Minni kvenna – árshátíð Mímis 2007

Á hverri árshátíð Mímis, félags stúdenta í íslenskum fræðum, eru flutt minni bæði karla og kvenna. Fyrsta veturinn minn í íslenskunni var ég beðinn að flytja minni kvenna. Oft hefur fólk rifjað þetta upp við mig í samræðum og hvatt mig til að birta ræðuna sem fræg sé að endemum, einhverra hluta vegna. Og nú loks við að hreinsa út pósthólfið mitt fann ég minni kvenna af árshátíð Mímis 2007 og er ekki frá því að pistillinn hafi bara elst nokkuð vel. Gjörið svo vel:

Án kvenfólks væri ég ekki til. Þótt ekki væru fleiri ástæður til ber ég þónokkrar taugar til kvenna. Fyrir svo hátíðlegt tilefni sem árshátíð Mímis er fannst mér þó tilfinningarökin hrökkva skammt til, svo ég ákvað að leggja á mig eilitla rannsóknarvinnu. Því stendur til efnda að sýna fram á mikilvægi kvenna með vísindalegum hætti – með tilvísunum og öllu. Í því augamiði verður helst stuðst við rannsóknir fræðimanna af Elmtarydskólanum á sviði þverfaglegra samanburðar-fræða.

Eðlilegt hlýtur að teljast að hefja slíka umfjöllun á Íslandi, og þá ekki síst á þeim íslensku handritum sem einu nafni eru nefndar Íslendingasögur. Margan fróðleik má í þeim finna en eitt stendur þar upp úr sem vakti sérstaka athygli mína: Í Íslendingasögum eru konur reglulega nefndar drengir.

Feminískir norrænufræðingar, svo sem Torben Isaksen, líta svo á að þær konur sem töldust til skörunga hafi einar þótt viðurkenningar feðraveldisins verðar, og því nefndar drengir til að varpa ljósi á karllegt eðli þeirra, til aðgreiningar frá teprunum (Isaksen, 1971). Hins vegar er það eindregin skoðun undirritaðs að ekki einungis sé það helber misskilningur, heldur hafi því beinlínis verið öfugt farið; nefnilega að það hafi verið svo eftirsóknarvert að vera kvenmaður á Íslandi, að karlmenn yfirfærðu hið karllæga yfir á kvenkynið í því augamiði að geta sjálfir að nokkru leyti öðlast kvenleika. Þetta fyrirbæri nefnist afturbeygð yfirsjálfsfærsla og er klassískt minni meðal póstfreudískra bókmenntafræðinga (Süskind, Stockmann og Häuser, 1988).

Þar að auki, með agnarlítilli etymólógískri staðreyndatilfærslu, má færa rök fyrir að orðið ‘drengur’ sé dregið af frumforngelíska nafnorðinu ‘drangloch’, sem merkir stúlka. Að samanlögðu þessu tvennu eru konur ekki menn en drengi gæti eðlilega dreymt um að verða stúlkur.

Á tímum mýkeneumenningarinnar á Krít þótti einnig eftirsóknarvert að vera kona, svo lítið sé sagt. Af freskum konungshallarinnar Knossos má sjá að karlmenn gengu um í pilsum og létu hár sitt vaxa sítt. Mýkenar fundu ennfremur upp vatnssalernið til að gæta fyllsta hreinlætis kringum sig, og hefur kynjafræðingurinn Susan Samstag gert því skóna að hönnun þess beri merki kvenlegs hugvits. Ennfremur hafa rannsóknir hennar bent til að konur hafi í raun drottnað yfir karlmönnum ekki einasta á Krít, heldur um gjörvallt Eyjahafið (Samstag, 1931). Fræðimenn á sviði fagurfræða hafa tekið undir þetta sjónarmið og m.a. bent á að konur eru langtum fallegri en menn, og því sé það alls ekki ólíklegt (Richards og Merryweather, 1958). Auk þess er almennt viðurkennt innan sagn- og stjórnmálafræði, að lýðræðishefðin eigi ekki einungis uppruna sinn að rekja til Grikklands, heldur til niðja forngrísku kvennanna beinlínis (Frederiksen, 1941; d’Montagnan, 1975).

Arfleifð Grikkja og Íslendinga eru þannig að nokkru samtvinnuð. Í Völuspá leitar vitrasti karl allra karla ráða hjá kvenmanni, í Þrymskviðu klæðir Þór sig í kvenmannsföt til að endurheimta sjálfsmynd sína – klassískt dæmi um afturbeygða yfirsjálfsfærslu – og í Snorra-Eddu er það kona sem ræður úrslitum um hvort sjálfur guðinn Baldur fær að lifa. Í grískri goðafræði sést það þó ef til vill gleggst hversu mikilvægar konur eru, á því að guðirnir heillast af konum, en fyrirlíta karla svo mjög að þeir láta erni kroppa úr þeim innyflin. Gáfuðustu, fegurstu og sterkustu grísku guðirnir eru jafnframt konur, og allt frá árdögum hefur karlmenn dreymt um að komast til viðlíka paradísar og kvenríkisins Lesbos.

Að ofanfengnum niðurstöðum dregnum saman má komast að þeirri heildarniðurstöðu að konur séu rót sjálfrar siðmenningarinnar; þær eru alltumlykjandi í mannkynssögunni, þær skapa hugræn og lífeðlisfræðileg skilyrði fyrir jafnt getnaði og þrifnaði karlmanna, og síðast en ekki síst eru konur þekkt trúar- og bókmenntaminni. Af nógu er að taka.

Það er því eindregin niðurstaða mín, í samræmi við samantekt á rannsóknum víðsvegar um heiminn, að konum verði aldrei sýndur nægur sómi, að sér lifandi eða látnum, og legg ég til að viðstaddur karlpeningur lyfti glösum sínum hátt á loft, til heiðurs hinum undurfögru og fullkomnu kvenbetrungum vorum. Skál!

Afbakanir og útúrdúrar

Það fyrsta sem ég fékk að heyra þegar ég vaknaði var að Pressan hefði birt frétt um mig. Það næsta sem ég gerði til að fullkomna stundina var að selja upp umtalsverðu magni af blóði í vaskinn. Líkaminn hefur sjálfsagt séð þetta fyrir og brugðist við með viðeigandi hætti. Fréttin er svo illa skrifuð að hún afbakar (óviljandi?) það sem ég sagði í greininni sem hún er unnin upp úr.

Mér hundleiðist að vera í fjölmiðlum. Nema að sjálfsögðu þegar ég gef út bækur, en þá hafa fjölmiðlar engan áhuga á mér. En þetta er semsé langt því frá í fyrsta sinn sem meintir fjölmiðlar afbaka eitthvað sem ég hef sagt og aldrei bregst það að mér finnst ég vera skítugur eftir á. Ennþá verri er tilfinningin fyrir það að sjá nafnið mitt letrað í Pressunni.

Umræðurnar hafa að ósynju mest snúist um Tómas Guðmundsson. Þrisvar hef ég útskýrt djókið en aftur spyr fólk sömu spurninganna. Ef til vill er það þetta með lesskilning og þrjátíu prósentin.

Enn aðrir hafa viljað kenna efni greinarinnar við danskan húmor, þeirra á meðal náungi sem játar að sín reynsla af lesbíum einskorðist við tölvuskjáinn um borð í togaranum. En auðvitað á það ekkert skylt við húmor þegar samfélagið gefur konum hvarvetna þau skilaboð að þær séu túttur og píkur fremur en manneskjur. Það getur hver sagt sér sjálfur.

Breivik var ekki einn

Einsog svo margir fylgdist ég dofinn með beinni útsendingu norska ríkissjónvarpsins á dögunum, þegar Anders Behring Breivik sprengdi fyrst forsætisráðuneytið í Osló og myrti þvínæst unga jafnaðarmenn í hrönnum á Utøya. Þessi voðaverk hefðu alstaðar verið hræðileg, en urðu því ógnvænlegri sem þau voru okkur nálægri, hefur gjarnan heyrst í kjölfarið. Huggun harmi gegn var hann einn að verki, hefur einnig heyrst.

Þá er kannski best að benda á nokkur atriði.

Breivik er þjóðernissinni, og sem slíkur er hann ekki einstakur. Ég sagði fyrst frá upplifun minni af íslenskum þjóðernissinnum í grein á Múrnum sáluga árið 2006. Inni á Kofa Tómasar frænda sátu þeir í myndarlegum hóp og ræddu Júðana, að Pólverjar væru armasti angi hins hvíta kynstofns, og að Hitler hefði bara alls ekkert verið slæmur maður. Á meðal þeirra sat drengur á að giska fjórtán ára, drakk bjór og reykti sígarettur. Á handlegginn hafði hann tússað hakakross og þóttist vera í góðum félagsskap. Í horninu sat aumingjans maður af asískum uppruna meðan á þessum ósköpum stóð og hlýddi áhyggjufullur á hvert einasta orð. Þetta voru hreinræktaðir nasistar.

Í mótmælum við Austurvöll á síðasta ári mættu nokkrir sjálfsyfirlýstir þjóðernissinnar með nasistafána, sem snögglega voru rifnir af þeim og réttilega brenndir. Í kjölfarið börmuðu þau sér nokkuð á síðum DV yfir að skoðanir þeirra væru réttmætar og því hefði eign þeirra að tilhæfulausu verið eyðilögð. Þau væru sko engir nasistar, þau væru bara þjóðernissinnar sem vildu losna við óæskilega kynstofna úr landinu. Á vefsíðu þeirra, sem ekki kemur til greina að ég tengi á, kemur fram að allir þeir sem ekki styðja málstað þeirra séu föðurlandssvikarar.

Í Svíþjóð komust Svíþjóðardemókratar í fyrsta sinn inn á þing á liðnu hausti. Systurflokkur þeirra er Danski þjóðarflokkurinn, sem fúnkerar nú sem hækja dönsku ríkisstjórnarinnar og stýrir úr oddasætinu í raun öllum þeim málefnum sem á einn eða annan hátt snerta innflytjendur. Báðir flokkar hafa opinberlega lýst því yfir að þeim sé kappsmál að stemma stigu við aðsókn innflytjenda sem ekki eru „norrænir“ útlits. Þannig hljóðar hin opinbera stefna, en í raun réttri gera flokkarnir tveir allt sem í sínu valdi stendur til að beinlínis hrekja innflytjendur burt. Til þess beita þeir ýmsum meðulum. Frægt er orðið þegar, í miðri kosningabaráttu í Svíþjóð, oddviti Svíþjóðardemókratanna í Malmö risti hakakross í enni sér og hélt því fram að múslimar hefðu gert það. Áreiðanlega bar hann krossinn stoltur.

Í Finnlandi komust Sannir Finnar til valda og í Hollandi er Frelsisflokkurinn undir forystu Geerts Wilders sífellt að færa sig lengra upp á skaftið. Sambærilega þróun innan evrópskra stjórnmála má sjá í Þýskalandi, Frakklandi og víðar. Alstaðar vex þjóðernissinnum fiskur um hrygg. Þeirra sáust einnig merki í íslenskri flokkapólitík þegar Frjálslyndi flokkurinn hljóp snögglega undir merki þjóðernisstefnunnar og þurrkaði sig rækilega út á landsvísu í kjölfarið. Ekki þar fyrir að þeir þar hafi ekki notið kjörþokka meðal sumra.

Í Árósum eru nasistar sérstaklega áhrifamiklir hef ég eftir áreiðanlegum heimildum. Tveim ungum stjórnmálamönnum mér kunnugir, sem á vettvangi Einingarlistans hafa opinberlega beint spjótum sínum að nasistum, hefur verið hótað lífláti. Annað þeirra hefur ítrekað orðið fyrir alvarlegum líkamsárásum, misst tennur og hlotið varanleg ör. Ég hef tekið að mér að skrá eftir þeim þessa atburði alla, en sökum ótta við afleiðingarnar hefur reynst erfitt að fá þau til viðtals. Ítarleg saga þeirra bíður betri tíma til birtingar.

Í þessum hafsjó öllum er Anders Breivik engin undantekning nema að því leyti að hann hafði í hyggju að framkvæma það sem aðrir hafa hingað til aðeins hugsað – og sú áætlun var allítarleg einsog Haukur Már Helgason hefur fjallað um og tekið til rækilegrar greiningar. Haukur Már bendir ennfremur á að í einu og öllu aðhyllist Breivik nákvæmlega sömu hugmyndafræði og ofangreindir stjórnmálaflokkar, hefur skoðanir sem enduróma vítt og breitt um bloggsíður og athugasemdakerfi fjölmiðla, ekki síst á Íslandi.

Nálægðin við hryðjuverkin í Noregi verður ennþá meiri þegar þau eru sett í samhengi við þá þróun sem átt hefur sér stað í Evrópu á undanförnum áratug. Að það sé huggun harmi gegn að hann hafi starfað einn get ég á engan hátt tekið undir á meðan völlurinn eykst á heilu samtökum samskonar sálarleysingja vítt og breitt í álfunni. Menn einsog Breivik starfa aldrei einir, ekki hugmyndafræðilega, og það er í hugmyndafræðinni sem rót ofbeldisins liggur – ekki í sálarkirnu einstaks brjálæðings.

Birtist fyrst á Smugunni.

Greiningardeildin hefur svarað

Sá mæti maður Kristinn Theódórsson tilkynnti á vefsíðu sinni í gærkvöld að hann myndi í dag svara grein minni En hún var svo djarflega klædd! sem ég skrifaði umbeðinn fyrir Druslugönguna, og þótti heiður að. Raunar líkti hann skrifum mínum, eftir því sem ég kemst næst, við tölvuleikinn um Mariobræður (af gullpeningalíkingu Kristins helgast fyrirsögnin hér). Ekki stóð á efndum og gagnrýnin birtist fyrir skömmu. Ég að sjálfsögðu fagna þeirri umræðu.

