnu við að vera óþolandi og tala með rassgatinu og það er kominn tími til að þagga niður í henni endanlega og munu þessir herramenn sem Fréttastofan taldi upp áðan fylla hana eins og hátíðarkalkún. Það mun vonandi vera til þess að hún steingrjóthaldikjafti og fari að haga sér.

Steinunn [Valdís Óskarsdóttir] er portkonan sem vildi breyta orðinu ráðherra í ráðfrú fyrir konur. Steinunn þarf lim og það strax. Á hana Steinunni Valdísi dugar ekkert annað en lágmark tveir harðir og munu Buka og Yao taka þetta verkefni að sér. Fréttastofan ákvað að gefa Ásgeiri Kolbeinssyni frí í þetta skiptið, en Fréttastofan vill ekki hafa það á samviskunni að Ásgeir finnist hangandi í ljósakrónu í vesturbænum.“

Heimildarmaður Fréttastofunnar vildi ekki koma undir nafni en hann hafði þetta að segja: “Ég hef aldrei séð annað eins, hún [Anna Margrét Björnsdóttir] gengur um fyrirtækið eins og mennsk Nilfisk ryksuga. Hún er duglegri að ryksuga inni hjá yfirmönnunum en af og til verðum við strákarnir niðri lucky og hún “ryksugar” okkur ef þú veist hvað ég á við.”

Þessar athugasemdir eru allar skrifaðar af sama manni og stakk upp á því að Sóley Tómasdóttir þyrfti á því að halda að henni yrði nauðgað duglega svo hún tæki sönsum og hætti að vera svona beinþurr kerling. Á sömu nótum eru athugasemdir kennara við Flensborg, Baldurs Hermannssonar, þegar hann sagði á bloggsíðu sinni að konur þráðu innst inni að láta nauðga sér. Hjálmar Sveinsson vakti athygli á þessum sömu ummælum Gillzeneggers í kjölfar umfjöllunar Smugunnar um upprifjun Drífu og opins bréfs Einars Ólafssonar til fyrirtækisins Já sökum upphafningar þeirra á þessum manni og þarmeð óhjákvæmilega á hans málflutningi, og uppskar grátkór fólks sem vændi hann um pólitíska rétthugsun, vinstrimennsku og þöggun – og enn aðrir sögðu að hann væri lélegur borgarfulltrúi – einsog nokkuð af þessu kæmi málinu við.

Þegar menn einsog Gillzenegger hafa uppi viðlíka munnsöfnuð endurspegla þeir raunveruleg viðhorf, til dæmis manna einsog Baldurs Hermannssonar, og þegar svo er komið þá er skammur vegur milli gríns og alvöru. Fyrrum ríkissaksóknari, Valtýr Sigurðsson, endurómaði þessi viðhorf í fyrrahaust þegar hann kenndi áfengisdrykkju brotaþola nauðgana um mörg þeirra tilfella sem kærð væru til lögreglu – því það er einmitt algjörlega í lagi að nauðga konu ef hún er of drukkin til að verja sig, ef marka má málflutning hans. Á bloggsíðu einni skrifaði svo síðuhaldari um að það væri af sem áður var þegar Þjóðhátíð í Eyjum snerist aðallega um að ríða eins mörgum konum og fundust dauðar á víðavangi eða í tjöldum og unnt væri. Brandarinn er búinn. Þessi viðhorf eru raunveruleg, og það síðasta sem umræðan um jafnan rétt kynjanna þarf er fjölmiðlafígúra sem bergmálar þessi sömu viðhorf einsog þau séu eðlileg.

Það er þess vegna sem baráttan er ekki búin. Jafnrétti er hvergi nærri náð meðan kvenfyrirlitning geisar um í samfélaginu einsog engisprettufaraldur og einasta baráttufólk fyrir jöfnum réttindum kynjanna er smættað niður ómálefnalega og tilraun er gerð til að koma þeim fyrir á þeirra rétta stað – sjálfsagt framan við eldavélina eða á framanverðum enda vöðvastælts valmennis sem veit hvað konum er fyrir bestu. Gillzenegger kann að vera paródía, en hann stendur sig öllu betur í forystu fyrir þann miðaldahugsanahátt sem réttlætir misrétti, kvenfyrirlitningu og nauðganir – ekki einasta sökum klæðaburðar – heldur fyrir sakir skoðana einna saman.

Á meðan konur geta ekki gengið um götur óhultar fyrir brjálæðingum sem halda að líkami þeirra sé musteri eigin karlmennsku er ekki unnt að taka slíkum málflutningi léttilega. Á meðan þau viðhorf viðgangast að konur séu á einhvern hátt lakari en karlar, að þær þurfi bara „einn stífan“ ef þær voga sér að vera með kjaft, að klæðaburður þeirra „kalli hreinlega á nauðgun“, þá á baráttan fyrir jafnrétti enn langt í land að ná. Þess vegna er Druslugangan nauðsynleg. Druslugangan er andóf gegn þessum viðteknu hugmyndum um konur sem leikfang til karlmannlegs brúks eftir hentisemi.

Þann 23. júlí næstkomandi munu allir sem láta sig málið varða mótmæla því að konur séu hlutgerðar, ekki aðeins sökum klæðaburðar sem gjarnan er orðað við „druslur“ – þótt það sé það sem sérstaklega er bent á hér – heldur almennt og yfirhöfuð. Það að enn sé til fólk sem réttlætir nauðganir og kynbundið ofbeldi, meiraðsegja innan réttarkerfisins, er nægileg ástæða til að spyrna fótum við og storka því rotna hugarfari sem gegnumsýrir íslenskt þjóðfélag. Af því tilefni munu öll sem láta sig málefnið varða fylkja liði „druslulega klædd“ og ganga niður Skólavörðustíg, Bankastræti og Austurstræti, og hvet ég allar konur og karla til að taka sér stöðu samhliða og mótmæla ójafnréttinu í samfélaginu með þeim.

Í andmælum við þá pólitísku rétthugsun hljótum öll að vænta þess að Gillzenegger og félagar bíði á hliðarlínunni, tilbúnir til að nauðga öllu klabbinu svo þeir fái kvöldmatinn sinn og daglega fullnægju. Mætum því öll til að sýna þeim að þeirra viðhorf eiga ekki upp á pallborðið lengur. Nauðganir eru glæpur sem snertir okkur öll, ekki aðeins konur, og hvernig fólk klæðist er ekki afsökun fyrir ofbeldi. Jafnrétti verður aldrei náð fyrren við útrýmum þeirri hugsun.

– Birtist fyrst á vefsíðu Druslugöngunnar í Reykjavík þann 3. júlí 2011.

__________________________________
Fleiri skrif hafa birst um efnið í kjölfar upprifjunar Drífu:

* Guðmundur Andri Thorsson: Íþróttasjálfurinn.

* Yrsa Þöll Gylfadóttir: Um húmor, íróníu og fyrirbærið Egil/Gillz.

* Magnús Sveinn Helgason: Af andlegum sjúkleika Gillzenegger.

* Magnús Sveinn Helgason: Nauðganaórar og grín Gillzenegger.

* Magnús Sveinn Helgason: Gillzeneggering íslenskra karlmanna.

* Sigurbjörn: Hræddir karlar grínast.