Dauði hinnar gagnrýnu umræðu

Það er ekkert nýtt við skærur í hugvísindum. Þegar maður er ungur og vitlaus er jafnvel hætt við að maður teldi sig nú aldeilis til í slíkt tusk, færan um að æða ótrauður á foraðið með sannleikann að vopni. Þau sem eru eldri og reyndari skilja betur hvers vegna valdahlutföll gera það í mörgum tilvikum ómögulegt að taka þátt í slíkum deilum, ekki síst eftir því sem þeim er betur ljóst að deilur snúast ekki eins oft um sannleika eins og það að hafa rétt fyrir sér. Hljóta ekki fræðimenn að vera öðrum færari um að hlýða á rök og móta sér skynsamlegar skoðanir, að sjá sannleikann þar sem hann blasir við? Nei, ekki endilega. Enda blasir sannleikur sjaldnast við.

Þó að heiftarlegar deilur blossi við og við upp meðal hugvísindafólks hefur verið lítið um þær meðal miðaldafræðinga, þ.e. þeirra hugvísindamanna af ýmsum stéttum sem eiga það sameiginlegt að einblína á miðaldir hver frá sínum sjónarhóli (sjálfur er ég íslenskufræðingur en telst einnig til miðaldafræðinga). Miðaldafræði hafa löngum þótt heldur forpokuð og gamaldags hvað sumt varðar. Til dæmis hefur gengið erfiðlega að viðurkenna að kynþáttabundin hugsun hafi raunverulega verið til á miðöldum, enda hafi kynþáttahugtakið sem slíkt ekki verið skilgreint fyrr en á 19. öld. Því sé hugsunin að baki hugtakinu varla eldri en hugtakið sjálft. Þetta er, auðvitað, vitleysa. Hugtakið er aðeins kerfisbundin nálgun á hugmynd um greiningu mannkyns sem virðist hafa verið til með mismunandi formerkjum frá ómunatíð.

Það er því afskaplega mikilvægt að á síðustu fimmtán árum hefur orðið hugarfarsbreyting meðal margra miðaldafræðinga. Fleiri og fleiri rannsóknir hafa miðað að því að skoða miðaldasögu og -bókmenntir út frá sjónarmiði kynjafræða, kynþáttafræða og nýlendufræða, svo fátt eitt sé talið. Þessi nálgun hefur gert okkur kleift að öðlast mun betri skilning en nokkru sinni fyrr á því hvernig sjálfsmyndir verða til og hvernig munur sjálfsins og annarra var hugsaður og ítrekaður á miðöldum. Þetta hefur einnig að gera með það hvernig Íslendingar skópu sína sjálfsmynd á miðöldum, svo þetta er ekki innihaldslaus pappír fyrir okkar sögu heldur.

Þetta skiptir gríðarlegu máli. Þess vegna skiptir engu minna máli að hægt sé að ræða þessa hluti af yfirvegun. En það er erfitt að vera yfirvegaður andspænis sögulegum kúgunartólum ef maður sjálfur verður fyrir þeim dagsdaglega. Reynsluheimur fræðimanna sem ekki eru hvítir er einfaldlega annar en okkar hinna. Það eru fyrst og fremst fræðimenn af öðrum uppruna en evrópskum sem hafa vakið máls á þeirri kynþáttabundnu orðræðu sem ekki aðeins er viðloðandi í heimildum fyrri tíma, heldur einnig í orðræðu fræðasamfélagsins í dag. Ennþá búa hvítir fræðimenn við yfirburði í heiminum almennt, og þetta gildir um fræðaheiminn einnig. Jafnvel þar skiptir hörundslitur máli þegar kemur að því að meta verðleika fólks. Rasismi er kerfisbundinn og leynist víða. Það er því skiljanlegt þegar þolinmæðin brestur, þegar yfirvegunin er látin lönd og leið. En það er verra þegar það gerist að ósekju.

Upphaf máls er árlega miðaldafræðiráðstefnan í Leeds, sem er sú stærsta í Evrópu og sú næststærsta í heimi. Í ár var ákveðið að yfirskrift ráðstefnunnar yrði Otherness, sem hægast er að þýða sem framandleiki. Hugtakið á helst við þá sem eru jaðarsettir, en það er flóknara en svo og jafnvel þetta hugtak er umdeilt vegna ýmissa merkingarauka sem stundum vilja hanga saman við það. Tvennt gerist svo á Leedsráðstefnunni: það er augljóst þeim sem ekki eru hvítir að þau eru í svo miklum minnihluta á ráðstefnunni að annað eins gerist varla nema, svo dæmi sé tekið, í íslensku sjávarþorpi. Þannig er þetta á miðaldaráðstefnum. Hitt er að einn heiðursfyrirlesari hefur mál sitt á því að segja hræðilegan brandara, að ef hann virkaði ekki sérlega framandlegur á áheyrendur þá ættu þau sko að sjá hann eftir sumarfrí á Kanaríeyjum. Einhverjir gerðu sitt besta til að hlæja að þessu fyrir kurteisissakir, en það mun ekki hafa verið sannfærandi.

Viðbrögðin, í fyrstu, voru nauðsynleg. Það var löngu kominn tími til að gagnrýna það hversu yfirgengilega hvít miðaldafræði eru, og það hvernig hvítir miðaldafræðingar leyfa sér stundum að tala. Auðvitað var það löngu tímabært. Þetta eru vísindi sem helst laða að hvítt fólk, eru ítrekað misnotuð af hvítum rasistum og nýnasistum í ofanálag, og það þarf kannski ekki að undra að hugarfar sumra þar innanborðs sé gamaldags þegar þeir gera ekki annað en að fjalla um afgömul efni. En það þarf að gagnrýna samt sem áður. Þar hefur viss kynslóð (að mestu) norður-amerískra fræðimanna rutt brautina fyrir nýja, alþjóðlega kynslóð sem hefur tekið upp merki þeirra. Ég tilheyri þessari síðari kynslóð og get fullyrt að áhrif hinnar fyrri eru ómæld. Norræn fræði, svo dæmi sé tekið, eru orðin mun alþjóðlegri en nokkru sinni. Þau eru orðin gagnrýnni og taka nú tillit til ýmiss konar félagslegra þátta sem hefðu þótt framandlegir í umræðu um íslenskar miðaldabókmenntir fyrir ekki nema tuttugu árum. Þetta var umræða sem hreinlega þurfti að taka og allir viðloðandi vissu hvorum megin sannleikans þeir voru. Eða þannig var það þangað til kollegi minn og vinur leyfði sér að nálgast umræðuna með örlítið blæbrigðaríkari hugsun en hann áttaði sig á að væri leyfilegt.

Bandarísk fræðikona af asískum uppruna, velþekkt fyrir dugnað í baráttu fyrir alls konar félagslegum réttlætismálum innan miðaldafræða, skrifaði inn í áhugahóp um fornensku á Facebook um ályktun félagsskapar miðaldafræðinga sem eru „of color“ vegna ráðstefnunnar í Leeds. Þetta hugtak þýðist ekki á íslensku, enda er því ætluð viss andstaða gagnvart hinni eldri afmörkun „litaðra“ (colored) andpænis hvítum, nokkuð sem umdeilt er hvort raunverulega heppnist enda er sömu aðgreiningu viðhaldið með nýja hugtakinu. Á móti er því ekki að neita að sú aðgreining getur einmitt verið gagnleg þegar rætt er um jaðarsetningu litaðra hópa. Með öðrum orðum: þetta er flókið. Í ályktuninni var staða litaðra (ég neyðist til að nota þetta orð á íslensku) fræðimanna hörmuð sem og skilningsleysi fræðasamfélagsins gagnvart þeim flóknu strúktúrum og valdahlutföllum milli kynþátta sem þar eru undirliggjandi.

