Kúltúrsjokk

Fyrirsögnin er kannski fullyfirdrifin miðað við tilefni en þó er vel hægt að upplifa kúltúrsjokk í Danmörku. Stærsta kúltúrsjokkið, sem kann að koma lesendum þessarar síðu á óvart, var að fólk vílaði ekki fyrir sér að snýta sér lon og don undir miðjum fyrirlestri. Í fyrstu þótti mér ógeðfellt að ekki aðeins Spánverjinn í hópnum heldur Danirnir líka snýttu sér í tíma og ótíma og tróðu svo pappírnum í vasann, en svo rann það upp fyrir mér að ef til vill væri það þrátt fyrir allt meiri kurteisi en að standa í sífellu upp til að fara fram að snýta sér.

Snýtihefðir meginlandsbúa voru mér meira kúltúrsjokk en þegar ónefndur aðili mætti í grillveislu með töskufylli af bareflum og reyndi að fá fleiri til lags við sig til að halda útí skóg til að lumbra á nasistum (við heldur dræmar undirtektir). Eða þegar ég tók strætó til Tilst og skyndilega voru bara búrkuklæddar konur eftir í vagninum. Eða sú staðreynd að þriðji hver maður virtist reykja heimaræktað kannabis að staðaldri – nokkuð sem ég varð engan veginn var við í fyrra. Og að þeir Hollendingar sem ég hitti höfðu aldrei heyrt um Icesave (ekki spyrja mig hvers vegna ég yfirhöfuð minntist á það).

Stærsta kúltúrsjokk þeirra sem í fyrsta sinn ferðast til útlanda er væntanlega hversu einsleitt mannkynið í raun og veru er þegar allt kemur til alls, og að sjá svo gegnum fingur sér með það litla sem er ólíkt milli hinna aðskildustu hluta heimsins. Þegar maður hefur áttað sig á þessu er auðvelt að sjá hversu smáar sumar þjóðir eru að vilja banna bænahald annarra en þeirra sem játast undir sama guð og sömu doktrínu, og amast við því að útlendingar opni matsölustaði í þeirra landi og selji sinn framandi mat þeirra hreinu og óspilltu börnum. Það er alltaf sjálfsyfirlýst miðja sem skilgreinir jaðarinn, sem gerir að verkum að án jaðarsins væru normin ekki til. Það hefur lítið breyst í þjóðarvitund margra síðan íslenskir Grænlendingar drápu skrælingja án umhugsunar, án þess að reyna að tala við þá, af því þeir voru öðruvísi. Hálfgerð skrímsli.

Ég á hinn bóginn er fyrir löngu búinn að átta mig á þessu, allt frá því ég bjó á Ítalíu, og er þess vegna þeirrar skoðunar að öllum börnum sé hollt að kynnast öðru landi innanfrá einhverntíma á uppvaxtarskeiðinu. Það eykur á víðsýni þeirra síðar meir. Þess vegna leyfi ég mér oft að einblína á það sem þó er öðruvísi, í þeirri trú að fólk átti sig á að mér er aldrei full alvara með mínum þjóðernislegu dilkadráttum (ég á stundum til að segja til dæmis að Þjóðverjar séu leiðinlegasta þjóð Evrópu – þótt auðvitað sé það ekki og geti ekki verið satt – þjóðir geta ekki verið leiðinlegar, frekar en þjóðir geta verið hryðjuverkamenn).

En í öllu falli er hæpið að ég taki mér þann sið til fyrirmyndar að snýta mér undir fyrirlestrum, eða slást við nasista en jafnframt gútera gettóvæðingu úthverfanna. Það er eitthvað algjörlega framandlegt við margt það skilningsleysi sem ég hef orðið vitni að í Danmörku gagnvart fólki af öðru menningarupplagi, þegar nasjónalistar hatast við yfirlýsta nasista einsog það sé í raun einhver gríðarlegur munur milli þeirra. Sumir hata gyðinga en aðrir hata múslima og sumir hata einfaldlega bara allt sem er dekkra en MacBook.