Nú þekki ég Kristin ekki nema af afspurn, og af póstlista félagsskapar sem við báðir eitt sinn tilheyrðum. Af honum hef ég ekkert nema gott eitt spurt og vefsíða hans hefur mér gegnum tíðina þótt staðfesta allt það sem ég hef heyrt og séð, að hér sé á ferðinni rökfastur og málefnalegur maður með gríðarlega þolinmæði til samræðna, sama hversu galin viðhorf viðmælendur hans kunna að hafa. Upp á síðkastið hefur Kristinn fjallað talsvert um það sem honum finnst vera „öfgafemínismi“, og skotið víða í gagnrýni sinni. Ég hef verið ósammála Kristni í flestum atriðum þeirrar umræðu.

Raunar hafa mér þótt allir deiluaðilar bera skarðan hlut frá borði, kannski ekki síst vegna þess að enginn virðist tala sama tungumálið þegar kemur að femínisma, og eilíft er höggvið í sama knérunn. Engin samræða á sér stað. Gagnrýni Kristins á mín skrif virðist mér vera sama marki brennd að því leyti að ég tel hana vera á misskilningi byggð. Kristinn verður þó fráleitt ásakaður um að forðast samræðu, þar sem hann sjálfur efnir til hennar nú, en slík samræða sem hér er efnt til þrífst þá og því aðeins að vilji beggja til að eiga í henni sé til staðar; slík samræða þarf umfram allt að vera málefnaleg og heiðarleg. Ég geri ráð fyrir að Kristinn sé mér sammála og því getum við rætt þetta án upphrópana.

Kristni þykir kynjaumræðan á Íslandi lituð karlfyrirlitningu, og gerir sér lítið fyrir og greinir nokkra þræði hennar sem honum finnst hann sjá í skrifum mínum. Hann vill karlfyrirlitninguna upp á borðið, að minnsta kosti að hún sé meðvitað tekin með í reikninginn eigi umræðan að byggja á karlfyrirlitningu, svo hægt sé að ræða kosti hennar og galla. Ekki skil ég sjálfur hvaða kostir gætu mögulega fólgist í karlfyrirlitningu, enda hafna ég henni jafn einarðlega og kvenfyrirlitningu hvað svo sem menn annars vilja lesa milli línanna. Haukur Már Helgason, heimspekingur og rithöfundur, benti á það á Facebook – því miður ekki á bloggsíðu sinni – að Gillzenegger á forsíðu símaskrárinnar væri jafnvel meiri móðgun við karlkynið. Orðrétt sagði Haukur Már:

Ætli geti verið að forsíðuefni símaskrárinnar sé fyrst og fremst niðrandi fyrir karlmenn, á þann máta sem konur mega venjast að auglýsingamyndir séu? Það sem raunverulega komi við kauninn á Dofra, Hjálmari, öllum femínísku körlunum – og já, líka mér – sé kannski ekki kvenfyrirlitningin ein heldur þessi mynd af karlmanninum: karlmaðurinn sem yfirborðskennt, sjálfsupptekið flón. Og jafnvel fyrst og fremst: karlmaðurinn sem líkami. Karlmaðurinn sem próletarían líkami. Hlutur. Dildó allra landsmanna.

Þetta er hárrétt hjá Hauki; auðvitað gengur þetta á báða bóga. En ekki hef ég orðið var við að umræðan neiti að horfast í augu við karlfyrirlitningu í samfélaginu, neiti að viðurkenna hana, því hún er sannarlega til staðar og engan þekki ég sem ekki getur fúslega viðurkennt það að það er alveg jafn slæmt þegar karlar eru hlutgerðir, sem óhjákvæmilega felur í sér karlfyrirlitningu, einsog þegar það hendir konur.

Hér er þó líklega um áherslumun að ræða fremur en vöntun á að líta í eigin barm. Jú, karlar eru líka fórnarlömb fyrirlitlegra staðalmynda, en konur eru það í svo miklu meiri mæli að dæmin verða illsambærileg. Femínisma hefur stundum verið legið á hálsi að vera hugmyndafræði kvenna, að femínistar berjist fyrir auknum réttindum á kostnað karlmanna, einskonar kvenræði. Það er ekki rétt. Femínismi hinsvegar einblínir á konur sem félagslegt og menningarlegt viðfang í samfélagi sem stjórnað er að stórum hluta af körlum. Enda þótt femínismi opinberlega snúist um jafnan rétt beggja kynja, þá er í því ljósi ekkert óeðlilegt við það þótt femínistar starfi á forsendum kvenna.

Mér þykir undarleg ef snúa á upp á mig og aðra karlkyns femínista sem ég þekki að við séum haldnir karlfyrirlitningu, meðvitað eða ómeðvitað, fyrir það eitt að taka slaginn á forsendum kvenna. Ég fullyrði að við gerum okkur öll fyllilega grein fyrir að þessu er einnig öfugt farið, og þá er heillavænlegra að benda á óréttlæti hvar sem það fyrirfinnst fremur en að benda á brotalöm á einum stað að því er virðist til þess eins að gagnrýna annað – og kalla það svo karlfyrirlitningu eða, einsog ég sá einhversstaðar, „sjálfmiðaða rörasýn“, jafnvel fasisma. Femínísk barátta á Íslandi hefur skilað mörgum réttarbótum til karla einnig, til að mynda rétti til feðraorlofs, og jafnréttislög tryggja körlum jafnmikinn rétt á vinnumarkaði og konum. Gjarnan er horft framhjá þessu, og sú barátta er hvergi nærri búin.

Með enn öðrum orðum eru karlmenn ekki að „leggjast í útgerð við að ala á reiði og tortryggni í garð eigin kyns“ og það er svo fremi ég fæ séð ekki „algeng aukaverkun af því að gerast femínisti“ að gera slíkt. Kristinn segir einnig:

Nú á dögum er bæði dálítið “inn” fyrir karlmenn að hatast út í femínisma og að vera yfirlýstir femínistar. Mér sýnist Arngrímur hafa kosið síðari kostinn og við það er vitaskuld ekkert að athuga.

Mér finnst Kristinn hér nánast líkja fólki við krakka sem velja sér fótboltalið í ensku deildinni, svona af því bara, einsog börn gera – eða meting um hljómsveitir, ég barasta trúi ekki að þér þyki Wham vera betri sveit en Duran Duran. Þessu er auðvitað ekki svona farið, hvort sem það er móðins ýmist að hata femínista eða vera yfirlýstur femínisti. Ég kaus mér ekki síðari kostinn (þeir eru auk þess fleiri) – mér var einboðið útfrá eigin sannfæringu að fylgja henni. Ég tek það ekki nærri mér þótt mér sé óbeint líkt við kynjafræðinemann Högna sem skráði sig til þess eins í háskóla að ríða sem flestum stelpum, en mér þykir leitt þegar menn sjá ekki handan slíkra einfaldana á flóknum, hápólitískum kringumstæðum.

Ef einhverjir sannarlega kjósa sér þann kost að gerast femínistar í slíku skyni, jafnvel bara til að vera móðins, þá eru þeir allteins fyrirlitlegir og það sem þeir með ímyndaðri afstöðu sinni berjast gegn. Enginn velur sér að gerast femínisti – það gerir réttlætiskennd og sannfæring, vilji til að taka þátt og berjast fyrir því sem maður telur gott og rétt. Ég viðurkenni strax að ég les hér alltof mikið í orð Kristins, enda veit ég að hann átti alls ekki við neitt í þessa líkingu, en þetta liggur engu að síður falið milli línanna – það liggur í orðanna hljóðan, að það liggi mögulega eitthvað meira að baki „ákvörðun“ karla um að gerast femínistar. Að það sé móðins. Ef einhverjum virðist femínismi vera orðinn móðins (það virðist mér ekki) þá kannski þýðir það að við séum að ná árangri.

Fyrst ætla ég þó að taka fram að ég kann vel að meta og styð baráttuna fyrir jafnræði kynjanna. Femínistar hafa gert frábæra hluti og eru að gera frábæra hluti. Þeir hafa lyft grettistaki við að opna augu heimsins fyrir rótgrónu feðraveldi sem litar afstöðu samfélagsins til flestra ef ekki allra félagslegra hluta og gríðarlega margt hefur áunnist. Hreyfingin hefur sannarlega breytt heiminum til hins betra. Hún hefur hinsvegar líka breytt heiminum til hins verra í augum einhverra og ég þekki t.d. sjálfur konur sem sjá dálítið á eftir valinu um að vera húsmóðir og eyða meiri tíma með börnunum en nútímasamfélagið leyfir. Allir hlutir hafa kosti og galla. Líklega eru þó flestir sammála um að kostirnir við kvenréttindabaráttuna vegi mun þyngra en ókostirnir.

Hér erum við Kristinn alveg hjartanlega sammála, að því undanskildu að ég skil ekki alveg klausuna um konur sem sjá eftir því vali að vera heimavinnandi húsmæður. Ekki vissi ég að nútímasamfélagið fordæmdi þær konur, en það kann svosem vel að vera að ég hafi ekki orðið var við það. Á hinn bóginn er það einmitt frábært að makar geti í samráði hvort við annað tekið um þessi mál meðvitaða ákvörðun. Því var ekki að heilsa fyrir örfáum áratugum og sýnir það best hversu langt við höfum komist af litlum efnum og endalausum mótbyr.

Kristni gremjast viðbrögð sumra femínista sem hann hefur, einsog áður var nefnt, átt gagnrýnin samskipti við á netinu. Ekki get ég svarað fyrir þá femínista nema að því leyti sem ég hef fylgst – lítillega vel að merkja – með téðum samskiptum, og einsog áður sagði hefur mér virst sem Kristinn og Hildur vinkona mín Lilliendahl, svo dæmi sé nefnt, tali hreinlega ekki sama tungumál þegar að þessum málum kemur. Ekki nenni ég að rifja upp hvert umræðuefnið nákvæmlega var til að aðgæta hvort ég muni þetta rétt, en forsendur beggja til samræðnanna voru svo ólíkar að mér fannst ég sjá strax í upphafi að þær yrðu dæmdar til að enda á aðeins einn veg. Það held ég fremur að sé rót vandans en að femínistar (hvað þá upp til hópa, einsog mér virðist gefið í skyn) fyllist heilagri vandlætingu um leið og á þá er hallað. En einsog segir get ég ekki talað máli allra femínista hér, eða Hildar hvað það varðar, né heldur ætti ég að gera það. Ég get aðeins svarað fyrir sjálfan mig.

Til þess að um það megi deila þarf að vera hægt að ræða málin segir Kristinn, og til þess er ég einboðinn.

Jafnrétti milli kynjanna er augljóslega gríðarlega margbrotið og flókið fyrirbrigði. Kynin eru líkamlega ólík og margt bendir til þess að þau séu einnig með töluvert ólíka hugsun. Það verður því aldrei þannig að allir karlmenn og allar konur séu sammála um að janfrétti sé náð – leyfi ég mér að fullyrða. Til þess er heimurinn of flókinn. Og það að deilur standi um það hvort orsakasamhengi sé milli kynjabundins ofbeldis og þess hvernig konur klæða sig er varla atriði sem vegur mjög þungt á vogaskálunum. Það sem hinsvegar þykir vega þungt er sú hugmynd að orsakasamhengið sé ekkert og að þær áhyggjur séu dulin tilraun til að stýra konum og kenna þeim sjálfum um ofbeldi gegn sér.

Hér tel ég að Kristinn misskilji mig. Ég segi að viðtekinn skilningur margra sé að jafnrétti hafi þegar verið náð. Ég segi ekki að svo sé eða að um það ríki almenn sátt meðal fólks. Kristinn klykkir svo út með því að gefa í skyn að það hljóti nú samt að vera orsakasamhengi milli klæðaburðar kvenna og nauðgana, þótt ég haldi öðru fram. Ég hinsvegar held ekki öðru fram: „… samt þurfa konur sérstaklega að mótmæla því að orsakasamhengi sé milli kynbundins ofbeldis og þess hvernig þær klæða sig,“ segi ég – í viðtengingarhætti. Það er klárt orsakasamhengi sem skýrist af rótgróinni kvenfyrirlitningu í samfélaginu. En það er ekki eðlilegt að svo sé, það er ekki eðlilegt að konur þurfi að gefa því gaum hvort þær séu nokkuð berskjaldaðar gegn nauðgunum klæddar svona eða hinsegin.

Það er samfélagslegt vandamál að það sé orsakasamhengi, og það er samfélagslegt vandamál þegar fjölmiðlar og lögregla lýsa yfir – einsog gerðist í tilviki þriggja erlendra, einsog sérstaklega var tekið fram að ástæðulausu, manna sem nauðguðu konu í Hafnarstræti fyrir 2-3 árum. Þá kom það fram að hún hefði verið þannig klædd. Það er ekki eðlilegt. Það er það sem ég gagnrýni, sú botnlausa, rótgróna kvenfyrirlitning sem finnst í því samfélagi þar sem sérstaklega þarf að vara konur við því að klæða sig ekki á „ögrandi“ hátt.

Ef það er raunverulega fylgni þarna á milli sem ekki mótast af feðraveldinu, en ekki bara fyrirlitleg átylla til að afsaka „meinta“ kynferðisbrotamenn, sem ætíð eru meintir þegar aðrir eru það ekki, og brýna fyrir ungum stúlkum að klæða sig heldur á hinn veginn en þennan, þá afskar það samt ekki nokkurn skapaðan hlut einsog Kristinn segir sjálfur. En burtséð frá mögulegri fylgni af þeirri sort þá eru nauðganir flestar ofbeldisverk framin án kynferðislegrar átyllu einsog þeirrar að kona hafi verið í svo flegnum kjól. Fórnarlömb kynferðisbrota geta af sér kynferðisbrotamenn, og þar er áreiðanleg fylgni. Þetta er ofbeldishneigð getin af áunninni og/eða meðfæddri geðröskun sem hefur lítið með kynferðislega fullnægju að gera. Í því ljósi hafa eftirfarandi rök lítil áhrif á afstöðu mína:

Spurningin er hvort afstaða kvenna myndi eitthvað breytast ef tölfræði sýndi það, að í næturlífinu sé umrædd fylgni raunveruleg. Mér hefur sýnst að gögnin bendi beinlínis til þess að svo sé þegar mengið er afmarkað við ungar konur á djamminu*, og brjóstvit mitt segir mér að hálfnakin örend kona muni vekja meiri athygli fullra dólga en kona sem er öðruvísi klædd.

