Kókómalt og popp

Iðunn Soffía er barn engu öðru líkt. Í morgun spurði hún mömmu sína, sem brást forviða við, klukkan hvað hún færi til tannlæknis. Því hafði Eyja alveg gleymt en Iðunn var alveg með þetta á hreinu og vildi ekki fyrir nokkra muni verða of sein til tannlæknisins (ólíkt til dæmis stjúpföður hennar sem á hennar aldri hefði þagað einsog dauðinn í von um að tannlæknatíminn gleymdist). Hún á líka sitt eigið dagatal sem hún notar til að strika út dagana sem eru liðnir af árinu og það hjálpar.

Það var ofboðslega gaman hjá okkur Iðunni í gær. Eftir kvöldmat á Stúdentakjallaranum með Eyju, Gelsu, Hildi og Stínu frænku fórum við Iðunn heim með viðkomu í Sunnubúðinni þar sem við fengum kókómalt og popp og horfðum á Simpsonsmyndina. Aldrei hefði mér dottið í hug að horfa á hana með íslensku tali nema af því Iðunn stakk upp á því, og hún reyndist vera ágæt þannig líka. Ekki man ég hvort Davíð Þór þýddi eða hvort hann talsetti líka, en ég þekkti að minnsta kosti ekki röddina ef hún var til staðar. Örn Árnason var ágætur Hómer og bar raunar af leikurunum. Svo lásum við saman fyrir svefninn.

Ég blogga ósköp lítið um fjölskyldumál en ég fyrst ég er byrjaður læt ég það flakka í leiðinni það sem Iðunn sagði við mig síðast þegar ég las fyrir hana: „Þú ert nógu góður til að vera gullið hennar mömmu.“ Henni tókst svo ágætlega að sofna í klessunni sem stjúppabbi hennar hafði bráðnað í yfir allt rúmið. Það er varla hægt að hugsa sér fallegri hlut til að segja við stjúppabba sinn.

Ýmsu snatti tókst mér að sinna í dag. Fór í Lánasjóðinn þar sem alltaf er gaman að grínast með heimabankanotkun mína („Heimabanki, hvað er það?“), í Elkó að kvarta undan vídeótækinu sem ég keypti þar sem ég komst að því að Smáís bannar verslunum að selja tæki sem spila bæði ameríska og evrópska diska, og loks í Góða Hirðinn þar sem ég fann bókahillu ofan á skrifborðið mitt. Þá hef ég samtals fjórar hillur í vinnunni og get ferjað fleiri bækur hingað. Sumir ormar sitja á gulli en vér bókaormar hegðum okkur ögn öðruvísi. Núna hef ég pláss fyrir Flateyjarbók. Ég er því alsæll í bili uns aftur þrengir að.

Fræðilegur þvættingur og sitthvað fleira

Ég rakst á hugtakið „the primary sadistic eroticism of the infant“ í rökstuðningi mannfræðings fyrir því að sálgreining væri nauðsynleg í allri umfjöllun um ófreskjur. „Beyond this modest and unobjectionable observation,“ bætir hann við, „but still in a strictly Freudian sense, we may add that the monster may stand for the Olympian castrating father of fantasy“ [leturbreyting mín]. Ekki getur nú allt verið gáfulegt sem maður les.

Þegar ég velti fyrir mér bulli í mínum fræðum átta ég mig á því að ég veit ekki hvernig bull er í öðrum fræðum. Hvernig er bull í efnafræði? Ég ætti erfitt með að sjá það. Að hinu ber að hyggja að vísindamenn eru ekki alltaf á eitt sáttir um hvað telst vera bull. Áreiðanlega eru einhverjir til sem eru reiðubúnir að skrifa upp á hina sadísku erótík kornabarna, hvort sem það er opinberlega eða í laumi (eða í skýrslum lögreglunnar).

Nóg um að vera þessa dagana. Fyrir utan væntanlega grein í vor þá verð ég með fjóra fyrirlestra á þessu misseri auk einhverrar kennslu í Háskólanum. Vonandi fylgir svo grein seinnipartinn í ár upp úr einum þessara fyrirlestra. Kannski verður svo grein eftir mig í erlendu riti í desember. Verst bara að ég er húðlatur og kem mér ekki upp úr lestrarhjólfari síðasta misseris. Ég geri þá a.m.k. ekkert af mér á meðan.

