Engin svör hafa borist

Nú, tæpum sólarhring eftir að ég sendi opið bréf til forsvarsfólks Málsvarnar, og í tölvupósti einnig, hefur mér enn ekkert svar borist við spurningum mínum. Í kjölfar umfjöllunar Smugunnar, Eyjunnar og The Reykjavík Grapevine hefur nafn mitt þó verið fjarlægt af stuðningslistanum.

Mér þykja spurningar mínar eðlilegar og sanngjarnar. Ég sé enga ástæðu fyrir þau að svara þeim ekki nema fyrir það að ég tók sérstaklega fram í bréfi mínu að ég áskildi mér rétt til að birta þau svör opinberlega. Til upprifjunar, kjósi þau að svara mér að endingu, voru spurningarnar þessar:

1. Hverjum á að afhenda þennan stuðningslista?

2. Ef ekki á að afhenda hann neinum, til hvers er hann þá?

3. Samkvæmt vefsíðunni skal hafa samband við forsvarsfólk Málsvarnar í því tilfelli að fyrirtæki vilji styrkja söfnunina. Hvers vegna eru engar upplýsingar um það hvernig maður skráir sig af undirskriftalistanum, eða hvert beina skal fyrirspurnum?

4. Hefur forsvarsfólk Málsvarnar í engu gætt að því að baktryggja sig gegn fölskum skráningum með því að krefjast staðfestingar í tölvupósti og keyra listann saman við Þjóðskrá?

5. Ef ekki, er það þá ekki verðugt umhugsunarefni eftir nýfelldan úrskurð Persónuverndar um brotalamir undirskriftalistans gegn síðasta Icesavesamningi?

6. Get ég beiðst þess að forsvarsfólk Málsvarnar aðgæti að nafn mitt verði ekki skráð aftur á listann? Mér finnst rétt og sjálfsagt að mér verði að þeirri ósk minni.

Ég vonast enn eftir viðbrögðum. Ég býst við þeim, og ég ætlast til að fá þau. Ef þessi stuðningslisti á að vera til marks um nokkuð, þá er varla til of mikils mælst að forsvarsfólk hans veiti svör við einföldum spurningum, eða hvað?

Guðbergur er ekki að erfa neinn flugvöll

Til að byrja með er rétt að taka það fram að mér finnst umfjöllun íslenskra fjölmiðla um málefni Guðbergs Bergssonar vera bjánaleg og full af vanvirðingu. Þetta snýst ekki um peninga, og kemur heldur engum í raun við. Aðalmálið er að Guðbergur missti manninn sinn, og hann ætti að fá að vera í friði með það.

Hinsvegar get ég ekki annað en brosað út í eitt af fréttum þess efnis að hann sé að erfa flugvöllinn í Alicante. Kannski finnst Guðbergi bara svona fyndið að atast í íslenskum blaðamönnum. En með smá rannsóknarvinnu kemur eftirfarandi í ljós:

Kona Pedro Salinas, föður Jaime Salinas, sambýlismanns Guðbergs, átti land sem var tekið eignarnámi til að byggja á flugvöll eftir að hún lét lífið í borgarastyrjöldinni. Afkomendur þeirra hjóna héldu þó áfram að búa á landareigninni, sem heyrir undir flugvallarsvæðið, og búa þar enn. Lagaþræturnar snúast um hvort fjölskylda móðurinnar eða föðurins eigi réttinn að landinu.

Svo vill til að deilan um eignarréttinn snýst óhjákvæmilega um flugvallarsvæðið í heild sinni einnig. En Guðbergur á tæpast möguleika á neinu sérstöku tilkalli til þess, og ef svo fer að fjölskylda Salinas fær hluta af landinu tilbaka, þá kaupir spánska ríkisstjórnin landið hreinlega af þeim einsog um hefðbundið eignarnám sé að ræða. Svo Guðbergur er í raun að fara þangað til að afsala sér mögulegu tilkalli til þessarar jarðar.

Fæstar fjölskyldur sem sættu þjóðnýtingu Francos hafa enn fengið landareignir sínar tilbaka, og sama gildir í þessu máli. Stærsta fréttin hlýtur því að vera sú að Guðbergur er ekki skíthæll sem beitir lagaklækjum til að reka fjölskyldur á dyr þótt hann hljóti gegnum arf afskaplega vafasamt tilkall til hluta landareignarinnar. En við gátum svosem öll sagt okkur það.

Ég óska íslenskum fjölmiðlum til hamingju með árangurinn. Heimildavinna er víst ekki öllum gefin.

