Kristján í Litlu flugunni

Mér krossbrá við fyrirsögnina „KK látinn“ en mundi þá skyndilega eftir þeim eldri, það er að segja úr Litlu flugunni við Laugarnesveg. Ég vissi ekki að það væri sami maður, hvað þá að hann hefði stofnað Verðlistann við Laugalæk – sem ennþá er starfræktur samkvæmt minni bestu vitneskju. Einhver allra síðasta leif um þá tíma þegar sjálfstæður atvinnurekstur í úthverfum var mögulegur.

Karlinn var mishrifinn af hnýsni okkar Arnars vinar míns þegar við bönkuðum upp á í kjallaranum á Laugarnesveginum, en stundum sýndi hann okkur þær flugur sem hann var nýbúinn að gera og gerði sitt besta til að útskýra til hverra sérhæfðu hlutverka þær voru ætlaðar. Við skildum auðvitað ekkert, en mér hefur lengi leikið forvitni á að vita hvernig viðskiptin gengu. Ég man aðeins einu sinni eftir að hafa séð kúnna hjá honum, en það segir meira um hversu sjaldan við þorðum að hringja bjöllunni.

Svona læðast minningarnar stundum aftan að manni.

Myndir af Laugarneshverfi 1992-1993

Fyrsta september 1992 mætti ég á fyrsta skóladegi, öllum að óvörum, í kennslustofu 3.S. Fyrstu vikurnar þar einkenndust af þeirri tilfinningu að ég ætti ekki heima þar. Enda þótt ég vissi upp á hár hver væntanleg bekkjarsystkin mín voru, þá hafði ég ekki haft nein raunveruleg kynni af nema litlum hluta þeirra, sér í lagi Ásgeiri Sigurjóns og Inuk Má Rannveigarsyni. Sigga Ben þekkti ég eingöngu útfrá eigin fordómum. Ég var þó fljótur að kynnast krökkunum, Sigga kynntist ég vel fyrstu vikurnar mínar í S-bekknum, og hinir krakkarnir fylgdu fljótlega í kjölfarið: Alma, Arna, Dóra, Sæunn, Unnur, Gunni, Reynir, og svo mætti áfram telja. Fljótlega fann ég minn samastað í bekknum, eins fljótlega glataði ég þeim sem ég átti meðal gömlu félaganna úr N-bekknum.

Það var þennan vetur að ég fór fyrst að láta verulega til mín taka í teikningu. Segja mætti að veturinn allur hafi einkennst af sífelldu kroti og pári á pappírskost skólans. Strax fyrstu vikuna tók ég upp á að búa til allskonar skírteini, fólki til sárs gagns og nauðsynjar. Það voru spariskírteini ríkissjóðs (mjög auglýst á þeim tíma, þaðan hefur hugmyndin komið), sprengjuskírteini, bolabítsskírteini (!) og í raun allt sem hægt er að ímynda sér. Fljótlega vildi hálfur bekkurinn fá hjá mér Visakort, og þau útbjó ég nostursamlega og af mikilli ánægju.

Ég tók talsvert að leika mér við Ásgeir og Sigga, iðulega hvorn í sínu lagi þó. Þá kynntist ég teiknistíl beggja og varð fyrir talsverðum áhrifum frá báðum. Þá skóp Ásgeir einhverja þá langlífustu snilld æskuáranna: Drauga DV. Eins og dagblaðið. Blaðið samanstóð iðulega af einnar blaðsíðu (A4) eða opnumyndum af hinum ýmsasta hryllingi. Þarmeðtalið var alveg hreint dásamleg mynd af tveimur sitjandi mönnum að útbúa draugaskírteini ríkissjóðs (jamm), en af hæðinni fyrir ofan lak blóð í lítravís, niður eftir ljósakrónunni og sullaðist niður á borðið þar sem mennirnir sátu við iðju sína, og þaðan niður á gólf. Inni í skáp hægra megin á myndinni var eitthvert hræðilegt skrímsli. Hvað það hafðist við þar veit ég ekki. Ég held að síðasta tölublað Drauga DV hafi komið út tveimur árum seinna. Þá höfðum við vaxið upp úr þess háttar teikningu.

