Til varnar „ungskáldum“

Árið 1952 skrifaði Sigfús Daðason grein í Tímarit Máls og menningar sem nú er kennd við Háskóla Íslands sem undirstöðurit í skilningi okkar á módernísku skáldunum á Íslandi á fyrrihluta 20. aldar og þeim forpokaða og stirnaða heimi sem mætti viðleitni þeirra. Tilefni greinarinnar var gagnrýni á atómkveðskapinn svokallaða, til að orða það pent, með öðrum orðum á óferjandi ungskáld sem annaðhvort hunsuðu eða kunnu ekki einföldustu bragarhætti, hvað þá stuðla, höfuðstafi eða reglulega hrynjandi. Og til eru þeir sem halda því fram að grein Sigfúsar hafi endanlega þaggað niður í hinni íhaldssömu bókmenntastofnun, þótt það sé að vísu eins fjarri sanni og raunveruleikinn leyfir.

Á allt öðrum nótum lét formaður Félags íslenskra bókaútgefenda hafa það eftir sér á dögunum að það væri „kostulegt að sjá ungskáldin láta eins og sovétkommisarar ákveði hverjir „fái að fara á bókamessuna í Frankfurt 2011“.“ Hér er einhver ótilgreind stærð í menginu skáld með forskeytið ung- sem Kristjáni B. Jónassyni finnst kostuleg. Sjálfsagt skellti hann sér á lær meðan ungskáldin, ung sem þau eru og eftir því bráðlát, hnakkrifust um hina vondu bókmenntastofnun sem hleypti þeim ekki til Frankfurt.

Nútildags er ósköp lítið um að skáld séu gagnrýnd fyrir það sem þau gefa út, bara svo lengi sem það rímar ekki – dæmið hefur snúist svona þægilega við – því síðan Sigfús tróð marvaðann forðum hefur það uppgötvast að það er miklu þægilegra að nefna bara ekki það sem er mönnum ekki þóknanlegt. Það er fyrst þegar ótilgreind stærð innan mengisins skáld með forskeytið ung- reynist hafa skoðanir sem nokkur hleypur til og eyðir á það orðum. Að „ungskáld“ skuli einu sinni voga sér að hafa skoðanir er fyrir neðan allar hellur, enda kemur á endanum að þeim sjálfum þegar allir aðrir eru dauðir, og þau sem gleymast verða uppgötvuð aftur á næsta 100 ára bili þaráeftir svona rétt einsog Ásta Sigurðar, Steinar Sigurjónsson og Guðrún frá Lundi á undan þeim.

Hvers vegna þá skyldi nokkur hafa opnað munninn svo gleitt að það kallaði á viðbrögð frá formanni Félags íslenskra bókaútgefenda? Tilefnið er ámóta lítilfjörlegt og skoðanir okkar ungskálda almennt þykja, en það var að þrjú ljóðskáld yrðu fengin af Íslandi til að leggja stund á norrænan sagnaarf með þrem þýskum skáldum, að svo miklu leyti sem þau yrðu fær um að spinna einhverslags ljóðaslamm á staðnum, kannski undir fornyrðislagi jafnvel – hver veit? Markmiðið var sjálfsagt enn lítilfjörlega, einhver landkynning, stoltir víkingar sem flýðu harðræði Noregskonungs til þess eins að fljúgast á hérna á einhverri eyju í miðju Atlantshafi í staðinn – og finna svo upp lýðræði í kjölfarið. Leikurinn yrði svo endurtekinn í sjálfri Frankfurt á næsta ári svo heimurinn allur mætti dást að Íslendingum, eða eitthvað í þá veru.

Mér vitandi hafði enginn áhuga á þessu verkefni, aðalatriðið var það að til okkar var ekki leitað. Til verksins voru fengin Ugla Egilsdóttir, Dóri DNA og Bergur Ebbi. Áreiðanlega standa þau sig vel, ég þekki Uglu af góðu einu en hin tvö þekki ég ekki hætishót þótt ég þekki að einhverju leyti til þeirra fyrri verka. Þá varð Eiríki Norðdahl hinsvegar það á að hefja samræðu, spyrja, af því allar samræður hefjast á spurningu. Og spurningin hljóðaði svo: „Hvers má yngsta kynslóð ljóðskálda gjalda?“ Hann spurði ekki sjálfs sín vegna, hann hefur nóg að gera, nema það þyki til marks um iðjuleysi að vera boðið að flytja ljóð á tónlistarhátíðinni í Roskilde, fyrstum íslenskra skálda. En einsog til að ramma inn þennan pistil svona um miðbikið var svar Kristjáns B. Jónassonar þetta: „Þið eruð orðnir eins og beisk atómskáld langt fyrir aldur fram.“ Það var nú nefnilega það.

Það var ekki nokkur maður að fetta fingur útí Uglu, Halldór eða Berg Ebba. Ekkert þeirra skálda sem tók þátt í umræðunni æskti þess heldur neitt sérstaklega að taka þátt í þessu, svona eftirá, enda var ekkert þeirra spurt. Flestum ef ekki öllum okkar var á hinn bóginn annt um að fá svar við spurningunni: hvers vegna einmitt þau en ekkert okkar? En umræðan varð strax að einum allsherjar skrípaleik. Og ekki stóðu viðbrögðin heldur á sér hjá þátttakendunum sem þótti bersýnilega að sér vegið, svo mjög að efnt var til gamanleiks á Gljúfrasteini sem auglýstur var í einhverju blaðinu – viðbrögð sem mér þykja miður miðað við alla ætlun og tilefni. Þar sagði Dóri DNA að grínið yrði „menningarlegra en vanalegra. Við ætlum að setja pungskáld þjóðarinnar í höggstokkinn og verður af nógu að taka, enda eru þau með stór höfuð […] Eftir sýninguna ætlum við að ganga yfir í óðalsetur foreldra minna og slá upp ærlegri, nýhilískri grillveislu. Við ætlum að grilla þvottabirni.“ Í fundarboðinu á Facebook stóð að Dóri yrði „órakaður og með hatt – að hætti ungskálda.“

Alveg ótrúleg þessi ungskáld alltaf, órökuð með sinn hatt á stórum höfðum. En tilfellið er einmitt það að það eitt nægir að Eiríkur Norðdahl, sem verður 32 ára á þessu ári og telst því tæpast ungskáld (að honum ólöstuðum) og að mér liggur við að segja táknmynd þessa ímyndaða, órakaða skálds með hatt, tjái sig um lítilfjörlegustu efni, spyrji einfaldrar spurningar, til að allt fari á annan endann. Sjálfkrafa er hann, eða í þessu tilfelli Nýhil og allir sem tengjast Nýhil á einn eða annan hátt, gerður að strámanni sem eigna má alla þá óræðu stærð innan skáldamengisins sem ber forskeytið ung-, bara ef hann vogar sér að spyrja. Og þetta vita allir. Ef þú sérð orðið Nýhil einhversstaðar eða Eirík nefndan á nafn vita allir að hér er einhver voðaleg frekja á ferðinni. Þannig hefur því þægilega verið komið fyrir, þetta vita allir og því tjóir ekki að nokkru ráði að tjá sig. Öll erum við dæmd af staðalmynd en hvorki orðum eða verkum. En hvers vegna var hinni lítilfjörlegu spurningu þá yfirhöfuð varpað fram ef niðurstaðan skipti í sjálfu sér engu máli?

Svarið er einfalt: „ungskáld“ eru hunsuð, á nákvæmlega þeim grundvelli sem ég nefndi hér að ofan. Ég vil skýra þessar gæsalappir áður en ég fer lengra: til eru skáld, hvort þau eru ung eða gömul skiptir engu máli. Eða ætti ekki að skipta máli. En „ungskáld“ er eins heppilegt hugtak og þau verða til þess að lýsa einhverju afmörkuðu sem á ekkert uppá dekk með sínar skoðanir. Þetta eru ung skáld, þau eru ekki þroskuð, þau eru bráðger og hafa ekki ennþá lært að hafa ekki skoðanir.