Kristinn segir að varúðarorð og tilmæli af þessu tagi séu ekki kúgun. Ekki minnist ég þess að hafa haldið því fram þótt það fari nú raunar eftir forsendum hvort ég geti talist sammála honum. Þetta hefur bara ekkert með það að gera svo fremi ég fæ séð. Konur eiga ekki að þurfa að óttast það að ganga úti á götu, burtséð frá því hvernig þær kjósa að klæða sig. Um það snýst nú heila málið, og það lýsir einvörðungu gamaldags viðhorfum að mínu mati, einsog þeim nauðgunarkúltúr sem viðgekkst í Vestmannaeyjum fyrir þó ekki nema 20-30 árum og ég geri að umtalsefni í grein minni, að meiraðsegja lögreglan tíni sér til einhverjar utanaðkomandi forsendur kynferðisofbeldis einsog það færi ábyrgðina að einhverju leyti, hve litlu sem það er, yfir á brotaþola.

Á alveg sama hátt er sá ekki ábyrgur á neinn hátt fyrir eigin morði sem hættir sér út úr húsi eftir miðnætti. Slík umræða finnst mér algjörlega ótæk, og ég játa það hér og nú að ég á afskaplega bágt með að skilja það sjónarmið að sú umræða sé á nokkurn hátt relevant. Til þess er baráttan meðal annars að svona rök heyrist ekki framar. Til þess er baráttan að deyða kvenfyrirlitningu í samfélaginu hvort sem hún er undirliggjandi eða á yfirborðinu.

Arngrímur einfaldar málin glæpsamlega og gefur sér allt of mikið af vinsælum forsendum femínista (rétthugsun?)

Arngrímur lætur eins og það sé viðhorf margra karlmanna að konur “kalli eftir því sjálfar að þeim sé nauðgað” og það sé það sem þeir seru að segja þegar þeir minnast á klæðnað fyrir eða eftir að eitthvað slíkt á sér stað. Hér er verið að leika sér að blæbrigðum orðanna til að mála mun ljótari mynd af afstöðu karla en þörf er á (einkenni karlfyrirlitningar?)

Hérna tapa ég þræðinum aðeins. Stuttir pistlar kalla á einföldun. Ef ég ætti að skýra málin nægilega vandlega til að skilja ekki eftir eina einustu snurðu þyrfti ég að skrifa ansi veglega bók, og samt yrðu margir til að gagnrýna mig. Hvort einfaldanir mínar eru glæpsamlegar er ég varla dómbær á, en til þess voru þær gerðar að smætta flókna umræðu niður í stuttan pistil sem tæki á helstu selvfølgelighedunum einsog ég sé þau:

1. Það er sjúkt að taka þurfi þessa umræðu á 21. öldinni. Nauðganir eru samfélagsmein sem allir ættu að vera viljugir til að berjast gegn.

2. Samt eru ótrúlega margir sem setja ofan í við okkur sem finnst umræðan bera blak af körlum á kostnað kvenna, sér í lagi þegar hún einkennist – einsog Kristinn áreiðanlega hefur tekið eftir – af djúpstæðu hatri á okkur sem látum okkur málið varða. Um daginn var ég kallaður öfgakenndur, fasískur hálfviti sem vildi þagga niður umræðu fyrir að finnast óeðlilegt að fólk gerði grín að nauðgunum og tjá þá skoðun.

3. Konur og þeir sem þær styðja fylkja senn liði í göngu til að krefjast réttar síns til að vera ekki nauðgað. Það er málefni sem ég styð og því greip ég til einfaldana til að skrifa læsilegan pistil.

Kristinn spyr hvort fyrsta atriðið sem hann nefnir skýrist kannski af „feminískri rétthugsun“ – hvað svosem það er. Ég spyr á móti hvar megi finna rétthugsun innan þessa málefnis, og hvað sé þá ranghugsun. Ég kem nánar að því hér á eftir.

Hvað varðar seinna atriðið þá er engu logið upp á karlmenn þegar ég segi að margir þeirra séu haldnir undarlegum órum um kvenfólk, og að það viðhorf sé til að klæðaburður kvenna kalli á nauðgun. Það viðurkennir Kristinn meiraðsegja sjálfur fyrr í gagnrýni sinni. Aldrei sagði ég að það væri stór hluti, en það eru sannarlega margir. Ég tók dæmi af Baldri Hermannssyni framhaldsskólakennara, sem opinberlega sagði að stelpur væru að „biðja um að vera nauðgað“, Þjóðhátíð í Eyjum á árum áður þar sem það var þjóðarsport að nauðga sem flestum dauðadrukknum stúlkum og svo Gillzenegger og viðhlæjendum hans. Kristinn spyr sig hvort þetta séu einkenni karlfyrirlitningar. Ég tel mig hafa svarað því hér að ofan.

Kristinn ásakar mig um einföldun en gerist sjálfur sekur um að ofureinfalda afskaplega flókið og alvarlegt mein í samfélagsvitundinni. Auðvitað er greinin einföldun. Það liggur jú í hlutarins eðli. Rétt einsog þetta ívið lengra svar er einföldun á langtum stærri umræðu. Þegar Gillzenegger grínast með nauðganir (sem Kristinn andmælir), þá eru ótal manns úti í þjóðfélagi sem raunverulega hugsar þannig og svo aðrir sem eru svo truflaðir á geði að þeir gera ekki greinarmun á réttu og röngu. Gillzenegger, hvort sem hann sjálfur er haldinn kvenfyrirlitningu eða ekki, ýtti undir hana með skrifum sínum, og opinberlega hvatti til þess að Sóleyju Tómasdóttur yrði nauðgað. Það var ekki hluti af þeim bloggfærslum sem Drífa Snædal endurbirti á dögunum, enda eyddi Gillzenegger henni undir eins og málið barst til fjölmiðla. Ekki ætla ég að hafa fyrir því að reyna að leita uppi afrit af umræddri færslu, en hún var viðurstyggileg, og hérumbil orðrétt sagði Gillz að það væri réttast að nauðga Sóleyju duglega. Hann notaði orðið nauðga, svo sannarlega. Kristni finnst þau skrif sem Drífa endurbirti ekki gefa neitt svipað í skyn, en það finnst mér á hinn bóginn, með tilliti til fyrri skrifa hans um Sóleyju Tómasdóttur.

Það er einfaldlega magnað að svona vel skrifandi og hugsandi maður skuli leyfa sér að skrifa þessi undarlegu orð. “Að vilja ekki verið nauðgað..”. Til hvers að láta eins og það sé afstaða nokkurs manns að það í sjálfu sér að vilja ekki vera nauðgað sé einhverskonar rétthugsun? Rétthugsunin er fólgin í því að éta ályktanir um gang þessara mála alfarið og eingöngu upp eftir femínistum og dæma allar aðrar vangaveltur sem tilraunir til að draga úr baráttu kvenna við kynjabundið ofbeldi. Málið er einmitt að hugsanlega er hægt að gera ýmislegt annað til að draga úr slíku ofbeldi en að dásama orðræðu sem mörgum karlmönnum þykir lítillækkandi og ósanngjörn og hreinlega betur til þess fallin að skapa andúð á hreyfingunni en að styrkja hana.

Rétthugsun er útvatnað og gagnslaust hugtak þegar allt sem fellur manni ekki í geð má stimpla sem rétthugsun. Ekki tel ég mig sekan um að éta allt upp eingöngu eftir femínistum, hvað þá heldur að ég vilji dæma hugmyndir sem koma annarsstaðar frá úr leik. Mér þykir Kristinn gefa sér helst til mikið um mitt lundarfar hérna. Ekki sé ég á pistli mínum heldur að ég dásami orðræðu sem er karlmönnum lítillækkandi – þvert á móti hrauna ég yfir þá orðræðu sem er karlmönnum til mestrar minnkunar, nefnilega þeirrar sem Baldur og Egill stóðu fyrir. Gengisfelli ég karlmenn almennt einhversstaðar í pistlinum, eða ræðst ég gegn þeim á einhvern hátt? ekki þykir mér það. Pistlinum var öðru nær ætlað að vera hugvekja um raunveruleg viðhorf sem finnast á meðal karlmanna í íslensku samfélagi. Ef karlmönnum finnst óþægilegt eða lítillækkandi að kynbræður þeirra geti hugsað á þann máta er þeim sjálfum í lófa lagið að berjast gegn því. Ekki að þessi viðhorf einskorðist við Ísland nema síður sé. Mér var bent á eftirfarandi tilvitnun sem finna má á Common Sense Atheism:

My concern for level of pain of rape would be greater if it weren’t for the fact that most American women deserve to raped because they oppose prostitution as a sexual outlet for men. Since they deserve to raped, I cannot concern myself with the pain rape causes them.

Hversu margir á Íslandi ætli hugsi svona? Áreiðanlega fleiri en við Kristinn þorum að ímynda okkur.

Femínistar eru mjög gjarnir á að vísa öðrum tegundum hugsunar en þeirra eigin frá. Til þess hafa orðið til hugtök eins og að hrútskýra (e. mansplaining) og eru menn síðan gjarnan sakaðir um að vera vond fyrirmynd fyrir dætur sínar ef þeir leyfa sér að impra á öðrum sjónarmiðum en þeim sem hreyfingin er búin að leggja blessun sína yfir […] Staðan er hinsvegar mun síður þannig í dag, og er þetta í annað sinn sem ég bendi á þá kenningu mína að ofstækisfullur femínismi sé ekki eins auðvarinn og hann hefur verið fyrir nokkrum áratugum. Forsendur hafa breyst. Það má deila um hversu mikið þær hafa breyst, en það er einmitt umræða fyrir bæði kynin til að taka þátt í, en ekki kvenna einna að skera úr um, á hvern þann hátt sem þeim þykir henta – eða það hefði ég a.m.k. haldið að væri fremur jafnréttissinnuð afstaða.

Hvaða femínistar eru mjög gjarnir á að vísa öðrum hugmyndum en þeirra eigin frá? Ekki þekki ég þá femínista. Mér þykir alhæfingin leiðinleg og tilgangslaus. Hver ásakar menn um að vera vondar fyrirmyndir ef þeir impra á öðrum sjónarhornum en þeim sem „hreyfingin“ hefur lagt „blessun sína yfir“? Kristinn virðist halda að femínismi sé ein hreyfing, en hún er hundraðfalt klofin rétt einsog aðrar pólitískar hreyfingar. Þetta er einsog að segja að hægri sé svona og vinstri hinsegin. Slík skoðun heldur ekki vatni.

Að sjálfsögðu er það jafnréttissinnuð afstaða að bæði kynin taki þátt í umræðunni, en ég á bágt með að skilja hvað það er sem Kristni þykir vera ofstækisfullur femínismi. Hugtökin eru hreinar andstæður. En gefum okkur að til sé ofstækisfullur femínismi, þá þýddi það væntanlega að femínistar væru ekki að berjast fyrir jafnrétti lengur, heldur kvenréttindum. Ég veit ekki um neina slíka femínista á Íslandi, hvað þá annarsstaðar, og Femínistafélag Íslands legði ekki blessun sína yfir slíka hugmyndafræði – ef það er sú hreyfing sem Kristinn á við. Ég er reiðubúinn að hlusta á hvað Kristinn á við með þessu ef hann er reiðubúinn til að skýra það fyrir mér í lengra máli. Annars er hætt við að við skiljum ekki hvor annan.

En að segja Gillzenegger hafa verið að tala um að nauðga þurfii femínistum er gott dæmi um óheflaða túlkunaráráttu. Ef Gillzenegger hefði verið að tala um að “senda” tvær til þrjár konur á einhvern karlmann sem hann teldi þurfa á vænum skammti af kynlífi að halda, væri hann þá að tala um nauðgun? Nei, hann væri bara af heimskulegu kæruleysi að tala um að konurnar ættu mök við karlmanninn, án þess að gefið sé að ofbeldi komi þar nokkuð við sögu. En vegna þess að Gillzenegger talaði um að senda karla á konu, hafa margir tekið sér það skáldaleyfi að ætla honum að vera að tala um naugðun, og í grein Arngríms er þess ekki einu sinni gætt að tala um að Egill hafi etv. gefið í skyn að þessum konum eigi að nauðga, heldur er það einfaldlega fullyrt.

Ég var búinn að svara þessu áður en ákvað að leyfa tilvitnunni að fljóta með af einni ástæðu: Egill gaf svo sannarlega í skyn að það ætti að nauðga vissum nafngreindum femínistum. Ef þessu hefði verið öfugt farið, hefði mér þótt það eins ógeðfellt, ef senda ætti nokkrar konur til að losa brundið úr vatnsmelónustærðarpungnum á einhverjum aumingjans aktívista sem þyrfti bara duglega að fá á broddinn? Guð minn góður, já!

