Að sýna skrímslið

Í hryllingsbókmenntum og -kvikmyndum er alltaf viss togstreita á milli eftirvæntingar viðtakanda og sjálfs hápunktsins: þegar hið illa er leitt fyrir sjónir viðtakandans. Þegar maður loksins sér skrímslið þá getur það sjaldnast verið eins hryllilegt og maður hafði ímyndað sér það, að sýna veldur nær alltaf vissum vonbrigðum (ég myndi halda því fram að geimveran í Alien sé á þessu meginundantekning; hún er með því skelfilegasta sem sést hefur í bíómynd), en á hinn bóginn er varla hægt að sýna ekkert heldur. H.P. Lovecraft var alræmdur fyrir hæga og spennuþrungna uppbyggingu sinna sagna en síðan skirrist hann nær undantekningalaust við að afhjúpa skrímslið í lokin, með þeirri skýringu að það hafi verið svo hræðilegt að menn misstu vitið ef þeir svo mikið sem reyndu að gera sér það í hugarlund. Stephen King tókst hið þveröfuga í skáldsögunni It: að sýna skrímslið þegar í upphafi og gera það svo óhugnanlegt að lesandinn kvíðir því að því bregði fyrir aftur.

En meginreglan er að viðtakandinn finnur fyrir vissum létti þegar skrímslið birtist, því það er sjaldnast eins hryllilegt og sjálft ímyndunaraflið. Ýmsir höfundar hafa leikið sér að þessu. Drakúla greifi kemur til dæmis lítið fyrir í samnefndri skáldsögu þó að nærvera hans sé alltumlykjandi í textanum, og skrímsli Frankensteins, þegar Mary Shelley leyfir lesandanum loksins að kynnast því, umturnar öllu og sýnir okkur að það er skaparinn sem er skrímslið, en skrímslið sjálft er ekki nema afurð þeirrar fyrirlitningar sem mannfólkið sýnir því.

Ég var eitthvað að velta þessu fyrir mér þegar það rifjaðist upp fyrir mér þáttur úr sjónvarpssyrpunni Tales from the Darkside sem ég sá í sjónvarpinu eitthvað um tíu ára aldurinn. Þessi tiltekni þáttur heitir „Inside the Closet“ og fjallar um háskólanemann Gail sem leigir herbergi hjá deildarforseta dýralækninga við sama háskóla. Herbergið hafði tilheyrt dóttur hans, segir hann, sem mun vera flutt að heiman til einhvers kærasta sem deildarforsetanum er sýnilega í nöp við (hann spyr Gail sömuleiðis hvort hún eigi kærasta, segist ekki vilja sjá svoleiðis gerpi koma í heimsóknir, en hún fullvissar hann um að hún eigi ekki svoleiðis). Í herberginu er lítil hurð á veggnum, tæpur metri á hæð eða þar um bil, og þegar Gail spyr deildarforsetann hvað þetta sé þá segir hann að þetta sé skápur en lykillinn sé löngu glataður.

Um nóttina heyrir hún töluvert krafs í skápnum og ályktar að það sé rotta þar, en áhorfandinn veit betur þótt hann viti ekki hvað býr í skápnum í raun. Einhverju sinni kemur hún að skápnum opnum og sér að það er alls ekkert í honum, en hún setur rottugildru inn engu að síður. Um kvöldið heyrir hún smell inni í skápnum en þegar hún ætlar að gá inn reynist hann aftur læstur.

Við sjáum fyrst glitta í skrímslið þá um nóttina þegar skápurinn opnast skyndilega og eitthvað fer út úr honum, eitthvað lítið og fölt, og það fer undir rúm Gail. Hún vaknar og sér að skáphurðin er opin, dregur fram vasaljós og gægist inn í skápinn. Þar er ekkert, rottugildran er meira að segja horfin. Hún lokar aftur skápnum og fer upp í rúm, og rétt sleppur undan náhvítum hrömmum sem skjótast undan rúminu og reyna að grípa hana. Hún tekur ekki einu sinni eftir því, en þetta fer ekki framhjá áhorfandanum – eða ímyndunarafli hans sem nú er komið á yfirsnúning.

Deildarforsetinn þrætir stöðugt fyrir að nokkuð búi í þessum skáp, rotta eða annað, og segir Gail sífellt að hætta að vesenast þetta við skápinn. Þegar eldri karlmaður sem býr aleinn vill ekki að einhver stelpa sé að gægjast í skápinn sinn þá þarf ekki mikinn freudista til að draga ályktanir. Hvað um það, næsta dag opnast skápurinn aftur og Gail gáir inn og sér að hann er fullur af dúkkulegum telpukjólum og leikföngum, en viðbrögð hennar eru merkilega hversdagsleg því hún virðist ekki átta sig á því að hún er persóna í hryllingssögu. Í stað þess að æpa og hlaupa út fer hún að gramsa í skápnum. Smellur heyrist og hún gólar, og þá sjáum við að hún hefur lent í sinni eigin rottugildru og jafnvel brotið fingur.

Deildarforsetinn hlær að frásögn hennar og gefur í skyn að þetta séu allt saman hugarórar. Þá um nóttina opnast skáphurðin aftur. Gail skríður varfærnislega að skápnum, þetta er atriði sem tekur heila eilífð að manni finnst, og hikar drykklanga stund áður en hún kveikir á vasaljósinu og beinir inn í skápinn. Hvað er þar inni?

ÞETTA!

Ekki fyrir hjartveika

 

Ég fraus þegar ég sá þetta sem krakki, hefði sennilega öskrað af hræðslu ef ég hefði komið upp einu einasta hljóði. Gail öskrar líka. Eftir alla þessa hægu framvindu er framhaldið leiftursnöggt: hún reynir að forða sér, en skápaskrímslið stekkur á hana og hálsbrýtur í snöggri hreyfingu, dregur hana síðan inn í skápinn.

Ég sat stjarfur á eftir.

Morguninn eftir er deildarforsetinn í símanum við áhyggjufulla móður Gail (sem virðist fríka út ef hún heyrir ekki í dóttur sinni á nokkurra mínútna fresti) og við sjáum skrímslið lulla niður stigann fyrir aftan hann. Ég stirðnaði aftur. Skrímslið er nú úr augsýn því það er svo smávaxið en deildarforsetinn er lengi enn í símanum. Áhorfandinn óttast að skrímslið sé komið alveg að honum þegar hann loksins leggur á og það stendur heima: deildarforsetinn æpir skyndilega og lítur niður.

En skrímslið hafði ekki ráðist á hann, kannski bara nartað ofurlétt í hann til að láta hann vita af sér. Því skrímslið reynist vera „dóttir“ hans og hann tekur lillabarnið í fangið og vaggar því og talar dúllulega við það, segist ætla að fara með það upp og segja því sögu. Þarna hellist loks ógeðstilfinning yfir áhorfandann og þar lýkur þættinum. Skrímslið í skápnum kann að vera myndhverfing fyrir hans eigin „náttúru“ ef svo má segja, sem er rökstudd með óþoli hans fyrir því að stelpur standi í því að tæla stráka og morði hinnar ungu konu. Að auki er gefin í skyn sú skýring að dýralæknir eins og hann (sem er með hús fullt af uppstoppuðum óhugnanlegum dýrum) kunni að hafa skapað sér þennan skápabúa sjálfur, sem raunar ýtir ekki síður undir fyrri túlkunina: maður sem ekki getur eignast barn með konu, hann leitar kannski á náðir vísindanna um afkvæmi. Skrímslið er oft við sjálf og í þessu tilfelli er það hið innra sjálf sem helst má ekki hleypa út úr skápnum í augsýn annarra.

Hvað byggingu snertir er þetta skápaskrímsli að mínu viti gott dæmi um ófreskju sem er frestað rétt nógu lengi að sýna, en sem er samt skelfileg þegar hún sést og heldur áfram að vekja óhug í lengri skotum ef það er gert í réttu magni. Þessum þætti tekst að sýna nákvæmlega eins mikið af skrímslinu og við þurfum.

