Tækifæri til breytinga?

Nú þykir ýmsum sem blikur séu á lofti í dönskum stjórnmálum og að sá möguleiki sé nú fyrir hendi að vinstristjórn verði mynduð að kosningum loknum. Búist er við því að Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra, boði senn til kosninga og að þær verði haldnar í vor fremur en síðar á árinu, sem jafnframt væri taktískt besta útkoman fyrir laskaða ríkisstjórnina sem vandséð er hvort lifað gæti fram á haust.

Einsog ég hef getið í fyrri pistlum mínum samanstendur ríkisstjórnin af Venstre og Konservative Folkeparti, með Dansk Folkeparti sem hækju – sem aftur hafa óspart nýtt sér oddasæti sitt til að troða ýmsum umdeildum málum gegnum þingið. Eftirmaður Lene Espersen í formannssæti Konservative, Lars Barfoed, lýsti hinsvegar nýverið yfir að flokkurinn myndi ekki undir nokkrum kringumstæðum starfa með DF að loknum kosningum. Í sama streng tók Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og formaður Venstre, og bætti við að hann væri í engum vafa um að stjórnin stæði eftir sem áður sterk eftir kosningar án stuðnings DF.

Nú hefur Løkke hingað til ekki verið reyndur að mikilli athyglisgáfu, nema þess þá heldur að um innihaldslaust skrum sé að ræða. Fólk getur sjálft gert upp við sig hvor möguleikinn er líklegri, en hitt er dagljóst að þessi draumaríkisstjórn þeirra nafna mun ekki líta dagsins ljós einsog staðan er orðin.

Þótt áreiðanlega megi rekja lengri aðdraganda að tilvistarkreppu ríkisstjórnarinnar mætti segja að vandræðin hafi hafist þegar fyrrum flokksformaður Konservative, Lene Espersen, neyddist til að biðjast afsökunar á því að hafa tekið fjölskyldufrí á Mallorca framyfir fund með ráðherrum Bandaríkjanna, Kanada, Grænlands og Rússlands síðastliðið sumar, þar sem rædd var framtíð, landhelgi og skipting á því hafsvæði sem nú er að opnast í norðurheimskauti – málefni sem skiptir Grænland og þar með Danmörku gríðarlegu máli, ekki síst vegna olíuhagsmuna.

Ekki leið á löngu áður en spjótin beindust aftur að Espersen fyrir að hafa blákalt logið að þinginu til að breiða yfir grímulausa spillingu forvera síns í embætti heilbrigðisráðherra, Lars nokkurs Løkke, núverandi forsætisráðherra. Løkke, sem aðeins örfáum mánuðum áður hafði varið Espersen gagnrýni, lýsti þá yfir að sér þætti Espersen bera skyldu til að biðja þingið afsökunar – þótt ekki væri þetta smámál nú afsagnarsök. Þegjandi og hljóðalaust tók hún upp hanskann fyrir Løkke, afsakaði sig að endingu fyrir þinginu og lét gera sig að blóraböggli í einu stærsta spillingarmáli Danmerkur á síðasta áratug.

Þrautagöngu Lene Espersen var þó ekki lokið. Í desemberlok kallaði Løkke hana á fund án samráðs við þingflokkana þar sem þau sættust á efnisatriði frumvarps hans um afnám eftirlauna og hækkun lífeyrisaldurs. Þingflokkur Konservative varð snarhoppandi brjálaður þar sem frumvarpið, sem í fyrsta lagið samrýmist ekki stefnu flokksins að þeirra sögn (um það má efast), var í öðru lagi samþykkt án samráðs við samstarfsflokkinn af formanni sem í þriðja lagi hafði ekkert umboð frá sínu baklandi. Afsagnar hennar var krafist, og því varð hún við. Þannig tókst Løkke að spila á Espersen einsog hörpu trekk í trekk í glæsilega fléttuðum spuna til að dreifa athyglinni frá eigin flokki yfir á samstarfsflokkinn; meðan ófá hneykslismál hafa skekið Konservative undanfarið ár ætlar Venstre að komast undan vetri með nokkuð hreinan skjöld, jafntíðis því að þeirra umdeildustu mál ætla að verða að veruleika. Stríðsyfirlýsing verkalýðshreyfingarinnar á hendur Løkke vegna eftirlaunafrumvarpsins virðist hafa koðnað niður í fæðingu, og það er von hans að sú gagnrýni sem hann verður fyrir vegna þess muni verða gleymd þegar líður að kosningum.

Nýr flokksformaður Konservative, Lars Barfoed, er aftur hæstánægðursjálfsagt með sína stöðu við hásæti nafna síns – en hann á eftir að vinna sér inn traust samflokksmanna sinna sem margir hverjir eru æfir, svo bakland formannsins er eftir sem áður óljóst. Þeirri atburðarás sem nú hefur verið hrint í gang verður nefnilega ekki auðveldlega beint inn á beinni brautir. Nýverið varð þingflokkur Konservativetil dæmis allt í einu einhuga um að andmæla harðneskju stigakerfisins sem Venstre leiddi í lög og vill nú breyta því svo þúsundum verði ekki vísað úr landi að ósekju, á „ómanneskjulegum grundvelli“ einsog það var orðað. Venstre undra sig á gagnrýninni og harðneita að breyta kerfinu, jafnvel þótt það þýði að fólki sem búið hefur í Danmörku í áraraðir verði nú gert að yfirgefa landið hið snarasta.

Meðan ljóst er að samstarfsflokkur Venstre styður nú ekki tvö umfangsmestu málefni ríkisstjórnarinnar á þessum vetri að óbreyttu, hugsa vinstriflokkarnir sér gott til glóðarinnar. Sosialistisk Folkeparti og Socialdemokraterne eru þegar farin að gera með sér málefnaskrá og Enhedslisten fylgir þeim eftir með nauðsynlegu aðhaldi. Á feminískum grundvelli hyggjast SF og S til að mynda leggja bann við vændi og nektardansstöðum, einnig þar sem þeim þykir sýnt að núverandi löggjöf sé öll á kostnað kvenna í neyð og geri þar með ekkert til að draga úr vandamálinu. Þá hafa flokkarnir kynnt tillögur sínar í skattamálum, sem Enhedslisten krefst breytinga á ef koma eigi til stuðnings þeirra á þingi. Þá hugsar hinn kaldhæðnislega nefndi hægri-við-miðjuflokkur Radikale Venstre sér gott til glóðarinnar einnig og gerir nú hosur sínar grænar fyrir Sósíaldemókrötum sérstaklega.

Ef við treystum stjórnmálamönnum fyrir eigin afstöðu mætti draga upp myndina af pólitíska landslaginu þannig, einsog sakir standa, að aðeins einn möguleiki sé á hægristjórn eftir kosningar: draumastjórn Larsanna tveggja, Konservative Folkeparti og Venstre. Sú stjórn verður þó áreiðanlega aldrei mynduð nema með stuðningi eða aðild Dansk Folkeparti, eða flokka á borð við Radikale Venstre sem gætu í anda slíkra framsóknarflokka vel sveiflast langt inn á hægri vænginn. Möguleikar á stjórnarmyndun á vinstri vængnum eru fleiri: Socialdemokraterne og Socialistisk Folkeparti, með stuðningi eða aðild Enhedslisten annarsvegar, eða Radikale Venstre hinsvegar – þar sem fyrrnefndi neitar að starfa með síðarnefnda. Þá neita allir vinstriflokkarnir sömuleiðis að starfa með DF. Auk þessa benda sumir á hina ýmsu smáflokka sem mögulegar hækjur, en það held ég að fáum muni lítast sá kostur vel að mynda veikburða fjölflokkastjórn.

Þótt blikur séu nú á lofti og vel megi hugsa sér að samstarf náist á vinstri vængnum eru þó enn margir sem hrista hausinn yfir bjartsýninni. Hafi núverandi stjórnarflokkar þá möguleika eina að gefa eftir eða halda völdum með hjálp nasistanna í Dansk Folkeparti, þá muni þeir að sjálfsögðu svíkja loforðið og hoppa í sæng með nasistunum. Það kann því sitthvað að vera til í þeim orðum Piu Kjærsgaard, formanni DF, þegar hún aðspurð hleypti í brýn og svaraði því til að það væri ekki undir stjórnarflokkunum komið hvort DF tæki þátt í ríkisstjórn eða ekki – þangað færu þau nú bara samt, hvort sem samstarfsflokkunum litist það betur eða verr!

Það sýnist mér í öllu falli munu verða tilfellið ef hér verður áfram hægristjórn við lýði að völd Piu Kjærsgaard muni færast í aukana, svo ábyrgð kjósenda er síst minni nú á þessum tímamótum en áður. Stærsti möguleikinn á vinstrivængnum kann svo aftur að verða þriggja flokka stjórn Sósíaldemókrata, SF og annaðhvort Radikale Venstre eða Enhedslisten. Enn er þó fullsnemmt að spá fyrir um framvindu mála þar sem hið pólitíska landslag er síbreytilegt milli vikna og fylgið rokkar milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðu. Miklar vonir eru bundnar innan Konservative við nýjan flokksformann og standa þær helst til að hann nái að rífa upp fylgið eftir stormasamt kjörtímabil og leiti aftur í gömlu gildi flokksins – burt frá þeirri hugsjónasölu sem farið hefur fram undanfarin ár. Hann, ásamt Løkke, á þó við ramman reip að draga þar sem báðir tóku við embætti á miðju kjörtímabili, og hefur hvorugur því nokkurt umboð kjósenda flokkanna til forystu innan ríkisstjórnarinnar.

Nú fá kjósendur á hinn bóginn loksins tækifæri til að leiðrétta þann óskapnað núverandi ríkisstjórnar sem áður var danska velferðarkerfið. Enn getur brugðið til beggja vona, en enda þótt erfitt sé að segja til um hvernig fer að endingu er þó ljóst að kosningarnar í vor verða með áhugaverðasta móti, og að fréttaritari Smugunnar í Danmörku verður að sjálfsögðu með puttann á púlsinum.

Birtist fyrst á Smugunni þann 17. febrúar 2011.

Íslensk tunga og börn hennar

Sem íslenskufræðingi þykja mér athyglisverð tvö þingmál sem Árni Johnsen hefur verið í forsvari fyrir undanfarnar sex vikur. Hið fyrra er þingsályktunartillaga lögð fram af fulltrúum allra flokka skömmu fyrir miðjan desember, með Árna að frummælanda,sem snýst um að stofnað verði prófessorsembætti við Háskóla Íslands kennt við Jónas Hallgrímsson „með vörn og sókn fyrir íslenska tungu að meginmarkmiði.“ Í greinargerð með tillögunni sagði Árni að „íslensk tunga sé ankeri íslensku þjóðarinnar, lykillinn að sjálfstæðri menningu og þjóðerni.“ Þar segir ennfremur:

Enn andar suðrið sæla af tungutaki Jónasar og það er mikilvægt að virkja þessa auðlind inn í hjartslátt þjóðarinnar í starfi og leik. Einn af mörgum möguleikum er sá spennandi kostur að Háskóli Íslands skapi rúm um borð í móðurskipinu fyrir prófessorsembætti tengt nafni Jónasar Hallgrímssonar, prófessorsembætti sem hefði það markmið að fylgja íslenskunni áfram með reisn og styrkja íslenska ljóðrækt.