Ungskáld eru hunsuð. Bækur þeirra fá ekki umfjöllun í blöðum, netmiðlum eða í sjónvarpi – Víðsjá á Rás 1 gerir sitt besta en lengra nær það ekki. Bækur þeirra eru með öðrum orðum ekki til hvað væntanlega lesendur snertir. Ungskáld eiga heldur ekkert aðgengi í launasjóð rithöfunda. Ungskáld eiga ekkert erindi hvað þá heldur niður á forlög með pínuponsulitlu handritin sín. Þau ungskáld sem á annað borð fá tilfallandi umfjöllun eru með dæmafáum undantekningum jörðuð af gagnrýnendum án rökstuðnings. Ár eftir ár eftir ár. Síðustu tvær bækurnar mínar fengu enga teljandi umfjöllun. Síðustu jól voru ljóðabækur ekki einu sinni dæmdar að hérumbil þrem bókum undanskildum. Og maður hlýtur að spyrja sig af hverju. Við sem stöndum að Kistunni gerum okkar besta en það hrekkur ærið skammt verður að játast.

Svo gerist það ótrúlega að orðið ljóðskáld er notað í samhengi við Sagenhaftes Island. Nema þegar nánar er að gætt þá voru ekki fengin nein ljóðskáld, heldur grínistar (að þeim ólöstuðum enda virðist ekki vera hægt að segja það nógu oft án þess að menn stökkvi sér uppá nef!). Það er von að maður spyrji sig, eða hvað finnst formanni Félags íslenskra bókaútgefenda? Er óeðlilegt að spurt sé svo flókinna spurninga? Eigum við heldur að spyrja vinsælli spurninga einsog þeirrar hvort ljóðið sé dautt og gráta svo saman við kertaljós meðan við lesum hverju öðru sonnettur og sötrum latté á prjónakaffi í Kópavogi? Til hvers er eiginlega ætlast af þessari óræðu stærð innan alls þessa veruleika sem Kristján er svo mikið burðarvirki í, okkur þeim sem berum forskeytið ung-? Ef við og skoðanir okkar og spurningar erum svo lítilsvirði, einsog skilja mætti af orðum Kristjáns í þessari furðulegu umræðu, að andsvör okkar þykja honum ekki einu sinni svaraverð, hvað er það þá sem hann vill að við gerum? Hefur hann yfirhöfuð áhuga á annarri bókaútgáfu en þeirri sem hann sjálfur stendur fyrir?

Ef Kristjáni B. Jónassyni finnst við í raun og sann vera einsog bitur atómskáld „langt fyrir aldur fram“, bara enn eitt grenjandi sniðmengi þýðisins skáld með forskeytið ung- í stað atóm-, þá er það ekki viðhorf sæmandi hans stöðu innan bókmenntaheimsins. Það er beinlínis fjandsamlegt skáldskapnum og skáldunum. Og það er illa að þeim vegið þegar öll eru þau felld undir sama hatt með ódýrum málflutningi vegna spurningar sem óþægilegt þykir að svara. En við megum á hinn bóginn þakka Kristjáni fyrir að færa okkur sanninn heim um að þrátt fyrir allt var þó tilefni til að spyrja. Við vitum þá í það allra minnsta að vel yrði við unað þótt engin ungskáld kæmu framar á sjónarsviðið, því svo virðist vera sem það megi alltaf grafa upp einhvern annan í staðinn.

birtist á Kistunni 16.5.2010.

Rannsóknarskýrslan er fullnægjandi – til síns brúks

Ætli það hafi ekki komið fleirum að óvörum en mér hversu vönduð skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis er. Líklega bjuggust fáir við hversu afgerandi hún í raun er. Störf nefndarinnar eru eiginleg andstæða alls þess sem lýst er í skýrslunni. Stjórnsýslan einkenndist af fábjánahætti og innviðir bankanna voru hriplekir og stoðirnar fúnar – þá undanskil ég ábyrgðarleysi þeirra sem stjórnuðu þeim. Það er heill annar kafli. Hitt sem ég nefni skýrist af myndinni af krosseignatengslum í íslensku viðskiptalífi sem fylgir færslunni (kaldhæðni ekki undanskilin).

En eins góð og skýrslan er miðað við þann ramma sem nefndin starfaði innan þá svarar hún ekki ýmsum spurningum. Nú fellir skýrslan mjög alvarlegan áfellisdóm yfir þrem ráðherrum, jafnmörgum seðlabankastjórum og einu stykki forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Skýrslan fjallar einnig um Einkavæðingarnefnd og aðdraganda og ferli einkavæðingar íslensku bankanna. En í skýrslunni er ekki felldur beinn dómur yfir þeim sem að henni stóðu. Af gjörðunum skulið þér dæma þau frekar en við segjum nokkuð gæti verið mottóið þar, Valgerður Sverrisdóttir ekki undanskilin.

Það eru nefnilega fleiri afglöp í starfi en þeirra sjö sem sérstaklega hafa verið nefndir til sögunnar, en einsog Rannsóknarnefnd Alþingis tiltók sérstaklega var það ekki þeirra hlutverk að grennslast fyrir um einkavæðingarferlið sem slíkt. En það vekur hinsvegar upp spurningar um hver ábyrgð þeirra sem stóðu að henni er og hvort þau verði látin svara til þeirrar ábyrgðar.

Þegar Olíusamráðið komst upp varð allt vitlaust og sá kvittur gekk meðal fólks að nú væri eina ráðið að sýna mótmæli í verki og hætta að kaupa pylsur á Select, af því fólk gat jú ekki hætt að kaupa bensín. Rekstrargrundvöllur olíufélaga er hinsvegar ekki pylsur heldur einmitt bensín og þeim sem bentu á Atlantsolíu sem þá þegar var til var sagt að stöðvarnar þeirra væru of fáar til að það væri hægt. Ekki þarfyrir, átakið náði kannski til svona 200 manns. Ég neita enn að skipta við Olís, þótt ekki skipti það nokkru.

Þegar bankarnir hrundu skiptu þeir ýmsir um nöfn meðan þau gömlu kúrðu í skúffum skilanefnda. Þótt þeir hafi flestir skipt um eigendur nú gildir það einu; þetta eru sömu bankarnir. Það er ekki möguleiki á að skipta um banka af því þeir eru allir álíka spilltir. Einu bankarnir sem ekki féllu í hruninu 2008 sitja nú undir ámæli fyrir ýmis atriði sem ég kann ekki nægileg skil á. Mín viðskipti eru hjá Byr, það ku vera óvinsælt þessa dagana. En hvern fjandann getur maður svosem gert?

Í kjölfar hrunsins urðu sviptingar á sviði stjórnmála, en ekki nándar nærri nógu róttækar. Jú, eini flokkurinn sem hafði ekkert með þetta að sýsla komst í stjórn, en menn óttast ennþá að kommúnismi breiðist þaðan útí þjóðfélagið svo endi með þjóðarmorði, eða það skilst mér á umræðu hægrisinnuðustu hálfvitanna á moggablogginu. Sjálfstæðisflokkurinn mælist aftur stærstur og hefur gert í hálft ár eða meira. Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem fær makleg málagjöld í skoðanakönnunum – hvað svosem er að marka þær – enda svosem ekki að furða með eins lélega málsvara og raun ber vitni.

En núna ætlaði ég ekki beinlínis að fara að hrauna yfir allt og alla. Ég vildi frekar pæla í vörumerkjum og neysluvitund – svo ég beiti fyrir mig hugtökum sem eru víst nógu sjaldgæf hérna á vinstrivængnum (ef það er yfirleitt gjaldgengt hugtak ennþá). Allir þingmenn og ráðherrar flokka sem bera ábyrgð á því hversu komið er segjast munu axla sína ábyrgð, fyrir utan svo auðvitað það að ekkert af þessu sé þeim persónulega að kenna. Flokkarnir beri sína ábyrgð og muni axla hana, en ég, ónei. Það getur ekki þýtt neitt annað en það að þessir flokkar eigi ekkert erindi á þing lengur einsog þeir leggja sig, eða hvað?