Það var þennan vetur að körfuboltamyndirnar tóku smám saman að breiðast út meðal krakka. Æðið sprakk þó ekki út meðal minnar kynslóðar held ég fyrr en haustið þar eftir. Bróðir minn eignaðist þó sínar fyrstu myndir þennan vetur og ég sömuleiðis, því ég vildi auðvitað ekki verða eftirbátur hans í myndaeign. Ég minnist þessa því það var kvöldinu áður en ég fór fyrst heim til Sigga að ég eignaðist mínar fyrstu körfuboltamyndir. Það man ég vegna þess hversu afdrifarík sú ferð átti eftir að reynast.
Það var nefnilega svo að við vorum í skólanum frá um tíu (held ég) til um það bil fjögur eða fimm. Svo þegar ég varð samferða Sigga heim til hans var talsvert liðið á daginn. Utan við farfuglaheimilið við Sundlaugarveginn földum við okkur í háa grasinu (sem ég held sé horfið undir bílastæði núna) og njósnuðum um Kristínu Helgu og Ylfu, bekkjarsystur okkar, að áeggjan Sigga að sjálfsögðu. Sjálfur skildi ég ekki löngun hans til þessarar iðju, en ég lét tilleiðast, og þannig fór sá spennandi atburður fram að við sátum á hækjum okkar í háa grasinu og horfðum á þær vinkonur ganga meðfram gangstétt, uns þær hurfu sýnum. Þá stóðum við upp og héldum af stað á Kleppsveg 66, þar sem Siggi bjó. Þetta var talsvert langt frá Laugarnesveginum, svona miðað við aldur og gönguhraða, húsið verandi rétt austanmegin við Laugarásbíó.
Ég hafði varla eytt heilum klukkutíma heima hjá Sigga þegar mamma mín hringdi þangað, froðufellandi af reiði yfir að ég hefði hvergi látið vita af mér, klukkan orðin átta um kvöld, og ég skyldi drulla mér heim med det samme. Ég náttúrlega hlýddi og arkaði af stað eftir Kleppsvegi vestur að Laugarnesvegi. Þegar ég var um hálfnaður mætir mér leigubíll og mamma nær stekkur úr honum á ferð, dregur mig inn og lætur reiðulesturinn dynja á mér. Þegar við komum heim tók hún lítið eitt að sefast og smurði mér samloku með reyktum laxi annarsvegar, aðra með hangikjöti og salati hinsvegar. En þar sem ég lá uppi í rúmi með samlokurnar og lét mér líða hræðilega fyrir að hafa valdið móður minni slíkum áhyggjum, voru körfuboltamyndirnar mínar níu það eina sem gat létt lund mína það kvöldið. Þess vegna minnist ég þeirra sérstaklega, þótt æðið sjálft hafi sem fyrr segir ekki raunverulega sprungið út fyrr en seinna.

Ég held það hafi verið á vorönn 1993 að við Ásgeir og Reynir byrjuðum í 7. flokki handboltadeildar Fram. Með okkur í liði var Arnór Atlason, sem nú spilar hjá Magdeburg. Hann átti einn heiðurinn af því að við unnum þrenn peningaverðlaun og loks bikarverðlaun í einhverri keppni sem ég kann ekki nógu góð skil á. Ég var veikur þegar úrslitaleikurinn var, en ég fékk að hafa bikarinn heima hjá mér í nokkra daga. Fannst skelfilegt að skila honum, en þetta var raunar minnst heilu ári utan tímaramma þessarar færslu, þar sem við strákarnir entumst dálítinn tíma í handboltanum. Held mér hafi þó lítið farið fram þann tíma sem ég eyddi þar. Þá hafði Arnór vafalítið meira erindi í íþróttinni en ég.

Þennan vetur sá ég hryllingsmyndina It, eftir bók Stephens King. Það var svosum sök sér að horfa á hryllinginn, ef hefði ekki verið fyrir afar ljóta rangfærslu í sjónvarpsbæklingi Stöðvar 2, þar sem sagði að myndin væri sannsöguleg. Ef sjálfur trúðurinn var ekki nógu hryllilegur, þá getið þið rétt ímyndað ykkur hvað vitneskja átta ára barns um tilvist hans var. Mér hætti fljótlega að lítast á blikuna þegar kom að því að labba heim frá vinum mínum á kvöldin, og ég fann fyrir mínum fyrsta votti af myrkfælni. Ég trúði þessu í heilt ár. Aðrar myndir af svipuðum toga höfðu engin áhrif á mig, því ég vissi að þær voru bara myndir. Þetta var allt öðruvísi. Enn hef ég ímugust á trúðum.

Umsjónarkennari okkar var Jörundur Ákason, en hann kenndi okkur einnig veturinn eftir. Þessi vetur var að því leytinu skemmtilegur, að Jörundur lék við hvurn sinn fingur, sagði okkur sögur úr æsku sinni, þjóðsögur eins og þá af djáknanum á Myrká og spilaði þjóðlög, áreiðanlega öll í G-dúr. Jörundur var gamall fyrir aldur fram, en þó hinn allra skemmtilegasti og talsvert frjálslyndur í kennslu. Hann fór lítið eftir námsskránni og beitti sér fremur fyrir þess háttar uppfræðslu sem ég hef þegar minnst á, semsagt tengdri gamallri og góðri íslenskri menningu. Hinsvegar brá stundum við að nemendur reittu Jörund til reiði og þá kárnaði heldur á dalnum. Þann sið hafði hann á, að ef nemandi lét óstýrilega, þá var hann dreginn inn í tóma kennslustofu. Þessu lenti ég tvisvar í. Þá sneri Jörundur í átt til glugga, baki í nemanda, og þuldi rólega upp sakirnar. Að því loknu sneri hann sér snögglega við og lét öll mestu fúkyrði helvítis dynja á nemandanum. Þetta gat staðið í tvær til þrjár mínútur. Að því loknu var nemandinn aftur leiddur inn í kennslustofuna.
Gamall bekkjarbróðir minn frá þessum tíma hélt því nýverið fram við mig að Jörundur hefði barið nemendur sína. Það er ekki mín reynsla af þessum ágæta manni, síður en svo, og þykir mér alvarlegt mál ef fyrrum nemendur hans ætla að halda uppi slíkum rógi.

