Svikaraheilkennið

Hvenær hugsar maður of mikið um einhvern einn hlut, eða eitthvert eitt mengi hluta? Hvenær nálgast áhugi á einhverju afmörkuðu efni þráhyggju gagnvart því? Retóríska spurningin hvort ég vissi að til væri fólk sem tæki sér frí um helgar hafði enga merkingu fyrir mér á sunnudaginn sem var; það fólk hlyti bara að vera í leiðinlegri vinnu.

En ég átta mig betur á því núna þegar það hefur fengið að gerjast aðeins að auðvitað nær það ekki nokkurri átt að sunnudagsplanið nái ekki lengra en að göngutúr í snjónum – með Radiolab í eyrunum – upp Eiríksgötu, niður Þórsgötu og Baldursgötu að Laufásvegi, Bragagötu að Sóleyjargötu og gegnum Hljómskálagarðinn að Þjóðminjasafni, inn á Bókhlöðu að erindagjörðast og hlamma mér svo niður í Gimli með rjúkandi (nes)kaffibolla og njóta fræðistarfa. Æ, þetta var allt svo notalegt samt.

Staðreyndin er sú að ég gaf upp á bátinn framtíðarstarf til að leita mér frama á einhverjum aðgangsharðasta vettvangi sem um getur, þar sem samkeppnin er gríðarleg, og á versta mögulega tíma í efnahagslegu tilliti. Ekki þar fyrir að aðstæður verði endilega betri héðan af – þróunin er í þá átt að smámsaman láta háskólunum, sér í lagi hugvísindadeildum, blæða út í stað aukinnar innri samþættingar, hagræðingar og fjölgun býrókrata. En ég á ekki við það, í þessu samhengi.

Ég er á sjöunda ári í háskólanámi sem gagnvart Íslendingum telst vera íslenskunám en gagnvart öllum öðrum norrænunám. Að því loknu taka við styrkumsóknir og hark í mörg ár áður en mér tekst að troða mér inn í háskóla á botninum hvaðan ég vinn mig upp eftir því sem eldist úr stéttinni. Ég verð „of hæfur“ fyrir flest önnur störf en þetta eina sem þráhyggjan keyrir mig áfram til að mennta mig til að sinna. En sú staðreynd er það síðasta sem ég reyni að hugsa um.

Næstu (tæpu) fjögur ár fæ ég að búa í bólu síðustu námsáranna. Þá hugsar maður um aðra hluti en að fá ekki vinnu eftir vörn, einsog það hversu lélegur fræðimaður maður er samanborið við alla aðra. Það kallast svikaraheilkenni og er mjög algengt fyrirbæri. Ég þarf ekki aðeins að standast mínar eigin kröfur, heldur þarf ég að vinna mig upp í að verða eins fær og allir í kringum mig – sem er víst alger tálsýn en það gleymist annan hvern dag. Mest er baráttan við eigin kröfur, eða öllu heldur slagurinn um að reyna að standast þær. Og svo rankar maður við sér einn góðan veðurdag og uppgötvar að maður mun aldrei standast þær. Kröfurnar eru óraunhæfar. Rannsóknin felur aldrei allt það í sér sem hún ætti að gera. Efnið verður aldrei tæmt og fókusinn þrengist ennfremur dag frá degi. Hið almenna hverfur og leysist upp í –– kannski eitthvað allt annað en lagt var upp með í upphafi.

Og hvað gerir maður þá? Ekkert, nema að mæta næsta dag aftur í vinnuna og halda áfram að puða. Þráhyggjan skilar einhverju að lokum, og vonin er að eftir tíu ára háskólanám hafi mér tekist að ná utan um nokkurn veginn það lágmark sem mér finnst boðlegt að miðlungs akademískur ræfill hafi tök á. Og helst miklu meira en það.

En þessar kröfur koma ekki utan frá, og þær eru ekki algerlega mín eigin uppfinning heldur; þær eru afleiðing þess að hafa oftar en einu sinni verið í þeim sporum að hvorki ég né aðrir höfðu trú á mér til nokkurs, af því ég féll í framhaldsskóla ekki einu sinni, heldur tvisvar, og í kjölfarið upplifði ég afar sterka en ímyndaða niðurlægingu vegna þess. Ég upplifði tilfinningar sem ég skildi ekki en ég tel nú að hafi verið kvíði og jafnvel væg, áunnin félagsfælni. Það gekk svo langt að ef manneskja sem ég mætti brosti, til mín eða einhvers annars, þá var því á einhvern hátt beint gegn mér. Það gat ekki annað verið en að allir væru að horfa á mig, öllum stundum, og henda gaman að mér. Þetta er það versta sem ég hef upplifað og ég er stundum ekki viss um hvort ég hafi nokkru sinni jafnað mig alveg.

