Íkon

Það er við hæfi á þessum degi, þegar ríkisvaldið vill halda að okkur minningu manns sem var negldur upp fyrir heldur litlar sakir fyrir tæpum tvöþúsund árum, að fjalla um eina trúarlega gripinn sem ég á.

Sumarið 2003 var ég staddur á Krít í hálfgerðu reiðuleysi, vissi ekki alveg hvernig ég átti að hegða mér eða hvað ég ætti að hafa fyrir stafni. Svo ég eigraði mikið um Chania og tók myndir af því sem fyrir augun bar, þar með af feitasta hundi sem ég hef á ævi minni séð. Það var eins og hann æti ekkert annað en ólífur og músakka.

Hvað um það, ég rambaði inn í einhverja litla skranverslun sem seldi hið aðskiljanlegasta dót, svona hluti sem aðeins túristar myndu kaupa. Öldruð kona sat við búðarkassann og kallaði stundum eitthvað til mín á grísku og brosti. Ég brosti á móti, gat ekkert annað gert. En vegna þess hvað hún var vinaleg fór ég að fá samviskubit yfir því að vilja ekki kaupa neitt þarna, svo ég afréð að kaupa eitthvað pínulítið svo hún fengi þó eitthvað fyrir sinn snúð.

Það var þá sem ég rak augun í litlu hasspípuna sem kostaði eina evru; plebbalegur gripur sem undirstrikaði tilganginn með mynd af kannabislaufi á pípustilknum. Þetta var það ódýrasta sem ég fann svo ég rétti konunni pípuna, en hún tók við henni og sýndi mér í þaula hvernig ætti að nota hana. Ég skildi ekki orð í grísku en skildi þó allt hvað hún átti við. Síðan pakkaði hún pípunni snyrtilega inn í gjafapappír og límdi og rétti mér, en sagði mér þó að hinkra aðeins.

Hún fór eitthvert á bakvið og kom síðan aftur með íkon af Maríu mey og Jesúbarninu. Þetta rétti hún mér með þeim orðum, eftir því sem mér skildist, að ég ætti að gefa þetta móður minni. Ég taldi að hugsunin væri ef til vill á þá leið að fyrst ég ætlaði í sollinn, þá væri gott að mamma hefði sem bestan aðgang að guðsmóðurinni. Ég þakkaði kærlega fyrir mig, á íslensku enda skildi hún hvort eð er enga ensku, og fór heim á hótel með þennan fallega kaupbæti.

Þegar ég svo kom heim færði ég mömmu íkoninn en hún vildi hann ekki. Ég veit ekkert hvað varð um hasspípuna (kannski hún sé heima hjá mömmu, hehe), en íkoninn á ég enn og mér þykir vænt um hann. Í grísku og rússnesku rétttrúnaðarkirkjunum er íkoninn ekki mynd af almættinu, heldur gluggi sem veitir þér beint samband við almættið. Samkvæmt trúnni þá er ég því með Maríu sjálfa og Jesúbarnið hjá mér, sem mér finnst falleg hugmynd þótt ég sé vitatrúlaus.

Mér finnst ég miklu frekar með þeim mæðginum hafa beint samband við gömlu konuna í Chania sem ég hef svo oft hugsað til, sem lét mér líða eitt andartak eins og ég skildi grísku og sem vildi mér svona vel. Þannig að íkoninn hefur fylgt mér á margt heimilið og hangir nú á vegg inni í svefnherbergi, undir málverki af Chania.

29852704_10156352908466584_973953743_n

Martraðir um hvítabirni II

Í gær bloggaði ég um hryllingssögur Jóhannesar Friðlaugssonar af hvítabjörnum sem gengu á land í Þingeyjarsýslum. Sagan sem ég nefndi sérstaklega er fundin og hún er mikið óhugnanlegri en mig minnti. Kannski engin furða þótt ég yrði hræddur við að fá svona skepnu heim til mín:

Allmörgum árum seinna fluttu þangað önnur hjón með tvo syni sína og bjuggu þar í nokkur ár, án þess að nokkuð bæri til tíðinda. Þá var það einn vetur, að harðindi gerði mikil, og kom hafís að öllu Norðurlandi. Einn morgun vöknuðu hjónin á Þeistareykjum við hávaða fram í bænum, og rétt á eftir er baðstofuhurðin brotin í spón, og stór hvítabjörn kemur inn á gólfið. Svo var rúmum háttað í baðstofunni, að þau voru aðeins tvö og bæði fyrir stafni, en annað var háarúm, og sváfu drengirnir þar, en hjónin í neðra rúminu. Þegar björninn kom inn, rís bóndinn upp úr rúmi sínu og kallar í drengina og biður þá að vera kyrra og láta ekkert á sér bæra. Ætlar bóndi svo að seilast í stóran hníf, sem var upp undir sperru í baðstofunni. En áður en hann fengi náð honum, sló dýrið hann með hramminum, og þurfti hann ekki meira. Fór konan sömu leið. Síðan lagðist dýrið á líkin og fór að éta þau. Á meðan lágu drengirnir alveg grafkyrrir og þorðu ekki að hreyfa sig af hræðslu og skelfingu við dýrið. Þegar dýrið var búið að seðja sig af líkunum, fór það fram úr baðstofunni og út. Risu þá drengirnir á fætur og fóru að ræða um, hvernig þeir ættu að frelsa sig frá birninum og helst að ráða hann af dögum – og hefna svo foreldra sinna. Var þá annar þeirra 12 vetra, en hinn 10 vetra. Komu þeir sér saman um það, að eldri drengurinn skyldi taka stóra hnífinn og fara milli þils og veggjar, því að það var manngengt á milli. En á þilinu var allbreið rifa. Gerðu þeir ráð fyrir, að dýrið mundi koma aftur til að vitja um leifarnar af líkunum, og átti þá yngri drengurinn að gera vart við sig uppi í háarúminu. En þá mundi dýrið rísa upp á afturfæturna og fara að gægjast upp í rúmið að drengnum. Ætlaði þá eldri drengurinn að reyna að koma lagi á björninn með hnífnum, í gegnum rifuna á þilinu. Fór þetta eins og drengirnir höfðu ráðgert. Eftir nokkra stund kom dýrið inn aftur og fór að gæða sér á leifunum. Reis þá yngri drengurinn upp í rúminu. Kemur dýrið auga á hann, rís upp á afturfæturna og teygir hrammana upp á rúmstokkinn. Sætir þá eldri drengurinn færi og leggur hnífnum í kvið bjarnarins og sker út úr, og verður það svöðusár. Þegar björninn fékk lagið, snýr dýrið út úr bænum án þess að skipta sér neitt af drengjunum. En drengirnir náðu bæjum í Mývatnssveit, og bærinn lagðist í auðn.

— Jóhannes Friðlaugsson, Gróin spor, bls. 210-12.

Glöggir lesendur taka eftir að þessi bútur er in medias res, en frásögnin á undan fjallar um hjón sem bjuggu áður á Þeistareykjum, en bóndinn varði sig bangsanum með grjótkasti eftir að sá síðarnefndi hafði áður étið konu hans upp til agna. Þá situr aðeins spurningin eftir: Ætli jörðin að Þeistareykjum sé enn á lausu, ef ske kynni að mann langaði til að reisa sér bústað?

Martraðir um hvítabirni

Ég furða mig stundum á því sem ég las sem barn þótt mér hafi þótt fátt eðlilegra þá en að ég hefði áhuga á því sem ég hafði áhuga á. Í dag tókum við pabbi loksins í gegn geymsluna hennar mömmu sem við í sameiningu lögðum í rúst á 25 ára löngu tímabili, en kannski aðallega ég samt. Þar kom ýmislegt upp úr kössum, þar með talin bók sem hafði ómæld áhrif á mig (þá á ég ekki við bókina UFO: Fljúgandi furðuhlutir eftir Einar Ingva Magnússon, eina af sérviskum unglingaskeiðs lífs míns).

Bókin heitir Gróin spor og er þannig orðin til að faðir (stjúp)afa míns Huga, Jóhannes Friðlaugsson, var í og með öðrum störfum rithöfundur. Bókin er úrval þess sem hann skrifaði og er gefin út í tilefni af aldarafmæli hans árið 1982. Bókina myndskreytti afabróðir minn Hringur og því eigi síður var dálítið til af þessari bók í fjölskyldunni og fengum við bróðir minn hvor sitt eintakið. Ég hef kannski verið níu ára, ég er ekki viss. Það hefði verið 1993, en kannski fékk ég bókina ári fyrr. Þetta voru þá aukaeintök sem aldrei höfðu farið út og afa datt í hug að við gætum haft gaman að, ekki síst myndunum.