Við lærðum heilmikið um Tansaníu í samfélagsfræðinni hjá Jörundi. Það fannst okkur afskaplega skemmtilegt. Magnaðasta vitneskja sem mér áskotnaðist þann veturinn var þó án efa að komast að sannleikanum um sjávarföllin. Þetta hafði mér aldrei dottið fyrr í hug, og ég man að ég var fullkomlega impóneraður yfir þessu lengi eftir.

Eins og segir hér að ofan voru kennsluhættir að flestu frjálslegir, og þegar skólinn eignaðist sínar fyrstu tölvur (að ég held) þá um veturinn, þá fengum við krakkarnir oft að spila í þeim tölvuleiki. Rockford var uppáhaldsleikurinn okkar (má sækja hann hér, 177 kB). Þá fengum við okkar fyrstu kynni af Minesweeper og Solitaire. Ekki skil ég enn hvernig Nintendokynslóðin gat sætt sig við slíka leiki, en kannski var það meira spennandi en bókin um Tansaníu.

Eitt hefur mér alltaf gramist sem Jörundur lét út úr sér þennan vetur, en það snerti Inuk vin minn, sem jafnan var fremur óstýrilátur í tímum (eitt sinn réðist hann á mig með skærum – ég hef aldrei fengið fullnægjandi svar um hvers vegna í ósköpunum hann gerði það). Augljóslega voru aðstæður hvergi fullnægjandi þessum nemanda, sem átti við margvísleg vandamál að etja (þó ekki geðræn, ég ítreka það sérstaklega). Þá segir Jörundur eitt sinn, að honum hafi uppfundist græja í huganum: Tvöfalt rör sem tengja mætti við munn Inuks og beina hvorum enda í sitt eyrað, svo hann gæti notið öskra sinna í friði frá okkur hinum og við í friði frá honum. Athugasemdin var að mínum dómi fullkomlega tillitslaus og óréttlætanleg. Inuk hætti í skólanum að loknum vetri, af margvíslegum ástæðum.

Jörundur gerði eitt sinn þá gloríu að senda mig og nokkra aðra krakka til sérkennara. Ég var í þeim hópi því hann áleit mig þroskaheftan. Það fór víst framhjá honum að ég hafði verið hjá talkennara, og því hefur hvergi hvarflað að manninum að talandi minn tengdist andlegum þroska ekki á nokkurn hátt. Sem betur fór slapp ég frá frekari sérkennslu, þar eð konan varð þessa áskynja. Ég get þó ekki sagt hið sama um alla hina sem ég varð samferða í sérkennslustofuna þann daginn.

Einn daginn fótbrotnaði Inuk við einhverja andskotans íþróttaiðkun og neyddist til að ganga við hækju í fleiri mánuði á eftir. Við Ásgeir urðum sjálfskipaðar hjálparhellur hans og hjálpuðum honum jafnan upp og niður stigana. Hækjurnar fengum við að leika okkur með þegar Inuk þurfti þeirra ekki við, t.d. þegar hann sat, sem var eins oft og við gátum komið við vegna áfergju í hækjurnar góðu. Það var ekki laust við pínu öfund vegna brotsins, þó með þeim fyrirvara vissulega að það væri afar vont að brjóta sig svona. Það var þess vegna spurning hvort hægt væri að verða sér úti um hækjur með öðrum leiðum.

Sumarið eftir þriðja bekk er eitthvert það allra besta í minningunni, en því eyddi ég að mestu heima hjá Inuk að spila Megaman 2. Afar minnisstæð er mér ferð ein í Húsdýragarðinn, í tilefni af níu ára afmæli Inuks. Við Ásgeir og Inuk eignuðumst hver sína skeifu og okkur sagt að þær væru happagripir. Lengi á eftir hékk skeifan á herbergisveggnum mínum, þar til einn daginn að máttur hennar þvarr, fannst mér, en þá gaf ég hana náunga sem mér þótti eiga stórfellda ógæfu skilið. Að lokinni ferðinni í Húsdýragarðinn var farið heim til Inuks, þar sem við strákarnir lékum okkur við að sveifla hver öðrum í hengirúmi úti í garði, og svo fengum við vöfflur og spiluðum tölvuleiki. Það var æðislegur dagur.

Síðar sama sumar besserwisseraðist ég við ömmu hans Inuks um Gretti sterka og Reynistaðabræður. Það var mitt fyrsta besserwiss, án efa, og fjandi gott líka. Ég fæ enn að heyra söguna í hvert sinn sem ég hitti hana.

———————————
Aðrar færslur í efnisflokknum Myndir af Laugarneshverfi:

1990-1991,
1991-1992.

Allar þessar færslur taka stöðugum breytingum, eftir því sem meira rifjast upp fyrir mér.

Myndir af Laugarneshverfi 1991-1992

Greinilega er sumarið komið í Laugarnesið, í sextánda skiptið síðan ég fluttist hingað. Táningarnir komnir með föst stæði framan við hverfissjoppuna, allt brjálað að gera í versluninni, allir íbúar virðast sammála um að nú sé tíminn til að grilla. Bílar standa með allar dyr opnar, fólk liggur hálft inni í þeim og bisar við að þrífa veturinn innan úr þeim.