Á dögunum var mér boðið í furðulegt samkvæmi þar sem ég var spurður hvað ég gerði. Það er versta spurning sem ég gæti fengið. Annað hvort fylgir því framhaldsspurningin hvað ég geti nú gert við þá menntun, eða þá að ég þarf að reyna að útskýra rannsóknina mína. Í þetta sinn fékk ég í fyrsta skipti þau viðbrögð að spyrjandinn hopaði, sagði „Vóó“ og lét einsog ég væri alltof fínn fyrir þetta partí – annað hvort það eða þá að ég hafi verið það hrokafullur að hafa sett mig á háan hest yfir hann og alla aðra. Eða eitthvað. Ég benti honum á að ég væri nú bara námsmaður. „En þér nægir greinilega ekki masterinn!“ sagði hann þá, og ég skildi ekkert hvað hann átti við. Og þar með upplifði ég í fyrsta sinn að vera orðinn „reject“ hinumegin frá – pottþétt sömuleiðis bara mín upplifun en ekki hans, einsog með niðurlæginguna forðum.

Það er til fólk sem tekur sér frí um helgar. Ég er enn að velta því fyrir mér hvers vegna ég geri það ekki. Þetta er einsog með hraðaksturinn: það munar kannski örfáum mínútum að aka 30km hraðar en löglegt er. Sama gildir um það hvort maður mætir á skrifstofuna um helgar eða ekki þegar þetta er fjögurra ára prósess hvort eð er. En –– ég á bágt með tilhugsunina um að taka mér of mikið frí. Ég er nýkominn úr jólafríi sem endist mér allt árið, tel ég mér trú um. Sú tilfinning felst öll í vanmættinum sem ég enn finn stundum fyrir. Af því að eins vont og það var þegar enginn hafði trú á mér, þá var það ennþá verra þegar ég hafði ekki trú á mér sjálfur. Og kannski snýst þetta blogg dálítið um það. Baráttuna við að halda trúnni.

Ég veit alveg að ég get þetta, að ég er fær. Ég veit það bara mismikið eftir því hvaða dagur er og hvorumegin ég fer fram úr rúminu þann daginn. Á hinn bóginn er það þegar ég er hvað mest viss um eigið erindi í fræðunum að ég mæti í vinnuna á sunnudegi. Hvernig ætli standi á því?

Þjónn, það er kona í mannkynssögunni minni

Mig langar að verða duglegri við að setja inn ýmiss konar hugleiðingar hér, almenns efnis, námsefnis og svo framvegis. Til að mynda rámaði mig snögglega í það – meðan ég beið eftir espressókönnunni rétt áðan (ég drekk kaffi á kvöldin) í samræðu við Eyju um hina karlmiðuðu sögu (ég bjó til þennan Jón Sigurðsson sem fylgir bloggfærslunni, eiginlega alveg óvart, og þaðan spratt umræðuefnið) sem einhverjum gæti þótt móðgandi að tala um sem slíka – að saga, einsog ég man það, var fag sem öllum þótti leiðinlegt, bæði stelpum og strákum. Alltaf. Nema rétt á meðan það var tilkynnt að lesið yrði um aðra hvora heimsstyrjöldina – hvora sem var – þá þótti strákunum gaman í sögu. En svo byrjuðu þeir að lesa og saga varð strax aftur leiðinleg. Það stóðst ekki samanburð að lesa eða horfa á Apocalypse Now í heimabíói (héldu þeir).

Þórður bróðir kvartaði einhvern tíma undan því að honum væri fyrirmunað að lesa línulega atburðarás yfir margar aldir ef hann ætti að muna nokkurn skapaðan hlut hvað hann læsi, sér í lagi nöfn og ártöl. Og að vissu leyti er galið að læra söguna þannig, að vissu leyti er það alls ekki galið. Þegar maður fer að hugsa um þetta þessum árum síðar man maður vissulega að margir svitnuðu fyrir sögupróf. Nemendur grenjuðu einsog Ædolkeppendur á göngum skólans. Þeim gekk jafnan sæmilega sem verst gekk; enginn hafði í raun ætlast til að þeir lærðu þetta allt svona nákvæmlega og áhyggjurnar voru flestar tilefnislausar.