Hugleiðingar um úrslitin

Ég ber mikla virðingu fyrir þeirri prinsípskoðun að Íslendingum beri yfirhöfuð ekki að greiða skuldir einkafyrirtækja (þó er deilt um hvort það sé tilfellið hér), og var sjálfur þeirrar skoðunar fyrst eftir hrun. Afstaða mín breyttist síðar og þá fyrst og fremst af pragmatískum ástæðum – auðvitað á almenningur ekki að borga skuldir einkafyrirtækja, en fyrirtæki sem ekki mega fara á hausinn ættu heldur ekki að vera einkafyrirtæki, þá síst af öllu bankar. Það sem gerðist var fyrirsjáanlegt öllum sem ekki höfðu hausinn í sandinum, þótt vitanlega væri okkur öllum brugðið. Þegar heilt bankakerfi fer á hliðina er ekki annað hægt en að bjarga því sem bjargað verður.

En hér bauðst okkur samningur um að greiða lygilega lága og sanngjarna upphæð fyrir þá fjármuni sem íslensku bankarnir rændu almenning í Bretlandi og Hollandi um, og ég kaus með honum af því ég tel að það sem kemur þjóðinni best að lokum sé óháð þrjóskulegum prinsípum; þeir sem helst bera sig saman við Bjart í Sumarhúsum eiga þá sjálfslíkingu áreiðanlega skuldlausa. Hann er einhver alversta fyrirmynd sem hugsast getur, en einhverra hluta vegna hefur hann orðið að táknmynd hins sjálfstæða Íslendings. Kannski er eitthvað til í því.

Ég þekki margt gott og gáfað fólk sem kaus á móti samningnum í gær, og ég þekki sömuleiðis margt gott og gáfað fólk sem kaus með honum. Þó held ég að þeir fyrrnefndu hafi rangt fyrir sér, af nokkrum ástæðum.

Eftir að fyrri samningi var hafnað hafa margir orðið til þess að segja að ekkert hafi gerst, að höfnun þess samnings hafi verið afleiðingalaus fyrir Ísland, jafnvel talað um tilefnislausan hræðsluáróður stjórnvalda. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin verið ásökuð um aðgerðaleysi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það er einsog fólk sjái ekki samhengið þarna á milli.

Það er nokkuð ljóst að Ísland er lánsfjárþurfi, og að höfnun Svavarssamningsins hefur orðið þess valdandi að Íslendingum hafa ekki staðið til boða mikilvæg erlend lán sem nota mætti til að mæta eldri lánum á gjalddaga og dæla peningum út í atvinnulífið til að efla hagvöxt, sem er forsenda þess að gjaldeyrishöftin verði afnumin. Í þeim skilningi er það rétt hjá fólki að „ekkert hafi gerst“ við að neita þeim samningi. Þær fjárhæðir sem hafa tapast vegna þessa verða ekki mældar í neinum smáræðis einingum, ef þær eru yfirhöfuð mælanlegar.

Það er raunar ótrúlegt að Ísland sé ekki verr statt en raun ber vitni. Það má margt segja um ríkisstjórnina, en henni hefur þó tekist að halda Íslandi á floti með Icesavemálið óklárað. Á meðan heldur niðurskurðurinn áfram, atvinnuleysi eykst og almenningur á sífellt erfiðara með að ná endum saman. En stöðnun í fjármálakerfi og atvinnulífi Íslands er ekki ríkisstjórninni að kenna, heldur er hún afleiðing hruns íslenska bankakerfisins og lánleysi stjórnvalda til að semja um það sem út af stendur. Með þetta mál hangandi yfir hausamótunum á okkur horfumst við í augu við nokkur ár til viðbótar af þessu sama.

Í gær fengum við valkost um að greiða 32 milljarða króna miðað við nýjustu útreikninga. Þeir sem tóku afstöðu gegn samningnum voru margir á því að betra væri að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort Íslendingar þyrftu yfirhöfuð að borga. Ég deili ekki þeirri bjartsýni með þeim. EFTA höfðar ekki mál nema að vel athuguðu máli, enda vinnur EFTA undantekningalítið. Þá voru sumir sem töldu að töpuðu Íslendingar málinu yrðu þeir tæpast dæmdir til að greiða meira en umsamda 32 milljarða króna. Það er óskhyggja.

Sannleikurinn er sá að við vitum ekki hvað við gætum þurft að greiða, og stór hluti þeirrar upphæðar verður eingöngu reiknaður í töpuðum tíma – líkt og með höfnun fyrri Icesavesamnings. Sá árangur sem ekki næst meðan Ísland rekur mál sitt fyrir EFTA er glataður árangur, glataðir fjármunir, meiri niðurskurður og aukið atvinnuleysi. Það var fórnarkostnaður síðasta neis og það verður fórnarkostnaðar þessa. Við þessu var búið að vara og það gekk eftir, sama þótt það sé nú kallað hræðsluáróður og stjórnvöld sögð „aðgerðalaus meðan heimilin brenna“. Meira má nú dramað vera. Lýðræðinu fylgir ábyrgð og þjóðin tók þessa ákvörðun sjálf.

