Veraldarsögur

Ég nefndi veraldarsögur í bloggi í fyrradag. Þótt það segi sig að nokkru leyti sjálft hverslags bókmenntir það eru er kannski til nokkurs að segja samt lítillega frá þeim, hvað það er sem gerir þær að mínu mati að einna merkilegustu bókum sem til eru.

Veraldarsögur byggja á hugmynd heilags Ágústínusar frá Hippó um heimsaldra (lat. aetates mundi) sem oftast eru taldir vera sex, stundum sjö ef tíminn eftir heimsendi er talinn með.

Fyrsti heimsaldurinn er tíminn frá sköpun mannsins, Adams og Evu, fram að Nóa. Annar heimsaldurinn nær frá Nóa til Abrahams. Þriðji heimsaldurinn nær frá Abraham til Davíðs konungs og sálmaskálds. Fjórði heimsaldurinn nær frá Davíð til herleiðingar gyðinga inn í Babýlon. Fimmti heimsaldurinn nær frá þeirri tíð til fæðingar Krists. Sjötti heimsaldurinn hefst með Kristsburði og honum lýkur þegar hann snýr aftur við heimsendi að dæma lifendur og dauða.

Þannig hefjast veraldarsögur jafnan á sköpunarsögunni og þaðan er mannkynssagan rakin eftir Biblíunni, sem var talin vera eina örugga heimildin um veraldarsögu enda komin til okkar frá Guði. Inn í veraldarsöguna var svo jafnan fléttað öðrum sögulegum viðburðum sem voru þekktir úr heimildum sem taldar voru áreiðanlegar. Þannig er sögu Rómar, Alexanders mikla og Trójustríðsins — svo eitthvað sé nefnt — skeytt inn í frásögnina í tímaröð. Veraldarsögum líkur svo vanalega í samtíð skrifarans sjálfs, sem lifir á hinum sjötta og síðasta heimsaldri fyrir endalok veraldar. Í þeim skilningi er veraldarsögum ætlað að vera tæmandi frásagnir af sögu heimsins og mannsins. Það mætti að vissu leyti segja að menn væru að skrá það sem þekkt væri meðan þeir biðu eftir endalokunum (sem enn láta bíða eftir sér).

Sjálfstæð sagnarit sem saman mynda hluta úr eins konar stórri veraldarsögu hafa varðveist, svo sem Rómverja saga, Alexanders saga og Gyðinga saga. Þá mætti telja til svonefnd gervisagnfræðirit á við Trójumanna sögu, sem þýdd er eftir uppdiktaðri fyrirmynd Daresar Phrygiusar. Það er alveg ljóst að frumsamin íslensk sagnarit eru ekki rituð utan samhengis við hina þekktu veraldarsögu, en að hve miklu leyti þau eru framhald af henni eða viðbót við hana verður aldrei komist að með vissu. Það er einmitt í samhengi við þessa vitneskju um heiminn sem ég tel að eðlilegast sé að lesa konungasögur, Íslendingasögur og fornaldarsögur. Veraldarsögur eru okkur ekki síður ómetanlegar heimildir um hugsunarhátt miðaldamanna einmitt þess vegna.

Reza Aslan og málsvörn fyrir fræðilegt hlutleysi

Ég hef verið afar hugsi yfir umræðunni um fræðimanninn Reza Aslan undanfarið. En áður en ég vind mér í hana vil ég byggja undir hugleiðingar mínar með eftirfarandi atriðum (ég biðst velvirðingar á lengdinni og afsaka það ef lesendum leiðist að ég skuli endurtaka sumt sem þeir þegar vita):

Aslan (fyrir utan að vera flott nafn, sem allir sem hafa einhverju sinni alist upp vita að merkir ljón, eða tengja a.m.k. við ljón) er með fjórar háskólagráður. Þrjár af þeim skipta máli fyrir þessa umræðu: Hann er með B.A.-próf í trúarbragðafræðum (religion), M.A.-próf í guðfræði og almennri trúarbragðafræði (theological studies), og doktorspróf (Ph.D.) í trúarlífsfélagsfræði (sociology of religion), allt frá virtum háskólum. Það þýðir ekki nauðsynlega að Aslan sé góður rannsakandi, en það þýðir þó það að hann er sérfræðimenntaður á sviði trúarbragðarannsókna.

Hann er fæddur í Íran en fluttist á barnsaldri ásamt foreldrum sínum til Bandaríkjanna sem flóttamaður, þar sem hann tók upp kristni. Hann snerist síðar aftur til íslam og það er annað aðalatriðið af tveim í þessari umræðu. Sem kunnugt er skrifaði Aslan bók sem þegar í titlinum gefur í skyn að Jesú frá Nasaret hafi verið ofstopamaður, og fyrir það réðist Lauren Green á ofstopastöðinni Fox á hann og fékk það, sem frægt er orðið, óþvegið tilbaka.

Þetta eitt lygilegasta sjónvarpsviðtal síðustu ára hefur skiljanlega kallað fram þónokkra þórðargleði í fólki, en einnig þau viðbrögð frá trúleysingjum (þótt einn skrifi hef ég það í fleirtölu því ég sé marga taka undir) að þó að árásin á Aslan hafi verið óverðskulduð þá hafi hann sjálfur verið ósanngjarn í garð – ef ekki hreinlega fávís um – trúleysi sem lífsafstöðu. Svo er áreiðanlega til allur fjöldinn af annars konar viðbrögðum sem ég hefði ekki geð í mér til að kanna til hlítar.

Ég rakst einnig á annað sjónarhorn og það er fyrst og fremst það sem ég hef áhuga á að bregðast við vegna þess að það snertir mig sjálfan sem rannsakanda (meðal annarra hluta) trúarbragða. Minn ágæti kunningi og samdoktorskandídat um Vatnsmýrina, Höskuldur Ólafsson, spurði nefnilega:

Hér er fræðimaður sem er einnig trúaður múslimi að halda fram ákveðinni kenningu um guð kristinna manna. Spyrillinn, sem starfar fyrir íhaldssama (kristilega) sjónvarpsstöð spyr eðlilegra spurninga í því trúarlega og menningarlega samhengi. Hvað er skrítið við þetta viðtal annað en að fræðimaðurinn reynir að gera það að aukaatriði að hann aðhyllist trú sem afguðar þann sem hann er að skrifa um?

