Umræðan

Skyndilega sprakk út í Bloggheimum eldheit umræða um trú á móti vantrú í kjölfar bakþankapistils Davíðs Þórs Jónssonar um téð efni.

Nú var það síst ætlun mín að blanda mér inn í þessa umræðu, en sú spurning brennur á mér hvort sé umræðan díalektísk í eðli sínu, eða a priori málaflækjur í ætt við það sem Sókrates nefndi sófisma. Hið fyrra felur í sér lausn vandamálsins en hitt ekki.

Það skiptir mig svosum engu máli. Trúleysi jafnt sem afstæðishyggju virðist sífellt vaxa fiskur um hrygg á kostnað stofnanavæddra trúarbragða. Á móti kemur að líklega mun fólk alltaf trúa því sem það vill trúa.

Sjálfur tel ég að opinská umræða sé alltaf af hinu góða, jafnvel þótt menn verði æstir og snurða hlaupi á þráðinn. Í það minnsta er umræða sú sem nú er í gangi aðeins nýjasti hlekkurinn í keðju umræðna sem nær allt aftur til siðskipta, jafnvel lengra ef vel er að gáð. Og líklega er þess ansi langt að bíða að sjái til botns.

Sér í lagi þegar umræðan gengur í hringi.

Hættur

Ég les stundum Vantrú, en aðeins örsjaldan skil ég eftir athugasemdir. Það er vegna þess að ég er orðinn leiður á því hvað fólki hættir annarsvegar til að svara án þess að svara, hinsvegar oftúlka allt sem á undan er sagt. Einhverju sinni varði ég t.a.m. Nietzsche fyrir manni sem kallaði hann nasista. Sá svaraði um hæl að ég hefði rangt fyrir mér. Það voru nú haldbær rök.

Núna síðast mælti ég gegn sálgreiningu. Skyndilega er ég hlynntur ónauðsynlegri geðlyfjagjöf, einkum til barna, og orðinn forhertur og heilaþveginn krossfari gegn upplýsingunni í krafti sálfræðimenntunar minnar við Háskóla Íslands. Aukinheldur hef ég ekkert lesið mér til um Freud eða verk hans sjálfs. Allt er þetta rangt.

Ég afréð að svara ekki þessum rangfærslum. Öðru nær er ég hættur að skilja eftir athugasemdir á Vantrú, þar sem hinn almenni lesandi er of ragur til að birta skoðanir sínar undir eigin nafni og hættir til textaoftúlkunar á einföldum fullyrðingum, í stað þess að svara efnis- og málefnalega.

Fjölmiðlar á fyrsta apríl

Réttmætt er gysið, hefðin kringum þennan dag er fáránleg. Og fyrst fjölmiðlunum finnst ekkert tiltökumál að ljúga að lesendum sínum fyrir ekki merkilegri sakir, guð einn má þá vita hversu reiðubúnir þeir eru að ljúga ef eitthvað raunverulega er í húfi.

Uppfært kl. 00:06
Það sem hér fer eftir er skrifað aðeins örfáum mínútum áður en viðkomandi aðilar játuðu á sig grínið. Þá hafði ég verið sannfærður um sanfærdighed gabbsins í um sex tíma. Í fyrstu grunaði mig að um grín væri að ræða, en vegna þess mér finnst ekki fyndið að grínast með svona þá tók ég smámsaman að trúa á grínið. Mest sannfærandi aprílgabb sem ég man eftir, þótt langsótt væri. Minni þó á það sem ég sagði um fjölmiðla og fyrsta apríl hér fyrir ofan.

Talandi um fjölmiðla, þá brá mér í morgun þegar ég sá þetta. Deila má um Vantrú (pointið, ikke?), en ég er ekki svo viss um að kirkjan hafi úr neinu að moða hérna. Í grófustu yfirlýsingu sem ég hef séð á Vantrú var tiltekinn prestur í einhverjum óháðum söfnuði kallaður geðsjúklingur, í kjölfarið á reiðilestri téðs prests, sem innihélt ýmislegar hótanir og hvadfornoget, undir rós og ekki.