Enn aðrir spurðu sig hvers vegna Bretar og Hollendingar hefðu ekki þegar kært okkur fyrst þeir væru svona vissir um réttmæti krafna sinna. Því er auðsvarað: þjóðir sem eiga í samningaviðræðum kæra ekki samningsaðilann. Það er fáránleg hugmynd. En á næstu vikum og mánuðum munum við sannarlega fá að sjá hversu einarðir þeir standa með kröfum sínum. Um það er ekki að efast að þeir taka slaginn með sannfæringu, rétt einsog íslensk stjórnvöld lýstu yfir í gærkvöldi að þau myndu gera fyrir hönd Íslendinga.

Um þátt forsetans vil ég sem minnst segja. Ég er almennt hlynntur slíku hliðskipuðu aðhaldi, hvort sem er frá forseta, meirihluta þings eða tilteknu hlutfalli kjósenda, en ég er líka sammála forsætisráðherra þegar hún segir að mál af þessu tagi henti ekki til þjóðaratkvæðagreiðslna. Þegar fólki býðst að greiða umtalsverðar fjárhæðir eða sleppa því hlýtur það alltaf að sleppa því, og þar kemur ofureinföldunin inn: atkvæðagreiðslan snerist ekki um að sleppa því, heldur um hvernig, hvenær og hversu mikið við komum til með að greiða á endanum. Kannski greiðum við ekkert, en fórnarkostnaðurinn við málareksturinn verður alltaf hærri en sú upphæð sem bauðst í gær. Þá fyrst verðum við kannski einsog Bjartur í Sumarhúsum, sem stóð uppi með ekkert að lokum sökum þrjósku sinnar og heimóttarskap.

Á sama tíma hef ég orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum með Íslendinga – ekki vegna niðurstöðu kosninganna, ég ber virðingu fyrir henni – heldur vegna þeirrar umræðu sem átti sér stað í aðdraganda kosninganna. Vigdís Finnbogadóttir lýsti afstöðu sinni til málsins og var í kjölfarið kölluð landráðamaður og afæta á íslenskri þjóð. Það er hreinlega ekki í lagi. Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri og höfuðpaur Icesave, lýsti einnig yfir sinni afstöðu – og uppskar engin húrrahróp þótt hann segði nákvæmlega það sama og margir nei-arar (enda skyldi engan undra). Þá voru ýmsir sem stilltu Vigdísi og Sigurjóni upp sem dýrlingi á móti djöfli – glæponinn segir nei, sameiningartáknið segir já, hver sá sem sæi það ekki væri heimskur. Það var ekki til fyrirmyndar.

Þá hafa ýmsir kallað eftir leiðtoga sem stæði í lappirnar gagnvart erlendri kúgun. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá hvert slíkur þankagangur gæti leitt okkur. En þjóðin er geðklofin í þessu sem svo mörgu öðru: hún hafnar „foringjaræði fjórflokksins“ (?) en biður um „sterkan leiðtoga“ í staðinn. Umræðan hefur spúið fnyk þjóðernishyggju yfir grandvaralausa og vitnað er í hverja bábiljuna á fætur annarri, einsog þeir sem lýstu yfir á Facebook að nei árið 1918 hefði skilað okkur fullveldi, nei árið 1944 hefði skilað okkur sjálfstæði og nei árið 1976 hefði skilað okkur 200 mílna landhelgi. Þetta er svo galin söguskoðun að það þarf ekki að hafa frekari orð um það.

En söguvitund á Íslandi hefur svosem aldrei verið neitt sérlega beisin. Hún er svona: Íslendingar voru stoltir víkingar sem létu erlent yfirvald ekki svínbeygja sig svo þeir stofnuðu fyrsta lýðveldi heimsins (nei árið 871 skilaði okkur …). Svo komu Danir og kúguðu okkur og létu okkur borða maðka. Þá kom Jón Sigurðsson og mótmælti í fleirtölu. Svo fengum við sjálfstæði og urðum langsvölust.

Þá hefur fólk verið kallað fífl, bjánar, geðsjúklingar og ég veit ekki hvað á báða bóga fyrir það eitt að mynda sér skoðun á einu umdeildasta máli Íslandssögunnar og kjósa eftir sannfæringu sinni. Ég get ekki sagt að ég sé stoltur Íslendingur eftir þetta. Umræðuhefðin virðist snúast um að gagga sem hæst innantóm slagorð einsog tourettesjúklingur í miðju raðheilablóðfalli. Ég var um daginn spurður hvort ég ætlaði að skuldsetja „börnin okkar“, sem að vísu er skárra en að senda þau í kolanámu einsog annar nei-ari gaf í skyn. Margur á já-hliðinni var litlu skárri. Íslendingar mega eiga það eftir hrunið að þeir eru gagnrýnir og veita stjórnvöldum aðhald, en umræðan einsog hún var orðin fyrir atkvæðagreiðsluna var fyrir margt löngu farin að daðra við fasisma. Og mér sýnist á netinu að ekki sé hún enn búin þar sem já-arar og nei-arar munnhöggvast nú sem aldrei fyrr.

