Vampírur og skrímsli

Bloggið er hinn nýi tjáskiptamiðill er hinn gamli tjáskiptamiðill. Einu sinni þótti bloggið sjálfhverft. Það var löngu fyrir daga Facebook.

Ég held ég taki Ingólf mér til fyrirmyndar og bloggi hugleiðingar mínar um ýmis viðfangsefni mín. Eða – ég hef lengi ætlað mér að gera það, og var byrjaður að ætla að gera það enn einu sinni í kvöld, þegar ég rambaði á bloggið hans Ingólfs. Og nú er ég búinn að tengja á bloggið hans. Þetta er einsog í gamla daga.

Fyrsta myndin sem ég horfði á í heilu lagi á nýju ári (á nýársnótt raunar eftir að konan mín var sofnuð) var upprifjun, Shadow of the Vampire, sem ég hafði ekki séð í rúman áratug, síðan áður en ég byrjaði að blogga. Hún fjallar um hliðstæðan veruleika þar sem vampíran í Nosferatu Murnaus var í raun og veru vampíra sem þurfti að múta með blóði svo að hægt væri að leikstýra henni. Engin sérstök hugmynd svosem en myndin er góð.

Ég er að lesa um vampírur, bók eftir Tony Thorne, Children of the night: of vampires and vampirism. Ég keypti hana fyrir nær nákvæmlega tólf árum en hef ekki lesið fyrr en nú. Helsti ljóðurinn á þeirri bók er skipulagsleysið, hún er of mikið popp fyrir strúktúr. Annar galli er að hún er ekki nógu fræðilega unnin; fyrir vikið get ég ekki treyst einni einustu heimild nema ég lesi hana sjálfur. Synd hversu margar þeirra eru á slavneskum málum. Þriðji hnökrinn er að höfundur fer út fyrir sérsvið sitt sem eru málvísindi og því er hann ef til vill ekki eins trúverðugur og ella. Þrátt fyrir þessa ljóði á bókinni getur gagnrýninn lesandi grætt mikið á því að lesa hana. Svo kostar hún sama og ekkert á Amazon núorðið.

Af öðrum bókum þá bíð ég nú eftir On monsters: an unnatural history of our worst fears eftir Stephen Asma. Sæborgin hennar Úlfhildar Dagsdóttur mun vera svipað uppbyggð og fjallar um skylt efni og sömuleiðis langar mig að lesa þessa hér eftir David Gilmore (ekki þennan úr Pink Floyd). Á aðventunni sogaðist ég ofan í Dumasarfélagið hans Pérez-Reverte og ætlaði í kjölfarið að slátra Nafni rósarinnar yfir jólin en hef svo ekki nennt að takast á við hana, frestaði henni fyrir vampírur. Sennilega les ég Drakúla í kjölfarið sem ég hef einhverra hluta vegna alltaf litið á sem litlu systur Frankensteins, sem er vel að merkja æðisleg bók. Þá hef ég í hyggju að rifja upp Poe og Lovecraft og, ef ég endist, lesa Paradísarmissi í fyrsta skipti í heild sinni (ég var ekkert sérlega impóneraður þegar ég reyndi stuttlega við hana fyrir nokkrum árum).

Sumar nefndra bóka hafa að gera með doktorsverkefnið mitt, aðrar ekki, eða að minnsta kosti ekki beint, en það eina sem ég endist til að lesa utan skyldunnar þessi misserin er alltaf að einhverju leyti tengt efninu. Ég hef því látið bókaflóðið eiga sig þetta árið og þess í stað lesið um ferðalag heilags Brendans og ævisögu Árna Magnússonar (aftur). Í annarri þeirra eru skrímsli en í hinni brenna handrit. Ég veit ekki hvort er hryllilegra.

Og hverju skilar þessi lestur? Tja, eitthvað er farið að fæðast í höfðinu á mér, og ekki bara eitthvað um ófrýnileg vængjuð dýr, þótt þau eigi stóra hlutdeild í hugsunum mínum. Af öllum klassískum spurningum sem ég fæ um námið („hvað geturðu þá unnið við?“) hefur enginn nokkru sinni spurt mig hvort maður verði ekki skrýtinn af að pæla svona mikið í ófreskjum. Ég þori ekki að fullyrða neitt ennþá. En ég fer að klára vampírustúdíuna bráðum og þá kannski verður skrímslakompendíið komið í póstinum. Þá verður nú gaman að vera til.

