Líf doktorsnemans og það sem helst er að Íslandi

Mér gengur ekkert að skrifa hér. Síðustu fimm færslur eða svo hafa allar endað í sorpinu því þær voru ýmist of fræðilegar, og þá getur maður eins skrifað fræðigrein, eða of illa skrifaðar, leiðinlegar eða á annan hátt óáhugaverðar.

Nú fer fram rektorskjör við HÍ. Það fær mig til að hugsa um líf doktorsnemans og hvernig það er, gagnvart því hvernig fólk hugsar sér að það sé. Ég hef reyndar verið svo lengi í þessu að ég man ekki hvernig seinni flokkurinn er. En reyndin er þannig að HÍ fær greitt fyrir hvern útskrifaðan doktor en sá hefur sjálfur þurft að afla sér tekna meðan á náminu stendur, ýmist með umsóknum í samkeppnissjóði eða með námslánum (ég hef gert hvort tveggja). Það er því mikill hvati fyrir háskólann að útskrifa sem flesta doktora.

Svo vita allir að háskólinn getur ekkert ráðið alla þessa doktora og það er ekki eins og atvinnulífið hafi neinn áhuga á þeim heldur, ef marka má SA og aðra talsmenn þess. Þeim finnst menntakerfið ekki koma til móts við þarfir atvinnulífsins; af því fyrir þeim skiptir engu máli hvaða hæfileika og menntun fólk hefur í raun og veru, heldur þarf að umbylta menntakerfinu á fimm ára fresti með hliðsjón af stundarhagsmunum hinna ríku.

Á Íslandi er líka löglegt, einhverra hluta vegna, að ráða ekki menntað fólk vegna þess að það sé „of hæft“. Raunveruleiki doktorsnemans er því sá að:

  1. Hann eyðir fjórum til tíu (stundum fleiri) árum í rannsóknir sem gagnast fræðasamfélaginu og almenningi
  2. Með ærnum tilkostnaði fyrir sjálfan sig
  3. Til að öðlast gráðu sem útilokar hann frá hér um bil öllum atvinnumöguleikum
  4. Nema í háskólum, sem geta reyndar ekki ráðið hann vegna fjárhagsörðugleika og plássleysis
  5. (Og svo eru á bilinu fimm til tvöhundruð manns sem sækja um hverja eina stöðu eftir því hvar í heiminum er borið niður)

Því er aftur á móti ekki að neita að þetta er gefandi starf, þó að andlegt álag geti raunar verið svo mikið að það er alþekkt um allan heim að nemendur brotna undan álaginu. Sjálfur get ég þó ekki kvartað.

Svo eru reyndar séríslensku aðstæðurnar ekki til að bæta geðheilsuna alltaf. Nú lætur trúðurinn í Stjórnarráðinu eins og hann geti bara afnumið gjaldeyrishöft í vikunni á meðan fjármálaráðherra situr á Flórída og spyr hví íslenskir launþegar geti ekki bara étið kökur, hvað þeir þurfi alltaf að vera að sífra þetta um að launin þeirra allavega haldi í við verðbólguna sem þeim kumpánum finnst svo gaman að fóðra með peningafórnum úr ríkissjóði.

Þessu lofar forsætisráðherra: að krónunni verði fleytt fyrir þinglok. Ég reikna með að flestir séu paníkerandi yfir því núna hvert í fokkanum þeir geti flúið áður en trúðurinn hleypir loftinu úr blöðrunni. Það verður kannski auðveldara að yfirgefa landið en ella nú þegar snjó hefur varla leyst nema í fimm mínútur í senn síðan í byrjun nóvember, og varla við öðru að búast en að veðurfar fari ekki bara versnandi héðan af ef satt er sem sagt er að golfstraumurinn sé á undanhaldi.