Það sem stendur upp úr hér er ekki að mínu viti kreddufullur þjóðernisrembingurinn, oflátungsfullt orðalag Árna eða fábjánalega banal tilvísun í Ég bið að heilsa, heldur það að Árni virðist ekki gera sér grein fyrir viðfangsefnum málfræði. Málfræði er sú vísindagrein sem gerir samanburð á málfræði skyldra tungumála, rannsakar sögulegar málbreytingar, málfræði og málnotkun nútímamáls, sem einmitt að stærstum hluta snýst um þær málbreytingar sem við sjáum á tungumálinu á líðandi stund. Prófessorsembætti sem stuðla ætti að vernd íslenskrar tungu væri þar með embætti sem gengi gegn öllum vísindalegum vinnubrögðum og væri þ.a.l. ekki akademískt. Ennfremur er óskiljanlegt hvernig sérstakur prófessor ætti að geta styrkt íslenska ljóðrækt. Orðið sjálft, ljóðrækt, hljómar einsog týpískt rómantískt og nasjónalískt þvarg um snilli skáldsins, bara einsog flest það sem hefur verið skrifað um Jónas Hallgrímsson raunar.
Prófessorar hafa hinsvegar akademískum skyldum að gegna, sem og kennsluskyldu, og það bryti gjörsamlega í bága við faglegan heiður íslenskuskorar að hleypa einhverjum Eiði Svanberg inn í kennslustofur til að bulla sinn fasisma um að eitt megi en annað ekki. Hverslags vísindaleg vinnubrögð stúdentar ættu að læra af fordæmingu nýja þolfallsins eða „þágufallssýki“ virðist ekki skipta Árna neinu máli, og öll framtíðarþróun tungumálsins er sett til hliðar. Ég gef honum þó að slíkt embætti væri vel nefnt eftir Jónasi Hallgrímssyni og öðrum forkólfum uppvakningar þeirrar gullaldaríslensku sem einmitt var ekki töluð á 19. öld – heldur skrifuð, en aldrei töluð, á 12. öld. Hans helsti samverkamaður í þeim geira var Konráð Gíslason, og hvet ég alla sem líta upp til þeirra kumpána til að prufa að lesa bréf Konráðs til Jónasar. Þau eru fullkomlega óskiljanleg þeim sem ekki þekkir 19. aldar íslensku, latínu og dönsku. Meiri málverndin á þeim bænum.
Þá að hinu atriðinu, sem er frumvarp Árna og Sigmundar Ernis Rúnarssonar þess efnis að Madina Salamova, sem til stendur að vísa frá Noregi, verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Hluti af rökstuðningnum er sá að Madina tali svo ægilega góða norsku þrátt fyrir að vera útlendingur – enda þótt fram komi í sama þingskjali að hún hafi búið í Noregi frá blautu barnsbeini – og að hún hafi „mótast fyrst og fremst af siðum norræns samfélags“, sem væntanlega þýðir að hún er ekki einhver grábölvaður múslimi heldur siðmenntuð manneskja með öll þau reiðinnar býsn af kristnum og norrænum gildum í farteskinu sem Árna eru svo hugleikin. Þá segir:

Íslendingar leggja höfuðáherslu á að verja jafnt sjálfstæði einstaklinga sem þjóða og það er mikið kappsmál fyrir Íslendinga að verja norræna samfélagið, menningu þess, tungu, drifkraft og kærleika. Mál Marie Amelie, eins og hún kallar sig, er sérstakt ef ekki einstakt og þarf að meðhöndlast sem slíkt. Hún talar einstaklega fagra norska tungu af útlendingi að vera. Íslendingar vilja leggja sérstaka áherslu á að verja norska tungu sem barn íslenskrar tungu. Íslenska tungan hefur haft þrek til að standa af sér alvarleg áhrif annarra tungumála á síðustu 1000 árum á sama tíma og önnur norræn tungumál hafa tekið stakkaskiptum.

Ég veit ekki hvað þetta segir um mig sem Íslending þar sem ég legg enga sérstaka höfuðáherslu á þessi miklu kappsmál, en fyrir utan óþolandi þjóðrembuna sem þarna kemur fram, kemur Árni, auk Sigmundar Ernis, aftur upp um vanþekkingu sína á málvísindum. í fyrsta lagi er íslenska ekki norrænt móðurtungumál, það tungumál er frumnorræna og hún er fyrst og fremst varðveitt í rúnaristum. Hér er smá stikkprufa af Gallehushorninu frá því um 400 e.Kr.:

ek hlewagastir holtijaR horna tawido

Svo lík er nú sú fortunga. Á 9. öld, eftir að frumnorræna hafði þróast út í það sem Íslendingar í hroka sínum gjarnan kalla forníslensku en aðrar norrænar þjóðir kalla fornnorrænu, fluttu margir Norðmenn, auk að einhverju leyti Svía og Dana, búferlum og settust að á Englandi, Írlandi, Hjaltlandseyjum, Færeyjum, Íslandi og víðar. Þannig greindust vestnorrænu málin að og blönduðust misjafnlega mikið tungum annarra þjóðabrota, og enda þótt íslenska hafi breyst minnst allra þessara mála síðan á þjóðflutningatímunum, að talið er, þá gerir það hana ekki fremur en færeysku að neinni formóður norrænna mála. Ritöld hefst á 12. öld og má segja að málin séu enn innbyrðis læsileg um það leyti (þótt ekki þori ég að fullyrða um framburð að svo stöddu), en þegar á 13. öld hafa austnorrænu málin tekið miklum stakkaskiptum:

Úr lögum Vestgota (fornsænska):
Varþær lekære barþær, þæt skal e ugilt varæ. Varþær lekari sargaþær, þen sum með gighu gangar æller meþ fiþlu far æller bambu, þa skal kvighu taka otamæ ok fytiæ up a bæsing. Þa skal alt har af roppo rakæ ok siþæn smyria. Þa skal hanum fa sko nysmurþæ. Þa skal lekærin takæ quighuna um roppo, maþær skal til huggæ mæþ hvassi gesl. Giter han haldit, þa skal han havæ þan goþa grip ok niutæ sum hundær græs. Gitær han eigh haldit, havi ok þole þæt sum han fek, skam ok skaþæ. Bidi aldrigh hældær ræt æn huskonæ hudstrukin.
Úr skánskum lögum (forndanska):
Far man kunu ok dør han, før en hun far barn, ok sighir hun ok hænne frænder at hun ær mæþ barne, þa skal hun sitta i egen bægia þerre uskiftø tiughu uku ok til se mæþ sinum ueriændæ, ær hun æi mæþ barne ok ær þær godre kuina uitnæ til, þa skiftis egn þerræ, hus ok bolfæ ok køpe iorþ, annur iorþ gangæ til rætræ arua.

Forníslenskan sjálf er svo aftur ekki nándar nærri það lík nútímaíslensku að ekki séu lagðir undir hana tveir viðamiklir áfangar á BA stigi við íslenskuskor og annað eins á MA stigi. Enda geta Íslendingar ekki lesið handritin, einsog gjarnan er sagt – ekki án þjálfunar.
Það liggur því fyrir að norska er ekkert barn íslensku heldur öfugt ef eitthvað er, né sé ég að Íslendingar sjái sér nokkra hagsmuni í að vernda hana, enda til hvers að vernda það sem sér um sig sjálft? Íslenska hefur ennfremur ekki haft „þrek til að standa af sér alvarleg áhrif annarra tungumála á síðustu 1000 árum á sama tíma og önnur norræn tungumál hafa tekið stakkaskiptum“, einsog Árni og Sigmundur halda fram, heldur þvert á móti. Örustu breytingarskeið íslensku í seinni tíð voru 19. og 20. öld og allar líkur eru á því að sú 21. verði þeirra skæðust – rannsóknarniðurstöður félaga míns úr íslenskunni, Antons Karls Ingasonar, leiða raunar í ljós að þolfallið muni að líkindum hverfa úr íslensku á næstu 30 árum.
Því tungumáli sem talað var á Íslandi á 19. öld var aftur breytt með beinum aðgerðum og málvernd sem leitaði í klassískan uppruna ritaðrar íslensku, 12. aldar sagnir, og augljóst er með fyrrnefndri þingsályktunartillögu Árna hvað það er sem honum gengur til með þessu. Hvað varðar erlend áhrif á íslensku þarf ekki að leita lengi fanga áður en við stöndum uppi með fangið fullt. Forsendur Árna fyrir vernd íslensku jafnt sem norsku eru því algjörlega út í hött. Tungumálið er það sem fólkið talar, ekki það sem Árni vill að það tali, og tungumál taka breytingum. Þau tungumál sem ekki taka breytingum eru dauð tungumál. Ekki tala Grikkir forngrísku, eða hvað?
Að íslensk tunga sé „ankeri íslensku þjóðarinnar, lykillinn að sjálfstæðri menningu og þjóðerni“ er kannski rétt að takmörkuðu leyti, en aðeins upp að því marki sem tungumálið er frjálst, en ekki bundið í klafa einhverrar forræðishyggju sem heimtar að segja fólki til um hvernig það á að tala. Árna til ennfrekari upplýsingar má benda á að stafsetning var ekki samræmd á Íslandi fyrr en árið 1918, og langt fram eftir 20. öld skrifaði hver maður einsog honum sýndist – og það sama á við um Jónas Hallgrímsson. Það gæti Árni sjálfur séð ef hann liti við á Handritadeild Landsbókasafnsins. „Reglur“ íslenskunnar eru líka alltaf að breytast, t.a.m. þegar z var aflögð í íslensku árið 1973, nokkuð sem félagar hans á Morgunblaðinu virðast ekki fremur hafa tekið eftir en Árni.
Að því sögðu er mér ekki stætt á öðru en að tækla þessa ömurlegu þjóðernishyggju sem skín í gegnum málflutning Árna Johnsen. Þeir Sigmundur Ernir bera það upp á Norðmenn að þeim sé hjartahlýja í blóð borin, sem er eins fráleitt og móðgandi og því var ætlað að vera hrós. Þrátt fyrir meðfædda hjartahlýju eru Norðmenn þó ómanneskjulegir og ónútímalegir að vilja víkja Madinu úr landi – undir þann part get ég þó tekið. Þessi mótsagnakenndi þjóðernisstimpill fær svo yfirhalningu í lok tillögunnar þegar gefið er í skyn að Íslendingar séu betri en Norðmenn, og þeim beri að taka við Madinu, vegna þess að allar aðrar þjóðir skorti skilning á orðinu vinarþel!
Það er nú meiri bannsettur hrokinn sem vellur þarna upp, og kannski ekki skrýtið að menn líti með svo miklum yfirburðum á sjálfa sig þegar öll þeirra sjálfsmynd byggist á rangtúlkunum, misskilningi og þeirri þjóðrembu sem Fjölnismenn börðust svo heitt fyrir að heilaþvo Íslendinga með. Það skýtur skökku við að kalla aðra ónútímalega þegar maður sjálfur er geirnegldur með heilann á miðöldum sveiflandi rassgatinu í núinu.
Þá legg ég heldur til að Árni Johnsen og Sigmundur Ernir setjist aftur á skólabekk með það fyrir augum að læra málfræðina upp á nýtt. Fyrst þeim er svo tíðrætt um „íslenska tungu“ geta þeir félagar byrjað á Íslenskri tungu, fyrsta bindi af þrem. Þar kemur sitthvað fram um forsögu íslensku sem þeim, og sér í lagi Árna, virðist einstaklega illa tamt að tileinka sér. Það sakaði kannski heldur ekki ef Árni kynnti sér Íslandssöguna sjálfa upp á nýtt, svo hann sæi nú endanlega að fortíðarljóminn er eftir allt saman kannski ekkert svo glæsilegur þegar nánar er að gætt, og að Ísland er sannarlega ekki best í heimi.
– Birtist fyrst á Smugunni þann 3. febrúar 2011.

