Jói og baunagrasið

Bókmenntum fylgir visst menningarlegt samhengi sem kalla mætti tíðaranda. En tíðarandinn breytist og þar með túlkun fólks á bókmenntunum. Ef taka ætti dæmi um róttækar breytingar á túlkun bókmennta út frá tíðaranda mætti nefna Tíu litla negrastráka, sem eitt sinn þótti saklaus bók en þykir nú með betri dæmum um menningarlega viðurkennda kynþáttafordóma fyrri tíðar. Þá mætti nefna George úr Fimmbókum Enid Blyton, sem hefur á síðari árum verið túlkuð á forsendum hinsegin fræða annars vegar sem lesbía og hins vegar sem transmanneskja (að vísu út frá vissum staðalmyndum sem eiga sér raunverulega stoð en telja mætti varasamar að alhæfa út frá).

Af því mér finnst gaman að rugla í fólki þá vil ég á næstunni birta nokkrar greiningar á barnabókmenntum sem verða aðeins að hluta settar fram af alvöru.

JÓI OG BAUNAGRASIÐ
Þetta er enskt ævintýri sem fyrst var fært í prent á átjándu öld en, eins og gjarnt er um ævintýri, er talið töluvert eldra. Freudísk/lacanísk greining á þessari sögu liggur svo lóðbeint við að ég er hissa á að Sigmund hafi ekki sjálfur skrifað heila bók um efnið (ef hann gerði það, vinsamlegast látið mig vita).

Sagan fjallar um ungan dreng, Jóa eða Jakob, sem býr einn með efnalítilli móður sinni. Hann á engan föður, eða það kemur sögunni ekki við. Karlmennska hans veltur því á móðurinni. Fyrst um sinn er hann aðeins drengur og er sendur til drengslegra erinda, að selja mjólkurkú sakir uppskerubrests svo þau geti framfleytt sér eitt misseri enn. Jói rekst á undarlegan eldri mann (aldrei gott) sem ginnir hann til að skipta á kúnni í stað þriggja bauna sem hann kveður göldróttar, baunagrasið muni ná alla leið til himnanna, hann skuli sko bara sjá!

Jói gengst við þessu og mætir keikur heim til móðurinnar með baunirnar (sem ég kýs, fyrir sakir groddaskaps, að líta á sem táknrænar hreðjar). Móðirin bregst ókvæða við, hafandi sent dreng í karlmannsverk, og fleygir afrakstri ferðar hans út um gluggann, þar sem baunirnar ná að festa rætur í foldinni. Hin fallíska móðir getur ekki komið í veg fyrir líkamlegan þroska sonarins, því upp af hreðjum hans vex hinn gríðarlegi reður sem er leið hins unga manns til þroska.

Jói klífur eigin reður til hans óhjákvæmilegu niðurstöðu, sem er risakona sem býr í höll uppi í skýjunum (í sumum gerðum sögunnar er engin kona, en við skulum ekki láta það skemma fyrir okkur). Stærð konunnar er táknræn, því fyrir ungan mann sem rétt svo er að komast í blóma kynferðisvitundar virðist engin hindrun svo stór eins og sú að missa sveindóminn. En konan fóðrar hann samt sem áður á þeim mat sem hún hafði áður ætlað manni sínum. Þar með kemur Jói á milli manns og konu, og þegar risinn kemur heim þá bregst risakonan þannig við að hún felur hann í tákngervingu sjálfs legsins: stórum potti sem situr við hlið hlóðanna. Jói er ekki enn maður, hann getur enn ekki tekist á við hinn táknræna föður og orðið að manni sjálfur. Því er legið hinn eini öruggi staður.

Risinn á hænu sem verpir gulleggjum og hörpu úr skíragulli sem getur sungið og spilað eftir skipun. Jói hnuplar þessum kostum, bæði menningarkapítali og auðmagni. Með þetta tvennt getur hann orðið meiri maður en hann nú er. En risinn verður þessa var og æðir á eftir Jóa. Risinn áttar sig á því að þessi patti hefur notið konu hans á sama hátt og hann sjálfur (ástin virðist búa í maganum í þessari sögu).

Jói kemst niður baunagrasið á flótta, með auðmagnið á bakinu, og hrópar til móðurinnar að færa sér karlmennskuna: öxi. Móðirin gerir það með semingi, en Jói þrífur til axarinnar og heggur niður baunagrasið, sem nú er hin einasta festa risans í heiminum, og táknrænt vanar risann – föðurímyndina. Nú er hinn táknræni faðir dauður, Jói hefur öll efnahagsleg tögl og hagldir, og móðirin hefur gefið eftir sína fallísku stjórn. Nú er Jói orðinn fullsigldur maður.