Hvernig eldist svo þessi þáttur? Hann er eitthvað um 36 ára gamall og þið getið dæmt um það sjálf með því að horfa hérna. Einhverra hluta vegna er myndin spegluð um lárétta ásinn en það truflar ekki nema rétt á meðan kreditlistinn er í gangi.

Fyrirheit

Fólk er farið að spyrja mig hvort ég muni ekki skrifa fleiri greiningar á barnabókum, jafnvel ókunnugt fólk. Ég verð að segja að vinsældir þessara greinarkorna hafa komið mér á óvart. Sjálfum þykir mér skemmtilegt að skrifa þau svo það kannski ratar til lesenda. 

Ekki síst þess vegna að mér finnst gaman að fjalla í blönduðu gamni og alvöru um bækur og bíómyndir (þó ég gefi hlutföllin aldrei upp) hef ég afráðið að gera mitt besta til að gera meira af því. Næsta bók á dagskrá er Svarta kisa, sem mætti best lýsa sem hvað-ef-sögu um skáldaðan fund Hitlers og Schindlers. Ef það hljómar ótrúlega, þá bíðið bara.

Í millitíðinni má lesa aðrar greinar í syrpunni hér:

  1. Jói og baunagrasið
  2. Græni hatturinn
  3. Bláa kannan
  4. Tralli og Láki jarðálfur

Halinn og innrætið: Jöðrun og afmennskun í Tralla og Láka jarðálfi

Tralli er geysilega merkileg bók, einkum merkileg fyrir þær sakir að höfundi hennar Viktor Mall fannst hún eiga erindi við börn. Það fannst Vilbergi Júlíussyni þýðanda bókarinnar greinilega líka, en hann gerði sitt besta til að milda efnivið bókarinnar sem er heldur lítt dulbúinn rasismi. Þannig hefur Vilbergur til dæmis ákveðið að Tralli sé jarðálfur (hvað sem það er), en bókin heitir á frummálinu Historien om eskimotrolden Figge sem afhjúpar hvað Tralli á í rauninni að vera: einhvers konar skáeygt eskimóaskrímsl með hala sem býr á svo framandi slóðum að sólin sest aldrei. Það er erfitt að halda áfram bara eftir þessa setningu en við verðum að láta okkur hafa það; þetta er jú bók sem geymd er í barnadeildum allra bókasafna og við viljum vita hverju við otum að börnunum okkar.

Tralli býr semsagt þar sem sólin aldrei sest og þarf því aldrei að fara í rúmið. Þess í stað stendur hann aleinn á pínulitlum ísjaka og gerir ekki neitt að því er virðist, allan daginn. Hvað er enda hægt að gera á ísjaka sem er varla sex sinnum stærri en maður sjálfur? Þessi ísjaki á að heita land eskimóanna, en það eru engir aðrir eskimóar (eða „eskimóatröll“) á þessum ísjaka og ekkert minnst á neina aðra eskimóa. Tralla leiðist sýnilega enda sofnar hann dag einn og verður þess ekki var að ísjakinn er flotinn suður á bóginn og farinn að bráðna. Að lokum bráðnar ísjakinn alveg undan honum og Tralli sekkur í hafið, og samt vaknar hann ekki. Hér er hann í hlutverki velþekktrar erkitýpu sakleysingjans sem óafvitandi flækist inn í alls konar ævintýr og hefur síðast verið gerð ódauðleg í persónunni Forrest Gump. Þannig gleypir hvalur Tralla en hann verður einskis var og sefur bara og hrýtur í maga hvalsins. Hvalurinn þolir ekki þessar hrotur og skyrpir Tralla upp á ónefnda Suðurhafseyju.

23262191_10155922024651584_1954124131_o

Og hverja skyldi Tralli vekja með hrotum sínum nema einmitt „negrana á eyjunni“. Sjón er sögu ríkari:

19250067_10155922024661584_105519977_o

23360817_10155922023481584_1427169109_n

Hvað er hægt að segja um þetta? Sjáið varirnar á „negraprinsessunni“, sjáið hárið á henni, sjáið að hún er klædd í einhverja stráskýlu og með leireyrnalokka. Það vantar bara bein í nefið á henni (enda þótt allajafna þyki jákvætt „að hafa bein í nefinu“ þá gildir það svo sannarlega ekki um einhverja ósiðmenntaða svertingja). Nei, fjandakornið, hvað gerir negrapsinessan næst? Hún tosar í rófuna á Tralla af því henni finnst hún svo framandi. Og þá loksins vaknar eskimóatröllið Tralli, þegar negrarnir toga í rófuna á honum. Mér finnst mjög erfitt að skrifa allar þessar setningar, ég sver það.

Hér tekur sagan á sig sígilda ævintýraformgerð þrítekningar, en hennar þekktasti fulltrúi er án efa sagan af Gullbrá og björnunum þrem og þeirra mismátulegu eigum (ég mun fjalla um þá sögu síðar). Fyrst togar negraprinsessan í skottið á Tralla og vekur hann, næst togar negradrottningin í skottið á Tralla, sem honum líkar alls ekki, og loks togar negrakóngurinn í skottið á Tralla og þá verður hann vondur.

23313061_10155922024646584_1348310249_o

Svo hrædd verða þau hjón að kóngurinn stekkur bakvið hól flassandi berum bossanum undir náttserk sínum og drottningin æðir burt með sólhlífina á lofti undan ómennskum ópum eskimóatröllsins: Íja–úa–tra. Hvaða eiginlega Mordormállýska þetta á að vera er óljóst. En ljóst er af frásögninni að eskimóatröllið er framandi vera jafnvel hinu mest framandi fólki (og höfum hér í huga að höfundur bókarinnar er danskur, það hjálpar heilmikið). En nú bregður svo við að negraprinsessan er ekkert hrædd við óskiljanleg gól Tralla, en hún er agalega forvitin um halann á honum.

23335785_10155922024551584_1589668974_o

Jahérna, hvað höfum við hér? Tralli hefur gert hana að halanegra. Og hvað er nú það, nákvæmlega? Við þekkjum það sem niðrandi orð yfir svart fólk, en í Norður-Evrópu á 19. öld þá var talið að til væri tiltekin manngerð sem væri halanegri, þ.e. bókstaflega svart fólk með hala. Ein heimild um slíkar hugmyndir er alfræðirit Jóns Bjarnasonar Ritgjörð tilheyrandi spendýrafræði (ÍBR 67-73 4to, hér 69 4to) frá miðri 19. öld sem byggð var á evrópskum alfræðiritum og hefur að hluta verið gefin út af Árna H. Kristjánssyni.

Halanegri, meðal annarra manngerða
Halanegri, meðal annarra manngerða

Síðan dansa eskimóatröllið og halanegrinn samba (nema hvað?) og lifa hamingjusöm til æviloka. Tralli er með öðrum orðum bók sem fjallar um tröll sem mætir negra og þau reynast á sama kúltúrplani, afmynduð með sinn hala, dansandi sína frumstæðu dansa. Sennilega hefur bókinni verið ætlað að fagna fjölbreytileikanum en í rauninni gerir hún fátt nema afhjúpa rasískar hugmyndir höfundarins um fólk sem er ekki H.C. Andersen hvítt.

Ef einhverjar efasemdir vakna í brjósti lesandans um að halar séu einlæglega svona demóníserandi (fyrir utan kynþáttabundna karíkatúrinn sem annars birtist í myndskreytingum Tralla) má benda á bókina um Láka jarðálf til samanburðar. Að vísu er hún eftir annan höfund en myndlýsandinn er álíka lélegur og haldinn álíka fordómum. Bók þessi fjallar um Láka, sem er jarðálfur, og hann býr ofan í jörðinni þar sem jarðálfar búa.

No shit.
No shit.

Foreldrar Láka heita Snjáki og Snjáka og þau voru fædd fyrir tíma Mannanafna-
og Barnaverndarnefnda. „Á hverjum degi, þegar Snjáki og Snjáka vöknuðu, sögðu þau: „Við ætlum bara að gera það, sem er ljótt!“ Svo kysstu þau Láka litla og sögðu: „Þú átt bara að gera það, sem er ljótt. Þá verður þú reglulega stór og ljótur jarðálfur, alveg eins og pabbi þinn.““ Foreldrar Láka eru semsagt frekar brengluð eintök og andfeminísk í ofanálag.