Í sjálfu sér skiptir þetta ekki máli. Það sem skiptir máli er það, og vonandi eru ekki of margir mér ósammála, að umræða er alltaf skárri en engin umræða. Hvort sem menn trúa því að hægt sé að rökræða trúmál eða ekki, verður umræðan þá ekki óhjákvæmilega þess valdandi að fólk geri upp hug sinn, og er það ekki í eðli sínu gott? Umræðan á Vantrú hefur altént opnað mér margar dyr beggja vegna umræðunnar og ég er sannfærður um að ég hafi lært mikið af henni. Flestir sem þekkja til Vantrúar vita þó hvar þeir standa og eru tilbúnir að rökræða afstöðu sína. Það er meira en hægt er að segja um flest annað. Umræðan opnar dyr gagnrýninnar hugsunar. Þeim dyrum hefur nú verið lokað.

Vídalín fer í messu

Vaknaði snemma (lesist fyrr en venjulega) og skrapp upp í Vídalínskirkju að hlýða á Vídalínsmessu Hildigunnar. Tónlistin var alveg frábær og einsöngvararnir tveir, Hallveig og Ólafur (systkini Hildigunnar?) voru bæði afar sterk. Gaman líka hvað þau lifðu sig inn í flutningin, hélt að Ólafur myndi hlaupa með kirkjubekkjunum af kátínu í Orði föðurins. Svo var heilsað upp á tónskáldið, nema hvað. Nú hefur hún enga afsökun til að heilsa ekki upp á mig næst þegar hún sér mig í IKEA, eða á bókasafninu, þar sem horfur eru á að ég starfi í sumar.

Það er alltaf dálítið vandræðalegt fyrir mig að fara í kirkju. Þar sem ég er ótrúaður vil ég ekki taka þátt í hefðunum (þeir heita víst hræsnarar í Biblíunni, sem það gera) og tók því ekki þátt í altarisgöngunni (er það ekki annars katólskur siður?). Finnst alltaf hálfpartinn eins og ég sé einhvurs konar glæpamaður að sitja aðgerðalaus meðan aðrir biðja, signa sig og borða oblátur. Kannski er það bara ég.

Veðrið er fallegt en eilítið napurt. Spurning hvort maður reyni að gera eitthvað meira úr deginum eða norpi framan við tölvuna. Mér skilst ég hafi orðið á eftir með grein á Múrinn. Ég sem hélt ég ætti ekki að skila fyrr en um mánaðamótin. Svo bíða víst fleiri greinar eftir fæðingu sinni.

Ritsmíðin enn og aftur

Finnst mér fyndið að hafa elt heimildir gegnum tæplega tvöhundruð ára sögu aðeins til rekast á botnlanga við endann og hafa þurft að þræða mig alla leið til baka og halda áfram í aðra átt? Nei, ekkert átakanlega.

Nú er ég kominn að Erasmusi frá Rotterdam (1469-1517). Ef Lúther má ekki leiða útfrá honum er ég illa svikinn. Lúther er hinn endi gangnanna. Þegar hann er kominn get ég farið að vinna að niðurstöðu ritgerðarinnar. Þá skulum við sjá hversu mjög kirkjan breytti áherslum sínum gegnum tíðina. Þá þarf ég að lesa rúmlega þrjátíu (leiðinlegar) blaðsíður eftir sjálfan mig. Niðurstöðurnar auka svo á blaðsíðufjöldann. Svo inngangurinn. Svo viðauki I um Jesú. Svo viðauki II um austur-vestur skismuna. Horfi ég skyndilega upp á rúmar fjörutíu blaðsíður? Ja, svei mér þá, gott ef ekki.

William frá Ocham var annars maðurinn. Tilvitnun dagsins er í hann: „Frustra fit per plura quod potest fiere per pauciora.“ Það þýðist þannig: Tilgangslaust er að varpa fram mörgum staðhæfingum þar sem fáar duga. Það er oft einfaldað þannig: Einfaldasta svarið er alltaf lausnin. Það er ekki að spyrja að nómínalistískum töffaraskap hjá honum Ockham, vini mínum. Onei.