Þessar hugleiðingar eru þó fyrst og fremst sprottnar upp af þeirri staðreynd að mannkynssagan er karllæg, sem er mikilvægt að vera meðvitaður um þegar maður rannsakar sögu; tiltekin tímabil, menningu og bókmenntir þeirra. Það er ekki hægt að rannsaka miðaldabókmenntir nema rannsaka að einhverju leyti sögu þeirra einnig, jafnvel þótt það sé aðeins að litlu marki gert, og saga bókmennta er óhjákvæmilega saga menningar og tímabils í leiðinni. Og það er sáralítið af konum í þessari sögu allri. Ég man að þónokkrum sinnum gramdist bekkjarfélögum mínum það að eiga að læra „endalaust um einhverja löngu dauða karla“ og þær kvartanir komu jafnan frá strákum.

Ég er ekki að segja að við fáum breytt sögunni úr því sem komið er til að gera hana áhugaverðari, heldur að mér finnst þetta áhugavert í sjálfu sér. Það þarf nefnilega ekki nauðsynlega að vera að hið karlmiðaða falli körlum í geð einsog stundum mætti skilja á fólki.

~

Sjálfur hef ég alla tíð verið sögufíkill, þótt þekking mín á sögu hafi látið á sjá sökum vanrækslu síðustu misseri. Ég las allar kennslubækur sem eru alræmdar fyrir að vera leiðinlegar og fannst þær æðislegar, meiraðsegja Sjálfstæði Íslendinga I-III eftir Gunnar Karlsson. Ég hef það mér til afsökunar að ég var barn. Ég hef enga slíka afsökun þegar kemur að bókum Heimis Pálssonar.

Sturlungaöldin var mitt tímabil. Um hana vissi ég tíu ára allt það sem hægt var að læra af kennslubókum og meira til (núorðið man ég harðla lítið). Ég teiknaði ættartré Sturlunga og hending réði því að Snorri leit út einsog fífl á teikningunni en að Sighvatur Sturluson varð svalastur, og fyrir því hafði ég miklar mætur á Sighvati upp frá því og svíður alltaf dálítið í sinnið þegar ég keyri framhjá Örlygsstöðum í Skagafirði. Nú man ég ekki hvort Sturlunga var til á mínu heimili en í stað þess að lesa hana, eða gera tilraun til að lesa hana, þá hófst ég handa við að skrifa hana – á formi myndasögu – út frá því sem ég vissi. Sem var svosem ekki mikið þegar allt kom til alls.

Sighvatur féll við Örlygsstaði eftir hefðbundinni söguskoðun, en í minni útgáfu þá hafði hann falið sig í runna og duldist þar vel á grænu peysunni sinni; hann hefði lifað af bardagann ef pirraður Ásbirningur í leit að honum hefði ekki höggvið til runnans í gremju sinni og óafvitandi hæft Sighvat. Snorri var nokkuð nákvæmlega brytjaður eftir lýsingu Gunnars Karlssonar og fannst mér leiðinlegast að teikna þann kafla (enda lítið svigrúm til sköpunar). Þórður Sturluson varð óvígur í anakrónískri atlögu að skóggangsmanninum Gísla Súrssyni (Þórður bróðir hafði þá nýverið lesið Gíslasögu og mér þótti útlegð vegna sæmdarvíga spennandi) sem hafði víggirt heimili sitt með alls kyns gildrum. Þar féllu allir nema Þórður, slíkt heljarmenni fyrir sem Gísli var, en um örlög Þórðar og ævintýri átti eftir að skrifa lengri sögu. Hans sonur var enda Sturla sem var eiginlegur höfundur þessara frásagna allra, alveg sama þótt ég diktaði þær að mestu upp sjálfur. Inn í þetta hafði ég svo ráðgert að blanda Gretti Ásmundarsyni og fleiri köppum á einhvern hátt. Læt ég eftir mig óklárað verk en þætti vænt um ef ég fyndi varðveitt.