Þingmenn og ráðherrar bera ábyrgð, flokkar bera ábyrgð, en nú eru flokkarnir með nýja og hreina forystu og þingmennirnir ekki lengur ráðherrar eða ráðherrarnir fyrrverandi hættir sem seðlabankastjórar eða hvaðeina sem þeim dettur í hug að segja. Málið er í raun miklu einfaldara en þetta; þeim sem dettur í hug að bjóða sig fram fyrir flokk sem „ber ábyrgð sem hann mun axla“ er ekki að breyta eða hreinsa flokkinn af nokkrum sköpuðum hlut. Hann er að byggja á grunni – eða rústum – þess flokks og mun aldrei geta forðast þá grundvallarhugmynd sem hann reisir sína stefnu á. Það gengur enginn í Vítisenglana til að stofna leikskóla og það gengur enginn í Ku Klux Klan til að breyta skilningi þeirra á blökkumönnum innanfrá.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson byggir á 90% húsnæðislánum, Kárahnjúkavirkjun og einkavæðingu bankanna. Hann mun ekki geta forðast þá ábyrgð þótt flokkurinn hans „axli“ hana, enda þegar flokksmenn segja að flokkurinn (ekki þeir) beri ábyrgð, hvern fjandann er flokkurinn þá að bjóða fram? Bjarni Benediktsson byggir á sömu einkavæðingu bankanna, ábyrgðarlausum skattalækkunum á þenslutíma, innrás í Írak og Afganistan – það gerir Sigmundur Davíð raunar líka – og ég bara nenni ekki að telja upp einstök atriði lengur. Þetta er fullkomlega út í hött. Og meðan enginn telur sjálfan sig bera nokkra einustu örðu af ábyrgð hlýtur sú ábyrgð að falla á flokkinn í heild sinni og því sé hann ekki tækur til framboðs fyrir það fyrsta, til núverandi setu á þingi og í sveitastjórnum hvað hitt varðar. Og það er hreint út sagt ótrúlegt að sjá tilburði og kattaklór þessara embættismanna í kjölfar birtingar skýrslunnar einsog þeir ætli sér að taka nokkra einustu ábyrgð á því hvernig komið er. Fyrir utan svo það að ef þeir sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn taka mark á Geir H. Haarde þá hljóta þeir að sjá að Samfylkingin er að minnsta kosti eins saklaus af öllu og hann sjálfur. Allt tal um „Samspillingu“ er hérumbil það heimskasta sem ég hef komist í tæri við að undanförnu.

En hvað segir það okkur þá að svona margir vilja kjósa Sjálfstæðisflokkinn til lands og sveita? Ég held að skýringin sé margslungin:

1. Það er ekkert annað fyrir hægrimenn að kjósa – sem lýsir jafnvel meira ábyrgðarleysi meðal kjósenda en frambjóðenda.

2. Það er komin ný forysta sem axlar ábyrgð – sem er ekki satt sbr. allt ofantalið.

3. Afi minn var sjálfstæðismaður, pabbi minn líka og ég er sjálfstæðismaður – sem er ekki sérlega klókt, í alvöru bara hugsið málin.

Margt fleira mætti svosem telja hér til. En þessi pistill snýst um vörumerki og neysluvitund. Það er ekki hægt að kaupa sér bensín á Íslandi án þess að versla við glæpamenn – nema gegnum Atlantsolíu (enn sem komið er a.m.k.). Það er ekki hægt að fljúga á eða frá Íslandi nema versla við glæpamenn (Pálmi í Fons og Hannes Smára, svo ég skilji Baug sem stofnun aðeins undan). Það er ekki hægt að eiga bankareikning á Íslandi nema vera sjálfur máður af glæpsamlegri forsögu bankanna sem hafa lítið annað gert en skipta um nafn. Það er ekki einu sinni hægt að horfa á Stöð 2 eða lesa Moggann án þess að sverta sjálfan sig ögn í leiðinni. Og fákeppni og hefðarveldi á stjórnmálamarkaðnum hefur orðið þess valdandi að tveir elstu stjórnmálaflokkar landsins virðast ætla að lifa af mesta hneyksli Íslandssögunnar. Það sem ég er að segja er þetta: það er einfaldlega ekki hægt að skipta út fólki í ógeðslegri stofnun (svo ég vitni í Styrmi Gunnarsson) og ætlast til þess að froskurinn breytist í prins. Það er bara fáránlegt. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn bera, bara sem dæmi, ábyrgð á hruni íslenska fjármálakerfisins og hundruðum þúsunda myrtra í Afganistan og Írak. Það getur því varla talist góð hugmynd að bjóða fram undir sama merki í nafni réttlætis og ábyrgðar.

Svo kannski er þetta ekki spurning um neyslu- eða stjórnmálavitund almennings eftir allt saman. Kannski er þetta ekki spurning um fair trade. Á Íslandi hefur aldrei verið neitt fair trade. Annaðhvort er þetta spurning um það hvort fólki sé virkilega sama eða vilji heldur sjá breytingar, eða hitt, hvort kerfið sjálft sé það einsleitt að fólki sé slétt sama hvað það kjósi. Í öllu falli er ástandið alvarlegt þegar svo margir kjósa siðspilltustu öfl landsins enn af fullum krafti, og fyrir mitt leyti mun ég taka kröfum um róttækni og breytingar þeirra hinna sömu með fyrirvara meðan flestir kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Verði þeim að viðleitni sinni, segi ég bara.

Birtist einnig á Kistunni þann 14. apríl 2010.

Ljóðvinir fagrir: ungskáld og bókmenntasaga – ádrepa um Tíminn er eins og vatnið – íslensk bókmenntasaga 20. aldar

Ég vil gera alvarlegar athugasemdir við nýja bókmenntasögu tuttugustu aldar sem kennd er í framhaldsskólum í fyrsta sinn nú í vetur, bókina Tíminn er eins og vatnið eftir Brynju Baldursdóttur og Hallfríði Ingimundardóttur, eða í það minnsta þann stutta kafla hennar sem helgaður er ungskáldum samtímans og nefnist „Ljóðvinir fagrir“.

Ung skáld hafa á öllum tímum stofnað með sér félag um
skáldskap[1]. Eitt þeirra var stofnað á vordögum 1986 og
nefnist Besti vinur ljóðsins. Það hefur haft á stefnuskrá sinni
að ýta ljóðum ungskálda að almenningi með upplestrum hér
og þar, á kaffihúsum, börum, í ferjum og flugvélum. Hrafn
Jökulsson var umsjónarmaður félagsins í fimmtán ár en Sölvi
Björn Sigurðsson tók við þeirri ábyrgðarstöðu í nóvember
2001. Við það tækifæri var efnt til upplestrarkvölds í
Þjóðmenningarhúsinu og voru þá meðal annars lesin ljóð
nokkurra ungskálda sem lítt hafa verið áberandi í
bókmenntaheiminum. Sölvi Björn Sigurðsson hefur tekið
saman nokkur ljóð ungra skálda í samnefnda bók sem kom
út árið 2001. (bls. 295)

Þannig hefst kaflinn sem í fljótu bragði fjallar ekki um neitt. Þegar nánar er að gáð fjallar hann um umsjónarmann, ritstjóra, tvö skáld og nokkrar óljósar fígúrur sem eitt sinn virðast hafa gefið út bækur en ekkert gert síðan. Svo fyrst sé vikið að þeirri ábyrgðarstöðu Sölva Björns, sem kaflinn gefur í skyn að sé enn starfandi fyrir félagið Bestu vini ljóðsins, þá get ég ekki sagt að ég hafi orðið þess félagsskapar var síðan Ljóð ungra skálda kom út fyrir sjö árum – með fyrirvara um leiðréttingu – hvað þá heldur að Sölvi Björn starfi enn fyrir slíkan félagsskap. Næst veita höfundar okkur sýnishorn úr nefndri bók, ljóðið ótakmörkuð ást eftir Kristínu Eiríksdóttur. Ég get ekki sagt að mér þyki hún hafa verið lítt áberandi í bókmenntaheiminum síðan þá eins og ýjað er að, en þetta er auðvitað sparðatíningur hjá mér og væntanlega eiga höfundar við að skáldin hefðu ekki verið sérlega áberandi á þeim tíma sem safnritið kom út. Sölvi Björn kemur svo ekki meira við sögu í þessum kafla, eða bókinni allri hvað það varðar, hvorki Gleðileikurinn djöfullegi né nokkurt annarra verka hans.