Rassaköst

Ég upplifði það áðan að missa alla tilfinningu í rassinum hægra megin (sbr. þetta). Til allrar hamingju hélt ég tilfinningu í fótunum, annars hefði ég steypst í gólfið fyrir framan 7781 manneskju á Háskólatorgi. Annars er ég mun betri en fyrir tveim vikum.

Svo slökkti einhver ljósið á karlaklósettinu í Gimli meðan ég sat inni á bás. Þeim bjálfa hugsaði ég þegjandi þörfina en veit þó að ég get kannski ekki eins hæglega áfellst viðkomandi og fíflið sem ákvað að ljósrofinn yrði frammi. Sá fyrrnefndi starfaði líka í skjóli nafnleyndar. Gimlungar geta því hvenær sem er átt von á því að huldumaðurinn komi og slökkvi ljósið meðan þeir ganga örna sinna, því hann er meðal vor. Hann er einn af oss. Er það nóg til að skjóta hraustustu mönnum skelk í bringu.

Hin skatólógísku málefni voru einnig í hávegum höfð í kennslustund í morgun, þar sem bar á góma fræðigreinarnar „Einarr Þambarskelfir’s last shot“ og „Gone with the wind“, sem báðar fjalla um sama atvik í Morkinskinnu. Þessa dagana er mér einnig mjög hugleikinn sá verknaður að stinga haus látinna upp í þjó, en það töldu menn á öldum áður að hindraði afturgöngur. Svo það voru ýmsar rasstengdar sögur í dag.

Svikaraheilkennið í lágmarki þessa dagana. Áreiðanlega á það þó eftir að snúa aftur með hefnd einsog Klaufi afturganga í Svarfdælasögu sem barði á mönnum með afskornu höfði sínu, sem áður hafði verið stungið í þjó honum, og má það hafa verið sérlega úlekkert að fá það í fötin og hárið.

Það er nóg af ófreskjum á borðinu mínu. Ég þarf svo að muna eftir að hafa Dofrafjallsvasann minn með á skrifstofuna og kaupa blóm í hann. Mesta synd að það passi ekki kaktus í hann.

Samabók ÍE

Íslendingabók Kára hefur ekki efni á því að vera kresin á heimildir þegar kemur að allra elstu ættartengslum á Íslandi. Á bláþræði framætta strandar allt að lokum á einni heimild og þess vegna eru fornaldarsögur Norðurlanda til dæmis á meðal heimilda Íslendingabókar. Þar af leiðandi leyfir ættfræðin mér sitthvað sem sagnfræðin gerir ekki: til dæmis að kalla mig afkomanda Ketils hængs og Hrafnistumanna.

Ketill hængur var sonur Hallbjarnar hálftrölls, sem var mjög í nöp við tröll en átti þó eintóm tröll að vinum, enda var hann sjálfur af tröllum kominn. Hugmynd Hermanns Pálssonar um samskipti Hrafnistumanna og trölla (hinir fyrrnefndu eru fæddir tröllabanar) er sú að hér sé um að ræða samskipti Norrænna manna við Sama; hugtakið tröll nái nefnilega yfir galdramenn, jötna og Finna – það er að segja Sama – allt í einu. Sem er að mörgu leyti skynsamleg ályktun. Hún leiðir engu að síður að því, með hjálp ættfræðinnar, að ég sé af samískum ættum (sem af jojki má heyra). Það er kannski ágætt dæmi um hversu hættulegt það getur verið að taka svona hluti of bókstaflega.

Fræðileg útgáfa Biblíunnar

Ég fór óvart að fantasera á Facebook um að eignast fræðilega útgáfu á Biblíunni. Best væri ef Hið íslenzka bókmenntafjelag stofnlegði ritröðina Erlend fornrit að fyrirmynd Íslenzkra fornrita. Þess í stað höfum við þýðingar Lærdómsritanna, sem að ósekju mætti gera að hardkor fræðilegri útgáfu án þess að almennir lesendur yrðu nauðsynlega fældir frá.