Aðaldjúsið í því sem hann setur spurningamerki við er þó þetta:

Alltént, ég á erfitt með að trúa því að vísindamenn geti auðveldlega skilið hugmyndafræði sína við þröskuldinn þegar þeir stíga inná skrifstofuna.

Í fyrstu varð ég hissa á þessari skoðun en varð þó að viðurkenna að þetta er mikilvæg umræða, sem ég hef raunar átt í áður – síðast á miðaldaráðstefnu í Leeds þar sem rétttrúaður, gyðinglegur fræðimaður spurði mig í léttu hjali hvernig það eiginlega gengi fyrir sig að ég, trúlaus maðurinn, rannsakaði kristni á miðöldum (hans sérsvið er, vel að merkja, gyðingdómur á miðöldum). Ég lái honum ekki það að spyrja, en hann hóf heldur ekki samræðurnar á því að segja mér í óspurðum fréttum að Xur Xurssyni úti í bæ þætti ég vera ómerkilegur fúskari.

Svarið er ekki einfalt, en áður en ég kem að því vil ég nefna fleiri atriði til umræðunnar.

Ég hef ekki lesið bókina frekar en gagnrýnendur Aslans, svo ég ætla ekki að bera í bætifláka fyrir neitt sem þar kann að koma fyrir. Ég gat þó ekki skilið hann öðruvísi en svo að hann ynni útfrá þeirri megintilgátu að Jesús frá Nasaret hafi sannarlega verið uppi. Það þarf ekki að þýða annað en það að hafi hann verið til, þá sé hægt að bera saman heimildir um hann við sögulegar heimildir frá sama tíma. Eina dæmið sem hann nefnir um vinnubrögð sín í sjónvarpsviðtalinu er einmitt þess eðlis (að hafi Jesús verið krossfestur í reynd, þá séu til heimildir frá Rómverjum um það hvers konar glæpamönnum var refsað þannig) og það þykir hreint út sagt ekkert óeðlilegt við að viðhafa slík vinnubrögð í trúarsögulegum eða sagnfræðilegum rannsóknum.

Aslan er hinsvegar ekki gagnrýndur fyrir rannsóknina heldur fyrir að kalla Jesú ofstopamann (zealot), sem raunar þarf ekki mikið hugmyndaflug til að hafa yfir mann sem samkvæmt heimildum var áhrifamikill safnaðarleiðtogi sem opinberlega gekk í berhögg við ríkjandi skipulag síns tíma. Og Aslan er vitaskuld langt því frá fyrstur til að gera það þó að ég muni raunar enga titla; ég hef ekki lesið um efnið í ein sjö ár en ég get rifjað eitthvað upp ef einhver gengur á mig.

Reyndar er svo lítið nýnæmi í þessari bók af útlitinu og umræðunni að dæma (hið fyrra er að sönnu slæmur mælikvarði en hið síðarnefnda gefur á hinn bóginn til kynna að það sé ekki bókin sem er vandamálið) að ég fæ ekki séð að málið snúist um neitt annað en það að það angrar sumt kristið fólk í Bandaríkjunum að múslimi, samlandi þeirra eður ei, skrifi bók um Jesú sem tekur til endurskoðunar þær túlkanir á honum sem birtast í guðspjöllunum. Sem þýðir aftur að fullkomlega hefðbundin nálgun á afar flóknar heimildir hefur nú ýtt undir umræðu um innbyggða fordóma (implicit bias), að „sú hugmyndafræði sem maður aðhyllist sé að hafa áhrif á þá rannsókn sem maður stundar og þ.a.l. á niðustöðuna“. Mér finnst þetta vera svolítið stökk en það er á hinn bóginn greinilegt að þetta er umræða sem verður að taka. Og ég tek það fram að ég er á margan hátt sammála Höskuldi um flest það sem hann nefnir (nema kannski helst það að spurningar Lauren Green hafi verið sanngjarnar eða eðlilegar – þær voru a.m.k. fyrirsjáanlegar), þó að mitt sjónarhorn sé að vísu töluvert frábrugðið.

Hvernig gæti ég hlutleysis í mínum rannsóknum? Hvernig hindra ég það að hugmyndafræðin vefjist fyrir fótum mér? Fyrst um hlutleysi: það er auðvitað ekki hægt vera hlutlaus og það vita allir sem fást við vísindi að það er frekar lítið sem vinnst með því að ræða þann ímyndaða möguleika. Það er ekki einu sinni hægt að vera hlutlaus raunvísindamaður, því jafnvel ef hægt væri að taka vísindamanninn út úr myndinni þá eru mælitækin ekki hlutlaus heldur eru þau óhjákvæmilega aðeins túlkandi fyrir veruleikann sem þau eiga að mæla. Það þýðir ekki að niðurstöðurnar verðir rangar; þær geta verið réttar en þær eru háðar því kerfi sem mælt er eftir, og öll kerfi eru túlkandi hvert með sínum hætti. Málið vandast þó enn frekar þegar gögnin sem mæla á eru textar og aðalmælitækið er tungumálið, sem hvorki er raunsönn né hlutlaus lýsing á veruleikanum nema að svo miklu leyti sem við höfum ákveðið að tiltekin tákn merki tiltekna hluti, og þar með komið fyrir túlkun á veruleikanum fyrir innan hugtakakerfis sem aftur er í mismiklum mæli breytilegt ekki aðeins á milli þjóða, heldur jafnvel á milli einstakra málhafa (Saussure, fo sure). Þar að auki erum við sem rannsökum forna texta jafnan félagslega, þjóðfélagslega, trúarlega og hugmyndafræðilega aðskilin frá höfundi textans og hugsun hans, fyrir utan svo allar aldirnar sem skilja okkur að einnig: við erum í reynd að rannsaka framandi menningarheima. Til þess að skilja texta þarf því fyrst að skilja samfélagið sem textinn sprettur upp úr, og það verður ekki gert nema með áralöngum rannsóknum þar sem við gerum okkar ítrasta til að skilja ekki veruleikann nema á forsendum þeirra texta sem til umfjöllunar eru.