En nú er niðurstaðan komin og við hana verður að una. Við rekum þá málið fyrir dómstólum og sjáum hvað setur. Ég vona bara að Íslendingar hafi þroska til að axla ábyrgð sína þegar þar að kemur og láta af þessum heimskulega fúkyrðaflaumi á báða bóga. Hvorugur helmingur þessarar klofnu þjóðar má segja „told you so“ þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir. Þá skulum við í eitt skipti fyrir öll taka höndum saman, halda kjafti og borga helvítis reikninginn. Ég vona að sem flestir geti verið sammála um það.

Misskilningur Sölva Tryggvasonar

Á náttborðinu mínu um jólin var að finna tvær bækur eftir indverska heimspekinginn Jiddu Khrisnamurti, Fátækt Fólk eftir Tryggva Emilsson, en Lífsleikni Gillz var þar líka.

[…]

Ég skil ekki fólk sem þarf að hefja sig yfir það sem þeim ekki líkar. Ég geri mitt og þú gerir þitt. En mitt er ekki fínna eða merkilegra.

Ég held að Sölvi Tryggvason sé eitthvað að misskilja. Gillzenegger er ekki lágmenning, og ég held að fáum detti í hug að kalla hann lágmenningu. Menn sem upphefja staðalmyndir og ýta undir kvenhatur dagsdaglega eru ekki lágmenning fyrir menningarelítu að meta á vogarskálunum sötrandi freyðivín; maður sem stingur upp á að nauðga femínistum er ekki þrepi lakari á menningarkvarðanum en sá sem stingur upp á ástarleik með kærustunni, einsog einskonar Rómeó fátæka mannsins.

Það er einfaldlega engin menning til að umlykja fábjánaskapinn og mannfyrirlitninguna sem skín gegnum orðræðu Gillzeneggers, burtséð frá því hvort hann eigi að vera paródía eða ekki – paródían virkar einfaldlega ekki vegna þess að hann er alveg jafn ekta og allir aðrir sem hugsa og tjá sig eins, hinir raunverulega hættulegu slordónar mannfélagsins, náungar einsog Jón stóri:

er það að gefa manni smá clue að kærastan sé of ung ef hún tekur nammið út úr sér og geymir á maganum á manni meðan hún gefur manni blowjob??:D

Í stað þess að hugsa krítískt smástund velur Sölvi heldur að hjóla í ímyndaða elítu sem telur sig yfir hann hafna, einsog þetta sé einhver spurning um menningu, og blandar saman raunverulegu umkvörtunarefni sínu – viðtökum bókar hans um Jónínu Benediktsdóttur – við öllu alvarlegra umræðuefni. Mætti sú bók eitthvað lakari viðtökum en slíkar bækur almennt? Ekki varð ég var við það. Og hvað þó þessi blessaða bók hafi ef til vill fengið vonda gagnrýni og selst illa, var það ekki hans val að semja við N1 um að selja hana eingöngu á bensínstöðvum án möguleika á vöruskilum? Sölvi heldur kannski að „menningarelítan“ hampi okkur örmum ljóðskáldum betur, en ef hann heldur það þá er það rangt. Ég veit ekki betur en að bókin hans hafi fengið gríðarlega athygli, svo þessar umkvartanir hans um hámenningarelítu eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Svo ásakar hann alla aðra en sjálfan sig um að snobba fyrir leiðindum.

Nú má Sölvi alveg kvarta einsog hann vill fyrir mér og hafa sínar skoðanir, en það að bera Gillzenegger saman við American Idol og Erp Eyvindarson er einfaldlega alveg úti í móa. Þegar hann setur Gillzenegger upp á stall með afþreyingarefni í sjónvarpi og listamanni á borð við Erp gerir hann sig sekan um að réttlæta eitthvert það alvarlegasta sálarmein sem fyrirfinnst í þjóðfélaginu, og ber það saman við það sem hann sjálfur kallar „léttmeti“. Nei, Sölvi, það sem Gillzenegger stendur fyrir er alls ekkert léttmeti. Þá er nú skömminni skárra að hampa leiðindum en kvenhatri.