Og nógu déskoti oft hefur Biblían líka verið gefin út og látið með hana einsog hún sé einhver fastur texti. En þannig er það auðvitað ekki. Ef ég ætla að vitna í Biblíuna þá get ég ekki tekið íslensku þýðinguna frá 2007 og fært hana aftur um eitt einasta ár; hún er aðeins nothæf í Biblíutúlkun eftir útgáfuár sitt, það leiðir af sjálfu. Að sama skapi verður King James Biblían ekki til fyrr en snemma á 17. öld svo ég get ekki stuðst við hana í umfjöllun um 13. öld. Vúlgatan verður til seint á 4. öld, á 13. öld er hún orðin opinber Biblía Rómversk-katólsku kirkjunnar og hún er enn gríðarlega mikilvæg seint á 16. öld. Hafi maður áhuga á kristni á miðöldum þá les maður semsagt Vúlgötuna.

Í fljótu bragði sé ég ekki að nein fræðileg útgáfa af Vúlgötunni sé til á Landsbókasafni, og raunar sé ég ekkert á víðáttum internetsins heldur, að minnsta kosti ekki með skýringum. Ég leita þá bara svara annarsstaðar við þessari gátu:

Biblia Sacra Vulgata:
et nomen fluvio secundo Geon ipse est qui circuit omnem terram Aethiopiae

Paradís er staðsett í heiminum með því að fjórar ár sem renna í gegnum hana eru nefndar. Ána Geon eða Gíhon hefur ekki tekist að staðsetja með fullnægjandi hætti, en athygli vekur að í Vúlgötunni og í King James er hún sögð vera í Eþíópíu:

King James Version:
And the name of the second river is Gihon: the same is it that compasseth the whole land of Ethiopia.

Sem getur ekki verið því Paradís lá í austri í heimsmynd miðalda, í Asíu en ekki í Afríku. Auk þess eru Tígris og Efrat tvær hinna ánna sem renna um Paradís og þær eru báðar í Mesópótamíu, eða í Írak svona í grófum dráttum. Í nútímaútgáfum er Gíhon því sögð renna um Kúsland sem sumir hafa viljað finna stað við landamæri Pakistan og Afganistan nútímans:

English Standard Version:
The name of the second river is the Gihon. It is the one that flowed around the whole land of Cush.

Biblían (1915):
Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland.

Á Eþíópíunafninu hef ég ekki skýringu (hún er ábyggilega einföld), en á hinn bóginn hef ég aldrei handleikið Biblíu sem einu sinni nefnir það að ekki beri öllum gerðum Biblíunnar saman um þetta, hvað þá önnur og flóknari atriði sem oss dauðlegum er djöflinum erfiðara að komast að sjálfir. Það þýðir ekki að sú Biblía sé ekki til, bara að ég hef ekki fundið hana. Hér með auglýsi ég eftir krítískri útgáfu á Biblíunni með rækilegum inngangi sem tekur á textafræðilegum forsendum útgáfunnar og málfræðilegum og guðfræði þess tíma sem útgáfunni er ætlað að endurspegla, formála að öllum bókum, gommu af neðanmálsgreinum og orðskýringum í meginmáli og nafna-, orða- og heimildaskrá aftast. Og meira til.

Og þetta bið ég um án þess að finnast Biblían einu sinni neitt sérlega skemmtileg. Ef þetta er til einhversstaðar þá held ég að mörgum væri gagn í að vita um það.

Kaffivélin frá Helvíti

Það var svosem auðvitað að undir eins og ég snerti kaffivélina í Gimli þá hrykki helvítis draslið i sundur með öllu tilheyrandi og kaffikorg flæðandi út um öll op á vélinni. Þannig hefnist manni fyrir að mæta til vinnu á sunnudegi þegar Háma er lokuð, en þannig bar þetta til að ég vildi fylla á vatnstankinn en fann hann ekki, svo ég náttúrlega opnaði eina hólfið sem ég fann hvaðan í kjölfarið flóðu út ósköpin Pandóru; og þá var allt of seint, mér var fyrirmunað að loka vélinni aftur svo ég flýði vettvang í hryllingi. Mér er það enn hulið hvar á eiginlega að bæta á vatni en það kemur ekki að sök því ég mun aldrei koma nálægt þessu skrapatóli framar! Héðan í frá verð ég með bauk af neskaffi á borðinu fyrir neyðartilfelli á sunnudögum og ekki orð um það meir.