Ég man ekki gjörla eftir sumrinu 1991, þó veit ég að það var frábært. Ég hafði eignast góða vini í skólanum og eyddi öllum stundum með þeim utandyra. Þá var garðurinn hans Arnars við Laugarnesveg 84 hrein paradís. Í þá daga stóð stórt moldarbeð eins og hæð upp úr garðinum þar sem allskyns blómstur og runnar döfnuðu, hellustígur lá eins og kross yfir það. Beðið bauð upp á skemmtilega möguleika í eltingarleik en sú iðja okkar var lítt vinsæl meðal íbúa. Annað sem garðurinn hans Arnars bauð upp á var afgirt gróðurhús í norðvesturhorninu uppvið húsið, sem var í eigu kerlingar nokkurrar sem áreiðanlega er dáin í dag. Við vissum vel að ræktarsvæðið var forboðið, en eitt sinn hættum við okkur þangað innfyrir. Það tók okkur dágóðan tíma að klöngrast yfir vírgirðinguna en þegar ég var kominn yfir náði ég ekki að ganga lengi um svæðið þar til kerlingin kom auga á mig af svölunum. Önnur eins öskur hafði ég vart heyrt áður og kerling tók á rás inn í íbúð, vafalítið á leiðinni út að limlesta mig. Þegar mér varð litið aftur á Arnar sá ég að hann hafði ekki klifrað alla leið yfir. Hann stóð ennþá hinumegin og glotti til mín. Læt nægja að segja að það var ekki eins erfitt fyrir mig að komast yfir girðinguna í seinna skiptið.

Ég held það hafi verið farið að halla undir haust 1991 þegar við Arnar og Raggi vinur hans fórum með stóran pappakassa út á túnið framanvið Listaháskólann og þóttumst vera sjóræningjar á árabát. Árarnar voru kústsköft og með þeim ýttum við okkur áfram eftir túninu, að stórum steini sem var á túninu miðju. Það var eyjan sem við ætluðum að grafa fjársjóðinn okkar á. Þegar þangað var komið áttum við þó hvorki fjársjóð til að grafa né var hægt að grafa í steininn. Minnir þó að við höfum skilið spýtustúf eftir í holu undir steininum. Síðar fór ég að vitja spýtunnar, ekki vegna notagildis hennar heldur af forvitni um hvort hún væri þar enn, en þá var hún horfin.

Dag einn þegar skólinn var nýhafinn varð Arinbjörn samferða mér heim. Hinumegin Laugalæksins við Kjötmiðstöðina mættum við tveimur eða þremur táningspiltum sem veittust að okkur. Með hrópum til Arinbjörns um að ég skyldi fara eftir hjálp tók ég á rás eftir götunni og fyrir hornið á Laugalæk og Laugarnesvegi. Einn þeirra elti mig alla leið heim að dyrum, en snerist strax á hæli þegar hann sá mig hringja dyrabjöllunni. Það vildi mér til happs því enginn var heima. Þegar hann var farinn fór ég að leita að Arinbirni og mætti honum loks á miðjum Laugarnesveginum. Sá sem elti mig hafði ekki sagt farir sínar sléttar hinum durgunum, svo þeir slepptu honum. Þá tilkynnti mér Arinbjörn að hann ætlaði ekki að koma inn til mín, hann ætlaði þaðanaf að halda sig við sitt eigið hverfi, það væri öruggara. Þá bjó Arinbjörn beint á móti Laugarnesskóla. Alveg áreiðanlega var það sama hverfið.

Það var einnig snemma sama vetur að ég mætti í skólann skömmu fyrir hádegi. Í þann tíð var skólanum þannig skipt að helmingur nemenda mætti klukkan átta um morguninn og var til hádegis, en hinir voru í skólanum frá hádegi til þrjú-fjögur um daginn. Þegar ég mætti snemma upp í stofu tilkynnti gýgurin sem hafði kennt mér veturinn áður að ég ætti ekki að mæta fyrr en eftir hádegi, spurði mig vingjarnlega í leiðinni hvort ég væri eitthvað heimskur. Í stað þess að svara henni ákvað ég bara að fara fyrst ég var ekki velkominn í skólann lengur. Á leiðinni heim mætti ég Arnari og ég sagði honum sem orðið var og við ákváðum að leika okkur í hjólageymslunni heima. Eftir að hafa verið þar nokkra stund heyrðist útidyrahurðin opnast og einhver koma inn en staðnæmast svo á stigapallinum. Svo kom pabbi niður í hjólageymslu. Sá varð hreint ekki kátur og dreif okkur strax til skólastjóra. Málsvörn okkar var fálega tekið og við vorum áminntir fyrir að skrópa, þótt seint hefði hann Jón Freyr skólastjóri þótt strangur. Sjálfur hafnaði ég þó alltaf þeirri söguskoðun að við hefðum skrópað.