Ísland er ekki sérstaklega byggilegt land og hefur farið versnandi, bæði veðurfarslega og pólitískt séð. Stjórnvöld ráðast á grunnstoðir lýðveldisins: á lýðræðið, á lýðréttindi, á heilbrigðiskerfið, á menntakerfið, og allri gagnrýni á þetta niðurrif alls þess sem heilagt er hefur verið svarað þannig að nú svíði „vinstrisinnuðu menntaelítunni“ sárast þar sem skorið er og rétti höggstaðurinn fundinn. En þetta snýst ekkert um vinstrimennsku eða pólitík, heldur um að búa í manneskjulegu samfélagi. Einu sinni dugði orðið samfélag til að lýsa þeim gildum sem allir gátu sameinast um, en nú dugar það ekki lengur. Nú þarf að taka sérstaklega fram að samfélög séu fyrir fólk. Stjórnvöld hafna enda öllum samvirkni- og samfélagshugsjónum af því þau skilja þetta ekki. Fyrir þeim er menntun og spítalar og lýðræði bara eitthvert punt undir rassinn á kommúnistum og kennurum, svona fólki sem aldrei hefur átt gasgrill eða búið í Garðabæ.

Það er ekkert alltaf gaman að búa við þennan yfirgengilega valdhroka, þessa botnlausu heimsku sem kjörnir fulltrúar hafa tekið í misgripum fyrir hugsjón og lýðræði og flengja hver annan með og stæra sig af á flokksþingum og í fjölmiðlum. Ísland hefur aldrei staðið betur en einmitt nú, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Það var og.

Það var nú svo sem aldrei margt annað í stöðunni fyrir mig en að leita mér að vinnu erlendis eftir doktorsprófið, nema til komi óvænt staða eða nýdoktorsstyrkur fáist hér heima. Verst ef Kögunarbarnið og Vafningsfíflið verða búnir að sökkva landinu í millitíðinni. En maður getur þá kannski sent peninga heim til fjölskyldunnar eins og fólk gerði hér í eina tíð. Ef maður fær þá vinnu nokkurs staðar. En það eru áhyggjur síðari tíma. Ég hef tvö ár enn fram að því. Ef að verðbólgan étur ekki styrkinn minn.

Registur síðustu mánaða

Einhverjum kann að þykja það skjóta skökku við að ég flutti til Kaupmannahafnar í þrjá mánuði til að sinna handritarannsóknum, en hafði frá engu að segja allan tímann á meðan sem mér þótti nægilega markvert. Annars vegar felst það í því að ég hef áður búið í Danmörku og gjörþekki það samfélag, þannig að fáar nýjungar urðu á vegi mínum meðan á dvölinni stóð; hins vegar liggur það í hlutarins eðli að í vinnuferðum gerir maður fátt annað en að vinna. Ég þuklaði þarna ýmis handrit, aðallega frá 14. öld, fann lyktina af þeim, las þau, greindi og túlkaði. Þess utan hélt ég þrjá fyrirlestra og reyndi annars sem best að njóta þess að dvelja í borginni sem ég eitt sinn elskaði umfram aðra staði. Dvöl mína kostaði danska ríkið í gegnum Árnanefnd og fyrir það verð ég eilíflega þakklátur.

Síðan ég bloggaði síðast hefur mér einnig hlotnast styrkur frá rannsóknasjóði Háskóla Íslands til þriggja ára. Þá þarf ég litlar áhyggjur að hafa af því að mér takist ekki að klára doktorsrannsóknina mína um skrímsli í íslenskum miðaldabókmenntum. Það hefur ekki lítið að segja að fá viðlíka stuðning. Það er algjörlega ómetanlegt. Mér til frekara halds og trausts fjárfesti ég í nokkrum bókum um ófreskjur fyrir óumræðanlega háa upphæð sem ég hlakka til að sökkva mér ofan í nú þegar þessar sem ég keypti í fyrra eru farnar að jaskast á hornunum og ég farinn að læra sífellt minna af þeim. Bækurnar sem ég nú bíð eftir eru:

Hybridity, Identity, and Monstrosity in Medieval Britain: On Difficult Middles eftir þann hinn mikla póstmóderíska skrímslafræðing Jeffrey Jerome Cohen.

Pride and Prodigies: Studies in the Monsters of the Beowulf Manuscript eftir Andy Orchard.

The Ashgate Research Companion to Monsters and the Monstrous í ritstjórn hins valinkunna skrímslafræðings Asa Simon Mittman sem ég næstum því hitti í Leeds í fyrra eftir sérdeilis góðan fyrirlestur hans (hann var svo umvafinn grúppíum að ég ákvað að sæta færis síðar, en hitti aldrei á hann).