A game of thrones

Ég þreytist ekki á að þakka fyrir þá þjónustu sem Háskóli Íslands býður nemendum sínum (munið það næst þegar þið kvartið að ekkert er sjálfsagt). Eftir að hafa skrifað meistararitgerð í svefnherberginu heima að mestu (við misgóðar aðstæður) og sumpart á Kringlusafni (tölum ekki um það) þá fór ég að hugsa mér til hreyfings. Eftir að hafa skoðað helstu möguleikana sem ekki eru ReykjavíkurAkademían þar sem ég áður vann – það eru þá borð á Árnastofnun, skrifstofa á Landsbókasafni eða skilrými (e. cubicle) í Gimli – þá sótti ég um aðstöðu á síðastnefnda staðnum um leið og ég hafði borgað skólagjöldin.

Og nú í vikunni var mér úthlutað borði þar, sem lög gera ráð fyrir að fylgi bókahilla, læsanlegur skápur og hirsla á hjólum. Nema lög gera náttúrlega ekki ráð fyrir fyrri borðbúa sem ekki hefur formlega yfirgefið aðstöðuna. Bókahillan er full af möppum og öðru drasli, skápurinn er læstur (og fullur) og hirslan er læst (og full). Fyrri borðbúi skrapp til útlanda í einsog eitt ár og tók aðstöðuna svona líka hressilega í gíslingu, í þeirri von að hann héldi henni á meðan einsog einhver Kjartan Ólafsson (helst þekktur fyrir að fara í fýlu þegar hann kom aftur frá útlöndum og fann að Bolli fóstbróðir hans hafði fastnað sér unnustu hans. Bolli neyddist loks til að púnktera hann með sverði svo hann dó, svo freklega lét hann með þetta. Það leiðir því bersýnilega af hefðun fyrri borðbúa að hann hefur ekki lesið Laxdælu).

Og undir eins og ég mæti á svæðið stendur varðhundur upp af borði hinumegin þils og tjáir mér að fyrri borðbúi sé væntanlegur innan loka annarinnar. Honum varð ekki kápan úr því klæðinu; seint um aftan eftir að allir höfðu yfirgefið svæðið, að undanskildum mínum gamla bekkjarfélaga Haraldi Hreinssyni, þá mætti ég og plantaði borðtölvu, pappírshrúgu og gommu af bókum á borðið. Daginn eftir var einsog ég hefði alltaf verið þarna. Ég hef að vísu ekki skápana (og fyrir vikið eru flestar bækurnar mínar ennþá heima), en í trausti þess að þau mál leysist sem allra fyrst (þ.e. á þessu ári) þá uni ég glaður við mitt. Nægilega kembdi ég hærurnar við varðhundinn (af ærnu tilefni) án þess ég fari sjálfur að pakka niður möppum fyrri borðbúa. Það væri hybris, enda er ég að vísu umkringdur kollegum hennar á alla kanta. Það ætti þó varla að verða alvarlegri sitúasjón en svo að staka bitsjslapp gangi á milli borða.

Þjónn, það er kona í mannkynssögunni minni

Mig langar að verða duglegri við að setja inn ýmiss konar hugleiðingar hér, almenns efnis, námsefnis og svo framvegis. Til að mynda rámaði mig snögglega í það – meðan ég beið eftir espressókönnunni rétt áðan (ég drekk kaffi á kvöldin) í samræðu við Eyju um hina karlmiðuðu sögu (ég bjó til þennan Jón Sigurðsson sem fylgir bloggfærslunni, eiginlega alveg óvart, og þaðan spratt umræðuefnið) sem einhverjum gæti þótt móðgandi að tala um sem slíka – að saga, einsog ég man það, var fag sem öllum þótti leiðinlegt, bæði stelpum og strákum. Alltaf. Nema rétt á meðan það var tilkynnt að lesið yrði um aðra hvora heimsstyrjöldina – hvora sem var – þá þótti strákunum gaman í sögu. En svo byrjuðu þeir að lesa og saga varð strax aftur leiðinleg. Það stóðst ekki samanburð að lesa eða horfa á Apocalypse Now í heimabíói (héldu þeir).