Kannski ekki sú þroskasaga sem við áttum skilið, svo vísað sé í Batman Begins, en sú þroskasaga sem við fengum.

Hvað er skrímsli?

Skrímsli eftir Áslaugu Jónsdóttur
Hvað er skrímsli? Sé íslenska orðinu slegið upp í Google finnur maður myndir úr skrímslabókum Áslaugar Jónsdóttur og Disneymyndinni Monsters Inc., en einnig koma fram myndir af einni ófreskjunni úr myndinni El laberinto del fauno og meintu skrímsli sem skolaði upp í fjöru í Montauk fyrir fjórum árum sem ég fæ ekki betur séð en að sé hundur. Leit að orðinu monster færir okkur á hinn bóginn auglýsingar fyrir orkudrykk.

Við þekkjum skrímslið á því að það er öðruvísi en önnur dýr. Raunar er það oft blanda úr öðrum dýrum, óskapnaður í kristilegum skilningi, og við höfum lært að dýr sem ber eiginleika margra dýra í senn er vanskapað, jafnvel af hinu illa. Griffill er blanda af erni og ljóni, mantíkóra er blanda af ljóni og manni. Andstæðan á milli hins náttúrulega og ónáttúrulega verður óskýrari því meiri sem líkindin á milli okkar og hins eru. Menn eru ekki dýr, og dýr sem sækir líkindi til manna er ófreskja. Mestu ófreskjurnar eru þær sem við fyrstu sýn virðast vera mennskar: afturgöngur, uppvakningar, vampírur. Þær eru grótesk afbökun á fullkomnu sköpunarverki Guðs. Það er ekki síst í gegnum trúarbrögð sem okkur er kennt að hata þær.

En það er ekki endilega að svo miklu leyti vegna þeirrar perversjónar á hinu mannlega og náttúrulega sem skrímsli eru svo hötuð, heldur einmitt vegna þess að þau spegla okkar eigin viðhorf sem við kannski þorum ekki að horfast í augu við. Í grunninn er skrímslið við. Við erum skrímslið. Þess vegna er nálgun Áslaugar Jónsdóttur kannski sú sem er mest blátt áfram, því hún leiðir alveg af hugmyndinni um skrímslið sem spegil sjálfsins; skrímslin hennar borða, fá flensu og lesa fyrir svefninn undir sænginni sinni. Og þegar við sjáum að þau eru einsog við, þá lærum við líka að hætta að óttast þau. Sú niðurstaða er eins gömul og skrímslasagan.

Atuk og A Confederacy of Dunces

Bölvanir hafa gegnum mannkynssöguna lagst yfir heilu löndin og ættliðina, stundum hafa þær hvílt á verðmætum gripum og jafnvel einstaka gæluverkefnum. Hollywood hefur séð sinn skerf af slíkum bölvunum að menn segja og líklega er frægust þeirra sú sem sögð er hvíla á Supermanvörumerkinu (George Reeves, Christopher Reeve – tilviljun?).

Ein þeirra bölvana sem Hollywood hefur þurft að kljást við með ærnum tilkostnaði og dauðsföllum á sér raunar tvær útgáfur sem lifa samhliða einsog óafvitandi hvor af annarri. Það gengur jafnvel svo langt að á vefsíðunni Cracked, sem kalla mætti skeptískt en gamansamt fróðleiksrit, eru báðar útgáfur til hvor í sinni greininni án þess að nokkur hafi orðið þess var svo ég fái séð.

Útgáfur sögunnar eru nefnilega nær nákvæmlega eins að því undanskildu að ýmist er bölvunin tengd við kvikmyndirnar Atuk eða A Confederacy of Dunces, sem aldrei tókst að gera. Allir leikarar sem þegið hafa aðalhlutverkið í þessum myndum hafa dáið skyndilega, og flestir þeirra eru í hvorri gerð sögunnar þeir sömu. Bölvunin mun þannig í hvoru tilfelli fyrir sig hafa orðið John Belushi, John Candy og Chris Farley að aldurtila (óháð lífsstíl þeirra býst ég við).

Að sama skapi og við megum þakka fyrir að allir þrír leikarar hafi þáð hlutverk í sömu tveim bölvuðu myndunum og þannig sparað okkur að missa enn fleiri gamanleikara á einu bretti, t.d. Steve Martin eða Rick Moranis (hah, djók), þá hlýtur það að teljast ansi óheppilegt fyrir leikarana að jafnvel þótt þeir hefðu hafnað öðru hlutverkinu hefðu þeir drepist samt sem áður, svolítið einsog að finna Tutankamon tvisvar.