Ég ætla ekki að halda því fram að það sé auðvelt, en krafan verður þar af leiðandi sú að við reynum að leggja okkur sjálf til hliðar svo sem okkur framast er unnt þegar við rannsökum (í þessu tilviki) forna texta; að við reynum að túlka þá ekki í ljósi allrar þeirrar sögu og vitneskju sem orðið hefur til síðan þeir litu dagsins ljós. Við viljum komast nálægt heimsmynd þeirra sem rituðu textana, hugmyndafræði þeirra og trúarlífi. Aðalmálið er að ég held að Reza Aslan sé bæði fullvel meðvitaður um að sú krafa er gerð til hans, og að í einhverjum tilvikum þá mistakist honum að halda sjálfum sér frá þeim heimildum sem hann er að rannsaka. Slíkt gerist og fyrir það eru fræðimenn gagnrýndir. Enginn hefur hinsvegar gagnrýnt hann fyrir það, heldur hefur hann verið gagnrýndur vegna möguleikans á því að hann hafi vegna trúar sinnar fokkað upp verkinu því sem múslimi sé hann haldinn fordómum í garð kristni. Þessi gagnrýni kemur fyrst og fremst frá bókstafstrúarfólki.

Hvað hugmyndafræðina áhrærir þá er ég ekki viss um hvernig ég geti svarað því. Ég trúi ekki á máttarvöld, æðri eða lægri, en þó er ég afar áhugasamur um trúarbrögð. Það er að segja: ég er áhugasamur um virkni trúarbragða. Með virkni þá meina ég það hvernig fólk upplifir lífið í trúnni og heiminn umhverfis sig. Og til þess að geta rannsakað trúarlíf fólks á miðöldum þá þarf ég að bera fyrir því virðingu, og með því að lesa sem flesta trúartexta (og aðra texta) frá miðöldum þá kemst ég nær skilningi á því hvaða hugmyndafræði mótaði líf fólks á því tímaskeiði sem rannsókn mín nær til.

Þegar ég fjalla um sköpunarsöguna þá skiptir mig ekki máli hvernig mér lærðist hún í barnaskóla, heldur hvernig hún birtist mér í Veraldarsögu, í Hauksbók, í Stjórn, í Elucidarius, í annálum; ég reyni að rannsaka sameiginleg þemu en þó sérstaklega það sem út af stendur svo ég hafi sem fjölbreyttasta mynd af þeim trúarhugmyndum sem voru í umferð á Íslandi. Ef einhver telur mig verri rannsakanda fyrir það að ég trúi ekki á téða sköpunarsögu þá áttar viðkomandi sig kannski ekki á því hvað sú sköpunarsaga er þýðingarmikil í sögu vestrænnar menningar – það skiptir mig ekki máli hvort hún er sönn eða ekki, ég get rannsakað ólíkar gerðir hennar fyrir því og borið virðingu fyrir því fólki sem lagði líf sitt í hendur ókunnum krafti sem það nefndi Guð.

Ég rek ekki söguna aftur á bak og ég legg mikið upp úr því að þvinga ekki hugmyndafræðilegar stærðir upp á menningarheim sem sjálfur hefði ekki skilið þær. Það kemur m.ö.o. ekki til greina, fyrir mig (og veit ég að margir eru mér afar ósammála), að ég retróaktíft troði Freud, Marx, eða öðrum þvílíkum kenningakerfum upp á heim miðaldafólks. Ég segi ekki að það sé rangt að gera það, heldur að ég vilji komast sem næst því að skilja miðaldafólk á þess eigin forsendum. Miðaldirnar reyni ég því – eftir fremsta megni – að nálgast út frá ríkjandi skilningi þess tíma. Raunar snýst rannsóknarefni mitt að hluta til um það að sjá að hversu miklu leyti ríkjandi skilningur í Evrópu náði til Íslands.

Það geri ég auðvitað ekki fordómalaust – það getur enginn. Og nú veit ég ekki hvernig Aslan vinnur sína bók en ég hygg miðað við hans feril hingað til að hann hafi aldrei orðið fyrir eins alvarlegum ákúrum einsog núna. Sem hann verður fyrir vegna þess að hann er múslimi. Það eru ábyggilega hundrað atriði í bókinni hans sem ég tæki ekki undir og þættu ekki tíðindi til næstu hugvísindadeildar.

Ég held að við séum öll meðvituð um að við stýrumst í okkar rannsóknum af einhverjum hvötum – og af miklum ákafa, því annars hefðum við aldrei enst í þessu – og rannsóknir gefa nú til kynna að fordómar okkar stjórna hugsunum okkar á enn dýpra borði en okkur hafði órað fyrir. Mér finnst það þó ekki réttlæta gagnrýnina. Hefði Lauren Green hafið viðtalið á því að spyrja Reza Aslan um þá gagnrýni sem hafi verið sett fram, að hann sem múslimi væri ef til vill ekki besti aðilinn til að skrifa um Jesú, og látið þar við sitja eftir að svarið var komið, þá hefði það verið spurning í lagi. En það eina sem hún gerir í gegnum allt viðtalið er að vitna aftur og aftur í nýjan og nýjan karl sem fæstir hljóma einsog þeir hafi lesið bókina og spyrja hvernig hann bregðist við þessu. Hún hafði ekki lesið bókina og hún hafði engar aðrar spurningar; hún hafði einfaldlega ekki áhuga á öðru en að reyna að koma höggi á hann, og það mistókst.

Og upp úr þessu spretta í reynd tvær umræður: Ef líkur eru á að Aslan hafi annað hvort viljandi reynt að koma höggi á kristni með bókinni, eða á hinn bóginn stjórnast af fordómum, þá er sennilega besta leiðin til að afhjúpa hann að lesa bókina. Það hefur hinsvegar enginn gert og því veit ég ekki hvort við komumst neitt lengra áfram með þá umræðu í bili. Hin umræðan sem mér þykir áhugaverðari og mikilsverðari fjallar um það hvernig við sem rannsökum trúarbrögð getum gætt hlutleysis í okkar skrifum. Það getum við einfaldlega ekki nema að takmörkuðu leyti og því tek ég að sjálfsögðu undir það að við þurfum öll að vera meðvituð – ekki endilega um fordóma okkar – heldur um það að við höfum fordóma.

Þó að Aslan gremjist (að mínu viti skiljanlega) að vera spurður svona, og þvertaki fyrir það í vörn fyrir starfsheiður sinn, þá efast ég ekki um það að hann sé þess alveg meðvitaður að hann búi yfir fordómum rétt einsog aðrir, alveg einsog ég og alveg einsog rétttrúaði gyðingurinn sem rannsakar gyðingdóm á miðöldum. Þannig sýnist mér umræðan um fordóma fræðimanna yfirleitt benda í þá átt að umræðan um fordóma Aslans sérstaklega hafi verið ósanngjörn, því hver svo sem trúarleg afstaða fræðimannsins er þá erum við öll sem rannsökum trúarbrögð undir sömu sökina seld: við erum öll jafn ótrúverðug og Aslan, á alveg sama hátt og rannsakendur einkum og sér í lagi í félags- og hugvísindum gætu látið hugsjónir sínar og pólitík hafa áhrif á rannsóknir sínar.