Þórður bróðir kvartaði einhvern tíma undan því að honum væri fyrirmunað að lesa línulega atburðarás yfir margar aldir ef hann ætti að muna nokkurn skapaðan hlut hvað hann læsi, sér í lagi nöfn og ártöl. Og að vissu leyti er galið að læra söguna þannig, að vissu leyti er það alls ekki galið. Þegar maður fer að hugsa um þetta þessum árum síðar man maður vissulega að margir svitnuðu fyrir sögupróf. Nemendur grenjuðu einsog Ædolkeppendur á göngum skólans. Þeim gekk jafnan sæmilega sem verst gekk; enginn hafði í raun ætlast til að þeir lærðu þetta allt svona nákvæmlega og áhyggjurnar voru flestar tilefnislausar.

Þessar hugleiðingar eru þó fyrst og fremst sprottnar upp af þeirri staðreynd að mannkynssagan er karllæg, sem er mikilvægt að vera meðvitaður um þegar maður rannsakar sögu; tiltekin tímabil, menningu og bókmenntir þeirra. Það er ekki hægt að rannsaka miðaldabókmenntir nema rannsaka að einhverju leyti sögu þeirra einnig, jafnvel þótt það sé aðeins að litlu marki gert, og saga bókmennta er óhjákvæmilega saga menningar og tímabils í leiðinni. Og það er sáralítið af konum í þessari sögu allri. Ég man að þónokkrum sinnum gramdist bekkjarfélögum mínum það að eiga að læra „endalaust um einhverja löngu dauða karla“ og þær kvartanir komu jafnan frá strákum.

Ég er ekki að segja að við fáum breytt sögunni úr því sem komið er til að gera hana áhugaverðari, heldur að mér finnst þetta áhugavert í sjálfu sér. Það þarf nefnilega ekki nauðsynlega að vera að hið karlmiðaða falli körlum í geð einsog stundum mætti skilja á fólki.

~

Sjálfur hef ég alla tíð verið sögufíkill, þótt þekking mín á sögu hafi látið á sjá sökum vanrækslu síðustu misseri. Ég las allar kennslubækur sem eru alræmdar fyrir að vera leiðinlegar og fannst þær æðislegar, meiraðsegja Sjálfstæði Íslendinga I-III eftir Gunnar Karlsson. Ég hef það mér til afsökunar að ég var barn. Ég hef enga slíka afsökun þegar kemur að bókum Heimis Pálssonar.

Sturlungaöldin var mitt tímabil. Um hana vissi ég tíu ára allt það sem hægt var að læra af kennslubókum og meira til (núorðið man ég harðla lítið). Ég teiknaði ættartré Sturlunga og hending réði því að Snorri leit út einsog fífl á teikningunni en að Sighvatur Sturluson varð svalastur, og fyrir því hafði ég miklar mætur á Sighvati upp frá því og svíður alltaf dálítið í sinnið þegar ég keyri framhjá Örlygsstöðum í Skagafirði. Nú man ég ekki hvort Sturlunga var til á mínu heimili en í stað þess að lesa hana, eða gera tilraun til að lesa hana, þá hófst ég handa við að skrifa hana – á formi myndasögu – út frá því sem ég vissi. Sem var svosem ekki mikið þegar allt kom til alls.

