Skype samtal #2: Það er bannað að reykja

Af væntanlegri konsept-plötu Garðskálans: „Á bakvið hvern reyklausan mann er keðjureykjandi kona” – hluti óviðjafnanlegs þríleiks. Samið yfir Skype.

Lag: Herra Vídalín;
Texti: Herra Loðmfjörð;
Listrænn ráðgefandi: Kristján B Jónasson.

Aldrei fyrr hafa barítónarnir tveir sýnt af sér aðra eins leikgleði innan hins þrönga ramma þeirra snilldarlegu listrænu sýnar! Plata þessi er nokkuð sem enginn skal láta framhjá sér fara. Útgáfutónleikar í Hörpunni verða þann 11. september 2011. Fáir miðar eftir. Tryggið ykkur sæti!

O du, mein holder Abendstern

Wie Todesahnung Dämmrung deckt die Lande,
umhüllt das Tal mit schwärzlichem Gewande;
der Seele, die nach jenen Höhn verlangt,
vor ihrem Flug durch Nacht und Grausen bangt.

Da scheinest du, o lieblichster der Sterne,
dein Sanftes Licht entsendest du der Ferne;
die nächt’ge Dämmrung teilt dein lieber Strahl,
und freundlich zeigst du den Weg aus dem Tal.

O du, mein holder Abendstern,
wohl grüßt ich immer dich so gern:
vom Herzen, das sie nie verriet,
grüße sie, wenn sie vorbei dir zieht,
wenn sie entschwebt dem Tal der Erden,
ein sel’ger Engel dort zu werden!

Óskiljanlega léleg tónlistarumfjöllun

Í Lesbók laugardagsins birtist alveg frámunalega léleg grein eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson undir heitinu Við skulum ekki skilja aftur. Fyrir neðan titilinn stendur:

„Hin trúarlega No More Shall We Part er líklega vanmetnasta plata Nick Cave & The Bad Seeds“

sem kemur mér á óvart enda veit ég ekki til annars en hún hafi hlotið gríðarlegt lof gagnrýnenda og að Cave hafi fylgt henni eftir með tveggja ára túr um heiminn – meðal annars með viðkomu á Íslandi. En hver veit, kannski er fólk búið að gleyma henni núna. Jóhann Bjarni segir það í lok greinarinnar, hvað svo sem hæft er í því. Annarsstaðar í greininni segir hann:

„Þeir skelltu sér í hljóðverið, og úr varð frábær plata sem hæglega má kalla vanmetnustu plötu Nick Cave & The Bad Seeds hingað til.“

en gerir enga tilraun til að útskýra það mat sitt nánar.

Þar fyrir utan virðist Jóhann Bjarni ekki hafa skilið plötuna ef honum finnst hún svona trúarleg. Hún er að minnsta kosti ekki trúarlegri en Boatman’s Call, nema síður sé. Sér til stuðnings vísar greinarhöfundur til þess að:

„á árunum 1999 til 2000 gekkst Cave undir meðferð við alkóhólisma og heróínfíkn, og vildu margir meina að hann hefði hreinlega frelsast í kjölfarið […] Þegar litið er yfir lagalista plötunnar sést strax hvaða málefni var Cave hvað mest hugleikið á þessum tíma: „Oh My Lord“, „God Is in the House“ og „Hallelujah“ fjalla að minnsta kosti ekki um kvennafar og fyllerí. Og skilaboðin eru skýr:

For the word is out
God is in the house
God is in the house
God is in the house
No cause for worry now
God is in the house

(Úr „God is in the House“)“

Það er greinilegt að skilaboðin voru ekki nógu skýr fyrir Jóhann Bjarna, því lagið God is in the House er engin trúarjátning, heldur blaut tuska framan í ofsatrúarbrjálæðinga og klikkaða útópista sem vilja einangra sig frá umheiminum í blindri tilbeiðslu. Ætli hann hafi ekki hlustað á lagið í gegn? Hann hefur allavega lesið textann við viðlagið þótt ekki sé öruggt um annað. Hérna er síðasta erindið allt:

Well-meaning little therapists
Goose-stepping twelve-stepping Tetotalitarianists
The tipsy, the reeling and the drop down pissed
We got no time for that stuff here
Zero crime and no fear
And we’ve bred all our kittens white
So you can see them in the night
And at night we’re on our knees
As quiet as a mouse
Since the word got out
From the North down to the South
For no-one’s left in doubt
There’s no fear about
If we all hold hands and very quietly shout
Hallelujah
God is in the house
God is in the house
Oh I wish He would come out
God is in the house

Lagið Oh My Lord get ég ómögulega skilið öðruvísi en sem frekari gagnrýni á öfgar og skefjalausa trú á skilyrðislausa fyrirgefningu – og þótt lagið sé vissulega trúarlegt á sinn hátt þá boðar Cave hógværð með hasar; hann fer öfugu megin við ætlunarverkið til að koma boðskapnum á framfæri. Hallelujah er á hinn bóginn algjörlega trúarlegt, sett upp eins og dæmisaga úr fermingarfræðslu – og raunar eftir því hallærislegt. En núna er ég ekki svo viss um að hann hafi skoðað annað en titilinn og dregið ályktun af því.

Jóhann Bjarni eyðir svo þónokkru plássi í að skipta aðdáendum Nicks Cave upp í píanófrík og rokkfrík og skipar sjálfum sér í fyrri flokkinn. Mér finnst það ekki skipta nokkru máli, en kannski þykir mér tvíhyggja bara svona leiðinleg, og kannski eru ekki til aðdáendur sem falla utan eða innan beggja flokka. Kannski var gerð Gallupkönnun og höfundur gleymdi að vísa til hennar. En þartil annað kemur í ljós ætla ég að halda áfram að botna lítið í rakalausum fullyrðingum.