Samt nógu síviliseruð til að halda kaktus, þótt það segi kannski ekki mikið. Ekki nógu klár til að fatta að það gagnast ekki að hafa glugga fyrir hann ofan í jörðinni þar sem sólin skín ekki.
Samt nógu síviliseruð til að halda kaktus, þótt það segi kannski ekki mikið. Ekki nógu klár til að fatta að það gagnast ekki að hafa glugga fyrir hann ofan í jörðinni þar sem sólin skín ekki.

Láki ákveður dag einn að hann vill iðka sín illvirki ofanjarðar frekar en neðanjarðar, og fljótlega finnur hann heimili Elsu og Ívars sem eru í mömmuleik (og miðað við að bókin er gefin út árið 1956 hlýtur það að vera verulegur áfellisdómur yfir persónu Ívars). Láki felur dúkkurnar þeirra svo Elsa og Ívar fara að gráta. „En Láki faldi sig á bak við tré. Hann sló á magann og sagði: „En hvað það er gaman að gera öðrum illt!““ Þetta skottlanga skrímsl heldur áfram illkvittni sinni, hellir rødgrød med fløde yfir hvítan kött og fer þannig bæði illa með feldinn og eyðileggur hádegismat fjölskyldunnar í senn. Svo setur hann púður í tóbak föðurins svo pípan hans springur og sprautar vatni yfir póstburðarmanninn.

Og kúkar sennilega í skorsteininn, þótt það sé ekki tekið fram
Og kúkar sennilega í skorsteininn, þótt það sé ekki tekið fram.

Láki er vondur sjöhundruðututtuguogeinu sinni, sem er frekar mikið má reikna með. Og hann finnur ekki lengur gleði í illvirkjum sínum, svo hann ákveður að prófa að vera góður einu sinni. En góðverkin eru smitandi, hann getur ekki hætt. Og hér birtist svo boðskapur sögunnar:

„En í hvert skipti, sem hann gerði eitthvað gott, varð hann líkari venjulegu barni.“
„En í hvert skipti, sem hann gerði eitthvað gott, varð hann líkari venjulegu barni.“

Og umbreytingin heldur áfram:

„Þegar hann gerði góðverk í næsta skipti, urðu álfsklærnar hans að venjulegum drengs-höndum. Og þegar hann gerði góðverk í þriðja skipti, varð álfs-strýið hans að venjulegu drengs-hári. Að lokum datt álfs-skottið af honum, og þá var Láki loks orðinn að venjulegum dreng.“

23313092_10155922023491584_1481591396_o

Og þá fyrst, eftir alls konar góðverk á heimilinu, segir pabbi Ívars og Elsu að hann megi nú koma og eiga heima hjá þeim alltaf, „því að nú ert þú orðinn eins og venjulegur drengur.“ Heyr á fokkíng endemi! „Nei, hjá þvílíkum kynþáttahöturum vil ég aldrei búa,“ hefði Láki svarað ef þetta væri barnabók með almennilegan boðskap, en því er aldeilis ekki að heilsa. Láki fær „lítið rúm til að sofa í og lítinn stól til að sitja í,“ rúmið reyndar þrefalt minna en hann sjálfur. Jafnvel án halans er hann ekki nema þriðja flokks mannvera, og aðeins þegar hann er laus við hin skrímslislegu ytri einkenni fær hann viðurkenningu sem alvöru manneskja. Þá er ekki einu sinni spurt að uppruna, hvort hann eigi foreldra. Nei, þau bara taka hann í algjöru ábyrgðarleysi; aðeins af því hann er gott vinnudýr og lítur ekki út eins og einhver fokkíng jarðálfur.

Nú máttu reyna að troða þér í þetta dúkkurúm, hahahaha!
Nú máttu reyna að troða þér í þetta dúkkurúm, hahahaha!

Þannig er Láki eftirnýlendusaga að hún undirstrikar hversu dýru verði mennskan er keypt í samfélagi hinna hvítu, halalausu yfirboðara sinna. Afmennskun og jaðarsetning hins framandlega er algjör í Láka rétt eins og í Tralla. Þannig orka þessar bækur saman eins og bónusútgáfan af Litla, ljóta andarunganum sem fjallar um það að eina leiðin til að sleppa frá afmennskun annarra er að gerast rasisti sjálfur við fyrsta tækifæri. Tralli er sagan af villimönnum sem ekki eru þóknanleg manntegund, en Láki fjallar um það hvernig slíkar manntegundir gætu mögulega aðlagast vestrænu samfélagi. Báðar bækur eru viðurstyggð og skulu hvergi lesnar nálægt börnum, ekki einu sinni í hljóði.

Niðurbrot andans: tilvistarleg athugun á Græna hattinum

Græni hatturinn (e. The Little Green Hat) er stutt hryllingssaga eftir Alice Williamson sem kom út í bókaflokknum Gay Colour Books á sjöunda áratugnum. Sagan er sérstök fyrir það að hún er óræð vinjetta af sitúasjón, nefnilega af hatti sem veit að hann er lifandi en er jafnframt fangi í hattabúð. Hans einasta von um lausn er að einhver kaupi hann, en enginn vill kaupa hann. Þannig líður tilvist hattsins áfram í fæðingu vonar og upplausn hennar aftur. Með því er andi hattsins stöðugt brotinn niður.

Frumútgáfa Græna hattsins
Frumútgáfa Græna hattsins

Það sem flækir málin er að það er ekki aðeins hatturinn sem lifir og veit hann lifir, heldur vita það sömuleiðis hinir ýmsu vegfarendur sem eiga leið hjá hattabúðinni. Hatturinn á í beinum samskiptum við konur og karla, pilta og stúlkur, um vanda sinn: að hann er fastur í hattabúðinni þar til einhver frelsar hann úr ánauð. Þrátt fyrir að hið vel stæða fólk sé meðvitað um aðstæður hattsins neita þau að kaupa hann: „Nei, litli græni hattur, ég vil ekki kaupa þig,“ hreyta þau framan í hann snúðug á svip. Hatturinn er þannig táknrænn fyrir stöðu þræla á árum áður, en ekki síður fyrir stöðu ómaga og öreiga andspænis borgarastéttinni.

Hatturinn er aðeins til sem einhvers konar ófrjálst ítem, skraut fyrir hina efnameiri, sem skuld við einhvern ónefndan yfirboðara sem þarf að reiða af hendi svo hann geti lifað frjáls. Hvernig hatturinn komst í þessar aðstæður er ósagt; hvað hattabúð merkir í þessu samhengi er einnig órætt og sérstaklega óhugnanlegt. Hugurinn hvarflar ósjálfrátt til fangabúða, jafnvel útrýmingarbúða, því þegar nánar er að gætt eru fleiri hattar í búðinni, en þeir eru ekki lifandi. Þeir eru annað hvort látnir eða þá að þeir hafa aldrei lifað.

Fyrra tilfellið gerir neyð græna hattsins þeim mun meiri: hróp hans á hjálp fara sem vindur um eyru vegfarenda þegar hann einn er eftir á lífi. Hinn möguleikinn eykur enn á þær tilvistarlegu spurningar sem textinn vekur: ef græni hatturinn er sá eini sem hefur verið á lífi, þá er hann einstakur. Því síður er skiljanlegt að fólk láti sem ekkert sé þegar hatturinn ávarpar það. Það gefur til kynna að síðari möguleikinn sé ólíklegur; fólk er vant því að tala við hatta í söguheimi bókarinnar. Hattar eru hugsandi verur, geymdar í hattabúðum, og ganga kaupum og sölum sem höfuðskraut fyrir hinar ráðandi stéttir.