Vinur minn gerði þau mistök fyrst að átta sig ekki á því að fræðikonan hafði birt þetta sem fulltrúi félagsskapar sem beinlínis kennir sig við „of color“ hugtakið, og þau önnur mistök að gagnrýna (vinsamlega) þessa orðnotkun. Gagnrýni hans var sanngjörn og fólst í því að í raun sé hugtakið mjög ameríkusentrískt. Þótt kynþáttahyggja sé alstaðar í heiminum til þá eru formgerðir hennar og staðalmyndir mjög ólíkar eftir stað og samhengi. Það er nefnilega alls óljóst hvað það merkir að vera litaður í Bandaríkjunum eða í Evrópu, og oft eru mörkin milli hvítra og annarra fremur persónuleg en félagsleg. Hispanir og latneskir geta t.d. í Bandaríkjunum vel flokkast sem hópar litaðra, ekki síst vegna sögulegrar undirokunar þessara hópa og svo þess að oft (en alls ekki alltaf) er fólk af þessum uppruna dekkra á hörund en hvítir. Þó eru ýmsir sem ekki líta á sig sem litaða en kalla sig etníska þess í stað, sakir uppruna. Svo blandast auðvitað allir kynþættir stöðugt saman svo uppruni fólks verður í raun afar ruglingslegur. Aftur: málið er flókið. Í evrópsku samhengi virkar þetta ekki eins. Spánverjar og Ítalir eru ekki litað fólk í augum Evrópubúa þótt það fólk sem deilir með þeim uppruna vestanhafs sé iðulega aðgreint frá hvítum. Það hver er hvítur og hver ekki er m.ö.o. menningarleg ákvörðun og verður svo dæmi sé tekið sérstaklega flókin þegar litið er til Austurlanda nær. Þegar öllu er á botninn hvolft er það sjálfsmynd hvers og eins sem taka þarf tillit til og virða, því það er ekki bara hörundslitur sem aðgreinir hvíta og litaða. Vinur minn sagði þetta ekki, en hugsunin var svipuð. Hann benti á að í Asíu, þar sem hann þekkir vel til, þykir það beinlínis móðgandi að vera dreginn í dilk með lituðum andspænis hvítum. Hann vildi benda á að það eru ekki allir „litaðir“ sem sætta sig við að vera auðkenndir með þeim formerkjum. Þegar honum á móti var bent á að þetta væri nafn félagsskapar en ekki alhæfing baðst hann afsökunar á misskilningnum, en áréttaði að þótt hann vildi ekki gagnrýna fólk fyrir að nota þetta hugtak um sjálft sig, þá gæti verið snúið að nota það um aðra. Hér í frásögninni er rétt að taka fram að vinur minn er frá Hong Kong.

Fræðikonan bregst illa við þessu og sakar vin minn um hvítþvott og afneitun á því að rasismi sé einu sinni til. Sama hvað hann reyndi að skýra mál sitt þá sneri hún harkalega út úr fyrir honum. Ástæðan fyrir því er líka flókin: Hún er sjálf kona fyrir það fyrsta, og sama hvað hver segir þá eru konur enn lítilsvirtar í fræðaheiminum. Í öðru lagi er hún af asískum uppruna og þarf að þola linnulausa áreitni og lítilsvirðingu fyrir þær sakir. Þetta tvennt gerir hana eðlilega árásargjarna þegar efast er um orð hennar. Hún er vön því að tuskast við kvenfyrirlítandi kynþáttahatara og á það til að slengja fólki óforvarendis í þann hóp þegar henni er mikið niðri fyrir. Í þriðja lagi er hún alin upp í Bandaríkjunum þar sem kynþáttabundin hugsun er svo yfirgnæfandi þykkur hluti andrúmsloftsins að hægt væri að skera með hníf. Ástæður þess eru sögulegar eins og allir þekkja og togstreitan eftir borgarastríðið hefur í raun aldrei náð að jafna sig. Bandaríkin eru enn ekki ein þjóð í einu landi og afstaða hvítra til svartra (svo dæmi sé tekið) er enn mjög flókið fyrirbæri að átta sig á. Réttindabarátta svartra átti sér ekki stað í Evrópu með sama hætti og í Norður-Ameríku. Andrúmsloftið í heimsálfunum tveim er og var gjörólíkt og Bandaríkjamenn eiga stundum erfitt með að trúa því að það hugsi ekki allir nákvæmlega eins um kynþætti eins og þeir, enda er allt daglegt líf fólks vestra undirorpið þessum þankagangi þar sem jafnvel er orðið til hugtak um það hvernig hvítir geta talað um kynþætti án þess að nefna þá, með því að beita hundablístru (dog-whistling). Þannig getur stjórnmálamaður t.d. talað um velferðarmæður sem bagga á samfélaginu og allir vita undir eins að hann á við einhleypar svartar konur sem eru of latar til að vinna, án þess hann hafi sagt nokkuð um það. Í fjórða lagi er erfitt að sannfæra baráttufólk um að þeirra eigin hugtök eigi sér ekki alltaf stað og stund. Í baráttuhópum myndast oft viss stemning í kringum viðtekin sannindi og þeir sem ekki fella sig alveg við þau sannindi eru sjálfkrafa taldir hafa rangt fyrir sér. Umræðugrundvöllurinn er ekki alltaf mikill enda er þolinmæði fólks oft af skornum skammti þegar flestir andstæðingar þeirra eru í raun bjánar sem annað hvort skilja ekki baráttuna eða eru beinlínis á móti því að gefa eftir af eigin hagsmunum til annarra. Skynsamleg gagnrýni drukknar í svoleiðis orðræðuumhverfi, sem er einmitt það sem gerðist í tilviki vinar míns. Á köflum getur núanseruð gagnrýni nefnilega hljómað nákvæmlega eins og þöggunartilburðir þeirra sem vilja setja endalausa fyrirvara á alla róttæka umræðu. Þetta er vandamál sem ég get ekki ímyndað mér að verði nokkru sinni leyst.

Vinur minn var á þessum tímapunkti orðinn afneitari kynþáttahyggju, hvítþvottamaður og hrútskýrandi. Þá er honum bent á að fræðikonan er farin að baktala hann í öðrum hópi á Facebook frammi fyrir sumum af helstu amerísku fræðimönnum á sviðinu, og hann fer þangað til að verja sig en er fálega tekið. Þetta hefði getað endað þarna en í miðjum þessum umræðum áttar fræðikonan sig á því að hún hefur verið þögguð í fornenskuhópnum; nær allt sem hún hafði sett inn á síðuna var horfið, en þegar hún fékk hvítan karlvin sinn til að setja inn sömu færslur aftur þá stóðu þær án þess að nokkur hróflaði við þeim. Það er vandséð að þetta sé ekki kerfisbundin mismunun gagnvart henni persónulega, nokkuð sem vitanlega á ekki að líðast, en hún (skiljanlega mikið niðri fyrir) slengir vini mínum í hóp þeirra sem hún telur að hafi reynt að þagga niður í sér. Umræðurnar urðu þungar og hatrammar og vini mínum fannst hann dreginn í svaðið. Þá gerir hann þriðju mistökin: Hann sendir tölvubréf til sameiginlegrar vinkonu þeirra til að skýra mál sitt, að þetta hafi allt farið úr böndunum og það sé nú heldur ósanngjarnt hvernig honum hefur verið spyrt saman við hvíta alræðissinna og aðra rasista. Hann hefur væntanlega sent bréfið til að sjá hvort hægt yrði að miðla málum, en tónninn í bréfinu var ófagmannlegur og hann sér eftir því að hafa sent það.

Vinkonunni, sem er prófessor eins og allir í frásögninni nema vinur minn, blöskrar bréfið, brýtur trúnað og sendir það rakleiðis til fræðikonunnar ásamt eigin inngangi og túlkun á því. Þá fyrst verður allt vitlaust. Nú er vinur minn sakaður um að hafa reynt að doxxa hana, skilgreint hugtak sem merkir að hann hafi a) aflað sér upplýsinga um hana, b) deilt þeim upplýsingum með öðrum, c) í þeim tilgangi að koma höggi á hana. Um leið kemst hún að því að fólk hefur verið að gúgla sig í gríð og erg; þetta sér hún t.d. á prófílum sínum hjá academia.edu og háskólasíðunni sinni og víðar. Þeir vinir hennar sem höfðu staðið með henni í umræðunum segja sömu sögu. Nú virðist þeim sem einhvers konar doxxunarherferð sé í gangi gegn þeim. Með Trump sem forseta og nýnasista marserandi og drepandi fólk er kannski ekki skrýtið þótt bandarískir fræðimenn séu margir hverjir á nálum. Nú var vinur minn nálega kominn með horn og hala.

