Eiturkoppar #2

Köngulóaparið hefur getið af sér pínulitla krúttikönguló sem kúrir nú í sturtuhorninu sem stóra parið dvaldist áður í. Stóra parið hefur hinsvegar flutt yfir klósettið og fylgist með öllum vessum sem ég læt frá mér þá leiðina.

Af öðru dýralífi hér, enda er ég svolítið skotinn í dýralífi almennt, má nefna héra sem ég sá skottast um í skógi hérna, dúfur sem eru álíka feitar og meðal tuborgdrekkandi verkamaður og geta þar af leiðandi ekki flogið, og svo ýmsir Danir, sem eru álíka feitir og meðal tuborgdrekkandi dúfur og geta þar af leiðandi ekki gengið. Broddgöltunum heyri ég í þótt ég sjái þá ekki.

Svo hef ég hitt hér nasjónalista og einn íhaldsmann sem datt íða með Geir Haarde einu sinni að eigin sögn. Það hljómar einsog að detta íða með excelskjali svo ekki öfunda ég hann neitt sérstaklega af því. Líklega er þessi síðastnefnda ein sjaldgæfasta dýrategundin sem ég hef séð hér í Danmörku til þessa. Lítið um íhald í háskólum hér einsog annarsstaðar.

Eiturkoppar

Ég átta mig ekki nákvæmlega á ævintýrum eiturkoppanna í sturtunni minni, en mér virðast þeir jafnan vera tveir á kvöldin. Þegar ég fer í sturtu á morgnana er hinsvegar aðeins einn sem fylgist með milli þess sem hann étur úr netinu sínu. Þeir líta nokkurnveginn svipað út og þessi á myndinni.

Í dag eru báðir horfnir. Fyrst undraði mig en nú geri ég ráð fyrir að þeir hafi farið í skreppitúr saman löpp í löpp og snúi aftur þegar kvölda tekur.

Uppfært
Ég tek nú eftir að það er stokkur í loftinu hinumegin baðherbergisins. Geri ráð fyrir að þær príli þangað til að kúra sig saman í myrkrinu.

Myndina á David in Myazaki.

Ó, dagur!

Afar fallegur dagur. Ég fór út í miðdegissólina og gekk mér til heilsu og yndisauka meðfram tjörninni, gegnum Hljómskálagarðinn þar sem heilsað var upp á Jónas og hugsað um engil með rauðan skúf. Þaðan upp í Þingholt þar sem ferðinni lauk á Café Babalú. Góð og kyrrlát stemning hvert sem farið var, litirnir alveg dásamlegir.

Millistríðsáranegrakvartettinn Ink Spots (dásamleg orðmyndun í gangi) hljómar hér á grammófóninum mínum geislandi stemningu kvöldins, og orð dagsins eru þeirra:

I don’t want to set the world
on fire
I just want to start
a flame in your heart.

The moon belongs
to everyone
the best things in life
are free.

Myrkvun Höfuðborgarsvæðisins

Vegna skipulagsklúðurs við að verða mér úti um bifreið komst ég ekki lengra en upp í Öskjuhlíð til að njóta myrkursins. Vafalaust hefði ég heldur átt að taka einn göngutúr um Vesturbæinn, þannig hefði ég notið þess betur. Líður þá og bíður uns rafmagnslaust verður í Vesturbænum. Þá er ég þotinn út með hatt minn og staf.

Eitthvað hefur ef til vill verið um skipulagsklúður meðal borgar- og bæjayfirvalda stór-Reykjavíkursvæðisins sömuleiðis. Eitthvað þótti mér gruggugt um að litast yfir Kópavoginn ofan úr Perlu og þegar ljósin voru kveikt á nýjan leik varð ég ekki var við neinar róttækar breytingar þar í bæ. Eiginlega alls engar. Og hvers vegna enginn slökkti á ljóskösturum kirknanna veit ég ekki, en þær voru ekkert of heilagar til þess að mínum dómi.

Raunar var þokkaleg stemning í Perlunni. Þar var margmenni komið saman og enda þótt stjörnurnar sæust ekki, þá var dáldið sérstakt sjá myrkrið yfir borginni. Og þegar ljósin voru kveikt, þá upplifði ég dálítið magnað. Skyndilega birtist Seltjarnarnesið eins og fyrir galdur út úr myrkrinu. Það var greinilega staður kvöldsins, þar hafa menn jafnvel slökkt á kertum svo þeir gætu notið myrkursins betur. Og þar hefði ég átt að vera.

Stjörnuvals

Star PartyJá, og ekki láta ykkur bregða klukkan tíu í kvöld þegar öll ljós verða slökkt í Reykjavík. Loksins verður sá draumur að veruleika og ég þakka framtakið. Ég ætla að finna mér einhvern góðan grasi gróinn stað til að leggjast á bakið, finna til smæðar minnar og velta vöngum. En fyrst og fremst njóta þess sem fyrir augu ber.