Hvað vitum við um söguna? Íslandssagan í gagnrýnu ljósi

Ég hugsa að það sé óvinsælt að endurbirta efni af Hugsandi, svo ég tengi bara héðan í grein sem ég var að birta þar:

§ Fyrsti hluti.
§ Annar hluti.

Opið er fyrir athugasemdir á báðum stöðum ef einhver vill rífast.

– Þess má geta til gamans að þessi færsla er skrifuð um borð í skipi úti á Kattegat.

Af skáldum og öðrum ekkisens óþarfa

Ég fann þetta óvænt í tölvunni minni. Þessi grein átti að birtast í Tíuþúsund tregawöttum í ársbyrjun 2009 minnir mig, en það hefti var aldrei gefið út. Fannst allteins gott að henda henni inn hérna þar sem efni hennar á jafnmikið erindi nú og þá.

1. Skáldið í ljóðinu
Mér er minnisstætt þessa dagana ljóð sem Hallur Þór Halldórsson las upp á ljóðakvöldi Nykurs á gamla Rósenberg sumarið 2006, þar sem ljóðmælandi neitar því að hann sé skáld, en er engu að síður hundeltur og úthrópaður sem skáld útí gegnum ljóðið af lattédrekkandi menningarvitum með póststrúktúralíska ofgreiningarþörf. Mér er það sérstaklega hugleikið vegna þess að ég hef komist að þeirri prívat-en-ekki-svo-prívatniðurstöðu að orðið skáld sé sæmdarheiti sem skáldum sé lítill sómi í að hengt sé á þau, og enn minni sómi í að hengja á sjálf sig. Enda eru þau ekki skáld.

Íslensk orðabók í ritstjórn Marðar Árnasonar skilgreinir skáld þannig:

skáld –s, -HK 1 bókm. sá sem yrkir kvæði > ljóðskáld / listaskáld / kraftaskáld ● stundum um þann sem semur skáldverk í óbundnu máli.

Ég veit svosem ekki hvað kraftaskáld er, né vil ég vita það, en nú er rétt að geta þess áður lengra er haldið að orðabækur eru hvorki upphaf né endir neins. Þær eru tilraun til lýsingar nútímamáls, háðar gildismati hvers og eins ritstjóra, og geta því ekki með nokkru móti talist til fræðirita. Til dæmis þekkist dæmi þess að ritstjóri hafi skilið útundan orð yfir fylgismenn knattspyrnuliðs sem hann hafði óbeit á, bara svona af því að. En höldum okkur við efnið.

Ef skáld er „sá sem yrkir kvæði“ þá á sú skilgreining við fæsta þá höfunda íslenska, núlifandi og mér kunnuga, sem semja ljóð. Ég hafna því semsagt að hægt sé að „yrkja“ óbundin kvæði, nema kannski að maður sé Matthías Johannessen, í fyrsta lagi af því kvæði í mínum skilningi er alltaf bundið í bragarhátt, í öðru lagi vegna þess að sjálf sögnin yrkja er upphafin gagnvart andlagi sínu – kvæðinu, ljóðinu – og felur í sér rómantískan fornaldarljóma til verknaðarins, samanber að yrkja sína jörð, að rækta sína trú og svo framvegis. Að yrkja er háalvarlegur, upphafinn og andlegur gjörningur, og það felst í orðsins hljóðan að bera eigi virðingu fyrir þeim sem stunda það að yrkja, ekki síður en bóndanum sem óhreinkar hendur sínar ekki aðeins til að lifa af, heldur vegna þess að það er dyggð; að rækta eitthvað svo það vaxi og dafni, standi í beinu sambandi við náttúruna, meitlað í stein, líkt og það hafi alltaf verið þarna, sjálf dýrðin orðum klædd. Þetta er sérkennileg hugmynd, og skyndilega finnst mér skammur vegur þaðan til einkunnarorða fasista, stétt með stétt, eða til hamars og sigðar, en göngum ekki alveg svo langt, ekki strax allavega. Þetta snýst allt um hugljómun æðri manninum, guðlega náð sem kölluð er innblástur, sammannleg gildi og fagurfræði, og það bara gengur ekki.

Höfum það á hreinu að kveðskapur bundinn bragarháttum er að mestu liðinn hjá, búinn, kemur tæpast aftur nema í hækum skúffuskálda og ferskeyttum tækifærisvísum hagyrðinga í kaffiboðum, flokksþingum og fermingarveislum (já, mér þykja hagyrðingar leiðinlegir). Líklega hefur Mörður rétt fyrir sér að stundum sé talað um höfunda óbundinna verka sem skáld (þá á ég við höfunda skáldsagna, því það er alveg á hreinu að höfundar óbundinna ljóða eru jafnan kallaðir skáld), en orðið er upphafið engu að síður. Sumir titla sig ljóðskáld þess heldur, en ljóðskáld er í almennum skilningi alveg sama skáldið – og skáld eru deyjandi stétt.

2. Tálsýn snilldarinnar
Mörður skilgreinir rithöfund svona:

rit-höfundur KK ● maður sem ritar bækur, semur rit ● (einkum) höfundur skáldverka í óbundnu máli.

Ég var eitthvað að sífra þetta um daginn að mér þætti eðlilegra að vera titlaður rithöfundur en skáld – og miðað við skilgreiningu Marðar finnst mér það liggja beinast við, enda fæst ég ekki við bundið mál þótt ég kalli textana mína ljóð – þegar viðmælandi minn sagði mér að þá þyrfti ég að hafa skrifað skáldsögu fyrst. Það er vissulega hin hefðbundna skilgreining, en ofureinfölduð að vísu. Smásagnahöfundar eru rithöfundar, og örsagnahöfundar líka, að því er ég best veit. Hvenær hættir örsaga að vera örsaga og verður að ljóði – eða öfugt? Það er engin konkret aðferð til að ganga úr skugga um það, og fyrst það er ekki með góðu móti hægt að segja til um hvenær „skáld“ verður „rithöfundur“ þegar „rithöfundar“ mega stundum eða alltaf vera „skáld“ þá er ekki seinna vænna að varpa þessu draslhugtaki fyrir róða. Ekki síður í ljósi þeirrar viðurstyggilegu síðrómantísku kennisetningar að skáldum sé ætlað það hlutverk að hafa æðri hugsun til að bera en annað fólk – sem enn fyrirfinnst í orðræðu um bókmenntir þótt ótrúlegt megi virðast – frá þeim tímum er skáld ortu undir staurum í húmi nætur og rödd hins eilífa varð aldregi endurbætt í hreinskrift.

Og hvað á ég eiginlega við með því? Útskýrum þetta aðeins nánar með handahófskenndri stikkprufu úr nýjustu Bókatíðindum, af því þau eru í seilingarfjarlægð (ég ætla að vera ósanngjarn og sleppa undantekningum frá hinni almennu reglu sem hér verður dregin upp), að öllum nafngreindum ólöstuðum. Ég vil bara benda á nokkur atriði:

Í Tvítólaveizlunni stefnir Ófeigur Sigurðsson saman forneskjulegri dulúð og lostafullum viðfangs-efnum svo úr verður blanda sem skilur lesandann eftir tilfinningalega steinrotaðan, spólgraðan en þó annarlega háleitan í hugsun. Tvítólaveizlan sýnir sterk tök höfundar á óvenjulegu ljóðformi og sleipu viðfangsefni, en um er að ræða fimmtu ljóðabók Ófeigs, sem einnig hefur gefið út skáldsöguna Áferð.

Lævísi, svik og lygar eru yrkisefnin í þessari kraftmiklu ljóðabók. Af innsæi nýtir Emil refstáknið og skapar ádeilukennt verk sem hreyfir við lesendum með heildstæðu myndmáli og glöggri sýn á helstu veikleika okkar. Refur er önnur ljóðabók Emils en í fyrra sendi hann frá sér Gárungagap, sem fékk góðar viðtökur gagnrýnenda.

Út er komið heildarsafn með ljóðum Þorgeirs Rúnars Kjartanssonar sem mörg hafa ekki birst áður. Bókina prýða auk þess listaverk eftir höfundinn og níu aðra myndlistarmenn. Ljóðin spanna sárbeittustu ádeilu, dýpstu trúarinnlifun, óvægnasta níð, innilegustu ástartjáningu – og allt þar á milli. Þau eiga brýnt erindi við samtímann. Allir sem unna góðum skáldskap og listaverkum ættu að eignast þessa áhrifamiklu bók.

Ljóðabókin Svefnvindadraumar, er fimmta ljóðabók höfundar. Ljóðin spanna víðar og djúpar víddir mannlegs lífs. Lesandinn verður þess fljótt áskynja að líka hin fægðustu ljóð geta verið hrjúf og beitt, og hin fegursta mynd getur vakið eða skynjað bitur tár og djúpa sorg.
Þau eru ekki trúarljóð, en þó er trúin og höfundur hennar hvergi fjarri.

Í ljóðabókinni Vermsl er smjattað á áferð orða og náttúra þeirra rannsökuð í hliðstæðu við náttúru heimsins. Ljóðlistin er tekin alvarlegum og þungum tökum, en það er stutt í kímnigáfuna og hún liggur kannski alltaf undir niðri.
Vermsl er sjöunda ljóðabók Hrafns Andrésar. Hrafn hefur einnig komið að ritstjórn og gefið út tvær bækur með þýðingum sínum á ljóðum lettneskra skálda.

Fyrrum skorti hann næði, en nýja hlutverkið gefur Geislaskáldinu aukinn tíma. Sýn hans á tilveruna skerpist og birtist okkur í abstrakt ljóðum og rími. Hátt er hugsað og langt er leitað fanga, með bakland í fágætri reynslu.

Til að gæta sanngirni þá las ég yfir í hittífyrra og samþykkti eftirfarandi lýsingu útgefanda á bók eftir sjálfan mig:

Það eru ó! í þessari bók. Og þau eru ekki sett fram í hæðni hrútspungsins eða annarra súrsaðra kynfæra heldur í fúlustu alvöru; þau eru mælt fram vegna þess að ó! er vel fram mælanlegt og gjaldgengt til tjáningar. Þarna eru líka blóm, og hrafnar, og stjörnubjartur himinn, og sólstafir, og röðulgeislar – hellings aragrúi af fallegum fyrirbærum sem fáir skilja lengur, í raun og veru […] Hér fer fram tveimur lýsisglímum samtímis – í annarri slæst Arngrímur við hefðina með samtímann að vopni og í hinni berst Vídalín við samtímann með rómantískan kuta. Enn hefur enginn farið með sigur af hólmi, þótt á halli.