En hér verður þó að gæta þess einnig sem ég sagði um femínisma hér að framan, að hann er hugmyndafræði útfrá sjónarhóli konunnar sem viðfangs feðraveldisins. Og enda þótt konur nauðgi líka, þá getur Kristinn séð í hendi sér hvernig hlutföllin þarna á milli standa. Þótt nauðganir séu alltaf jafn alvarlegar, þá hallar gríðarlega á konur þegar kemur að kynbundnu ofbeldi, og því er ekki skrýtið þótt allt verði vitlaust þegar stungið er upp á því að nauðga konum einsog það sé einhver brandari. Dæmi um hið gagnstæða, til að gæta sanngirni, er til dæmis nýleg frétt sem Pressan birti um konu sem stöðvaði ræningja og hélt honum föngnum sem kynlífsþræl í 3-4 daga. Framsetningin var allt önnur en um nauðgun hefði verið að ræða, og það er alveg eins viðbjóðslegur og fyrirlitlegur fréttaflutningur í mínum augum einsog þegar gert er lítið úr nauðgun kvenna.

Svona túlkunargleði á orðum femínista myndu þeir sjálfir kalla rembu og fyrirlitningu, því fólki eru gerðar upp verri skoðanir en það hefur. Samfélagið er hinsvegar svo upptekið af því þessa dagana að fordæma hverskyns kvenfyrirlitningu, að sanngirni til handa karlmönnum er ekki orfarlega á baugi …

Þetta er einfaldlega rangt. Samfélagið er alls ekkert upptekið af því að fordæma kvenfyrirlitningu, ekki frekar en það er upptekið af því að fordæma karlfyrirlitningu. Ef eitthvað er þá erum við sem fordæmum kvenfyrirlitningu í rituðu máli ýmist rökkuð niður eða vænd um að líta framhjá karlfyrirlitningu, og fyrir hvert eitt okkar eru svona sjö aðrir á móti. Svo skal böl bæta að benda á annað eða hvað. Ástandið er alveg jafn óþolandi á báða bóga og það ætti Kristinn sjálfur að geta séð.

Takið eftir því að Arngrímur er nýbúinn að lesa mjög sterkt í orð Egils, ætla honum að mæla með nauðgunum, og nú fullyrðir hann að þessi viðhorf séu “raunveruleg”. Hvaða viðhorf?

Þessir menn sem Arngrímur fjallar um eru sannarlega að leyfa sér algjörlega óbeislaðan ruddaskap. Það er hinsvegar augljóslega um ruddalegan gálgahúmor að ræða og það segja þeir sjálfir þegar þeir eru spurðir út í þetta. Það afsakar hegðun þeirra vitaskuld ekki fyrir fimm aura, en þegar talað er um að þetta séu raunveruleg viðhorf, og lesið er nokkrum númerum harkalegar í orðin heldur en ljóst er að eigi að gera, er ekki lengur ljóst hver þau raunverulegu viðhorf eru. Augljóslega er þó a.m.k. um það viðhorf að ræða að það sé í lagi að tala mjög ruddalega um konur, en það er eina viðhorfið sem Arngrímur getur gefið sér að sé raunverulegt og það er alveg nógu slæmt, án þess að kryddað sé hressilega.

Ef Kristni nægja ekki dæmin mín um kvenfyrirlitningu og ógeðfelld viðhorf til nauðgana þá veit ég ekki hvað ég á að gera meira, nema einhver sé reiðubúinn að borga mér laun fyrir að vera í fullri vinnu við að safna ummælum sem staðfesta allt það sem ég hef sagt hingað til. Efast Kristinn um að til séu menn sem finnast nauðganir eðlilegasti hlutur í heimi? Þá má nefna títtnefnt moggablogg mannsins sem talaði um að af væri sem áður var þegar menn gátu riðið öllu dauðu á Heimaey á þjóðhátíð. Þá má aftur nefna Baldur Hermannsson. Þarf Kristinn frekari vitnanna við, í alvöru? Hvað um þá statistík að fjórðu hverri konu er nauðgað á lífsleiðinni?

Athugasemdum Kristins um fyrrum ríkissaksóknara hef ég þegar svarað hér að ofan að flestu leyti. Ummæli mínu voru ekki að svo miklu leyti hugsuð sem svo að Valtý þætti réttlætanlegt að nauðga konum, heldur að honum þætti eðlilegt að samfélagið væri þannig gert að konur mættu ekki klæða sig hvernig svo sem þeim sýndist án þess að vera nauðgað. Það er grafalvarlegt að helsti talsmaður ákæruvaldsins tjái sig með þeim hætti, og það stend ég við.

Og nú geta konur s.s. glaðst yfir því að afar vel skrifandi karlmaður hafi tekið sig til og samþykkt þá túlkun af miklum myndarskap – það hjálpar kannski dálítið við að bægja frá öllum efasemdum um að ríkissaksóknarinn fyrrverandi hafi virkilega verið svo lágkúrulegur í hugsun.

Þetta þykir mér óvanalega ómálefnaleg athugasemd hjá Kristni. Hann getur sjálfur dæmt um það eftir lestur þessa svars míns hvort ég sé sú týpa sem hann lýsir þarna, femínisti by fashion, hylli allra popúlískra kvenna. Ég læt þessu ósvarað.

Arngrímur er búinn að eyða öllu púðrinu í að fjalla losaralega um ruddaleg viðbrögð nokkurra bjána við dálítið ofstækisfullum ummælum fáeinna femíniskra stjórnmálamanna

Hvaða ofstækisfullu ummæli voru það ef mér leyfist að spyrja?

og í að gera fyrrum ríkissaksóknara upp hugsun sem ég get lofað ykkur að hefur aldrei hvarlað að honum. Í

Fyrrum ríkissaksóknari er einfaldlega bjáni ef það hvarflaði ekki að honum að þessi ummæli hans væru ámælisverð. Svo tilgreinir Kristinn einhver komment af Wikipediu sem ég var líka búinn að svara hér að ofan.

Arngrímur er einfadlega í grein sinni búinn að gera skrípamynd úr afstöðu þeirra sem telja umræðu um risk management ekki færa ábyrgðina yfir á þolanda glæps. Hann hefur gengið svo langt, að snúa afstöðunni fullkomlega á haus og lítur á hana sem yfirlýsingu um að það sé í lagi að nauðga druslulega klæddum konum og fyrir þann vítaverða útúrsnúning fær hann lof í lófa á heimasíðu göngunnar.

Að öllu ofangreindu sögðu er þetta einfaldlega útúrsnúningur á mínum meinta útúrsnúningi.

Nú vona ég að Kristinn taki sér tíma til að lesa þetta alltsaman í þaula og taka til þess ögn málefnalegri afstöðu en mér þótti hann gera í svargrein sinni. Á engan hátt ber honum að skilja mitt andsvar sem svo að mér þyki hann ekki þess verður að eiga í þessari umræðu, síður en svo. Mér þykir hinsvegar mikilvægt að útskýra betur hvaðan mín viðhorf spretta, og þar af leiðandi af hvaða hugarfari greinin mín mótast af.

Ég fyrirverð mig ásökunum um öfgar, femíníska eða pólitíska rétthugsun og karlfyrirlitningu. Það eru engar öfgar í því sem ég skrifaði. Á hinn bóginn er slíkt samfélag öfgafullt þar sem þarf sérstaklega að berjast gegn nauðgunum, og svara fyrir þá baráttu. Á móti kemur er Kristinn Theódórsson sá málefnalegasti sem hingað til hefur séð sér ástæðu til að svara mér, og það er vitaskuld mikilvægt að samræða geti orðið milli ólíkra sjónarmiða. Því fagna ég því að hann hafi tekið sér tíma til að svara greininni minni, sem sjálfan mig óraði raunar aldrei fyrir að fengi viðlíka útbreiðslu og athygli og raun ber vitni.

En hún var svo djarflega klædd!

Það er viðtekinn skilningur margra að jafnrétti hafi verið náð milli kynjanna, og því sé barátta fyrir jafnrétti orðin að tímaskekkju – að sumar konur vilji „meira jafnrétti“ en aðrir eiga að njóta, einsog svínin á Dýrabæ; eiginleg kvenréttindi í stað mannréttinda – og svo útbreiddur er þessi skilningur að upphafleg þverstæða Orwells hefur tapast í umræðunni þegar konum er jafnað við svín, sem aftur er jafnað við fasista, sbr. hugtakið femínasismi. Jafnrétti er náð, og samt þurfa konur sérstaklega að mótmæla því að orsakasamhengi sé milli kynbundins ofbeldis og þess hvernig þær klæða sig. Það er ekki síst merkilegt að þeim sem helst er tíðrætt um að banna skuli búrkur, því þær séu kúgunartól, skuli ekki finnast neitt athugavert við þá andstæðu kúgun að konur sem klæði sig „djarflega“ kalli eftir því sjálfar að þeim sé nauðgað. Kannski er þá ekki svo mikill munur á islamófóbum Íslands og þeim sem þeir óttast hvað mest eftir allt saman. Kannski ættu karlar bara að hætta að pæla í því hvernig konur klæða sig.

Undirliggjandi rót þessarar öndverðu þverstæðu einsog hún nú er sett fram liggur í kjarna vestrænnar menningar og órökstuddum ótta við fyrirbæri sem gjarnan er nefnt „pólitísk rétthugsun“. Látum liggja á milli hluta hvort það sé pólitísk rétthugsun að vilja ekki vera nauðgað, og hvort það sé nauðsynlega slæm sort af rétthugsun í sjálfu sér. Í menningunni er nefnilega fólginn ótti sem dansar á egg tvíeggjaðs sverðs, ótti við fordóma og áðurnefnda rétthugsun, og allt sem útaf stendur á hvorn bóginn sem litið er til liggur handan gagnrýni nema sá sem gagnrýnir vilji hætta á að teljast forpokaður.

Það er ekki langt síðan sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason stökk upp á nef sér af illskiljanlegu óþoli gagnvart ímyndaðri menningarelítu sem honum fannst hann vera kominn upp á kant við, af því hann hafði skrifað bók um Jónínu Benediktsdóttur sem fékk ekki alveg þær viðtökur sem hann átti von á. Hluti af vörn hans var að hann teldi samspil milli lágmenningar og hámenningar nauðsynlegt, og nefndi í því sambandi að hann hefði bæði Krishnamurti á náttborðinu sínu og Lífsleikni Gillzeneggers.

Eins skemmtilegt og það hlýtur að vera fyrir Gillzenegger að vera spyrt saman við einhverja óskilgreinda lágmenningu þá hefur Sölvi rangt fyrir sér. Gillzenegger er ekki lágmenning. Menn sem upphefja staðalmyndir og ýta undir kvenhatur dagsdaglega eru ekki lágmenning fyrir menningarelítu að meta á vogarskálunum sötrandi freyðivín; maður sem stingur upp á að nauðga femínistum er ekki þrepi lakari á menningarkvarðanum en sá sem stingur upp á ástarleik með kærustunni, einsog einskonar Rómeó fátæka mannsins. Hann er þvert á móti persóna sem endurspeglar viss viðhorf í samfélaginu á slíkan hátt sem ekki má gagnrýna án þess að vekja upp úlfúð hjá þeim sem óttast pólitíska rétthugsun meir en nokkuð annað. „Þetta er nú meiri pólitíska rétthugsunin, sérðu ekki að Gillzenegger er paródía?“ er gjarnan sagt. En þau viðhorf sem Gillzenegger endurspeglar eru raunveruleg, og þau eru alvarleg. Þau birtast meðal annars í fréttaflutningi DV af Jóni stóra, sem komst svo að orði á Facebooksíðu sinni:

„er það að gefa manni smá clue að kærastan sé of ung ef hún tekur nammið út úr sér og geymir á maganum á manni meðan hún gefur manni blowjob??:D“

Það er fólk til sem heldur í heiðri sömu viðhorf og Gillzenegger setur fram, hvort sem það er gert í gríni eða ekki, og fyrir vikið verður hann sem fjölmiðlafígúra ekki aðeins fyrirmynd þeirra, heldur einnig þeirra óhörðnuðu ungmenna sem hann helst vill höfða til – að eigin sögn með ráðleggingum um hollan lífstíl (nokkuð sem vekur upp furðu í mínu pólitískt réttþenkjandi brjósti). Ef rétt væri með farið væri þetta kannski í einhverjum skilningi fyndið, en að tileinka sér nákvæmlega sömu orðræðu – ef það er þá yfirhöfuð tilfellið að þetta eigi að vera fyndið – er það ekki.

Á dögunum rifjaði Drífa Snædal upp gamla bloggfærslu eftir Gillzenegger þar sem hann segir að:

„Þegar feministar verða of áberandi í fjölmiðlum hefur ávallt virkað að kalla til Ásgeir Kolbeinsson til þess að gefa þessum leiðinda rauðsokkum einn granítharðan í háruga bílskúrinn til þess að þagga niður í þeim.

Drífa Snædal fór mikinn í Kastljósinu á dögunum þar sem hún sat á móti Agli Helgasyni og reyndi að rífa kjaft. Aldrei hefur kvenmaður misst jafn mikið magn af saur í Kastljósinu áður.

Kolbrún [Halldórsdóttir] hefur aldrei fengið stifan lim og því hefur Fréttastofan ákveðið að senda Ásgeir, Jamal, Buka og Yao alla í þetta verkefni. Kolbrún toppaði sjálfa sig í leiðindum þegar hún stakk upp á því að nýfædd börn yrðu ekki sett í blá eða bleik föt. Kolbrún er í fullri vinnu við að vera óþolandi og tala með rassgatinu og það er kominn tími til að þagga niður í henni endanlega og munu þessir herramenn sem Fréttastofan taldi upp áðan fylla hana eins og hátíðarkalkún. Það mun vonandi vera til þess að hún steingrjóthaldikjafti og fari að haga sér.