Telpan kaupir græna hattinn — stjaksett lík annarra hatta hvíla á afgreiðsluborðinu öðrum höttum til aðvörunar
Telpan kaupir græna hattinn — stjaksett lík annarra hatta hvíla á afgreiðsluborðinu öðrum höttum til aðvörunar

Loks biðlar græni hatturinn til stúlku sem á leið hjá búðinni, hvort hún vilji vinsamlegast kaupa sig. Þessi stúlka vill það gjarnan og reiðir af hendi skilding úr buddu sinni til ónefndrar konu sem virðist hafa öll tögl og hagldir í hattabúðinni. Þar blasir við hin óhugnanlega sjón, tveir stjaksettir hattar sem áður hafa verið lifandi en hefur nú verið refsað fyrir að hafa ekki getað sannfært vegfarendur um að skilja kapítal sitt eftir í versluninni. Þannig mætti jafnframt lesa söguna sem líkingu yfir hið kapítalíska hagkerfi, þar sem millistéttin afhendir auðstéttinni fjármuni sína í skiptum fyrir stolin gæði sem hún hefur ekki þörf fyrir, á meðan öreigastéttin (hattarnir) treðst undir. Beinast liggur þó við að lesa söguna sem líkingu annars vegar fyrir þrælahald og þannig mætti túlka hattana sem svarta þræla, hins vegar fyrir útrýmingarbúðir þar sem hattarnir eru gyðingar.

Græni hatturinn er því mjög pólitískt hlaðin saga og alls ekki við hæfi barna. Á Íslandi hefur hún verið prentuð oft í ritröðinni Skemmtilegu smábarnabækurnar, sem er eins mikið rangnefni og hugsast gæti: hún er hvorki skemmtileg né er séns að smábörn fái nokkru sinni skilið hana. Það væri enda ekki æskilegt.

Jói og baunagrasið

Bókmenntum fylgir visst menningarlegt samhengi sem kalla mætti tíðaranda. En tíðarandinn breytist og þar með túlkun fólks á bókmenntunum. Ef taka ætti dæmi um róttækar breytingar á túlkun bókmennta út frá tíðaranda mætti nefna Tíu litla negrastráka, sem eitt sinn þótti saklaus bók en þykir nú með betri dæmum um menningarlega viðurkennda kynþáttafordóma fyrri tíðar. Þá mætti nefna George úr Fimmbókum Enid Blyton, sem hefur á síðari árum verið túlkuð á forsendum hinsegin fræða annars vegar sem lesbía og hins vegar sem transmanneskja (að vísu út frá vissum staðalmyndum sem eiga sér raunverulega stoð en telja mætti varasamar að alhæfa út frá).

Af því mér finnst gaman að rugla í fólki þá vil ég á næstunni birta nokkrar greiningar á barnabókmenntum sem verða aðeins að hluta settar fram af alvöru.

JÓI OG BAUNAGRASIÐ
Þetta er enskt ævintýri sem fyrst var fært í prent á átjándu öld en, eins og gjarnt er um ævintýri, er talið töluvert eldra. Freudísk/lacanísk greining á þessari sögu liggur svo lóðbeint við að ég er hissa á að Sigmund hafi ekki sjálfur skrifað heila bók um efnið (ef hann gerði það, vinsamlegast látið mig vita).

Sagan fjallar um ungan dreng, Jóa eða Jakob, sem býr einn með efnalítilli móður sinni. Hann á engan föður, eða það kemur sögunni ekki við. Karlmennska hans veltur því á móðurinni. Fyrst um sinn er hann aðeins drengur og er sendur til drengslegra erinda, að selja mjólkurkú sakir uppskerubrests svo þau geti framfleytt sér eitt misseri enn. Jói rekst á undarlegan eldri mann (aldrei gott) sem ginnir hann til að skipta á kúnni í stað þriggja bauna sem hann kveður göldróttar, baunagrasið muni ná alla leið til himnanna, hann skuli sko bara sjá!

Jói gengst við þessu og mætir keikur heim til móðurinnar með baunirnar (sem ég kýs, fyrir sakir groddaskaps, að líta á sem táknrænar hreðjar). Móðirin bregst ókvæða við, hafandi sent dreng í karlmannsverk, og fleygir afrakstri ferðar hans út um gluggann, þar sem baunirnar ná að festa rætur í foldinni. Hin fallíska móðir getur ekki komið í veg fyrir líkamlegan þroska sonarins, því upp af hreðjum hans vex hinn gríðarlegi reður sem er leið hins unga manns til þroska.

Jói klífur eigin reður til hans óhjákvæmilegu niðurstöðu, sem er risakona sem býr í höll uppi í skýjunum (í sumum gerðum sögunnar er engin kona, en við skulum ekki láta það skemma fyrir okkur). Stærð konunnar er táknræn, því fyrir ungan mann sem rétt svo er að komast í blóma kynferðisvitundar virðist engin hindrun svo stór eins og sú að missa sveindóminn. En konan fóðrar hann samt sem áður á þeim mat sem hún hafði áður ætlað manni sínum. Þar með kemur Jói á milli manns og konu, og þegar risinn kemur heim þá bregst risakonan þannig við að hún felur hann í tákngervingu sjálfs legsins: stórum potti sem situr við hlið hlóðanna. Jói er ekki enn maður, hann getur enn ekki tekist á við hinn táknræna föður og orðið að manni sjálfur. Því er legið hinn eini öruggi staður.

Risinn á hænu sem verpir gulleggjum og hörpu úr skíragulli sem getur sungið og spilað eftir skipun. Jói hnuplar þessum kostum, bæði menningarkapítali og auðmagni. Með þetta tvennt getur hann orðið meiri maður en hann nú er. En risinn verður þessa var og æðir á eftir Jóa. Risinn áttar sig á því að þessi patti hefur notið konu hans á sama hátt og hann sjálfur (ástin virðist búa í maganum í þessari sögu).

Jói kemst niður baunagrasið á flótta, með auðmagnið á bakinu, og hrópar til móðurinnar að færa sér karlmennskuna: öxi. Móðirin gerir það með semingi, en Jói þrífur til axarinnar og heggur niður baunagrasið, sem nú er hin einasta festa risans í heiminum, og táknrænt vanar risann – föðurímyndina. Nú er hinn táknræni faðir dauður, Jói hefur öll efnahagsleg tögl og hagldir, og móðirin hefur gefið eftir sína fallísku stjórn. Nú er Jói orðinn fullsigldur maður.

Kannski ekki sú þroskasaga sem við áttum skilið, svo vísað sé í Batman Begins, en sú þroskasaga sem við fengum.

Konungsbók eftir Arnald Indriðason

Árið 2006 rættist gamall draumur þegar ég hóf íslenskunám í háskólanum. Það var margt sem heillaði við íslenskuna, en Konungsbók eddukvæða var það sem gerði útslagið um þessa ákvörðun. Sama haust og ég byrjaði í íslenskunni kom út skáldsaga eftir Arnald Indriðason, Konungsbók. Ég var fljótur að næla mér í eintak á bókasafninu og svo hófst lestur, en þeim lestri lauk snögglega. Það var eitthvað sem mér fannst ófullnægjandi við þessa bók en átti erfitt með að henda reiður á.

Screen Shot 2017-07-16 at 13.26.19

Sagan um „unga og bláeyga íslenskufræðinginn Valdemar“ sem kominn var til Hafnar að læra um handritin hefði eins getað verið ég nokkrum árum síðar, svo forsendur sögunnar heilluðu. Það var líka eitthvað svo stórkostleg hugmynd að nasistar berðust við íslenskufræðinga um yfirráð yfir Konungsbók með sinni dularfullu eyðu. Hugurinn hvarflar rakleiðis að dulrænum áhuga nasista, hvort Konungsbók gæti orðið vopn í höndum illra manna ef ráðgátan um eyðuna yrði leyst. Svona eins og Raiders of the Lost Ark. Nýverið fannst bókasafn Himmlers um dulræn efni og að sögn gefur safnkosturinn til kynna að áhugi hans og sumra annarra nasista á dulspeki hafi síst verið ýktur.

Mig hefur því lengi langað að lesa Konungsbók vegna hugmyndanna sem ég hafði um hvað hún hlyti að vera, og núna á dögunum lét ég loksins verða af því að lesa hana. Þannig er auðvitað ósanngjarnt að nálgast listaverk; það er ekki hægt að áfellast rithöfundinn fyrir að skrifa aðra bók en maður hélt sig lesa, heldur þarf maður að leggja eigin hugmyndir til hliðar og leyfa verkinu að tala eigin máli. En ég átti svolítið erfitt með það í tilviki Konungsbókar, því hún fjallar um efni sem ég þekki vel og hef mikinn áhuga á. Svo ég birti þetta með fyrirvara um ósanngirni.