Næst segir hann að Cave slái varla feilnótu á plötunni, sem felur í sér að þær séu þó að minnsta kosti nokkrar, en hvort þær skrifist á vankunnáttu Nicks Cave á píanó eða skilningsleysi Jóhanns Bjarna á ómstríðum hljómum fá lesendur greinarinnar líklega aldrei að vita. Lögin eru hvert öðru betra segir hann, en Sweetheart Come verði líklega að teljast vera lakasta lagið. Mér þætti vænt um að fá rök fyrir því. Meðal bestu laganna telur hann svo áðurnefnt God is in the House – sem hann þó skilur ekki eins og áður var bent á. Kannski ef hann hlustaði betur þætti honum það lakara? Ég veit það ekki, því hann vill ekki segja hvað er svona gott við það. Þá heldur Jóhann Bjarni áfram:

„Þótt Cave hafi farið í meðferð, og meira að segja gengið í hjónaband á milli The Boatman’s Call og No More Shall We Part, má þó greinilega skynja að einhver biturð og óuppgerð fortíð var enn að hrjá hann, eins og þetta textabrot úr „We Came Along This Road“ ber með sér:

I left by the back door
With my wife’s lover’s smoking gun
I don’t know what I was hoping for
I hit the road at a run
I was your lover
I was your man
There never was no other
I was your friend
Till we came along this road“

Þetta hlýtur að vera laukrétt, á sama hátt og eftirfarandi textabrot úr lagi Toms Waits, Tabletop Joe, lýsir óuppgerðri þrá Waits til þess að vera líkamslaus skemmtikraftur í sirkus:

Well, my Mama didn’t want me
On the day I was born
I was born without a body
I got nothin’ but scorn

Að því sögðu get ekki beðið eftir næstu upplýsandi grein Jóhanns Bjarna um tónlist. Og megi Guð bjarga honum frá því að rökstyðja mál sitt í framtíðinni.

Nýr Garðskáli

Fagni allir góðir menn nýjum Garðskálaþætti í fyrsta tölublaði hinna nýju Tregawatta. Lesið hið stórglæsilega tímarit! Horfið á hinn kynngimagnaða Garðskála! Njótið!

Í öðrum fréttum fékk ég lánaða The Soft Bulletin með The Flaming Lips hjá stóra bróður mínum, sem kann að meta allt sem er fallegt, gott og krúttlegt, enda þótt hann sé vígalegur á að líta. Þetta er plata sem lýsir upp hið myrkasta skammdegi, og jafnfætis því að tilheyra póstrokkbylgjunni sem hófst að nokkru leyti með OK Computer kallast hún á skemmtilega snúllulegan hátt á við rokkóperustælana í Pink Floyd. Ég myndi kalla þá pabba krúttkynslóðarinnar íslensku en ég þori ekki að fullyrða. Afskaplega skemmtilegt, saklaust, fallegt og gott. Gerist krútt! Hlustið á Flaming Lips! Njótið!

Og til að ljúka bloggi dagsins birtist ykkur eftirfarandi tilvitnun í viðtal Tregawattanna við Steinar Braga, ef til vill eins og í draumi. Þó líklega ekki:

EÖN: Eru ljóð einlægari en áður? Persónulegri? Er tími íróníunnar liðinn?

SB:
Það fer fyrir okkur öllum eins og konunni í eldstorminum í Dresden í síðari heimsstyrjöldinni – hún hljóp út úr húsinu sínu en uppgötvaði of seint að gangstéttin var byrjuð að bráðna í hitanum, sökk þá grenjandi ofan í stéttina, lagðist á hliðina og bráðnaði saman við. Tími íróníunnar er rétt að hefjast.

Skilaboð til lesenda

Skylduverk dagsins er að hlusta á etýðu opus 10 nr. 3 í E-dúr eftir Chopin. Lesendur mega ímynda sér að þeir séu staddir einhversstaðar í Evrópu að sötra rauðvín á svölum í volgum vorandvaranum með hálfnakinn elskhuga dormandi á sólstól með tequila sunrise og Blóm hins illa eftir Baudelaire meðan sólin strýkur ykkur um vangana og greddan eykst jafnt og þétt með brjóstaskorunni í miðju sjónsviðinu undan vafasömum blaðsíðum Við sundin blá eftir Tomma Gumm.

En sjálfum nægir mér tónlistin.

Hlustið svo á op. 10 nr. 6 í Es-moll; finnið hvernig hringlandi örvæntingin lýsist upp með örlitlum neista vonar en hrapar svo niður í hina herfilegustu angist. Stundum held ég að ég hefði riðið Chopin hefði ég verið uppi á sama tíma. Svo man ég að mér nægir tónlistin.

Tindersticks

StaplesTindersticks voru fáránlega töff í gær. Fáránlega töff segi ég. Fáránlega. Stuart Staples var merkilega prúður milli átakanna sem hann lagði í hvert lag. Krúttlegt bros. Sá hann alltaf fyrir mér sem meira hörkutól. Þarf að fara að kíkja á nýju plötuna. Fannst ég skynja svipuð þemu þarna í gær en Curtains verður þó alltaf biblía barrómantíkera. Kaupið hana.

Í öðrum fréttum á ég núna flugmiða. 29 dagar.

Kvöldvakt í Árbænum og svo fimmtugsafmæli. Spookeh. Ég ætla að leyfa mér að verða fullur. Skil ekkert í að bjóða upp á áfengi ef afleiðingarnar þykja óæskilegar. Kallið mig óþroskaðan en mér finnst bara svo gaman að verða mér til skammar.