Steinunn [Valdís Óskarsdóttir] er portkonan sem vildi breyta orðinu ráðherra í ráðfrú fyrir konur. Steinunn þarf lim og það strax. Á hana Steinunni Valdísi dugar ekkert annað en lágmark tveir harðir og munu Buka og Yao taka þetta verkefni að sér. Fréttastofan ákvað að gefa Ásgeiri Kolbeinssyni frí í þetta skiptið, en Fréttastofan vill ekki hafa það á samviskunni að Ásgeir finnist hangandi í ljósakrónu í vesturbænum.“

Heimildarmaður Fréttastofunnar vildi ekki koma undir nafni en hann hafði þetta að segja: “Ég hef aldrei séð annað eins, hún [Anna Margrét Björnsdóttir] gengur um fyrirtækið eins og mennsk Nilfisk ryksuga. Hún er duglegri að ryksuga inni hjá yfirmönnunum en af og til verðum við strákarnir niðri lucky og hún “ryksugar” okkur ef þú veist hvað ég á við.”

Þessar athugasemdir eru allar skrifaðar af sama manni og stakk upp á því að Sóley Tómasdóttir þyrfti á því að halda að henni yrði nauðgað duglega svo hún tæki sönsum og hætti að vera svona beinþurr kerling. Á sömu nótum eru athugasemdir kennara við Flensborg, Baldurs Hermannssonar, þegar hann sagði á bloggsíðu sinni að konur þráðu innst inni að láta nauðga sér. Hjálmar Sveinsson vakti athygli á þessum sömu ummælum Gillzeneggers í kjölfar umfjöllunar Smugunnar um upprifjun Drífu og opins bréfs Einars Ólafssonar til fyrirtækisins Já sökum upphafningar þeirra á þessum manni og þarmeð óhjákvæmilega á hans málflutningi, og uppskar grátkór fólks sem vændi hann um pólitíska rétthugsun, vinstrimennsku og þöggun – og enn aðrir sögðu að hann væri lélegur borgarfulltrúi – einsog nokkuð af þessu kæmi málinu við.

Þegar menn einsog Gillzenegger hafa uppi viðlíka munnsöfnuð endurspegla þeir raunveruleg viðhorf, til dæmis manna einsog Baldurs Hermannssonar, og þegar svo er komið þá er skammur vegur milli gríns og alvöru. Fyrrum ríkissaksóknari, Valtýr Sigurðsson, endurómaði þessi viðhorf í fyrrahaust þegar hann kenndi áfengisdrykkju brotaþola nauðgana um mörg þeirra tilfella sem kærð væru til lögreglu – því það er einmitt algjörlega í lagi að nauðga konu ef hún er of drukkin til að verja sig, ef marka má málflutning hans. Á bloggsíðu einni skrifaði svo síðuhaldari um að það væri af sem áður var þegar Þjóðhátíð í Eyjum snerist aðallega um að ríða eins mörgum konum og fundust dauðar á víðavangi eða í tjöldum og unnt væri. Brandarinn er búinn. Þessi viðhorf eru raunveruleg, og það síðasta sem umræðan um jafnan rétt kynjanna þarf er fjölmiðlafígúra sem bergmálar þessi sömu viðhorf einsog þau séu eðlileg.

Það er þess vegna sem baráttan er ekki búin. Jafnrétti er hvergi nærri náð meðan kvenfyrirlitning geisar um í samfélaginu einsog engisprettufaraldur og einasta baráttufólk fyrir jöfnum réttindum kynjanna er smættað niður ómálefnalega og tilraun er gerð til að koma þeim fyrir á þeirra rétta stað – sjálfsagt framan við eldavélina eða á framanverðum enda vöðvastælts valmennis sem veit hvað konum er fyrir bestu. Gillzenegger kann að vera paródía, en hann stendur sig öllu betur í forystu fyrir þann miðaldahugsanahátt sem réttlætir misrétti, kvenfyrirlitningu og nauðganir – ekki einasta sökum klæðaburðar – heldur fyrir sakir skoðana einna saman.

Á meðan konur geta ekki gengið um götur óhultar fyrir brjálæðingum sem halda að líkami þeirra sé musteri eigin karlmennsku er ekki unnt að taka slíkum málflutningi léttilega. Á meðan þau viðhorf viðgangast að konur séu á einhvern hátt lakari en karlar, að þær þurfi bara „einn stífan“ ef þær voga sér að vera með kjaft, að klæðaburður þeirra „kalli hreinlega á nauðgun“, þá á baráttan fyrir jafnrétti enn langt í land að ná. Þess vegna er Druslugangan nauðsynleg. Druslugangan er andóf gegn þessum viðteknu hugmyndum um konur sem leikfang til karlmannlegs brúks eftir hentisemi.

Þann 23. júlí næstkomandi munu allir sem láta sig málið varða mótmæla því að konur séu hlutgerðar, ekki aðeins sökum klæðaburðar sem gjarnan er orðað við „druslur“ – þótt það sé það sem sérstaklega er bent á hér – heldur almennt og yfirhöfuð. Það að enn sé til fólk sem réttlætir nauðganir og kynbundið ofbeldi, meiraðsegja innan réttarkerfisins, er nægileg ástæða til að spyrna fótum við og storka því rotna hugarfari sem gegnumsýrir íslenskt þjóðfélag. Af því tilefni munu öll sem láta sig málefnið varða fylkja liði „druslulega klædd“ og ganga niður Skólavörðustíg, Bankastræti og Austurstræti, og hvet ég allar konur og karla til að taka sér stöðu samhliða og mótmæla ójafnréttinu í samfélaginu með þeim.

Í andmælum við þá pólitísku rétthugsun hljótum öll að vænta þess að Gillzenegger og félagar bíði á hliðarlínunni, tilbúnir til að nauðga öllu klabbinu svo þeir fái kvöldmatinn sinn og daglega fullnægju. Mætum því öll til að sýna þeim að þeirra viðhorf eiga ekki upp á pallborðið lengur. Nauðganir eru glæpur sem snertir okkur öll, ekki aðeins konur, og hvernig fólk klæðist er ekki afsökun fyrir ofbeldi. Jafnrétti verður aldrei náð fyrren við útrýmum þeirri hugsun.

– Birtist fyrst á vefsíðu Druslugöngunnar í Reykjavík þann 3. júlí 2011.

__________________________________
Fleiri skrif hafa birst um efnið í kjölfar upprifjunar Drífu:

* Guðmundur Andri Thorsson: Íþróttasjálfurinn.

* Yrsa Þöll Gylfadóttir: Um húmor, íróníu og fyrirbærið Egil/Gillz.

* Magnús Sveinn Helgason: Af andlegum sjúkleika Gillzenegger.

* Magnús Sveinn Helgason: Nauðganaórar og grín Gillzenegger.

* Magnús Sveinn Helgason: Gillzeneggering íslenskra karlmanna.

* Sigurbjörn: Hræddir karlar grínast.

Konur, skrímsli og kvenskrímsli

Jöðrun er grundvallarhugtak í hinseginfræðum og femíniskum fræðum. Í bók sinni Bodies that Matter fjallar Judith Butler um jöðrun á þeim nótum (minnir mig, ég hef ekki bókina hjá mér) að hin jöðruðu markist af sjálfskilgreindu félagslegu normi, og tekur dæmi af ýmsum jöðruðum þjóðfélagshópum. Útfrá skilgreiningu Butlers má orða þetta sem svo að hvítir miðaldra karlar séu hið samfélagslega viðurkennda norm, og sem slíkir verða aðrir hópar – ekki síst konur – óeðlilegir í samanburði. Konur séu þannig jaðraðar innan feðraveldisins. Í þeim skilningi mætti segja að feminísk réttindabarátta grundvallist á að samþykkja þá jöðrun þar til hún hefur verið jöfnuð út inn að samfélagslega ásættanlegri miðju – konur samþykkja með öðrum orðum ekki að þær séu líka menn, ekki fyrren þær njóta réttinda til jafns við þá.

Þessi jöðrun felur einnig í sér einhverskonar ónáttúru. Í heterónormatífu samfélagi jaðrast hinsegin fólk gagnvart norminu og verður í augum miðjunnar að viðrinum. Útfrá sama sjónarmiði er hinsegin baráttan meðvitað „hinsegin“ þar til hinsegin fólk verður samþykkt til jafns á við aðra. Ein birtingarmynd þeirrar baráttu er Gaypride, karnivalískur fögnuður fjölbreytileika mannfólksins sem hefur upp réttinn til frjálsra ásta, manngildi óháð lífsgildum og það sem er „öðruvísi“ andspænis hinu viðurkennda – og hið viðurkennda mætti segja að sé gagnkynhneigður, miðaldra, hvítur karl í jakkafötum með háskólapróf upp á vasann. Þar með er jöðrunin staðfest til að benda á aðstöðumun milli ólíkra þjóðfélagshópa og hið hrópandi ójafnrétti sem barist er gegn. Miðjan verður ekki skilgreind án jaðarsins, og þetta er ein leið til að berjast fyrir því að jaðarinn verði færður nær miðjunni, og að á endanum verði hvorutveggja miðjunni og jaðarnum tortímt með allsherjar jafnrétti.

Útfrá svipuðum hugmyndum um óhjákvæmilega jöðrun útfrá skilgreindri miðju spretta hugtökin heimsmynd og siðmenning, einsog þau eru notuð í miðaldafræðum, nema þar er miðjunni skipt út fyrir sjálfið, og jaðrinum skipt út fyrir hugmyndina um „hinn“. Hér gengur semsé aftur hugmyndin um okkur andspænis hinum, hugmynd sem enn á sér talsmenn í nútímanum á meðal öfgahægrimanna, ekki síst nýnasista. Hér er því um að ræða tvennskonar jöðrun: Sjálfskipuð jöðrun fyrrnefndra baráttuhópa beinist frá jaðrinum inn að miðju, í viðleitni til að breyta úreldu samfélagi innan frá með því að benda á það sem skilur ólíka þjóðfélagshópa að. Sú jöðrun sem nú er nefnd til sögunnar beinist hinsvegar frá skilgreindu sjálfi út á jaðarinn, gegn hinum, í viðleitni til að viðhalda samfélagsgerðinni og sjálfsmyndinni, með því einmitt að benda á það sem skilur ólík þjóðarbrot að. „Ef þú ert ekki með okkur, þá ertu með þeim“ hefur stundum heyrst sagt í stjórnmálaumræðu samtímans, á svipaðan hátt og nasistar líktu gyðingum við rottufaraldur berandi með sér pestina.

Slíkra hugmynda finnst áhugavert merki á miðöldum. Þjóðríki voru sannarlega ekki eins rótgróin þá einsog nú og hugmyndafræði þar að lútandi var að langstærstu leyti ómótuð. Í heimsmynd miðalda finnst engu að síður mjög sterk hugmynd um heild, skilgreinda miðju, sem kalla mætti „okkur“. Í miðju hins þekkta heims stóð Jerúsalem, hin heilaga borg almáttugs Guðs, og þaðan frá í radíus breiddust aðrar óæðri byggðir úteftir kringlu heimsins. Í háaustri lá Paradís, aldingarðurinn Eden. Enda þótt mannskepnan væri að eilífu útlæg þaðan þá átti hún sér sinn stað á heimskortinu. En á jaðri heimsins, sérstaklega í hánorðri og hásuðri, fundust ófreskar þjóðir sem ekki höfðu hlotið náð Guðs.

Meðal margra vera sem finna má á heimskortum frá miðöldum, sem með raun og sanni voru skilgreindur hluti kristinnar heimsmyndar af ekki ómerkilegri kanónum en Ísidór frá Sevilla og heilögum Ágústínusi, má nefna einfótunga, höfuðlausa menn með andlit á bringunni, sjálfan andkrist í búri í Síberíu og ýmis tröll. Um þessar skepnur er gríðarmargt að segja sem því miður rúmast ekki í svo stuttum pistli sem þessum. En í ljósi þeirra hugmynda um jöðrun sem ég hef vakið máls á hér langar mig að benda á eina áhugaverða hliðstæðu við hugmyndir Judithar Butler sem finnst í ferðasögum og bókmenntum frá miðöldum: nefnilega Amazónur.

Skrímsli voru ógn sem búist var við að venjulegur ferðalangur gæti mætt á leið sinni. Drekar voru þar á meðal, auk finngálkna og þeirra skepna sem ég hef þegar minnst á. Skrímsli voru svo hversdagsleg ógn á miðöldum að bera mætti hana saman við möguleikann á sprungnu dekki á hringveginum nútildags. Meðal þessara skrímsla voru Amazónurnar. Þær skera sig fyrst og fremst úr hópi annarra skrímsla fyrir þær sakir að þær voru ekki ófreskar útlits. Hið ófreska í fari Amazónanna voru þær hugmyndir sem um þær gengu, að þær tældu karlmenn til lags við sig og rækju þá svo brott, og dræpu öll sveinbörn sem þær ólu. Þannig hefðu þær í árhundruð byggt upp heilan þjóðflokk herskárra kvenna sem bjuggu í samfélagi mæðraveldis.

Öll skrímsli lágu sannarlega við jaðar þess þekkta, og hið óþekkta er ávallt nokkuð sem óttast er á hverjum tíma fyrir sig – skrímsli eru vansköpuð börn Guðs og því að öllu leyti óæðri. Amazónurnar eru kannski sjálfar ekki skrímsli, en samfélagsgerð þeirra er ófresk; hún stendur í berhöggi við viðtekin gildi hinna réttbornu þjóða Guðs. Þá gengu þær sögur að þær limlestu sjálfar sig til þess að berjast til heimsyfirráða og sneiddu í þeim tilgangi af sér annað brjóstið svo þær gætu betur skotið af boga. Þess vegna voru þær skrímsli – þetta þótti algjörlega ótækt, og ófreskt. Svipað og það þykir ótækt nú á dögum að konur njóti réttinda til jafns við menn, miðað við efndir í öllu falli. Þetta er burtséð frá því hvort Amazónur voru í raun og sann til, en fyrir því eru hæpnar sögulegar forsendur.