Takið þið eftir þessu? Finnst ykkur þetta eðlilegt? Ég vil ekki halda því fram að neinn glæpur hafi verið framinn, né þá heldur að drambið sé svo hátt að fallið myndi kremja líftóruna úr bókmenntunum þegar fólk fattar að fæstar ofantalinna bóka geta verið meistaraverk þó ekki sé nema tölfræðinnar vegna. En ég get ekki að því gert þótt mér finnist í meira lagi vafasamt að sérstaklega auglýsa skáldlega snilld undir því hógværa yfirskini að hún sé ætluð lesendum, því ef skáldið sjálft viðurkennir leynt eða ljóst að verk þess séu snilld – til að mynda þegar þau eru auglýst sem meistaraverk líkt og bækurnar hér að ofan – er það skáldið sem fær mærðina en ekki verkið. Setningin „sjáðu snilldartök mín á viðfangsefninu“ kallar ekki á viðbrögð um verkið heldur viðbrögð um handbragðið – snilldina sem bent var á. Verkið verður aldrei í öndvegi því það er ekki sagt „hér er verkið, legðu á það mat“ – það er þegar búið að leggja á það mat, með auglýsingu, en það er lesandans eftir að viðurkenna snilligáfu höfundarins. Og hún þarf ekkert endilega að koma fram eins og auglýst var, því auglýsingin hefur þegar skapað þann veruleika að verkið sé snilld, höfundur þess þarmeð og þarafleiðandi að það skorti eitthvað upp á hjá lesanda ef hann sér ekki snilldina, skilur ekki verkið, skynjar ekki dýptina. Höfundurinn er enda skáld, hann hlýtur að búa yfir andlegri dýpt sem almenning skortir, annarri sýn, tærri hugsun.

Og auðvitað stendur slík goðsögn ekki í neinu sambandi við annan veruleika en þann sem goðsögnin boðar með sjálfri sér: tálsýn snilldarinnar, sem er jafnhaldbær sönnun á sjálfri sér einsog maður sem stendur uppi á stól og öskrar yfir salinn að hann sé snillingur, og þeir sem kjósa að trúa á þann veruleika eru í langflestum tilvikum auðtrúa. Ég segi langflestum vegna þess að maðurinn á stólnum gæti verið snillingur, þó að öllum líkindum sé hann það ekki, vegna þess að a) þeir eru af skornum skammti og líkurnar því hverfandi, og b) sá sem öskrar ofan af stól er tæpast snillingur þótt hann vissulega kunni að vekja á sér athygli. Goðsögnin stendur einfaldlega ekki undir sjálfri sér. Það þarf trú til að viðhalda henni.

3. Konungurinn er ekki með höfuð!
Og þá komum við loksins að mergnum málsins: útgefendur reyna að skapa snillinga úr höfundum sínum svo lesendur kaupi hvaða drasl eftir þá sem er, á sama hátt og öll fyrirtæki þykjast hafa bestu vöruna, Pampers Baby Dry og Libresse með vængi. Er þá hægt að ganga að því sem vísu til dæmis að nýjasta bók Arnaldar Indriðasonar sé meistaraverk? Nei, en ef hann er konungur íslenskra glæpasagna, Yrsa er drottning og aðrir ekkert, þá er forgangsröðin komin á hreint; þegar vitundin er orðin svo gegnsýrð þeim sýndarveruleika að einhver tiltekinn höfundur sé meistari, að þú kaupir nýjustu bókina þótt síðasta hafi verið drasl, og – einsog í einu tilviki sem ég man eftir – réttlætir fyrir sjálfum þér og öðrum að hafa lesið draslið svo þú getir keypt það nýjasta, með því að það hafi nú ræst úr henni, hún hafi nú bara verið góð eftir alltsaman (þegar þú loksins náðir að klára leiðindin); þegar þetta er orðið að spurningu um höfund en ekki verk, afþreyingu andspænis list, endurtekningu á móti sköpun, þá fyrst er listin komin í voða. Þá á ég ekki við að skáld eigi að vera of fín til að viðurkenna Arnald en reisa Kiljan altari á meðan, að ljóðabækur séu eðli málsins samkvæmt listrænni og dýpri á einhvern hátt en til dæmis bækur eftir Birgittu Halldórsdóttur, af því glæpasögur séu annarsflokks bókmenntir, heldur einmitt hálfa leiðina í hina áttina: að ekkert af þessu skipti máli og það sé hreinlega ólíðandi að snilld höfunda sé rúnkað og það oft þótt þeir nái henni ekki upp.

Það er ekki alltaf höfundunum að kenna, að minnsta kosti ekki alfarið, heldur forlögum, markaðssetningu, neyslustýringu, sjálfri menningunni í kringum bókaútgáfu. En við berum öll einhverja ábyrgð þótt mismikil sé – með því að spyrna ekki við fæti – og það er þess vegna sem ég vil leggja til að rithöfundar hætti sjálfviljugir að hefja sig uppyfir lesendurna, titla sig skáld, konunga, drottningar, ástsæla, listfenga, heimila að verk sín séu auglýst sem snilld, að tök þeirra á sleipu viðfangsefninu beri merki gríðarlegs hugvits og valds yfir ólíkum stílbrigðum, lærðum vísunum og íslensku máli. Ég vil ekki í stríð við neitt nema ríkjandi hugarfar og því segi ég þetta: það nægir að tilkynna að bókin sé til, og bókinni nægir að vera til svo hún sé lesin og metin að verðleikum, hversu léleg eða góð sem hún kann að vera. Látum verkin tala gæti einhver sagt. Það er trú á konung sem skapar konung og ekkert annað, og þegar trúin þverr þarf eitthvað annað að taka við. Og það getur með endemum verið frelsisveitandi og skemmtilegt að afhausa konunga – ef ekki hreint út sagt nauðsynlegt.

– Birtist einnig á Kistunni þann 24. janúar 2011.

Fimm spor til afnáms mannréttinda – drög að úrsögn úr alþjóðasamfélaginu

Síðan ég hóf störf sem pistlahöfundur fyrir Smuguna í september síðastliðnum hef ég birt fjóra pistla, þar af þrjá um stöðu innflytjenda í Danmörku. Á þessum skamma tíma hefur ríkisstjórn íhaldsflokkanna Venstre og Konservative Folkeparti talað fyrir hverju frumvarpinu á fætur öðru sem ætlað er að skerða réttindi innflytjenda. Þau mál sem ég hef rakið í pistlum mínum eru aðeins brot af þeirri haftastefnu sem ríkisstjórnin rekur, og snýst um að halda útlendingum frá Danmörku annarsvegar, Dönum í Danmörku hinsvegar. Þar má nefna eftirfarandi mál:

1. Gettóáætlunin
Rífa á niður heilu og hálfu íbúðarhverfin í hinum ýmsu sveitarfélögum Danmerkur sem ríkisstjórnin hefur skilgreint sem gettó, þvert á mótmæli íbúa og hverfisráða (t.a.m. hverfisráð Vejlåparken í Ishøj, sem hefur ályktað gegn gettóstimpli stjórnvalda) og ráðleggingar fagráða og félagsráðgjafa, sem segja að það að færa vandamálið leysi það ekki. Hvergi í áætluninni er ráðgert að íbúar fái húsnæði annarsstaðar, og sveitarfélögin hafa lýst því yfir að alvarleg vandamál hljótist af nái áætlunin í gegn, þar sem húsnæðismarkaðurinn anni þegar ekki eftirspurn og því eigi íbúar hverfanna ekki í önnur hús að venda. Annar liður í áætluninni er að meina innflytjendum fæddum utan Evrópusambandsins að flytja í þessi hverfi, sem er hljómfegurri leið til að segja að til standi að gera þau hvítari. Áætlunin minnir að mörgu leyti á aðgerðir Suðurafrískra stjórnvalda gegn Hverfi 6 í Höfðaborg árið 1966, sem margir ættu að kannast við úr kvikmyndinni District 9.

2. Stigakerfið
Meina á fólki fæddu utan Evrópusambandsins um dvalarleyfi í Danmörku nema það uppfylli tiltekin skilyrði. Þá er það metið á grundvelli (æskilegrar) menntunar, tungumálakunnáttu og fleiri atriða sem afla því stiga. Makar fá ekki dvalarleyfi sjálfkrafa heldur. Þeir þurfa að gangast undir sömu skilyrði, og maki þeirra í Danmörku þarf hafa unnið samanlagt í tvö og hálft ár á undangengnum þrem árum og eiga 100 þúsund danskar krónur á bankareikningi sínum. Einsog ég lýsti í síðasta pistli er nánast ógjörningur að standast þessi skilyrði.

3. Akademískt vistarband
Námsmenn sem ljúka meistara- eða æðri gráðu í dönskum háskóla mega ekki starfa utan Danmerkur fyrr en að fimm árum liðnum frá útskrift. Kjósi þeir að gera svo skulu þeir endurgreiða þá námsstyrki sem þeir hafa þegið frá ríkinu. Sú upphæð sem hver og einn námsmaður kæmi til með að endurgreiða til ríkisins nemur í hæsta falli 10 ára meðalframfærslu. Það gefur auga leið að þetta er engum fært.

Í sakleysi mínu hélt ég að nú þætti ríkisstjórninni ef til vill nóg komið, enda er með þessum aðgerðum þegar búið að loka landinu fyrir „óæskilegum“ áhrifum og hindra að danskt menntafólk freisti gæfunnar utan Danmerkur, sjálfsagt samkvæmt hugarfarinu að sjaldan launi kálfur ofeldið. Í síðasta pistli minntist ég á þær tvíeggjuðu aðstæður sem hér gætu skapast þegar erlendir styrkhafar yrðu reknir úr landi að loknu námi, fyrir að uppfylla ekki skilyrði stigakerfisins, og samtímis rukkaðir aftur um námsstyrkinn samkvæmt reglugerðum sem ætlað er að halda menntafólki í Danmörku. Ríkisstjórnin virðist hafa áttað sig á þessu líka og hefur núna kynnt til sögunnar tvær aðgerðir til viðbótar:

4. Viðbót 1 – um velferð:
Innflytjendur í Danmörku geti ekki ætlast til að fá aðgang að heimilislækni, grunnskólakerfinu, örorku- eða atvinnuleysisbótum, sem og mögulega annarri grunnþjónustu, fyrr en þeir hafa greitt skatt í nokkur ár. Inger Støjbjerg, atvinnumálaráðherra, segir þetta vera viðbót við stigakerfið, sem hún segir snúast um að „allir sem geta og vilja leggja sitt af mörkum séu velkomnir.“ Frumvarpið nýtur stuðnings beggja ríkisstjórnarflokka auk Dansk Folkeparti og Liberal Alliance, svo það er næsta víst að það kemst óhindrað gegnum þingið.

Danska Starfsgreinasambandið, Dansk Industri, hefur lýst yfir áhyggjum sínum af þessum áformum, ekki vegna þess að þau séu ómanneskjuleg, heldur vegna þess að þau kunni að fæla útlendinga frá Danmörku á tímum sem þörf sé á (ódýru?) aðfluttu vinnuafli. DI segist þó samstíga ráðherra í að herða þurfi reglur. Kristnir demókratar segjast ekki munu styðja frumvarpið eða neitt sem skerðir réttindi til grunnþjónustu, enda stangist það á við stjórnarskrá. Það var þá gott að einhver mundi eftir því að það er stjórnarskrá í Danmörku.