Næst birtast nokkrar ályktanir prófessora á vefnum, þar af ein sem nafngreinir vin minn ásamt með þekktum rasistum og einum zíonista sem fagnar því alltaf þegar palestínsk börn eru myrt. Þetta fólk sé ábyrgt fyrir persónuárásum, þöggun og doxxun fræðikonunnar og annarra, og það sé nauðsynlegt að afhjúpa það. Annar vinur minn blandar sér í málið og spyr hvort þetta sé nú viðeigandi, að fastráðnir akademíkerar séu að ráðast opinberlega gegn doktorsnema sem hafi ekkert af sér gert nema að segja skoðun sína á flóknu málefni. Fyrir þetta fékk hann yfir sig svívirðingar og ásökun um að taka málstað geranda umfram fórnarlambs og þar með viðhalda retórík nauðgunarmenningarinnar. Þetta fær hann yfir sig frá sumum af helstu fræðimönnum í faginu fyrir að biðja vægðar fyrir vin okkar. Á sama tíma grínuðust fræðimennirnir með það að einn þeirra er nafni þessa hræðilega vinar okkar, og greindu þá að í „góða“ X og „hinn“ X, sem er einmitt grundvöllur jaðarsetningar. Asískur vinur minn var með öðrum orðum jaðarsettur og aðraður í gríni af þeim (aðallega hvítu) fræðimönnum sem helst hafa rannsakað jaðarsetningu og öðrun. Ég held ekki að þeir hafi áttað sig á því hversu illa þessi framkoma hittir þá sjálfa fyrir. Í ofanálag bætist við valdastrúktúr hinna fastráðnu andspænis nemanda sem tölfræðilega átti litlar líkur fyrir á því að geta fengið vinnu við háskóla, en eftir þessa árás er spurning hvort hann muni nokkru sinni geta gert sig gjaldgengan þó ekki væri nema í bandarísku akademíunni. Það er búið að svartlista hann. Hann er „hinn“.

Málið hófst á hvítum fræðimanni sem grínaðist með að hann væri framandlegur eftir sólbað á Kanarí, en hefur endað (í bili) á asískum manni sem hefur verið gerður framandlegur og sakaður um allra verstu fyrirætlanir af (aðallega) hvítum fræðimönnum sem eiga að heita sérfræðingar í framandleikakenningum, og hafa í ofanálag lýst sig opinberlega andsnúna hvíta brandarakallinum. Það væri ekki hægt að ljúga svona furðusögu því til þess er veruleikinn of skrýtinn. Nú hefur framtíð vinar míns og frama verið teflt í tvísýnu, og til þess skrifa ég þetta á íslensku en ekki ensku að eyðileggja ekki eigin feril í leiðinni í vörn fyrir vin minn. Við þurfum á þessum Ameríkönum að halda ef við ætlum að verða eitthvað, svo það er best að við höldum kjafti og verum þæg. Það er í raun ótrúlegt hvað þau upplifa sig ofsótt rétt á meðan þau rústa mannorði valdalausra nemenda. Og það er ömurlegt að sjá að allt sem vinur minn gerðist sekur um hafa þau gerst sek um tífalt. Það gerðu þeir fræðimenn sem helst hafa orð á sér fyrir að vera framsýnir, félagslega meðvitaðir, andfasískir lýðræðis- og réttlætissinnar. Ég hlýt þá að velta fyrir mér hver sé eiginlega framtíðin í þessari umræðu ef það er svona sem hún á að virka. En það sem verst er af öllu er að svona tilgangslaus bræðravíg eru helst til þess fallin að verða vatn á myllu hinna raunverulegu andstæðinga.

Veraldarsögur

Ég nefndi veraldarsögur í bloggi í fyrradag. Þótt það segi sig að nokkru leyti sjálft hverslags bókmenntir það eru er kannski til nokkurs að segja samt lítillega frá þeim, hvað það er sem gerir þær að mínu mati að einna merkilegustu bókum sem til eru.

Veraldarsögur byggja á hugmynd heilags Ágústínusar frá Hippó um heimsaldra (lat. aetates mundi) sem oftast eru taldir vera sex, stundum sjö ef tíminn eftir heimsendi er talinn með.

Fyrsti heimsaldurinn er tíminn frá sköpun mannsins, Adams og Evu, fram að Nóa. Annar heimsaldurinn nær frá Nóa til Abrahams. Þriðji heimsaldurinn nær frá Abraham til Davíðs konungs og sálmaskálds. Fjórði heimsaldurinn nær frá Davíð til herleiðingar gyðinga inn í Babýlon. Fimmti heimsaldurinn nær frá þeirri tíð til fæðingar Krists. Sjötti heimsaldurinn hefst með Kristsburði og honum lýkur þegar hann snýr aftur við heimsendi að dæma lifendur og dauða.

Þannig hefjast veraldarsögur jafnan á sköpunarsögunni og þaðan er mannkynssagan rakin eftir Biblíunni, sem var talin vera eina örugga heimildin um veraldarsögu enda komin til okkar frá Guði. Inn í veraldarsöguna var svo jafnan fléttað öðrum sögulegum viðburðum sem voru þekktir úr heimildum sem taldar voru áreiðanlegar. Þannig er sögu Rómar, Alexanders mikla og Trójustríðsins — svo eitthvað sé nefnt — skeytt inn í frásögnina í tímaröð. Veraldarsögum líkur svo vanalega í samtíð skrifarans sjálfs, sem lifir á hinum sjötta og síðasta heimsaldri fyrir endalok veraldar. Í þeim skilningi er veraldarsögum ætlað að vera tæmandi frásagnir af sögu heimsins og mannsins. Það mætti að vissu leyti segja að menn væru að skrá það sem þekkt væri meðan þeir biðu eftir endalokunum (sem enn láta bíða eftir sér).

Sjálfstæð sagnarit sem saman mynda hluta úr eins konar stórri veraldarsögu hafa varðveist, svo sem Rómverja saga, Alexanders saga og Gyðinga saga. Þá mætti telja til svonefnd gervisagnfræðirit á við Trójumanna sögu, sem þýdd er eftir uppdiktaðri fyrirmynd Daresar Phrygiusar. Það er alveg ljóst að frumsamin íslensk sagnarit eru ekki rituð utan samhengis við hina þekktu veraldarsögu, en að hve miklu leyti þau eru framhald af henni eða viðbót við hana verður aldrei komist að með vissu. Það er einmitt í samhengi við þessa vitneskju um heiminn sem ég tel að eðlilegast sé að lesa konungasögur, Íslendingasögur og fornaldarsögur. Veraldarsögur eru okkur ekki síður ómetanlegar heimildir um hugsunarhátt miðaldamanna einmitt þess vegna.

Miði til Kaupmannahafnar

Ég á flugmiða til Kaupmannahafnar. Slíkir flugmiðar, þótt þeir kosti ekki (rosalega) mikið, eru með því dýrmætasta sem ég veit. Miði til Kaupmannahafnar er ekki aðeins aðgöngumiði að þriðja heimalandinu, heldur að vinum, kunningjum og samstarfsfólki hér og þar í Danmörku sem ég hitti sjaldnar en ég vildi.

Í Kaupmannahöfn verð ég í þrjá mánuði að rannsaka miðaldahandrit, eitt af þessum sem menntamálaráðherra man eftir þegar hann þarf að semja ræðu en lætur þess utan sem hann kannist ekki við. Ótrúlegt að honum sé enn boðið að halda þær.

Þeim sem vilja kynna sér hvaða handrit ég ætla að rannsaka er bent á bls. 92–95 í bókinni 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar, einkum á fallegu opnumyndina á bls. 94–95. Þetta er (meðal annars efnis) veraldarsaga frá 14. öld. Það vita það fáir en veraldarsögur eru með merkilegustu bókum sem til eru. Þeir sem vilja vita hvað Snorri Stull og höfundar Íslendingasagna héldu um heiminn ættu að byrja á að lesa veraldarsögu.

Þetta er ekki allt sem ég ætla að skoða, en það helsta.

Í Árnasafni úir og grúir af ómetanlegum gömlum bókum sem búa yfir ótal leyndardómum um löngu horfna tíð. Ég finn oft fyrir virðingarleysi gagnvart þessum viskuauð, ekki síst hjá þeim sem fara með æðstu yfirstjórn menningar- og menntamála í þessu landi. Hefði bókunum ekki verið bjargað í brunanum í Kaupmannahöfn forðum mætti líkja missinum við hið glataða bókasafn í Alexandríu, bara á smærri kvarða.

Íslendingar komust ansi nærri því að verða sögulaus þjóð. Kannski ekki síst þess vegna eru Íslendingar margir mjög áhugasamir um eigin sögu. Vandinn er kannski helst sá að flestir telja sig þekkja hana til hlítar þegar við vitum í raun sáralítið, að Árnastofnun sé minjasafn en ekki rannsóknarstofnun, og að óþarfi sé að veita peningum í handritin því þau verði alltaf til — sem þau verða einmitt ekki. Þekkingin verður heldur ekki alltaf til. Hún hverfur með vísindafólkinu. Vísindafólkið hverfur þegar peningarnir hverfa.