Hugmynd Judithar Butler um jöðrun virðist því ekki eingöngu eiga við rök að styðjast í nútímasamfélagi, heldur má færa rök fyrir því að jöðrun hafi alltaf átt sér stað í karlmiðuðu, heterónormatífu samfélagi. Konur eru ekki álitin skrímsli lengur fyrir að berjast gegn eigin jöðrun, en konur hafa enda þurft að þjást til að ná fram þeim markmiðum sínum að vera eitthvað annað og meira en stofustáss og eldavél. Konur eru hinsvegar enn jaðarhópur í nútímasamfélagi, auk annarra ófreskra aðilja á borð við hinsegin fólk. Það er því ekki af handahófi að ég gríp til líkingar við miðaldirnar, því hvar eiginlega liggur munurinn milli kvenna, skrímsla og kvenskrímsla?

Kannski þeirri spurningu skyldi beina til þess miðaldafólks sem enn hefur ítök í vestrænu samfélagi.

Birtist fyrst á Smugunni þann 3. júní 2011.

Það sem rotið er í Danaveldi

Frá því ég hóf að skrifa fréttaskýringar og greinar með misjöfnu millibili á Smuguna hafa ýmsir orðið til að segja mér að, burtséð frá efni greinanna að öðru leyti, hafi ég í öllu falli sannfært þá um að flytja aldrei til Danmerkur. Ég hef ekki tölu á hversu oft viðmælendur mínir hafa vitnað í Hamlet þegar ég tjái mig um málefni Danmerkur, sbr. titil greinarinnar. Markmiðið með skrifunum hefur öðrum þræði verið að benda á þau baráttumál sem fyrirfinnast í pólitík í Danmörku, til að mögulega opna augu lesenda fyrir þeim gríðarlega mun milli orðræðunnar hér og heima, og ef til vill í leiðinni hefur þeim verið ætlað að vera víti til varnaðar.

Alstaðar í Evrópu sækja hægriöfgamenn í sig veðrið, köllum þá bara nasista – það er það eina heiðarlega sem hægt er að segja um þetta lið – og það er ekki loku fyrir það skotið að þessi fjöldahreyfing fordóma og fávisku nái að skjóta rótum á Íslandi líka áður en langt um líður. Gegn því þarf að berjast, og mín skrif hafa helst verið stiklur úr baráttunni hérnamegin Atlantshafsins. En hvað sem líður markmiði þessara skrifa minna gæti það orðið vinum mínum erfitt ef ekki ómögulegt að flytja hingað innan skamms, í ljósi nýjustu tíðinda héðan.

Fyrir nokkru kynntu stjórnvöld áform sín um að auka eftirlit við Eyrarsundsbrúna sem liggur milli Kaupmannahafnar og Malmö. Engin tilraun var gerð til að dylja markmiðið með þessu, það er að segja, að stemma stigu við fólksflutningum þeirra sem ekki hafa norrænt yfirbragð, frá Svíþjóð. Þetta fannst ráðherrum góð hugmynd að segja opinberlega, og það má alveg virða það við Lars, Lars og Lene í Kristjánsborg að þau eru ekkert að skafa ofan af mannfyrirlitningunni, kannski ekki á svipaðan hátt og við sláum okkur á lær þegar við sjáum kött sem lítur út einsog Hitler, en kannski ekki svo langt frá því heldur. Í öllu falli minnir þetta ekki á síður á Hitler en köttur með „óheppilegan lit á feldinum“. Svona talandi um óheppilega liti.

Stjórnvöld eru þess fullviss um að hert eftirlit við ekki aðeins Eyrarsund, heldur á grensunni líka, þ.e. við Þýskaland (sem skyndilega datt í umræðuna eftir að allir höfðu annað hvort sætt sig við eða gleymt því að loka ætti á þessa leiðinlegu Svía og þeirra sjaríaóðu kebabsala), standist reglugerðir Schengen. Evrópusambandið er ekki alveg á því enda er Schengen ekki sjálfstæð eining frá sambandinu sjálfu, og landamæraeftirlit innan sambandsins stenst ekki reglugerðir þess burtséð frá mögulegum formgöllum Schengensamkomulagsins. Ekki að ég yfirhöfuð nenni að fara út í einhverjar tæknilegar ástæður þess að þetta er rangt – þetta er kolrangt, ógeðslegt og mannfjandsamlegt hvað sem Schengen og Evrópusambandinu líður. Hinsvegar gæti þetta orðið til þess að Danmörk hreinlega missi stöðu sína innan sambandsins og verði þvinguð út í horn. En þá yrði markmiðinu aðeins endanlega náð: Danmörk vill loka sig af frá restinni af Evrópu. Ef dönsk stjórnvöld fá ekki allar þær undanþágur sem þau vilja fá frá alþjóðalögum og þjóðasáttmálum, þá má restin fara andskotans til fyrir þeim. Þá geta þau sinnt sínum hreinsunum í friði.

Nei, mergurinn málsins er nefnilega sá að það skiptir engu máli fyrir þá sem brjóta skal á hvort það standist einhverja samninga eða reglugerðir einhverra bjúrókrata í Brüssel. En það kaldhæðna er að ekkert af þessu er gjörningur danskra stjórnvalda sem slíkra, heldur hækjunnar þeirra í Danska þjóðarflokknum (lesist: nasistaflokknum). Það eru ekki bara Lars, Lars og Lene sem standa fyrir þessum óskapnaði, eða nýi innflytjendaráðherrann (já, innflytjendaráðherrann) Søren Pind, sem einmitt lýsti því yfir tveim dögum eftir embættistöku að hann væri þreyttur á þessu bulli um aðlögun (integration), nú væri kominn tími á samlögun (assimilation). Sannarlega er ekki skafið ofan af ógeðinu í orðræðu þessara ágætu stjórnmálamanna, en þeirra ógeðfelldustu gjörningar komast þó fyrst og fremst í gegn fyrir sakir markaðstorgs hugsjónanna, sem nasistarnir sem bjarga þeim frá falli eru duglegir að nýta sér. Þar ganga hagsmunamálin kaupum og sölum og Pia Kjærsgaard er í raun eina ástæða þess að loka á landamærum Danmerkur enn frekar, einsog það sem hingað til hefur verið gert sé ekki nóg til að hrekja burt fólk og halda öðrum fjarri (sjá fyrri pistla mína um efnið). Þessu verður hrundið í framkvæmd á næstu tveim til þrem vikum.

Nokkru áður en þetta mál komst í hámæli ferðaðist vinur minn frá Amsterdam að hitta mig í Árósum. Lestin var stöðvuð við landamæri Þýskalands og Danmerkur og var svört kona með tvö börn sérstaklega tekin fyrir. Hún hafði ekki vegabréf og sagði vörðunum að hún væri á leið til Noregs, og tolleftirlit Þýskalands hefði sagt henni að hún þyrfti ekkert vegabréf vegna Schengensamkomulagsins. Það stóð ekki á svari hjá dönsku landamæravörðunum: „Þetta er ekki Þýskaland, nú ertu í Danmörku,“ og var henni með því vísað úr lestinni.

Já, það er kannski innistæða fyrir þessari síendurteknu klisju að eitthvað sé rotið í Danaveldi, og stjórnvöld eru of mikið samansafn ræfla til að sporna við uppgangi nasistanna – og fá bágt fyrir frá stjórnarandstöðunni, sem ég raunar fæ ekki séð að sé hótinu betri. Einsog stjórnmálamönnum í krísu er einum lagið hefur ríkisstjórnin auk þess ákveðið að halda kosningarnar í haust fremur en í vor, enda þótt yfirlýst markmið þeirra í upphafi síðasta kjörtímabils hafi verið að halda þær um vorið. Nema Danmörk sökkvi enn dýpra í ormagryfjuna leyfi ég mér að vona að þá standi ekki á reikningsskilum þessarar ógeðfelldu hugmyndafræði hér í landi. Miðað við uppgang nasistaflokka hér og í Svíþjóð, í Noregi, Finnlandi og Hollandi, Þýskalandi og Frakklandi, er ég þó mögulega að gera mér upp von um réttlátt samfélag öllum til handa sem þrá það eitt helst að lifa í friði. Það er erfitt að leyfa sér að vona undir þessum kringumstæðum.

Ef ekki verður spornað við misyfirlýstum nasisma í Evrópu óttast ég að þetta leiði til tilgangslausra átaka um þjóðernishópa, trúarbrögð, stjórnmálaskoðanir og landfesti. Ekki tel ég mig eiga Landspítalann þótt ég hafi fæðst þar, og reyni þaðanafsíður að girða hann af og sparka út þeim börnum sem þar fæðast sem ekki eru „norræn“ í útliti, en það mætti kannski að ósekju spyrja forsætisráðherra hvort slíkur gjörningur samræmdist stefnu stjórnarinnar. Í öllu falli nægir henni ekki að Evrópusambandið treysti ytri landamæri sín til að halda hinum „óæskilegu“ frá, heldur stefnir hún nú ljóst að því að treysta sín eigin til að endanlega verða eyland innan hins stærra eylands: ein þjóð, eitt ríki, ein Pia.

Nú fullyrði ég að þeir sem kalla nasista „þjóðernissinna“ séu óþarflega kurteisir í orðavali, enda skuli kalla þá sínu rétta nafni: nasista. Það þarf ekki mikið hugvit til að sjá hliðstæðurnar við blóði drifna sögu 20. aldarinnar. Það verður að berjast gegn þeim sem reyna leynt og ljóst að drepa öllu sem er gott og fallegt í heiminum á dreif með viðbjóðslegum hatursáróðri. Pia Kjærsgaard er nasisti, og þótt hún viðurkenni það ekki í orði tala verkin sínu máli. Geert Wilder er nasisti. Perus Jussi er nasisti. Svíþjóðardemókratarnir er nasistaflokkur. Oddviti þeirra í Malmö skar hakakross í enni sér á síðasta ári og kenndi múslimum um, þótt réttarlæknir segði augljóst að hann hefði veitt sér áverkana sjálfur. Þá höfum við líka fengið einstaka nasista inn á þing á Íslandi, sem ég nafngreini ekki, af því það er skemmtilegra að vera ekki kærður af vissum hæstaréttarlögmönnum fyrir ærumeiðingar, þótt ekki sé nú mikilli æru fyrir að fara þar á bæ. Nasistar flögguðu einnig á Austurvelli í mótmælum á síðasta ári, en voru snarlega stöðvaðir af grandvörum mótmælendum sem létu ekki bjóða sér hvað sem er. Blessunarlega.

Allar hugmyndir um sérstaka norræna menningu og sérstakt norrænt yfirbragð eru nasískar – slíkar hugmyndir voru grundvöllur hugmyndafræði tiltekins dvergvaxins Austurríkismanns með stórar ambisjónir (um hann lásum við í sögubókum, en virðumst mörg hver hafa gleymt því fyrir hvaða hugmyndafræði hann stóð). Allt það sem beinist á einhvern hátt frá skilgreindri miðju gegn tilgreindum eða ótilgreindum jaðar er fasismi – það sem snýst upp í „þau“ á móti „okkur“, og sértu ekki með „okkur“ þá ertu með „þeim“. Þau sem kaupa slíka tvíhyggju eru kannski ekki fasistar sjálf, en þau hafa það í sér að verða það.

Í Danmörku ríkir nasistaflokkur sem er ekki einu sinni í ríkisstjórn, og það sættir ríkisstjórnin sig við svo hún geti haldið völdum, enda þótt hún komi engum málum í gegn án þess að selja sálu sína í staðinn. Slík eru áhrif hötuðustu hugmyndafræði veraldarsögunnar sem fólk rífur nú af útsölurekkunum ofan í innkaupakörfurnar einsog nýju fötin keisarans, blint á að það sem er að gerast núna í Evrópu hefur sannarlega gerst áður. Og það verður með engum öðrum orðum lýst en ég hef gert í þessum pistli: þetta eru nasistar. Nasistar sem íbúar Evrópu hlaða nú atkvæðum, ómeðvitaðir um að dómur sögunnar er löngu fallinn.

Nasistar stýra Danmörku, og að segja það rotið er kannski ekki verri leið til að lýsa því en hver önnur. Það má þó leyfa sér að vona að Íslendingar sjái gegnum slíkan hatursboðskap í framtíðinni. En hvort sú von eigi sér innistæðu verður tíminn að leiða í ljós.

Birtist fyrst á Smugunni þann 15. maí 2011.

Það sem sanna átti

Taugaskurðlæknirinn Milena Penkowa hefur mikið verið á síðum blaðanna og milli tannanna á fólki í Danmörku undanfarin misseri. Hún var vonarstjarna danska fræðaheimsins, hampað sem snillingnum sem útrýma myndi krabbameini úr heiminum, táknmynd hinnar frjálsu Danmerkur og hennar dýrðlega menntakerfis, og sönnun þess að konur – af útlendum ættum hvorki meira né minna – gætu hér uppskorið eins ríkulega og hvítir, danskir karlar. Því fer alls ekki fjarri að Penkowa hafi í einhverjum skilningi verið brúkuð sem átylla fyrir niðurrifi menntakerfisins í skugga reykmettaðra bakherbergja og skálkaskjól fyrir mannfjandsamlega stefnu stjórnvalda í garð innflytjenda, sem dæmi sem alhæfa mætti úfrá með því að benda á – það sem sanna átti.

„Sjáið bara Milenu Penkowu! Hún er útlensk, dökk í þokkabót, og hún er kona (þá fyrst skiptir máli að benda á konu þegar breiða þarf yfir fjarveru kvenna annarsstaðar, mælskubragð sem ýmsum er ekki síður tamt á Íslandi og nefna mætti „hic femina est-rökin“). Í ofanálag er hún framúrskarandi vísindamaður sem fær milljónastyrki á annað eins ofan. Við hötum ekki útlendinga hér, eða konur, og allir hafa jöfn tækifæri í Danmörku. Q.e.d.“

Vegna þess hversu afgerandi undantekning hún var frá norminu var fátt mikilvægara en að gera sem mest úr framandi uppruna hennar, en þá gleymdist víst að nefna að Penkowa er fædd í Óðinsvéum undir nafninu Milena Pedersen. Hún er því tæpast mikið meiri útlendingur en H.C. Andersen.