Metamorphosis and Identity eftir Caroline Walker Bynum.

On Monsters and Marvels eftir 16. aldar skurðlækninn Ambroise Paré sem þjónaði konungunum Hinriki II og III auk Fransis II og Karls IX. Í þeirri bók fjallar hann meðal annars um dæmi af gyltum sem fætt hafi grísi með mannsandlit, og af andlitunum megi greina hver hafi sorðið gyltuna. Ég reikna með mjög hressri lesningu. Einhverra hluta vegna er ekki minnst á bókina á Wikipediusíðunni hans.

Sjálfsagt skrifa ég einhver orð um þessar bækur þegar ég hef fengið þær í hendur. Ég ætla semsagt að halda áfram að blogga. Þið fréttuð það fyrst hér.

Miði til Kaupmannahafnar

Ég á flugmiða til Kaupmannahafnar. Slíkir flugmiðar, þótt þeir kosti ekki (rosalega) mikið, eru með því dýrmætasta sem ég veit. Miði til Kaupmannahafnar er ekki aðeins aðgöngumiði að þriðja heimalandinu, heldur að vinum, kunningjum og samstarfsfólki hér og þar í Danmörku sem ég hitti sjaldnar en ég vildi.

Í Kaupmannahöfn verð ég í þrjá mánuði að rannsaka miðaldahandrit, eitt af þessum sem menntamálaráðherra man eftir þegar hann þarf að semja ræðu en lætur þess utan sem hann kannist ekki við. Ótrúlegt að honum sé enn boðið að halda þær.

Þeim sem vilja kynna sér hvaða handrit ég ætla að rannsaka er bent á bls. 92–95 í bókinni 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar, einkum á fallegu opnumyndina á bls. 94–95. Þetta er (meðal annars efnis) veraldarsaga frá 14. öld. Það vita það fáir en veraldarsögur eru með merkilegustu bókum sem til eru. Þeir sem vilja vita hvað Snorri Stull og höfundar Íslendingasagna héldu um heiminn ættu að byrja á að lesa veraldarsögu.

Þetta er ekki allt sem ég ætla að skoða, en það helsta.

Í Árnasafni úir og grúir af ómetanlegum gömlum bókum sem búa yfir ótal leyndardómum um löngu horfna tíð. Ég finn oft fyrir virðingarleysi gagnvart þessum viskuauð, ekki síst hjá þeim sem fara með æðstu yfirstjórn menningar- og menntamála í þessu landi. Hefði bókunum ekki verið bjargað í brunanum í Kaupmannahöfn forðum mætti líkja missinum við hið glataða bókasafn í Alexandríu, bara á smærri kvarða.

Íslendingar komust ansi nærri því að verða sögulaus þjóð. Kannski ekki síst þess vegna eru Íslendingar margir mjög áhugasamir um eigin sögu. Vandinn er kannski helst sá að flestir telja sig þekkja hana til hlítar þegar við vitum í raun sáralítið, að Árnastofnun sé minjasafn en ekki rannsóknarstofnun, og að óþarfi sé að veita peningum í handritin því þau verði alltaf til — sem þau verða einmitt ekki. Þekkingin verður heldur ekki alltaf til. Hún hverfur með vísindafólkinu. Vísindafólkið hverfur þegar peningarnir hverfa.

Ég hef rannsakað miðaldatexta á eigin kostnað síðustu árin og varið til þeirrar iðju fjárhæð sem talin verður í nokkrum milljónum króna. Ég hef ekki efni á því út starfsferilinn.

Nú á ég miða til Kaupmannahafnar þar sem mér verður í fyrsta skipti á ævinni beinlínis borgað fyrir rannsóknir fremur en að ég snari því úr eigin vasa. Það verður tilbreyting. Fyrir margt löngu hafði ég orðið mér úti um litla íbúð á góðum stað í borginni. Það verður einmanalegt án Eyju og stelpnanna, en ég hlakka engu að síður til. Þeir sem ekki sjá spennuna í því að fletta skinnhandriti frá 14. öld er einfaldlega fólk handan míns skilnings.