Það var því nokkuð skondið þegar ég sat tíma hjá mentór mínum fyrir réttum áratug og fékk að vita að þeir bróðir hans hefðu skrifað framhald Sverrissögu og verið það ofarlega á merinni að hafa reynt að frumgera fornmál til brúks í sögunni (það er alltaf gott að vita að maður er ekki einn um að fremja furðuverk). Og þegar maður lítur til sagnaritunar á miðöldum þá má nú vel ímynda sér að vinnubrögðin hafi ekki nauðsynlega verið ósvipuð á köflum, þótt ekki hafi verið með sama vúlgar hætti; sum miðaldarit eru óttalegt kópí-peist með viðbótum, mótsögnum og anakrónisma og engar forsendur endilega til að meta hver heimild er „rétthæst“, sér í lagi þegar viðkemur norrænni trú.

En þessi Sturlunga 2.0 sem ég skrifaði, ég get ekki sagt að hún hafi verið annað en karlmiðuð. Ég minnist þess ekki að í nokkrum einasta ramma hafi komið fyrir kona, hvað þá að minnst hafi verið á konur í sögunni. Einu konurnar sem var að finna voru í áðurnefndu ættartré sem ég felldi fremst inn í söguna til hægðarauka fyrir væntanlega lesendur. Og hvað þýðir þetta? Ætli það þýði ekki bara að það læri börnin sem fyrir þeim er haft, og að hið dularfulla kvenlaga gat í mannkynssögunni sé nokkuð sem maður þarf ætíð að vera meðvitaður um. Sögunni fæst ekki breytt en við ráðum því með hvaða hugarfari við lítum hana.

Ruslakall á Akureyri

Þá erum við komin í vinnuferð norður. Margt sem rifjast upp fyrir mér einsog endranær þegar ég kem hingað. Til dæmis sameiginleg ást okkar Arnars æskuvinar míns á bænum. Okkur báðum fannst Akureyri langtum betri bær en Reykjavík, og dag einn höfðu hann og bekkjarbróðir hans Siggi ákveðið að gerast ruslakallar á Akureyri þegar þeir yrðu stórir, af því þeir fengju svo vel borgað. Þá yrðu þeir kóngar hér nyrðra og gætu alltaf farið í bestu sundlaugina á landinu. Þetta fannst mér gott plan.

Síðar átti Arnar raunar eftir að flytja norður en hann gerðist ekki ruslakall heldur vann hann í Slippnum og átti hæð í húsi við Ráðhústorgið. Ekki var gert ráð fyrir húsinu í næsta aðalskipulagi (komst hann að eftir að hann keypti), en hann seldi fyrir nokkrum árum og býr nú á Akranesi eftir því sem ég kemst næst.

Siggi, sem allur Laugalækjarskóli fylgdist með í hryllingi þegar hann var nærri kafnaður til dauða á eplaköku, fór eftir því er ég best veit í Verzló og síðan hef ég ekkert spurt af honum. Núna þegar báðir eru orðnir stórir hefur hvorugur unnið sem ruslakall á Akureyri. Svona breytast nú ambisjónirnar.

Sjálfur hefði ég á ýmsum tímum getað hugsað mér að flytja hingað en það er alveg úr myndinni í dag. Akureyri er kósý nokk fyrir skottúra en harðir vetur og fásinni er ekki beinlínis neitt sem ég sækist eftir. Það hefði verið öðruvísi fyrir tuttugu árum, en þegar eitt ógeðslegasta fyrirtæki Íslands er með skjöldinn sinn þar sem merki KEA sat áður er lítið sem heillar. Afi sjálfsagt hringsnýst í gröfinni. Flest annað hérna er farið sömu leið og það er einsog ekkert sé einsog það áður var, meira einsog líki af fortíð. En það er nú alltaf gott að koma hingað samt, inni á milli.

Ferming

Amma mín á Akureyri sagði alltaf við mig áður en við fórum að hátta: „Nú skulum við hvíla lúin bein.“ Það brást ekki að mér fannst ég finna fyrir því hversu lúið hvert bein í líkama mínum var í hvert sinn sem hún sagði þetta og syfjan seig fljótt á. Stundum virkar þetta ennþá ef ég á erfitt um svefn, að hugsa til ömmu minnar, sem nú er 86 ára og þ.a.l. opinberlega drullugömul (hún fæddist og ólst upp í torfkofa). Sú gamla hefur búið ein síðan afi dó fyrir rúmum 20 árum og gerir enn, sem ég held að hljóti að vera einhverslags met.