Síðar á haustönn 1991 fór ég heim til Arinbjörns eftir skóla að horfa á uppáhaldsteiknimyndaþáttinn okkar, sem stolið er úr mér hvað hét. Eftir þáttinn fórum við inn í herbergið hans Arinbjörns og reyndum að finna okkur eitthvað til dundurs, en gekk fremur illa. Hvernig gat það gerst að tveimur skapandi hugum væri ómögulegt að finna sér nokkuð að gera? Þvílík kreppa!
En þá gerðist það að móðir hans Arinbjörns kom inn í herbergið og spurði hvort við vildum ekki brauðsneiðar með kæfu. Við játtum því og hún fór til að smyrja ofan í okkur. Við Arinbjörn litum hvor á annan án þess að blikka, fullkomlega samhuga um framhaldið: „Búum til gildru!“ sagði Arinbjörn. „Já!“ sagði ég. Það var í fyrsta og síðasta skipti sem ég hef gerst sekur um samsæri til að myrða manneskju; planið var að binda snæri í hurðarhúninn, vefja hér og þar um skrifborðið og nota það þannig eins og talíur, og binda endann loks í fataskápinn sem stóð við hliðina á herbergishurðinni. Það var von okkar að skápurinn dytti ofan á mömmu Arinbjörns þegar hún opnaði dyrnar. Svo biðum við. Aldrei hafði mér virst svo fáar mínútur eins langar. Ætlaði hún aldrei að koma inn með brauðsneiðarnar?
Loks opnast dyrnar og mamman birtist í gættinni með stóran disk hvar á hvíldu fjórar brauðsneiðar með kæfu. Án þess nokkuð annað gerðist gekk hún inn, lagði diskinn á skrifborðið og kommenteraði á snærin: „Eruð þið að búa til gildrur?“ Svo hló hún létt með sjálfri sér og yfirgaf herbergið. Lokaði á eftir sér. Við sátum eftir meira en lítið vonsviknir. Loks rauk Arinbjörn á fætur, sársvekktur, óð að hurðinni og rykkti henni upp, með þeim afleiðingum auðvitað að fataskápurinn féll ofan á hann og kramdi í klessu að því er virtist. Ég stóð upp í forundran og hrópaði á hann að svara mér. Skápurinn lá í spón á gólfinu, Arinbjörn hvergi sjáanlegur. Loks, eins og í teiknimynd, opnast dyrnar á skápnum. Þar lá Arinbjörn inni í skápnum og hló. Ég man ekki hvað mamma hans sagði þegar hún gekk á hljóðið.

Goðsaga ein gekk um hverfið af gamla blinda píanóleikaranum sem sagður var reka hljóðfæraverslunina við Gullteig. Jafnframt var hann sagður búa í risíbúð sama húss ásamt barnungri dóttur sinni. Allir vissu að blindi píanóleikarinn var afar góður maður þótt enginn hefði nokkru sinni séð hann. Ekki man ég fleira sem sagt var um blinda píanóleikarann, en pabbi staðfesti tilvist hans, þótt ekkert vildi hann fullyrða um dótturina. Ég man að verslunin stóð lengi enn eftir að fregnir bárust af andláti píanóleikarans. Þegar verslunin loks fór fannst mér sem enn færi æskustöðvunum hrörnandi.

Önnur goðsaga sem gekk um hverfið hverfðist um rauðan blett á veggnum við bakdyrainngang Laugarnesskóla. Sagan hermdi að einhverju sinni, mögulega aðeins ári eða tveimur áður en við hófum skólagöngu okkar, hefði drengur einn þroskaheftur og ofstopamaður mikill lagt nagla upp að húsveggnum og slegið höfði minni stráks í hann, með þeim afleiðingum að hann lét lífið. Ýmsar útgáfur fóru af örlögum ofbeldismannsins, sú vinsælasta hermdi að hann sæti inni á barna- og unglingageðdeild fyrir verknaðinn. Ég veit ekki betur en bletturinn sé enn á sínum stað, en heldur veit ég ekki betur en bletturinn sé málningarsletta. Fyrir örfáum árum komst ég að því að sagan gekk enn um skólann, til þess að gera óbreytt. Það fannst mér merkilegt.

Þennan vetur tóku vissar hefðir að myndast sem héldust óbreyttar gegnum skólavist okkar í Laugarnesskóla: Leynifélögin. Mér helst ekki tala á því hversu mörg leynifélög voru stofnuð, held ég hafi þegar mest gekk á verið formaður þriggja. Stofnun slíkra félaga fór alltaf fram á sama máta, eftir því hvaða háttur var hafður á við stofnun þess fyrsta, sem nú verður vikið að. Ég teiknaði kort af skólasvæðinu, merkti inn hvar hinir og þessir skilgreindir „óvinir“ mínir héldu jafnan til, og samdi hernaðaráætlun inn á kortið, þ.e. hver vina minna færi að slást við hvern og eftir hvaða leiðum hann færi þangað. Svo fékk ég félagana til að samþykkja áætlunina. Hinsvegar fór það svo að áætlanirnar dóu alltaf á teikniborðinu, meðþví engri þeirra var raunverulega hrint í framkvæmd. Oft hef ég velt fyrir mér mögulegum afleiðingum þess hefði ég verið fundinn sekur um að vera höfuðpaur skipulagðra ofbeldisverka við skólann.
Liður í leynifélaginu var kofinn sem við Arnar og Arinbjörn ætluðum að byggja í trjágarði nokkrum í útjaðri skólalóðarinnar. Aldrei varð neitt af byggingu kofans, en bjöllurnar í viðvörunarkerfið áttum við lengi á eftir.
Aldrei gengum við leynifélagsmenn í skrokk „óvina“ okkar en hinsvegar njósnuðum við um þá og sannreyndum hversu góðar leiðirnar voru sem ég hafði merkt inn á kortið. Tveir aðilar þótti mér sérstaklega viðsjárverðir, en það voru þeir Sigurður Benediktsson og Inuk Már Rannveigarson, Siggi vegna þess hann var stór og vígalegur, töffari frá náttúrunnar hendi, en Inuk einfaldlega vegna þess ég misskildi hann, raunar eins og flestir aðrir gerðu.