Þegar öllu er á botninn hvolft er fólk alstaðar meira eða minna eins þótt siðirnir séu ólíkir eftir hvar maður er staddur hverju sinni. Og þegar kemur að því að taka sér upp erlenda siði þá fellur evrópska dagdrykkjan mér öllu meir að skapi en margt það annað sem ég hef kynnst á ferðalögum mínum. Fyrr drekk ég bjór fyrir hádegi en snýta mér í kennslustofu, eða skipta mér af því hvaða þjóðernishópar berjast innbyrðis í Danmörku af gagnkvæmu skilningsleysi gagnvart öllu því sem talist getur sammannlegt.

Ég missi jafnan trú á mannskepnuna

Þeir sem fárast yfir bingóspili á föstudeginum langa hljóta að vera alvarlega veikir í sinninu. Það kemur ríkisvaldinu ekki við hvað fólk gerir í frítíma sínum svo lengi sem það skaðar engan. Og þaðan af síður kemur það kirkjunni við, fremur en skattstjóranum eða öðrum stofnunum ríkisins, hvort fólk spili bingó eða ekki. Hvað þætti nú fólkinu ef bannað yrði að „drýgja hór“ á þessum degi, að bannað yrði að lesa nokkuð annað en nýja testamentið, að bannað væri að horfa á sjónvarpið? Hverjum kemur það við?

Lög eru sett til að þjóna hagsmunum fólksins, þegar lög eru hætt að gera það eru þau afnumin. Ef skemmtanabann á föstudeginum langa væri vilji fólksins, þá myndu ekki allir skemmtistaðir, barir, næturklúbbar, súlustaðir og hóruhús opna á slaginu tólf og troðfyllast á „mesta djammdegi ársins“. Okkur sem er sama hver var krossfestur ætti að vera í sjálfsvald sett hvernig við eyðum lögbundnum frídögum okkar, en á meðan fólk fárast mest yfir bingóspili af öllu því sem gerist sérhvern langan föstudag, þá sé ég fátt annað en skynsemina á krossinum, reiðubúna til að deyja fyrir firringu mannskepnunnar.

Fable revisited

Í sumar varð mér bloggað um Atlantis og vakti það athygli sjálfs Menosar, sem svaraði pistlinum um hæl. Nú hef ég rekið augu mín í nýstofnaða vefsíðu, Bad Archaeology, sem tekur fyrir allskyns þvælu sem fer að einhverju eða öllu leyti á skjön við viðurkennda fornleifafræði. Hér má sjá umfjöllun þeirra um Atlantis. Af því ég minntist í sömu færslu á meinta gröf Heródesar mikla er ekki úr vegi að vísa einnig á pistil þeirra um það efni.

Atlantis

Ekki man ég hver þrætti fyrir tilvist Atlantis við mig um daginn, en hér stendur mín meining nokkuð svört á hvítu. Það er einfaldlega svo að flestir fræðimenn eru sammála um að fyrirbærið hafi verið symbólískur uppspuni Platóns, og jafnframt er það sú skýring sem er haldbærust miðað við heimildir. Að ógleymdu því að flest það nýaldarlið sem heldur uppi vörnum fyrir Atlantis er víst með að kunna ritsafn Erichs von Däniken utanbókar.

Svo er alltaf goðsögnin innan hinnar sönnu goðsögu, Trójuhesturinn svo dæmi sé tekið. Ódysseifur hefur þurft að vera fjandi klár til að fá jafn fáránlega hugmynd. Og eins mikið og ég gleðst yfir því að Schliemann hafi fundið brunarústir Tróju og þarmeð staðfest goðsögnina að einhverju leyti, hlýtur að bera að varast alla yfirlýsingagleði; tréhrossin þurfa að sitja á hakanum. Knossos og Bergþórshvoll teljast staðfestar minjar, en það hlýtur á hinn bóginn að teljast afar vafasamt að minjar á Santorini séu leifar Atlantis eins og sumir vilja halda fram. Hafa hinir örvilnuðustu áhugamenn reynt að draga upp vafasöm tengsl milli sprengigossins þar og Rauðahafssögu Gamla testamentisins, í hvaða tilgangi nákvæmlega veit ég ekki.