Uppfært klukkan 22:50
Ég sló síðasta punktinn aftan við meginmálið klukkan sjö, prentaði út, lagaði til, lauk verkinu klukkan kortér yfir átta. 28 blaðsíðna meginmál. Endirinn dálítið snubbóttur en við sjáum hvað setur. Morgundagurinn fer í að komast að niðurstöðu (til þess þarf ég að lesa verkið nokkrum sinnum yfir með glósubók við höndina), skeyta þeim aftanvið, semja lokaorð og loks inngang. Ég hef ákveðið að sleppa viðaukunum. Líklegast horfi ég þá upp á að skrifa 6 blaðsíður til viðbótar og ekkert meira en það. Lokaviðmið er því 38 blaðsíður að forsíðu og heimildaskrá meðtöldum. Áreiðanlega eru lesendur mínir nokkurs bættari að vita það.

Að hinstu um það mál

Ef við gefum okkur að öll trúarbrögð séu í eðli sínu röng fáum við þá niðurstöðu að Islam sé rangt. Ef við gefum okkur það ennfremur að miðstýrðar trúarstofnanir gefi sanngjarna mynd af trúarbrögðunum sem þær kenna sig við, og að leiðtogar miðstýrðra trúarstofnana séu ótvíræð málpípa allra meðlima, fáum við ekki aðeins þá niðurstöðu að tjáningarfrelsi sé illa séð í Islam, heldur það einnig að múslimar séu upp til hópa ofstækisfullir og hati vesturveldin. Ef við göngum enn lengra og gefum okkur að tjáningarfrelsinu fylgi engar haftir, að hver og einn hafi frelsi til að segja skoðun sína, burtséð frá því hvort hún er grundvölluð á uppruna, menningu, trú eða litarhafti fólks, þá fáum við þá niðurstöðu að Jyllandsposten hafi ekki aðeins verið í fullum rétti þegar þau birtu myndir af Múhammeð, meðal annars í gervi hryðjuverkamanns, heldur hafi það beinlínis verið skylda þeirra vegna þess að Islam er rangt, heftandi og ofstækishvetjandi. Ég vona að þessar forsendur séu ekki öllum jafn gefnar.

Ég veit til þess að hér á landi starfar hópur vantrúaðra með það að markmiði að útrýma trúarbrögðum með upplýsingu, en ekki veit ég til þess að sá hópur hafi nokkru sinni farið af þeirri leið sinni. Þeir gefa sér að öll trúarbrögð séu í eðli sínu röng. Það geri ég einnig, ólíkt þeim læt ég mér hinsvegar í léttu rúmi liggja hverju aðrir vilja trúa. Þó er ég þeirrar skoðunar, að skuli einhver leið valin til að ráðast gegn trúnni, þá sé það upplýsingarleiðin, ekki blindhögg og svívirðingar. Því hef ég ekkert út á Vantrú að setja. Nema mér einfaldlega skjátlist um þá. En það heldur því vonandi enginn fram, að myndbirting Jyllandsposten hafi verið leið upplýsingarinnar.

Mjög margir virðast taka þann pól í hæðina, að fyrst allt leiki á reiðiskjálfi í þeim múslimaríkjum þar sem klerkarnir hafa hvað mest völd, þá hljóti hinn almenni borgari að vera líkt ofstækisfullur og málpípa sín. Þeir hinir sömu sæu ef til vill ekki samlíkinguna, ef væru þeir spurðir út í Hitlersþýskaland, hvort hinn almenni borgari hafi verið líkt geðveikur og kanslari sinn, og þeir segðu nei. Og auðvitað segðu þeir nei. Lengi var það almennt talið að gervöll þýska þjóðarsálin væri gegnumsýrð og hamstola af hatri sínu á gyðingum, en það er ekki rétt. Máttur valdsins eru tvö lykilorð í þessu sambandi. Ég held ég þurfi ekki að útskýra það neitt frekar, en vísa í fyrri umfjöllun mína um rannsókn Stanleys Milgrams á hlýðni við yfirvald. Honum tókst að láta 65% þátttakenda í rannsókn sinni drepa mann með banvænu raflosti. Það voru almennir borgarar. Það voru Bandaríkjamenn. Það þurfti aðeins mann með bindi í hvítum slopp. Settu það í hrærivél ásamt helvíti, heilagleik og allri þinni félagsmótun og sjáðu hvað þú færð.