Inuk er einn þeirra sem skólakerfið einfaldlega hentaði ekki, einn þeirra sem hefur margar gáfur sem falla ekki að kerfinu, en skortir á hinn bóginn margar þeirra sem skólinn miðar við. Þannig var Inuk alltaf utanveltu í skólanum, þess vegna fór það svo að hann tók upp á því að stríða sér minnimáttar. Einhverju sinni blöskraði mér svo atganga hans að tveimur bekkjarsystrum sínum að ég óð í hann og slóst við hann í örskamma stund uns hann hrökklaðist á brott. Sumarið eftir fékk ég þó færi á að kynnast honum mjög vel. Síðan þá og enn þann dag í dag erum við mjög góðir vinir.

Mikilvægt er að minnast á Ragga, vin Arnars sem áður var getið, vegna þess sem gerðist fyrir veturinn á eftir. Þennan vetur var hann með okkur Arnari, Arinbirni og Sævari í bekk. Í sífellu komu upp ósætti á milli okkar og loks sauð upp úr þegar ég kom inn úr frímínútum og hann hafði litað umferðarljósin í bókinni minni í vitlausum litum. Mig minnir ég hafi tortímt bókinni hans í kjölfarið og hótað honum líkamsmeiðingum. Það þurfti að skilja okkur að og það sem eftir lifði vetrar sátum við hvor í sínum enda stofunnar. Þetta hefur verið í febrúar 1992 að öllum líkindum.

Um sumarið tók ég þá ákvörðun að skipta um bekk. Ekki eingöngu vegna Ragga þó, heldur einnig vegna þess að góðvinir mínir Ásgeir og Inuk voru í S-bekknum. Þar var raunar líka Siggi Ben, en ég átti fljótlega eftir að læra að hann var ekki allur sá skálkur sem ég hafði gert mér í hugarlund. Fyrrum félagar mínir úr N-bekknum áttu aftur á móti eftir að líta á mig sem svikara við sig. Líklega skýrir það að nokkru leyti hvers vegna við Arinbjörn hættum að umgangast hvorn annan.

Myndir af Laugarneshverfi 1990-1991

Ég fór skyndilega að velta fyrir mér, eftir að ég las þessa færslu hjá Hjördísi, að ég hef búið í Laugarneshverfinu í að verða sextán ár. Þaráður bjuggum við í Gnoðarvogi 38, í eitthvað um fjögur til fimm ár í heildina. Af tveimur síðustu árunum sem við bjuggum þar eyddum við einu og hálfu á Via Emanueli í Piacenza.

Af þessum þremur stöðum kunni ég síst við Gnoðarvoginn, mér hefur alltaf þótt vogarnir fremur litlausir og ópersónulegir. Fyrir utan svo auðvitað að gæslurólóinn í næstu götu var helvíti á jörðu. Mestar rætur mun ég hafa fest á Ítalíu þótt skammt hafi ég dvalið og þegar við snerum aftur í Gnoðarvoginn snemma árs 1990 var heimurinn ekki alveg eins smár. Fyrsta einum og hálfa mánuðinum eða svo eyddi ég í Langholtsskóla. Þar át maður eða var étinn. Svo fluttum við á Laugarnesið.

Við bróðir minn (sem er langtum steiktari en ég) sóttum báðir Laugarnesskóla og einn fyrsta daginn minn í skólanum man ég að ég sá aftan á hann hvar hann gekk meðfram íþróttahúsinu. Ég var handviss um að það væri hann því við áttum alveg eins úlpur, sem keyptar höfðu verið á Ítalíu. Þegar ég svo þreif í öxl hans og hrópaði „bö“ eða eitthvað viðlíka reyndist þetta vera einhver allt annar strákur. Hann leit á úlpuna mína og kallaði mig hermikráku. Svo fór hann, ég alveg forviða á því að sama úlpa væri fáanleg í þessum heimshluta.

Ég hafði verið hjá herfilegri dagmömmu meðan ég var í Langholtsskóla, sem bókstaflega eldaði drullu ofan í okkur, hverrar sonur át Bugles með mjólk út á og dýfði pylsum ofan í tómatsósu OG kók áður hann át þær. Eftir að við færðum okkur um set var ég hinsvegar geymdur hjá dagmömmu sem bjó hinumegin við götuna frá skólanum og var alveg æðisleg. Svo miklar mætur hafði ég á henni að eftir að ég fékk meira ferðafrelsi hóf ég að heimsækja hana við og við, það er uns hún flutti. Ég man ekki hvað hún heitir en mig minnir hún hafi verið Bachman.

