Genie

Fyrr í dag horfði ég á heimildarmynd um úlfabarnið Genie. Ég held að aldrei fyrr hafi svo margar tilfinningar tekist á innra með mér samtímis. Einhverjir í bekknum grétu yfir myndbandinu. Ég furða mig ekki á því, ég átti ansi erfitt með mig sjálfur. Enda er saga hennar öll afskaplega sorgleg og á köflum hryllileg. Forboðna tilraunin kom hins vegar á hárréttum tíma fyrir málvísindin …

Ég er ekki viss um hversu gömul myndin er, mögulega er hún gerð seint á níunda áratugnum eða snemma á þeim tíunda, en þessi Wikipediasneið kom ekki fram í henni:

At the age of 20 months, Genie was just beginning to learn how to speak when a doctor told her family that she seemed to be developmentally disabled and possibly mildly retarded. Her father took the opinion to extremes, believing that she was profoundly retarded, and subjected her to severe confinement and ritual ill-treatment in an attempt to „protect“ her.

Í myndinni kemur raunar fram að ekki sé vitað hvað föðurnum hafi gengið til, en þessi skýring finnst mér afar hæpin af einni einfaldri ástæðu: Hann skaut sig þegar honum varð ljóst að Genie var sloppin. Það þýðir að hann vissi upp á sig sökina, mannhelvítið vissi upp á hár hvað hann hafði gert barninu sínu.

Eitt í þessu öllusaman er líka alveg á hreinu. Susan Curtiss, málfræðingurinn sem lengst af rannsakaði Genie og hjálpaði henni að læra að tala, skrifaði doktorsritgerð um rannsóknir sínar. Hana ætla ég að lesa.

Daglega brauðið

Átti alveg afskaplega slæman dag í gær, varð bara verri og verri eftir því sem á leið. Undir miðnætti var ég orðinn verulega gramur. Dagurinn í dag hefur verið fínn til mótvægis, að veðri undanskildu. Himinninn hefur raunar verið afar íburðarmikill og blandast vel við haustlitina. En litirnir hverfa óðum í haustrokinu sem nú dynur yfir. Það þykir mér alltaf jafn leiðinlegt.

Ræddi við Hall yfir msn í gær og get nú ekki komið þeirri hugmynd úr kollinum að flytja til Kaupmannahafnar næsta vetur og læra norræn fræði, nú eða bara bókmenntir. Með þetta fast í huganum hljóp ég niður í pósthús um hádegisbil að póstleggja bréf sem ég náði ekki að senda frá Danmörku. Ég hef áður sagt einhversstaðar á þessum síðum að einhverra hluta vegna vilji hann alltaf rigna þegar maður þarf að póstleggja bréf. Því til vitnis grétu himnarnir örfáum tárum yfir mig er ég gekk út á Austurstræti bara svona til að stríða mér örlítið.

Hélt ekki einbeitingu í hljóðfræðinni hjá Eiríki Rögnvalds fyrr en ég fékk síðasta verkefni aftur í hendurnar. Hélt að maðurinn gæfi ekki fullt fyrir verkefni. Metnaðurinn fylgdi mér í hérumbil hálftíma á eftir. Svo fór ég aftur að hugsa um útlönd til mótvægis við innlönd og sú hugsun situr enn föst í hugskoti mér. Nú hefur Jón Örn gefið kost á sér í væntanlega frægðarför til Parísar í desember og er það vel. Með hann í fararbroddi er ómögulegt annað en við lendum í háskamiklum ævintýrum. Jafnvel gæti svo farið að við vöknuðum skyndilega í vitlausu landi. Strax farinn að hlakka til.

Dagur að kveldi kominn

Hér verð ég að lesa upp í kvöld, bara örfá lítið ljóð. Eftir það ætla ég að fá mér einn kaldan, á það líklega skilið eftir alla eljusemina í dag. Þrjú verkefni á einum degi eru ekki afleit afköst, og ef til vill ekki alltaf æskileg afköst. Ástæða minnar skyndilegu atorkusemi er hins vegar einföld: Ég hef ekki tíma um helgina, og er illu þá betur aflokið.

Bloggað úr vinnunni

Sem ég buðlast við að falla ekki í öngvit í gegndarlausri baráttu við hita og ógleði mæti ég í skóla og vinnu og þykist vera hress. Svitna viðstöðulaust í lófum og í andliti. Það veit ekki á gott.

Stend greinilega styrkum fótum í inngangskúrsinum að málfræði hjá henni Siggu Sig. Hef verið að fá góðar einkunnir og er vel kominn á leið með að koma mér í mjúkinn hjá henni líkt og hjá öðrum kennurum gegnum tíðina (mér er það einstaklega lagið). Í dag gaf hún mér nefnilega áritaða skýrslu með kveðju frá höfundum, um rannsókn sem hún lét gera á málnotkun gagnfræðaskólanema veturinn 1999-2000, og ég tók þátt í. Þessu komumst við að í fyrsta tímanum sem var kenndur. Gaman að því.

Í dag var farið í tíðir og horf. Get ekki annað en tekið undir með Höskuldi Þráinssyni að það eru bara tvær tíðir í íslensku. Hinar tíðirnar lýsa nefnilega mun fremur horfi en tíð.

Vandamál dagsins

Sá mikli áhugi sem ég eitt sinn hafði á hljóðfræði er alveg fokinn út um gluggann. Liggur við að ég öfundi bókmenntafræðinema að fá að rúnka sér yfir bókmenntum daginn inn og daginn út í stað þess að lesa þessa epík: „Greinimörkin sem notuð eru [til að greina á milli samhljóða s.s. [i] og [j], innsk. bloggara], t.d. hljóðmyndun, hljóðgildi og atkvæðisgildi, eru hverful og geta brugðist á úrslitastundu.“ Eins gott að hafa það á hreinu þegar heimurinn rambar á barmi hljóðmyndunarlegra ragnaraka. Nei, þá hringi ég heldur í fónembösterana Kristján Árnason og Jörgen Pind.

Enn mælti hann

Fljótsdæla saga lofar einnig góðu:

Þorvaldur svarar: „Eg vildi að þér segðuð mér þau tíðindi er hér hafa orðið í yðrum híbýlum. Þykist eg það vita að mikil munu orðin.“

Jarl svarar: „Hví mun eigi verða svo að vera? Eg átti mér eina dóttir, fyrr en þessa sveina tvo, er Droplaug hét. Það var kallað að hún væri vel mennt. Eg unni henni mikið. Á hinum fyrrum jólum hvarf hún héðan á burt. Hana tók jötunn sá er Geitir heitir. Á hann þar byggð er þú þóttist koma. Það heitir Geitishamar en það fjall heitir Geitissúlur. Að þeim manni verður mörgum mein. Meiðir hann bæði menn og fé en sjá meinvættur er mest á öllu Hjaltlandi. Hef eg það mælt að þeim manni mundi eg hana gefa ef nokkur væri svo frækinn að henni næði á burt.“

Þorvaldur kvaðst það ólíklegt þykja að hún mundi þaðan nást.

Jarl svarar: „Eigi mundi eg hana félausa á burt hafa látið ef eg hefði ráðið. Sýnist mér þú skyldur til að leggja þig í nokkra hættu er þú hefur fyrstur til orðið eftir að spyrja.“

Þá svarar Þorvaldur: „Eg vildi aldrei eftir hafa spurt“ og snýr þegar á burt og til sætis síns. Hann mælti við öngvan mann á því kvöldi.

Fannst þat Arngrími svá fyndit at hann blöggah varð.