Stíll
Bókin er endurtekningasöm. Öll bókin er lögð í munn Valdemar sem er flatur og tilgerðarlegur persónuleiki. Þrisvar í bókinni lýsir hann andaktugur þessari miklu stórborg, Kaupmannahöfn, og í hvert einasta sinn lýsir hann nákvæmlega sömu húsunum. Þegar lesandinn sér að hann er eina ferðina enn farinn að lýsa Sívalaturni og Frúarkirkju (sem er ekki sérlega imponerandi bygging) fer hann að undrast, því hann er búinn að lesa þennan kafla ekki einu sinni áður, heldur tvisvar. Valdemar endurtekur allar hugsanir sínar fram og aftur um bókina, rifjar upp sömu atvikin aftur og aftur, svo lesandinn finnur alla leið gegnum bókina hversu þunn hún er. Sem hún hefði ekki þurft að vera, nægur er efniviðurinn. Það er líka allt útskýrt svo rækilega ofan í lesandann að ekkert stendur eftir til að velta vöngum yfir, engin túlkun möguleg önnur en sú sem sögumaður býður upp á. Kannski hugsaði Arnaldur með sér að svona íslenskunemi gæti vel verið einstaklega leiðinleg persóna og lélegur penni, og ef svo er þá hefur honum sannarlega tekist vel upp. Mér er sagt að aðrar bækur Arnaldar séu mun betur stílaðar, svo skýringin er altént ekki sú að hann geti ekki gert betur.

Persónur
Valdemar er óþolandi. Hann er sannarlega bláeygur, eins og stendur aftan á bókinni, og hann malar út í eitt einhver banalítet um menningararf og hinn göfuga en brotna prófessor, og er svo teymdur grenjandi eins og ræfill út í gegnum bókina frá einum stað til annars.

Prófessorinn er ekki persóna heldur samsafn eiginleika. Hann er ofdrykkja, sorg og leyndarmál í akademísku starfi. Svo er hann alltaf æstur, nema í fáein skipti þegar hann talar blíðlega til Valdemars. Lesandinn skilur ekki af hverju prófessornum fer að líka við Valdemar, því Valdemar er ekki á nokkurn hátt áhugaverður eða nytsamlegur. Prófessorinn heitir engu nafni, sem er undarlegt. Hann heitir bara Prófessorinn. Jafnvel hinn illi von Orlepp kallar hann Prófessorinn. Prófessorinn er augljóslega pabbi Valdemars en þetta er það eina sem Arnaldur lætur liggja á milli hluta í frásögninni. Það var góð ákvörðun.

Von Orlepp er vondur nasistaforingi, sá helsti í bókinni sem nær að vera persóna, en það er líka vegna þess að við höfum svo skýrar hugmyndir um það hvernig vondir nasistaforingjar eiga að vera.
Aðrar persónur eru ekki þess verðar að nefna.

Saga
Valdemar kemur semsagt til Hafnar á eftirstríðsárunum voða bláeygur og gapandi yfir sívölum turnum og frúarkirkjum og hittir fyrir hinn viðskotailla prófessor sem nennir ekki að tala við hann. Síðan fara nasistar að angra prófessorinn og í ljós kemur að þeir eru á höttunum eftir týndu örkinni úr Konungsbók. Prófessorinn teymir Valdemar með sér rakleiðis til Þýskalands þar sem þeir finna örkina með engri fyrirhöfn í einhverjum kirkjugarði. Þá koma nasistarnir og stela örkinni og fara hlæjandi burt af sjónarsviðinu. Síðan kemur í ljós að prófessorinn er líka búinn að glata Konungsbók, hann lét hinn illa von Orlepp hafa hana í stríðinu, nauðbeygður, og bjó til mjög nákvæma eftirlíkingu af handritinu einn síns liðs með bókfelli, jurtableki og kveikjara. Mjög sennilegt allt saman. Nema hvað, svo flakka þeir einhverjar erindisleysur um Amsterdam og Hamborg uns þeir loks finna Konungsbók um borð í Gullfossi. Það babb kemur í þann bát að nasistarnir eru líka um borð, svo prófessorinn lætur Halldór Laxness fá Konungsbók, en svo hafna þeir von Orlepp í sjónum ásamt týndu örkinni og deyja en Valdemar getur þó allavega endurheimt Konungsbók frá Nóbelskáldinu.

Og til hvers var þetta þá allt saman? Jú, nasistarnir vildu nota Konungsbók á einhvern ótilgreindan hátt til að skapa sjálfum sér og þeirra kynþáttabulli einhverja ímynd um forsögu. Þetta kemur í ljós á síðustu blaðsíðum bókarinnar. Var það þá allt og sumt? Manni finnst það nú heldur sakleysislegt fyrir nasista, og ef eitthvað er frekar klént og ólíklegt til árangurs. Engin dulspeki kemur við sögu. Sagan endar á því að Konungsbók og Flateyjarbók koma í land að lokum sem réttmæt eign Íslendinga, án þess að nokkur viti hvað hefur gengið á á undan eða hvað orðið er um prófessorinn. Í raun mætti draga söguna saman í eina setningu: hún fjallar um menn sem bítast um eina bók af því þeir halda að hún geti leyst úr þjóðernislegri sjálfsmyndarkrísu þeirra. Og það er bara ekki sérlega skemmtileg saga.

Eftirþankar
Ég veit að Arnaldi er annt um söguefnið eins og mér. Hann hélt dásamlegt erindi á ráðstefnu sem haldin var á vegum Árnastofnunar í tilefni af 350 ára afmælisári Árna Magnússonar, og þar segir hann um þessa sögu sína:

„Einhvern veginn þannig er saga handritanna í hugum okkar sem horfum á þau utan frá og erum ekki innmúruð í fræðin. Það liggur alltaf einhver hræðilegur voði yfir þeim. Þau finnast í aumustu moldarkofum, týnast og brenna og sökkva í hafið og eru eins konar munaðarleysingjar sem fá ekki einu sinni að koma heim en kveljast í árhundruð hjá vondu stjúpmóður okkar allra, Dönum. Það er aldrei hátt til lofts og vítt til veggja þar sem þau dvelja. Að þeim var lengst af jafn fátæklega búið og þjóðinni á sinni tíð. Líklega er það einnig fyrir þá sök sem þau eiga svo tryggan stað í hjarta okkar. Bústaðir þeirra voru ekki skrauthallir veraldar heldur örreytiskot við myrkasta útjaðar heimsins, þar sem þau hafa legið undir skemmdum í reyk og sóti og skít. Þau bera þess líka fögur merki að hafa lifað með þjóðinni eins og Konungsbók getur best vitnað um. Hún er með öllu skrautlaust ritverk sett í ódýrasta vasabrot eins og verstu sjoppubókmenntir dagsins og laus við listfengi og óþarfa prjál í ytri búnaði. Þvert á móti er hún tötrum klædd bókardrusla, sótug upp fyrir haus, skítug og tætt, sjálf fátæktin og útjaskað allsleysi landsmanna lifandi komið. Það er auðsætt á henni að hún hefur lifað með sínu fólki og upp á þess kjör og, eins og stundum má segja um þjóðina sem bjó hana til, þá vantar í hana nokkrar blaðsíður. Konungsbók er af þeim sökum ekki endilega rétt nafngift. Það er ekkert konunglegt við hana. Hún er þvert á móti andstæða alls þess sem kallast má konunglegt. Hún hefði með réttu mátt heita Alþýðubókin.