Enn aðrir, og jafnvel hinir sömu, vilja vernda rétt sinn til að svívirða fólk óforvarendis á þjóðernis- og menningargrundvelli. Enn aðrir ganga svo langt að nota heilu kaffihúsaferðirnar til að iðka þann rétt sinn, sem þó getur verið refsiverður gagnvart lögum. Gagnkvæm virðing er nokkuð sem ég hef tileinkað mér og gott væri ef fleiri gerðu. Gagnkvæm virðing fyrir ólíkri menningu og ólíkum trúarbrögðum, skipti þau okkur þá nokkru máli, er það sem til þarf. Það sem er óþarfi, aftur á móti, er að svívirða náungann til þess eins að svívirða hann, kalla það svo iðkun á tjáningarfrelsi, bæta því jafnvel við að við erum nú einu sinni í stríði við hann í nafni frelsisins, eða erum við kannski á móti frelsi? Það þarf kannski að segja sumum það tvisvar, að svívirðing sem beinist gegn menningarheimi múslima kemur öllum aðilum sérstaklega illa einmitt núna, vegna þess að það er stríð í gangi milli Bandaríkjanna og vissra hópa múslima. Það er að segja, það kemur öllum illa, nema Bandaríkjaforseta og klerkunum. Allt þetta mál hefur aðeins reynst vera olía á ófriðarbálið sem þegar var ríkjandi.

Burtséð frá því hvort nokkur hafi raunverulega móðgast, hvort þetta sé tylliástæða eða ekki, þá er gagnkvæm virðing það sem til þarf. Gagnkvæm virðing og þá fyrst er hið rétta stríð unnið.

Úr böndunum

Myndbirtingarmálið hefur undið upp á sig, eins og við var að búast. Ég mun ekki samþykkja neinar réttlætingar, sama í hvora áttina þær beinast. Nákvæmlega hverjum andskotanum bjuggust þið eiginlega við? Sama hvernig á það er litið var guðlast Jyllandsposten fullkominn óþarfi. Það sama gildir um sendiráðsbrennur. Og auðvitað hafa klerkarnir öll tögl og hagldir í sínum heimalöndum, falskt sms um að Danir hafi ætlað að safnast saman og brenna Kóraninn, almenn múgsefjun og fjandsamlegur áróður. Ekkert af þessu þarf að koma á óvart. Og ekkert af þessu þurfti að gerast. Andskotinn hafi það.

Allt og ekkert

Tarja Halonen vann finnsku forsetakosningarnar. Mér skilst hún hafi verið besti kosturinn. Í það minnsta betri en eini vinur Framsóknarflokksins á Norðurlöndunum, Matti Vanhanen.
Ég hef átt nokkuð erfitt með mig síðustu daga, næ ekki að hugsa eina einustu hugsun nema komast að niðurstöðu sem ég svo hafna skömmu síðar. Finnst eins og ekkert sem ég geri eða reyni að gera sé að stefna neitt. Veit ekki nema hálfpartinn hvað amar að mér, segi það ekki hér, eins freistandi og það nú annars er.
Get skilið báðar hliðar í Múhammadsmyndbirtingarmálinu stóra. Og mér er svosum alveg sama hver niðurstaðan verður. Hinsvegar finnst mér, óháð öllu öðru, að menn eigi að vera reiðubúnir að taka afleiðingunum takist þeim að móðga einhvern. Það er ofurmikil einföldun að ætla að fórna höndum og ásaka hinn um tjáningarfasisma ef þú móðgar hann. Menn gleyma því gjarnan að trú er enn grundvöllur ýmissa siðmenninga, hvaða augum sem menn vilja svo líta trúarbrögðin.