Ég var fljótur að laga mig að breyttu umhverfi. Líklegast hef ég byrjað í Laugarnesskóla í fyrri hluta eða um miðjan október 1990 og þegar kom að því að bjóða í sex ára afmælið mitt þann fyrsta nóvember lenti ég í engum vandræðum. Gestir voru Arnar Halldórsson, elsti vinur minn, sem ég hef nú nær algjörlega misst samband við, Arinbjörn Hauksson, síðar Ármaður Menntaskólans við Sund (er ekki viss hvað hann er að gera núna, en hann heldur víst úti bloggsíðu hér), strákur að nafni Sævar, sem menn muna helst eftir fyrir gildan vöxt sinn (pabbi man helst eftir honum fyrir að hafa alltaf borðað nestið mitt) og stúlka nokkur að nafni Soffía, sem bjó á hæðinni fyrir neðan okkur í Gnoðarvoginum. Þrír fyrstnefndu voru allir bekkjarfélagar mínir. Eftir því sem leið á veturinn kynntist ég fleira mektarfólki, ber þá helst að nefna Ásgeir Sigurjónsson, minn næstelsta vin, en hann var raunar í öðrum bekk. Það var mikið Ginnungagap á sínum tíma.

Umsjónarkennarar þennan fyrsta vetur voru tveir, Sólveig og Kristín. Sú fyrrnefnda var frábær en sú síðarnefnda afsprengi djöfulsins. Einhverju sinni krassaði Kristín yfir útreiknuð stærðfræðidæmi í bókinni minni og öskraði á mig að þau væru öll vitlaus. Öðru sinni öskraði hún á mig þegar ég fékk sápu í augun við að þvo mér um hendurnar. Snarvitlaus gýgur sem var sígjótandi börnum, held hún hafi verið rekin síðar.
Sólveig var fullkomin andstæða Kristínar, fullkomlega alúðleg og barngóð kona, sem síðar átti eftir að kenna litla bróður mínum. Hún hefur nú nýverið látið af störfum við Laugarnesskóla. Seint mun ég þó botna í því þegar við Bergþóra bekkjarsystir áttum að hennar tilskipan að vera inni í löngu frímínútunum að sópa gólfið eftir föndurtíma bekkjarins (við vildum það heldur en fara út, engin barnaþrælkun per se). Við gleymdum okkur þó fljótt við skyldustörfin og fórum að leika okkur, og lékum við okkur allar frímínúturnar. Þegar Sólveig svo kom í upphafi næsta tíma og sá að ekkert hafði verið að gert, komst hún svo að orði við bekkjarsystur mína: „Ljóta Bergþóra, þú ert ekki búin að sópa neitt!“ Það var afar ósanngjarnt, þar eð ég slapp við skammir, og ég hafði átt frumkvæðið að leikjunum.

Alltaf man ég þann dag þegar við Sævar bekkjarbróðir brugðum á það ráð að ganga heim úr skólanum. Ekki man ég þó tildrögin, ef til vill var mamma sein á sér að sækja okkur. Þegar kom að Sundlaugarveginum mundi ég ekki úr hvorri áttinni ég hafði komið um morguninn, frá hægri eða vinstri (í raun skipti það engu máli). Við tókum sénsinn hafandi gengið þetta langt og fórum til hægri og niður Laugalækinn, settumst svo á vegg hjá Kjötmiðstöðinni þar sem nú er 10-11. Þar leyfði ég Sævari að borða afganginn af nestinu mínu. Fyrir tilviljun rötuðum við heim þaðan og í þann mund er ég var að reyna að finna réttu bjölluna (gömlu nöfnin voru þar enn, svo ég fann hana ekki) renndi mamma í hlað, ætlaði í fyrstu að skamma okkur fyrir uppátækið en varð svo stolt af okkur að hún lét það eiga sig. Eftir það var ég til þess að gera frjáls ferða minna.

Og enn man ég eftir fyrsta skóladegi eftir áramótin ’90-’91, þegar við mættumst allir á leið í skólann við Sundlaugarveginn og ræddum um áramótaskaupið, þá sér í lagi afmælisveislu Ólafs Ragnars Grímssonar, þar sem Davíð Oddsson var frekastur. Það þótti okkur fyndið. Veturinn leið og virtist engan endi ætla að taka, sem þýðir ekki að hann hafi verið leiðinlegur – þvert á móti – en ég man alltaf einn kaldan febrúarmorgun þegar pabbi keyrði mig í skólann á græna Volvónum að ég spurði hvenær kæmi sumar. Það kvað vera langt í það og ég man ég kyngdi vitneskjunni með semingi.

Einhvern tíma á vormisseri 1991 sótti mamma mig og Sævar í skólann. Á leiðinni heim keyrðum við framhjá Björnsbakaríi, sem síðar var skipt út fyrir Kornið. Húsið er enn auðmerkt með stóru skilti á hliðinni sem lóðrétt er letrað á „Bakarí“. Sævar las á skiltið „írakab“ og spurði þvínæst hvort það væri ekki eitthvað sem alltaf væri í fréttunum. Ég þóttist nú vita að á skiltinu stæði bakarí, en vissulega kannaðist ég við eitthvað um írakab í fréttunum. Þá geisaði nefnilega Persaflóastríðið.

