Atlantis

Ekki man ég hver þrætti fyrir tilvist Atlantis við mig um daginn, en hér stendur mín meining nokkuð svört á hvítu. Það er einfaldlega svo að flestir fræðimenn eru sammála um að fyrirbærið hafi verið symbólískur uppspuni Platóns, og jafnframt er það sú skýring sem er haldbærust miðað við heimildir. Að ógleymdu því að flest það nýaldarlið sem heldur uppi vörnum fyrir Atlantis er víst með að kunna ritsafn Erichs von Däniken utanbókar.

Svo er alltaf goðsögnin innan hinnar sönnu goðsögu, Trójuhesturinn svo dæmi sé tekið. Ódysseifur hefur þurft að vera fjandi klár til að fá jafn fáránlega hugmynd. Og eins mikið og ég gleðst yfir því að Schliemann hafi fundið brunarústir Tróju og þarmeð staðfest goðsögnina að einhverju leyti, hlýtur að bera að varast alla yfirlýsingagleði; tréhrossin þurfa að sitja á hakanum. Knossos og Bergþórshvoll teljast staðfestar minjar, en það hlýtur á hinn bóginn að teljast afar vafasamt að minjar á Santorini séu leifar Atlantis eins og sumir vilja halda fram. Hafa hinir örvilnuðustu áhugamenn reynt að draga upp vafasöm tengsl milli sprengigossins þar og Rauðahafssögu Gamla testamentisins, í hvaða tilgangi nákvæmlega veit ég ekki.

Í þessu sambandi er mér minnisstæð saga af því þegar landnámsbærinn við Aðalstræti var grafinn upp. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur stýrði uppgreftrinum, en sonur hans er mér kunnugur. Að hans sögn mun hann hafa sagt við fjölmiðla, áður en þeir tóku hann formlega tali, að það kæmi ekki til greina að hann svaraði neinum spurningum um Ingólf Arnarson. Þegar fréttamaðurinn svo spurði hvort verið gæti að þar væri hús Ingólfs svaraði hann um hæl: Hvaða Ingólfur? Við lá að Velvakandi yrði að sértímariti í kjölfarið – vissi sjálfur fornleifafræðingurinn ekki hver Ingólfur Arnarson var?

Það er nefnilega ekki síst fjölmiðlanna vegna að rétt er að vera á varðbergi gagnvart svona sögusögnum. Einmitt þess vegna spurði ég sjálfan mig, þegar ég las frétt þess efnis um daginn að grafhýsi Heródusar mikla hefði fundist við Jerúsalem, hvort hún hefði þá fundist í vikunni eða hvað? Auðvitað hef ég ekki hugmynd um hversu miklar rannsóknir höfðu farið fram þegar þetta var tilkynnt, en ef ísraelskir fjölmiðlar eru jafn heimtufrekir og íslenskir, þá var allt eins líklegt að um gott gisk hefði verið að ræða. Raunar hefur Hebreski háskólinn nú staðfest fundinn.

En þrátt fyrir alla staðfesta fundi er þeim mun meiri ástæða til að vera var um sig og éta ekki allt hrátt upp eftir fjölmiðlum án nokkurrar umhugsunar. Menn skyldu vera skeptískir í hvert einasta sinn sem Anastasía Rómanoff dúkkar upp í Bandaríkjunum eða hengigarðar Babilóníu finnast meðan Kristur birtist á hundsrassi austur í Karpata. Það er nefnilega ekki vinnandi vegur að vita hvenær óskhyggjan ræður ein för umfram vísindaleg vinnubrögð, að hluta til eða í heild. Að evangelískum hundsrössum ólöstuðum.

Njólubaugur

NjólubaugurNjólubaug bar við himin undan mánaskini rétt í þessu. Engin þökk sé Vísindavefnum fyrir að geta ekki svarað því til hvort njólubaugar séu möguleg fyrirbæri í náttúrunni. Þeir eru það, hef ég nú fyrir satt.

Sá sem ég sá leit út eins og sá á myndinni við færsluna. Mig hins vegar dauðlangar að sjá svona.