Í kaldhæðnislegri fléttu hefur Hollywood þó framleitt mynd sem fjallar nokkurn veginn einmitt um það: The Mummy 2. Þegar öllu er á botninn hvolft eru það líklega svoleiðis myndir sem er mesta bölvun Hollywood á síðari árum. Blessunin felst á hinn bóginn í bölvuninni. Ef þeir þá finna nokkru sinni fjármagn til að klára A Confederacy of Dunces með Will Ferrell í aðalhlutverki.

Staðfesting þjóðsögunnar

Um daginn bað kunningi minn um aðstoð við að afla heimilda um vélstjórann frá Aberdeen, annarra en sögunnar sjálfrar. Frumheimildin er frásögn sýslumanns sem upplifði sjálfur þá atburði sem hann síðar lýsti fyrir Þórbergi Þórðarsyni, sem síðan gaf söguna út í þjóðsagnasafninu Gráskinnu ásamt Sigurði Nordal. Ég var nú ekki alveg á þeim buxunum að leggjast yfir annála eða aðrar samtímaheimildir til að staðfesta þjóðsögu sem af augljósum ástæðum getur ekki verið sönn nema að litlu leyti, að minnsta kosti hefur draugagangurinn verið stórlega ýktur, en ég byrjaði samt að leita.

Í sögunni segir að Axel Tulinius, sýslumaður, eigi til mynd af líki vélstjórans. Aðeins andartaki eftir að ég hafði slegið vélstjóranum inn í herra Google fann ég myndina, sem prýðir þessa bloggfærslu. Fram að því fannst mér sem engin sérstök ástæða væri til að leggja trúnað á að nokkurn vélstjóra hefði yfirhöfuð rekið á land í Seyðisfirði, en ljósmyndin staðfestir það. Með slíka heimild í höndunum mætti segja að það sé að minnsta kosti meira sannleikskorn í sögunni um vélstjórann frá Aberdeen en til dæmis þeirri sem segir að skrímsli hafi drepið sauði fyrir bændum á Katanesi, frekar en að smalarnir hafi þar fundið gott, ef ekki ögn langsótt, skálkaskjól fyrir hirðuleysi sínu.

Önnur slík staðfesting á sögu barst mér með DV í dag, þó með eilítið öðrum hætti. Ég sagði frá því hér fyrr í sumar þegar Árósafarinn Valur Gunnarsson hitti fyrir forna sígaunakonu í Risskov sem bað hann ásjár. Konan reyndist síðar hafa verið geðsjúklingur og mér þótti sagan nógu lygileg til að fólk gæti trúað henni. Nú segir DV frá sex Grænlendingum sem flúðu réttargeðdeildina í Risskov, þar af ein kona. Það gæti verið „sígaunakonan“ hans Vals.

Hin spurningin sem vaknar, að undanskilinni þeirri sem lýtur að aðbúnaði geðveikra á þessu sjúkrahúsi, er sú hvort að ofbeldismennirnir sem hún óttaðist svo mikið hafi mögulega verið hinir sömu og brutust út með henni og reyndu svo að nauðga tveim konum. Að minnsta kosti er tengingin ekkert sérlega ótrúleg. En það sem gerir þetta sérlega áhugavert frá mínum bæjardyrum séð er ekki aðeins sú vídd sem fréttin bætir við upprunalegu söguna, heldur hversu ólíklegt það var að blaðamaður hjá DV læsi upphaflegu fréttina og þætti hún hæf til birtingar á vefnum, mér til ómældrar ánægju.

Katanesdýrið

Ármanni til upplýsingar get ég fullyrt að ég sá Katanesdýrið liggja í makindum sínum á gólfi danskrar lestar, svo skömmu síðan sem í gær. Þarmeð hefur það fylgt í fótspor ýmissra þeirra sem flúið hafa kastljósið gegnum tíðina, svosem Elvis, Hoffa og Geirfinnur. Samkvæmt eðli horfinna hefur aldur ekkert með það að gera að fólk heldur áfram að sjá viðkomandi aðila á vappinu hér og þar; Elvis mun enn sjást að 50 árum liðnum. Að sama skapi sá ég Katanesdýrið og held fastur við minn keip.