Og það er fullkomlega valid umræða, að fræðimenn geti verið litaðir af lífsviðhorfum þó að þeir eigi eftir fremsta megni að forðast að vera það. En við getum ekki gengið að því a priori að allir vísindamenn með skoðanir láti stjórnast af þeim og það er það sem mér fannst umræðan fyrst og fremst snúast um, eða þangað til mér varð ljóst að hún hafði klofnað svona rækilega í tvennt. Þetta er ekki málsvörn fyrir Reza Aslan heldur fyrir sjálfan mig og okkur öll, og ef til vill mætti draga saman niðurstöður minna hugleiðinga um efnið svona:

1. Við lifum á tímum þegar rannsóknir fræðimanna eru iðulega dregnar í efa og gerðar tortryggilegar í pólitískum tilgangi sökum ætlaðra annarlegra hvata þeirra. Þetta er ekki síst algengt í íslenskri umræðu eftirhrunsáranna.

2. Sú bylgja reis hæst það ég hef séð þegar órökstuddar blammeringar voru látnar dynja á Reza Aslan í sjónvarpinu. Ekki fyrir að hafa skrifað tortryggilegt rannsóknarverk, heldur fyrir það að vera múslimi. Þessa taktík mætti kalla skip the middle man: það er óþarft að tortryggja verkið þegar höfundurinn er sjálfur tortryggilegur.

3. Ef við hinsvegar föllumst á að þessar blammeringar hafi verið réttmætar, þá þurfum við að líta í eigin barm og átta okkur á því að allar réttmætar ástæður þess að stilla Reza Aslan svona upp við vegg hljóta að eiga við alla fræðimenn, alstaðar og á öllum tímum. Þó að umræðan geti ef til vill skilað okkur eitthvert áfram er ég ekki reiðubúinn að fallast á slíka niðurstöðu.

„Goðafræði“

Bakið mitt hefur ákveðið að sálga sér hvort sem ég er fastur við það eða ekki. Svo ég er lagstur í flet meðan minni stórfjölskyldan situr að veisluborði frammi í stofu. Til allrar hamingju missi ég bara af kjúkling en ekki nautalund.

Á þessum tímapunkti finnst mér ég þurfa að játa það að ég hef algert óþol, jaðrar við ofnæmi, fyrir orðinu goðafræði. Í fyrsta lagi vísar orðið framhjá trúnni sjálfri og þar með vísar það í fyrirbæri sem aldrei hefur raunverulega verið til (heiðið fólk hafði sannarlega sína trú og fróðleik, sem er ekki það sama og fræði). Það má að vísu kalla eftirheimildir á borð við Snorra Eddu „goðafræði“ í því ljósi að Snorri reyndi að setja fram á skipulegan (fræðilegan) hátt tiltekna staðlaða gerð af trú sem þó aldrei var stöðluð og hann þekkti aðeins úr öðrum heimildum en ekki af eigin reynslu.

En, og í öðru lagi, þá eru engar heimildir til um „goðafræði“ sem ekki eru heimildir um trúna sem „goðafræðin“ á að lýsa. Þar sem þetta eru allt sömu heimildir er nærtækast að líta á þær sem heimildir um norræna trú en ekki goðafræði, eða gríska og rómverska trú, o.s.frv.

Í þriðja lagi er „goðafræði“ í reynd aðeins þýðing á orðinu mythology, sem er orð margra merkinga en er einhverra hluta vegna helst haft yfir heimildir um hina ýmsu útdauðu fjölgyðistrú; orðið er algerlega merkingarlaust þannig. Það er líka misvísandi að kalla þetta „fræði“ af nákvæmlega sömu ástæðum og það væri misvísandi að kalla Gamla testamentið fræðirit, eða Kóraninn, eða Bhagavad Gita, eða Gilgameskviðu.

Auk þess fjallar „goðafræðin“ ekki aðeins um goð heldur um allan fjandann annan frá sköpun heimsins til endaloka hans. Þess vegna á fólk að hætta þessari steypu og tala um norræna trú en ekki „goðafræði“.

Hvað er skrímsli?

Skrímsli eftir Áslaugu Jónsdóttur
Hvað er skrímsli? Sé íslenska orðinu slegið upp í Google finnur maður myndir úr skrímslabókum Áslaugar Jónsdóttur og Disneymyndinni Monsters Inc., en einnig koma fram myndir af einni ófreskjunni úr myndinni El laberinto del fauno og meintu skrímsli sem skolaði upp í fjöru í Montauk fyrir fjórum árum sem ég fæ ekki betur séð en að sé hundur. Leit að orðinu monster færir okkur á hinn bóginn auglýsingar fyrir orkudrykk.

Við þekkjum skrímslið á því að það er öðruvísi en önnur dýr. Raunar er það oft blanda úr öðrum dýrum, óskapnaður í kristilegum skilningi, og við höfum lært að dýr sem ber eiginleika margra dýra í senn er vanskapað, jafnvel af hinu illa. Griffill er blanda af erni og ljóni, mantíkóra er blanda af ljóni og manni. Andstæðan á milli hins náttúrulega og ónáttúrulega verður óskýrari því meiri sem líkindin á milli okkar og hins eru. Menn eru ekki dýr, og dýr sem sækir líkindi til manna er ófreskja. Mestu ófreskjurnar eru þær sem við fyrstu sýn virðast vera mennskar: afturgöngur, uppvakningar, vampírur. Þær eru grótesk afbökun á fullkomnu sköpunarverki Guðs. Það er ekki síst í gegnum trúarbrögð sem okkur er kennt að hata þær.

En það er ekki endilega að svo miklu leyti vegna þeirrar perversjónar á hinu mannlega og náttúrulega sem skrímsli eru svo hötuð, heldur einmitt vegna þess að þau spegla okkar eigin viðhorf sem við kannski þorum ekki að horfast í augu við. Í grunninn er skrímslið við. Við erum skrímslið. Þess vegna er nálgun Áslaugar Jónsdóttur kannski sú sem er mest blátt áfram, því hún leiðir alveg af hugmyndinni um skrímslið sem spegil sjálfsins; skrímslin hennar borða, fá flensu og lesa fyrir svefninn undir sænginni sinni. Og þegar við sjáum að þau eru einsog við, þá lærum við líka að hætta að óttast þau. Sú niðurstaða er eins gömul og skrímslasagan.