Rauðar pöndur í rennibraut

Hljóðin af leikskólanum eru óviðjafnanleg þennan morguninn. Ein stúlkan hefur fundið upp víbrandi hljóð sem kalla mætti sonic burst ef finna ætti lýsandi heiti, og önnur tvö börn virðast ætla að skila raddböndunum aftur út í náttúruna þar sem þau munu samlagast íslenskum jarðlögum um aldur og ævi. Öll eru hljóðin þó með krúttröddum barna sem hefur svipuð áhrif á mig og að sjá myndband af rauðum pöndum að leika í rennibraut. Svo þetta er gott.

Ég er ennþá sigri hrósandi síðan í gær eftir að ég fékk góða dóma fyrir verk mín og álpaðist í kjölfarið til að lesa téð verk í fyrsta skipti síðan í apríl. Er eðlilegt að þykja ótrúlegt að maður hafi skrifað eitthvað? Ég er ekki að tala um síhangandi Damóklesarsverð impostorsyndrómsins, heldur að ég meðtek svo mikið af upplýsingum dag hvern að ég gleymi stórum hlutum úr eigin rannsóknum. Sennilega er allt þetta ferli þjálfun í að hugsa stórt. Ég er enn bara að læra. Eins gott líka að ég haldi áfram að læra. Ég er megamaskína núna samanborið við sjálfan mig fyrir ári. Þá þóttist ég vita allt og þykist þó vita helmingi minna núna.

Ætti ég endalausa peninga myndi ég kaupa mér fleiri Loebklassíkera (ég á þrjár bækur af 520). Mest langar mig í Evsebíus, Beda og Ágústínus og bíð í ofvæni eftir að fleiri komi út eftir Heródótos. Ætti ég endalausa peninga myndi ég raunar kaupa mér allt settið. Og hús í Kaliforníu. En í augnablikinu myndi ég alveg sætta mig við að eignast restina af Plíníusi og þá hina fyrrnefndu.

104

Það er hætt við að bloggið deyi ef maður passar sig ekki; til þess þarf maður að hætta að gera þessar endalausu kröfur til sjálfs sín og bara blogga um allt þetta sem aldrei verður ódauðlegt.

Bloggið um Reza Aslan var mest lesna færslan á þessu ári en ég hef ekki nennt að blogga framhaldið. Áhugasamir geta þó fengið álit fræðimanns á Jesúbókinni hans hér, í Huffington Post af öllum stöðum.

Við Eyja höfum étið töluvert í sumar fyrir öll gjafakortin sem við fengum í brúðkaupsgjöf utan eitt, og svo höfum við ferðast smáræði líka. Í vikunni sem leið vorum við í Borgarfirði, þeim íslenskasta hluta Íslands. Stelpurnar fóru í sund fyrsta daginn og á öðrum deginum spyr styttra barnið mig hvað eigi að gera þann daginn. Þar sem við vorum jú í Borgarfirði fékk hún tvo valkosti (og hvorugan góðan, kom í ljós): Annað hvort að skreppa í Reykholt að skoða Snorralaug, eða á Landnámssetrið í Borgarnesi.

Orð þurfti ekki til svars þar sem svipurinn réði úrslitum. Í stað menningarlegrar innrætingar hafði ég barnið með í búðarferð sem lyktaði með ístúr í fyrrum Hyrnuna, nú musteri ins helga Bjarna byskups ór Enneinum. Tókst þó að sýna henni haug Skalla-Gríms, minnst spennandi staðinn í samnefndum garði hvað hana snerti, og taka einn rúnt um Brákarey. Ég lagði nú ekki í að segja henni frá Brák. Kannski þegar hún er orðin aðeins stærri og/eða áhugasamari um þessa durga, forfeður okkar.

Dagarnir fara í pauf við skrifborð. En ég er glaður. Framundan eru svo flutningar í póstnúmer sem ég bjó síðast í 1990. Það er gott póstnúmer en austarlegar gæti ég ekki búið í þessari borg.