17. apríl 1991 mun ávallt skipa sérstakan sess í hjarta mér. Þá kom pabbi heim af næturvakt, í minningunni áreiðanlega kringum fimm um morguninn, í raun og veru var það áreiðanlega seinna. En hann kom ekki einn, hann hafði með sér kettling, læðu. Þá hafði ég suðað heillengi um að fá að eignast kött og líklega hef ég sjaldan fundið til þvílíkrar hamingju eins og þegar ég vaknaði þennan morgun og fann þessa litlu kisu sofandi uppi í rúminu hjá mér. Ég man þegar ég tilkynnti bróður mínum þetta að hann trúði mér ekki, sagði mér síðar að hann hefði haldið að ég hefði fengið enn eitt tuskudýrið.
Í fyrstu vildi ég kalla hana Lísu, Dísu eða Línu. Foreldrar mínir höfnuðu öllum þessum nöfnum en nefndu hana Perlu. Það nafn festist aldrei við hana nema hjá móður minni og móður hennar. Fljótlega fórum við að kalla hana Kisu. Því nafni, viðeigandi sem það er, heitir hún enn þann dag í dag.

Um viku eða tveimur að ég held, eftir að Kisa kom til sögunnar, skall á einhver allra versti stormur í manna minnum. Skólar lokuðu víðasthvar í Reykjavík vegna veðurs og þar með talið Laugarnesskóli. Held það hafi verið fyrsta morgun óveðursins að faðir minn fór út í Laugarneskjör að kaupa kattamat, en hann var óhugnanlega lengi á leiðinni miðað við að búðin var í sömu götu. Í millitíðinni kom Þórður bróðir minn heim að mér grátandi. Þá hafði ég ætlað kettinum hlutverk í einhverjum leik sem var henni ekki að skapi og þegar ég reyndi að þvinga hana til þátttöku tókst mér óvart að meiða hana. Mér varð svo við að ég fór að hágráta, þvílíkt skrímsli hafði ég orðið. Bróðir minn huggaði mig og sagði mér að líklega væri þetta allt í lagi, ég skyldi leita að kettinum og sjá hvort ekki væri allt í lagi með hana. Og viti menn, þegar ég fann hana og tók hana í fangið þá sleikti hún á mér nefið. Ég lærði mikilvæga lexíu á þessu og hef allar götur síðan verið málsvari þess að það sé börnum þroskandi að eiga gæludýr.
Loks kom pabbi inn úr dyrunum með poka af kattamat og Whiskas-dall sem kaupmaðurinn í Laugarneskjörum hafði gefið honum í kaupbæti. En jakkinn hans pabba var rifinn og skrámur voru á höndum hans. Vindurinn hafði hrifið hann með sér utan í girðingu, gott ef hún brotnaði ekki við það. Sem betur fór brotnaði pabbi ekki. Fleira brotnaði þó, því þegar skólinn opnaði aftur þurfti pabbi að keyra aðra leið í skólann. Stærsta og elsta tré hverfisins hafði rifnað upp hálfvegis með rótum og fallið yfir Kirkjuteiginn. Í heila viku lá tréð í götunni, eins og minnismerki um fyrri tign hverfisins, eins og áminning um að nú þyrfti að rétta við eftir óveðrið. Öll gamlárskvöld síðustu fimmtán ára samanlögð gætu ekki bætt það magn rusls sem lá yfir hverfinu eftir óveðrið. Meira að segja girðingarstaura mátti finna langt utan síns eðlilega samhengis. Liggjandi náði tréð alla leið úr húsgarðinum hvar það hafði áður staðið að girðingu skólalóðarinnar hinumegin götunnar. Stærra tré hefur enn ekki sést í Laugarneshverfi.

Síðasta minning mín úr sex ára bekk er dagurinn þegar bekkjarmyndin var tekin. Líklegast er það vegna þess að ég á myndina að ég man svo vel stundina þegar hún var tekin. Ef ég ætti skanna væri ég ef til vill nógu illkvittinn til að birta hana hér, en það þarf að bíða betri tíma. Frá myndatökunni er í sjálfu sér ekkert að segja, minningin er aðeins myndir, andartök, stemning. Myndin sjálf er mér þó afar kær.

Vitaskuld er margt ótalið hér en þetta verður að duga í bili.

Hvers vegna rifja ég þetta upp? Jú, færslan hennar Hjördísar kveikti upp í mér vissa útrásarþörf fyrir minningablætið mitt, og ég fór að hugsa um hvernig það verður þegar ég loks yfirgef hverfið mitt eftir að hafa búið hérna svo lengi. Einhverntíma var rætt um herbergjaskipti þegar bróðir minn eldri flytti út. Ég var ekki lengi að hafna boðinu, herbergið var orðið hluti af sjálfsmynd minni. Hverfið er það væntanlega og jafnvel ennfremur líka. Það hefur hinsvegar tekið þónokkrum breytingum gegnum tíðina og ég þekki það ekki fyrir sama sælureit. Of margt hefur breyst og hverfið er ekki lengur friðsælt, það er ofhlaðið nútímalegu úthverfastressi og bílaumferð, börn eru fáséð, en eitt sinn bjuggu hér aðeins börn að því er virtist. Allir vinir mínir eru fluttir héðan. Hér er fátt eitt eftir nema minningarbrot, myndir af Laugarneshverfi, tilfinningatengsl við löngu horfna hluti úr löngu liðinni æsku. Þess vegna mun ég ekki kveðja Laugarneshverfið með söknuði þegar ég flyt héðan – ég er löngu búinn að því.

Ef vel lætur geri ég kannske syrpu úr þessum minningum, þessum myndum, frá upphafi til enda grunnskólagöngu minnar. Næst tæki þá við veturinn 1991-1992. Margt gerðist þá sem vert væri að rifja upp. En við sjáum til hvort af því verði.