Hamfarastjórnun illfyglanna

Það er óviðjafnanlega fyndið að lesa gargið í illfyglum AMX núna. Þar er Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, ritstýra Smugunnar, ásökuð um að þegja þunnu hljóði þegar fréttafólk er rekið vegna óeðlilegra afskipta hagsmunaaðila af fjölmiðlum eða vegna pólitískra skoðana. Ástæðan er sú segja illfyglin að Þóra Kristín hafi þegið styrk frá Alcan vegna rannsóknar á hamfarastjórnun!

Það væri ekki vond hugmynd ef þessir apar færu nú aðeins að hugsa áður en þeir láta hafa svona vitleysu eftir sér. Fyrir það fyrsta er ekki rétt að Þóru Kristínu láti sér það í léttu rúmi liggja þegar fréttafólk er fyrirvaralaust rekið, sbr. pistla hennar Í Undralandi umræðunnar og Óflokkurinn og Ríkisútvarpið.

Í öðru lagi, enda þótt það sé rétt að tiltekin alnafna Þóru Kristínar hafi þegið styrk frá Alcan vegna meistaranáms í hamfarastjórnun, þá er sú Þóra Kristín sem illfyglin gera að umtalsefni í fullu starfi sem blaðakona og ritstýra Smugunnar, sem einsog allir vita sem komið hafa nálægt blaðamennsku er ekki beinlínis neitt sem maður sinnir í hjáverkum – það er að segja allir nema „blaðamenn“ AMX, sem virðast halda að hún sitji sveitt við skrifborðið og lesi um viðbragðsáætlanir á Haítí milli þess sem hún ritstýrir Smugunni, með óeirðaskjöldinn frá Alcan hangandi á veggnum.

Að þeim skuli einu sinni láta detta sér það í hug er svo frámunalega heimskulegt að það jaðrar við að vera krúttlegt. Illfyglunum væri nær að kynna sér hvort boðið sé upp á námskeið í hamfarastjórnun fjölmiðla, svo þau geti hætt að gera sig síendurtekið að fífli. Fyrsta ráðið er grundvallaratriði í fréttamennsku og það fá Friðbjörn Orri og félagar ókeypis: kannið staðreyndirnar áður en þið skúbbið!

Viðtal við Sonic Iceland

Í gærkvöldi hitti ég þýsku menningarblaðamennina Kai Müller og Marcel Krueger frá Sonic Iceland á Hressó þar sem við ræddum um íslenska bókmenntageirann (smellið á hlekkinn til að lesa meira og sjá gullfallega mynd af mér).

Settling in the beer garden, while the rain was lashing down on the canopy above our heads, we had a really interesting conversation with Arngrímur that covered various topics – from Icelandic grassroots poetry over to the impact the Sagas still have on current-day writing and rhyming, to how the independent poets and writers in Iceland perceive the fact that Iceland is guest of honour at the Frankfurt book fair next year.

Hvað íslenskan sagnaarf snertir (við ræddum þjóðsögur líka og almenna þjóðmenningu) þá er kannski rétt að taka fram að ég svaraði spurningunni um hvort ég teldi að þulur og þjóðsögur, Íslendingasögur og Eddukvæði hefðu áhrif á íslenskar nútímabókmenntir að mestu neitandi, að minnsta kosti væri það varla meðvitað nema hjá örfáum sem beinlínis gefa sig eftir því, helst þá Vilborgu Davíðs, og svo í komandi bók Emils Hjörvars og Fenrisúlfi Bjarna Klemenz. Þetta er ekki nógu skýrt í færslunni þeirra.

Viðtalið í heild sinni birtist síðar á vef Sonic Iceland, og þá má geta þess að þeir félagar eru að vonast til að það efni sem þeir safna saman hérna komi út á bók einn daginn.

Rannsóknarskýrslan er fullnægjandi – til síns brúks

Ætli það hafi ekki komið fleirum að óvörum en mér hversu vönduð skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis er. Líklega bjuggust fáir við hversu afgerandi hún í raun er. Störf nefndarinnar eru eiginleg andstæða alls þess sem lýst er í skýrslunni. Stjórnsýslan einkenndist af fábjánahætti og innviðir bankanna voru hriplekir og stoðirnar fúnar – þá undanskil ég ábyrgðarleysi þeirra sem stjórnuðu þeim. Það er heill annar kafli. Hitt sem ég nefni skýrist af myndinni af krosseignatengslum í íslensku viðskiptalífi sem fylgir færslunni (kaldhæðni ekki undanskilin).

En eins góð og skýrslan er miðað við þann ramma sem nefndin starfaði innan þá svarar hún ekki ýmsum spurningum. Nú fellir skýrslan mjög alvarlegan áfellisdóm yfir þrem ráðherrum, jafnmörgum seðlabankastjórum og einu stykki forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Skýrslan fjallar einnig um Einkavæðingarnefnd og aðdraganda og ferli einkavæðingar íslensku bankanna. En í skýrslunni er ekki felldur beinn dómur yfir þeim sem að henni stóðu. Af gjörðunum skulið þér dæma þau frekar en við segjum nokkuð gæti verið mottóið þar, Valgerður Sverrisdóttir ekki undanskilin.