En líkt og er með önnur íslensk handrit og handritsslitur skyldu menn vara sig á því að dæma verk eins og Konungsbók eftir ásýndinni. Þótt við ættum aðeins hana eina værum við rík að bókmenntum og hefðum lagt stóran skerf til heimsmenningarinnar. Hún geymir ómetanlegar heimsbókmenntir og þegar við skiljum ekkert lengur í því hvert Ísland stefnir er gott að eiga hana að, vegna þess að hún minnir okkur á að okkar fegursta og dýrmætasta eign er útslitin, vesæl bókardrusla. Ekki risavaxnar bankastofnanir sem stóðu á brauðfótum. Ekki íslenska fjármálasnilldin sem aðrar þjóðir áttu að taka sér til fyrirmyndar. Ekki Kárahnjúkavirkjun og útlensk álfyrirtæki. Ekki frystigeymslur austur í Kína. Ekki olíuauðlindir á Drekasvæðinu. Þegar við viljum hugsa til raunverulegra verðmæta sem aldrei láta sig varða neitt um bóluáhrif eða hagvöxt eða galdeyrishöft eða efnahagshrun og alþjóðabanka, þá er gott að hugsa til Konungsbókar.

Það rann upp fyrir mér þegar ég leitaði að einhverju sem fól í sér sönn verðmæti andstætt froðuverðmætunum og skrifaði litla ævintýrasögu um íslenskan prófessor í Kaupmannahöfn á sjötta áratugnum sem misst hafði okkar dýrmætu Konungsbók úr höndum sér og reyndi að ná henni til baka. Þegar sagan kom út árið 2006 hafði bókaþjóðin á fáeinum árum stökkbreyst í bankaþjóð og sagan af prófessornum átti að vera einhvers konar andmæli gegn þeirri vissu sem þá ríkti, að peningar einir skiptu máli í lífinu. Áminning um að við hefðum með einhverjum hætti glatað því sem meiru skipti, glatað uppruna okkar, glatað Konungsbók. Þá flugu auðmenn hér um loftin blá á einkaþotum svo varla sást til sólar. Litlar kammersveitir léku undir borðum hinna nýríku. Manngildið var metið í himinháum kúlueignum og óskiljanlegum kúlulánum. Og menn borðuðu gull suður undir dómkirkjunni fögru í Mílanó.“

Mér finnst svo ólíku saman að jafna milli sögunnar og þessarar lýsingar á kjarna hennar. Hér skrifar Arnaldur af tilfinningu sem alveg skortir í bókina, stíllinn rennur ákveðinn og blátt áfram, næmur en samt kíminn. Í bókinni verður sama meining hins vegar flöt, endurtekningasöm og einhvern veginn tilfinningasnauð. Konungsbók er tákn um eitthvað meira en aðeins sjálfa sig sem prófessorinn er tilbúinn að deyja fyrir, en samt trúir lesandinn ekki löngum einræðum um gildi hennar. Slagsmálin um borð í Gullfossi í lokin virðast frekar niðurstaða flumbrugangs og kjánaskapar en einhver mikilvæg barátta um sjálfsmynd og menningu. Það er eins og langar ræður um bókina þar sem hún er skýrð eins og fyrir barni séu hugsaðar fyrir erlenda lesendur í því tilfelli að bókin yrði þýdd, en mikilvægi Konungsbókar verður þrátt fyrir það aldrei sæmilega skýrt. Það er þess vegna sem sú Konungsbók sem Arnaldur ætlaði sér að skrifa klikkar, ef mér leyfist. Sú Konungsbók sem ég hefði viljað lesa aftur á móti, yfirgengilegt nazisploitation með kukli og hvaðeina, ég skal reyna að syrgja hana í hljóði.

Hvenær drepur maður ekki mann? American Psycho og framhald hennar

Ég fór mjög geist í lokasprettinum á doktorsritgerðarskrifunum svo ég hef ekki haft mikla orku til menningarrýni síðan í apríl. Núna langar mig að bæta úr þessu og fjalla sömuleiðis meira um bækur. Hingað til hef ég helst nennt að blogga um kvikmyndir og það verður sömuleiðis gert hér þótt efniviður myndanna sem skoða skyldi sé skáldsaga Brets Easton Ellis, American Psycho, sem ég hef ekki lesið.

Titill sögunnar er afar lýsandi fyrir efniviðinn. Hún gerist í New York á níunda áratugnum og fjallar um uppa innan við þrítugt, Patrick Bateman, sem vinnur við eitthvað óljóst — sennilega viðskipti. Hann hefur ekki unnið sér inn fyrir starfinu, heldur hefur hann fæðst til þess. Hið sama gildir um alla kollega hans. Í raun og veru gerir hann ekkert í vinnunni. Vinnan felst í að sitja við skrifborð í klæðskerasniðnum jakkafötum og þykjast vera mikilvægur. Áhorfandinn fær þegar að vita að honum þykir þetta allt innantómt. Allir í kringum hann eru nákvæmlega eins og hann, fullir af yfirborðshluttekningu hver með öðrum, svo snobbaðir að lífið snýst um hver fær borð á hvaða veitingastað og hver á flottasta nafnspjaldið.

Það sem er einna helst áberandi er fullkomið sinnuleysi allra í garð hver annars. Allir þykjast þekkjast, en persónur myndarinnar fara tíðum mannavillt af því þeir þekkja hver annan ekki í sjón. Þannig nær Bateman færi á vinnufélaga sínum Paul Allen sem heldur að hann sé annar vinnufélagi sinn, Halberstram. Bateman myrðir Allen, að því er virðist af öfund, og það sem eftir lifir myndar myrðir hann enn fleiri. Í lokin játar hann allt saman en vinnufélagarnir hlæja að honum. Þegar Bateman segist hafa myrt Paul Allen segir annar vinnufélagi að það geti ekki verið því hann hafi borðað með Allen í London nokkrum dögum fyrr.

Hérna liggur galdurinn. Í myndinni er nefnilega alveg óljóst hvort Bateman hefur yfirleitt drepið nokkurn og það má skilja myndina á hvorn veginn sem er. Sá kvittur barst mér í eyru eftir að ég hafði séð myndina í bíó á sínum tíma að í bókinni væri alveg ljóst að Bateman hefði engan myrt, þetta hefði allt verið ímyndun. Og flestir vinir mínir hafa viljað túlka myndina þannig sömuleiðis. Mér finnst það bara ekkert skemmtileg túlkun svo ég fór að kanna málið og það kemur í ljós að þessi endalok eru sömuleiðis opin í bókinni. Þá hefur Ellis skrifað fleiri bækur þar sem Bateman kemur við sögu þar sem sömuleiðis er gefið í skyn að hann sé fjöldamorðingi. Og er þetta ekki fullkominn endir? Bateman myrðir Paul Allen en það er ekki tekið mark á því, af því einhver sem þekkir heldur ekki vinnufélaga sína í sundur heldur sig hafa borðað með honum í London. Að lokum skipta örlög Allens engu máli, því þessir menn sinna engum raunverulegum skyldum öðrum en að troða í sig mat og áfengi, bera saman nafnspjöld og þykjast þekkja hverjir aðra. Þannig eru þeir allir amerískir sýkópatar, allir jafn siðblindir og veruleikafirrtir.

Svo kom reyndar út kvikmynd, sem hægt er að taka mark á eða ekki eftir behag, sem gjörbreytir söguheimi myndarinnar. Hægt væri að hafna alveg gildi American Psycho 2 fyrir fyrri myndina. Það hafa bæði Bret Easton Ellis gert og aðalleikkonan Mila Kunis, sem segir að upphaflega hafi þetta átt að vera allt önnur mynd en svo hafi handritinu verið breytt í miðjum tökum. Það sést líka langar leiðir að myndirnar eru fullkomlega óskyldar fyrir utan viðbótina um Patrick Bateman. American Psycho 2 er nefnilega hefðbundin unglingaslógmynd í anda Urban Legend og annarra slíkra mynda sem einkum fjalla um kynlíf og slægða unglinga, en fyrri myndin er töluvert langt frá þeirri stemningu. Sjálfur hef ég nú samt sem áður það prinsíp að sé William Shatner í kvikmynd, þá sé hún kanóna. Svo er leikstjóri myndarinnar Morgan J. Freeman, sem hljómar næstum því eins og annar fremur virðulegur náungi, svo það gefur myndinni aukið gravitas. Svo við skulum taka mark á myndinni.