Ég hef rannsakað miðaldatexta á eigin kostnað síðustu árin og varið til þeirrar iðju fjárhæð sem talin verður í nokkrum milljónum króna. Ég hef ekki efni á því út starfsferilinn.

Nú á ég miða til Kaupmannahafnar þar sem mér verður í fyrsta skipti á ævinni beinlínis borgað fyrir rannsóknir fremur en að ég snari því úr eigin vasa. Það verður tilbreyting. Fyrir margt löngu hafði ég orðið mér úti um litla íbúð á góðum stað í borginni. Það verður einmanalegt án Eyju og stelpnanna, en ég hlakka engu að síður til. Þeir sem ekki sjá spennuna í því að fletta skinnhandriti frá 14. öld er einfaldlega fólk handan míns skilnings.

Reza Aslan og málsvörn fyrir fræðilegt hlutleysi

Ég hef verið afar hugsi yfir umræðunni um fræðimanninn Reza Aslan undanfarið. En áður en ég vind mér í hana vil ég byggja undir hugleiðingar mínar með eftirfarandi atriðum (ég biðst velvirðingar á lengdinni og afsaka það ef lesendum leiðist að ég skuli endurtaka sumt sem þeir þegar vita):

Aslan (fyrir utan að vera flott nafn, sem allir sem hafa einhverju sinni alist upp vita að merkir ljón, eða tengja a.m.k. við ljón) er með fjórar háskólagráður. Þrjár af þeim skipta máli fyrir þessa umræðu: Hann er með B.A.-próf í trúarbragðafræðum (religion), M.A.-próf í guðfræði og almennri trúarbragðafræði (theological studies), og doktorspróf (Ph.D.) í trúarlífsfélagsfræði (sociology of religion), allt frá virtum háskólum. Það þýðir ekki nauðsynlega að Aslan sé góður rannsakandi, en það þýðir þó það að hann er sérfræðimenntaður á sviði trúarbragðarannsókna.

Hann er fæddur í Íran en fluttist á barnsaldri ásamt foreldrum sínum til Bandaríkjanna sem flóttamaður, þar sem hann tók upp kristni. Hann snerist síðar aftur til íslam og það er annað aðalatriðið af tveim í þessari umræðu. Sem kunnugt er skrifaði Aslan bók sem þegar í titlinum gefur í skyn að Jesú frá Nasaret hafi verið ofstopamaður, og fyrir það réðist Lauren Green á ofstopastöðinni Fox á hann og fékk það, sem frægt er orðið, óþvegið tilbaka.

Þetta eitt lygilegasta sjónvarpsviðtal síðustu ára hefur skiljanlega kallað fram þónokkra þórðargleði í fólki, en einnig þau viðbrögð frá trúleysingjum (þótt einn skrifi hef ég það í fleirtölu því ég sé marga taka undir) að þó að árásin á Aslan hafi verið óverðskulduð þá hafi hann sjálfur verið ósanngjarn í garð – ef ekki hreinlega fávís um – trúleysi sem lífsafstöðu. Svo er áreiðanlega til allur fjöldinn af annars konar viðbrögðum sem ég hefði ekki geð í mér til að kanna til hlítar.

Ég rakst einnig á annað sjónarhorn og það er fyrst og fremst það sem ég hef áhuga á að bregðast við vegna þess að það snertir mig sjálfan sem rannsakanda (meðal annarra hluta) trúarbragða. Minn ágæti kunningi og samdoktorskandídat um Vatnsmýrina, Höskuldur Ólafsson, spurði nefnilega:

Hér er fræðimaður sem er einnig trúaður múslimi að halda fram ákveðinni kenningu um guð kristinna manna. Spyrillinn, sem starfar fyrir íhaldssama (kristilega) sjónvarpsstöð spyr eðlilegra spurninga í því trúarlega og menningarlega samhengi. Hvað er skrítið við þetta viðtal annað en að fræðimaðurinn reynir að gera það að aukaatriði að hann aðhyllist trú sem afguðar þann sem hann er að skrifa um?

Aðaldjúsið í því sem hann setur spurningamerki við er þó þetta:

Alltént, ég á erfitt með að trúa því að vísindamenn geti auðveldlega skilið hugmyndafræði sína við þröskuldinn þegar þeir stíga inná skrifstofuna.

Í fyrstu varð ég hissa á þessari skoðun en varð þó að viðurkenna að þetta er mikilvæg umræða, sem ég hef raunar átt í áður – síðast á miðaldaráðstefnu í Leeds þar sem rétttrúaður, gyðinglegur fræðimaður spurði mig í léttu hjali hvernig það eiginlega gengi fyrir sig að ég, trúlaus maðurinn, rannsakaði kristni á miðöldum (hans sérsvið er, vel að merkja, gyðingdómur á miðöldum). Ég lái honum ekki það að spyrja, en hann hóf heldur ekki samræðurnar á því að segja mér í óspurðum fréttum að Xur Xurssyni úti í bæ þætti ég vera ómerkilegur fúskari.

Svarið er ekki einfalt, en áður en ég kem að því vil ég nefna fleiri atriði til umræðunnar.

Ég hef ekki lesið bókina frekar en gagnrýnendur Aslans, svo ég ætla ekki að bera í bætifláka fyrir neitt sem þar kann að koma fyrir. Ég gat þó ekki skilið hann öðruvísi en svo að hann ynni útfrá þeirri megintilgátu að Jesús frá Nasaret hafi sannarlega verið uppi. Það þarf ekki að þýða annað en það að hafi hann verið til, þá sé hægt að bera saman heimildir um hann við sögulegar heimildir frá sama tíma. Eina dæmið sem hann nefnir um vinnubrögð sín í sjónvarpsviðtalinu er einmitt þess eðlis (að hafi Jesús verið krossfestur í reynd, þá séu til heimildir frá Rómverjum um það hvers konar glæpamönnum var refsað þannig) og það þykir hreint út sagt ekkert óeðlilegt við að viðhafa slík vinnubrögð í trúarsögulegum eða sagnfræðilegum rannsóknum.

Aslan er hinsvegar ekki gagnrýndur fyrir rannsóknina heldur fyrir að kalla Jesú ofstopamann (zealot), sem raunar þarf ekki mikið hugmyndaflug til að hafa yfir mann sem samkvæmt heimildum var áhrifamikill safnaðarleiðtogi sem opinberlega gekk í berhögg við ríkjandi skipulag síns tíma. Og Aslan er vitaskuld langt því frá fyrstur til að gera það þó að ég muni raunar enga titla; ég hef ekki lesið um efnið í ein sjö ár en ég get rifjað eitthvað upp ef einhver gengur á mig.

Reyndar er svo lítið nýnæmi í þessari bók af útlitinu og umræðunni að dæma (hið fyrra er að sönnu slæmur mælikvarði en hið síðarnefnda gefur á hinn bóginn til kynna að það sé ekki bókin sem er vandamálið) að ég fæ ekki séð að málið snúist um neitt annað en það að það angrar sumt kristið fólk í Bandaríkjunum að múslimi, samlandi þeirra eður ei, skrifi bók um Jesú sem tekur til endurskoðunar þær túlkanir á honum sem birtast í guðspjöllunum. Sem þýðir aftur að fullkomlega hefðbundin nálgun á afar flóknar heimildir hefur nú ýtt undir umræðu um innbyggða fordóma (implicit bias), að „sú hugmyndafræði sem maður aðhyllist sé að hafa áhrif á þá rannsókn sem maður stundar og þ.a.l. á niðustöðuna“. Mér finnst þetta vera svolítið stökk en það er á hinn bóginn greinilegt að þetta er umræða sem verður að taka. Og ég tek það fram að ég er á margan hátt sammála Höskuldi um flest það sem hann nefnir (nema kannski helst það að spurningar Lauren Green hafi verið sanngjarnar eða eðlilegar – þær voru a.m.k. fyrirsjáanlegar), þó að mitt sjónarhorn sé að vísu töluvert frábrugðið.