Það eru nefnilega fleiri afglöp í starfi en þeirra sjö sem sérstaklega hafa verið nefndir til sögunnar, en einsog Rannsóknarnefnd Alþingis tiltók sérstaklega var það ekki þeirra hlutverk að grennslast fyrir um einkavæðingarferlið sem slíkt. En það vekur hinsvegar upp spurningar um hver ábyrgð þeirra sem stóðu að henni er og hvort þau verði látin svara til þeirrar ábyrgðar.

Þegar Olíusamráðið komst upp varð allt vitlaust og sá kvittur gekk meðal fólks að nú væri eina ráðið að sýna mótmæli í verki og hætta að kaupa pylsur á Select, af því fólk gat jú ekki hætt að kaupa bensín. Rekstrargrundvöllur olíufélaga er hinsvegar ekki pylsur heldur einmitt bensín og þeim sem bentu á Atlantsolíu sem þá þegar var til var sagt að stöðvarnar þeirra væru of fáar til að það væri hægt. Ekki þarfyrir, átakið náði kannski til svona 200 manns. Ég neita enn að skipta við Olís, þótt ekki skipti það nokkru.

Þegar bankarnir hrundu skiptu þeir ýmsir um nöfn meðan þau gömlu kúrðu í skúffum skilanefnda. Þótt þeir hafi flestir skipt um eigendur nú gildir það einu; þetta eru sömu bankarnir. Það er ekki möguleiki á að skipta um banka af því þeir eru allir álíka spilltir. Einu bankarnir sem ekki féllu í hruninu 2008 sitja nú undir ámæli fyrir ýmis atriði sem ég kann ekki nægileg skil á. Mín viðskipti eru hjá Byr, það ku vera óvinsælt þessa dagana. En hvern fjandann getur maður svosem gert?

Í kjölfar hrunsins urðu sviptingar á sviði stjórnmála, en ekki nándar nærri nógu róttækar. Jú, eini flokkurinn sem hafði ekkert með þetta að sýsla komst í stjórn, en menn óttast ennþá að kommúnismi breiðist þaðan útí þjóðfélagið svo endi með þjóðarmorði, eða það skilst mér á umræðu hægrisinnuðustu hálfvitanna á moggablogginu. Sjálfstæðisflokkurinn mælist aftur stærstur og hefur gert í hálft ár eða meira. Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem fær makleg málagjöld í skoðanakönnunum – hvað svosem er að marka þær – enda svosem ekki að furða með eins lélega málsvara og raun ber vitni.

En núna ætlaði ég ekki beinlínis að fara að hrauna yfir allt og alla. Ég vildi frekar pæla í vörumerkjum og neysluvitund – svo ég beiti fyrir mig hugtökum sem eru víst nógu sjaldgæf hérna á vinstrivængnum (ef það er yfirleitt gjaldgengt hugtak ennþá). Allir þingmenn og ráðherrar flokka sem bera ábyrgð á því hversu komið er segjast munu axla sína ábyrgð, fyrir utan svo auðvitað það að ekkert af þessu sé þeim persónulega að kenna. Flokkarnir beri sína ábyrgð og muni axla hana, en ég, ónei. Það getur ekki þýtt neitt annað en það að þessir flokkar eigi ekkert erindi á þing lengur einsog þeir leggja sig, eða hvað?