Sumir kvörtuðu undan viðurvist Katanesdýrsins um borð í lestinni, bentu ýmist á að skrímsli væru ekki leyfð um borð í lestum (það er bannmerkið fyrir neðan reykingamerkið), eða sögðu að í það minnsta væri hægt að geyma skrímslið annarsstaðar en á miðjum ganginum þar sem nægt væri plássið. Samgangur manna og skrímsla heldur þannig áfram að vera hversdagslegt áhyggjuefni. Þá má benda á að umrædd skytta sem fengin var til að veiða Katanesdýrið var einmitt langafi Vésteins Valgarðssonar, samkvæmt því sem ég hef heyrt. Og skilst mér að Vésteinn sjálfur segi söguna best allra manna.

Annars í viðleitni til að skemma góðar sögur finnst mér lítið hafa verið athugað að þeir fyrstu til að beita fyrir sig Katanesdýrinu sem skálkaskjóli voru ungir smalar sem týndu sauðfé. En tímarnir breytast og skrímslin með. Ég væri í öllu falli til í að sjá unglinga nútímans reyna að beita fyrir sig skrímsli sem afsökun í vinnuskólanum.

Kenningar Einars Pálssonar

Ég hef oft staldrað við bækur Einars Pálssonar um íslenskt þjóðveldi og goðafræði á bókasafninu, velt fyrir mér hvers vegna enginn talaði um þær í íslenskuskor en aldrei árætt að lesa neina þeirra. Þær eru svo margar, efni þeirra svo fjölbreytt (að því er virtist) og titlarnir gáfu ekki beinlínis miklar vísbendingar um innihaldið.

Svo í dag rakst ég á wikipediugrein um Einar Pálsson og sé núna hvers vegna þessar ellefu eða svo bækur eru ekki lesnar spjaldanna á milli við íslenskuskor.

Íslenska goðaveldið í heiðni (930-1000) var hugsað sem endurspeglun himneskrar reglu. Þannig mátti líta á goðana 36 sem fulltrúa himinhrings, og til samans jafngiltu þeir konungi í goðfræðilegum skilningi. Einar taldi að goðarnir hefðu búið yfir hinni goðfræðilegu þekkingu sem fylgdi goðsagnalandslaginu. Einar gerði ennfremur ráð fyrir að germönsk heiðni hefði, líkt og önnur nálæg trúarbrögð, orðið fyrir áhrifum af speki pýþagóringa og platonista um að eðli heimsins, og þar með hins goðlæga hluta hans, væri fólgið í tölum og hlutföllum. Hann hélt því fram að þessi speki hefði legið að baki íslenska goðaveldinu og konungdæmum grannlandanna.

Gallinn við öll svona samanburðarfræði ætti flestum að vera augljós: ef íslenska goðaveldið var hugsað svona, hvar eru þá íslensku heimildirnar fyrir því? Þær eru nefnilega ekki til. Einar gaf sér einfaldlega, útfrá samanburði við samgermanskan menningararf og reyndar allt til Grikklands, að tilteknar hugmyndir – tiltekin heimsmynd – hefði erfst svo að segja óbreytt gegnum aldirnar þjóða á milli. Skoðum þetta nánar:

Mælingakenning Einars var tilraun hans til að sameina (a) það sem vitað er um norræna heiðni; (b) það sem álykta má af sambærilegum heimildum um forn trúarbrögð indó-evrópskra manna; (c) það sem vitað er um stjarnfræðikunnáttu fornþjóða og (d) þá innsýn í norræna goðafræði sem fæst með því að horfa á Íslendingasögurnar sem goðsagnir.

Atriði a) er einmitt það sem við skoðum sérstaklega við íslenskuskor – þær varðveittu heimildir sem til eru um norræna heiðni og hvað þær segja okkur. Rannsóknir á því sviði eru margvíslegar og fjölbreyttar. Atriði b) er svo eitthvað sem mér liggur við að segja að sé út í hött að bera saman við atriði a) til þess að öðlast betri skilning á því síðarnefnda. Það skiptir engu máli fyrir norræna goðafræði hverju var trúað austan við Kákasus fyrir meira en 5000 árum. Ekki frekar en Gilgameskviða segir okkur nokkuð um Snorra-Eddu. Það væri eðlilegt fyrir strúktúralíska rannsókn að setja upp töflu yfir lögmál goðsagna – einsog hefur verið gert – til að benda á að allar goðsagnir fylgi svipuðu mynstri, búi við svipaðar reglur og eigi sér jafnvel einhverja grunnfyrirmynd sem nú er glötuð. En það segir ekki endilega mikið um trú fólks á Íslandi á landnámsöld.