Ráðstefnur, rannsóknir og reik

Ráðstefnan í Leeds var meiriháttar. Ég myndi segja töluvert skemmtilegri en fornsagnaþingið sem haldið er á þriggja ára fresti, enda er þar ekki einblínt á Norðurlönd sérstaklega heldur á miðaldir einsog þær leggja sig. Auðvitað þurfa allir vísindamenn að sérhæfa sig en sérhæfingin er til einskis ef þeir átta sig ekki á heildinni. Og hvað mínar rannsóknir snertir þá er stærri ramminn áhugaverðari. Góður rómur var gerður að erindum okkar allra (mitt má nálgast hér), og ég var svo lánsamur að slammarinn mætti þegar ég talaði og kinkaði kolli sem óður væri.

Í kjölfarið sótti ég töluvert minni ráðstefnu í Oxford þar sem ramminn var auk þess afar þröngur og það getur verið afar gagnlegt líka að einblína á fáein skyld vandamál til að leita lausna á þeim. En til þess að finna þær lausnir þá þarf oft að leita út fyrir þrönga rammann. Og ég fékk það á tilfinninguna í Oxford að kannski fari fræðimenn nú að gera það í auknum mæli, fari að efast um viðteknar hugmyndir sem e.t.v. standa á brauðfótum. Við vitum að mörgum knýjandi spurningum um norrænar bókmenntir verður ekki svarað öðruvísi en með því að leita út fyrir þær, leita samhengisins. Ef við ætlum að rannsaka eddukvæði (svo dæmi sé nefnt) þá þurfum við fyrst að spyrja okkur að því hvað eddukvæði eru, því kannski er svarið ekki eins sjálfsagt og við viljum halda.

Í Oxford fór ég á báða barina sem Inklingarnir (óþýðandi sniðugheit í því heiti) sóttu; annars vegar The Eagle and Child, sem var upphaflegi fundarstaðurinn, en búið er að rústa fundarherbergið og sameina barinn veitingakeðjunni Nicholson’s svo mér fannst hann lítið sjarmerandi (auk þess er hann troðfullur af Tolkientúristum), hins vegar The Lamb and Flag sem er bara hinumegin við götuna og hefur ennþá yfirbragð alvöru vertshúss. Ef til vill ekki ósvipað Skindbuksen (fremur en Hviids Vinstue, þar sem þjónar eru farnir að snobba með þverslaufur).

Og nú er kannski ekki skrýtið þótt hugurinn hafi reikað til Kaupmannahafnar, því nú hefur mér hlotnast höfðinglegur styrkur frá Den Arnamagnæanske Kommission til handritarannsókna í Árnastofnun eftir áramót. Bréfið barst mér í morgun og af fenginni reynslu er húsnæðisleitin þegar hafin. Það verður gott að hitta alla vinina aftur og eignast þá fleiri. Á haustmisserinu sest ég hinsvegar á skólabekk og nem kennslufræði, sit lit-review námskeið hjá þeim Kolfinnu, Miriam og Þórdísi, og sjálfur mun ég sennilega grípa eitthvað í kennslu á misserinu líka.

En fyrst eru það önnur verkefni. Ég í sveitina með Eyju á morgun að sinna þeim. Og hvílast eitthvað í leiðinni. Brumm brumm.

Ráðstefnur

Á mánudaginn held ég til hins mikla útlands á ráðstefnu, eða reyndar tvær ráðstefnur. Það er fátt sem fær mann til að þykja maður sjálfur jafn merkilegur og ráðstefnuferðir með sínum hótelum, faglegu umræðum og hálfdrukknu kollegum. Maður situr meiraðsegja öðruvísi í flugvélum þegar maður heldur utan á ráðstefnu en þegar maður fer í frí. Maður er einbeittari, betur til hafður, samt kankvíslegur. Í DV um daginn var frétt um að stór skrifborð ykju siðleysi fyrirtækjastjórnenda. Mér finnst ekki ósennilegt að ráðstefnur hafi svipuð áhrif á sjálfsmynd fræðimanna, að minnsta kosti þangað til þeim er slátrað uppi í pontu fyrir að segja steypu.