Í nútímaþjóðfélagi þykir víst töff að vera upptekinn (ekki skil ég hvers vegna), en þetta er ekki sett hér á blað (vef, skjá?) til að sýnast töff, heldur til að reka mig áfram til verksins.

Svikaraheilkennið

Hvenær hugsar maður of mikið um einhvern einn hlut, eða eitthvert eitt mengi hluta? Hvenær nálgast áhugi á einhverju afmörkuðu efni þráhyggju gagnvart því? Retóríska spurningin hvort ég vissi að til væri fólk sem tæki sér frí um helgar hafði enga merkingu fyrir mér á sunnudaginn sem var; það fólk hlyti bara að vera í leiðinlegri vinnu.

En ég átta mig betur á því núna þegar það hefur fengið að gerjast aðeins að auðvitað nær það ekki nokkurri átt að sunnudagsplanið nái ekki lengra en að göngutúr í snjónum – með Radiolab í eyrunum – upp Eiríksgötu, niður Þórsgötu og Baldursgötu að Laufásvegi, Bragagötu að Sóleyjargötu og gegnum Hljómskálagarðinn að Þjóðminjasafni, inn á Bókhlöðu að erindagjörðast og hlamma mér svo niður í Gimli með rjúkandi (nes)kaffibolla og njóta fræðistarfa. Æ, þetta var allt svo notalegt samt.

Staðreyndin er sú að ég gaf upp á bátinn framtíðarstarf til að leita mér frama á einhverjum aðgangsharðasta vettvangi sem um getur, þar sem samkeppnin er gríðarleg, og á versta mögulega tíma í efnahagslegu tilliti. Ekki þar fyrir að aðstæður verði endilega betri héðan af – þróunin er í þá átt að smámsaman láta háskólunum, sér í lagi hugvísindadeildum, blæða út í stað aukinnar innri samþættingar, hagræðingar og fjölgun býrókrata. En ég á ekki við það, í þessu samhengi.

Ég er á sjöunda ári í háskólanámi sem gagnvart Íslendingum telst vera íslenskunám en gagnvart öllum öðrum norrænunám. Að því loknu taka við styrkumsóknir og hark í mörg ár áður en mér tekst að troða mér inn í háskóla á botninum hvaðan ég vinn mig upp eftir því sem eldist úr stéttinni. Ég verð „of hæfur“ fyrir flest önnur störf en þetta eina sem þráhyggjan keyrir mig áfram til að mennta mig til að sinna. En sú staðreynd er það síðasta sem ég reyni að hugsa um.

Næstu (tæpu) fjögur ár fæ ég að búa í bólu síðustu námsáranna. Þá hugsar maður um aðra hluti en að fá ekki vinnu eftir vörn, einsog það hversu lélegur fræðimaður maður er samanborið við alla aðra. Það kallast svikaraheilkenni og er mjög algengt fyrirbæri. Ég þarf ekki aðeins að standast mínar eigin kröfur, heldur þarf ég að vinna mig upp í að verða eins fær og allir í kringum mig – sem er víst alger tálsýn en það gleymist annan hvern dag. Mest er baráttan við eigin kröfur, eða öllu heldur slagurinn um að reyna að standast þær. Og svo rankar maður við sér einn góðan veðurdag og uppgötvar að maður mun aldrei standast þær. Kröfurnar eru óraunhæfar. Rannsóknin felur aldrei allt það í sér sem hún ætti að gera. Efnið verður aldrei tæmt og fókusinn þrengist ennfremur dag frá degi. Hið almenna hverfur og leysist upp í –– kannski eitthvað allt annað en lagt var upp með í upphafi.

Og hvað gerir maður þá? Ekkert, nema að mæta næsta dag aftur í vinnuna og halda áfram að puða. Þráhyggjan skilar einhverju að lokum, og vonin er að eftir tíu ára háskólanám hafi mér tekist að ná utan um nokkurn veginn það lágmark sem mér finnst boðlegt að miðlungs akademískur ræfill hafi tök á. Og helst miklu meira en það.

En þessar kröfur koma ekki utan frá, og þær eru ekki algerlega mín eigin uppfinning heldur; þær eru afleiðing þess að hafa oftar en einu sinni verið í þeim sporum að hvorki ég né aðrir höfðu trú á mér til nokkurs, af því ég féll í framhaldsskóla ekki einu sinni, heldur tvisvar, og í kjölfarið upplifði ég afar sterka en ímyndaða niðurlægingu vegna þess. Ég upplifði tilfinningar sem ég skildi ekki en ég tel nú að hafi verið kvíði og jafnvel væg, áunnin félagsfælni. Það gekk svo langt að ef manneskja sem ég mætti brosti, til mín eða einhvers annars, þá var því á einhvern hátt beint gegn mér. Það gat ekki annað verið en að allir væru að horfa á mig, öllum stundum, og henda gaman að mér. Þetta er það versta sem ég hef upplifað og ég er stundum ekki viss um hvort ég hafi nokkru sinni jafnað mig alveg.