Í þessu sambandi er mér minnisstæð saga af því þegar landnámsbærinn við Aðalstræti var grafinn upp. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur stýrði uppgreftrinum, en sonur hans er mér kunnugur. Að hans sögn mun hann hafa sagt við fjölmiðla, áður en þeir tóku hann formlega tali, að það kæmi ekki til greina að hann svaraði neinum spurningum um Ingólf Arnarson. Þegar fréttamaðurinn svo spurði hvort verið gæti að þar væri hús Ingólfs svaraði hann um hæl: Hvaða Ingólfur? Við lá að Velvakandi yrði að sértímariti í kjölfarið – vissi sjálfur fornleifafræðingurinn ekki hver Ingólfur Arnarson var?

Það er nefnilega ekki síst fjölmiðlanna vegna að rétt er að vera á varðbergi gagnvart svona sögusögnum. Einmitt þess vegna spurði ég sjálfan mig, þegar ég las frétt þess efnis um daginn að grafhýsi Heródusar mikla hefði fundist við Jerúsalem, hvort hún hefði þá fundist í vikunni eða hvað? Auðvitað hef ég ekki hugmynd um hversu miklar rannsóknir höfðu farið fram þegar þetta var tilkynnt, en ef ísraelskir fjölmiðlar eru jafn heimtufrekir og íslenskir, þá var allt eins líklegt að um gott gisk hefði verið að ræða. Raunar hefur Hebreski háskólinn nú staðfest fundinn.

En þrátt fyrir alla staðfesta fundi er þeim mun meiri ástæða til að vera var um sig og éta ekki allt hrátt upp eftir fjölmiðlum án nokkurrar umhugsunar. Menn skyldu vera skeptískir í hvert einasta sinn sem Anastasía Rómanoff dúkkar upp í Bandaríkjunum eða hengigarðar Babilóníu finnast meðan Kristur birtist á hundsrassi austur í Karpata. Það er nefnilega ekki vinnandi vegur að vita hvenær óskhyggjan ræður ein för umfram vísindaleg vinnubrögð, að hluta til eða í heild. Að evangelískum hundsrössum ólöstuðum.

Ýmiss konar tilbeiðsla

Sú mikla bifreið föður míns er nýkomin úr viðgerð en er alveg jafn biluð og fyrri daginn. Líklega var ég bara heppinn að komast ferða minna í gær, en í dag var ég ekki svo heppinn og mætti alltof seint í goðafræðina.

Goðafræðin er annars áhugaverðasti kúrsinn, þótt ef til vill sé hann lúmskt erfiður. En það kemur allt í ljós. Annars konar goðafræði var í fullum gangi á kaffistofunni í kjallaranum. Þar óðu guðfræðinemar uppi og hempuklæddir menn ræddust við á ítölsku. Ég grínast ekki. Hvers vegna guðfræðiskor vill endilega starfrækja kapellu í Háskólanum mun ég aldrei skilja. Ég ætti kannski að krefjast þess fyrir hönd íslenskuskors að við fáum langeld og fórnaraltari í kjallara Árnagarðs, okkar eigið eldhús og kaffistofu. Bókmenntafræðin gæti þá fengið tilbeiðsluherbergi með Derridagínu til að rúnka. Herbergið gæti heitið „Póstmódernisminn“ og menn gætu þá dundað sér við að finna leiðina út aftur. Nei, þetta er fíflaleg umræða.

Alls ótengt heilagleikanum í kjallara Aðalbyggingarinnar þætti mér ágætt ef ég þyrfti aldrei að sækja tíma þangað aftur. Ef hægt væri að koma því við að ég sæti alla mína kúrsa í Árnagarði eftirleiðis yrði ég sérdeilis kátur. Það varðar þá helst óþægilegan strúktúr byggingarinnar, sem gerir það að verkum að það verður kvöð að sækja kaffið sitt. Kaffistofur beggja bygginga mynda raunar sams konar flöskuháls á álagstímum, en þá er líka munur að mæta skemmtilegu fólki eða guðfræðinemum. Jón og síra Jón, á þessu er munur. Nema veri hann Magnússon, þá er fanatíkin sú sama.