Hvernig gæti ég hlutleysis í mínum rannsóknum? Hvernig hindra ég það að hugmyndafræðin vefjist fyrir fótum mér? Fyrst um hlutleysi: það er auðvitað ekki hægt vera hlutlaus og það vita allir sem fást við vísindi að það er frekar lítið sem vinnst með því að ræða þann ímyndaða möguleika. Það er ekki einu sinni hægt að vera hlutlaus raunvísindamaður, því jafnvel ef hægt væri að taka vísindamanninn út úr myndinni þá eru mælitækin ekki hlutlaus heldur eru þau óhjákvæmilega aðeins túlkandi fyrir veruleikann sem þau eiga að mæla. Það þýðir ekki að niðurstöðurnar verðir rangar; þær geta verið réttar en þær eru háðar því kerfi sem mælt er eftir, og öll kerfi eru túlkandi hvert með sínum hætti. Málið vandast þó enn frekar þegar gögnin sem mæla á eru textar og aðalmælitækið er tungumálið, sem hvorki er raunsönn né hlutlaus lýsing á veruleikanum nema að svo miklu leyti sem við höfum ákveðið að tiltekin tákn merki tiltekna hluti, og þar með komið fyrir túlkun á veruleikanum fyrir innan hugtakakerfis sem aftur er í mismiklum mæli breytilegt ekki aðeins á milli þjóða, heldur jafnvel á milli einstakra málhafa (Saussure, fo sure). Þar að auki erum við sem rannsökum forna texta jafnan félagslega, þjóðfélagslega, trúarlega og hugmyndafræðilega aðskilin frá höfundi textans og hugsun hans, fyrir utan svo allar aldirnar sem skilja okkur að einnig: við erum í reynd að rannsaka framandi menningarheima. Til þess að skilja texta þarf því fyrst að skilja samfélagið sem textinn sprettur upp úr, og það verður ekki gert nema með áralöngum rannsóknum þar sem við gerum okkar ítrasta til að skilja ekki veruleikann nema á forsendum þeirra texta sem til umfjöllunar eru.

Ég ætla ekki að halda því fram að það sé auðvelt, en krafan verður þar af leiðandi sú að við reynum að leggja okkur sjálf til hliðar svo sem okkur framast er unnt þegar við rannsökum (í þessu tilviki) forna texta; að við reynum að túlka þá ekki í ljósi allrar þeirrar sögu og vitneskju sem orðið hefur til síðan þeir litu dagsins ljós. Við viljum komast nálægt heimsmynd þeirra sem rituðu textana, hugmyndafræði þeirra og trúarlífi. Aðalmálið er að ég held að Reza Aslan sé bæði fullvel meðvitaður um að sú krafa er gerð til hans, og að í einhverjum tilvikum þá mistakist honum að halda sjálfum sér frá þeim heimildum sem hann er að rannsaka. Slíkt gerist og fyrir það eru fræðimenn gagnrýndir. Enginn hefur hinsvegar gagnrýnt hann fyrir það, heldur hefur hann verið gagnrýndur vegna möguleikans á því að hann hafi vegna trúar sinnar fokkað upp verkinu því sem múslimi sé hann haldinn fordómum í garð kristni. Þessi gagnrýni kemur fyrst og fremst frá bókstafstrúarfólki.

Hvað hugmyndafræðina áhrærir þá er ég ekki viss um hvernig ég geti svarað því. Ég trúi ekki á máttarvöld, æðri eða lægri, en þó er ég afar áhugasamur um trúarbrögð. Það er að segja: ég er áhugasamur um virkni trúarbragða. Með virkni þá meina ég það hvernig fólk upplifir lífið í trúnni og heiminn umhverfis sig. Og til þess að geta rannsakað trúarlíf fólks á miðöldum þá þarf ég að bera fyrir því virðingu, og með því að lesa sem flesta trúartexta (og aðra texta) frá miðöldum þá kemst ég nær skilningi á því hvaða hugmyndafræði mótaði líf fólks á því tímaskeiði sem rannsókn mín nær til.

Þegar ég fjalla um sköpunarsöguna þá skiptir mig ekki máli hvernig mér lærðist hún í barnaskóla, heldur hvernig hún birtist mér í Veraldarsögu, í Hauksbók, í Stjórn, í Elucidarius, í annálum; ég reyni að rannsaka sameiginleg þemu en þó sérstaklega það sem út af stendur svo ég hafi sem fjölbreyttasta mynd af þeim trúarhugmyndum sem voru í umferð á Íslandi. Ef einhver telur mig verri rannsakanda fyrir það að ég trúi ekki á téða sköpunarsögu þá áttar viðkomandi sig kannski ekki á því hvað sú sköpunarsaga er þýðingarmikil í sögu vestrænnar menningar – það skiptir mig ekki máli hvort hún er sönn eða ekki, ég get rannsakað ólíkar gerðir hennar fyrir því og borið virðingu fyrir því fólki sem lagði líf sitt í hendur ókunnum krafti sem það nefndi Guð.

Ég rek ekki söguna aftur á bak og ég legg mikið upp úr því að þvinga ekki hugmyndafræðilegar stærðir upp á menningarheim sem sjálfur hefði ekki skilið þær. Það kemur m.ö.o. ekki til greina, fyrir mig (og veit ég að margir eru mér afar ósammála), að ég retróaktíft troði Freud, Marx, eða öðrum þvílíkum kenningakerfum upp á heim miðaldafólks. Ég segi ekki að það sé rangt að gera það, heldur að ég vilji komast sem næst því að skilja miðaldafólk á þess eigin forsendum. Miðaldirnar reyni ég því – eftir fremsta megni – að nálgast út frá ríkjandi skilningi þess tíma. Raunar snýst rannsóknarefni mitt að hluta til um það að sjá að hversu miklu leyti ríkjandi skilningur í Evrópu náði til Íslands.

Það geri ég auðvitað ekki fordómalaust – það getur enginn. Og nú veit ég ekki hvernig Aslan vinnur sína bók en ég hygg miðað við hans feril hingað til að hann hafi aldrei orðið fyrir eins alvarlegum ákúrum einsog núna. Sem hann verður fyrir vegna þess að hann er múslimi. Það eru ábyggilega hundrað atriði í bókinni hans sem ég tæki ekki undir og þættu ekki tíðindi til næstu hugvísindadeildar.

Ég held að við séum öll meðvituð um að við stýrumst í okkar rannsóknum af einhverjum hvötum – og af miklum ákafa, því annars hefðum við aldrei enst í þessu – og rannsóknir gefa nú til kynna að fordómar okkar stjórna hugsunum okkar á enn dýpra borði en okkur hafði órað fyrir. Mér finnst það þó ekki réttlæta gagnrýnina. Hefði Lauren Green hafið viðtalið á því að spyrja Reza Aslan um þá gagnrýni sem hafi verið sett fram, að hann sem múslimi væri ef til vill ekki besti aðilinn til að skrifa um Jesú, og látið þar við sitja eftir að svarið var komið, þá hefði það verið spurning í lagi. En það eina sem hún gerir í gegnum allt viðtalið er að vitna aftur og aftur í nýjan og nýjan karl sem fæstir hljóma einsog þeir hafi lesið bókina og spyrja hvernig hann bregðist við þessu. Hún hafði ekki lesið bókina og hún hafði engar aðrar spurningar; hún hafði einfaldlega ekki áhuga á öðru en að reyna að koma höggi á hann, og það mistókst.

Og upp úr þessu spretta í reynd tvær umræður: Ef líkur eru á að Aslan hafi annað hvort viljandi reynt að koma höggi á kristni með bókinni, eða á hinn bóginn stjórnast af fordómum, þá er sennilega besta leiðin til að afhjúpa hann að lesa bókina. Það hefur hinsvegar enginn gert og því veit ég ekki hvort við komumst neitt lengra áfram með þá umræðu í bili. Hin umræðan sem mér þykir áhugaverðari og mikilsverðari fjallar um það hvernig við sem rannsökum trúarbrögð getum gætt hlutleysis í okkar skrifum. Það getum við einfaldlega ekki nema að takmörkuðu leyti og því tek ég að sjálfsögðu undir það að við þurfum öll að vera meðvituð – ekki endilega um fordóma okkar – heldur um það að við höfum fordóma.