Sama gildir um atriði c), það einfaldlega gagnast okkur takmarkað að velta fyrir okkur stjarnfræðiþekkingu Súmera, Grikkja eða Rómverja í fornöld í því augamiði að varpa ljósi á íslenska menningu á miðöldum. Þar sem vantar heimildir má gera ráð fyrir ýmsu, það má til dæmis gera ráð fyrir að Snorri Sturluson hafi þekkt Gesta Danorum eftir Saxo Grammaticus þótt það standi hvergi. En við getum fjandakornið ekki haldið því fram að vegna stjarnfræðiþekkingar fornþjóða hafi sögusvið Íslendingasagna átt að:

endurspegla himneska reglu og vera jafnframt tímakvarði. Einfaldasta leiðin til þess er að hugsa sér miðju og taka þaðan mið af stjarnfræðilega marktækum punktum á sjóndeildarhring, s.s. höfuðáttum og sólarupprás og sólarlagi um sólstöður. Kennileiti á jörðu niðri sem tengjast þessum stefnum fá þannig goðfræðilega merkingu. Einar gerði ekki aðeins ráð fyrir goðsagnalandslagi af þessu tagi, heldur áleit að stærð þess hafi verið nákvæmlega skilgreind og útmæld. Hann áleit að fornmenn hafi hugsað sér það sem hring sem endurspeglaði sjóndeildarhring og himinhring (dýrahringinn). Þvermál hringsins skipti máli og átti að hafa verið 216.000 fet (um 64 km)

Hvað atriði d) varðar þá sé ég ekki samhengið milli þess að líta á Íslendingasagnir sem goðsagnir – sem þær klárlega eru – og að það segi okkur eitthvað um aðra texta sem bera í sér lítinn skyldleika við hina.

Ég tek fram að ég hef ekki lesið bækur Einars Pálssonar og að það er áreiðanlega margt áhugavert í þeim sem jafnvel gæti skipt máli fyrir íslensk og norræn fræði. En miðað við þessa litlu stikkprufu þá virðist mér afskaplega lítið vera af haldbærum gögnum rökstuddum viðunandi heimildum. Þetta eru bara hugmyndir einsog hver sem er gæti fengið og erfitt eða ómögulegt er að sanna eða afsanna. Og slíkar kenningar bera í sér lítið fræðilegt gildi.

Um óþarflega fundvísi Hildigunnar

IngólfurÉg er svo gapandi bit. Hafið þið tekið eftir því að Skerjafjörðurinn er eins og Ingólfur Arnarson í laginu? Með réttu hugarfari má einnig sjá úr þessu bergrisann sem gætti Suðurlands í Heimskringlu. Þar er þá landvætturin komin. Skyldi Vopnafjörður þá vera í laginu eins og dreki? Svari mér fróðari menn, ég hef ekki kannað málið …

„En hvað er það sem verndar viðkomu landans? Vitið þér hvað það er? Mér er það hulið.“ – Megas.

Stolið via Tölvuóða tónskáldið.

Fable revisited

Í sumar varð mér bloggað um Atlantis og vakti það athygli sjálfs Menosar, sem svaraði pistlinum um hæl. Nú hef ég rekið augu mín í nýstofnaða vefsíðu, Bad Archaeology, sem tekur fyrir allskyns þvælu sem fer að einhverju eða öllu leyti á skjön við viðurkennda fornleifafræði. Hér má sjá umfjöllun þeirra um Atlantis. Af því ég minntist í sömu færslu á meinta gröf Heródesar mikla er ekki úr vegi að vísa einnig á pistil þeirra um það efni.

Daglegt amstur

Eftir stórfelldar ruslpóstsárásir á vefsvæði Kaninkunnar síðustu vikuna hef ég neyðst til að setja upp síu. Það er skárra en að eyða milli fimmhundruð og þúsund tilboðum um ókeypis barnaklám og læknadóp á dag.

Goðafræði Snorra-Eddu lauk ég á örfáum dögum og tryggði mér fimm einingar til viðbótar. Get ekki sagt að ég mæli með því. Fyrir vikið er ég þó orðinn forvitinn um hvort mögulegt sé að ljúka öllum einingum til BA-prófs á einu sumri.

Tilvitnun dagsins er úr Ynglinga sögu:

Óðinn átti tvá bræðr. Hét annarr Vé, en annarr Vílir. Þeir bræðr hans stýrðu ríkinu, þá er hann var í brottu. Þat var eitt sinn, þá er Óðinn var farinn langt í brot ok hafði lengi dvalzk, at Ásum þótti örvænt hans heim. Þá tóku bræðr hans at skipta arfi hans, en konu hans, Frigg, gengu þeir báðir at eiga. En litlu síðar kom Óðinn heim. Tók hann þá við konu sinni.