Á dögunum var mér boðið í furðulegt samkvæmi þar sem ég var spurður hvað ég gerði. Það er versta spurning sem ég gæti fengið. Annað hvort fylgir því framhaldsspurningin hvað ég geti nú gert við þá menntun, eða þá að ég þarf að reyna að útskýra rannsóknina mína. Í þetta sinn fékk ég í fyrsta skipti þau viðbrögð að spyrjandinn hopaði, sagði „Vóó“ og lét einsog ég væri alltof fínn fyrir þetta partí – annað hvort það eða þá að ég hafi verið það hrokafullur að hafa sett mig á háan hest yfir hann og alla aðra. Eða eitthvað. Ég benti honum á að ég væri nú bara námsmaður. „En þér nægir greinilega ekki masterinn!“ sagði hann þá, og ég skildi ekkert hvað hann átti við. Og þar með upplifði ég í fyrsta sinn að vera orðinn „reject“ hinumegin frá – pottþétt sömuleiðis bara mín upplifun en ekki hans, einsog með niðurlæginguna forðum.

Það er til fólk sem tekur sér frí um helgar. Ég er enn að velta því fyrir mér hvers vegna ég geri það ekki. Þetta er einsog með hraðaksturinn: það munar kannski örfáum mínútum að aka 30km hraðar en löglegt er. Sama gildir um það hvort maður mætir á skrifstofuna um helgar eða ekki þegar þetta er fjögurra ára prósess hvort eð er. En –– ég á bágt með tilhugsunina um að taka mér of mikið frí. Ég er nýkominn úr jólafríi sem endist mér allt árið, tel ég mér trú um. Sú tilfinning felst öll í vanmættinum sem ég enn finn stundum fyrir. Af því að eins vont og það var þegar enginn hafði trú á mér, þá var það ennþá verra þegar ég hafði ekki trú á mér sjálfur. Og kannski snýst þetta blogg dálítið um það. Baráttuna við að halda trúnni.

Ég veit alveg að ég get þetta, að ég er fær. Ég veit það bara mismikið eftir því hvaða dagur er og hvorumegin ég fer fram úr rúminu þann daginn. Á hinn bóginn er það þegar ég er hvað mest viss um eigið erindi í fræðunum að ég mæti í vinnuna á sunnudegi. Hvernig ætli standi á því?

The Middle Ages' Greatest Hits

Það var ánægjulegt að fá póst frá Amazon með uppástungum um ‘best selling medieval history’. Sér í lagi þegar engin bók í mínu fagi selst nema það standi VIKING eitthvað með hástöfum á kápunni. Sem er aftur á móti ergilegt þar sem allt víkingatal er beinlínis villandi. Boethius var á listanum. Boethius bestseller stuðlar fallega.

Reykingafólkið með rjúkandi kaffibollana sína utan við Árnagarð færir mér nostalgíu. Hálft ár síðan ég hætti að reykja á morgun.

Því meira sem ég les af Samakenningu Hermanns Pálssonar því sannfærðari verð ég. Ekki vegna þess að Hermann færi svo sterk rök fyrir máli sínu, þau færir hann sárafá þegar upp er staðið, heldur vegna þess hversu sjúklega mörg dæmi hann telur upp sem ljóslega eru hafin upp yfir handahóf (það eru raunar ekki nándar nærri öll dæmin hans, en góðu dæmin tala sínu máli aftur á móti). Ég er spenntur fyrir möguleikunum. Fræði eiga enda að vera spennandi; ólýsanlega óskiljanleg er mér sú hugmynd að fræði séu þurrt og leiðinlegt staðreyndastagl. Jafnvel leiðinlegustu fræði eru áhugaverð í sjálfum sér. Nema kannski viðskiptafræði.