Þingmenn og ráðherrar bera ábyrgð, flokkar bera ábyrgð, en nú eru flokkarnir með nýja og hreina forystu og þingmennirnir ekki lengur ráðherrar eða ráðherrarnir fyrrverandi hættir sem seðlabankastjórar eða hvaðeina sem þeim dettur í hug að segja. Málið er í raun miklu einfaldara en þetta; þeim sem dettur í hug að bjóða sig fram fyrir flokk sem „ber ábyrgð sem hann mun axla“ er ekki að breyta eða hreinsa flokkinn af nokkrum sköpuðum hlut. Hann er að byggja á grunni – eða rústum – þess flokks og mun aldrei geta forðast þá grundvallarhugmynd sem hann reisir sína stefnu á. Það gengur enginn í Vítisenglana til að stofna leikskóla og það gengur enginn í Ku Klux Klan til að breyta skilningi þeirra á blökkumönnum innanfrá.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson byggir á 90% húsnæðislánum, Kárahnjúkavirkjun og einkavæðingu bankanna. Hann mun ekki geta forðast þá ábyrgð þótt flokkurinn hans „axli“ hana, enda þegar flokksmenn segja að flokkurinn (ekki þeir) beri ábyrgð, hvern fjandann er flokkurinn þá að bjóða fram? Bjarni Benediktsson byggir á sömu einkavæðingu bankanna, ábyrgðarlausum skattalækkunum á þenslutíma, innrás í Írak og Afganistan – það gerir Sigmundur Davíð raunar líka – og ég bara nenni ekki að telja upp einstök atriði lengur. Þetta er fullkomlega út í hött. Og meðan enginn telur sjálfan sig bera nokkra einustu örðu af ábyrgð hlýtur sú ábyrgð að falla á flokkinn í heild sinni og því sé hann ekki tækur til framboðs fyrir það fyrsta, til núverandi setu á þingi og í sveitastjórnum hvað hitt varðar. Og það er hreint út sagt ótrúlegt að sjá tilburði og kattaklór þessara embættismanna í kjölfar birtingar skýrslunnar einsog þeir ætli sér að taka nokkra einustu ábyrgð á því hvernig komið er. Fyrir utan svo það að ef þeir sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn taka mark á Geir H. Haarde þá hljóta þeir að sjá að Samfylkingin er að minnsta kosti eins saklaus af öllu og hann sjálfur. Allt tal um „Samspillingu“ er hérumbil það heimskasta sem ég hef komist í tæri við að undanförnu.

En hvað segir það okkur þá að svona margir vilja kjósa Sjálfstæðisflokkinn til lands og sveita? Ég held að skýringin sé margslungin:

1. Það er ekkert annað fyrir hægrimenn að kjósa – sem lýsir jafnvel meira ábyrgðarleysi meðal kjósenda en frambjóðenda.

2. Það er komin ný forysta sem axlar ábyrgð – sem er ekki satt sbr. allt ofantalið.

3. Afi minn var sjálfstæðismaður, pabbi minn líka og ég er sjálfstæðismaður – sem er ekki sérlega klókt, í alvöru bara hugsið málin.

Margt fleira mætti svosem telja hér til. En þessi pistill snýst um vörumerki og neysluvitund. Það er ekki hægt að kaupa sér bensín á Íslandi án þess að versla við glæpamenn – nema gegnum Atlantsolíu (enn sem komið er a.m.k.). Það er ekki hægt að fljúga á eða frá Íslandi nema versla við glæpamenn (Pálmi í Fons og Hannes Smára, svo ég skilji Baug sem stofnun aðeins undan). Það er ekki hægt að eiga bankareikning á Íslandi nema vera sjálfur máður af glæpsamlegri forsögu bankanna sem hafa lítið annað gert en skipta um nafn. Það er ekki einu sinni hægt að horfa á Stöð 2 eða lesa Moggann án þess að sverta sjálfan sig ögn í leiðinni. Og fákeppni og hefðarveldi á stjórnmálamarkaðnum hefur orðið þess valdandi að tveir elstu stjórnmálaflokkar landsins virðast ætla að lifa af mesta hneyksli Íslandssögunnar. Það sem ég er að segja er þetta: það er einfaldlega ekki hægt að skipta út fólki í ógeðslegri stofnun (svo ég vitni í Styrmi Gunnarsson) og ætlast til þess að froskurinn breytist í prins. Það er bara fáránlegt. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn bera, bara sem dæmi, ábyrgð á hruni íslenska fjármálakerfisins og hundruðum þúsunda myrtra í Afganistan og Írak. Það getur því varla talist góð hugmynd að bjóða fram undir sama merki í nafni réttlætis og ábyrgðar.

Svo kannski er þetta ekki spurning um neyslu- eða stjórnmálavitund almennings eftir allt saman. Kannski er þetta ekki spurning um fair trade. Á Íslandi hefur aldrei verið neitt fair trade. Annaðhvort er þetta spurning um það hvort fólki sé virkilega sama eða vilji heldur sjá breytingar, eða hitt, hvort kerfið sjálft sé það einsleitt að fólki sé slétt sama hvað það kjósi. Í öllu falli er ástandið alvarlegt þegar svo margir kjósa siðspilltustu öfl landsins enn af fullum krafti, og fyrir mitt leyti mun ég taka kröfum um róttækni og breytingar þeirra hinna sömu með fyrirvara meðan flestir kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Verði þeim að viðleitni sinni, segi ég bara.

Birtist einnig á Kistunni þann 14. apríl 2010.

Enn af ritstjórum

Þessi umræða um Davíð Oddsson jaðrar við geðsýki. Sá sem telur það skipta sköpum fyrir Íslendinga hver ritstýrir hvaða málgagni ofmetur annaðhvort persónutöfra ritstjórans eða áhrifagirni fólksins í landinu, nema hvorttveggja sé. Fólk er ekki nautheimskir sauðir sem hleypur upp til handa sér og fóta af því Davíð segir eitthvað.