Kannski er það bara hótelið. Það skiptir engu máli hvað hótelherbergi kostar, manni líður alltaf einsog ventúrkapítalista þegar inn er komið, og fólkið á götunni niðri er einsog iðandi maurar hvort heldur sem herbergið er á tólftu hæð eða þeirri næstu ofan við anddyrið. Míníbarinn æpir: „Tæmdu mig! Þú hefur ráð á því.“ Tekst alltaf að telja einhverjum trú um að það sé satt. Svo er skrifað blindandi undir reikninginn síðar.

Því fleiri ráðstefnur sem maður sækir því kunnugri er maður þeim týpum sem þar lifa og hrærast. Til dæmis er náunginn sem kinkar kolli af offorsi undir fyrirlestrum líkt og salurinn megi ekki án hans samþykkis vera. Það er líkast slammi á rokktónleikum. Maður býst hálft í hvoru við að höfuðið losni af og rúlli að púltinu. Oft glósar slammarinn af græðgi en reynist þegar öllu er á botninn hvolft vera manna krítískastur í fyrirspurnatímanum. Nær undantekningalaust Bandaríkjamaður.

Önnur týpa er þýski doktorsneminn. Hann hefur aldrei rangt fyrir sér af því hann fjallar aðeins um grundvallaratriði, en gerir það raunar ítarlega. Talar af staðfestu og fullvissu og hefur lærdómstitilinn M.A. á undan nafninu sínu í neðra vinstra horninu á glærunum. Fer í kerfi ef einhver spyr spurningar út fyrir kjarna efnisins. Svo er gamli jaxlinn sem lætur engan segja sér hversu lengi hann má tala og talar langt umfram tímann í óþökk allra, en hann er raunar sjaldséður orðinn. Leiðinlegastur þykir mér lykilræðumaðurinn sem hlotnast sá heiður að halda þriggja kortéra ræðu um ekkert og gerir sitt ítrasta til að beina málinu að sjálfum sér.

Ég mun að sjálfsögðu hafa uppi mína þeófrastísku týpubók og haka við þær týpur sem bregður fyrir, jafnvel mun ég blogga um einhverjar þeirra ef ég þreytist á að fylgjast með maurunum út um gluggann á reyklausa hótelherberginu mínu. Þetta verða tvær ráðstefnur í jafnmörgum borgum og því mikillar spennu að vænta á blogginu.

Þegar Sæmundur lærði tamíl

Það verður ekki af honum Helga Guðmunds tekið að hann heldur manni svoleiðis á snakki að kaffið kólnar í hitabrúsanum á meðan. Ég þekki engan annan sem hefur slíkan samræðumátt að ég gleymi kaffibolla. Hann er einnig þeirri gáfu gæddur að ef hann þarf að mæla á eitthvert annað tungumál þá segir hann „þú skilur þetta“ og þá einsog fyrir galdur skilur maður allt, og þó það væri á tamíl.

Svo tekur alvaran við á kontórnum. Jökulkalt kaffi úr hitabrúsanum og kontóristinn sem er það skyni skroppinn að hann hefur skattstjóralegasta mögulega hringitón, sem málning flagnar undan, á farsímanum sem hann skildi eftir og hringdi auðvitað linnulaust meðan hann gekk örna sinna í lengri tíma. Hinsvegar hringir aldrei neinn í hann í þau fáu skipti sem hann er viðlátinn til að ansa.

Þetta er ekki til að auka á ánægjuna, en til allrar hamingju eru flúrljósin þæg sem stendur svo þetta er ekki sem verst. Dagsverkin vildi ég að gætu orðið drýgri en raunhæft er en þannig er það líka þegar maður vinnur að sjö hlutum í einu meðan hugurinn stefnir í áttundu átt. Sennilega þarf ég bara kaffibolla til en þá á ég á hættu að ramba aftur á Helga og glata þannig restinni af vinnudeginum í Anjou og Sæmund fróða — og kannski smá tamíl í leiðinni.