Nú er frá því að segja að hvort tveggja myndirnar og textinn skelfdi mig. Ég blaðaði nefnilega í gegnum bókina eitthvert kvöldið og rambaði á myndir af ísbjörnum. Þá varð ekki aftur snúið, ég þurfti að lesa hvað stóð þarna um ísbirni. Kaflinn heitir Hvítabjarnaveiðar í Þingeyjarsýslum og þar er meðal annars frásögn af því, ef ég man rétt, þegar tvö ung systkin urðu ein eftir á bæ nokkrum, gott ef faðirinn var ekki að róa til fiskjar og móðirin farin á næsta bæ eftir einhverjum lífsnauðsynjum, og börnin ein eftir.

Svo kom ísbjörn inn í bæinn.

Ég var stjarfur af hræðslu og las sem óður væri til að sjá hvernig þeim reiddi af, sömuleiðis allar hinar ísbjarnasögurnar, og svaf svo heldur seint og illa um nóttina. Það var um líkt leyti sem ég las í Úrvali (já, ég las Úrval alveg upp til agna) um konu í Norður-Ameríku sem lenti í því óláni að einhver skollans björn kíkti í heimsókn til hennar eitt kvöldið og lenti í áflogum við Nýfundnalandshundinn hennar. Sá stökkti birninum á brott en drapst fljótlega af sárum sínum. Eftir þetta varð ég mikill talsmaður Nýfundnalands- og Sankti Bernharðshunda.

Lengi á eftir átti ég von á því að hvað úr hverju kæmi ísbjörn inn um dyrnar (á þriðju hæð, á Laugarnesvegi) einmitt þegar allir væru sofnaðir nema ég og hann æti mig lifandi, foreldrar mínir hrjótandi í hinum enda íbúðarinnar og gætu ekkert gert í þessu.

Nú er þessi bók fundin aftur og þá er að sjá hvort ég þori að rifja upp kynnin við hvítabirnina. Hitt er svo annað að eftir ár verð ég að líkindum staddur á Svalbarða á ráðstefnu. Martraðir um hvítabirni munu vera lenskan þar í mesta skammdeginu, svo kannski ég geymi mér litteratúr Jóhannesar Friðlaugssonar fram að því?

Á þessum mótum breytist lífið (agnarögn)

Í gær urðu ákveðin tímamót, sem mér síðan fipaðist við að koma í orð þess heldur sem tilefnið var meira. Ég ætla að gera aðra atlögu að því hér.

Haustið 2000 fylktu spenntir nýnemar í Menntaskólanum í Reykjavík liði úr skólasetningu í dómkirkjunni og dreifðust á stofur í hinum ýmsu byggingum skólans. Á stofu C-101 í Casa Nova var skipað ýmsu úrvalsfólki og þeirra á meðal voru þrjú töluvert lúðaleg ungmenni, gerólík um flesta hluti, sem náðu gríðarvel saman en í tveimur kippum þó: við Alli annars vegar, en Alli og Silja hins vegar.

Síðan féll ég um vorið og tók þriðja bekk aftur.

Ég kann ekki að skýra hvers vegna við Silja urðum ekki vinir fyrr en við lentum aftur saman í bekk haustið 2002 öðruvísi en svo að sennilega taldi hvort okkar hitt ekki hafa neinn áhuga á frekari kynnum. Dag einn bar það til að við tókum bæði fjarkann af Lækjartorgi og þá var ekki um annað að ræða en að ég settist hjá henni. Upp úr kafinu kom að bæði spiluðum við á hljóðfæri og þegar komið var fram í janúar höfðum við tekið upp lagið Permiscua musica í gervi hljómsveitarinnar Helþrymju með liðsinni Hallgríms Jóns Hallgrímssonar frænda míns og Smára tarfs. Það var eins og við hefðum aldrei ekki þekkst. Lagið má heyra hér.

 

 

Það var þennan vetur sem við fórum að hittast öll þrjú saman. Menntavegurinn hafði leitt Alla upp í Breiðholt og þegar voraði 2003 stóðum við Silja okkur nógu líkt á prófi að hvorugu okkar var lengur til setunnar boðið á þeim skólabekknum.