Í American Psycho 2 er það ljóst frá upphafi að Patrick Bateman er einn þekktasti fjöldamorðingi sögunnar og að aðalpersónan, Rachael Newman, var eitt verðandi fórnarlamba hans þar til hún tók málin í eigin hendur og drap hann. Í kjölfarið ákveður hún að gerast fjöldamorðingjamorðingi og að besti farvegur þeirrar lífsköllunar sé hjá FBI. Við fyrstu sýn eru margir gallar á þessari ráðagerð, en myndinni er alveg sama. Rachael sækir nám í Western Washington University þar sem fyrrum FBI-kempan William Shatner kennir handahófskenndar upplýsingar um fjöldamorðingja. Allir nemendur hans vilja fá að verða aðstoðarkennari hans næsta misseri, því það að verða aðstoðarkennari Williams Shatner jafngildir því að fá að fara í FBI-skólann í Quantico (allir sem þekkja til háskóla vita hverslags þvæla það er, og persóna Shatners í myndinni furðar sig einmitt á því að nemendur haldi að það að vera aðstoðarkennari sinn komi þeim á einhverja framabraut). Rachael drepur því helstu keppinauta sína um hina eftirsóttu stöðu. Einn þeirra kyrkir hún með smokki eftir að hafa ginnt hann í herbergi sitt undir yfirskini um öllu hefðbundnari notkun getnaðarvarna.

Þetta er auðvitað hlaðið alls konar merkingu. Það sem hefði farið utan um harðan lim hans er hið lina sem drepur hann, svo stungið er upp á táknrænni vönun; hann fær heldur ekki hin holdlegu kynni sem hann sóttist eftir. Þá er þetta ábending um að myndin sé meðvituð um stöðu sína meðal slógmynda sem mjög eru uppteknar af kynlífi og vönun. Aðra karla drepur hún með penetrasjón: samnemanda með ísnál í hnakkann (rétt eins og Bateman), ræstingakarl myrðir hún með kústskafti upp í munn og út um hnakka, sem er ekki smuga að framkvæma í alvörunni. Og undir öllum þessum morðum er svo kankvís og glaðleg tónlist að það verður óbærilegt. Er þetta gamanmynd? Ég hallast að því.

Síðan drepur hún William Shatner ooog … hérna virðist ráðagerðin öll vera farin út um gluggann, bókstaflega, því William Shatner dettur út um glugga. William Shatner virðist með öllu ófært að deyja virðulega í kvikmyndum. Hann hafði lifað ótal Star Trek myndir áður en hann varð undir stillansa. Hvað um það, Rachael drepur svo bara aðstoðarkennarann hans og þykist vera hún. Og kemst upp með það. Og fer til Quantico. Myndin búin. Ég hef ekki haft fyrir því að nefna sálfræðinginn einu sinni, því ef hann er klipptur úr myndinni þá breytist framvinda hennar ekki neitt.

Það er engin fágun yfir þessu. Öllu er slengt framan í áhorfandann eins og dauðum skunki og hin óvæntu sögulok eru hvorki óvænt né sögulok. Það er engin saga. American Psycho 2 virðist helst tjá þá hugmynd að of efnaðir háskólanemar séu óttalegt pakk (má e.t.v. til sanns vegar færa) og að fjöldamorðingjum sé ekki treystandi til að myrða eingöngu til góðs. American Psycho er á hinn bóginn afskaplega fáguð athugun á ýmsum sviðum mannlegs samfélags. Hún fjallar um stéttskiptingu, firringu hinna efnaðri, ójöfn valdahlutföll þar sem hinir útvöldu geta framið hvers konar myrkraverk án afleiðinga í krafti stöðu sinnar, en þótt hún sýni þann heim frá sjónarhóli innherja þá er myndin sem dregin er upp svo framandi áhorfandanum að sjónarhornið er samt sem áður upp og utan frá. Þannig dregur hún áhorfandann inn í óhugnanlegan heim þar sem fólki er meira annt um nafnspjöld en annað fólk, veit ekki hvað annað fólk heitir, skilur ekki mannleg samskipti. Hin ráðandi stétt er afmennskuð á sama tíma og fulltrúi hennar, Bateman, afmennskar þá sem eru undir hann settir og ryður öðrum úr vegi — án nokkurra afleiðinga.

Athafnir Batemans eru táknrænar fyrir þá viðskiptahætti sem hann myndi stunda ef hann raunverulega sinnti starfinu sínu. Ef hann væri ekki bókstaflegur morðingi, þá væri hann það óbeint. Hvenær myrðir þá Bateman mann og hvenær ekki? Það er hvers og eins að svara. En forðumst fyrir alla muni þá hugmynd að aðeins sé eitt svar við þeirri spurningu.

Martraðir um hvítabirni II

Í gær bloggaði ég um hryllingssögur Jóhannesar Friðlaugssonar af hvítabjörnum sem gengu á land í Þingeyjarsýslum. Sagan sem ég nefndi sérstaklega er fundin og hún er mikið óhugnanlegri en mig minnti. Kannski engin furða þótt ég yrði hræddur við að fá svona skepnu heim til mín:

Allmörgum árum seinna fluttu þangað önnur hjón með tvo syni sína og bjuggu þar í nokkur ár, án þess að nokkuð bæri til tíðinda. Þá var það einn vetur, að harðindi gerði mikil, og kom hafís að öllu Norðurlandi. Einn morgun vöknuðu hjónin á Þeistareykjum við hávaða fram í bænum, og rétt á eftir er baðstofuhurðin brotin í spón, og stór hvítabjörn kemur inn á gólfið. Svo var rúmum háttað í baðstofunni, að þau voru aðeins tvö og bæði fyrir stafni, en annað var háarúm, og sváfu drengirnir þar, en hjónin í neðra rúminu. Þegar björninn kom inn, rís bóndinn upp úr rúmi sínu og kallar í drengina og biður þá að vera kyrra og láta ekkert á sér bæra. Ætlar bóndi svo að seilast í stóran hníf, sem var upp undir sperru í baðstofunni. En áður en hann fengi náð honum, sló dýrið hann með hramminum, og þurfti hann ekki meira. Fór konan sömu leið. Síðan lagðist dýrið á líkin og fór að éta þau. Á meðan lágu drengirnir alveg grafkyrrir og þorðu ekki að hreyfa sig af hræðslu og skelfingu við dýrið. Þegar dýrið var búið að seðja sig af líkunum, fór það fram úr baðstofunni og út. Risu þá drengirnir á fætur og fóru að ræða um, hvernig þeir ættu að frelsa sig frá birninum og helst að ráða hann af dögum – og hefna svo foreldra sinna. Var þá annar þeirra 12 vetra, en hinn 10 vetra. Komu þeir sér saman um það, að eldri drengurinn skyldi taka stóra hnífinn og fara milli þils og veggjar, því að það var manngengt á milli. En á þilinu var allbreið rifa. Gerðu þeir ráð fyrir, að dýrið mundi koma aftur til að vitja um leifarnar af líkunum, og átti þá yngri drengurinn að gera vart við sig uppi í háarúminu. En þá mundi dýrið rísa upp á afturfæturna og fara að gægjast upp í rúmið að drengnum. Ætlaði þá eldri drengurinn að reyna að koma lagi á björninn með hnífnum, í gegnum rifuna á þilinu. Fór þetta eins og drengirnir höfðu ráðgert. Eftir nokkra stund kom dýrið inn aftur og fór að gæða sér á leifunum. Reis þá yngri drengurinn upp í rúminu. Kemur dýrið auga á hann, rís upp á afturfæturna og teygir hrammana upp á rúmstokkinn. Sætir þá eldri drengurinn færi og leggur hnífnum í kvið bjarnarins og sker út úr, og verður það svöðusár. Þegar björninn fékk lagið, snýr dýrið út úr bænum án þess að skipta sér neitt af drengjunum. En drengirnir náðu bæjum í Mývatnssveit, og bærinn lagðist í auðn.

— Jóhannes Friðlaugsson, Gróin spor, bls. 210-12.

Glöggir lesendur taka eftir að þessi bútur er in medias res, en frásögnin á undan fjallar um hjón sem bjuggu áður á Þeistareykjum, en bóndinn varði sig bangsanum með grjótkasti eftir að sá síðarnefndi hafði áður étið konu hans upp til agna. Þá situr aðeins spurningin eftir: Ætli jörðin að Þeistareykjum sé enn á lausu, ef ske kynni að mann langaði til að reisa sér bústað?