Fræðileg útgáfa Biblíunnar

Ég fór óvart að fantasera á Facebook um að eignast fræðilega útgáfu á Biblíunni. Best væri ef Hið íslenzka bókmenntafjelag stofnlegði ritröðina Erlend fornrit að fyrirmynd Íslenzkra fornrita. Þess í stað höfum við þýðingar Lærdómsritanna, sem að ósekju mætti gera að hardkor fræðilegri útgáfu án þess að almennir lesendur yrðu nauðsynlega fældir frá.

Og nógu déskoti oft hefur Biblían líka verið gefin út og látið með hana einsog hún sé einhver fastur texti. En þannig er það auðvitað ekki. Ef ég ætla að vitna í Biblíuna þá get ég ekki tekið íslensku þýðinguna frá 2007 og fært hana aftur um eitt einasta ár; hún er aðeins nothæf í Biblíutúlkun eftir útgáfuár sitt, það leiðir af sjálfu. Að sama skapi verður King James Biblían ekki til fyrr en snemma á 17. öld svo ég get ekki stuðst við hana í umfjöllun um 13. öld. Vúlgatan verður til seint á 4. öld, á 13. öld er hún orðin opinber Biblía Rómversk-katólsku kirkjunnar og hún er enn gríðarlega mikilvæg seint á 16. öld. Hafi maður áhuga á kristni á miðöldum þá les maður semsagt Vúlgötuna.

Í fljótu bragði sé ég ekki að nein fræðileg útgáfa af Vúlgötunni sé til á Landsbókasafni, og raunar sé ég ekkert á víðáttum internetsins heldur, að minnsta kosti ekki með skýringum. Ég leita þá bara svara annarsstaðar við þessari gátu:

Biblia Sacra Vulgata:
et nomen fluvio secundo Geon ipse est qui circuit omnem terram Aethiopiae

Paradís er staðsett í heiminum með því að fjórar ár sem renna í gegnum hana eru nefndar. Ána Geon eða Gíhon hefur ekki tekist að staðsetja með fullnægjandi hætti, en athygli vekur að í Vúlgötunni og í King James er hún sögð vera í Eþíópíu:

King James Version:
And the name of the second river is Gihon: the same is it that compasseth the whole land of Ethiopia.

Sem getur ekki verið því Paradís lá í austri í heimsmynd miðalda, í Asíu en ekki í Afríku. Auk þess eru Tígris og Efrat tvær hinna ánna sem renna um Paradís og þær eru báðar í Mesópótamíu, eða í Írak svona í grófum dráttum. Í nútímaútgáfum er Gíhon því sögð renna um Kúsland sem sumir hafa viljað finna stað við landamæri Pakistan og Afganistan nútímans:

English Standard Version:
The name of the second river is the Gihon. It is the one that flowed around the whole land of Cush.

Biblían (1915):
Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland.

Á Eþíópíunafninu hef ég ekki skýringu (hún er ábyggilega einföld), en á hinn bóginn hef ég aldrei handleikið Biblíu sem einu sinni nefnir það að ekki beri öllum gerðum Biblíunnar saman um þetta, hvað þá önnur og flóknari atriði sem oss dauðlegum er djöflinum erfiðara að komast að sjálfir. Það þýðir ekki að sú Biblía sé ekki til, bara að ég hef ekki fundið hana. Hér með auglýsi ég eftir krítískri útgáfu á Biblíunni með rækilegum inngangi sem tekur á textafræðilegum forsendum útgáfunnar og málfræðilegum og guðfræði þess tíma sem útgáfunni er ætlað að endurspegla, formála að öllum bókum, gommu af neðanmálsgreinum og orðskýringum í meginmáli og nafna-, orða- og heimildaskrá aftast. Og meira til.

Og þetta bið ég um án þess að finnast Biblían einu sinni neitt sérlega skemmtileg. Ef þetta er til einhversstaðar þá held ég að mörgum væri gagn í að vita um það.

Um yfirnáttúrlegar verur í Íslendingasögum

Fátt er meira spennandi en að gefa út bók (látið mig þekkja það, ég hef gefið út sex), en aldrei hef ég áður gefið út bók sem ég einn skrifaði, braut um, vann myndirnar í og hannaði kápuna á. Til þess kenndi ég sjálfum mér á LaTex og notaðist helst við þrjú forrit í öllu ferlinu: Texmaker, BibDesk og Inkscape. Bókina prentaði ég hjá Lulu og þar sem ég neyddist til að gera rykkápu þá var þægilegt að nota bara kápugerðargræjuna þeirra.

Afraksturinn er ekki fullkominn. Það er með vilja að kápan lítur út einsog önnur hver kápa í þessum fræðum og með það í huga er hún býsna velheppnuð (ég gerði hana á örfáum mínútum). Tvær myndir inni í bókinni prentast illa (mestar áhyggjur hafði ég af því hvort þær prentuðust yfirhöfuð) en þó ekkert verr heldur en ýmislegt sem ég hef séð hjá virtari forlögum. Textinn er mun fallegri á prenti en ég sá fyrir og þó var hann gríðarlega fallegur á skjá, spássían rétt og allt er réttumegin á hverri opnu. Bókbandið er sæmilega laglegt og rykkápan er vandaðri en ég ímyndaði mér. Fyrir utan myndvinnsluna er í raun ekkert í bókinni sem gefur til kynna að hún sé ekki sett saman af fagmanni í útgáfu fræðirita og það er auðvitað aðalatriðið.

Fyrir utan svo efni bókarinnar. The Supernatural in Íslendingasögur: a theoretical approach to definition and analysis er Cand.Mag. ritgerð mín sem ég skrifaði við Árósaháskóla. Í henni tek ég til skoðunar tengsl rýmis og nándar við yfirnáttúru í víðu samhengi, en meginhluti bókarinnar er viðamikil og kerfisbundin greining á yfirnáttúrlegum óvættum í Íslendingasögum. Niðurstaðan er grundvallarkenning sem ég legg nú drög að því að vinna meira með. Bókin er 167 tölusettar blaðsíður, innbundin og fæst hjá höfundi fyrir litlar 4.000 krónur (tollar og gjöld innifalin). Útgefandi er Tower Press, sem er nýtt höfundaforlag fræðirita.