5. Viðbót 2 – um starfsleyfi lækna:
Læknar fæddir utan Evrópusambandsins, jafnt þeir sem þegar starfa í Danmörku og þeir sem sækjast eftir því, þurfi að standast ákveðin skilyrði áður en þeir fái starfsleyfi. Meðal þeirra krafna sem gerðar verða til þeirra eftir áramót er að standast dönskupróf eins fljótt og mögulegt er. Þá þurfa þeir að standast skriflegt og munnlegt læknisfræðipróf og sitja námskeið um og standast próf úr danskri heilbrigðislöggjöf. Standist þeir þessar kröfur verður þeim boðið að starfa til reynslu í tólf mánuði á sjúkrahúsi eða heilsugæslu, þar sem lagt verður mat á getu þeirra og þekkingu. Sérfræðimenntaðir læknar þurfa að þeim tíma loknum að standast reynslutíma til sex mánaða að auki á stofu sem hentar þeirra sérfræðiþekkingu. Meðan á reynslutíma stendur skal yfirlæknir í tvö skipti fylgja lækni náið eftir við dagleg störf innan fyrstu þriggja mánaða reynslutímans, til að leggja faglegt mat á getu læknisins. Mat yfirlæknisins skal svo sent til Heilbrigðisráðuneytisins til frekari úttektar, yfirlegu og mögulegrar samþykktar, áður en læknirinn fær að taka lokaprófin. Bertel Haarder, heilbrigðisráðherra, lýsti yfir í viðtali við DR fyrir nokkru að reglurnar væru til þess settar „að Danir þyrftu ekki lengur að óttast útlenska lækna.“

Það sem helst vekur athygli við hinar nýju viðbætur við hið þegar lygilega áformasafn dönsku ríkisstjórnarinnar er stuðningurinn í þinginu. Stuðningur við lið fjögur um takmörkun á réttindum til grunnþjónustu nýtur stuðnings fjögurra flokka: Venstre, Konservative Folkeparti, Dansk Folkeparti, og Liberal Alliance. Einu mótbárur sem ég hef orðið var við koma úr óvæntri átt, frá Kristnum demókrötum. Liður fimm um starfsleyfi lækna nýtur á hinn bóginn yfirgnæfandi stuðnings í þinginu: frá Venstre, Konservative Folkeparti, Dansk Folkeparti, Socialdemokraterne, Radikale Venstre, og Sosialistisk Folkeparti. Um aðra flokka veit ég ekki, en gaman væri að fræðast um forsendur þeirra.

Hvað varðar lið 4 um velferð
Fyrst innflytjendur fá í framtíðinni ekki notið velferðarkerfisins nema þeir hafi greitt skatta í tiltekið langan tíma, má ætla að skiptinemar og aðrir erlendir nemendur í Danmörku muni í framtíðinni heldur ekki fá notið námsstyrkja frá ríkinu einsog hingað til hefur verið, og þarmeð hefur ríkisstjórnin sparað þeim þá kaldhæðni örlaganna að endurgreiða námsstyrkinn þegar þeim er vísað úr landi að námi loknu. Eitthvað virðist þó ríkisstjórninni heykjast á að setja fram samþætta aðgerðaáætlun þar sem samkvæmt Gettóplani Lars Løkke Rasmussen eru börn innflytjenda skikkuð til að sækja leikskóla með dönskum börnum svo þau læri dönsku, en samkvæmt viðbót samflokkskonu hans Inger Støjbjerg um grunnþjónustu er þeim beinlínis meinað að sækja leikskóla nema foreldrarnir hafi greitt skatt í nokkur ár. Nema þeim finnist bara svona fyndið að setja reglur sem stangast á svo innflytjendur endanlega gefist upp á að reyna að búa hérna.

Á meðan áhyggjur Dansk Industri af löggjöfinni hljóma einsog vangaveltur suðurríkjamanna við Þrælafrumvarpi Lincolns er gagnrýni Kristilegra demókrata þung og krefst allrar athygli, enda er mismunun eftir þjóðerni klárlega brot á dönsku stjórnarskránni og Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, auk þess sem stjórnmálaskýrendur velta fyrir sér hvort stefna Danmerkur í innflytjendamálum yfirhöfuð standist reglugerðir Evrópusambandsins. Stuðningur við frumvarpið helgast þó fyrst og síðast af þeirri hægfara þróun sem hefur orðið í Danmörku frá opinberu heilbrigðiskerfi að einkareknu, og að flokkarnir fjórir sem styðja frumvarpið hafa allir einkasjúkratryggingakerfi á stefnuskránni. „Fólk á að greiða sjálft fyrir þá þjónustu sem það fær,“ segir Simon Emil Ammitzbøll, formaður Liberal Alliance, í sömu andrá og hann gleymir hvað skattar eiginlega eru. Stuðningurinn helgast einnig af þjóðernissinnaðri pólitík Dansk Folkeparti, sem rekið hefur eigin stefnu gegnum ríkisstjórnina sem hækja hennar, og ber því óbeina ábyrgð á flestu því sem hér hefur verið reyfað.

Hvað varðar lið 5 um starfsleyfi lækna
Mörgum kann að þykja það sjálfsagt að setja erlendum læknum stíf skilyrði sem þessi, en miðað við stefnuna sem rekin er í Danmörku á öðrum vettvangi líta röksemdirnar út einsog skálkaskjól annarra og hættulegri sjónarmiða. Sá málflutningur heilbrigðisráðherra að Danir beinlínis óttist útlenska lækna er ógeðfelldur en kann, því miður, að vera réttur upp að einhverju marki. Þá er sú hugmynd að setja lækna aftur á skólabekk í allt að átján mánuði, svona til að ganga úr skugga um að þeir séu ekki að plata, lítillækkandi og þekkist ekki innan fagstétta almennt – enda hafa prófgráður frá viðurkenndum háskólum og starfsreynsla við virt sjúkrahús hingað til þótt duga víðasthvar í heiminum.

Í viðtali við írakska lækninn Alaa El-Hussuna (varúð, hann heitir næstum bæði því Allah og Hussein, og kemur frá Írak!) í Berlingske Tidende frá 2007 kemur fram að danska heilbrigðiskerfið var þegar undirmannað þá, og gæti í raun ekki verið rekið ef ekki væri fyrir „þriðjaheimslækna“. Þá tínir blaðamaður til nokkrar staðreyndir um danska heilbrigðiskerfið: Um 19.000 læknar starfa í Danmörku. Á almenningssjúkrahúsum starfa u.þ.b. 1500 erlendir læknar, sem er um þriðjungur af öllum læknum sem starfa á dönskum sjúkrahúsum, hvort sem er í opinbera- eða einkageiranum. Þriðjungur erlendra lækna á sjúkrahúsunum eru sérfræðingar en hinir eru almennir læknar. 35% allra erlendra lækna koma frá Norðurlöndum eða Evrópusambandinu, en 65% koma á móti frá svonefndum þriðjaheimslöndum. Flestir erlendir læknar koma saman til Danmerkur sem hjón. Á sjúkrahúsunum eru um 3400 ómannaðar læknastöður, þar af 1200 sérfræðingsstöður.

Það virðist því vera ljóst að þetta er gagngert til að grafa undan heilbrigðiskerfinu í núverandi mynd.

Dönsk einangrunarstefna í hnotskurn
Hvaða þýðingu hefur þetta allt saman? Síðan ég flutti til Danmerkur í ágúst hefur ríkisstjórnin ákveðið að rífa niður innflytjendahverfin sem fyrri ríkisstjórnir bera sjálfar ábyrgð á að urðu til – þar með talið stóran hluta af hverfinu mínu, sem talið er með óæskilegri og hættulegri hverfum í Danmörku. Þeim sem missa húsnæði sitt með þessu móti er ekki tryggð búseta annarsstaðar. Þeir sem eru dekkri en meðalsólbekkjasmjörfress fá heldur ekki að flytja í þessi hverfi, enda á að hvítta þau. Atvinna, tungumálakunnátta, æskileg menntun og árslaun framhaldsskólakennara á bankabók eru forsendur dvalar- og atvinnuleyfis einstaklinga og maka þeirra – sem hefur bein áhrif á þegar fallvalta læknastéttina miðað við tölfræði. Aðfluttir öryrkjar missa félagsréttindi sín, börn missa réttindi sín til náms, stúdentar missa frelsi til atvinnu og ferða, háskólasamfélagið missir sinn stærsta styrk sem eru erlendir fræðimenn – stór hluti fólks missir grundvallarréttinn til heilbrigðis. Heilbrigðiskerfinu skal hvort eð er slátrað með því að fæla frá fólkið sem heldur því uppi með Atlasargripi, svona til að „Danir þurfi ekki að óttast“.

Og þetta kerfi alltsaman? Það er sett á fótinn til að „allir þeir sem geta og vilja leggja sitt af mörkum séu velkomnir,“ segir atvinnumálaráðherra. Það er nú aldeilis að maður finnur sig velkominn.

Góðir lesendur, það er búið að loka Danmörku. Hvítt fólk má þó ennþá versla í H&M svo lengi sem það lofar að vera ekki baggi á velferðarkerfinu.

Birtist fyrst á Smugunni þann 30. desember 2010.

Nasistinn í veislunni

Meðan íhaldsflokkarnir Venstre og Konservative Folkeparti berjast bæði inn- og útbyrðis við að halda ríkisstjórninni við völd, einsog ég fjallaði um í síðasta pistli, kemur sífellt betur í ljós hvaða afleiðingar það hefur þegar eini vinur manns er nasisti. Meðan Rasmussen og Espersen einbeita sér að spuna, spillingu og lygum í þingsal er það Dansk Folkeparti sem hefur hin raunverulegu völd bakvið tjöldin, enda ef ríkisstjórnin samþykkti ekki allar þeirra hugmyndir yrði lítið eftir af stjórninni, og ólíklegt er að nýr meirihluti yrði myndaður án þess að boðað yrði til kosninga.

Þetta þýðir að tekist hefur að berja ótrúlegustu hluti í gegnum þingið. Það nýjasta á stefnuskránni eru tvær hliðar á sama málefni sem samkvæmt flestu óbrjáluðu fólki myndi kallast að loka landamærunum að innan sem utan. Fyrri hliðin er hið svonefnda stigakerfi sem senn verður tekið upp í Danmörku. Það felur í sér að fólk utan evrópska efnahagssvæðisins þarf að afla sér tiltekið margra stiga, sem það getur unnið sér inn með ýmsu móti, áður en það fær dvalarleyfi í Danmörku. Það þýðir ennfremur að hafi manneskja dvalarleyfi í Danmörku gildi það ekki sjálfkrafa um maka viðkomandi nema að uppfylltum sömu skilyrðum.