Þess mun þó ekki þurfa við í kvöld að hugsa til hjónarúmsins hennar ömmu minnar þar sem beinin eru ekki bara lúin, heldur líður mér einsog eftir fjallgöngu og heilinn er gjörsamlega í steik. Það gerir undirbúningur síðustu daga (ekki það að ég hafi gert nema brot af því sem aðrir lögðu til) og loks það sem að var stefnt: ferming Védísar í dag! Ólíkt þeim fermingum sem ég hingað til hef sótt komst ég við í þessari og fylltist bjartsýni og hlýju. Fermingarbörnin sáu sjálf um tónlistar- og ljóðaflutning og hinir fullorðnu skipuleggjendur voru í eins miklu aukahlutverki og hægt var. Mikið var þetta fallegt.

Og fyrir þessu hefur fólk fordóma (það fólk veit hvað það má éta fyrir mér). Þetta er kallað „borgaraleg ferming“. Það er eintómt bull, þetta er ferming og flóknara er það ekki. Þegar ég var á fermingaraldri var „borgaraleg ferming“ representeruð einsog það væri bara fyrir fábjána á sósjalnum og því kom það aldrei til greina. Ég dauðsé eftir því núna. Heldur að fylgja hjartanu og vera talinn fábjáni en að fylgja einhverju sem maður í grundvallaratriðum er ósammála. Ferming er annað og miklu meira en oft er gefið í skyn og það á að una þeim skoðunar sinnar sem kjósa að láta ferma sig, sama með hvaða hætti það er gert.

Svo hljóðar hið mannlega orð.

Nýársdagur

Ég held það hafi verið á nýársdag 1992 frekar en árið eftir að Batman (1989) var sýnd á Stöð2. Þá mynd sáum við fjölskyldan ásamt Anselmifjölskyldunni í bíó á sínum tíma í Piacenza, og svo aftur á video á Akureyri árið eftir. Þegar við áður bjuggum tímabundið í einhverri Hlíðinni í íbúðinni hans Halla frænda, að mig minnir, meðan Árni bróðir hans og fjölskylda bjuggu í okkar, áttum við bræður heilan poka af Batmansleikipinnum. Á umbúðunum voru límmiðar með leðurblökumerkinu sem við límdum á hérumbil allt sem fyrir varð. Þá voru bölvaðir Batmanþættirnir með Adam West enn sýndir bæði í ítölsku sjónvarpi og á Íslandi.

Þrátt fyrir að hafa ekki beinlínis búið í Batmanlausu tómi undanfarin ár þótti mér mikill viðburður að myndin skyldi sýnd í sjónvarpinu. Við bræður fengum frómas til að slafra í okkur með myndinni og þótti hvorugum það amalegt. Á þessari stundu laust það mig hve frábær nýársdagur væri og hversu skrýtið það var að ég hefði aldrei fattað það áður. Í um það bil eitt ár var nýársdagur því uppáhaldsdagurinn minn í árinu. Eina sem ég man frá nýársdegi árið eftir er að hann olli mér vonbrigðum.

Nýársdagur er mér ennþá jafn fjarlægur öllum þessum árum síðar. Það er sá dagur þegar allt virðist vera búið og ekkert nema heill fjarski af ókönnuðum lendum framundan. Í huga mér er hann alltaf tómur, einskonar millibilsástand. Á sama tíma er gamlárskvöld fyrir mér alltaf jafn konkret táknmynd þess að nú sé allt búið sem að baki er, síðasta brúin brennd yfir í nýja árið, og aðeins framtíðin taki við eftir það. Þess vegna verður nýársdagur alltaf hálfgerð vonbrigði eftir kvöldið á undan – svona dominospítsa á nærfötunum dagur meðan maður rifjar upp með sjálfum sér hvað það eiginlega var sem maður ætlaði að gera svona merkilegt á nýja árinu. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta kannski ólíklegasti dagur ársins til að minna á Batman.

Að hvarfla aftur

Í umræðu um psýkósómatískt óþol mitt gagnvart Egilsstöðum (ég er ekki að grínast, ég fæ útbrot í fimm kílómetra radíus frá bænum og veit ekki af hverju) rifjaðist upp fyrir mér að í ágúst hef ég búið í Hafnarfirði í þrjú ár. Það er nokkuð sérstök tilfinning og ekki laus við stöku endurlit þegar það er við hæfi.