Ég vænti þess að lesendur snúist hver um annan þveran í tryllingslegum æsingi eftir að lesa þessa bók. Hana má panta með því að senda póst á arngrimurv [hjá] simnet [punktur] is.

Ferming

Amma mín á Akureyri sagði alltaf við mig áður en við fórum að hátta: „Nú skulum við hvíla lúin bein.“ Það brást ekki að mér fannst ég finna fyrir því hversu lúið hvert bein í líkama mínum var í hvert sinn sem hún sagði þetta og syfjan seig fljótt á. Stundum virkar þetta ennþá ef ég á erfitt um svefn, að hugsa til ömmu minnar, sem nú er 86 ára og þ.a.l. opinberlega drullugömul (hún fæddist og ólst upp í torfkofa). Sú gamla hefur búið ein síðan afi dó fyrir rúmum 20 árum og gerir enn, sem ég held að hljóti að vera einhverslags met.

Þess mun þó ekki þurfa við í kvöld að hugsa til hjónarúmsins hennar ömmu minnar þar sem beinin eru ekki bara lúin, heldur líður mér einsog eftir fjallgöngu og heilinn er gjörsamlega í steik. Það gerir undirbúningur síðustu daga (ekki það að ég hafi gert nema brot af því sem aðrir lögðu til) og loks það sem að var stefnt: ferming Védísar í dag! Ólíkt þeim fermingum sem ég hingað til hef sótt komst ég við í þessari og fylltist bjartsýni og hlýju. Fermingarbörnin sáu sjálf um tónlistar- og ljóðaflutning og hinir fullorðnu skipuleggjendur voru í eins miklu aukahlutverki og hægt var. Mikið var þetta fallegt.

Og fyrir þessu hefur fólk fordóma (það fólk veit hvað það má éta fyrir mér). Þetta er kallað „borgaraleg ferming“. Það er eintómt bull, þetta er ferming og flóknara er það ekki. Þegar ég var á fermingaraldri var „borgaraleg ferming“ representeruð einsog það væri bara fyrir fábjána á sósjalnum og því kom það aldrei til greina. Ég dauðsé eftir því núna. Heldur að fylgja hjartanu og vera talinn fábjáni en að fylgja einhverju sem maður í grundvallaratriðum er ósammála. Ferming er annað og miklu meira en oft er gefið í skyn og það á að una þeim skoðunar sinnar sem kjósa að láta ferma sig, sama með hvaða hætti það er gert.

Svo hljóðar hið mannlega orð.

Hans og Grétu syndrómið

Ég var óskaplega stoltur af sjálfum mér í dag. Mér nefnilega tókst að klára nærri heilt páskaegg nr. 4. En svo áttaði ég mig á því að hér búa fleiri og því er líklegra að einhver annar hafi étið eitthvað af þessu. Þegar ég var lítill gat ég étið þrjú svona en það er liðin tíð.

Einhverjir voru að tuða undan þessu súkkulaðibrjálæði á netinu og birtu eitthvert óttalegt tilfinningaklám í ætt við „it’s hard to be a little girl when you’re not“, einsog páskaeggjaát sé ekki spurning um hvorutveggja öfgar og val. Líklega eru Íslendingar fyrstir í heimi til að vera allt í senn feitastir, sveltastir og fátækastir allra. Bestir í öllu því einsog öllu öðru. En í hugarheimi sums fólks er semsagt ekki hægt að gefa börnum súkkulaði nema með kalkúnasprautu. Sjálfsagt mætti kalla það Hans og Grétu syndrómið.

Fyrir nokkrum árum máttu ekki vera púkar ofan á páskaeggjum frá Nóa samkvæmt einhverjum prestinum því eggin væru táknmyndir sjálfs kristindómsins og jafngilti gjörningurinn því djöfladýrkun. Annar séra viðhafði svipuð orð um Draugasetrið á Stokkseyri en komst þar raunar nær guðfræðilegri teóríu en hinn. Fátt má út af bera gagnvart djöflatrúnni og nú munu fermingarbörn vera svívirt af öllum þorra guðlausra Íslendinga. Hinn kúgaði meirihluti lætur ekki að sér hæða.

Ekki þarfyrir að umræðan á Íslandi hafi ekki alltaf verið snargeðbiluð. Meiraðsegja Þóru Arnórsdóttur tókst ekki að bjóða sig fram til forseta án þess að vera kölluð strengjabrúða í valdaráni kommúnista. Voða sem fólk getur verið lítið í sér, hve mikil ósköp sem oft er erfitt að vera til fyrir öllum þessum kommúnistum, trúleysingjum og páskaeggjum. Sjálfsagt er það ekki svo fjarri Hans og Grétu syndróminu heldur að telja sér trú um að allir í kringum mann séu vondir og eigi skilið að vera skutlað í ofninn.

Miðbær Árósa
Og nú með ótrúlegri tengingu við Hitler má svosem nefna að ég skrapp til Danmerkur á dögunum (einhverra hluta vegna er ég alltaf á einhverjum þvælingi). Þar rétt svo tókst mér að missa af fámennum útifundi nasista sem aflaði sér um tífalt fleiri ósáttra gesta og skarst í brýnu þeirra í milli og svo lögreglunnar sem reyndi að verja þá fyrrnefndu. Lögreglustjórinn í Árósum lýsti yfir í kjölfarið að betra hefði verið að láta nasistana bara eiga sig.

Stundum velti ég fyrir mér að gera einmitt það hvað kommentakerfi vefmiðlanna snertir, en ég held nú að hatursorðræðan skjóti því sterkari rótum sem hún er hunsaðri. Ef ekki er hægt að tala um páskaegg, fermingar eða forsetaframboð án þess að einhver sé berlega orðaður við samsæri eða ofbeldi þá er líklega lítil von á vitrænni umræðu næstu kynslóðirnar, og því síður sem orðræða fábjánanna er látin óátalin.

Sem raunar minnir mig á píslarsögu Krists: í henni virðast nær allir tjá sig einsog fábjánar svo lyktar með að maður einn er tekinn af lífi og fyrir því höldum við upp á páskana enn þann dag í dag. Kannski eru páskarnir þá eftir allt saman bara ágæt hátíð til að annaðhvort troða í sig páskaeggjum eða grenja undan páskaeggjaáti annarra og eipa almennt einsog fábjáni. En því miður er enginn hörgull á þessu síðastnefnda aðra daga ársins svo einhverjum kann að þykja tengingin hæpin. Hitt verð ég að játa að páskarnir hafa verið með ágætasta móti þetta árið, ekki síst fyrir það að líklega eru þetta fyrstu páskarnir á þessari öld sem ég er í fríi. Oft getur munað um minna.