Tilvitnunin hér að ofan er hálfur kaflinn. Næsti helmingur fjallar um útgáfufélagið Nykur – eða reynir að gera það en fjallar óvart bara um vin minn Emil Hjörvar Petersen. Þar segir:

Áfram héldu ung skáld að láta til sín taka og stofnuðu árið
1995 félag sem þau nefndu Nykur og var félagið hugsað sem
nokkurs konar bókmenntavettvangur og sjálfshjálparforlag.
Fyrstu verk skálda og rithöfunda á borð við Andra Snæ
Magnason, Davíð A. Stefánsson, Steinar Braga, Ófeig
Sigurðsson og fleiri komu út á vegum Nykurs. Alls voru
gefnar út 13 bækur á vegum Nykurs til ársins 2003, en þá
lagðist hann í dvala, fór aftur í tjörnina og beið færis. Þremur
árum síðar vaknaði nykurinn aftur og tók til óspilltra málanna
við bókaútgáfu og bókmenntaumfjöllun[2]. Skáldum innan
félagsins fjölgaði og ætla þau sér stóra hluti á
bókmenntasviðinu. Emil Hjörvar Petersen er félagi Nykurs
[sic]. Árið 2007 gaf hann út ljóðabókina Gárungagap.
(bls. 296)

Nemendur á framhaldsskólastigi eru engu nær um hverjir Davíð A. Stefánsson, Steinar Bragi eða Ófeigur Sigurðsson eru; hvergi annarsstaðar í bókinni er einu einasta orði eytt í þá. Andri Snær fær sinn kafla annarsstaðar en þar er ekkert minnst á Nykur. Þar að auki er ekkert sagt hvaða skáld þetta eru sem halda félaginu úti núorðið, hve margar bækur hafa komið út á þeirra vegum né þá heldur hvað þær heita. Tilvitnunin öll er nánast kópí-peist úr þeim viðtölum sem Emil Hjörvar hefur mætt í síðasta ár, orðfærið er í það minnsta óhugnanlega líkt. Engir utan Nykurs hafa mér vitandi haft orð á því að „nykurinn hafi lagst í dvala“, „farið aftur í tjörnina og beðið færis“ (eftir hverju?) eða „vaknað aftur og tekið til óspilltra málanna við bókaútgáfu“. Við fáum ekkert að vita um þessa meðlimi Nykurs, að Emil undanskildum, hverjir þeir eru, hvaða bækur þeir hafa skrifað, um hvað þær fjalla, hverslags viðtökur þær fengu, hvaða þýðingu verkin höfðu fyrir samtíma sinn ef nokkra – greinilega enga að mati höfunda. Ófeigur Sigurðsson er reyndar tiltekinn meðal „höfunda efnis“ aftast í bókinni en téð efni er hvergi sjáanlegt. Höfundar taka aðeins eitt dæmi um verk Nykursskálda, ljóðið Í mannþröng eftir Emil Hjörvar, án þess þó að segja nokkurn skapaðan hlut um það:

Eftirfarandi ljóð orti [Emil Hjörvar Petersen] þegar hann sat á
kaffihúsi í ónefndri borg í Evrópu. Mikill ys og þys var í
kringum hann og hann reyndi að grípa andrúmsloftið og setja
á blað. Út úr ljóðinu má síðan finna lóðrétt orð, ljóðið er því
eins konar þraut! (bls. 296)

Já, gestaþrautir geta verið voða skemmtilegar. En hvaðan hafa höfundar bókarinnar þessar upplýsingar? Ég man ekki gjörla hvar þetta er haft eftir Emil á prenti, og höfundarnir hirða ekki um að geta heimilda svo ég er engu nær. Ámælisverð sem þau vinnubrögð eru fæ ég ekki betur séð en það skipti ekki nokkru máli fyrir ljóðið hvort það sé ort á elliheimili eða í ónefndri borg í Evrópu, hvað þá heldur hvort það var á kaffihúsi eða hvað höfundi gekk til. Þetta er ekki bókmenntafræði, þetta er fúsk. Og hérmeð lýkur kaflanum; utan ljóðin sem höfundar taka sem dæmi hef ég birt hér hvert einasta orð sem í honum stendur.

Hvað situr eftir í huganum eftir þennan lestur? Erum við einhverju nær um umfang ljóðagerðar á Íslandi, viðfangsefni ungskálda, höfundarverk, strauma, stefnur, pólitík, tilgang, form, brag, boðskap? Við erum skilin eftir með Sölva Björn, sem hefur ekkert sér til frægðar unnið nema gefa út safnrit annarra skálda en sjálfs sín ef marka má bókina, Kristínu Eiríksdóttur sem hefur skrifað eitt ljóð, þrjú skáld sem eru gleymd, eitt sem gaf út Gárungagap og höfund Draumalandsins sem virðist ekkert eiga heima þarna. Jú, og svo var Hrafn Jökulsson eitthvað að væflast þarna líka í fimmtán ár en gerði að því er virðist ekki neitt. Hér er ekki stafkrók eytt í Nýhil eða Listaskáldin vondu. Medúsuhópurinn fær sína slettu undir Sjón, Jóhamar neimdroppaður og búið. Hvar er Eiríkur Örn Norðdahl, Steinar Bragi, Ófeigur Sigurðsson, Haukur Már Helgason, Sölvi Björn, Kári Páll Óskarsson, Valur Brynjar Antonsson, Davíð Stefánsson, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Þórdís Björnsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Óttar Norðfjörð, Ingunn Snædal, Sigtryggur Magnason, Sindri Freysson og fleiri? Fyrst aðeins var rúm fyrir tvo fulltrúa allra ungskálda á Íslandi á árabilinu 1995 til 2007 (ein sex stykki ef marka má bókina), Kristínu Eiríksdóttur og Emil Hjörvar, hví var þá ekki fleiri orðum eyðandi í þau en „birti ljóð í safnriti“ eða „gaf út bók, fór á kaffihús í Evrópu“? Hvers vegna er yfirhöfuð ekki sagt frá því að Kristín hafi gefið út minnst tvær ljóðabækur á ritunartíma bókarinnar? Að bæði hún og Emil hafi fengið góða dóma fyrir verk sín? Hvað verkin eiga að fyrirstilla? Er ætlast til að fólk læri á því að lesa þetta?

Ef þessi vinnubrögð endurspegla bókina alla er í sem allra stystu máli ámælisvert að kenna bókina. Meðferð heimilda er það ábótavant að meira að segja Gárungagap Emils Hjörvars er ekki í heimildaskrá bókarinnar, enda þótt í hana sé vitnað. Bæði Kristínu og Emil má finna í höfundatali aftast, en þar má einnig finna Ófeig Sigurðsson þótt ekkert efni sé eftir hann í bókinni. Sölvi Björn fær að ritstýra ljóðasafni í bókinni en hann er ekki meðal höfunda efnis. Nykur er ekki í atriðisorðaskrá, né þá heldur neinn þeirra sem nefndir eru til sögunnar, og engin ritaskrá fylgir bókinni. Aðeins heimildaskrá sem telur ekki skáldverkin sjálf. Umfjöllunin er ennfremur klén og tilgangslaus. Sjálfur titill bókarinnar svíkur innihaldið þar sem það teygir sig innundir lok fyrsta áratugar tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Og þær örfáu hræður sem höfundar telja ekki eftir sér að nefna á nafn undir samheitinu „ljóðvinir fagrir“ virðast miðað við framsetningu bókarinnar hafa álíka mikið gildi fyrir bókmenntir eins og myndmennt fimmta bekkjar fyrir myndlist. Og í hvaða tilgangi? Til að vekja menntskælinga til umhugsunar um bókmenntir? Til að vekja athygli þeirra á ljóðlist? Eða til að sýna þeim hvað gerist þegar viðvaningar skrifa bókmenntasögu tuttugustu aldar af metnaðarleysi, dugleysi og fáfræði?

__________
[1]Hér vantar heimild svo ég geri ráð fyrir að ungskáld hafi fyrst sprottið fram á líkum tíma og Homo erectus.

[2]Nykur hefur að mér vitandi aldrei tekið til óspilltra málanna við bókmenntaumfjöllun, enda þótt einstakir meðlimir félagsins hafi sinnt fræðastörfum og/eða skrifað ritdóma.

– Birtist á Kistunni þann 5. október 2008.

Hugsið ykkur frið

I.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fráfarandi borgarstjóri Reykjavíkur, vígði á dögunum Friðarsúlu Yoko Ono við hátíðlega athöfn í Viðey. Í yfirlýsingu Yoko við það tilefni kom fram að vonir hennar stæðu til að ljóskeilan mætti vera börnum huggun harmi gegn í vondum heimi, að hún gæfi þeim von þegar enga von væri að finna. Friður, kærleiki, bræðralag. Sjálft ljós heimsins, gjöf Yoko og Íslendinga til heimsins. Við sama tækifæri lýsti Vilhjálmur því yfir að Reykvíkingum væri sannur heiður sýndur með því að slíkt leiðarljós fengi að prýða borgina, heiminum til verðugrar áminningar. Friður er söluvara sem klikkar aldrei, og hann var stoltur hann Villi, enda ærin ástæða til: „Hugsið ykkur frið“ var letrað á mund keilunnar, á öllum heimsins tungumálum. Það höfum við fyrir satt að eru kjörorð Sjálfsóknarflokksins.