Þó að Aslan gremjist (að mínu viti skiljanlega) að vera spurður svona, og þvertaki fyrir það í vörn fyrir starfsheiður sinn, þá efast ég ekki um það að hann sé þess alveg meðvitaður að hann búi yfir fordómum rétt einsog aðrir, alveg einsog ég og alveg einsog rétttrúaði gyðingurinn sem rannsakar gyðingdóm á miðöldum. Þannig sýnist mér umræðan um fordóma fræðimanna yfirleitt benda í þá átt að umræðan um fordóma Aslans sérstaklega hafi verið ósanngjörn, því hver svo sem trúarleg afstaða fræðimannsins er þá erum við öll sem rannsökum trúarbrögð undir sömu sökina seld: við erum öll jafn ótrúverðug og Aslan, á alveg sama hátt og rannsakendur einkum og sér í lagi í félags- og hugvísindum gætu látið hugsjónir sínar og pólitík hafa áhrif á rannsóknir sínar.

Og það er fullkomlega valid umræða, að fræðimenn geti verið litaðir af lífsviðhorfum þó að þeir eigi eftir fremsta megni að forðast að vera það. En við getum ekki gengið að því a priori að allir vísindamenn með skoðanir láti stjórnast af þeim og það er það sem mér fannst umræðan fyrst og fremst snúast um, eða þangað til mér varð ljóst að hún hafði klofnað svona rækilega í tvennt. Þetta er ekki málsvörn fyrir Reza Aslan heldur fyrir sjálfan mig og okkur öll, og ef til vill mætti draga saman niðurstöður minna hugleiðinga um efnið svona:

1. Við lifum á tímum þegar rannsóknir fræðimanna eru iðulega dregnar í efa og gerðar tortryggilegar í pólitískum tilgangi sökum ætlaðra annarlegra hvata þeirra. Þetta er ekki síst algengt í íslenskri umræðu eftirhrunsáranna.

2. Sú bylgja reis hæst það ég hef séð þegar órökstuddar blammeringar voru látnar dynja á Reza Aslan í sjónvarpinu. Ekki fyrir að hafa skrifað tortryggilegt rannsóknarverk, heldur fyrir það að vera múslimi. Þessa taktík mætti kalla skip the middle man: það er óþarft að tortryggja verkið þegar höfundurinn er sjálfur tortryggilegur.

3. Ef við hinsvegar föllumst á að þessar blammeringar hafi verið réttmætar, þá þurfum við að líta í eigin barm og átta okkur á því að allar réttmætar ástæður þess að stilla Reza Aslan svona upp við vegg hljóta að eiga við alla fræðimenn, alstaðar og á öllum tímum. Þó að umræðan geti ef til vill skilað okkur eitthvert áfram er ég ekki reiðubúinn að fallast á slíka niðurstöðu.

Af ófreskjum, sögu og smjöri

Það tekur því ekki lengur að plögga hluti á bloggsíðum, en þetta Smjörfjall sögunnar hér gleður mig. Mér finnst ég hafa heyrt eitthvað um þetta sama smjörfjall í þeim skilningi sem þau lögðu upp með, sennilega hef ég bara heyrt þetta hjá sjálfum aðstandendum síðunnar einhvern tíma áður, en konan mín er á hinn bóginn þaulkunnug þessu smjörfjalli í 1980 merkingunni og birtir dæmi þarna í athugasemdum.

En nóg um það, þetta er gott framtak. Mig langar að nýta tækifærið og halda áfram að ræða smjör í, kannski ekki sögulegum skilningi strangt til tekið – og þó.

Í ágætu yfirlitsriti sínu um ófreskjur (The Monstrous Races in Medieval Art and Thought) bendir John Block Friedman á að algeng leið til að framandgera andstæðinga, allt frá árdögum mannkyns til okkar daga, er að benda á óvenjulegar matarvenjur þeirra. Það þekkja margir t.d. úr styrjaldarmyndum þegar bandamenn kalla Þjóðverja ‘Krauts’. Með því að nefna þá eftir tiltekinni fæðu, í þessu tilviki súrsuðu káli, þá fara þeir á svig við mennsku Þjóðverjanna. Þeir eru enda ekki menn, heldur sá viðbjóður sem þeir borða: súrkál.

Friedman nefnir mörg dæmi um slíka virka sýnekdókunotkun, en ýmsar þjóðir voru þekktar af fæðu sinni á miðöldum í gegnum hina sívinsælu alfræði Plíníusar eldri (Naturalis historia), t.d. þjóðin sem aðeins át fiska (ichtyophagi) og hinir skelfilegustu anthropophagi sem varla tjóir að skýra hvað merkir. Þessar þjóðir þóttu ekki aðeins óvenjulegar, heldur jafnvel ófreskjum líkar, sakir mataræðis síns eins.

Glöggur lesandi áttar sig nú á því hvert stefnir. Í Ketils sögu hængs segir frá kappanum Katli sem lendir í hrakningum norður af Finnmörk og gistir af þeim orsökum hjá þarlendum manni sem nefnist Brúni. Hann býður Katli að liggja hjá Hrafnhildi dóttur sinni, sem hann þiggur, en þá breiðir Brúni yfir þau uxahúð, og þegar Ketill spyr hvers vegna þá svarar Brúni að bragði:

„Ek hefi hingað boðit Finnum, vinum mínum […] ok vil ek eigi, at þit verðit fyrir sjónum þeirra. Þeir skulu nú koma til smjörlaupa þinna.“

Og viti menn:

Finnar komu ok váru eigi mjóleitir. Þeir mæltu: „Mannfögnuðr er oss at smjöri þessu.“ Síðan fóru þeir í burt.

Lesandinn veit þegar að Finnar eru varhugaverðir. Þetta er undirstrikað með því að Brúni fær þeim smjörið sem Ketill hafði haft með sér; þeir eru smættaðir niður í smjörið eitt, framandgerðir. Í framhaldinu Örvar-Odds sögu kemur svo eftirfarandi í ljós um barnið sem varð undir hjá Katli og Hrafnhildi þessa örlagaríku nótt þegar Finnar sóttu smjörlaupana:

Grímr hét maðr ok var kallaðr loðinkinni. Því var hann svá kallaðr, at hann var með því alinn, en þat kom svá til, at þá þau Ketill hængr, faðir Gríms, ok Hrafnhildr Brúnadóttir gengu í eina sæng, sem fyrr er skrifat, at Brúni breiddi á þau húð eina, er hann hafði boðit til sín Finnum mörgum, ok um nóttina leit Hrafnhildr út undan húðinni ok sá á kinn einum Finninum, en sá var allr loðinn. Ok því hafði Grímr þetta merki síðan, at menn ætla, at hann muni á þeiri stundu getinn hafa verit.

Sterklega er gefið í skyn að þetta eigi sér stað vegna þess að Finnarnir eru yfirnáttúrulegir og ómennskir, ekki ólíkt súrsuðum andstæðingum bandamanna eða hinum kynlegu fiskætum Plíníusar.

Smjör getur þannig á ýmsan hátt verið afdrifaríkt. Þótt það geri okkur ekki öll loðin á kinn hvort heldur sem er með beinum eða óbeinum hætti, eða að við beinlínis föllum í valinn sakir þess líkt og Gunnar á Hlíðarenda, og hvort sem því sjálfu var hlaðið í loðinn stafla af eigin myglu í Skálholti eða ekki þá hefur smjör með ýmsu móti haft áhrif á gang sögunnar. Það er því bara ágætt að blogg um sagnfræði sé kennt við smjör því þegar vel er að gætt er smjörið síst ómerkilegra en sagan: oft er nefnilega engin saga án smjörs.

L'étranger e(s)t le monstre

Að skipta úr Edgar Allan Poe yfir í Rudyard Kipling er einsog að koma ofan af Vatnsskarði í blindbyl niður í Skagafjörð um sumar. Þar á ég við ritstílinn en ekki efnið. Öll viðbrögð ég-sins (allar söguhetjur Poes eru ég) í The Fall of the House of Usher (ekki „tónlistarmannsins“) eru yfirdrifin, úr samhengi við aðstæður; ég-ið er myrkfælin „dramadrottning“. Svo er hann rasisti, sem passar við skrímslateóríuna mína; hinar villtu þjóðir eru, í mannkynssögunni, ófreskjur. Kipling hefur oft verið tengdur við kólóníalisma, ekki síst af eftirlendufræðingum, en þrátt fyrir alla hans hvítu byrði þá finnur maður ekki hjá honum þá skoðun að múslimar séu ómennskir. Þvert á móti gætu hörðustu dómarnir sem finna má í The Man Who Would Be King allt eins verið lýsing hans á Lundúnum ef maður aðeins skiptir út indversku terminólógíunni.