Nauðsynlegur fjöldi stiga er 120 stig fyrir fólk undir 24 ára aldri en 60 stig fyrir fólk yfir 24 ára aldri. Stigakerfið sjálft er aftur það ósanngjarnt að það er nær ógjörningur fyrir nokkurn mann að standast kröfurnar. Til dæmis fær iðnmenntuð manneskja sem talar ensku aðeins 20 stig, af því menntunin er ekki metin til neins nema hún sé fengin úr klassískum háskóla eða viðskiptaháskóla. Þannig skín ekki einvörðungu í þjóðernisstefnu stjórnvalda heldur menntahroka einnig, og það liggur berlega í augum uppi hvaða afleiðingar hið nýja kerfi kemur til með að hafa fyrir konur frá þeim löndum heimsins þar sem réttindi þeirra til allra handa eru hvað ákafast barin niður. Hér er verið að færa jafnan rétt allra til ráðandi stétta og kynja þeirra landa sem Danmörku þóknast ekki, og það er öllu alvarlegra áhyggjuefni en þeirra fáu sem þó láta í sér heyra, en það eru aðallega háskólakennarar frá Bandaríkjunum, Asíu og miðausturlöndum sem óttast að þeir fái ekki að hafa fjölskyldur sínar hjá sér.

Ennfremur, ofan á stigakerfið, þarf manneskja sem vill „flytja inn maka sinn“ að eiga 100.000 danskar krónur á bankareikningi, af einhverjum ástæðum, og að hafa unnið jafngildi fullrar vinnu í tvö og hálft ár af síðustu þrem árum áður en makinn fær leyfi til að koma. Þessar kröfur eru auðvitað ekki nokkurri manneskju bjóðandi.

Þetta mál varðar okkur öll sem búum hér en þó fer hvorki mikið fyrir almennum viðbrögðum né sértækum, að undanskildu háskólasamfélaginu. Háskólarnir bæði í Kaupmannahöfn og Árósum hafa brugðist harkalega við hinum nýju lögum og varað við því að þau kippi starfsgrundvellinum undan fótum þeirra, enda snúist háskólastarf að miklum hluta um samstarf hins alþjóðlega þekkingarsamfélags, nýjar hugmyndir, framþróun, tækni. Að hrista þessar stoðir er hálft skref aftur til miðalda á sviði vísinda og þekkingar og ef loka á gáttinni að utan innávið er mikill auður hafður af dönsku samfélagi þegar vísindamenn hugsa sér heldur annað ef það þýði að þeir geti lifað eðlilegu lífi með sínum fjölskyldum.

Seinni hliðin er svo hinsvegar sú að stefnan er einnig tekin á að setja höft á stúdenta sem nema í Danmörku. Þeir sem ljúka meistaraprófi eða hærri gráðu mega ekki starfa utan Danmerkur næstu fimm ár eftir útskrift, nema þeir samþykki að endurgreiða alla námsstyrki sem þeir hafa þegið af ríkinu áður. Slíkir styrkir, sem hingað til hafa verið veittir til að styrkja danska vinnumarkaðinn, velferðar- og menntakerfið, verða nú hrifsaðir tilbaka af þeim eigingjörnu sem sjá atvinnu- eða menntatækifæri annarsstaðar.

Stefna dönsku ríkisstjórnarinnar er því ekkert annað en það sem heitir vistarband á góðri íslensku. Loka á landamærunum útbyrðis fyrir ljótum og leiðinlegum útlendingum, fyrir vanþakklátum lattélepjandi stúdentaræflum innbyrðis. Það kaldhæðnasta er ef til vill það, að þrátt fyrir mannfjandsamlega stefnu Danmerkur í innflytjendamálum, þá koma hingað yfrin öll af erlendum stúdentum. Sumir þessara stúdenta fá að vera hér nógu lengi til að öðlast réttindi til námsstyrks frá ríkinu, sem síðan mun hrifsa hann tilbaka aftur í sömu andrá og þau verða rekin úr landi fyrir að uppfylla ekki stigakerfið góða.

Ætli lærdómurinn sé ekki sá að ef eini vinur þinn er nasisti, þá er betra að sleppa veislunni en að bjóða honum í hana.

Birtist fyrst á Smugunni 13. desember.

Kristjánsborg, frá framleiðendum Melrose Place

Danska verðlaunamyndin Kongekabale frá 2004 fjallar um átök og undirferli í danska þinginu, Kristjánsborg. Í upphafi myndar lendir formaður Miðflokksins í bílslysi svo tvísýnt er um líf hans. Síðar kemur í ljós að upplýsingum um líðan formannsins hefur verið haldið frá fjölmiðlum á meðan plottað er innan flokksins um arftaka hans. Hinn ófyrirleitni Erik Dreier Jensen gerir spunameistara sinn út af örkinni til að leka út ósannindum um einkalíf samflokkskonu sinnar, Lone Kjeldsen, með þeim afleiðingum að eiginmaður hennar sviptir sig á endanum lífi undan álagi. Í kjölfarið dregur Kjeldsen sig úr stjórnmálum og Dreier Jensen situr einn að formannsembættinu, eftir að hafa kúgað fleiri samflokksmenn til hlýðni. Það er að vísu bjartur punktur í myndinni, en ekki svo að hann skipti neinu raunverulegu máli. Í lok myndarinnar stendur Dreier Jensen uppi afhjúpaður fyrir framan myndavélar í beinni útsendingu, en það eru lokaorð hans sem er raunverulegur boðskapur myndarinnar, endursögð eftir minni: „Kjósendur muna ekki eftir þessu. Eftir viku verður þetta gleymt, vika er langur tími í pólitík. Þú, á hinn bóginn, færð hvergi vinnu aftur við blaðamennsku.“

Persóna Dreier Jensens er byggð á fyrrum forsætisráðherra Danmerkur, Anders Fogh Rasmussen, og Miðflokkurinn sjálfur er flokkur Rasmussens, Venstre, í lélegum dulbúningi. Í fyrstu kann þetta að virðast ofurdramatíseruð útgáfa af raunveruleika danskra stjórnmála, en þegar nánar er að gætt er lífið í Kristjánsborg síst viðburðaminna en syrpa af Dallas eða Melrose Place.

Í tilefni þingsetningar hér í Danmörku fjölluðu íslenskir fjölmiðlar ögn um vandræði Lene Espersen, formanns Konservative Folkeparti. Hún var staðin að því að halda upplýsingum um ofgreidda ríkisstyrki til einkasjúkrahúsa frá þinginu og neyddist að lokum til að biðjast afsökunar. Styrkirnir voru 25% hærri en sjúkrahúsin áttu að fá. Einsog vænta mátti hefur Espersen ætíð haldið fram að hún hafi ekki vitað betur og hafi veitt allar þær upplýsingar sem hún bjó yfir á þeim tíma. Hvort það er rétt eða ekki þarf að liggja milli hluta, en hitt er ljóst að það varð ansi heitt undir henni sætið í kjölfarið, enda varðar það að ljúga að þinginu við lög um ráðherraábyrgð og sem viðskiptaráðherra heyrði einkageirinn undir hana á þeim tíma (ólíkt Íslandi hafa ráðherrar áður verið sóttir til saka í Danmörku). Forsætisráðherra Danmerkur og formaður áðurnefnds Venstre, Lars Løkke Rasmussen, gaf út yfirlýsingu í kjölfar afsökunarbeiðnarinnar þess efnis að afsökunin sem slík hlyti að duga.

Málið er þó ekki nándar nærri svo einfalt. Lars Løkke var nefnilega sjálfur heilbrigðisráðherra árin 2001 til 2007 í stjórn Anders Fogh Rasmussen, og viðskiptaráðherra í stjórn Anders Fogh uns hann tók við af honum sem forsætisráðherra á síðasta ári, eftir að Anders Fogh hlotnaðist staða aðalritara NATO. Á starfstíma hans sem heilbrigðisráðherra kynnti hann áætlun sem fólst í að „peningarnir fylgi þér“. Það þýðir að almenningur geti nýtt sér þjónustu einkasjúkrahúsa og ríkið greiði með sem nemi því sem viðkomandi hafi greitt í skatta – einskonar heilbrigðislífeyriskerfi, semsé. Kerfið var einkum til þess hugsað að þeir sem það vildu gætu losnað við biðraðir í almenna kerfinu. Þegar Lars Løkke svo tók við sem viðskiptaráðherra námu þessar greiðslur til einkasjúkrahúsa, skyndilega, fyrir hans tilstilli, einmitt 25% meir en þeim bar frá ríkinu, og þaðan sprettur gagnrýnin á eftirmann hans í embætti. Hvað hann fékk í staðinn skal ósagt látið en það skal engan undra að honum þyki afsökunarbeiðni Lene Espersen hljóta að duga. Vika er langur tími í pólitík að sönnu.

En sagan er ekki búin. Í viðleitni til að snúa við neikvæðri umfjöllun um þetta mál og önnur, sér í lagi þó sambærilegar lygar og haldið var að Íslendingum um réttmæti Íraksstríðsins sem er mikið hitamál í Danmörku um þessar mundir, hafa spunameistarar ríkisstjórnarflokkanna svifist einskis við að leka út óþægilegum upplýsingum um stjórnarandstöðuna. Því var til að mynda lekið til Berlingske Tidende að Helle Thorning-Schmidt (Socialdemokraterne) og maður hennar hefðu svikið milljónir undan skatti. Eftir rannsókn skattayfirvalda í kjölfarið kom á hinn bóginn í ljós að skatturinn skuldaði þeim hjónum peninga en ekki öfugt. Því var ennfremur lekið í Jyllandsposten að Ole Sohn (Sosialistisk Folkeparti) hefði þegið 5.2 milljónir danskra króna í styrk frá Sovétríkjunum meðan hann var formaður danska Kommúnistaflokksins. Þær ásakanir verður þó aldrei hægt að staðfesta, enda byggjast þær allar á einu bréfi sem fannst í Austurþýsku skjalageymslunum og Ole Sohn ritaði Erich Honecker sex dögum eftir fall Berlínarmúrsins, þar sem Sohn lofar austurþýsku kommúnistastjórnina.

Á meðan heldur spillingin áfram að fljóta upp á yfirborðið. Jacob Winther, spunameistari fyrrum varnarmálaráðherrans Søren Gade, hefur verið ákærður fyrir að brjóta lögbundna þagnarskyldu sína og stríða gegn þjóðaröryggi með því að leka út upplýsingum um leynilega sendiför danskra fótgönguliða í Írak 2007. Claus Hjort Frederiksen, fyrrum framkvæmdastjóri Venstre og nánasti ráðgjafi Anders Fogh Rasmussen – með öðrum orðum spindoktor – hefur svo orðið uppvís að því að sem atvinnumálaráðherra snemma á þessum áratug laug hann að þinginu og gekk gegn öllum kjararéttindum erlendra verkamanna. Af nógu er að taka af hans ferli og má þar nefna leynilegt og þar af leiðandi ólöglegt afnám öryggisstaðla fyrir erlenda verkamenn í hættulegum störfum, krafa um að sveitarfélögin framfylgdu hinni ólöglegu 300 tíma reglu sem krefst þess að par sem þiggur framfærslu skuli hafa samanlagt unnið 300 tíma síðustu tvö ár á undan, mútur til greiningardeilda ráðgjafafyrirtækja fyrir að gefa upp falsaðar tölur sem létu ráðuneytið líta betur út, og eyðingu uppljóstrandi sönnunargagna um ólöglega starfsemi innan ráðuneytisins sjálfs.

