Hrásalat

Vill einhver útskýra fyrir mér konseptið bakvið hrásalat, t.d. þegar það er borið fram á diski, er þá ætlast til að maður éti þetta? Maður sér þetta í verslunum og finnst einhvern veginn eðlilegast að kaupa það til að henda í fólk eða spillta stjórnmálamenn (það er munur).

Að sitja heima á síðkvöldi framan við Tom Waits á dvd með bjór, fisk og franskar framan við sig og finna hrásalat í bakkanum er nefnilega meira en að segja það. Ef maður nennir ekki að finna bíllyklana, vippa á sig skónum og slengja frakka yfir herðarnar til að leita að einhverjum til að kasta salatinu í, þá er ekki mikið annað að gera en henda þessu.

Maður veit allavega hvað á að gera við Bangers n’ Mash og glas af Guinness inni á Slattery’s eftir sveitt miðbæjarrölt daginn eftir Tom Waits tónleika. Já, ég vil að þið öfundið, en ég kann ekki alveg til verka. Kannski dugar þetta.

Rúmliggjandi

Þó ekki rúmfastur, með alltof sterkt kaffi, að hlusta á lög dagsins: Black Coffee með Julie London og This One’s From the Heart með Tom Waits og Crystal Gayle. Að þessu sögðu hvarflar að mér að ég gæti haft frá einhverju merkilegra að segja.

Tom Waits er á döfinni í næstu viku, írskir pöbbar og áin græna. Hugurinn verður þar en hjartað annarsstaðar, svo ég grípi til exhibitionisma (það eru ismar í þessari færslu!).

Kannski hef ég bara ekkert að segja.

Kenningin fallvalta hreina

Kvöldið eftir að ég svaf í bíl síðastliðna helgi átti ég í rökræðum um listhugtakið í útskriftarveislu í Fossvoginum, eða öllu heldur hélt stúlka nokkur því fram að sá verknaður að nota saur til sköpunar – nánar tiltekið í innsetningar – umræðan barst ekki til annarrar notkunar saurs, svo sem í stað málningar á hreinan arískan striga (þar með verður mér hugsað til Bergs Thorberg sem notar kaffi en gæti allteins notað saur ef hann lyktaði af kaffi án þess það gerði hann að minni listamanni hvað mig varðar) – væri ekki list og ég auðvitað fann mig knúinn til að verja slíkan verknað, ekki síst vegna þess að yrðingin sjálf var gölluð og hefði heldur átt að spyrja að því hvenær saur væri list en ekki hvort hann væri það yfirhöfuð.

Umræðunum lauk þannig að hér um bil allir í veislunni lýstu yfir þeirri eindregnu skoðun, gagnstætt minni eigin, að Arnaldur Indriðason (eftir langan veg rökræðna – ég er ekki að líkja honum við saur) hlyti að vera mesti rithöfundur Íslands af því að óumdeilanlega er hann vinsælastur og gæði listar stæðu þarmeð í órjúfanlegu hlutfalli við þann fjölda fólks sem hún höfðaði til. Betri leið til að afskrifa ljóðið sem listform – og ef út í það er farið nær allar bókmenntir og myndlist – er vandfundin. Fólk virtist heltekið þeirri skoðun að stöðnun væri fín, svo ég hætti þar og fór að rífast um barnaníðinga, enda sérstakt áhugamál hjá mér. Ekki fékk ég betri viðtökur þar.

Í gær las ég upp á ljóðakvöldi og hugsaði allan tímann um það hversu afleitur listamaður ég væri að ná ekki að trekkja að eina einustu gamla kerlingu með gleraugu á stærð við undirskálar og var ánægður að hafa ekki með gullofinni listsköpun minni dregið alla helvítis þjóðina inn á takmarkað rými Næsta bars, því í fjandans bænum: Eina meðalið við svoleiðis hávaða er tónlist. Þess vegna þarf tónlist ekki að staðna þótt hérumbil hver einasta sveit Íslands um þessar mundir sé annað hvort fyllt álfum, krúttum eða krúttálfum, því það er jú bara það sem fólk hefur áhuga á einmitt núna. En kenningin er völt. Hún veltur á því hvort annar hver maður verði búinn að láta klippa sig eins og Arnald fyrir tónleikana 28. júní næstkomandi.

Sól – rigning – sól – rigning

Náttúran er að fokka í manni þegar það er sól öllum stundum sem maður getur ekki setið úti á svölum og drukkið bjór – þvert ofan í veðurspána – en rigning þegar maður getur það. Mér fannst það óréttlátt um stund eftir að ég vaknaði með sólina í andlitinu en komst að þeirri niðurstöðu að þetta sé leið náttúrunnar til að fá mig til að hætta að drekka bjór. Ekki að hún virki, come rain or come shine.

Annars er þetta ágætt. Ég vaknaði snemma (klukkan fimm) og er að horfa á Denis Leary yfir fleiri kaffibollum og sígarettum en ég þori að telja. Tryggir að ég sofna ekki undir stýri á leiðinni í vinnuna, eða yfirleitt, næstu sjö árin. Fann líka skilaboð frá bróður mínum á símanum. Hann er að fara á Tom Waits í París þremur dögum áður en ég sé hann (Waits) í Dublin. Mér sýnist allt stefna í að halda þurfi stemningskvöld fyrir tónleikana, helst nokkur svo hægt sé að kóvera allt efnið og koma sér í gírinn. Maður veit aldrei hvað karlinn tekur.

Tilkynning taka tvö

He claimed to have picked up everything that finally went into the loft’s decor on the streets – New York, he insisted, was truly wonderful.

Throughout the resettlement process, music was never far from his thoughts. „There’s construction sounds here all the time,“ he explained to Hoskyns. „So I started taping a lot of stuff. How that will integrate into what I’m doing, I’m not certain. But I started taping the sounds of machinery a lot and I play it back at night, ’cause you miss it, you know. When it gets quiet and you’re relaxed … so I play it back at full volume so I can reexperience the sounds of the day. There’s, like, a pile driver outside of my window. You know what a pile driver is? It’s all what you get used to.“

Það er kannski ástæða til að endurtaka mig frá því síðast. Ég valdi myndina eitthvað vitlaust, hún var ekki af mér. Og sem ég sit hér og les í ferilssögu/ævisögu Tom Waits og hlusta á Heartattack and Vine (ekki Wine, ég veit ekki hvort hann pældi í merkingarmuninum) flaug mér í hug að ég gæti orðað hlutina skýrar. Við Halldór erum að fara á tónleika með Tom Waits í Dublin þann 30. júlí næstkomandi. Ég er ekkert sérstaklega kúl með það heldur, á það til að tísta uppúr eins manns hljóði eins og skólastelpa. Ég lýg því. En ég er frekar spenntur.