Hið daglega registur

Mér hefur fundist ég hafa ná að gera heilan helling síðan ég kom úr jólafríi (hvenær sem það annars var, varla meira en vika síðan). Ég hef sent umsókn um þátttöku í málstofu í Oxford í júlí, þar sem ég verð hvort eð er á ráðstefnu í Leeds um sama leyti. Þar verð ég með erindi sem annað hvort verður afskaplega vinsælt eða ofboðslega óvinsælt. Það getur alltaf brugðið til beggja vona um slíkt. Ég verð einnig með fyrirlestur á Hugvísindaþingi í mars (það kom í ljós fyrir um tveim dögum) svo þá hef ég að einhverju að stefna. Grein í bígerð um sama efni sem er hálfskrifuð. Áhugaverðara efni fyrirfinnst víst ekki, jafnvel þótt víða væri leitað.

Ég hef líka sent styrkumsókn til tveggja rannsóknasjóða og bráðum fer ég að vinna í annarri umsókn í þriðja sjóðinn. Ég hef að mestu leyti undirbúið kennslu fyrir janúar, í námskeiði sem ég er aðstoðarkennari í. Á aðeins eftir að fá athugasemdir frá aðalkennaranum. Ég hef fundað. Ég hef lesið greinar. Ég hef lesið í (góðum, til allrar hamingju) bókum. En mest er um vert að ég hef svarað tölvubréfum jafnharðan og mér hafa borist þau. Það er nú aldeilis meira en hægt er að segja um suma. Eitt minna mörgu áramótaheita er svo að svara einum aumingjans manni sem ég hef vanrækt, en sá sendi mér tölvuskeyti í september.

Svo hef ég unnið í nokkrum bókum. Það er mesta furða að maður verði ekki geðveikur á svona verkefnaflakki, en þvert á móti þá virðist það gefa orku. Eitt verkefni sligar, þrjú styrkja, fimm er kannski pushing it, sem sagt er.

Auðvitað hef ég ekki gert allt þetta á einni viku. Ég hef unnið í þessu flestu í langan tíma. En þegar hlutirnir hlaðast upp svona þá finnst manni sem maður hafi gert heilu ósköpin. Og já, svo ég svari einu af mínum fjölmörgu aðdáendabréfum: ég hef hugleitt að endurnefna bloggið Innsýn í Fílabeinsturninn, en agentinn minn telur að það væri ef til vill óheppilegt í markaðslegu tilliti og ég hlýt væntanlega að kyssa vöndinn rétt einsog aðrir.

Lukkunnar laufgosi

Ég er afskaplega heppinn maður. Það er ekkert svo langt síðan ég hætti að gera kröfur um að fá mikið í lífinu og fór að gera meiri kröfur til sjálfs mín í staðinn (segi ég og hljóma einsog pseudóintellektúalinn Paulo Coelho), en síðan þá hef ég fengið meira en mér finnst ég í raun hafa átt tilkall til.

Ég á konu sem elskar mig og stjúpdætur sem tóku mér vel frá upphafi. Mér hafa hlotnast meiri tækifæri til menntunar en ýmsum vinum mínum (sem ekki njóta þeirra forréttinda að geta kvartað undan LÍN), og ég hef fengið að stunda nákvæmlega það nám sem ég vildi. Ég var reiðubúinn að stunda það hvar sem er í raun en örlögin höguðu því þannig (ekki í alvörunni, þetta er orðatiltæki) að ég fann ástina og námið í sama landi. Og ég er svo heppinn að hún bæði skilur áráttuna þar sem hún hefur sjálf lokið doktorsnámi (og doktorsnám er, eftir því sem ég kemst næst, áralöng æfing í áráttuhegðun) og hefur þolinmæði gagnvart henni.

Allt nám mitt til þessa hef ég stundað með það að markmiði að gera það sem ég geri núna. Það hefur verið draumur minn síðan í menntaskóla, lítilfjörlegur sem hann annars er. Ég er líka svo heppinn að ég hef aðstöðu til þess starfa hjá Hugvísindastofnun, mér að kostnaðarlausu. Þar get ég setið umkringdur bókunum mínum við rannsóknir allan liðlangan daginn. Ég hef ekki fleiri lífsmarkmið en ást og visku og á hverjum degi reyni ég að rækta hvorttveggja (kannski ég prófi að skrifa bók í nafni Coelhos og sjái hvernig hún selst).