~

Í hryllingsbókmenntum (kvikmyndir teljast þar með) er lausnin alltaf fólgin í einni bók, eða einhverju einu ítemi öðru. Hafið þið tekið eftir þessu? Söguhetja fer til sálfræðings/galdralæknis eftir að hafa lent í yfirnáttúrulegum hremmingum og viðkomandi segir henni að lesa þessa bók. Svo reynist svarið liggja þar. Galdra-Loftur leitar einnar galdrabókar, Rauðskinnu, sem á að leysa öll hans vandræði (lesist: valdafíkn). Jack Nicholson í Wolf er uppálagt að lesa eina tiltekna bók, sem hann afþakkar. Hann fær þá einn tiltekinn verndargrip sem á að afúlfa hann, ef svo má að orði kveða. Hann hættir að nota hann þótt ljóst sé að gripurinn virkar. Í Dumasarfélaginu er það ein bók, sem varðveist hefur í þrem frábrugðnum eintökum af annarri bók, en allt annað er fals. H. P. Lovecraft var auðvitað með Necronomicon.

Þetta sama má svo, sjálfsagt engum til furðu, finna í þeim samfélögum eða undirsamfélögum – líklega má kalla það menningarkima – sem aðhyllast einhverja dulspeki. Sumum nægir einfaldlega að lesa eina uppdiktaða Necronomicon –hverja af þeim mörgu bókum sem ganga undir því heiti sem er – eða nokkrar svoleiðis, til að þykjast hafa höndlað sannleikann. Mér finnst það vera merkileg hugmynd, að telja að sannleikur einhvers máls geti leynst í einni bók, hvað þá heils heims. Kannski finnst mér það ekki síður merkilegt af því að einhvern tíma var ég haldinn þessari sömu ranghugmynd um bækur. Til þess að komast að smávægilegum sögulegum sannleik þarf ég hinsvegar að lesa heil ógrynni af bókum. Framsetningin er auðvitað auðveldari svona, og hugmyndin er heillandi, að finna eina gamla skræðu í gleymdu bókasafni og leysa með henni gátur. Poe var alltaf með þetta „forgotten lore“. En séð utan frá mætti líka segja að hryllingsheiminn hrjái akademísk leti.

Hvað er skrímsli?

Skrímsli eftir Áslaugu Jónsdóttur
Hvað er skrímsli? Sé íslenska orðinu slegið upp í Google finnur maður myndir úr skrímslabókum Áslaugar Jónsdóttur og Disneymyndinni Monsters Inc., en einnig koma fram myndir af einni ófreskjunni úr myndinni El laberinto del fauno og meintu skrímsli sem skolaði upp í fjöru í Montauk fyrir fjórum árum sem ég fæ ekki betur séð en að sé hundur. Leit að orðinu monster færir okkur á hinn bóginn auglýsingar fyrir orkudrykk.

Við þekkjum skrímslið á því að það er öðruvísi en önnur dýr. Raunar er það oft blanda úr öðrum dýrum, óskapnaður í kristilegum skilningi, og við höfum lært að dýr sem ber eiginleika margra dýra í senn er vanskapað, jafnvel af hinu illa. Griffill er blanda af erni og ljóni, mantíkóra er blanda af ljóni og manni. Andstæðan á milli hins náttúrulega og ónáttúrulega verður óskýrari því meiri sem líkindin á milli okkar og hins eru. Menn eru ekki dýr, og dýr sem sækir líkindi til manna er ófreskja. Mestu ófreskjurnar eru þær sem við fyrstu sýn virðast vera mennskar: afturgöngur, uppvakningar, vampírur. Þær eru grótesk afbökun á fullkomnu sköpunarverki Guðs. Það er ekki síst í gegnum trúarbrögð sem okkur er kennt að hata þær.

En það er ekki endilega að svo miklu leyti vegna þeirrar perversjónar á hinu mannlega og náttúrulega sem skrímsli eru svo hötuð, heldur einmitt vegna þess að þau spegla okkar eigin viðhorf sem við kannski þorum ekki að horfast í augu við. Í grunninn er skrímslið við. Við erum skrímslið. Þess vegna er nálgun Áslaugar Jónsdóttur kannski sú sem er mest blátt áfram, því hún leiðir alveg af hugmyndinni um skrímslið sem spegil sjálfsins; skrímslin hennar borða, fá flensu og lesa fyrir svefninn undir sænginni sinni. Og þegar við sjáum að þau eru einsog við, þá lærum við líka að hætta að óttast þau. Sú niðurstaða er eins gömul og skrímslasagan.

Samabók ÍE

Íslendingabók Kára hefur ekki efni á því að vera kresin á heimildir þegar kemur að allra elstu ættartengslum á Íslandi. Á bláþræði framætta strandar allt að lokum á einni heimild og þess vegna eru fornaldarsögur Norðurlanda til dæmis á meðal heimilda Íslendingabókar. Þar af leiðandi leyfir ættfræðin mér sitthvað sem sagnfræðin gerir ekki: til dæmis að kalla mig afkomanda Ketils hængs og Hrafnistumanna.

Ketill hængur var sonur Hallbjarnar hálftrölls, sem var mjög í nöp við tröll en átti þó eintóm tröll að vinum, enda var hann sjálfur af tröllum kominn. Hugmynd Hermanns Pálssonar um samskipti Hrafnistumanna og trölla (hinir fyrrnefndu eru fæddir tröllabanar) er sú að hér sé um að ræða samskipti Norrænna manna við Sama; hugtakið tröll nái nefnilega yfir galdramenn, jötna og Finna – það er að segja Sama – allt í einu. Sem er að mörgu leyti skynsamleg ályktun. Hún leiðir engu að síður að því, með hjálp ættfræðinnar, að ég sé af samískum ættum (sem af jojki má heyra). Það er kannski ágætt dæmi um hversu hættulegt það getur verið að taka svona hluti of bókstaflega.

Fræðileg útgáfa Biblíunnar

Ég fór óvart að fantasera á Facebook um að eignast fræðilega útgáfu á Biblíunni. Best væri ef Hið íslenzka bókmenntafjelag stofnlegði ritröðina Erlend fornrit að fyrirmynd Íslenzkra fornrita. Þess í stað höfum við þýðingar Lærdómsritanna, sem að ósekju mætti gera að hardkor fræðilegri útgáfu án þess að almennir lesendur yrðu nauðsynlega fældir frá.

Og nógu déskoti oft hefur Biblían líka verið gefin út og látið með hana einsog hún sé einhver fastur texti. En þannig er það auðvitað ekki. Ef ég ætla að vitna í Biblíuna þá get ég ekki tekið íslensku þýðinguna frá 2007 og fært hana aftur um eitt einasta ár; hún er aðeins nothæf í Biblíutúlkun eftir útgáfuár sitt, það leiðir af sjálfu. Að sama skapi verður King James Biblían ekki til fyrr en snemma á 17. öld svo ég get ekki stuðst við hana í umfjöllun um 13. öld. Vúlgatan verður til seint á 4. öld, á 13. öld er hún orðin opinber Biblía Rómversk-katólsku kirkjunnar og hún er enn gríðarlega mikilvæg seint á 16. öld. Hafi maður áhuga á kristni á miðöldum þá les maður semsagt Vúlgötuna.

Í fljótu bragði sé ég ekki að nein fræðileg útgáfa af Vúlgötunni sé til á Landsbókasafni, og raunar sé ég ekkert á víðáttum internetsins heldur, að minnsta kosti ekki með skýringum. Ég leita þá bara svara annarsstaðar við þessari gátu:

Biblia Sacra Vulgata:
et nomen fluvio secundo Geon ipse est qui circuit omnem terram Aethiopiae

Paradís er staðsett í heiminum með því að fjórar ár sem renna í gegnum hana eru nefndar. Ána Geon eða Gíhon hefur ekki tekist að staðsetja með fullnægjandi hætti, en athygli vekur að í Vúlgötunni og í King James er hún sögð vera í Eþíópíu:

King James Version:
And the name of the second river is Gihon: the same is it that compasseth the whole land of Ethiopia.

Sem getur ekki verið því Paradís lá í austri í heimsmynd miðalda, í Asíu en ekki í Afríku. Auk þess eru Tígris og Efrat tvær hinna ánna sem renna um Paradís og þær eru báðar í Mesópótamíu, eða í Írak svona í grófum dráttum. Í nútímaútgáfum er Gíhon því sögð renna um Kúsland sem sumir hafa viljað finna stað við landamæri Pakistan og Afganistan nútímans:

English Standard Version:
The name of the second river is the Gihon. It is the one that flowed around the whole land of Cush.