Lesendur geta því rétt ímyndað sér hversu sárgrætilegt það var fyrir stuðningsmenn hennar í stjórnmálastétt (af því fátt er mikilvægara vísindunum en áróðursendinn á retórík), og háskólasamfélagið allt, þegar í ljós kom að Milena Penkowa er svikahrappur og skottulæknir af verstu sort. Árið 1998 hlaut hún cand. med. frá Kaupmannahafnarháskóla, aðeins 25 ára gömul. Tveim árum síðar var hún ráðin við skólann sem aðjunkt og árið 2002 sem lektor. Ári síðar skilaði hún inn doktorsritgerð í taugaskurðlæknisfræði, þá þrítug að aldri. Það er gríðarlegt afrek hjá svo ungri manneskju og er nokkuð sem flestir að ég hygði settu strax spurningamerki við. Og vissulega vakti rannsókn Penkowu strax upp ýmsar spurningar, til dæmis þóttu niðurstöður hennar ótrúverðugar, og þá þótti doktorsnefndinni gríðarlega ólíklegt að hún hefði gert rannsóknir á hvorki meira né minna en 750 rottum (eðlilegur fjöldi rotta fyrir sambærilega rannsókn er milli 50 og 60), og bað því nefndin um öll viðeigandi gögn ásamt opinberum leyfum og kvittunum. Þau gögn sem svo bárust voru ekki vottuð af viðeigandi aðilum og þótti nefndinni þau á allan hátt grunsamleg og ótrúverðug. Ritgerðin var í kjölfarið dæmd marklaus og henni hafnað til doktorsvarnar – sem í sjálfu sér er fáheyrt.

Í bréfi nokkru síðar til þáverandi skorarformanns Heilbrigðisvísindadeildar Kaupmannahafnarháskóla (og núverandi rektors hans), Ralfs Hemmingsen, vegna úrskurðar doktorsnefndarinnar, lýsti Penkowa því yfir að hún hefði ekki haft færi á að svara doktorsnefndinni fyrr þarsem hún hefði misst foreldra sína og systur í bílslysi í Belgíu, og því varið miklum tíma undanfarið á sjúkrahúsinu og í kjölfarið í útför þeirra. Penkowa hafnaði gagnrýni nefndarinnar og Hemmingsen skarst þá óvænt í leikinn og fyrirskipaði að óháðir aðilar skyldu fara yfir rannsóknina og álitsgerð doktorsnefndarinnar. Lögfræðingur Penkowu (lögfræðingar eru nefnilega standard útbúnaður allra doktorsnema) fékk í samráði við hana að ráða hverjir þeir óháðu aðilar yrðu, og búið var svo um hnútana að þeir fengju ekki aðgang að öllum nauðsynlegum gögnum, til að mynda heildarútgáfu ritgerðarinnar, svo þeir kæmust örugglega að annarri niðurstöðu en doktorsnefndin – sem þeir og gerðu.

Það er komið á daginn að Hemmingsen fór sjálfur yfir gögnin og gaf grænt ljós á skýrsluna án þess að hafa annað í höndunum en nafn á dularfullu einkafyrirtæki á Spáni sem framkvæmt átti að hafa rannsóknir á þeim gríðarlega fjölda rotta sem út af stóðu í reikningum Penkowu. Fyrir tilstilli skorarformanns var því fallið frá stóra rottumálinu og blásið á aðrar efasemdir doktorsnefndarinnar. Penkowa varði ritgerðina og útskrifaðist sem dr. med. árið 2006. Hemmingsen fannst hinsvegar ekkert undarlegt við það þegar hann skráði hina látnu foreldra Penkowu á boðslista varnarinnar og spjallaði við þau í móttökunni eftir á.

Ári eftir doktorsvörnina barst erindi inn á borð Hemmingsens, sem þá var orðinn rektor háskólans. Þrír nemendur Penkowu höfðu farið á fund prófessors við deildina vegna þess að ómögulegt reyndist að endurtaka rannsóknir hennar með sömu niðurstöðum og að háðum sömu skilyrðum, sem er grundvallaratriði í öllum vísindum, og nú féll það í skaut hins vilhalla rektors án þess að undan því yrði komist að senda erindið áfram til rannsóknarnefndar. Nefndin úrskurðaði að Penkowa hefði gerst sek um alvarleg brot á vísindalegum vinnubrögðum. Niðurstöður nefndarinnar fóru þó aldrei fyrir almenning, stórfelldar falsanir Penkowu voru aldrei tilkynntar og hún var hvorki kærð fyrir alvarleg afglöp í starfi né svipt gráðunni. Fyrir sakir rektors, sem hafnaði öllum ásökunum í hennar stað.

2008 var Milena Penkowa ákærð fyrir fjárdrátt, og vísaði hún ákærunni á bug en ásakaði nemanda sinn í staðinn um að hafa stolið fjármununum, og sýndi undirrituð gögn með hans nafni því til staðfestingar. Nemandinn var í kjölfarið handtekinn en gat fljótlega sannað að hann hefði ekkert með málið að gera, enda höfðu engar slíkar peningatilfærslur átt sér stað á reikningnum hans, svo ljóst var að Penkowa var ekki einungis sek um fjárdrátt, heldur einnig um skjalafals og falskar ásakanir. Nemandinn vildi í kjölfarið vita hvernig Penkowa fékk upplýsingar um bankareikningsnúmer sitt frá háskólanum, en fékk ekkert svar. Þegar ákæra átti Penkowu vegna þess máls og annarra, beiddist Kaupmannahafnarháskóli þess að málin yrðu heldur látin niður falla. Í öllum málum sem Penkowa hefur verið viðriðin gegnum árin hefur Hemmingsen varið hana.

Árið 2009 var hún loks gerð að prófessor við háskólann. Sama ár hlaut hún EliteForsk-verðlaunin upp á 1.1 milljón danskra króna, þó ekki nema fyrir íhlutun Helge Sander, þáverandi menntamálaráðherra, og Ralf Hemmingsen, rektors, sem settu mikinn þrýsting á að hún hlyti þau. Í fyrra sprakk þetta svo framan í alla hlutaðeigandi.

Í mars 2010 var Milena Penkowa svipt prófessorsstöðu sinni á grundvelli ákæru ríkissaksóknara á hendur henni, vegna máls sem Kaupmannahafnarháskóli hafði fulla vitneskju um tveimur árum áður – semsé, áður en hún var fyrir spillingu útnefnd prófessor og áður en hún fyrir spillingu hlaut EliteForsk-verðlaunin – en skólinn, það er rektor, sá sér ekki fært að aðhafast neitt á þeim tíma. Helge Sander, sem þá hafði látið af störfum sem menntamálaráðherra, hringdi í kjölfarið í skorarformann Heilbrigðisvísindadeildarinnar, Ulle Wewer, og títtnefndan rektor, Ralf Hemmingsen, til að þrýsta á að málið yrði látið niður falla. Þá kærði Penkowa brottvikninguna til dómsmálaráðuneytisins og Sander lagði sitt af mörkum til að þrýsta á Lars Barfoed, dómsmálaráðherra, að leysa greiðlega úr málinu. Hvers vegna var þetta svo mikið kappsmál? Vegna alls þess sem stjórnvöld og háskólasamfélagið höfðu fjárfest í henni, vegna alls þess þvættings sem hún var notuð til að representera, og þegar menn eru komnir ökkladjúpt í flórinn eiga þeir til að velta sér enn frekar uppúr honum í von um að það finni þá enginn í haugnum.

Ekki batnaði sirkusinn þegar sá kvittur komst á kreik að ekki aðeins hefði Penkowa átt í nánum kynnum við rektor, heldur einnig við áðurnefndan fyrrum menntamálaráðherra og ýmsa aðra ráðuneytisstarfsmenn sem beitt höfðu sér fyrir framgangi hennar innan háskólasamfélagsins. Þessu hafa þau öll staðfastlega neitað. Séu þær ásakanir á rökum reistar eykst enn við þær fjölmörgu víddir alvarleika þessa máls, en hitt verður að játa að ásakanir um slíkt eru orðnar að hálfgerðum standard þar sem konur eiga í hlut. Feðraveldið er nefnilega alveg sannfært um að konur komist ekki upp á toppinn nema hann gíni í gegnum raufina á nærbuxum. Í stærra samhengi málsins skiptir það hinsvegar litlu máli; þáttur hins opinbera í Penkowumálinu skánar ekkert hvað sem áhrærir hvílubrögð hlutaðeigenda – sama hve stífir blaðamenn standa í einerðni sinni.

Það sem raunverulega skiptir máli eru þær umfangsmiklu lygar, falsanir og fjársvik sem Milena Penkowa hefur verið staðin að. Það sem hún hefur gert stenst ekki einu sinni samanburð við að hannesa heilu bækurnar þar sem rannsóknarniðurstöður hennar hafa ekki bara áhrif á aðstandendur Halldórs Laxness, heldur hafa þær bein áhrif á líf krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra. Hennar eigin nemendur tilkynntu hana til háskólayfirvalda fyrir rannsókn hennar á eitilfrumukrabbameini, eftir að þeir, líkt og aðrir nemendur hennar áður, sem sagði, reyndu að endurtaka rannsóknina en fengu allt aðrar niðurstöður. Það mun taka fram í maí næstkomandi að leggja mat á rannsóknarvinnu hennar, en allt bendir til þess að hún hafi vísvitandi hagrætt niðurstöðum. Í bréfi úrskurðarnefndar til skorarformanns Heilbrigðisvísindadeildar segir að svo gróflega hafi hún svívirt vísindaleg vinnubrögð og falsað niðurstöður að það réttlæti ævilanga brottvikningu frá skólanum. Þá hefur komið í ljós að rannsóknarstyrkir hennar, ásamt EliteForsk-verðlaununum, hafa að mestu farið í ferðalög, veitingastaði og húsgagnakaup, að ógleymdum málskostnaði gegn Kaupmannahafnarháskóla – háskóla sem varð að gjöra svo vel að endurgreiða ýmsa hennar styrki vegna misferlisins.

Svo það sem sanna átti, að meiraðsegja útlenskar konur gætu komist til metorða fyrir eigin verðleika í hinu fullkomna og frábæra danska menntakerfi, og sannarlega skarað framúr, virðist enn vera alveg jafn fjarri raunveruleikanum og áður. Milena Penkowa er ekki útlendingur, enda hafa útlendingar nær engin tækifæri til menntunar í Danmörku. Hún er að vísu kona, kona sem tókst að svindla á gjörvöllu kerfinu í tólf ár og jafnvel lengur, með því að manipúlera miðaldra hvíta karla – hina raunverulegu valdhafa, semsé – og mögulega selt sig þeim í skiptum fyrir frama (nauðsynlegt ferli hverju feðraveldi). Og hvað menntakerfið snertir þá fyrir það fyrsta er augljóst að því hefur með vilja verið hægt og bítandi slátrað undanfarinn áratug, ekki síst er það augljóst í ljósi nýlegra aðgerða stjórnvalda. En framvinda Penkowumálsins sýnir að háskólasamfélagið er ekki einu sinni í stakk búið lengur til að takast á við falsanir, fúsk og fjárdrátt – sér í lagi ekki ef þrýstingi má svo auðveldlega beita að ofan.

Málið allt er hið pínlegasta, bæði fyrir ríkisstjórnina og Kaupmannahafnarháskóla, og búast má við því eftir því sem málinu enn vindur fram að ýmsir ónefndir þurfi að segja af sér vegna þess. Ef málið væri ekki allt svo óendanlega dapurlegt fylltist maður ef til vill einhverri þórðargleði yfir þessu klúðri öllusaman. En Danmörk virðist eftir sem áður vera land sem hatar útlendinga, jafnan rétt til menntunar og síðast en ekki síst konur. Það er það sem sannað er, því miður.

Birtist fyrst á Smugunni 6. apríl 2011.

Endalok Kristjaníu í núverandi mynd

Virkisveggurinn
Á árunum 1682 til 1692, eftir umsátur Svía um Kaupmannahöfn þann 11. febrúar árið 1659, var ráðist í gerð virkisveggs við bæinn Kristjánshöfn, til að tengja við virkisveggi Kaupmannahafnar og tryggja varnir borgarinnar. Virkisveggurinn stóð allt umhverfis gömlu Kaupmannahöfn fram á 19. öld, þegar stórir hlutar hans voru rifnir, að undanskildum þeim hluta sem enn stendur í Kristjánshöfn. Í síðari heimsstyrjöld reisti stórskotalið danska hersins herbúðir innan virkisveggjanna. Eftir stríðið urðu hinsvegar lítil not fyrir búðirnar, og notkun þeirra fór minnkandi uns á endanum þær voru alveg yfirgefnar árið 1971.

Samtíðis skorti á húsnæði á viðráðanlegu verði voru mörg húsanna þá þegar orðin að athvarfi heimilislausra. Þann 4. september sama ár brutust nokkrir íbúar Kristjánshafnar inn í búðirnar til að nýta svæðið sem leiksvæði fyrir börnin sín. Þetta var upphafið að byltingu efnaminni íbúa Kaupmannahafnar gegn ríki og borg. Þann 26. september 1971 birtist loks yfirlýsing í Hovedbladet þess efnis að íbúarnir hefðu tekið yfir herbúðirnar og þær yrðu þar eftir sjálfbært fríríki, með samhygð og samábyrgð að leiðarljósi. Umræddur virkisveggur afmarkar nú suðausturhlið fríríkisins Kristjaníu frá eyjunni Amager. Norðvesturhliðin er mörkuð af með einföldu skilti. Á því stendur einfaldlega „Christiania“ á þeirri hlið sem snýr að götunni. Á hinni hliðinni stendur: „You are now entering the EU“.