Sighvatur féll við Örlygsstaði eftir hefðbundinni söguskoðun, en í minni útgáfu þá hafði hann falið sig í runna og duldist þar vel á grænu peysunni sinni; hann hefði lifað af bardagann ef pirraður Ásbirningur í leit að honum hefði ekki höggvið til runnans í gremju sinni og óafvitandi hæft Sighvat. Snorri var nokkuð nákvæmlega brytjaður eftir lýsingu Gunnars Karlssonar og fannst mér leiðinlegast að teikna þann kafla (enda lítið svigrúm til sköpunar). Þórður Sturluson varð óvígur í anakrónískri atlögu að skóggangsmanninum Gísla Súrssyni (Þórður bróðir hafði þá nýverið lesið Gíslasögu og mér þótti útlegð vegna sæmdarvíga spennandi) sem hafði víggirt heimili sitt með alls kyns gildrum. Þar féllu allir nema Þórður, slíkt heljarmenni fyrir sem Gísli var, en um örlög Þórðar og ævintýri átti eftir að skrifa lengri sögu. Hans sonur var enda Sturla sem var eiginlegur höfundur þessara frásagna allra, alveg sama þótt ég diktaði þær að mestu upp sjálfur. Inn í þetta hafði ég svo ráðgert að blanda Gretti Ásmundarsyni og fleiri köppum á einhvern hátt. Læt ég eftir mig óklárað verk en þætti vænt um ef ég fyndi varðveitt.

Það var því nokkuð skondið þegar ég sat tíma hjá mentór mínum fyrir réttum áratug og fékk að vita að þeir bróðir hans hefðu skrifað framhald Sverrissögu og verið það ofarlega á merinni að hafa reynt að frumgera fornmál til brúks í sögunni (það er alltaf gott að vita að maður er ekki einn um að fremja furðuverk). Og þegar maður lítur til sagnaritunar á miðöldum þá má nú vel ímynda sér að vinnubrögðin hafi ekki nauðsynlega verið ósvipuð á köflum, þótt ekki hafi verið með sama vúlgar hætti; sum miðaldarit eru óttalegt kópí-peist með viðbótum, mótsögnum og anakrónisma og engar forsendur endilega til að meta hver heimild er „rétthæst“, sér í lagi þegar viðkemur norrænni trú.

En þessi Sturlunga 2.0 sem ég skrifaði, ég get ekki sagt að hún hafi verið annað en karlmiðuð. Ég minnist þess ekki að í nokkrum einasta ramma hafi komið fyrir kona, hvað þá að minnst hafi verið á konur í sögunni. Einu konurnar sem var að finna voru í áðurnefndu ættartré sem ég felldi fremst inn í söguna til hægðarauka fyrir væntanlega lesendur. Og hvað þýðir þetta? Ætli það þýði ekki bara að það læri börnin sem fyrir þeim er haft, og að hið dularfulla kvenlaga gat í mannkynssögunni sé nokkuð sem maður þarf ætíð að vera meðvitaður um. Sögunni fæst ekki breytt en við ráðum því með hvaða hugarfari við lítum hana.

Bætist alltaf við það sem vantar

Ég er farinn að halda að Árósaháskóli vilji alls ekki losna við mig, slíku dauðataki heldur hann í mig. Sagan hefst á því að ég skilaði ritgerðinni minni í mars, einsog lög gerðu ráð fyrir. Langur tími leið, líklega 4-5 vikur, uns ég fékk athugasemdir tilbaka frá leiðbeinanda, nokkuð sem ég var orðinn efins um að ég fengi yfirhöfuð. Það hefði bæði verið auðvelt og erfitt að fylgja þeim eftir til hlítar, en ég var bundinn af blaðsíðufjölda sem ég hafði þegar yfirskriðið og í kapphlaupi við tímann, svo á endanum gerði ég lítið við athugasemdirnar. Ég skerpti aðeins á röksemdafærslu hér og þar, bætti við dálitlu efni og setti aðeins skýrari fyrirvara við verkið (sem ég sé eftir að hafa gert núna). Ég skilaði ritgerðinni aftur í maí, til leiðbeinanda, nokkuð á eftir áætlun.

Svo fékk ég bréf frá leiðbeinandanum mínum. Mánuði síðar. Hann sá ástæðu til þess að spyrja mig hvort ég hefði ekki örugglega skilað ritgerðinni. Hann átti víst ekki að fá ritgerðina heldur skrifstofa skólans, og hann einfaldlega gerði ráð fyrir að ég vissi það svo hann gerði engar athugasemdir við það þótt hann fengi ritgerðina aftur í pósti. Svosem ekki mikið mál, að ég hélt. Ég sendi ritgerðina á skrifstofuna. Ekkert svar. Í Danmörku getur það vitað á allt gott og illt milli himins og jarðar að fá ekki svar við tölvupósti. Einu sinni sat ritgerð eftir mig mánuðum saman á skrifborði hjá manneskju af því það vantaði eyðublað með henni. Engum datt í hug að hafa samband við mig eða kennarann í það skiptið.