II.
Tveimur dögum síðar eru bítlar og blómabörn þeirra farin en súlan er enn í algleymingi; tvö tungl eru nú á himninum og meðan annað er hálft reynist hitt ekki eins hverfult: Ljós friðar og kærleika logar enn jafn skært og kvöldinu fyrr og það enda þótt Lennon sé farinn heim til Englands, þaðan sem lítt ómerkilegri tíðindi berast með öldum netvakans: In Rainbows, nýjasta plata Radiohead, er nú fáanleg á netinu. Kannski ekki hvítaalbúmið þeirra, en fjandi þétt engu að síður.

Radiohead, og þá ekki síst forsprakki þeirra, Thom Yorke, eru ekki síst þekktir fyrir afskipti sín af pólitík. Yorke hefur til dæmis barist fyrir skuldaaflausn Afríkuríkja, frelsi Tíbets og minnkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda, svo eitthvað sé nefnt. Á plötunni In Rainbows má þannig finna lög á borð við House of Cards og Videotape, sem sérstaklega voru samin fyrir tónleikahátíðina Free Tibet á síðasta ári. Þar má einnig finna lagið Nude, sem Yorke samdi á OK Computer-túrnum fyrir tíu árum. Enda þótt textinn hafi lítið eitt breyst gegnum árin er inntak lagsins enn það sama: Ekki fá stórar hugmyndir, það verður ekkert úr þeim. Upphaflegt nafn lagsins helgaðist enda af boðskapnum: „Big Ideas (don’t get any)“.

Í eins mikilli andstöðu og inntak lagsins Nude er við pólitísk markmið Thoms Yorke, Yoko Ono og – að því er virðist – Vilhjálms Vilhjálmssonar, má velta fyrir sér hvort ekki liggi nokkur sannindi þar að baki. Vilja ekki allir jú frið, bræðralag og jafnrétti? Eða hvaða hagsmunir liggja þar að baki? Geta ekki allir tekið undir nauðsyn þess að byggja börnum okkar betri heim, að skila honum til þeirra eins og við tókum við honum, ef þá ekki betri, ef slíkt er á annað borð á færi okkar? Að minnsta kosti virðist orkan ein ekki ylja hjartarótum Reykvíkinga þessa dagana, því við eigum friðarsúlu, og friðurinn lýsir hæverskur upp skammdegið af óvefengjanlegri reisn, ef ekki orkufrekju. Já, það er friður í Reykjavík.

III.
Nei, það er ekki friður í Reykjavík. Hógværar yfirlýsingar Vilhjálms Þ. nægja einar ekki til, því skyndilega er uppi fótur og fit vegna hins nýstofnaða orkufyrirtækis Reykjavík Energy Invest og aðkomu borgarstjóra að stofnun þess. Orkan yljar, sem fer í súlusjóið, en hún er skammgóður vermir. Friðurinn er úti. „Et tu, Binge?“ verða síðustu orð borgarstjóra. Að sinni. Því sannarlega reyndist friðurinn nægur til að vinir kæmu aftan að bestu vinum, ljóskeilan minnir okkur á það, þótt Yoko sé farin. Og Ringo og Lennon yngri. Vissulega var ljótt af Binga að græta vini sína, það er þó spurning hvort Gísli Marteinn finni frið í súlunni, þar sem engan frið væri annars að finna, hvort innhverf íhugun færi honum þá sáluhjálp sem hann svo þarfnast. Af myndinni í Netmogganum að dæma þarf hann altént meira en bara heitt kókó og bangsann sinn Bóbó.

Og á meðan við njótum þórðargleði okkar yfir öllum þeim fíflagangi sem viðgengst meðal pólitískra andstæðinga, eða bara almennt þeirri vitleysu sem viðgengst í þessum sirkus sem nefnist pólitík hér á landi, hljóta menn að spyrja sig þess hversu lengi nýr meirihluti kemur til með að endast, þegar hann veltur allur á einni manneskju, sem þar fyrir utan er hætt í flokknum sem hún kemur til með að starfa fyrir innan meirihlutans. Og þótt friður sé kannski kominn á að nýju, hvort sé í takmarkaðan tíma, á Bingi líklega fáa vini eftir; Júdasi beið víst enginn kanelsnúður við enda ljóskeilunnar. Mætti þá ekki heldur velta fyrir sér hvort þetta sé ekki ein þessara stóru vanhugsuðu hugmynda sem virtust góðar á sínum tíma, ef þær virtust þá nokkru sinni góðar.

IV.
„Don’t get any big ideas, they’re not gonna happen,“ syngur friðelskandinn og mannvinurinn Thom Yorke, meðan ljós heimsins, kraftbirtingarhljómur friðarins, lýsir upp næturhimininn og fjórflokkurinn tekur til starfa við að sópa hárkollum úr Ráðhúsinu. Já, ég held ég komi til með að spila það aftur og aftur á komandi misserum, allt þar til Yoko sér að ein friðarsúla mun seint nægja heiminum öllum. Hvað þá heldur Reykjavík. Uns líður að því getum við í öllu falli hugsað okkur frið.

– Birtist á Egginni þann 25. október 2007.

Að hafa, en geta ekki

Nú eru síðustu forvöð að skoða landsvæðið sem enginn hefur komið til, raunverulegt draumaland, stærsta svæði ósnortinnar náttúru sem eimir eftir af í Evrópu. „Við erum forréttindakynslóð,“ sagði Ómar Ragnarsson, „við verðum fyrst til að sjá hálendið í allri sinni dýrð, og sjáum jafnframt til þess að enginn annar muni sjá það aftur“. Hvað er svo sem hægt að sjá við Kárahnjúka? Kannski ekki mikið núna utan drullugar leifar Dimmugljúfra og urmul vinnuvéla, en það sem fyrir handan er, þar liggur ormur á gulli. Eins og sjá má af þessum myndum. Það er meira en bara hnjúkurinn, það er heil veröld ónumin, sem best skyldi haldast ónumin; griðastaður einstakrar náttúrufegurðar og dýralífs í heiminum til árþúsunda; griðastaður sem sjálfum verða engin grið gefin, og senn fer undir vatn.

Pólitíkin hefur firrt okkur svo að kjarni deilunnar hefur snúist um hagvöxt og hvort andmælendur stíflunnar hafi einu sinni komið á fjallið. Enginn spurði þá sömu hvort þeir hefðu siglt niður Yangtze eða Amazon; séð norska skóglendið eða komið að Nílarósum. Alveg áreiðanlega hlýtur að mega rústa þessu öllu. Raunar er verið að rústa þessu flestu, ef ekki er þegar búið að því. Skógarnir sleppa. Hvernig ætli hagvöxtur sé í Noregi?

Ef fórna má hlutum óverulegs fjárhagslegs gildis til að sitja fimm mínútum lengur í sólinni, hlýtur að vakna sú spurning hversu langt við viljum ganga. Ef það skiptir þá nokkru hvað við viljum, hlutirnir virðast ganga ágætlega af sjálfu sér. Annað sem skipt gæti máli eru allar þær virkjanir og álver sem enn sitja á vinnuborðinu, nú þegar Framsóknarflokkurinn þykist hafa snúið baki við stóriðjustefnunni. Fyrst hugvit og nýsköpun þykir skyndilega eftirsóknarverð, þá væri kannski ráð að hreinsa borðið og hugsa hlutina upp á nýtt. Það er ef nokkur innistæða væri fyrir hinni meintu stefnubreytingu Framsóknarflokksins. Það er ef nokkuð annað en fjárhagsleg rök skiptu máli í þessari umræðu.

Hvernig sem á það er litið flykkist nú fólk austur á land til að sjá það sem það getur áður það er orðið of seint. Þau bera náttúrudýrðinni fagurt vitni, prísa og dásama upplifunina af því að hafa komið „til Kárahnjúka“. Meðan það gat. Nú fer fólk þangað í heilu rútuförmunum, vegna þess það hefur aðeins alla ævina til að sjá eftir því að hafa ekki farið. Ef það er þá það sem raunverulega skiptir máli. Að hafa farið, en geta það aldrei aftur.

Hefur þú komið til Kárahnjúka?

Birtist á Múrnum 26. júlí 2006.

Varist róttæka friðarsinna!

Oft heyrast í umræðunni þau rök að einhver tiltekinn aðili sé róttæklingur og því dæmi málflutningur hans sig sjálfan. – Nei, heyrist einhver segja, það er engin önnur leið fær í stöðunni en að reisa álver. Þeir einu sem eru á öðru máli eru róttækir umhverfisverndarsinnar eða – hrollur – listamenn. Fyrir utan að oft virðast listamenn ekki sérlega hátt skrifaðir hjá stjórnmálamönnum þegar kemur að gjaldgengi í pólitíska umræðu, þá leyfi ég mér að setja spurningarmerki við þann stimpil að vera róttækur.