On monsters: an unnatural history of our worst fears eftir Asma beið mín á pósthúsinu í gær og ég er búinn að lesa rúman þriðjung af henni. Þrjár aðrar eru enn á leiðinni: Monsters: evil beings, mythical beasts, and all manner of imaginary terrors eftir Gilmore, Monsters, marvels and miracles: imaginary journeys and landscapes in the middle ages, og bók næstum því sama titils, Marvels, monsters, and miracles: studies in the medieval and early modern imaginations. Það er víst nóg annað að lesa meðan ég bíð eftir þessu. Ég hlýt að teljast lánsamur að hafa tímann til að lesa þetta.

Skemmtileg tenging

Kannski vantaði hann bara knús
Ég prófaði í dag að nota Google Scholar, í fyrsta sinn síðan hann var glænýr. Nú vildi ég að ég hefði verið duglegri að nota hann. Þar fann ég ýmislegt utan míns fræðasviðs sem ég þó get stuðst við í skrímslarannsóknum. Til dæmis þessa grein sem birtist í Journal of Experimental Psychology, en í upphafi hennar segir:

Belief in the existence of supernatural beings is a cultural universal. Every culture observed by anthropologists or unearthed by archeologists has endorsed beliefs and practices predicated on the existence of human-like beings with non-human properties, such as beings who change shape, beings who read minds, or beings who control the weather. Belief in the existence of supernatural beings is widespread not only across cultures but within cultures as well (bls. 1123).

Samt neita margir fræðimenn að horfast í augu við þetta. Merkilegt.

Önnur grein sem ég fann og ætla að lesa fljótlega er The plural of ‘anecdote’ can be ‘data’: statistical analysis of viewing distances in reports of unidentified large marine animals 1758-2000. Greinarhöfundur telur að lýsingar fólks á sæskrímslum séu nægilega nákvæmar og komi allar heim og saman á þann veg að ætla megi að mörg þeirra hafi verið til í raun og veru, og séu það jafnvel enn, þau liggi bara ófundin í mestu djúpunum.

Ég skal ekkert um það segja, en mér finnst þetta áhugavert. Það er óvænt tengingin á milli greinanna tveggja sömuleiðis.

L'étranger e(s)t le monstre

Að skipta úr Edgar Allan Poe yfir í Rudyard Kipling er einsog að koma ofan af Vatnsskarði í blindbyl niður í Skagafjörð um sumar. Þar á ég við ritstílinn en ekki efnið. Öll viðbrögð ég-sins (allar söguhetjur Poes eru ég) í The Fall of the House of Usher (ekki „tónlistarmannsins“) eru yfirdrifin, úr samhengi við aðstæður; ég-ið er myrkfælin „dramadrottning“. Svo er hann rasisti, sem passar við skrímslateóríuna mína; hinar villtu þjóðir eru, í mannkynssögunni, ófreskjur. Kipling hefur oft verið tengdur við kólóníalisma, ekki síst af eftirlendufræðingum, en þrátt fyrir alla hans hvítu byrði þá finnur maður ekki hjá honum þá skoðun að múslimar séu ómennskir. Þvert á móti gætu hörðustu dómarnir sem finna má í The Man Who Would Be King allt eins verið lýsing hans á Lundúnum ef maður aðeins skiptir út indversku terminólógíunni.

~

Í hryllingsbókmenntum (kvikmyndir teljast þar með) er lausnin alltaf fólgin í einni bók, eða einhverju einu ítemi öðru. Hafið þið tekið eftir þessu? Söguhetja fer til sálfræðings/galdralæknis eftir að hafa lent í yfirnáttúrulegum hremmingum og viðkomandi segir henni að lesa þessa bók. Svo reynist svarið liggja þar. Galdra-Loftur leitar einnar galdrabókar, Rauðskinnu, sem á að leysa öll hans vandræði (lesist: valdafíkn). Jack Nicholson í Wolf er uppálagt að lesa eina tiltekna bók, sem hann afþakkar. Hann fær þá einn tiltekinn verndargrip sem á að afúlfa hann, ef svo má að orði kveða. Hann hættir að nota hann þótt ljóst sé að gripurinn virkar. Í Dumasarfélaginu er það ein bók, sem varðveist hefur í þrem frábrugðnum eintökum af annarri bók, en allt annað er fals. H. P. Lovecraft var auðvitað með Necronomicon.