Martraðir um hvítabirni

Ég furða mig stundum á því sem ég las sem barn þótt mér hafi þótt fátt eðlilegra þá en að ég hefði áhuga á því sem ég hafði áhuga á. Í dag tókum við pabbi loksins í gegn geymsluna hennar mömmu sem við í sameiningu lögðum í rúst á 25 ára löngu tímabili, en kannski aðallega ég samt. Þar kom ýmislegt upp úr kössum, þar með talin bók sem hafði ómæld áhrif á mig (þá á ég ekki við bókina UFO: Fljúgandi furðuhlutir eftir Einar Ingva Magnússon, eina af sérviskum unglingaskeiðs lífs míns).

Bókin heitir Gróin spor og er þannig orðin til að faðir (stjúp)afa míns Huga, Jóhannes Friðlaugsson, var í og með öðrum störfum rithöfundur. Bókin er úrval þess sem hann skrifaði og er gefin út í tilefni af aldarafmæli hans árið 1982. Bókina myndskreytti afabróðir minn Hringur og því eigi síður var dálítið til af þessari bók í fjölskyldunni og fengum við bróðir minn hvor sitt eintakið. Ég hef kannski verið níu ára, ég er ekki viss. Það hefði verið 1993, en kannski fékk ég bókina ári fyrr. Þetta voru þá aukaeintök sem aldrei höfðu farið út og afa datt í hug að við gætum haft gaman að, ekki síst myndunum.

Nú er frá því að segja að hvort tveggja myndirnar og textinn skelfdi mig. Ég blaðaði nefnilega í gegnum bókina eitthvert kvöldið og rambaði á myndir af ísbjörnum. Þá varð ekki aftur snúið, ég þurfti að lesa hvað stóð þarna um ísbirni. Kaflinn heitir Hvítabjarnaveiðar í Þingeyjarsýslum og þar er meðal annars frásögn af því, ef ég man rétt, þegar tvö ung systkin urðu ein eftir á bæ nokkrum, gott ef faðirinn var ekki að róa til fiskjar og móðirin farin á næsta bæ eftir einhverjum lífsnauðsynjum, og börnin ein eftir.

Svo kom ísbjörn inn í bæinn.

Ég var stjarfur af hræðslu og las sem óður væri til að sjá hvernig þeim reiddi af, sömuleiðis allar hinar ísbjarnasögurnar, og svaf svo heldur seint og illa um nóttina. Það var um líkt leyti sem ég las í Úrvali (já, ég las Úrval alveg upp til agna) um konu í Norður-Ameríku sem lenti í því óláni að einhver skollans björn kíkti í heimsókn til hennar eitt kvöldið og lenti í áflogum við Nýfundnalandshundinn hennar. Sá stökkti birninum á brott en drapst fljótlega af sárum sínum. Eftir þetta varð ég mikill talsmaður Nýfundnalands- og Sankti Bernharðshunda.

Lengi á eftir átti ég von á því að hvað úr hverju kæmi ísbjörn inn um dyrnar (á þriðju hæð, á Laugarnesvegi) einmitt þegar allir væru sofnaðir nema ég og hann æti mig lifandi, foreldrar mínir hrjótandi í hinum enda íbúðarinnar og gætu ekkert gert í þessu.

Nú er þessi bók fundin aftur og þá er að sjá hvort ég þori að rifja upp kynnin við hvítabirnina. Hitt er svo annað að eftir ár verð ég að líkindum staddur á Svalbarða á ráðstefnu. Martraðir um hvítabirni munu vera lenskan þar í mesta skammdeginu, svo kannski ég geymi mér litteratúr Jóhannesar Friðlaugssonar fram að því?

Meistaraverk æskuáranna II: Dýrin í Hálsaskógi

Lilli lofsyngur sjálfan sig. Marteinn er ekki alveg að fíla þetta.
Lilli lofsyngur sjálfan sig. Marteinn er ekki alveg að fíla þetta.

Strangt til tekið telst þessi færsla ekki með því hún fjallar um leikrit í stað kvikmyndar og kemur aðeins inn á eitt atriði. Ég áttaði mig nefnilega ekki á því fyrr en í dag að Lilli klifurmús er heldur illa liðinn í Hálsaskógi og það af gildri ástæðu: Lilli er sjálfselskur ónytjungur.

Þegar Amma mús heimsækir Martein skógarmús torgar hún ekki allri kökunni sem Marteinn býður upp á og leggur til að hann bjóði vini sínum Lilla klifurmús upp á afganginn með sér. Marteinn virðist lítið spenntur fyrir þeirri hugmynd: „Finnst þér að ég eigi að gera það?“ spyr hann.

Þegar Lilli svo mætir óboðinn í næstu andrá neitar hann að hlusta á áhyggjur Marteins af Mikka ref því hann vill syngja honum vísu, sem fjallar um Lilla sjálfan og hversu æðislegur hann sé, útskýrir Lilli. Í vísunni kemur líka fram að Lilli er landeyða sem lifir á öðrum í stað þess að leita sér sjálfur matar, og af þessu er hann stoltur. Þegar Marteinn þakkar honum flutninginn með semingi treður Lilli upp í sig restinni af kökunni og fer á brott.

Áður en Lilli flytur vísuna tekst Marteini þó að nefna að hann ætli að semja lög sem ná eiga yfir öll dýrin í skóginum, og Lilli spyr hvort þau eigi að gilda um sig líka, eins og honum þyki það ekki alveg augljóst. Eftir að Lilli er farinn semur Marteinn lögin:

1. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir
2. Ekkert dýr má borða annað dýr

og svo eins og í beinu framhaldi af leiðindaheimsókn Lilla:

3. Dýr sem ekki afla sér sjálf matar mega ekki sníkja hjá öðrum

Þessi augljósu tengsl eru aldrei aftur nefnd í leikritinu, en ljóst er að Lilli áttar sig aldrei á því að þetta ákvæði gildi neitt sérstaklega um sig. Þegar þeir Marteinn og Bangsapabbi ákveða að kynna þessi ákvæði fyrir dýrunum treður Lilli bara í sig hunangskökum Bangsamömmu og yfirgefur fundinn eins og þetta komi sér ekki við. Og þegar Mikki refur eigrar um soltinn eftir gildistöku laganna og veit ekki hvað hann á af sér að gera ráðleggur Lilli honum að fara í heimsóknir! Óafvitandi hvetur hann Mikka til að brjóta lög, en Mikki stelur heldur svínslæri af bóndahjónum sem reynist afdrifaríkt, því leit þeirra að sökudólgnum færir þeim í hendurnar Bangsa litla.

Eftir að Bangsa er bjargað með ráði og dáð Mikka seinna í leikritinu áttaði ég mig skyndilega á því að Lilli er eins og óþolandi krakki sem enginn hefur áhuga á að viðurkenna. Þeir Marteinn hjálpast nefnilega að við að bjarga Bangsa en aðeins Marteini er þakkað, en Lilli mætir afgangi þegar Bangsapabbi áttar sig skyndilega og segir: „Já, og þú líka Lilli.“ Svona er þetta í öllum senum þar sem þeir Marteinn koma báðir við sögu, þá er Marteini hrósað en Lilli er eins og ofvirkur á meðal dýranna að reyna að fá athygli líka. Það er eins og vísurnar hans séu frekar umbornar en hitt — þær eru sannarlega ekki umbeðnar.

Af þessu dreg ég þá sjokkerandi ályktun að Lilli klifurmús þyki af hinum dýrunum í skóginum vera heldur leiðinleg týpa, ónytjungur og leiðindaskarfur sem lifir sníkjulífi á samfélaginu og sífellt er eitthvað að trana sér fram. Ekki nóg með það heldur er það skelfilega augljóst hvar sem gripið er niður í leikritið að Lilli er hvergi aufúsugestur, heldur er hann umborinn af sársaukafullri meðvirkni samfélags sem á við nógu skelfileg vandamál að stríða þótt hinir kúguðu sláist ekki innbyrðis líka.