Oft þarf ekki mikið til að teljast róttækur. Á tímum þegar sorfið hefur til stáls milli heimshluta og háðar eru hildir á hugmyndafræðilegum forsendum (altént á yfirborðinu), þá má hver teljast róttækur sem ekki fellir sig við annan deiluaðilann. Róttækir friðarsinnar eru þyrnir í augum þeirra sem styðja stríð. Þeir vilja frið á frið ofan og þeir dirfast að mótmæla þegar þeir fá ekki sitt fram. Þeir fella sig ekki við raunsæja stjórnarhætti æðrulausra leiðtoga sinna. Þess vegna eru þeir róttækir. Friður er róttæklingahugsjón hippa og mussukomma. Varist friðinn, helstu framfarirnar hafa jú alltaf orðið á stríðstímum, eins og allir vita.

Náttúruverndarsinnar urðu skyndilega „bara náttúruverndarsinnar“ á tímum Kárahnjúkadeilunnar 2003. Þeir eru það sumpart enn, en sumpart eru þeir orðnir „róttækir náttúruverndarsinnar“. Jafnframt eru þeir andvígir hagvexti, hvernig svosem það getur staðist, óvinir framfara og iðnaðar auk þess sem þeir daðra við kreppunornina hvenær sem færi gefst. Þeir eru róttækir óvinir lands og þjóðar, rétt eins og – hrollur – listamennirnir.

Þetta er það sem það er að vera róttækur. Að vera róttækur felst í að vera ósammála yfirvaldinu. Þeir sem hugsa útfyrir rammann sem þeim er gefinn, þeir eru róttæklingar. Og það þykir afar slæmt að vera róttæklingur. Það sést best á notkun þeirra á orðinu sem nota það mest. Friður er göfugt takmark. Náttúruvernd ætti að heita sjálfsögð; það hljóta alltaf að þurfa að vera einhver takmörk á því hversu nærri náttúrunni má ganga, án þess að einn eða neinn sé „á móti hagvexti“. Það eru alltaf fleiri leiðir en þær sem ríkisstjórn hvers tíma vill fara. Jafnframt munu þeir alltaf þykja róttækir sem benda á þær leiðir. Og meðan róttæklingar eru til munu meðalhófsgætandi stjórnmálamenn halda áfram að reyna að sverta málstað þeirra með álíka gæfulegum uppnefnum og „róttækur friðarsinni“.

– Birtist á Múrnum þann 24. maí 2006.

Hvar er upplýsingin?

Ég hélt það væri tíu vetra skólaskylda á Íslandi. Ég hélt að á þessum tíu vetrum færi fram einhvers konar kennsla í gagnrýninni hugsun. Ég hélt að þar væri kennd mannkynssaga, fordæmin sýnd sem víti til varnaðar. Annaðhvort hlustar enginn eða ég hafði rangt fyrir mér.

Ásgeir Hannes Eiríksson, fyrrverandi alþingismaður Borgaraflokksins, vill að stofnaður verði nýr stjórnmálaflokkur þjóðernissinna á Íslandi. Þjóðernissinni er krúttlegra heiti á nasista. Samkvæmt vefsíðu Alþingis er Ásgeir stúdent úr Verzlunarskóla Íslands. Það eru fjögur ár umfram skólaskyldu. Nú skilst mér að Verzlunarskólinn sé góður skóli og að mannkynssögukennslan þar sé til fyrirmyndar. Hvað fór úrskeiðis hjá Ásgeiri?

Ásgeir vill sjálfur ekki stofna nýjan flokk nasista á Íslandi, en segist dyggilega myndu styðja við bakið á hverjum þeim er stofna vildi slíkan flokk. Það er ágætt að menn geti lýst yfir stuðningi sínum við vafasamar hugsjónir á sama tíma og þeir játa að þeir þori ekki að vinna að þeim sjálfir. Greinilega hefur þá Ásgeir lært eitthvað um þjóðernisstefnu á árum sínum í Verzlunarskólanum. Í það minnsta veit hann að síst eru slíkar hugsjónir til að gera menn vinsælli.

Þó gengst hann við þeim opinberlega. Er það til marks um að áhyggjur mínar af uppgangi þjóðernishyggjunnar eru ekki með öllu ástæðulausar. Niðurstöður skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir Ásgeir benda til þess að enn sé tilefni til áhyggja. Um þriðjungur segist myndu geta hugsað sér að kjósa draumaflokk Ásgeirs. Flokkurinn, væri hann til, myndi helst sækja fylgi sitt til ungs fólks og fólks sem einungis hefur grunnskólamenntun, segir ennfremur í Morgunblaðinu um niðurstöður könnunarinnar. Kannski segir það minna um ungt fólk og lítið menntað en það segir um grunnskólakerfið.

Ég minnist þess að hafa lært um Hitler í gagnfræðaskóla, svo og þær hörmungar sem þjóðernishyggjan leiddi yfir Evrópu. En það er langt síðan ég var í gagnfræðaskóla. Enn lengra er síðan Ásgeir var í gagnfræðaskóla, en kannski þótti þjóðernishyggja góð þá. Kannski þykir þjóðernishyggja aftur góð núorðið. Kannski berum við okkur saman við Danmörku að þessu leyti sem svo mörgu öðru, þar sem nasistar nutu 20% fylgis í skoðanakönnunum síðast ég heyrði. Kannski næsta skrefið sé að varpa mannréttindaákvæðum Stjórnarskrárinnar fyrir róða. Við förum hvort eð er svo illa eftir þeim. Þau eru enda aðeins orð á pappír. Það er orðið múslimi líka, raunar, og gyðingar og útlendingar. Hjá Hitler voru gyðingar reyndar ekki orð á pappír heldur tölur, en það gildir einu.

Það sem við horfum upp á er gengisfelling orða mannréttindaákvæða Stjórnarskrárinnar í stað gildishleðslu orða eins og þau, við, útlendingar, múslimar, hommar, lesbíur. Þetta er að gerast alstaðar í kringum okkur. Þetta gerist þegar hið þveröfuga ætti í raun að gerast, það eru þessir eilífu dilkadrættir sem í hvívetna vilja draga umræðuna niður í svaðið. Teikn eru á lofti, menn lýsa því fjálglega yfir að þjóðernishyggjuflokkur sé málið, þriðjungur aðspurðra segist geta hugsað sér að kjósa slíkan flokk. Eitthvað er í ólagi hér, einhversstaðar mistókst okkur. Altént finnst mér ekki kræsilegt sjónvarpsefni þegar menn auglýsa eigin fáfræði og fordóma í fjölmiðlum. Sumt er hreinlega ekki verjandi. Hvar er upplýsingin?

– Birtist á Múrnum 20. apríl 2006.

Jafnréttisumræðan

Í hvert einasta sinn sem umræðan um jafnrétti fer af stað mætti halda að hún væri ný af nálinni, altént ef miðað er við háværustu gagnrýnisraddirnar. Til dæmis sér nú loks fyrir endann á baráttu samkynhneigðra fyrir sjálfsögðum réttindum. Til stendur að þeim verði veitt öll réttindi, utan þau að Alþingi hefur ákveðið að þrýsta ekki á þjóðkirkjuna að afsala sér valdi sínu til að meina öðrum trúfélögum að gifta homma og lesbíur. Það kemur innan skamms, höfum ekki áhyggjur af því. Höfum heldur áhyggjur af þeim sem finna meinbugi á þessu.

Umræðan um réttindi samkynhneigðra er ekki ný undir sólinni. Gegnum árin hefur óréttlæti gegn hinum sundurleitustu hópum verið afnumið með lagasetningum, enda þótt samfélagið hafi kannski ekki alltaf látið sér segjast eins fljótlega. Þannig var til að mynda réttindabarátta þeldökkra mikið heillaspor í mannkynssögunni og almennt mun nú viðurkennt að mismunun á grundvelli húðlitar sé fáránleg. Að minnsta kosti viðurkenna það flestir. Sumir viðurkenna svo ef til vill réttindi svartra en finnast Thailendingar öllu verri. En það er önnur saga. Áreiðanlega héldu margir að baráttumenn væru að grínast, svona rétt eins og ég held stundum að rasistar séu að grínast. Grátlegt hve sjaldan ég hef rétt fyrir mér um það.