En þó að gamla miðbæjarskólanum hafi ekki haldist á okkur þá höfum við Silja og Alli alltaf haldist saman. Við höfum í öll þessi ár verið óbreytanlegur kjarni í misstórum vinahópum eftir tímabilum, en þessi síðustu ár hafa fundirnir verið færri og lengra á milli þeirra en við höfum haft vanda til. Svoleiðis kemur fyrir. En það er líka það eina sem hefur breyst. Einhvern veginn höfum við þessar ólíku manneskjur alltaf haldið tryggð hverjar við aðra; við höfum átt athvarf hvert í öðru andspænis erfiðleikum lífsins, leitinni að ástinni, og í því sem mestu máli skiptir í lífinu sem er að hafa það skemmtilegt.

Við grínuðumst stundum með það hvert okkar myndi gifta sig fyrst, og nú þegar við höfum öll gift okkur á rétt rúmu ári finn ég það sterkar en áður hvað við erum alltaf eitthvað svona samferða í þessu. Þegar ég gekk áleiðis heim í nótt eftir brúðkaup Silju og Dóra hennar leiddu fæturnir mig, á ef til vill lítt dularfullan hátt, inn á Þingholtsstræti þar sem ég staldraði við dularfulla byggingu sem lætur lítið yfir sér en geymir heilan heim sem mótaði mig, og við gluggann sem vísar inn að ganginum langa í Cösu Nova varð mér litið inn, þar sem eitt sinn gengu þrjú lúðaleg ungmenni og veltu fyrir sér undarlegustu hlutum sem aðeins ungu fólki kæmi í hug að hugsa um upphátt, Silja gestikúlerandi af innlifun og Alli flissandi í leðurjakka með einhverja græju í hönd og sígarettu bak við eyrað, ég frakkaklæddur og ofsmurður geli um hárið, bestu vinir sem nokkru sinni hafa verið til. Hvernig getur maður annað en velt því fyrir mér hvað í ósköpunum maður gerði til að eiga skilið að eiga svona minningar, hversu mikil heppni það var að við þrjú höfum einmitt ratað í þennan sama þriðja bekk B haustið 2000.

Það er það sem ég hugsa um núna á þessum tímamótum þegar Silja giftist síðust okkar (þvert á allar spár mínar varð ég fyrstur til) og flytur til Stokkhólms nú eftir helgi. Af okkur eru til ýmsar sögur misjafnlega viðeigandi endursagnar, og margar þeirra eru varðveittar á þessari bloggsíðu sem enn lifir frá þeim árum þegar við vorum í MR og hittumst daglega við okkar Stammtisch á Prikinu. Það er því við hæfi að setja punkt hérna í bili við ævintýrið af Silju, Alla og Agga hinum vammlausu, eins og við kölluðum okkur. Ævintýrin verða öðruvísi núna en sagan heldur áfram, enda eru vináttuböndin sterkari en svo að trosnað geti; þau hafa lifað af umbreytingu úr lúðalegum börnum í töluvert lúðalegt fullorðið fólk sem sjálft á börn. Við skiljum kannski ekkert hvað varð af árunum, en þau hafa að mestu verið góð.

Silju og Dóra bíður töluvert ævintýri í Svíþjóð, nýtt upphaf, og ég veit að lífið á eftir að leika við þau þar. Þeim sendi ég hamingjukveðjur og knús og loforð um að bresta ekki í grát í þetta skipti.

Rófulausa kisan hennar ömmu

Þetta er ekki minning sem ég á, heldur saga sem ég heyrði snemma af sjálfum mér.

Þegar ég var lítill karl einsog það heitir á Akureyri, tveggja eða þriggja ára, hafði ég dálæti á loðhúfu ömmu minnar. Ég hélt nefnilega að hún væri köttur. Kettir hafa ætíð verið uppáhaldsdýrin mín, og einsog kettir var loðhúfan með skott.

Í hvert sinn sem við komum til ömmu bað ég um að fá að sjá kisuna, og amma færði mér loðhúfuna. Það er til mynd af mér, sitjandi með húfunni á ganginum í Byggðaveginum, andaktugur á svip. Það var ekki lítils virði að geta klappað kisu sem vildi láta klappa sér.

Ég veit ekki að hve miklu leyti mér var þetta ljóst frá upphafi, en dag einn dugði ímyndunin ekki lengur og við þá uppgötvun að kisan væri loðhúfa tók ég mikið reiðikast, sleit af henni skottið og kastaði henni út í horn, sat svo í fýlu lengi á eftir. Ég vildi ekki heyra eða sjá þennan bannsetta gervikött uppfrá þessu.