Ögn um uppdiktuð djöflafræði

Í rannsóknum á yfirnáttúru á miðöldum kemst maður í tæri við ýmislegt. Mörkin milli hins yfirnáttúrlega og þess djöfullega verða óskýrari því trúarlegri sem textinn er, og eitthvert mest hrollvekjandi dæmið um slíka frásögn er í Jóns sögu, þar sem segir frá því þegar heilt kirkjufylli af uppvakningum réðist á Guðrúnu „kirkjukerlingu“ á 12. öld.

Ýmis demónólógía er sannarlega til. Þar gildir jafnan hið sama, að yfirnáttúra er ekki greinilega aðskilin frá hinu djöfullega. Hægt er að nefna systurbækurnar Malleus Maleficarum og Compendium Maleficarum, sem eru sennilega með frægari ritum er varða svartagaldur og djöfladýrkun, og sjálfsagt að áhugasamir kynni sér þau. Íslenskar galdrabækur eru til (sjá t.d. Galdrar á Íslandi sem Matthías Viðar Sæmundsson gaf út árið 1992.

Hinsvegar eru þessi rit ekki sérlega mörg þótt margir kynnu að halda það, og raunar er sennilega meira til af falsaðri djöflafræði en ósvikinni. Mig langar til að nefna tvö dæmi, annað sem er óvéfengjanlega hið frægasta, þá annað sem er eiginlega bara hlægilegt.

Hið fyrsta er Necronomicon, rit sem fyrir nekrólógum heimsins er álíka fágætt og dýrmætt og Rauðskinna var Galdra-Lofti, og álíka hættuleg. Ég á hana uppi í hillu, merkilegt nokk, og hefur mér þó ekki orðið meint af. Raunar er þetta ekki sú eina: það eru til að minnsta kosti þrjár aðrar (frumsamdar) gerðir, og í þeim skilningi einum „er hún til“. Þessi bók er jafnmikill skáldskapur og Rauðskinna (þykir mér í allri einlægni leitt að segja: sú Rauðskinna sem þið finnið í Gegni er þjóðsagnasafn).

Þrátt fyrir að alvitað sé að H.P. Lovecraft diktaði upp alla sögu og tilvist Necronomicon er til fullt af fólki sem neitar að trúa því. Til dæmis má nefna þennan geðslega náunga hér. Því til staðfestingar að bókin sé til vitnar hann í Dr. Joseph Talbet, Ph.D., D.Litt við Harvardháskóla, sem því miður er heldur ekki til. Að öðru leyti eru allar upplýsingar sem hann hefur um ritið komnar beint frá Lovecraft, meiraðsegja sú stórsniðuga hugmynd að Ole Worm (f. 1588 – d. 1655) hafi þýtt hana á latínu úr grísku á fyrri helmingi 13. aldar, u.þ.b. 360 árum áður en hann fæddist. Svo er auðvitað afskaplega lítið fútt í að særa fram djöfla uppúr kilju sem maður keypti á slikk í Bókabúð Máls og menningar.

Hitt ritið er Delomelanicon, bók sem djöfullinn á sjálfur að hafa skrifað (en fæst hinsvegar ekki í Bókabúð Máls og menningar). Það er ekki alveg á hreinu hvenær hún á að hafa verið skrifuð, hvort Gutenberg hafi verið búinn að færa prentlistina til Evrópu eða hvort hún var skrifuð á bókfell, ritvél eða MacBook. Að minnsta kosti væri höfundinum í lófa lagið að fá hana útgefna í pocket hjá Penguin eða fyrir Kindil gegnum Amazon, en hann virðist ekki hafa hugsað út í það þar sem bókin er ófáanleg.

Þrátt fyrir að þessi bók sé hugsmíð Arturo Pérez-Reverte er fólk nefnilega samt að leita að henni. Hennar er fyrst getið í skáldsögu hans Dumasarfélaginu, sem annars að stærstu leyti fjallar um bókina The Book of the Nine Doors of the Kingdom of Shadows, eða De Umbrarum Regni Novem Portis, sem er heldur ekki til. Ýmislegt í þeirri síðarnefndu gæti þó verið byggt á La Hypnorotomachia Poliphili frá 1499, sem á þó ekkert skylt við djöfladýrkun. En fólk heldur samt áfram að vona að þetta sé til, jafnvel þótt saga þessara bóka sé fyrir áratug orðin að stórmynd með Johnny Depp í aðalhlutverki (The Ninth Gate), og það þótt það komi bæði fram í bókinni og myndinni að hinni ímynduðu bók Delomelanicon hafi verið gjöreytt. Það virðist bara vera of freistandi að trúa því sem hljómar spennandi.

Lærdómurinn af þessu er kannski ekki mikill, nema þá kannski að maður léti betur ógert að stríða occúltistum með því að gefa út falsaðar bækur um svartagaldur, því þeir muni bara taka mann á orðinu (slík er arfleifð Aleister Crowley, sem raunar trúði á bullið í sjálfum sér eftir því sem ég kemst næst). Kannski skortir eitthvað á gagnrýna hugsun. Auk þess er langtum áhugaverðara að skoða raunverulega sögu svartagaldurs og djöfladýrkunar í Evrópu á miðöldum. Á síðasta ári kom t.d. út þykk og góð bók um efnið hjá University of Pennsylvania Press, Witchcraft and Magic in the Nordic Middle Ages eftir Dr. Stephen A. Mitchell við áðurnefndan Harvardháskóla (þessi prófessor er semsagt til í alvöru, ólíkt hinum).

Ég mæli með henni. Hún er miklu skemmtilegri en uppdiktaðar 20. aldar galdraþulur, einsog t.d. eintakið mitt af Necronomicon sem var samið á 8. áratugnum í Bandaríkjunum. Svo, ef maður er ekki viss hvað er satt og hverju er logið, þá er enginn verri fyrir að leita svara hjá sérfræðingi.