Vika er sannarlega langur tími í pólitík. Sama dag og niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um fjölmiðlafrelsi voru kynntar, þar sem fram kom að Danmörku hafði hrakað allverulega frá því áður, kom í ljós að sjónvarpsstjóri TV2 hafði bannað birtingu viðtals við forsætisráðherrann, Lars Løkke Rasmussen, vegna þess að það hefði komið ráðherranum illa. Viðtalið mun hafa verið sambærilegt við þekkt viðtal sem G. Pétur Matthíasson tók við Geir Haarde í Hruninu en var ekki birt nema síðar á YouTube, að því frábrugðnu þó að Lars Løkke var hamslaus af reiði og öskraði á fréttamanninn ítrekað að hann væri fífl og fábjáni. Það hefur enn ekki komið fram hvort sjónvarpsstjórinn var þvingaður til þessa, eða hvort hann er sjálfur bundinn hagsmunum við ráðherrann.

Ég minntist á kvikmynd hér í upphafi, og hversu fjarri veruleikanum hún virðist vera í fyrstu. Þó tæpir hún aðeins á einu máli, sambærilegu við hundruði mála sem raunverulega hafa komið upp og tvinnast öll saman í einni stórri spillingar- og fyrirlitningarhít sem fyllir hvern krók og kima danska þingsins. Hér hefur þó verið stiklað á ansi stóru yfir agnarlítið brot þeirrar sápuóperu sem lífið í Kristjánsborg er, og það er ekki laust við að manni þyki Alþingi hálfgerð Grænaborg við hliðina.

Birtist fyrst á Smugunni 29. október.

Hræsnað um frumskógarlögmálið

Í síðasta pistli fjallaði ég um misheppnaða uppbyggingu snobbhverfis þar sem í dag stendur völundarhús ógnarstórra blokka í órækt undir samheitinu Gellerup, umlukið óhirtum trjám sem vaxa hvert með sínu laginu svo líkja mætti við frumskóg. Raunar er það svo vinsæl líking að nálega í hvert sinn sem fjölmiðlar taka Gellerup til umfjöllunar, sem er ærið oft, er þessi líking dregin upp. Nú síðast hafa bæði Stiften og Politiken étið upp alveg ágæta fyrirsögn frá því dagblaði sem hvað síst skyldi kalla hlutlaust í garð innflytjenda – Jyllands Posten. Fyrirsögnin kom mér síður á óvart en myndin af næsta húsi við mitt sem fylgdi fréttinni. Þar býr vinur minn og telur sig búa í betri enda gettósins, ef hægt er að nota slíkt orðalag.

Fréttin er nákvæmlega sama frétt og ég vitnaði til í síðasta pistli, bara mánuði yngri í þetta sinn. Það þykir víst jafngóð fréttamennska hér einsog á Íslandi að endurtaka sömu möntruna aftur og aftur uns hún hefur rækilega fest sig í sessi. „Jungleloven råder i flere ghettoer“. Meðfylgjandi mynd af risavöxnu steinsteypuskrímsli með veggjakroti uppeftir allri hliðinni og gervihnattadiski á þriðju hverjum svölum, guð hjálpi okkur ef þetta er bænamotta sem hangir þarna yfir handriðið. Gellerup er útlandið í Árósum, landamærin liggja við verslunarmiðstöðina City Vest hverrar turnum verður sjálfsagt breytt í mínarettur von bráðar ef marka mætti blöðin, miðrýminu í mosku. Þetta er ekki mynd sem býður fólk velkomið. Fólkið sem býr hér er enda ekki velkomið sjálft. Eftir nokkur ár verður myndin af fátækrablokkinni eini minnisvarðinn um tilvist hennar utan minninga þeirra sem hér hafa búið, því eitthvað finnst borgaryfirvöldum skorta á fjölda verslanamiðstöðva í Gellerup

Nýjast í fréttum er hinsvegar sextíu ára staðreynd sem loksins hefur reyrt sitt ljóta höfuð nógu langt upp undir pilsfald Kristjánsborgar að þingmönnum finnist sem aðgerða sé þörf. Komið hefur á daginn að timburframleiðandinn Collstrop, sem sérhæfir sig í að bólusetja tré gegn ýmsum kvillum til að tryggja langlífi viðarins og þar með bjóða upp á bestu vöruna, hefur verið að losa menguð úrgangsefni út í danska náttúru síðan á sjötta áratugnum. Að vísu eru þetta engin ný tíðindi þannig lagað, og einhverra hluta vegna hefur fyrirtækið aldrei verið dregið til ábyrgðar fyrir þessa starfsemi. En nú finnast tunnur af arseniki, krómi og kopar á ný í mýrum á einkalóðum á Fjóni, í nágrenni Óðinsvéa, þá við Horsens og loks nálægt íbúabyggð við Brabrandvatn rétt suður af Gellerup, upplýsir Danmarks Radio.

Brabrandvatn er eitt stærsta útivistarsvæði Árósa. Þar er ekki einungis íbúabyggð norðanmegin vatnsins heldur er blómleg sumarbústaðabyggð sunnanmegin við jaðar Brabrandskógar. Bryggjur fyrir báta og dorgara má víða finna og vinsælt er að synda í vatninu á heitum sumardögum. Úr vatninu rennur sjálf áin sem borgin er kennd við og bugðast gegnum kjarna miðbæjarins uns hún rennur út í haf. Og einmitt þarna fannst Collstrop sniðugt að senda fólk í eiturheldum búningum, svosem sjá má á nokkrum vel völdum fréttamyndum, til að grafa tunnur af arseniki í skjóli nætur. Ekki náðist í umhverfisráðherra við vinnslu fréttarinnar en DR náði hinsvegar tali af fulltrúum Radikale Venstre og Socialdemokraterne sem sögðust ætla að gera sitt ítrasta til að setja pressu á stjórnvöld svo hægt verði að sækja Collstrop til saka.

Grunnvatnið, að vistkerfinu öllu ólöstuðu, er ein viðkvæmasta auðlind Danmerkur og ekki eru nema örfáar vikur síðan vart varð við E. coli smit í vatnsbóli norðurbæjarins. Ástæðan var rakin til mikilla rigninga sem flætt höfðu yfir grunnvatnslínuna og skolað saur frá nærliggjandi býlum þar ofan í. Fyrir mikla mildi varð fáum meint af, en nú er ýmsum nóg boðið og engum verður liðin sú iðja að fíflast frekar með grunnvatnið. Því er útlit fyrir að 60 árum eftir að Collstrop hóf sína löngu sögu umhverfishryðjuverka verði loksins gripið í taumana.

Staðsetningin sjálf er þó ekki síður áhugaverð í því ljósi sem ég dró upp í upphafi pistilsins. Það er einsog það eigi ekki af fólkinu hérna að ganga. Meðan garðarnir liggja í órækt í frumskógarbælinu miðju og húsin eru látin drabbast niður að því marki að loks verði hægt að rífa þau og hreinsa Gellerup af öllu dekkra en meðalsólstrandagæja jaðrar það við að bíta hausinn af skömminni þegar hvítir kapítalistar taka upp á því að grafa eiturefnin sín á jaðri byggðarinnar. Innflytjendur fá víst nóg af fyrirmælum frá hvítri yfirstétt hvernig þeir skuli haga sínu lífi og átrúnaði þótt ekki sé líka ráðist á þá í eigin bakgarði án dóms og laga. Auðvitað er þetta algerlega ólíðandi sama hver verður fyrir, en ekki síst í því samhengi nákvæmlegahver fórnarlömbin eru, eina ferðina enn, er það einlæg ósk mín að forstjórar Collstrop verði dregnir til ábyrgðar og fyrirtækið svipt starfsleyfi í Danmörku.

Kannski yrði það skref í átt þeirrar óskar lögreglunnar að íbúar Gellerup virði og treysti á yfirvöld. Skyldi þó engan undra þótt ýmsum hér þyki lítið til þeirra koma einsog komið er fram við fólkið, og meðan fjölmiðlar hræsna um frumskógarlögmálið.

Birtist fyrst á Smugunni 8. október.

Aðlögun í skugga óreiðu

Eyrarsundskollegíið á Amager er fyrir löngu alræmt meðal íslenskra námsmanna í Kaupmannahöfn. Þegar ég kom þangað fyrst í janúar á síðasta ári var þar íslendingapartí auk eins Færeyings sem fékk að fljóta með sökum skyldleika og kannski þess að Íslendingum þykja Færeyingar fyndnir. Það er stærsta kollegí í Kaupmannahöfn, ef ekki það stærsta í Danmörku. Í öllu falli keppir það í stærð við Skjoldhøjkollegíið í Árósum. Þangað og í minni kollegí á Amager er öllum útlendingum troðið og það sama er uppi á teningnum í Árósum. Allir eða velflestir erlendir námsmenn eru sendir í Gellerup og þar má finna Skjoldhøj. Í verri endanum, Brabrand, má svo finna talsvert minni stúdentagarða sem nefnast Hejredalskollegiet. Þar er þeim óheppnustu fundinn íverustaður og þar bý ég.

Gellerup var upphaflega, að því er mér er sagt, hugsað sem úthverfi fyrir hina efnameiri. Þegar hverfið byggðist upp fyrir rúmum 50 árum keyptu velstæðir Danir sér íbúðir þar fyrir talsverðar fjárhæðir, en borgaryfirvöld höfðu á hinn bóginn ekki séð fyrir að ef til vill væru sovétblokkirnar sem þau höfðu byggt of margar og verðið of hátt til að hægt væri að fylla hverfið. Af þeim sökum sátu yfirvöld uppi með það sem út af stóð svo á endanum varð úr að borgin leigði þær út svo lágu verði að því varð ekki jafnað saman við önnur hverfi Árósa. Þangað sóttu í síauknum mæli hinir verst stöddu, sem í tilfelli Danmerkur einsog annarra landa, voru og eru aðallega innflytjendur. Síðan þá hefur hverfið verið látið drabbast niður, hvort sem það er vegna þess að borginni fannst nægum peningum sólundað í þetta herfilega skipulagsslys eða af öðrum sökum, og hinir efnameiri íbúar fluttir annað.

Einsog önnur slík vanrækt hverfi glímir Gellerup við sín vandamál. Í Aarhus Stiftstidende mátti lesa um að Gellerup væri í raun orðið að sjálfstæðu samfélagi aðeins nú fyrir örfáum dögum. Fjölskyldur innflytjenda, sem að stærstum hluta eru frá þeim löndum sem kennd eru við miðaustur og Danir eru sérstaklega þekktir fyrir að líta niður á, eru nú sagðar hafa myndað eigið réttarkerfi. Fréttin var þó ekki sérlega afgerandi þar sem varðstjóri hverfisins gat ekki gert upp við sig hvort íbúar réttuðu yfir og dæmdu samlanda sinna til þjónustu eða refsingar, eða tilkynntu þá ekki yfirhöfuð til viðeigandi yfirvalda þegar þeir brytu af sér. Þá var talað við formann hverfisráðsins, stjórnmálamann hjá Radikale Venstre. Sá sagði að Gellerup væri vissulega plagað af göturánum og öðrum smáglæpum en aldrei hefði hann orðið var við neinn sérstakan götudómstól meðal fólksins; þvert á móti hefðu tilkynningar til lögreglunnar aukist á undanförnum árum. Hvort það væri merki um stóraukna glæpatíðni eða aðlögun og aukna samfélagslega ábyrgð íbúa tjáði hann sig ekkert um.