Rófulausa kisan hennar ömmu situr held ég ennþá í hattahillunni hennar, jafnvel eftir flutninga. Ég held að henni hafi þótt sagan tengd húfunni of kostuleg til að hún tímdi að henda henni.

Þegar ég fór í sjónvarpið

Sum augnablik gleymast aldrei. Allir kannast við að heyra sjálfa sig á segulbandi í fyrsta skipti, en öllu verra getur verið að sjá sjálfan sig í sjónvarpi.

Ég var í sjöunda bekk þegar sá afleiti sjónvarpsþáttur Pílan hóf stutta göngu sína (í minningunni var það bara þessi eini þáttur). Þetta var spurningakeppni milli grunnskóla og okkar bekkur átti að keppa í allra fyrsta þættinum. Fyrir okkar bekk kepptu Reynir, Björk og Siggi Hólm. Ég var fúll að hafa ekki verið valinn, en það reyndist mér heilladrjúgt miðað við það sem síðan gerðist.

Í þennan plebbalega þátt bárust uppdiktuð bréf frá börnum í vandræðum (svipað og lesendabréf „einnar í klandri“ til Æskunnar), og áhorfendur gátu gefið ráð. Þáttarstjórnandinn las fyrir okkur bréf frá stúlku sem þorði ekki að nota hjólabrettið sitt af ótta við stríðni. Auðvitað vildu allir sjást í sjónvarpi. Líka ég. Svo ég var einn þeirra sem rétti upp hönd til að peppa upp hjólabrettastelpuna. Ég man að ég labbaði heim úr Sjónvarpshúsinu við Laugaveginn bara nokkuð ánægður með kvöldið.

Þegar þættinum var sjónvarpað viku síðar fékk ég áfall. Ég er með nokkuð áberandi framstæðan kjálka og var örlítið viðkvæmur fyrir því á þessum tíma. Ég var líka með gríðarlegan varaþurrk og var með hvítan varasalva einsog fjallamenn nota. Og ég hafði hrikalegan talgalla. Í ofanálag hafði ég ekkert að segja í hljóðnemann. Svo þarna sat ég og fyllti út í sjónvarpsskjái velflestra landsmanna og leit út og hljómaði einsog fífl.

Það þýddi ekkert að reyna að ljúga því að mér að svarið mitt hefði verið best, eða að ég hefði litið vel út á skjánum. Það er hrein og klár staðreynd að ég virtist hvorki búa yfir hálfri hugsun né virtist ég vera almennilega fær um að tala, með asnalega rödd og var auk þess einsog trúður í framan. Ég varð sjálfum mér reiður fyrir að hafa ekki áttað mig á því að ég hefði ekki átt neitt erindi í þetta.

Mér var aldrei strítt á þessu. En ég varð staðráðinn í því að sama hversu fíflalega ég kynni að líta út eða koma fyrir (þrátt fyrir að vera nær aldrei strítt var ég töluvert viss um að öllum þætti ég vera asnalegur fæðingarhálfviti) þá skyldi ég laga það sem ég þó gæti haft stjórn á. Og þegar voraði hafði ég losað mig við talgallann.

Ég er enn að kljást við hann. Fólk segist ekki taka eftir neinu þegar ég tala, en ég tek eftir því. Ég kími þegar ég heyri útvarpsviðtöl við sjálfan mig. Þar heyri ég í tólf ára mér gegnum yfirvarpið. Mér líður ennþá einsog ég sé bara að feika þetta, að allir hljóti að sjá mig einsog ég sá sjálfan mig í sjónvarpinu. Það er stundum auðvelt að gleyma því að geti maður tólf ára umvent talfærum sínum á þrjóskunni einni, þá getur maður ýmislegt.

Ég er því á vissan hátt þakklátur þessu hörmungarprógrammi Pílunni fyrir þessa óbærilegu spegilmynd af mér og þætti bara gaman ef einhver græfi þetta upp núna og setti á YouTube, en á sama tíma velti ég fyrir mér hvaðan eiginlega þessi lélega sjálfsmynd mín var sprottin.