Og viti menn, tveim vikum síðar spyr leiðbeinandinn mig hvort ég hafi ekki skilað eyðublaði með ritgerðinni. Þar hófst eltingarleikur við meint eyðublað sem entist nokkra streituvaldandi daga. Enginn vissi hvaða eyðublað það væri sem vantaði eða hvar ég gæti fengið téð eyðublað. En það voru hreinar línur að það vantaði eyðublað. Án þess yrði ritgerðin ekki lesin hvað þá annað. Ég sendi bréf til nýrrar konu á skrifstofunni (öllu fyrirkomulaginu er breytt á tveggja ára fresti og í hvert sinn er skyldum eins starfskrafts jafnan deilt á fleiri; nýja konan virtist þá vera býrókratinn sem tekur við ritgerðum og eyðublöðum). Þrír dagar liðu án svars, svo ég hringdi í hana. Hún varð reið og sagðist myndu svara bréfinu þegar hún hefði tíma! Þegar svarið barst síðla sama dag sagði hún ekki annað en að það vantaði eyðublað. Ég sendi henni annað bréf og spurði hvaða eyðublað það væri og hvar ég gæti nálgast það. Ekkert svar.

Til að gera langa sögu stutta þá á endanum varð nýja konan alveg foxill sökum endalausra fyrirspurna minna um keisarans skegg og leyfði mér að skila ritgerðinni án eyðublaðsins sem ég aldrei fékk úr skorið hvar ég eiginlega fengi eða til hvers væri. Þetta var 14. júní og hún sagði að skólinn áskildi sér þrjá mánuði til að meta ritgerðina; einkunn bærist eigi síðar en 14. september. Í fyrradag hringdi leiðbeinandinn í mig á Skype og sagði að búið væri að meta ritgerðina mína, en ég hefði gleymt því að hafa útdrátt á öðru tungumáli fremst í henni og að ekki væri hægt að útskrifa mig án hans. Það væri í reglunum.

Ég skrifaði eina blaðsíðu á dönsku og var tilbúinn með hana sama dag. Daginn eftir kemur í ljós að leiðbeinandinn veit ekki hvort útdrátturinn eigi að vera á dönsku eða ensku, þar sem honum hefur verið tjáð hvorttveggja af sömu manneskjunni (nýju konunni á kontórnum) og nú segir hann þrjár blaðsíður en ekki ein. Eftir óvenju snörp bréfaskipti við konuna á kontórnum varð ljóst að útdrátturinn á að vera þrjár blaðsíður og má vera á ensku eða dönsku af því ég var fyrst skráður í skólann 2009 (síðan þá hefur heildarfyrirkomulaginu verið breytt að minnsta kosti tvisvar og deildin mín leyst upp inn í einhverja allt aðra deild).

Nú vona ég bara að þau taki sér ekki aðra þrjá mánuði í að registrera jafnmargar blaðsíður sem engu bæta við heildarverkið. Ég held ekki að nein stofnun nokkru sinni hafi lagt jafn marga steina í götu mína af eins lítilfjörlegu tilefni. Hálft ár horfið fyrir eyðublað og útdrátt. Maður hefði haldið að það mætti redda öðru eins á einni viku í mesta lagi (til samanburðar skilaði ég BA-ritgerðinni þegar ég var búinn með hana og fékk einkunn; flóknara var það nú ekki). Þrátt fyrir allt er ég nokkuð vongóður um að ég fái að útskrifast úr meistaranáminu einhvern tíma áður en ég ver doktorsritgerðina.