Þótt það muni breytast á næstu árum hef ég varið lengstum tíma mínum í háskólanámi í Hafnarfirði. Ég er orðinn eignamaður (á bíl) en það stendur allt til bóta. Ég hef aldrei haft hug á að eiga neitt meira en það sem ég kem fyrir í einni ferðatösku. Allt umfram það stendur mér fyrir þrifum og það er hjákátlegt að hafa unnið fjögur ár á bókasafni af hugsjón og eiga svo heilt bókasafn sjálfur sem ég þarf einhvern veginn að flytja þegar þar að kemur. Þegar það verður kvöð að flytja hefur maður gert einhverja skissu.

Fyrst og fremst er þriggja ára dvöl mín í Hafnarfirði táknræn í mínum huga fyrir öll þau sambönd sem ég hef myndað síðan ég fluttist hingað. Það er ekki götuhorn hérna í næsta nágrenni sem ég tengi ekki við einhvern atburð eða tilfinningu, veturinn 2008-2009 var í mínu lífi einsog svo margra annarra mesti umbrotatíminn og ég tengi óramargt hér bara við þann vetur, sem leið í senn hjá svo silalega og svo hratt. Tengingar við Vesturbæinn sem ég bjó í þaráður hafa einnig verið tíðar síðan ég flutti hingað, sem brúar bilið milli þess liðna og þess líðandi.

Af þessum sökum er margt í Hafnarfirðinum sem ég hef lært að þykja vænt um og jafnframt margt sem vekur upp hlýjar minningar. En þau eru líka einu áhrifin sem Hafnarfjörðurinn hefur á mig; allt það sem hér stendur í stað andspænis öllu hinu sem breyttist í mér á þessum tíma. Hafnarfjörður er ekki bær til að halda áfram í mínum huga, heldur bær til að hvarfla aftur.

Það er merkilegt með bæi hvernig þeir hafa þessi ólíku áhrif á mann. Það er ekki maður sjálfur og hvað maður finnur sem er aðalatriðið, heldur eru það áhrifin sem bærinn hefur á mann sem lifandi veru sem vekja upp viðeigandi tilfinningar. Svo eru til staðir sem maður getur ekki komið nærri, einsog Egilsstaðir. Árósar er akkúrat ekki borg til að líta mikið aftur í, þar finn ég fyrir stöðugri framþróun. Hér er ég í stöðugu endurliti. Reykjavík og svo Kaupmannahöfn standa báðar þarna á milli. Þær eru borgir múltítasksins. Kannski ekki síst þess vegna ákvað ég fyrir tæpu ári að fara héðan, hér er ekkert eftir nema líta aftur.

Í ár er jafnframt tilefni til af tveim ástæðum:

1) Ég er að fara til Danmerkur.
2) Það eru 10 ár í haust síðan ég tók það skref sem langflestir taka að hefja nám við framhaldsskóla, skref sem reyndist mér heilladrjúgt á svo marga vegu að sjálfsagt tjóir aldrei að reyna að telja upp öll þau atriði sem gerðu mig að þeim manni sem ég er í dag.

Þess vegna hef ég hugsað mér að reyna að líta aftur stöku sinnum í sumar og rifja upp markverð atriði sem flestum má hlæja að eftirá. Þannig ætti líka að fara um öll okkar verk. Ef það má ekki hlæja að þeim voru þau kannski aldrei þess virði.

Það er ástæða fyrir því að ég nefni ekki nostalgíu eða fortíðarþrá neinstaðar hér. Nostalgía er b-hugtak sem er jafnharðan afskrifað undir eins og það er sett fram og fortíðarþrá nær engan veginn utanum tilfinninguna, enda þrá líklega fáir það limbó að eiga að endurlifa eigin fortíð. Það er líka annað að endurlifa og segja frá. Ég lofa engu.

Mynd: Þrándur Arnþórsson.

Kúkulúkur og Gardaland

Á Ítalíu 1989 voru í sjónvarpinu skemmtiþættir sem ég gæti ekki munað hvað hétu til að leysa höfuð mitt. Þáttastjórnandinn var klæddur í safarígalla og eitthvert hundskvikindi af sokkabrúðu stýrði þáttunum með honum. Stundum var kona í stað mannsins, klædd sama safarígalla, og stundum voru þau tvö saman, en okkur fannst konan ekkert skemmtileg. Við bræður dáðum hinsvegar þennan hund þótt líklega muni hvorugur nú hvað hann hét.