Markaðsbúskapur rannsakandans

Gamall maður kemur með hundi sínum innanúr hrauni og geingur í veg fyrir lestamenn:
Og hverjir eru mennirnir?
Hinn feiti svarar: Ég er hans majestets bífalíngsmaður og prófoss.
Óekkí, muldraði gamli maðurinn hás einsog rödd úr fjarska. Skaparinn er nú samt sá sem ræður. – HKL

Ég er svona náungi sem vakir á næturnar með samviskubit og les kennslubækur í fornum germönskum málum. Samviskubitið er vegna þess að mér finnst ég vera svo illa lesinn og að ég viti ekki neitt. Það hefur samt enginn lagt upp með að ég læri gotnesku eða fornensku nema ég sjálfur. Og það eina sem ég les eru miðaldafræði. Mér finnst ég bara ekki lesa nóg af þeim. Tilraunir til að lesa annað fara fljótt út um þúfu; ég byrjaði til dæmis að endurlesa Íslandsklukkuna í gær en háðið var í of grófum kontrast við hitt lesefnið til að skorpnaða fræðisálin gæti meðtekið. Það var einsog að horfa með öðru auganu á Klovn í miðju atvinnuviðtali.

Merkilegt nokk er ég ekki einn um þetta. Til er heil gomma af síðum fyrir framhaldsnema að leita sér huggunar í. Vinsæl myndasaga er PhD Comics sem fjalla allar um tímadráp og tilgangsleysi framhaldsnáms. PhD Stress er gifsíða um hugvísindi og streitu (ég skil fæsta brandarana þar). Og svo rakst ég í kvöld á giffærslu á Buzzfeed sem heitir What grad-school is really like þar sem ýmislegt er sem ég kannast við.

Margar fleiri svona síður eru til um víðan vefinn en maður rekst líka á þetta á skrifstofunni í Gimli. Margir þar eru með hvatningsorð uppi á borðum. Einn kollegi er með fræga enska skiltið „Keep calm and keep going“ hangandi uppi. Annar er með æðruleysisbæn. Það eru beisiklí allir að fara úr hárunum af stressi yfir að vera ömurlegir, óþarfir og illa lesnir. Framtíð ekki aðeins íslensks fræðasamfélags, heldur fræðasamfélags alls heimsins. Það er dálítið merkileg tilhugsun.

Hvers vegna líður doktorsnemum svona? Kannski eru þeir margir illa lesnir, en sennilega hafa þeir bara ekki lært það enn að það er ekki hægt að gera hlutina svona nákvæmlega, að það er ekki nægur tími til í heiminum til að gera eina rannsókn nægilega ítarlega úr garði til að það borgi sig; tíminn vegur á endanum á móti gæðunum. Þannig að um þetta er farið einsog öðru í þessum heimi að þegar öllu er á botninn hvolft snýst það gæðastjórnun og arðsemissjónarmið. Ég er ekki viss um að ég sé sáttur við þá niðurstöðu en þetta er nú einu sinni bara blogg.

Lestur og bókasöfn

Ég skil ekki hvernig ég hef komist svona langt í námi án þess að hafa lesið meira. Samt er mér fyllilega ljóst alltaf þegar ég les nýja bók hvar ég er ósammála höfundi og hvar ekki, og gæti skrifað heila ritgerð um forsendur mínar í hvert sinn. Fræðirit eru ígrundaðar ályktanir kollega minna sem oftast nálgast efnið úr annarri átt en ég myndi gera. En mér finnst ég eiga að hafa lesið allt sem allir hafa skrifað hingað til samt sem áður. Ekki það að neinum entist ævin til þess þótt hann vildi.

Eina rétta svarið við spurningunni „Hefurðu lesið allar þessar bækur?“ er: Nei, auðvitað ekki. Umberto Eco lýsti því einhversstaðar þannig að hans eigin gríðarstóra bókasafn sé ekki safn þess sem hann hafi lesið heldur sé það ætlað til rannsóknarvinnu, og að það sé umtalsvert meira virði að eiga ólesnar bækur en lesnar. Ég er ekki endilega sammála þessu um ólesnu bækurnar, en bókasöfn eru í eðli sínu rannsóknarstofnanir en ekki verðlaunagripir. Ef ég fengi að lifa svo lengi að ég gæti lesið allt sem ég nú þegar á þá yrði ég þakklátur, en það mun ekki verða. Ég byggi upp mitt bókasafn á sömu forsendum og Eco.