Íslenskufræðingur tefst vegna ferðasögu frá 1998

Þetta var nokkuð óþægileg nótt, ég hélt áfram að hrökkva upp hóstandi. Vaknaði svo skjálfandi og með höfuðverk sem ég er enn ekki laus við og keyrði pabba, ásamt pumpu, Nesjavallaleiðina út að Úlfljótsvatni þar sem bíllinn hans sat á loftlausu dekki. Í þessu líka ofsaviðri. Á bakaleiðinni tafðist ég spöl úr leið aftan við Lapplander á þýskum plötum sem lullaði áfram á 50 úti á þjóðvegi. Velti fyrir mér stundarkorn hvort Huldar Breiðfjörð hefði verið þýddur yfir á tungu Búndesrepúblíksins og því ef til vill átt hlut að máli þótt óbeint væri, valdið straumhvörfum í hugum ungs vinahóps í 101 Stuttgart, „Wir müssen durch Island in einem Volvo Lapplander fahren!“ og nú væru þau komin í þennan hrylling hérna á sérstaklega völtu farartæki. Mikil er ábyrgð þín, Huldar.

Á leiðinni heim kom ég við í Góða hirðinum og festi kaup á flatskjá til að tengja við borðtölvuna sem ég hef ætlað skrifstofunni. Ég setti svo tölvuna saman til þess eins að setja upp Office á henni en þá virkaði ekki fyrsti diskurinn sem öll installasjónin hangir á. Þar sem ég nenni alls ekki að finna Office fyrir Windows XP á netinu (þótt ég eigi keypt eintak þyrfti ég að stela þessum úrelta hugbúnaði, sem er fullkomlega snargalið) sótti ég OpenOffice á makkann og færði yfir á tölvuna með minnislykli. Það þarf að duga í bili.

Og nú fer klukkan að nálgast fimm og ég hef enn ekki unnið neitt í dag. Me miserum.

Deus ex academia

Fyrsta lögmál framhaldsnemans er: Ef ég aðeins hefði X, þá kæmi ég öllu í verk. Ef þetta gengi upp í raun og veru væri um að ræða einhvers konar deus ex academia. Annað lögmál framhaldsnemans er því: Um leið og X fæst, þá hættir það að vera X. Sú ímyndaða lausn sem fólgin er í X er aldrei í samræmi við veruleika þarfarinnar.

Með öðrum orðum bíð ég eftir vinnuaðstöðu í Háskólanum og hef talið sjálfum mér trú um að þá fyrst finnist hið mikla skipulag, að þá verði allt fullkomið, að þá komi ég öllu í verk. Að þar muni ég frekar finna tíma til að lesa allar nýju bækurnar mínar en heima hjá mér, enda þótt staðreyndin sé sú að ég hef meira eða minna vinnufrið heima frá átta til fimm og að bókaskápurinn sem ég fæ á skrifstofunni verður minni en sá sem ég kveinka mér undan að sé löngu sprunginn, og síst skánar ástandið þegar ég bæti við bókum nærri vikulega.

En ég hef semsagt talið mér trú um að vinnuaðstaða á skrifstofu muni breyta lífi mínu til hins betra, og það verður að játast að mér finnst ágætt að standa í þeirri trú. Þangað til kenni ég skrifstofuleysinu um hvað mér verður lítið úr verki. Ég prentaði út fimm greinar í gær eða fyrradag sem ég vonandi kemst í að lesa fyrir mánaðamót, og vonandi verð ég ekki fyrir jafnmiklum vonbrigðum með þær einsog með greinina hverrar höfundur virtist telja það vera merkilega uppljóstrun að líklega hefði Sæmundur fróði numið þríveginn á skólaárum sínum í Evrópu. Líklega tók Caesar sér einræðisvald í Rómaveldi, eða hvað veit maður svosem. Ég vænti þess svosem aldrei að höfundurinn væri einhver Arnaldur.

Nóg er nú annað á leslistanum kræsilegra en þetta, til að mynda ný útgáfa Morkinskinnu (sem fyrst íslenskra fornrita mér vitandi fékk tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna, sem þjónaði kannski þeim tilgangi svona eftir á að hyggja að leiða manni það fyrir sjónir að auðvitað hefði átt að tilnefna þau öll) og svo Saga Hamborgarbiskupa hans Adams frá Brimum sem ég hef beðið alltof lengi með að lesa.

Annars er lífið óttalega mikið púsl þessa dagana auk latínustíla og fundasetu. Sem er ágætt svo langt sem það nær, en ég verst ekki þeirri tilhugsun að allt yrði þetta smurðara ef ég bara væri kominn með vinnuaðstöðuna mína, deus ex academia.