Vetur í 5. bekk

Ég er minntur á veturinn í fimmta bekk þegar við Arnar vinur minn gengum að því er virðist hvern saman heim, stundum til mín en oftar til hans. Það er alltaf mesti vetrarveturinn í minningunni. Við dóluðum okkur á leiðinni, lékum okkur í snjónum, og þegar heim var komið settum við ketilinn á helluna og biðum þess að tappinn flygi af (hann gerði það einstaka sinnum). Við drukkum hvor tvo til þrjá bolla af Swiss Miss með sykurpúðum og átum hvor tvær ristaðar brauðsneiðar með osti og sultu. Dag eftir dag. Þetta eru alltaf hátíðlegustu vetrarminningarnar mínar.

Æskuminningar – tvær huggunarsögur og hálf

Þegar ég var á fjórða ári og pabbi sótti mig til ömmu á maríunni í aftakaveðri. Félagar hans í löggunni skiluðu okkur út sennilega á horninu á Skeiðarvogi og Gnoðarvogi, þar sem við bjuggum, en þaðan er smáspotti að dyrunum. Ég átti bágt með veðrið og veðurofsinn hafði fljótt af mér paprikuskrúfupokann minn (af tegund sem ekki fæst lengur). Ég sá skrúfurnar fjúka út um allt og hafði ekki orðið vitni að öðru eins óréttlæti. Pabbi plantaði mér volandi í stofusófann, breiddi sæng yfir mig, setti spædermanspólu í vídjótækið og lofaði hátíðlega að hann myndi sko kaupa miklu stærri skrúfupoka handa mér. „Og köku?“ spurði ég. Já, og köku. Þetta efndi hann, að kökunni undanskilinni. Ég þurfti heldur enga köku.

Þegar ég stóð 4-5 ára í marki á leiktúninu í Piacenza meðan bróðir minn og pabbi skoruðu hvert markið á fætur öðru. Ég var gríðarlega óhress með þetta, svo pabbi lét einn vaða beint á mig svo ég gæti nú örugglega varið eitthvað. Það tókst, en ekki betur en svo að ég tókst á loft með boltanum og hafnaði inni í markinu, háorgandi. „Sjáðu, þú vannst okkur,“ sagði pabbi í huggunartón. „Þú varðir boltann.“ Hann hélt á mér heim.

Hversu hræddur ég var við slönguna í baðkerinu. Slangan var hvirfillinn sem myndast þegar tappinn er tekinn úr baðkeri. Einhvern tíma æddi ég upp úr baðkeri í tryllingslegum ótta þegar tappinn var fyrirvaralaust tekinn upp úr því. Ég fyrirskipaði að þetta mætti ekki, ég ætti að vera kominn upp úr fyrst. Þá leit ég í kerið og sá þar sem slangan byrjaði að liðast upp úr niðurfallinu og vagga höfðinu við yfirborðið, áreiðanlega vonsvikin að hafa enn eina ferðina misst af mér. Aldrei reyndi neinn að skýra fyrirbærið fyrir mér, ég hef sennilega ekki orðað óttann nógu skýrt. Ég man ekki hversu gamall ég var þegar ég hætti að óttast slönguna, en ég man síðast eftir að hafa velt henni fyrir mér fimm ára.

Húsin úti í auðninni

Ég á minningu, sennilega úr 5. bekk grunnskóla. Við fórum strax í fyrsta tíma úr skólanum með Fimmunni (nú gengur enginn strætó framhjá Laugarnesskóla) og „niður í bæ“. Ég kannaðist aðeins við mig, þarna var Þjóðminjasafnið dálítinn spotta frá. Nema nú gengum við niður bratta brekku sem ég hafði aldrei fyrr farið; í töluverðum snjóþunga, sem við strákarnir gerðum okkur að sjálfsögðu strax að leik að renna okkur niður í, rúlla okkur eða beinlínis hrinda hver öðrum; á milli einhverra þeirra dapurlegustu skrifstofubygginga sem ég man eftir að hafa séð. Þær stóðu þarna í jaðri snjóhvítrar auðnarinnar, einsog við borgarmörkin, og ljós skein hér og hvar út um glugga í morgunmyrkrinu en ég man ekki hvort sást til nokkurrar manneskju inni. Síðan héldum við smáspotta út í þessa auðn, út í hús sem stóð þar eitt sér af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, mitt úti í öllu þessu ekkerti sem engar götur virtust liggja að.