Deila má um nytsemi baráttuaðferða súffragettanna, og mikið djöfull þótti nú sjálfsagt uppi á þeim typpið, þessum „kerlingartuðrum“, á sínum tíma. Í jafnréttisbaráttunni er enginn spámaður samtíma síns. Engu að síður hrundu þær af stað ferli sem í dag hefur stuðlað að mikilli vitundaraukningu um kjör og aðstæður kvenna, og almennt mun viðurkennt að konur skuli hvarvetna standa körlum jafnfætis. Ekki munu þó allir sammála um hvort svo sé í reynd.

Þegar öllu er á botninn hvolft reynist barátta kvenna langt frá því að vera lokið. Alls kyns groddalegar setningar heyrast víðast hvar í hinu daglega lífi, og fordómar, duldir sem meðvitaðir, grassera meðal ótrúlegustu einstaklinga. Helstu gáfumenni í hópi andstæðinga feminismans klifra upp á köllunarkletta samfélagsins hrópandi að konurnar séu komnar til að taka af þeim typpið, að þær kunni ekki að keyra, að þeim beri ekki að greiða sömu laun vegna minna físíkalítets. Þetta er eiginlega eins grátlegt og það er fyndið. Og nú nýlegast átti vor allranáðugasti utanríkisráðherra gott innlegg inn í sívaxandi flóru karllægrar rhetóríkur. Eftir stendur að baráttu kvenna er síst lokið, en þó virðast flestir á einu máli um jafnrétti kvenna og karla. Hvað veldur?

Umræðan um réttindabaráttu samkynhneigðra tekur reglulega út yfir allan þjófabálk. Ónefndir trúarleiðtogar finna því allt til foráttu að „þessu fólki“ verði gert heimilt að ala upp börn, „þetta fólk“ muni snúa þeim til saurugs lifnaðarháttar, að það sé vísindalega sannað að „þetta fólk“ sé verri foreldrar en „við hin“. Allt eru þetta lygar, sprottnar upp af fáfræði og mögulega trúarofstæki. Á sama hátt og svartir þóttu aðeins hæfir til að þræla fyrir hvíta og konan var aðeins hæf til að þjóna karlinum, þá þykir mörgum samkynhneigðir vart til neins hæfir og trúa því jafnvel að þeir fari beinustu leið til helvítis.

Sjáið þið mynstrið? Það er sama baráttan. Svartir, konur, samkynhneigðir. Þarf að berjast fyrir réttindum alls fólks, aftur og aftur og aftur og út í hið óendanlega? Hvenær ætlum við að sjá í gegnum þessa heimskulegu orðræðu? Hvenær ætlum við að sjá að umræðan er komin langt út fyrir hið fáránlega og ákveða í eitt skipti fyrir öll að tími er til kominn að allir njóti sömu réttinda, sama í hvaða dilka fólk vill draga þá? Tíminn er núna. Hættum þessu kjaftæði!

– Birtist á Múrnum 27. mars 2006.

Bókmenntarýni: Sumarljós og svo kemur nóttin

Vegna áskorunar birti ég fyrirlestur minn um Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson, sem ég flutti í skólanum í dag. Set þann fyrirvara á að hún var hraðunnin og að sjálf efnisyrðingin sem ég lagði upp með frá upphafi týndist í hugmyndaflóðinu meðan ég spann mér leið í kringum hana. Þess vegna er spurningunni sem ég varpa fram í upphafi fyrirlestursins látið ósvarað, ekki svo að skilja að ég gæti ekki svarað henni hér og nú, ég bara nenni því ekki. Fyrir utan svo auðvitað það að mögulega fæli það í sér að ég eyðilegði bókina fyrir einhverjum. Rétt er að geta þess að hugtakið „þorpssál“ fæ ég lánað úr þessari gagnrýni á bókina.
Fyrirlesturinn var alltof langur, en í raun alltof stuttur til að gera bókinni nægileg skil. Ég hefði getað þvaðrað um hana á tuttugu blaðsíðum í stað þeirra fjögurra sem ég skrifaði. Svo er endirinn snubbóttur. Hvað sem því líður, þá er hér fyrirlesturinn í heild sinni, eins og hann var fluttur, lesendum Bloggsins um veginn (vonandi) til yndisauka:

Lífið virðist stundum fara í allar áttir en endar svo iðulega í miðri setningu. Þau orð má finna í inngangskafla bókarinnar Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson. En hvað merkja þau? Það er ef til vill það sem bókin snýst um.
Sögusvið bókarinnar er ótilgreint smáþorp á vesturlandi. Á yfirborðinu sýnist allt með felldu, en það er sem vænti mátti ekki tilfellið. Bókin hefst á inngangskafla þar sem þorpinu er lítillega lýst, t.a.m. er tilgreint að þar sé enginn kirkjugarður og staðreyndin túlkuð sem forsenda hás meðalaldurs í þorpinu, líkt og hann sé ósjálfráð tillitssemi. Mest um vert í inngangsorðunum er að þar kemur fyrst fram annarsvegar það barnslega kæruleysi sem einkenna mun bókina út í gegn, svo og alvitur frumspekitónninn sem aðeins glymur þegar mest á þarf. Kæruleysið sést á kirkjugarðssögunni. Grunntónn heimspekinnar er sleginn hér:

„… á kvöldin blæðir sólinni yfir [fjörðinn] og þá hugsum við um dauðann … Hefurðu annars leitt hugann að því hversu margt er tilviljunum háð, jafnvel allt? … sjaldan vitglóra í hendingum og líf okkar þá lítið annað en stefnulaust ráf, þetta líf sem virðist stundum fara í allar áttir en endar svo iðulega í miðri setningu …“

Sögumaður er ekki einn heldur allir – segja má að sögumaður sé í raun þorpssálin, eitthvert við sem allt yfirsér en er engu að síður algjörlega óhlutbundinn og óháður þorpsbúum; ef til vill ímynduð þorpssál, afleiðing þess ef þorpsbúar sameinuðust allir í einn, með alla sína vitneskju, reynslu og trega, svo úr yrði nokkurs konar alvitur meðvitund. Þorpssálin er þó hvorki afgerandi né ráðandi afl í frásögninni. Stærstan hluta bókarinnar heldur hún sig til hlés og hleypir frásögninni óhindrað að. Í raun er bókin tvískipt: Það eru kaflar og millikaflar. Kaflarnir eru frásögnin, en þorpssálin býr í milliköflunum. Án þeirra, leyfi ég mér að segja, væri bókin lítils verð; þeir binda hana saman, gefa henni heildarsvip og heildarhugsun. Án þeirra væri bókin aðeins smásagnasafn.
Ég minntist á trega hér áður, og það af ærinni ástæðu, því við enda forleiksins er hinsta stemningsnótan slegin fyrir symfóníu verksins, og allt sem eftir kemur tekur mið sitt af því:

„… hér verður þó örugglega sagt frá girndinni sem hnýtir saman daga og nætur … Við segjum frá hversdagslegum atburðum, en líka þeim sem eru ofvaxnir skilningi okkar … og að sjálfsögðu ætlum við að segja þér frá nóttinni sem hangir yfir okkur og sækir afl sitt djúpt út í geiminn, frá dögunum sem koma og fara, frá fuglasöng og síðasta andartakinu, þetta verða áreiðanlega margar sögur … og nú byrjum við, hérna kemur það, kátína og einsemd, hófsemd og rökleysa, líf og draumur – já, draumar.“