Fróðleiksleit

Mér finnst dálítið gaman að því hversu margir enda á mínum síðum viku hverja í leit að fróðleik um norræna goðafræði og önnur sambærileg fræði. Leit að Snorra-Eddu glósum og fróðleik um Tristranskvæði hafa verið sér í lagi áberandi upp á síðkastið (flestir leita raunar að Tristanskvæði). Einhvern tíma vísaði ég jú á haldbærar glósur úr Eddunni góðu, en nútildags mæli ég heldur með því að fólk lesi bara bókina. Í versta falli leiðist því bókin og fær hærri einkunn á prófi.
Nú, svo finnst mér nokkuð skondið ef menntaskólanemar víðsvegar um landið eru að hagnast á þessum uppgreftri mínum á fróðleik um Tristran og Ísold. Þar hafa menn grundvallarupplýsingar um uppruna, raunar tiltölulega auðvelt að finna. Þá geta menn líka besserwisserast um rússnesku þýðingu kvæðisins eftir að ég hef gengið úr skugga um að hún sé rétt og fengið gott fyrir það í kladdann, þótt ef til vill reyndist þeim erfiðara að lesa það upp ef þess yrði krafist. En ég hef bara gaman að þessu. Er að hugsa um að reyna að gera umfjallanir um þjóðsagnaskepnur að föstum lið hérna. Hver veit nema menn komi þá hingað inn í leit að skoffínum og þess háttar kykvendum.

Þjóðsagnaskepna dagsins

GólemÞjóðsagnaskepna dagsins er gólem (jidd. Gojlem). Gólem er kallaður fram úr dauðu efni og er notaður til þarfaverka þess sem ákallar.
Elstu sögur af gólem eru frá tíma frumjúdaisma. Samkvæmt Wikipedia er Adam sagður í Talmúdnum hafa verið skapaður sem gólem, og líkt og Adam (en nafn hans þýðir rauður leir) séu allir gólemar gerðir úr leir ((http://en.wikipedia.org/wiki/Golem#Earliest_stories)). Þetta finnst mér örlítið hæpin fullyrðing, þar sem Guð sjálfur skapaði manninn, en það er maðurinn sem í viðleitni sinni til sams konar sköpunar skapar hinn ófullkomna gólem, sem annarsvegar er mállaus ((http://en.wikipedia.org/wiki/Golem#Earliest_stories)), en hinsvegar tekur hann öllu bókstaflega sem þú segir honum ((http://en.wikipedia.org/wiki/Golem#The_classic_narrative)). Slíkt sköpunarverk væri Guði varla þóknanlegt, en deila má um hvort fólk sem passar við sömu lýsingu sé það þá heldur ekki. Ennfremur má deila um hvort trú á góleminn sé villutrú.

Það voru helst helgir menn sem sköpuðu gólema. Frægasti góleminn hlýtur að vera góleminn í Prag, sem rabbí Löwe skapaði til að vernda Gyðinga borgarinnar gegn ofsóknum Rúdolfs II. keisara hins Heilaga rómverska keisaradæmis. Góleminn átti að hlýða hverri skipun rabbíans, en eftir því sem hann óx varð hann of ofbeldishneigður til að hafa hemil á. Löwe var heitið að ofsóknum á hendur Gyðingum yrði hætt ef hann eyddi gólemnum. Hann samþykkti það og fjarlægði fyrsta stafinn af áhrínisorðunum á enni gólemsins, „emet“ (sannleikur), svo það varð „met“ (dauði). Þannig missti góleminn lífsþróttinn. Hinsvegar er sagt að sonur Löwe hafi endurvakið góleminn, og að hann verndi Prag enn þann dag í dag ((http://www.mirabilis.ca/archives/002204.html)).
Önnur útgáfa af sögunni segir að til þess að skapa líf, sem var stranglega bannað öllum – jafnvel þeim allra helgustu – hafi þurft að fara með þuluna „Shem Hameforash“, sem er raunverulegt nafn Guðs og er afar hættulegt í framburði, jafnvel svo að krafturinn sem losnar úr læðingi við að segja það geti orðið mönnum að aldurtila.
Sú útgáfa sögunnar segir að þegar góleminn í Prag snerist gegn þeim sem hann átti að vernda, hafi rabbí Löwe afturkallað þuluna og þannig umbreytt gólemnum aftur í leirstyttu. Leirstyttan var síðan falin á háalofti sýnagógunnar í Prag og enginn mátti fara þangað upp fyrr en mörgum árum síðar. Sumir nítjándu aldar rithöfundar héldu því fram að enn mætti sjá útlínur risavaxins gólemsins þar uppi ((http://www.pantheon.org/articles/r/rabbi_loeb.html)).

Mér hefur verið sagt að í nútímanum megi eingöngu æðsti trúarleiðtogi Gyðinga í Prag megi fara upp til gólemsins, gott ef það var ekki bara einu sinni á ævinni að hann mátti það, en fyrir því fann ég engar heimildir á netinu. Engu að síður er líklegt að styttan sjálf sé til og að hún sé geymd þar uppi.