Þættirnir voru hreinn og klár áróður sem miðuðu að því einu að börn sannfærðu foreldra sína um ágæti þess að sækja heim Gardaland, skemmtigarð við hið margrómaða Gardavatn (þar sem Kristján Jóhannsson bjó). Pabbi þoldi ekki þáttastjórnandann, sem í minningunni hefði að vísu allteins getað verið Bog Saget, og uppnefndi hann Kúkulúkur eftir sínu hárbeitta skopskyni. Eftir orðhlutafræði mætti greina fyrri liðinn sem orðið kúkur án karlkynsbeygingarendingarinnar -r, og seinni liðinn sem einskonar herðandi og jafnframt niðrandi aðskeyti. Kúkulúkur var semsé ekki hátt skrifaður.

En í hvert sinn sem Kúkulúkur og hans dýrðlega hundskvikindi birtust á skjánum hrópuðum við bræður af ákefð: Kúkulúkur og Peppito! (ég gef mér bara það nafn á hundinn) af því við vissum að pabbi myndi stynja af vandlætingu. Kúkulúkur var svosem ekkert hátt skrifaður hjá okkur bræðrum heldur en hundurinn gerði það allt þess virði. Hundurinn var hreint út sagt frábær, og vatnsrennibrautirnar sem hann af kapítalísku innsæi innprentaði okkur að væru merkilegri fyrirbæri en píramídarnir við Giza urðu okkur að áþreifanlegu markmiði í lífinu til að falast eftir.

Svo kom að lokum að foreldrar okkar gáfu eftir og við fórum öll til Gardalands. Þar tapaði ég skó í hendur hins illa Frankensteins og sárgrét megnið af tímanum. Drumbaferðin eftir vatnsbrautinni var hinsvegar nokkuð skemmtileg. En hvergi sáust Kúkulúkur eða Peppito neinstaðar nálægt. Það olli mér sárum vonbrigðum, en bróður mínum virtist sléttsama um það. Í draugalestinni hélt mamma fyrir augun á honum alla ferðina hinsvegar svo ég varð einn um að upplifa þann hrylling að sjá beinagrindur sveifla sér í veg fyrir lestina okkar. Ég minnist þess ekki að hafa orðið neitt hræddur.

Gardaland uppfyllti allar okkar væntingar um skemmtun sem venjulegir leikgarðar áttu ekki séns á, en á hinn bóginn saknaði ég ákaft nærveru þeirra Kúkulúks og hundsfyrirbærisins hans. Í dag átta ég mig á að ég vissi ekki einu sinni hvað maðurinn hét og man ekki lengur fyrir mitt litla líf hvað hundurinn hét, þótt Peppito sé sjálfsagt nálægt því. Og það sem meira er, ég átta mig á um leið og ég minnist þessa að ekkert af þessu skipti nokkru einasta máli. Þannig fer líklega um flestar manns bernskuminningar.

Viðbót: Alli kann að hafa fundið þáttinn:

Heimurinn þá og nú

Ég man eftir að mér hafi verið sagt frá því þegar ég var barn að öðruhvorumegin við 1980 hafi margmenni þust að Heklurótum til að verða vitni að eldgosi. Ég sá fyrir mér ungt háskólafólk í drapplitum lopapeysum og joggínggöllum lulla þetta á ryðbrúnu ópelunum sínum og fíötum til að vera innanum fimmtuga bartaða fréttamenn með hornspangargleraugu á köflóttum jakkafötum. Allir pollrólegir og prúðir, og allt heldur leiðinlegt og grátt (einsog allt var áður en ég fæddist, sama hversu skömmu áður, og ljósmyndir fannst mér staðfesta hversu grátt allt var þá).

Aldrei í lífinu gat ég ímyndað mér annan eins heimatúrisma einsog varð kringum gosið á Fimmvörðuhálsi, fólk vaðandi þetta á skyrtunni, drekkandi, takandi ljósmyndir. En sjálfsagt var þetta alveg eins við Heklugosið forðum. Að minnsta kosti get ég ekki ímyndað mér að Íslendingar hafi breyst neitt meira á síðustu 30 árum en þeir gerðu næstu 1000 ár á undan. En svona virkar hugur barnsins. Nú er þessi heimsmynd aðeins dofin minning. En þó gleðst ég alltaf inní mér þegar ég sé þætti einsog Stiklur Ómars Ragnarssonar. Þar í er hún varðveitt, sú hugmynd sem ég hafði um Ísland áður en ég varð til. Land gamallra karla, ryðgaðra bíla og ljótra fata.