Vandamál Kristjaníu
Síðan eru liðin tæp 40 ár. Við þekkjum flest framhaldið: tilraunir borgaryfirvalda til að rífa þökin ofan af íbúum fríríkisins, rassíur lögreglunnar í tilraun til að sporna við eiturlyfjasölu og –framleiðslu, tilraunir til að fjarlægja íbúana með valdi. Umræðunni hefur ekki linnt síðastliðin 40 ár, þótt margir Íslendingar sem ekki hafa komið til Kristjaníu þekki hana kannski helst úr dönskutímum eða úr kvikmynd Kims Larsen, Midt om natten. Raunveruleikinn hefur heldur ekki átt sér stóra málsvara í þessari umræðu allri. Einsog annarsstaðar beinist kastljósið því aðeins að fríríkinu þegar þar gerist nokkuð sem teljast mætti fréttnæmt.

Af nýliðnum atburðum sem vakið hafa áhuga fjölmiðla og sömuleiðis hafa kynt undir báli umræðunnar mætti helst nefna skotárás sem átti sér stað í Kristjaníu árið 2005 vegna deilna um yfirráð á eiturlyfjamarkaði Kaupmannahafnar. Einn lést og þrír særðust. Orsakirnar eru í senn einfaldar og flóknar. Það gleymist oft að Kristjanía er ekki fríríki hasshausa heldur framfylgir ríkisráð hennar eigin lögum sem allir íbúar fríríkisins þurfa að samþykkja – til að mynda er sala sterkra fíkniefna með öllu bönnuð þar. Árið 2004 gerði lögreglan hinsvegar rassíu gegn opinni sölu á kannabisefnum í Kristjaníu, og markaðurinn hefur enn ekki jafnað sig að fullu. Enn er þó „leyfilegt“ að neyta kannabisefna í einrúmi – algeng sjón í Kristjaníu er einmitt hópur hassreykingafólks utan við helstu vertshúsin meðan þeir sem inni eru mega reykja tóbak einsog þeim sýnist, svolítið einsog Reykjavík á hvolfi. En eftir að fór að halla undir fæti hjá fíkniefnasölum Kristjaníu færðu ýmis gengi sig upp á skaftið og svo fór á endanum að dróst til átaka, með þessum afleiðingum. Allir þeir sem urðu fyrir skoti voru saklausir vegfarendur; fíkniefnasalar Kristjaníu áttu þar engan hlut að máli.

Árið 2007 mætti svo lögreglan ásamt jarðýtum í þeim tilgangi að rífa niður gamla byggingu í Kristjaníu. Því var mætt með hörku og á endanum þurfti lögreglan að láta undan síga. Skömmu eftir heimsókn mína þangað árið 2009 var handsprengju varpað, að því er virðist að tilefnislausu, inn um gluggann á vertshúsi í Kristjaníu, og sá eini sem slasaðist lifði af, að talið er, sökum þess eins að hann náði að skýla sér á bakvið borðið sem hann sat við, með því að varpa því framfyrir sig. Þetta eru þær sögur sem við heyrum gjarnan af Kristjaníu, enda eru þetta þær sögur sem einar rata í fjölmiðla. Breiðholtið ratar heldur aldrei í fjölmiðla nema þar hafi átt sér stað skotárás eða sveðjuslagur. Almennt hafa þó flestir fegurri ímynd af Breiðholtinu en Kristjaníu, og það má velta fyrir sér hvers vegna það sé – ef ekki þá fyrir linnulausan áróður gegn fríríkinu síðastliðin 40 ár. Kaldhæðnin í málinu er vitaskuld sú að helstu vandamál Kristjaníu eru ekki sprottin upp þar, heldur innan Kaupmannahafnar, nánar tiltekið á Nørrebro. Og meðan glæpamenn þaðan halda áfram að þjarma að íbúum Kristjaníu er klént að klína vandamálunum á Kristjaníu. Kristjanía er ekki vandamálið – það er Kaupmannahöfn sem er vandamálið.

Dómurinn og kröfurnar
Föstudaginn 18. febrúar 2011 var felldur dómur í Hæstarétti Danmerkur þess efnis að Kaupmannahöfn eigi landsvæði og byggingar Kristjaníu. Virkisveggurinn, sem nú skýlir Kristjaníu og þar áður Kaupmannahöfn, er engin vörn gegn þeim síðarnefndu núna í umsátri þeirra um Kristjaníu. Þetta gerist núna vegna þess, fremur en þrátt fyrir, að margra mati, að Kristjanía er orðin ein stærsta tekjulind ferðamannaiðnaðarins í Kaupmannahöfn – tvöfalt stærri en Litla hafmeyjan. Fríríkið dregur fleira fólk til sín en Litla hafmeyjan, Nýhöfn og krúnudjásnin samanlagt, og augljóst er að nú á samdráttartímum hafa borgaryfirvöld þeim mun meiri hagsmuni af því að tryggja sér skatttekjur af starfseminni. Þar eru óbeinar tekjur af ferðamannastraumi sem munu glatast þó ekki teknar inn í reikningsdæmið, enda er erfitt að mæla hversu miklar þær eru.

Ríkisráð Kristjaníu hefur gefið út yfirlýsingu í kjölfar dómsins, þar sem áréttað er hlutverk fríríkisins innan Kaupmannahafnar, og þær kröfur eru gerðar að samfélagsgerðin verði virt. Kröfurnar eru eftirfarandi, í lauslegri þýðingu minni:

1. Það er mikilvægt að Kristjanía klofni ekki eða einangrist. Það er ekki hægt að fjarlægja horn hér, hvað þá heilt hverfi þar, og kalla það sem eftir er Kristjaníu. Hverjum eða hverju gætum við enda fórnað? Fyrsta krafan er þar af leiðandi að Kristjanía skuli varðveitt í sinni núverandi heild.

2. Vegna miðlægrar stöðu og náttúrufegurðar er hverfið eftirsótt til íbúðar. Komi fasteignir til tals hérna mun fjölbreytnin fara forgörðum. Í staðinn mun hér búa ríkt fólk ásamt öðru ríku fólki. Við höfum þegar næg ríkramannahverfi fyrir hina fáu. Húsnæði Kristjaníu þarf að vernda gegn fjármagnsvæðingu.

3. Það eru ekki bankabækur eða ævilangir biðlistar sem skulu ákvarða hver fær að flytja hingað. Í Kristjaníu geta allir sótt um laust húsnæði á jafnræðisgrundvelli. Þá eru það íbúarnir sem saman leggja mat á hvaða umsækjandi hæfir best húsnæðinu. Það er að sjálfsögðu á hreinu að Kristjanía skal viðhalda fjölbreyttri íbúasamsetningu, og þar af leiðandi verður ekki undan því vikist að Kristjanía skal halda eftir réttinum til stjórnar leigumarkaðarins.

4. Hið sama gildir um skipulag Kristjaníu, fyrirtækjastjórn, stofnanir og menningarlíf, íbúalýðræði og margt fleira, sem þróast hefur sjálfstætt í fríríkinu. Nýsköpun og hið óhefðbundna þrífst hérna vegna þess að hér eru margir aðrir möguleikar til tjáningar. Hverfi það, þá er Kristjanía þegar horfin. Það er því algjörlega nauðsynlegt að Kristjanía haldi sjálfstjórn.

5. Það leiðir af sjálfu að einkenni Kristjaníu er hennar sérstaka stjórnskipan, þar sem hver tillaga er ákveðin með fullu samþykki íbúa. Hið beina íbúalýðræði stendur í beinu samhengi með sjálfstjórninni, sem stuðlar að virku lýðræði og beinni þátttöku íbúa. Þegar allt er ákveðið einróma býr einstaklingurinn við vernd gegn meirihlutanum og allir neyðast til að hugsa í heildstæðum lausnum í stað beinna meirihluta.

6. Sjötta og síðasta atriðið er að Kristjanía skal standa vörð um jafnræðislýðræðið.

Framhaldið
Hvað gerist næst er engum einum ljóst fremur en þeim næsta. Borgin samþykkti að selja fríríkinu eina byggingu fyrir eina krónu, andvirði 21.43 íslenskra króna á núverandi gengi, og verið er að vinna að því nú að koma af stað söfnun meðal íbúa og velunnara svo unnt verði að kaupa upp allt fríríkið af borginni. Niðurstaða dómsins er þó skýr hvað það varðar að fasteignaeigandi, í þessu tilviki fríríkið Kristjanía, sjái hún sér fært að kaupa sjálfa sig, mun greiða fasteignagjöld af því húsnæði sem hún eignast og því landsvæði sem húsnæðið stendur á, svo leiguverð mun óhjákvæmilega hækka frá hinum hefðbundnu 1800 krónum á mánuði – og það gæti reynst mörgum Kristjönum erfitt að mæta aukinni greiðslubyrði.

Þetta er þó það eina sem dómurinn segir: að eignarréttur á landsvæði og fasteignum tilheyri Kaupmannahafnarstifti, svo fjárhagslegur ávinningur af hálfu borgarinar verður aldrei mikill, sama þótt hún kreisti úr fríríkinu hvern einasta aur sem hún getur. Spurningin er því sú hvort minni hagsmunir séu teknir fram yfir hina meiri, þar sem meiri fjármunir munu óhjákvæmilega glatast verði sjálfstjórn hrifsuð af Kristjönum. Vonir standa til að unnt verði að kaupa það húsnæði sem þegar stendur innan fríríkisins, en þar sem landið er nú opinberlega í eigu borgarinnar er henni í lófa lagið að nýta sér rétt sinn hvenær sem henni sýnist til að negla niður einsog örfáar byggingar og reisa þar hótel eða hvað sem löngunin stendur til. Þótt vonin lifi í hjörtum þeirra eittþúsund manneskja sem búa í Kristjaníu liggur þó nokkuð ljóst fyrir að landsvæðið sjálft er afar dýrmætt, og að hafi borgaryfirvöld ekki svifist einskis hingað til í því markmiði sínu að endurheimta það, þá muni þau gera það senn. Og höggið verður þungt. Ekki aðeins fyrir Kristjaníu, heldur Kaupmannahöfn einnig.

Kristjanía hefur fyrir löngu aflað sér tilveruréttar, og ekki er til ein einasta ferðahandbók sem ekki nefnir hana sem sérlega áhugavert kennileiti „í Kaupmannahöfn“. Þar eru veitingastaðir sem hafa mánaðarlangan biðlista eftir borði, og hafa haft síðastliðin 20 ár, til að mynda Spiseloppen – einn þekktasti, og að sögn besti, veitingastaður í Danmörku. Margir ferðamenn koma þangað gagnvert til að sjá fólk reykja hass úti á götu (eða kaupa sér sjálfir) og verða ekki fyrir vonbrigðum. Svo setjast þeir inn á Woodstock og drekka heimabruggaðan Kristjaníubjór og ræða við skringilegt heimafólkið. Þar er súpueldhús á aðfangadag þar sem allir eru velkomnir, sama hvort þeir eru ríkir eða fátækir, og það kostar ekki krónu. Kristjanía liggur auk þess steinsnar frá þinghúsinu, Kristjánsborg, svo hún er í alfaraleið frá Strikinu. Það tekur ekki nema 10 mínútur að ganga þangað frá Amagertorgi. Það er nákvæmlega þetta, þetta sérstæða fríríki, sem ferðamenn jafnt sem heimafólk sækir svo gjarnan í, nokkuð sem gerir Kaupmannahöfn einstaka: tilraun til anarkísks samfélags innan skandinavísks „velferðarríkis“, sem virkað hefur í 40 ár, ein stærsta tekjulind ferðamannaiðnaðar Kaupmannahafnar – vilji maður ræða peninga í þessu samhengi – nokkuð sem allir ættu að geta verið stoltir af.

Leiðarlok – nema við veljum annað
Það er merkileg tilhugsun að árið sem ég fæddist var lýðveldið Ísland jafngamalt og Kristjanía er nú. Þegar ég ferðaðist einu sinni sem svo oft áður til Kaupmannahafnar, í lok janúar 2009, og gekk út af neðanjarðarlestarstöðinni við Kristjánshöfn spurði ég vegfarendur hvort þeir gætu vísað mér á Prinsessugötu, þar sem ég átti að dveljast. Fyrstu þrír viðmælendur mínir eða svo þóttust ekkert vita hvar gatan væri, svo ég reyndi að finna hana sjálfur, og gekk handan við hornið frá stöðinni. Þar var Prinsessugata. Ég furðaði mig á þessu þar til mér var síðar sagt að Kristjanía lægi um 400 metra í norðaustur frá húsinu mínu, við sömu götu. Þar var þá komin skýringin. Það eru einfaldlega alltof margir sem vilja ekkert af þessu vita, skammast sín, jafnvel. Sama hversu skítlega Ísland hegðar sér á alþjóðavettvangi virðast þó fáir vera til sem skammast sín fyrir það. En nú er kominn tími til að allir láti sig málið varða. Núna þurfa allir að vita af Kristjaníu, og skammast sín ekki fyrir, og sömuleiðis þurfa allir að leggja hönd á plóg svo unnt verði að bjarga því sem bjargað verður.

Til er fræg, og sumpart klisjukennd, saga af manni sem hjálpaði engum þegar nasistar útrýmdu smámsaman heilu þjóðfélagshópunum úr samfélaginu. En hann sagði aldrei neitt, vegna þess að honum fannst það ekki snerta hann. Loks þegar þeir sneru sér að honum hrópaði hann hástöfum, en þá var enginn eftir til að hjálpa honum.

Nú er tíminn til að bjarga Kristjaníu, og það krefst þátttöku núna en ekki síðar, því það verður ekkert síðar. Virkisveggurinn stóð vissulega af sér marga hildina, en hann heldur sér ekki sjálfur þegar ráðist er á hann innan frá.

– Birtist fyrst á Smugunni þann 23. febrúar 2011.