Hamskiptingar og kynjadýr önnur

Ok litlu síðar tók hún sótt ok fæddi sveinbarn, þó nokkut með undarligum hætti. Þat var maðr upp, en elgr niðr frá nafla. Hann er nefndr Elg-Fróði. Annarr sveinn kemr þar til ok er kallaðr Þórir. Hundsfætr váru á honum frá rist ok því var hann kallaðr Þórir hundsfótr. Hann var maðr fríðastr sýnum fyrir annat. Inn þriði sveinn kom til, ok var sá allra vænstr. Sá er kallaðr Böðvarr, ok var honum ekki neitt til lýta. Böðvari ann hún mest.
-úr Hrólfs sögu kraka ok kappa hans (Böðvars þætti).

Frægar eru slíkar goðsögur af sveinburði undir óeðlilegum kringumstæðum, hér fæðast þrír. Þannig hafði borið til að faðirinn, Björn, var hamskiptingur fyrir álaga sakir. Á daginn tekur hann á sig bjarnarham og er nauðbeygður til að drepa fé fyrir konungi, föður sínum, en á næturna er hann maður. Það verður þess aftur valdandi að hann leggst í útlegð, en þó freistar hann þess að leita uppi ástmey sína, Beru Karlsdóttur, og fer hún á brott með honum þar að sem Björn hefur sest að í helli. Þá um nóttina kemur undir hjá henni. Þá verður Björn nokkurs áskynja:

Svá grunar mik, at banadagr minn muni vera á morgun ok munu þeir fá mik veiddan, enda þykkir mér ekki gaman at lífinu fyrir ósköpum þeim, sem á mér liggja, þó þat eina sé mér til yndis, sem vit erum bæði, en þó mun þvi nú bregða […] Þú munt sjá liðit á morgun, sem at mér sækir, ok þá ek er dauðr, farðu til konungsins, ok biddu hann at gefa þér þat, sem er undir bóg dýrsins vinstra megin, en hann mun því játa þér. Drottningu mun gruna þik, þá er þú ætlar í burt, ok mun hún gefa þér at eta af dýrsslátrinu, en þat skyldir þú eigi eta, því at þú ert kona eigi heil, sem þú veist, ok muntu fæða sveina þrjá, er vit munum eiga, ok á þeim mun þat sjá, ef þú etr af dýrsslátrinu, en drottning þessi er it mesta tröll.
-Sama rit.

Það var einmitt fyrir drottingar þessarar sakir að svo er ástatt fyrir Birni, hún lagði á hann álögin þegar hann neitaði að sænga hjá sér, vegna ástar sinnar á Beru. Sambærilegar hugmyndir um álög vegna ástríðu er algengt minni og má t.d. finna í Brennu-Njáls sögu, sbr. sambandsslit Gunnhildar drottningar og Hrúts Herjólfssonar:

Hún tók höndum um háls honum og kyssti hann og mælti: Ef eg á svo mikið vald á þér sem eg ætla þá legg eg það á við þig að þú megir engri munúð fram koma við þá konu er þú ætlar þér á Íslandi að eiga en fremja skalt þú mega við aðrar konur vilja þinn.
úr Brennu-Njáls sögu.

Eins og sést á fyrstu tilvitnun komst Bera ekki undan því að kyngja því, ásamt fleiru, að örlögin láta ekki að sér hæða. Hún fæddi þrjá sonu sem spáð var, en álagabundið kjötið hafði kyngimögnuð áhrif á líkamsbyggingu tveggja þeirra. Merkastur þeirra er ef til vill Elg-Fróði, vegna þeirrar skírskotunar sem nafn hans hefur haft síðar, þ.e. þess samheitis sem orðið elgfróði er orðið í íslensku máli yfir flestar furðuskepnur, sbr.:

Uppruni orðsins finngálkn er óviss samkvæmt Íslenskri Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal. Sumir vilja tengja fyrri hluta orðsins við svonefnt meyljón eða sfínx, eða þá hina fjölkunnugu Finna. Orðið elgfróði virðist stundum hafa verið notað yfir líkar skepnur. Í heilagra manna sögum segir:

„Þess háttar skrímsli kölluðu skáldin centaurum, það kalla sumir menn elgfróða“.
-Vísindavefurinn, svar við spurningu: „Hvað er finngálkn sem minnst er á í Njáls sögu?“

Kentár er skepna sem er maður að ofan og hross að neðan, oftast eru þeir bogfimir og vitrir (sbr. stjörnumerki bogmannsins, eða sagitarium). Umrætt finngálkn í Njáls sögu fær þó ekki neina sérstaka umfjöllun:

En fyrir austan Bálagarðssíðu átti Þorkell að sækja þeim vatn eitt kveld. Þá mætti hann finngálkni og varðist því lengi en svo lauk með þeim að hann drap finngálknið.
úr Brennu-Njáls sögu.