Ég svolítið sakna þess Íslands, þótt það hafi kannski aldrei verið til einsog ég sá það fyrir mér.

Í mínu ungdæmi (varúð, íronía)

Mér finnst stundum gaman að þykjast vera gamli karlinn. Fyrir einhverjum árum sagði ég við táning að það skipti engu máli hvað hún segði, ég tæki ekki mark á svona krökkum sem væru fæddir eftir fall Berlínarmúrsins. Grey stelpan hélt ég meinti þetta og varð voða skömmustuleg.

Það er jú í sjálfu sér ekki neitt voðalega merkilegt að muna hvernig þjóðfélagið var fyrir tveim árum þótt fólk tali nú varla um neitt annað lengur. Einhvern tíma lék ég gamla karlinn í vinnunni og minnti á að fyrir ekki svo löngu fengust ekki einu sinni hamborgarar á Íslandi – fólk keypti sér einfaldlega nautahakk og bjó þá til. Og það datt engum í hug að setja ost á þá. Þá var það ekki hamborgari nema á honum væri Gunnarshamborgarasósa, kál, tómatar og gúrkur. Það var einfaldlega ekkert annað, að minnsta kosti ekki neinstaðar sem ég þekkti til. Og fyrir okkur viðrinin sem ekki vildum þetta? Þá var það Libby’s tómatsósa úr glerflösku. Einsog maður var orðinn helvíti laginn við að ná jukkinu úr henni. Það er gleymd list.

Pítsur voru annaðhvort heimagerðar eða Ömmupítsur. Pizza Hut kom fyrstur slíkra staða um eða eftir 1990. Venjulegur heimilismatur samanstóð oft, ef ekki af fiski og kartöflum, af unninni íslenskri kjötvöru og gufusoðnu grænmetisjukki, t.d. kálbögglar, fiskibollur, slátur, bjúgu, kjötbúðingur og svikinn héri. Stundum fékk maður kjúkling en það var meira til spari. Heimatilbúnir hamborgarar eða pítsur voru ekki á hverju strái en pylsur voru ágætis sárabót. Heilsubyltingin var nefnilega ekki hafin. Og ef maður vildi ekki matinn þá var talað um fátæku börnin í Afríku. Núna nægir kannski að benda á foreldrið sem eldaði matinn. Gosdrykkir voru ekki mikið á boðstólnum. Með matnum var ýmist mjólk eða djús úr Egilsþykkni. Og þetta nákvæmlega sama fékk maður á leikskólanum.

Börn átu nesti í skólum (en sú tilhugsun), fengu húslykla sex ára og flestum foreldrum nægði að þau létu vita af sér gegnum landlínukerfi Pósts og síma. Og oftast var alveg í lagi að sleppa því, foreldrarnir höfðu lag á að finna börnin sín með öðrum ráðum. Og ef börnin fundu ekki vini sína heima hjá sér fundu þau þá annarsstaðar; maður vissi alltaf nokkurnveginn hvar þá væri að finna.

Og Hagkaup, sem varð Nýkaup og svo aftur Hagkaup, beygðist: Hagkaup, Hagkaup, Hagkaup, Hagkaups í þá daga. Skrýtið sem það var. þá voru Ískóla, RC Cola, Sinalco, Seltzer og Tab ennþá vörumerki. Jón Páll seldi Svala, Laddi þótti fyndinn og trópíkarlinn var lifandi appelsína.

Og það er ekkert langt síðan þetta var svona. Ég myndi segja að þetta hafi byrjað að breytast milli 1992 og 1993 með auknu vöruúrvali, tölvuvæðingunni í kjölfarið og loks farsímavæðingunni sem skók mína kynslóð kringum 1999.

En það eina sem kom vinnufélögunum á óvart við þessa upptalningu var tómatsósan í glerflöskunum. Þau könnuðust við allt hitt, meira eða minna. En uppúr þessu hófust semsé þónokkrar samræður um mismunandi leiðir til að losa tómatsósu úr glerflösku: nota hníf, láta flöskuna undir heita bunu og guð má vita hvað. Og skyndilega fannst mér sem gamli karlinn hefði snúist við í höndunum á mér – hvernig gat fólk mögulega nennt því að sitja þarna diskúterandi tómatsósu í glerflöskum?