Þetta sama má svo, sjálfsagt engum til furðu, finna í þeim samfélögum eða undirsamfélögum – líklega má kalla það menningarkima – sem aðhyllast einhverja dulspeki. Sumum nægir einfaldlega að lesa eina uppdiktaða Necronomicon –hverja af þeim mörgu bókum sem ganga undir því heiti sem er – eða nokkrar svoleiðis, til að þykjast hafa höndlað sannleikann. Mér finnst það vera merkileg hugmynd, að telja að sannleikur einhvers máls geti leynst í einni bók, hvað þá heils heims. Kannski finnst mér það ekki síður merkilegt af því að einhvern tíma var ég haldinn þessari sömu ranghugmynd um bækur. Til þess að komast að smávægilegum sögulegum sannleik þarf ég hinsvegar að lesa heil ógrynni af bókum. Framsetningin er auðvitað auðveldari svona, og hugmyndin er heillandi, að finna eina gamla skræðu í gleymdu bókasafni og leysa með henni gátur. Poe var alltaf með þetta „forgotten lore“. En séð utan frá mætti líka segja að hryllingsheiminn hrjái akademísk leti.

Hvað er skrímsli?

Skrímsli eftir Áslaugu Jónsdóttur
Hvað er skrímsli? Sé íslenska orðinu slegið upp í Google finnur maður myndir úr skrímslabókum Áslaugar Jónsdóttur og Disneymyndinni Monsters Inc., en einnig koma fram myndir af einni ófreskjunni úr myndinni El laberinto del fauno og meintu skrímsli sem skolaði upp í fjöru í Montauk fyrir fjórum árum sem ég fæ ekki betur séð en að sé hundur. Leit að orðinu monster færir okkur á hinn bóginn auglýsingar fyrir orkudrykk.

Við þekkjum skrímslið á því að það er öðruvísi en önnur dýr. Raunar er það oft blanda úr öðrum dýrum, óskapnaður í kristilegum skilningi, og við höfum lært að dýr sem ber eiginleika margra dýra í senn er vanskapað, jafnvel af hinu illa. Griffill er blanda af erni og ljóni, mantíkóra er blanda af ljóni og manni. Andstæðan á milli hins náttúrulega og ónáttúrulega verður óskýrari því meiri sem líkindin á milli okkar og hins eru. Menn eru ekki dýr, og dýr sem sækir líkindi til manna er ófreskja. Mestu ófreskjurnar eru þær sem við fyrstu sýn virðast vera mennskar: afturgöngur, uppvakningar, vampírur. Þær eru grótesk afbökun á fullkomnu sköpunarverki Guðs. Það er ekki síst í gegnum trúarbrögð sem okkur er kennt að hata þær.

En það er ekki endilega að svo miklu leyti vegna þeirrar perversjónar á hinu mannlega og náttúrulega sem skrímsli eru svo hötuð, heldur einmitt vegna þess að þau spegla okkar eigin viðhorf sem við kannski þorum ekki að horfast í augu við. Í grunninn er skrímslið við. Við erum skrímslið. Þess vegna er nálgun Áslaugar Jónsdóttur kannski sú sem er mest blátt áfram, því hún leiðir alveg af hugmyndinni um skrímslið sem spegil sjálfsins; skrímslin hennar borða, fá flensu og lesa fyrir svefninn undir sænginni sinni. Og þegar við sjáum að þau eru einsog við, þá lærum við líka að hætta að óttast þau. Sú niðurstaða er eins gömul og skrímslasagan.

Grunnur að skrímslafræðum

Leslistar eru merkileg fyrirbæri. Ég get sett saman svoleiðis lista og fundist alveg augljóst samhengi á milli verkanna, jafnvel að rannsóknarefnið hljóti öllum að vera dagljóst sem sjá hvað ég les, en þannig er það auðvitað ekki. Fyrir hverjum og einum hafa slíkir listar ólíka merkingu, jafnvel enga merkingu. Ef ég segði að ég hefði nú keypt skrímslabókina eftir David Gilmore í regnskógi alnetsins Amazon, og Annál pláguársins eftir Defoe, ofan í allt hitt sem ég nefndi í gær, hvað ætli það segði lesendum þessa bloggs um viðfangsefni mín? Ætli það kæmist nálægt einhverri svipaðri hugmynd, eða myndi reynsla þess og áhugamál vekja með þeim einhverjar aðrar, óskyldar hugmyndir sem mér hefðu ekki hugkvæmst? Ég held það. Þetta eru líka tvö verkefni sem ég vinn að, annað er markvisst en hitt snýst eingöngu um að rekja almenn þemu. Þegar allt kemur til alls reynist þetta svo kannski vera sama verkefnið. Grunnur að skrímslafræðum. Kannski munu einhverjir fleiri en ég hafa áhuga á þessu áður en yfir lýkur.