Samt er fólk þegar farið að hrópa nöfn einsog Ólafur Thors eða Bjarni Ben eða þvíumlíkt. Það vantar bara hómóerótískar lýsingar Kristjáns Albertssonar á Hannesi Hafstein yfirfærðar á Davíð Oddsson til að fullkomna sirkusinn. En Davíð Oddsson er hvorki Ólafur Thors né Hannes Hafstein. Það er engin reisn yfir því fyrir fyrrum forsætisráðherra og síðar seðlabankastjóra að verða ritstjóri Morgunblaðsins. Öðru nær eru það kaldhæðnisleg örlög að foringinn sem enginn þorði að andmæla sé skyndilega orðinn leiguþý fyrir stuttbuxnadeildina.

Hérna er maður sem rústaði hagkerfið, gerðist sekur um stríðsglæpi fyrir stuðning við tilhæfulaust stríð í fjarlægu landi, seldi Landssímann fyrir minna en tekjur fyrirtækisins á einum ársfjórðungi, seldi bankana þeim sem settu þá á hausinn, andmælti eigin peningamálastefnu undir eins og hann var kominn í Seðlabankann, aðhafðist samt ekkert og hrökklaðist loks úr embætti eftir að hafa brennt allar brýr að baki sér. En sá vegsauki slíkum manni þá að fá að verða ritstjóri Morgunblaðsins, enda þriðja valdamesta embætti landsins ef marka má suma!

Þegar þeir svo reka hann þaðan leikur hann kannski í auglýsingum fyrir Nýja Kaupþing. Slagorðið verður: „I didn’t do it!“ Svo skeyta þeir inn gömlu upptökunum af John Cleese að segja: „Köööööbþíggh,“ og allir sjá að þessi maður hlýtur að vera guð. Þegar það verður orðið gamalt verður hann daglegur gestur Björns Bjarnasonar á ÍNN þar sem þeir geta þusað saman um kaldastríðið, kommúnista og óreiðumenn. En þá verða Íslendingar vonandi farnir að hugsa um eitthvað annað en handónýtan feril Davíðs Oddssonar.

Að öðrum kosti legg ég til að Laddi verði gerður ritstjóri Morgunblaðsins.

Af minningagreinum lífs og liðinna

Ef það kemur í ljós að Geir Haarde hafi gengið um í mislitum sokkum alla sína embættistíð væri það mögulega merkilegra en þessar endalausu fréttir af ritstjóraskiptum á Morgunblaðinu.

Fólk les Morgunblaðið fyrst og fremst vegna minningagreinanna. Það má vissulega deila um lífsmark hvers ritstjóra Morgunblaðsins fyrir sig, en hitt er víst að enginn kaupir Morgunblaðið til að lesa minningagreinar þeirra skrifaðar af þeim sjálfum. Það þarf að minnsta kosti helvíti mikla aumingjadýrkun til að ösla þann forarpytt.

Á meðan bíðum við hin hverrar nýrrar elegíu Tryggva Líndal sem kvörn tímans skilur eftir á síðum blaðanna. Þangað til finnst mér ekki áríðandi að lesa eitt einasta orð um eða eftir hvern þann sjórekna stjórnmálamann sem skolar upp á miðsíðu Morgunblaðsins í það og það sinnið. Þeir fá allavega að hafa sínar skoðanir í friði fyrir mér.

Musteri hæverskunnar

Ég hvet lesendur eindregið til að hlusta á þennan merkilega hlaðvarpsþátt. Mér þykir ég raunar alveg skelfilega illa reprisenteraður, nýt nær engrar athygli þáttastjórnenda meðan Loðmfjörð, Guttesen, Norðdahl og Lilliendahl þiggja meiriháttar hýðingar. Í öllu falli hlýt ég að krefjast þess að fá meiri dagskrártíma síðarmeir.

Að því sögðu vil ég biðja þær tvær manneskjur sem keyptu Endurómun upphafsins á síðasta ári – á sama tíma og ég þakka fyrir tvöþúsundkallinn – vinsamlegast að yfirgefa maka sína, krjúpa frammi fyrir altari hæversku minnar og iðrast kaupa sinna. Bókin seldist svo illa síðasta árið að hún hefur nú verið fjarlægð úr búðum með öllu. Þær neita að höndla hana. Og það er ævarandi ljóður á ráði fólks að hafa keypt slíka bók.

Ég á kannski 70 stykki eftir af henni. Hvort ætti maður þá að semja uppá nýtt um dreifingu á henni – í von um að grunlausar sálir séu enn til sem vilji kaupa hana fullu verði – eða hreinlega gefa pdf-ið á netinu?