Biblían (1915):
Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland.

Á Eþíópíunafninu hef ég ekki skýringu (hún er ábyggilega einföld), en á hinn bóginn hef ég aldrei handleikið Biblíu sem einu sinni nefnir það að ekki beri öllum gerðum Biblíunnar saman um þetta, hvað þá önnur og flóknari atriði sem oss dauðlegum er djöflinum erfiðara að komast að sjálfir. Það þýðir ekki að sú Biblía sé ekki til, bara að ég hef ekki fundið hana. Hér með auglýsi ég eftir krítískri útgáfu á Biblíunni með rækilegum inngangi sem tekur á textafræðilegum forsendum útgáfunnar og málfræðilegum og guðfræði þess tíma sem útgáfunni er ætlað að endurspegla, formála að öllum bókum, gommu af neðanmálsgreinum og orðskýringum í meginmáli og nafna-, orða- og heimildaskrá aftast. Og meira til.

Og þetta bið ég um án þess að finnast Biblían einu sinni neitt sérlega skemmtileg. Ef þetta er til einhversstaðar þá held ég að mörgum væri gagn í að vita um það.

Þjónn, það er kona í mannkynssögunni minni

Mig langar að verða duglegri við að setja inn ýmiss konar hugleiðingar hér, almenns efnis, námsefnis og svo framvegis. Til að mynda rámaði mig snögglega í það – meðan ég beið eftir espressókönnunni rétt áðan (ég drekk kaffi á kvöldin) í samræðu við Eyju um hina karlmiðuðu sögu (ég bjó til þennan Jón Sigurðsson sem fylgir bloggfærslunni, eiginlega alveg óvart, og þaðan spratt umræðuefnið) sem einhverjum gæti þótt móðgandi að tala um sem slíka – að saga, einsog ég man það, var fag sem öllum þótti leiðinlegt, bæði stelpum og strákum. Alltaf. Nema rétt á meðan það var tilkynnt að lesið yrði um aðra hvora heimsstyrjöldina – hvora sem var – þá þótti strákunum gaman í sögu. En svo byrjuðu þeir að lesa og saga varð strax aftur leiðinleg. Það stóðst ekki samanburð að lesa eða horfa á Apocalypse Now í heimabíói (héldu þeir).

Þórður bróðir kvartaði einhvern tíma undan því að honum væri fyrirmunað að lesa línulega atburðarás yfir margar aldir ef hann ætti að muna nokkurn skapaðan hlut hvað hann læsi, sér í lagi nöfn og ártöl. Og að vissu leyti er galið að læra söguna þannig, að vissu leyti er það alls ekki galið. Þegar maður fer að hugsa um þetta þessum árum síðar man maður vissulega að margir svitnuðu fyrir sögupróf. Nemendur grenjuðu einsog Ædolkeppendur á göngum skólans. Þeim gekk jafnan sæmilega sem verst gekk; enginn hafði í raun ætlast til að þeir lærðu þetta allt svona nákvæmlega og áhyggjurnar voru flestar tilefnislausar.

Þessar hugleiðingar eru þó fyrst og fremst sprottnar upp af þeirri staðreynd að mannkynssagan er karllæg, sem er mikilvægt að vera meðvitaður um þegar maður rannsakar sögu; tiltekin tímabil, menningu og bókmenntir þeirra. Það er ekki hægt að rannsaka miðaldabókmenntir nema rannsaka að einhverju leyti sögu þeirra einnig, jafnvel þótt það sé aðeins að litlu marki gert, og saga bókmennta er óhjákvæmilega saga menningar og tímabils í leiðinni. Og það er sáralítið af konum í þessari sögu allri. Ég man að þónokkrum sinnum gramdist bekkjarfélögum mínum það að eiga að læra „endalaust um einhverja löngu dauða karla“ og þær kvartanir komu jafnan frá strákum.

Ég er ekki að segja að við fáum breytt sögunni úr því sem komið er til að gera hana áhugaverðari, heldur að mér finnst þetta áhugavert í sjálfu sér. Það þarf nefnilega ekki nauðsynlega að vera að hið karlmiðaða falli körlum í geð einsog stundum mætti skilja á fólki.

~

Sjálfur hef ég alla tíð verið sögufíkill, þótt þekking mín á sögu hafi látið á sjá sökum vanrækslu síðustu misseri. Ég las allar kennslubækur sem eru alræmdar fyrir að vera leiðinlegar og fannst þær æðislegar, meiraðsegja Sjálfstæði Íslendinga I-III eftir Gunnar Karlsson. Ég hef það mér til afsökunar að ég var barn. Ég hef enga slíka afsökun þegar kemur að bókum Heimis Pálssonar.

Sturlungaöldin var mitt tímabil. Um hana vissi ég tíu ára allt það sem hægt var að læra af kennslubókum og meira til (núorðið man ég harðla lítið). Ég teiknaði ættartré Sturlunga og hending réði því að Snorri leit út einsog fífl á teikningunni en að Sighvatur Sturluson varð svalastur, og fyrir því hafði ég miklar mætur á Sighvati upp frá því og svíður alltaf dálítið í sinnið þegar ég keyri framhjá Örlygsstöðum í Skagafirði. Nú man ég ekki hvort Sturlunga var til á mínu heimili en í stað þess að lesa hana, eða gera tilraun til að lesa hana, þá hófst ég handa við að skrifa hana – á formi myndasögu – út frá því sem ég vissi. Sem var svosem ekki mikið þegar allt kom til alls.

Sighvatur féll við Örlygsstaði eftir hefðbundinni söguskoðun, en í minni útgáfu þá hafði hann falið sig í runna og duldist þar vel á grænu peysunni sinni; hann hefði lifað af bardagann ef pirraður Ásbirningur í leit að honum hefði ekki höggvið til runnans í gremju sinni og óafvitandi hæft Sighvat. Snorri var nokkuð nákvæmlega brytjaður eftir lýsingu Gunnars Karlssonar og fannst mér leiðinlegast að teikna þann kafla (enda lítið svigrúm til sköpunar). Þórður Sturluson varð óvígur í anakrónískri atlögu að skóggangsmanninum Gísla Súrssyni (Þórður bróðir hafði þá nýverið lesið Gíslasögu og mér þótti útlegð vegna sæmdarvíga spennandi) sem hafði víggirt heimili sitt með alls kyns gildrum. Þar féllu allir nema Þórður, slíkt heljarmenni fyrir sem Gísli var, en um örlög Þórðar og ævintýri átti eftir að skrifa lengri sögu. Hans sonur var enda Sturla sem var eiginlegur höfundur þessara frásagna allra, alveg sama þótt ég diktaði þær að mestu upp sjálfur. Inn í þetta hafði ég svo ráðgert að blanda Gretti Ásmundarsyni og fleiri köppum á einhvern hátt. Læt ég eftir mig óklárað verk en þætti vænt um ef ég fyndi varðveitt.

Það var því nokkuð skondið þegar ég sat tíma hjá mentór mínum fyrir réttum áratug og fékk að vita að þeir bróðir hans hefðu skrifað framhald Sverrissögu og verið það ofarlega á merinni að hafa reynt að frumgera fornmál til brúks í sögunni (það er alltaf gott að vita að maður er ekki einn um að fremja furðuverk). Og þegar maður lítur til sagnaritunar á miðöldum þá má nú vel ímynda sér að vinnubrögðin hafi ekki nauðsynlega verið ósvipuð á köflum, þótt ekki hafi verið með sama vúlgar hætti; sum miðaldarit eru óttalegt kópí-peist með viðbótum, mótsögnum og anakrónisma og engar forsendur endilega til að meta hver heimild er „rétthæst“, sér í lagi þegar viðkemur norrænni trú.

En þessi Sturlunga 2.0 sem ég skrifaði, ég get ekki sagt að hún hafi verið annað en karlmiðuð. Ég minnist þess ekki að í nokkrum einasta ramma hafi komið fyrir kona, hvað þá að minnst hafi verið á konur í sögunni. Einu konurnar sem var að finna voru í áðurnefndu ættartré sem ég felldi fremst inn í söguna til hægðarauka fyrir væntanlega lesendur. Og hvað þýðir þetta? Ætli það þýði ekki bara að það læri börnin sem fyrir þeim er haft, og að hið dularfulla kvenlaga gat í mannkynssögunni sé nokkuð sem maður þarf ætíð að vera meðvitaður um. Sögunni fæst ekki breytt en við ráðum því með hvaða hugarfari við lítum hana.