Hér byrjar bókin. Minnst hefur verið á skiptingu bókarinnar í kafla og millikafla. Kaflarnir þjóna tilgangi frásagnarinnar og hver og einn þeirra er sjálfstæð saga úr þorpinu. Ekki tjóar að tíunda efni hvers kafla fyrir sig. Það væri í senn tilgangslaust og óáhugavert. Í bókinni eru engar aðalpersónur, aðeins fólk sem kemur og fer. Sumar persónur koma raunar oftar fyrir en aðrar, en það er ekki til þess gert að veita þeim meira vægi í frásögninni og þaðanafsíður er það gert vegna þess að einhverjar þeirra séu mikilvægari en aðrar. Þetta gerir Jón Kalman til þess að skapa raunverulega tilfinningu fyrir þorpinu. Í raunveruleikanum er það svo að fólki hættir til að bregða misoft fyrir, jafnvel svo langur tími líði milli þess þú hittir það. Tilfinningin sem grípur lesandann er einmitt þessi: Er þetta raunveruleiki? Þorpið er stærra en frásögnin. Glugga frásagnarinnar mætti líkja við stakan ramma uppi á hálendi; hann snýr aðeins í eina átt og jafnvel þannig heldur hann ekki öllu umhverfinu sem við honum blasir. Slíkur er máttur stílbragðsins, það nægði ef aðalpersóna eins kafla sæist kaupa sér pylsu í öðrum, þá væri áhrifunum náð; þorpið er hér og það er til.
Treginn. Lýst hefur verið hvernig Jón Kalman skilur við hið ytra, en hið innra er ekki síður mikilvægt. Í raun er það mikilvægara. Því á yfirborðinu virðist allt með felldu, eins og áður var getið, en i raun fer því fjarri. Ekki einungis lesum við um fólkið í þorpinu, við kynnumst því, komumst að leyndustu hugsunum þeirra, finnum þrár þeirra, vonir, væntingar, ótta, ást þeirra, reiði og gremju. Og það er meira en að segja það, þetta þarf hver og einn að upplifa, til að skilja tregann. Þorpssálin gerir sitt til að skapa þennan trega, en gerir það meðan hún reynir að draga úr honum. Eftir vægast sagt erfiðan kafla um framhjáhald sem endar með pyrrhosarsigri aðalpersónunnar, reynir þorpssálin að beina huga lesandans annað:

„Til hvers hef ég lifað, spurði frænka okkar á dánarbeði, við opnuðum munninn til að svara, án þess þó að vita svarið, en þá dó hún, því dauðinn er ennþá góðu skrefi á undan okkur.
Við höfum séð nóttina koma yfir fjöllin og stóðum úti þegar vægur skjálfti fór um loftið, fuglar litu upp og síðan reis eldhnöttur í austri. Til hvers lifum við; er óhætt að svara svona spurningu? Kannski ekki, höfum við eitthvert hlutverk, umfram það að kyssa varir og svo framvegis? En stundum og þá einkum rétt áður en svefninn yfirbugar okkur á kvöldin og dagurinn er liðinn með allan sinn óróleika, við liggjum uppi í rúmi, hlustum á blóðið og myrkrið kemur inn um gluggana, þá vaknar sá djúpi og óþægilegi grunur að þessi nýliðni dagur hafi ekki verið nýttur sem skyldi, það hafi verið eitthvað sem við hefðum átt að gera en vitum bara ekki hvað það var. Hefurðu stundum velt því fyrir þér að aldrei í sögunni höfum við haft það jafn gott, einstaklingurinn aldrei haft meiri möguleika til að hafa áhrif á umhverfi sitt, aldrei verið jafn auðvelt að vera þátttakandi, en sjaldan jafn lítill vilji – hvernig skyldi standa á því? Getur verið að svarið leynist í annarri spurningu: Hverjir græða mest á slíku ástandi?“

Þetta er ekki sérlega huggandi. Eiginlegt hlutverk þorpssálarinnar er heldur ekki að vera huggandi. Hún er til staðar til að veita okkur innsýn í sálarlíf þorpsbúa, sýna okkur heiminn eins og hann er undir gljábónuðu yfirborðinu. Lífið er ekki auðvelt, það er enginn dans á rósum, það er hér eins og það er þar og það er raunverulegt og það er tregablandið, en það er ekki algjör hörmung, það er fallegt þótt það sé ljúfsárt. Bókin er hreint ekkert þunglyndisraus, heldur undirstrikar einmitt hún fegurð lífsins og ástarinnar og það eilíflega mikilvæga atriði sem fer framhjá svo mörgum, að það er gott að lifa:

„Það er gott að vakna snemma hérna í þorpinu. Þeir sem búa næst sjónum hafa síkvikan hafflötinn í stofuglugganum og geta staðið úti á veröndinni með kaffibolla í hendinni, kannski berfættir, hlutsað á ögn rámt masið í æðarfuglinum, hrjúfar athugasemdir mávsins, grábjört skýjahellan hreyfist ekki í logninu, hafið bærist varla, einungis smáöldur sem færa nokkra steina í kaf, svo koma þeir aftur upp til að anda. Þarflaust að hugsa nokkuð, maður er bara til, hlustar, tekur á móti veröldinni, hljóðum morgninum, heimsveldi verða að dufti á svona stundum.“

Sumarljós og svo kemur nóttin er ekki saga, heldur eftirmynd af lífinu, eins og það raunverulega er. Hún er þó engan veginn raunsæisrit, hún er fullkomlega rómantísk. Og það er hennar helsti styrkur. Hún dregur upp mynd af samfélagi innan samfélags, sem er fjarlægt okkur en við þekkjum þó öll, sýnir persónur eins og fólk en ekki sem persónur, hliðstæður heimur fullkomlega sem þó er hluti af okkar eigin heimi. Þetta er bók sem situr þungt en flýgur létt. Því til sönnunar gæti ég fundið ýmislegt til; fegurstu jafnt sem erfiðustu lýsingarnar eru eftir, en þær læt ég væntanlegum lesendum eftir að upplifa í samhengi bókarinnar.

Jón Kalman Stefánsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina og var það fyllilega verðskuldað að mínu mati. Stíllinn er vopn hans, hugsunin þroskuð, undirtónninn fágaður. Sumarljós og svo kemur nóttin kemur út á tímum póstmódernískrar bókmenntahefðar og tekur vinninginn. Fyllilega er það bók sem allir ættu að lesa.

Íslenskir nasistar

Nú fyrir skemmstu sat undirritaður á kaffihúsi í miðborg Reykjavíkur og reyndi sem mest hann mátti að njóta veru sinnar þar. Það reyndist honum hinsvegar þónokkur Sýsifosarsteinn að velta, sökum þess að á téðu kaffihúsi var urmull af nasistum, þeir bókstaflega fylltu rýmið. Eftir um klukkustundar veru í gjallandi upphrópunum nasistanna um ríkið, foringjann og júðana, hafði undirritaður fengið sinn skammt og yfirgaf svæðið.

Undirrituðum er það þónokkuð áhyggjuefni, ef ungt fólk finnur köllun sína í boðskap hins liðna foringja þýsku þjóðernisstefnunnar. Það er umdeilanlegt, hvort betra sé að hafa það á yfirborðinu, líkt og undirritaður upplifði nú um daginn, eða að hafa það dulið líkt og mörg önnur þjóðfélagsmein. Ansi veikur hlýtur hvíti kynstofninn að vera, samkvæmt þeirra eigin vísindum, fyrst hinir örmu gyðingar geta svo léttilega undirokað hann alla leið frá Ísrael – án þess einu sinni að reyna.

Talandi um Ísrael, vitaskuld var það að þeirra dómi glæpsamlegt af Halldóri Ásgrímssyni, að hafa einu sinni eða jafnvel oftar tekið í höndina á því hinu mesta júðakykvendi sem um getur, Ariel Sharon. Skárra væri það þó ekki, færi hann þuklandi höndum um skítugar lúkur sandnegranna. Óskandi væri, að allt helvítis liðið yrði sprengt í tætlur. Himmler, að sjálfsögðu, hafði engan rétt á að reyna að selja Þýskaland í hendur bandamönnum. Pólverjar, það vita nú allir, er aumasti hlekkur hins hvíta kynstofns, óiðnustu andskotar sem um getur. Og negrarnir, þeir hafa ekkert sér til ágætis; hver vill svosum hafa typpi á stærð við púströr? Víst er þetta nær orðrétt ágrip af samræðum þeirra.

Um þennan málflutning er best að hafa sem fæst orð. Hann dæmir sig sjálfur. Það má slæmt þykja, að þessar skoðanir viðgangist á almannafæri. Fordómar eru og verða alltaf til, það er vitað mál. Það er hinsvegar ekki nándar nærri eins slæmt, að vera prívat og persónulega haldinn þeim ranghugmyndum, að fólk af tilteknum uppruna sé á einhvern hátt verra en annað og að endurtaka ræður Adolfs Hitlers af sömu sannfæringu undir blaktandi gunnfána, og trúa því staðfastlega að kynbæta þurfi heiminn, svo hinn hvíti maður og hans feiknamikilvæga vestræna menning megi komast af. Og undirritaður vill síst til þess hugsa, að þau hin sömu og boðskapur nasista beinist gegn, þurfi að eiga það á hættu að sitja undir öðrum eins þvættingi á almannafæri. Það er grafalvarlegt brot á réttindum þeirra, og vissulega er það áhyggjuefni, því hver veit hvert vegurinn liggur, fyrr en fyrsta skrefið hefur verið tekið.

– Birtist á Múrnum 3. febrúar 2006.