Þetta hús var að sjálfsögðu Norræna húsið. Í mörg ár var mér það hulið eða ég pældi ekkert í því, en dapurlegu skrifstofubyggingarnar eru víst fulltrúar Háskóla Íslands í þessari minningu. Þar sit ég einmitt á þessari stundu þennan morgun og sötra kaffið mitt, í grútljótri skrifstofubyggingu sem bæst hefur í safnið síðan. Ég man hvað mér fannst óhugsandi að fólk gæti unnið hérna. Og ég man hvað mér þótti leiðinlegt að fara í þetta asnalega Norræna hús að læra um öll þessi norrænu leiðindi. Núna er fátt sem er mér meira að skapi en þetta norræna, þótt stundum berist vondar og undarlegar fréttir hingað út einsog sigur hægriflokkanna í Noregi í gær.

Það hefur margt breyst í þessu norræna síðan ég var í 5. bekk.

Happaþrennan

Happaþrennan góða
Sumum hlutum gleymir maður aldrei, nema um stundarsakir. Eða öllu heldur rifjast þeir ekki upp fyrir manni nema endrum og sinnum, einu sinni á ári eða á nokkurra fresti; eða yfirhöfuð alls ekki nema eitthvað minni mann sérstaklega á þá. Ég er þegar búinn að gleyma því hvað rifjaði upp fyrir mér eftirfarandi sögu, en hún telst til þeirra sem ég „mun aldrei gleyma“.

Mér finnst sennilegra að árið hafi verið 1990 en 1988. Í öllu falli bjuggum við í Gnoðarvogi og Þórður bróðir hafði plokkað aura af mömmu og pabba handa okkur sem við gætum eytt í Vogaturninum (sem enn er starfræktur). Og hér blandast tvær minningar saman í eina en ég mun aðeins fylgja annarri þeirra eftir: önnur þeirra snerist um skilningsleysi mitt um það hvað „bland í poka“ var, en sú sem ég vil segja fjallar um happaþrennur (og nú man ég hvað rifjaði upp fyrir mér þessa sögu, það voru orðin „bland í poka“ inni í bók).

Við stóðum inni í svefnherberginu sem við deildum í Gnoðarvogi og bróðir minn sagðist vilja kaupa sér happaþrennu fyrir sinn hluta af peningunum (sennilega fengum við fimmtíukall hvor í einum hundraðkrónuseðli). Ég spurði hann spenntur hvað happaþrenna væri, og hann útskýrði það þannig – eða þannig skildi ég það – að þetta snerist um að fá þrjár myndir eins og þá ynni maður peninga. Og ég sá undir eins fyrir mér nákvæmlega þá græju sem sést á meðfylgjandi mynd, og ég meina nákvæmlega sömu græju að því undanskildu að hún var lítil og meðfærileg og á þeirri sem ég ímyndaði mér var skúffa við hliðina á sveifinni neðst. Þar í lægju peningarnir sem hægt væri að vinna.

Sá hængur var þó á happaþrennunni að aðeins var hægt að nota hana einu sinni, en væri maður heppinn þá ynni maður peninga, jafnvel marga hundraðkalla. „En ef maður vinnur ekki, má maður þá samt eiga happaþrennuna?“ spurði ég, og Þórður sagði að það mætti maður vissulega, en hann skildi þó ekki til hvers eiginlega nokkur myndi vilja það. Maður henti þeim bara. Ég sagðist vilja eiga mína happaþrennu samt. Ég hélt að peningarnir hlytu að vera áfram inni í henni jafnvel þótt maður tapaði og að kannski næði maður þeim út að lokum með nægilegri seiglu.

Bróðir minn skildi ekki hvað ég var að fara, en út í sjoppu fórum við yfir stóra hringtorgið (sem ekki er lengur þar) og í stað blands í poka (kannski er þetta sama minningin eftir allt saman) fékk ég mér happaþrennu líka, spenntur. Og fékk einhvern miða, sem bróðir minn kenndi mér að skafa. Hvorugur okkar vann neitt, og þegar hann henti sinni í ruslið þá hikaði ég eitt andartak, leit svo á miðann aftur og sá að ég fengi ekki neina peninga úr þessu þaðan af, ólíkt happaþrennunni sem ég hafði ímyndað mér, og lét mína falla í ruslið á eftir hinni. Og ég man að mér fannst þetta helst til tilgangslaust þegar allt kom til alls.

Hvers virði ætli fimmtíu krónur hafi verið í lok níunda áratugarins?