Þingkosningar verða haldnar hér í nóvember á næsta ári en Radikale Venstre hafa þegar hafið sína kosningabaráttu. Það er kannski viðeigandi að auglýsingar þeirra má helst sjá í strætóskýlum í Gellerup en sjást óvíða annarsstaðar. Þar má sjá nánast hatursfullar tilvitnanir í Piu Kjærsgaard, sjálfan forsætisráðherrann Lars Løkke Rasmussen og aðra forvígismenn annarra flokka, þar sem látið er að því liggja að þau hati útlendinga, kennara og Evrópusamstarf. Þar fyrir neðan stendur til dæmis: Við stólum. Líka á útlendinga. Eða: Við trúum. Líka á kennarana. Sjálfsagt falla slík slagorð fyrir daufum eyrum hinna fjölþjóðlegu íbúa Gellerup sem hafa engar úrbætur fengið á sínum málum í áratugi, og ekki er útséð um hvort árangur Radikale í komandi þingkosningum muni hafa nokkuð í för með sér fyrir íbúa einstaks hverfis í Árósum. Á sama tíma stefna borgaryfirvöld að því nú að rífa fjöldann allan af þeim sovétblokkum sem þau áður seldu dýrum dómum. Það sem koma skal í staðinn er einhverslags verslunar- og þjónustukjarni, en hvað verður um íbúana er allt annað mál.

Í 40 ár hefur þarna byggst upp einstætt samfélag byggt að hálfu á siðum gömlu landanna og öðrum hluta á hinum danska lífsstíl sem Íslendingum er að góðu kunnur. Íbúarnir hafa með öðrum orðum samlagast Danmörku að því leyti sem það er hægt þegar þeim er öllum skóflað á sorphauga samfélagsins, og vandamálum þeirra sópað undir sama hornið á teppinu svo fjallið undir verður ekki umflúið. Og þegar fólk hrasar á ruslahrúgunni er fólkinu undir kennt um. Þarna hefur hálfgert skrímsli af fjölmenningarsamfélagi skapast þar sem utanaðkomandi eru jafn tortryggðir innan hverfis og íbúarnir sjálfir eru tortryggðir að utan. Það dettur engum hjá borginni í hug að hreinsa eftir sig, hvað þá að rétta íbúunum hjálparhönd. Lausnin er að rúlla upp teppinu og henda því út á haugana svo hægt verði að finna pláss fyrir stærra stofuborð.

Hvað verður um íbúana þegar heimili þeirra hafa verið rifin er svo aftur vandamál seinni tíma. Meðan Árósar eru enn sú borg í Danmörku sem stækkar hvað örast verður kannski hægt að grafa vandamálið enn fjær ráðhúsinu en nú er, allt svo Danir geti enn hæðst að múslimum og spurt sjálfa sig hvers vegna þeir hafi nú ekki húmor fyrir þessu.

Af þessum ástæðum og öðrum er allt tal um aðlögun einsog ljótur brandari. Vel má vera að Radikale Venstre hafi séð ljósið og vilji gera allt sem í þeirra valdi stendur til að rétta út sáttahönd, en mig undraði ekki þótt íbúar Gellerup vildu heldur vera látnir í friði.

Birtist fyrst á Smugunni 6. september.

Rýmisaðgreining í Vöktunum

Marga daga í röð hef ég rekið augun í Bjarnfreðarson á DVD, haganlega útstilltum og á misgóðu verði. Svona freistingar stenst ég bara einfaldlega ekki og keypti myndina í dag. Ef eitthvað er kalla ég mig góðan að hafa haldið í mér svona lengi fremur en hitt, þetta er enda efni sem á (vonandi) eftir að breyta íslenskri kvikmyndagerð til hins betra á næstu árum. Það er ótalmargt sem gerir Vaktirnar áhugaverðar og mig langar hér að nefna eitt atriði sem ég hef ekki orðið mikið var við í gagnrýninni umræðu um þættina.

Í Vaktaþáttunum sjáum við persónurnar nær aldrei stíga útfyrir sinn afmarkaða lókal, sem fær mann til að velta fyrir sér hvernig þeir félagar hegði sér í sínu náttúrlega umhverfi, svo að segja. Í Næturvaktinni eru þeir alveg afmarkaðir við bensínstöðina, planið og sjoppuna á bakvið, og yfirgefi persóna svæðið vitum við ekki af afdrifum hennar á meðan. Í Dagvaktinni er svæðið skilgreint víðar en þó með sínum takmörkunum, til dæmis nær það yfir örfáa bæi í nærsveitinni auk Hótels Bjarkalunds. Fangavaktin gerist öll meira eða minna inni á Litla Hrauni, með einni veigamikilli undantekningu þó.

Það er oft talað um fjórða vegginn í leikhúsi sem er það sem aðgreinir leikendur frá áhorfendum, og þegar hann er rofinn verða áhorfendur – hvort sem þeir vilja eða ekki – hluti af leiksýningunni. Í Nætur- og Dagvöktunum helst þessi rýmisaðgreining alveg. Hannes Hólmsteinn, Birgitta Haukdal, Bergþór Pálsson og Stefán Hilmarsson eru öll hluti af þeim heimi sem þættirnir gerast í, og það er auðvelt að rökstyðja hvers vegna. Birgitta er til að mynda frænka Ólafs Ragnars í þáttunum og þótt þjóðþekktir leikarar á borð við Benedikt Erlingsson birtist sem einhverjir Jón úti í bæ truflar það ekki veruleika persónanna. Þannig geta Halldór Gylfason sem Kiddi Casio og Hannes Hólmsteinn vel þrifist innan sama rýmis án þess það sé grunsamlegt og Ólafía Hrönn getur í hlutverki hótelstýrunnar Guggu vísað Björk á klósettið án þess að síðarnefndu þyki það neitt skrýtið að Ólafía Hrönn vinni á hóteli.

Georg Bjarnfreðarson er persóna sem sköpuð er úr verstu staðalmyndum um sósíalista sem til eru og kvikmyndin Bjarnfreðarson gerir sitt ítrasta til að vinna úr þeim efnivið, með alveg sprenghlægilegum en jafnframt sorglegum niðurstöðum; hún er saga af því hvernig fallegt barn verður að trufluðum manni. Útlitslega er hann svo mótaður eftir Lenín og sumpart Steingrími J. Sigfússyni og, alls ekki síst, hugmyndum ýmsra um Steingrím. Það var nokkuð grín gert að því að í Kryddsíld 2008 líkti einhver Steingrími við Georg Bjarnfreðarson, og hann svaraði því til að hann gæti nú eiginlega ekki svarið það af sér þar sem hann þekkti ekki þann ágæta mann.

Þetta er afskaplega mikilvægt atriði, því án þess missir merkilegasti hluti Fangavaktarinnar alveg marks og verður einsog handahófskenndur útúrdúr frá annars þéttri atburðarás. Það er þegar Georg fær bréf sent inn á Litla Hraun, sem hann segir – og takið eftir fyrirvaranum – að sé boð til hans persónulega um að halda ræðu á landsfundi Vinstrigrænna. Það eitt og sér þarf ekki að vera svo skringilegt innan veruleika þáttanna, við hlæjum altént að þessu, en einhvernveginn trúum við því ekki alveg.

Enda kemur það á daginn að þegar Georg brýst útúr fangelsinu þar sem hann fær ekki leyfi til að sækja landsfundinn, og nær til Hveragerðis með lögregluna á hælunum, þá þekkir Steingrímur hann ekki og kannast ekki við að hann sé á dagskránni með einhverja drottningarræðu (enda tíðkast slíkar ræður ekki innan almennra fundahalda). Steingrímur kannast ekki einu sinni við móður Georgs, Bjarnfreði Geirsdóttur, einhverja virtustu og þekktustu kvenréttindabaráttukonu landsins – samkvæmt Georgi sjálfum – þá ágætu konu þekkir hann ekki (takið eftir orðalaginu). Í lokaatriði Bjarnfreðarsonar fáum við hinsvegar staðfestingu á því að Bjarnfreður er sannarlega þekkt og virt innan kvennahreyfingarinnar, og því er undarlegt að Steingrímur skuli ekki kannast við hana.

Nema hann sé að ræða við skáldaða persónu. Myndmálið er svo sannarlega nógu skýrt: Georg brýst útúr afmarkaða rými þáttanna, fangelsinu, með ræðu í höndunum á leið á raunverulegan landsfund sem honum var sannarlega ekki boðið á, og brýtur fjórða vegginn. Hann er skyndilega staddur í heimi þar sem móðir hans Bjarnfreður er ekki þekkt baráttukona og boðskort Vinstrigrænna hefur enga merkingu. Hvers vegna dreg ég þá hæpnu ályktun að meðan Hannes, Birgitta, Björk og Stefán eru öll stödd innan sama veruleika og Georg sé Steingrímur það ekki? Vegna þess að þetta stutta atriði er svar við ummælum Steingríms í Kryddsíldinni árið á undan. Allt skírskotar beint til þess, og fyrst erfitt er ef ekki ómögulegt að toga veruleikann nær skáldskapnum (einsog Sylvía Nótt gerði), þá brýst hinn skáldaði Georg útí heiminn með ræðu handa Vinstrigrænum. En honum bregst bogalistin vegna þess að heimurinn viðurkennir ekki að hann sé til, og svo er hann færður í járnum aftur til síns heima.

Nú hefur hinsvegar svo merkilega atvikast til að sá sem lék Georg Bjarnfreðarson, Jón Gnarr, er í framboði til borgarstjórnar. Jón hefur undanfarin fimmtán ár helst verið þekktur fyrir gamanleik auk nokkurra kaþólskra viðhorfspistla sem jöðruðu við gamanleik, og framboð hans og fleiri listamanna til borgarstjórnar er að langflestu leyti litað af því sem við höfum spurt af Jóni áður. Í hlutverki Georgs skopstældi hann heldur heimdallarlega útgáfu af vinstrimanni en í hlutverki frambjóðandans skopstælir hann hinsvegar hina hefðbundnu pólitísku orðræðu, eins leiðinlegt og það annars er að nota orð einsog orðræða, og lofar fáránlegum hlutum komist hann til valda.

En nú þegar Jón á góðan möguleika á að verma borgarstjórasætið hlýtur sú hugsun að hvarfla að okkur að mögulega séu Reykvíkingar að kjósa yfir sig Georg Bjarnfreðarson, ef Jón tæki upp á því að láta sér vaxa skegg og raka af sér hárið á nýjan leik. Hugsið málið. Það er í alvörunni fátt því til fyrirstöðu að Georg Bjarnfreðarson standi á haustdögum í pontu í ráðhúsinu organdi um kosti upptökuheimila. Ég segi ekki að það yrði ófyndin uppákoma fram að svona fimmtu mínútu, heldur hitt að þarmeð væri rýmisaðgreining veruleikans og Vaktanna endanlega horfin. Það væri stórfenglegt afrek.

Hitt er svo annað að Georg er fluttur til Bandaríkjanna og er orðinn öllu rólegri í tíðinni. Það segir mér að í raun séum við bara að fá Jón Gnarr, og það eitt og sér finnst mér svosem alveg nógu skrýtin tilhugsun.

Birtist endurskoðuð á Kistunni þann 28. maí 2010.