Strax í kjölfarið ferðast Þorkell austur í Aðalsýslu og vegur þar flugdreka. Ekki fer þó mikið fyrir útlitslýsingu á þessum kynjaverum, þótt mikið og hreystilegt afrek megi það teljast að vega tvö slík skrímsl í einni og sömu ferðinni.
Orðið finngálkn á við um, líkt og elgfróði, hinar ólíkustu samblöndur manna og eða dýra, sbr.:

Finngálkn er það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.
Bókasafn Reykjanesbæjar [Jón Árnason I 611].

og:

… furðusagnakvikindi sem er maður ofan en dýr að neðan. Kunnustu furðuskepnurnar af því tagi eru svonefndir kentárar sem voru menn að ofan en hestar að neðan […] finngálkn [eru] í mannslíki að ofan en líkjast dreka að neðan.
-Vísindavefurinn, svar við spurningu: „Hvað er finngálkn sem minnst er á í Njáls sögu?“.

Finngálknið er hér viss útúrdúr, en vel sambærilegt elgfróðanum að fyrrgreindu leyti. Eitt er þó ótalið, en það eru líkindi getnaðarsögu Elg-Fróða og Mínótaurosar hins mínóska menningarskeiðs Krítar. Sú furðuskepna, nautsbolur á mannsneðriparti, kom þannig undir að kona Mínosar konungs Krítar, Pasífe, varð ástfangin af sænauti fyrir vélar Póseidons og gat með því þennan óskapnað. Munurinn felst í að í Böðvars þætti er það björninn sem bundinn er álögum, sem leiðir til vansköpunar barnanna, en í sögunni af Mínótaurosi Krítar er það konan sem lögð eru álög á, svo hún nýtur ásta með yfirnáttúrlegu nauti. Hugmyndir um möguleikann á slíkum genasamsetningum er mögnuð. Þórbergur Þórðarson, gott ef ekki, notaði orðið elgfróði til að lýsa sama fyrirbæri.

Fleiri sögur af kynjaskepnum mætti lengi upp telja, svosem goðsögur norrænnar goðafræði aðlútandi Miðgarðsormi, Fenrisúlfi, Hel og áttfætta hestinum Sleipni, sem aftur á sér draugalegri hliðstæðu í nykri þjóðsagna Jóns Árnasonar, mannýgum vatnahesti hvers hófar snúa aftur. Ennfremur má í þjóðsögum Jóns finna sögur af skoffínum og skugga-böldrum, marbendlum og hafgýgrum. En þessi kykvendi verða að njóta síðari tíma umfjöllunar á þessum síðum.

Tristram og Ísold

31.
Runnu upp af leiðum þeirra
lundar tveir.
Upp af miðri kirkjunni
mætast þeir.
– Þeim var ekki skapað nema að skilja.

úr Tristranskvæði.

Klassískur rómans og afskaplega fallegt kvæði. Hinsvegar má deila um hvort sýn Salvadors Dalí hafi verið sérstaklega rómantísk eða falleg. Raunar má deila um hvort nokkuð af því sem hann gerði hafi verið fallegt, þótt óumdeilanleg sé snilld hans. Hvað sem því líður má finna nálgun Dalís hér.

Þá nær málverk Rogelio de Egusquiza, „Tristan et Isolde (La Mort)“ frá 1910, ef til vill anda kvæðisins betur. Það má finna hér. Misjöfn er listin.

Viðauki um Tristranskvæði
Síðast uppfært þann 22. febrúar kl. 15:15
Tristranskvæði er líkast til ort á 14. öld eftir Tristrams sögu ok Ísöndar, sem aftur er rituð á 13. öld að enskri fyrirmynd. Tristrams saga er raunar talsvert ævintýralegri en kvæðið. Sagan rekur uppruna sinn til keltneskra þjóðflokka í norður-Frakklandi og elstu heimildir um söguna eru frá tólftu öld. Hún hefur verið til í ýmsum útgáfum, þær heillegustu afrit af útgáfu Gottfrieds von Straßburg, en upphaflega sagan mun vera löngu glötuð. Hér má finna upplýsingar um tilurð sögunnar og hér má sjá hvaða útgáfur spruttu upp af ljóði Tómasar breska. Tristranskvæði hefur að mestu verið þýtt yfir á rússnesku, Баллада о Тристраме (Ball’ada ó Trístramje), og það má finna hér. Erindið sem ég vitna til hér að ofan er númer 22 í rússnesku útgáfunni og þýðingin er nokkuð nákvæm. Sjálfsagt er tilviljun að það rímar:

22.
На могилах их два древа
взросли тогда,
они встретились пред церквью
навсегда.
(Им судьба судила разлучиться.)

Til eru a.m.k. þrír rithættir á nafni Tristrans (Tristans, Tristrams) og jafnvel fleiri á nafni Ísoddar (Ísöndar, Ísoldar, Ísólar). Sjálfur tala ég iðulega um Tristram og Ísold. Ísönd mun þó vera upprunalegastur íslenskra ritháttu.