Aðlögun í skugga óreiðu

Eyrarsundskollegíið á Amager er fyrir löngu alræmt meðal íslenskra námsmanna í Kaupmannahöfn. Þegar ég kom þangað fyrst í janúar á síðasta ári var þar íslendingapartí auk eins Færeyings sem fékk að fljóta með sökum skyldleika og kannski þess að Íslendingum þykja Færeyingar fyndnir. Það er stærsta kollegí í Kaupmannahöfn, ef ekki það stærsta í Danmörku. Í öllu falli keppir það í stærð við Skjoldhøjkollegíið í Árósum. Þangað og í minni kollegí á Amager er öllum útlendingum troðið og það sama er uppi á teningnum í Árósum. Allir eða velflestir erlendir námsmenn eru sendir í Gellerup og þar má finna Skjoldhøj. Í verri endanum, Brabrand, má svo finna talsvert minni stúdentagarða sem nefnast Hejredalskollegiet. Þar er þeim óheppnustu fundinn íverustaður og þar bý ég.

Gellerup var upphaflega, að því er mér er sagt, hugsað sem úthverfi fyrir hina efnameiri. Þegar hverfið byggðist upp fyrir rúmum 50 árum keyptu velstæðir Danir sér íbúðir þar fyrir talsverðar fjárhæðir, en borgaryfirvöld höfðu á hinn bóginn ekki séð fyrir að ef til vill væru sovétblokkirnar sem þau höfðu byggt of margar og verðið of hátt til að hægt væri að fylla hverfið. Af þeim sökum sátu yfirvöld uppi með það sem út af stóð svo á endanum varð úr að borgin leigði þær út svo lágu verði að því varð ekki jafnað saman við önnur hverfi Árósa. Þangað sóttu í síauknum mæli hinir verst stöddu, sem í tilfelli Danmerkur einsog annarra landa, voru og eru aðallega innflytjendur. Síðan þá hefur hverfið verið látið drabbast niður, hvort sem það er vegna þess að borginni fannst nægum peningum sólundað í þetta herfilega skipulagsslys eða af öðrum sökum, og hinir efnameiri íbúar fluttir annað.

Einsog önnur slík vanrækt hverfi glímir Gellerup við sín vandamál. Í Aarhus Stiftstidende mátti lesa um að Gellerup væri í raun orðið að sjálfstæðu samfélagi aðeins nú fyrir örfáum dögum. Fjölskyldur innflytjenda, sem að stærstum hluta eru frá þeim löndum sem kennd eru við miðaustur og Danir eru sérstaklega þekktir fyrir að líta niður á, eru nú sagðar hafa myndað eigið réttarkerfi. Fréttin var þó ekki sérlega afgerandi þar sem varðstjóri hverfisins gat ekki gert upp við sig hvort íbúar réttuðu yfir og dæmdu samlanda sinna til þjónustu eða refsingar, eða tilkynntu þá ekki yfirhöfuð til viðeigandi yfirvalda þegar þeir brytu af sér. Þá var talað við formann hverfisráðsins, stjórnmálamann hjá Radikale Venstre. Sá sagði að Gellerup væri vissulega plagað af göturánum og öðrum smáglæpum en aldrei hefði hann orðið var við neinn sérstakan götudómstól meðal fólksins; þvert á móti hefðu tilkynningar til lögreglunnar aukist á undanförnum árum. Hvort það væri merki um stóraukna glæpatíðni eða aðlögun og aukna samfélagslega ábyrgð íbúa tjáði hann sig ekkert um.

Þingkosningar verða haldnar hér í nóvember á næsta ári en Radikale Venstre hafa þegar hafið sína kosningabaráttu. Það er kannski viðeigandi að auglýsingar þeirra má helst sjá í strætóskýlum í Gellerup en sjást óvíða annarsstaðar. Þar má sjá nánast hatursfullar tilvitnanir í Piu Kjærsgaard, sjálfan forsætisráðherrann Lars Løkke Rasmussen og aðra forvígismenn annarra flokka, þar sem látið er að því liggja að þau hati útlendinga, kennara og Evrópusamstarf. Þar fyrir neðan stendur til dæmis: Við stólum. Líka á útlendinga. Eða: Við trúum. Líka á kennarana. Sjálfsagt falla slík slagorð fyrir daufum eyrum hinna fjölþjóðlegu íbúa Gellerup sem hafa engar úrbætur fengið á sínum málum í áratugi, og ekki er útséð um hvort árangur Radikale í komandi þingkosningum muni hafa nokkuð í för með sér fyrir íbúa einstaks hverfis í Árósum. Á sama tíma stefna borgaryfirvöld að því nú að rífa fjöldann allan af þeim sovétblokkum sem þau áður seldu dýrum dómum. Það sem koma skal í staðinn er einhverslags verslunar- og þjónustukjarni, en hvað verður um íbúana er allt annað mál.

Í 40 ár hefur þarna byggst upp einstætt samfélag byggt að hálfu á siðum gömlu landanna og öðrum hluta á hinum danska lífsstíl sem Íslendingum er að góðu kunnur. Íbúarnir hafa með öðrum orðum samlagast Danmörku að því leyti sem það er hægt þegar þeim er öllum skóflað á sorphauga samfélagsins, og vandamálum þeirra sópað undir sama hornið á teppinu svo fjallið undir verður ekki umflúið. Og þegar fólk hrasar á ruslahrúgunni er fólkinu undir kennt um. Þarna hefur hálfgert skrímsli af fjölmenningarsamfélagi skapast þar sem utanaðkomandi eru jafn tortryggðir innan hverfis og íbúarnir sjálfir eru tortryggðir að utan. Það dettur engum hjá borginni í hug að hreinsa eftir sig, hvað þá að rétta íbúunum hjálparhönd. Lausnin er að rúlla upp teppinu og henda því út á haugana svo hægt verði að finna pláss fyrir stærra stofuborð.

Hvað verður um íbúana þegar heimili þeirra hafa verið rifin er svo aftur vandamál seinni tíma. Meðan Árósar eru enn sú borg í Danmörku sem stækkar hvað örast verður kannski hægt að grafa vandamálið enn fjær ráðhúsinu en nú er, allt svo Danir geti enn hæðst að múslimum og spurt sjálfa sig hvers vegna þeir hafi nú ekki húmor fyrir þessu.

Af þessum ástæðum og öðrum er allt tal um aðlögun einsog ljótur brandari. Vel má vera að Radikale Venstre hafi séð ljósið og vilji gera allt sem í þeirra valdi stendur til að rétta út sáttahönd, en mig undraði ekki þótt íbúar Gellerup vildu heldur vera látnir í friði.

Birtist fyrst á Smugunni 6. september.